Misjafnir hlutir, eiga frábært mót, umbúðir á hausnum og sitjandi Trump

Orðlof og annað

Skipta um hest í miðri á

[Merkir] breyta afstöðu sinni til einhvers eftir að það er hafið (án þess að ástæða sé til) […]

Orðatiltækið er kunnugt úr nútímamáli. Líkingin vísar til þess  þegar farið er ríðandi yfir vatnsfall en eftir að lagt er af stað er óskynsamlegt að skipta um reiðskjóta. [e. change hroses in midstream].

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Liðin tólf sem leika í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max- deildinni, ætla sér misjafna hluti í lengsta sumarglugganum …

Frétt blaðsíðu 44 í Morgunblaðinu 29.1.2019.     

Athugasemd: Ekki er þetta gott orðalag. Ætla þau sér eitthvað misjafnt eða er stefna félaganna ólík? Félögin ætla sér ekki „misjafna hluti“, þetta er bara hnoð, illskiljanlegt í þokkabót. Ætlar Valur sér misjafnari hluti en Fylkir? Og hvaða hluti er verið að tala um, varla leikmenn?

Sé hugsun blaðamannsins sú að félögin hafi ólíka stefnu í leikmannakaupum þá ætti hann að segja það á einfaldan hátt. Upphafinn texti er oftast rembingur, slæmur og illskiljanlegur.

Svona er málsgreinin í heild sinni:

Liðin tólf sem leika í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max- deildinni, ætla sér misjafna hluti í lengsta sumarglugganum til þessa en þau eiga það þó öll sameiginlegt að ef eitthvað spennandi dettur inn á borð til þeirra, verði það skoðað af fullri alvöru.

Þetta er langloka, flókin og illskiljanleg. Hvað er til dæmis „sumargluggi“ og hvers vegna er hann langur? Í kirkjum þekkjast til dæmis langir gluggar. Er algengt að eitthvað „detti inn á borð“ fótboltafélaga? Hvaða borð? Falla leikmenn á borðið?

Staðreyndin er þessi, í júlí mega leikmenn skipta um félag, nái þeir og félögin samningi um slíkt. Þetta hefur verið kallaður „gluggi“, „félagaskiptagluggi“ og annað álíka. Ástæðan er sú að tímabil félagaskipta hefur hingað til verið frekar stutt. Látum vera að félagaskiptin séu kölluð „gluggi“ en það gengur ekki nema skýring fylgi. Veit ekki hvort til er „vetrargluggi“.

Sumir íþróttablaðamenn eru þekktir fyrir yfirburðaþekkingu á íþróttum en eru því miður lakari í skrifum og íslensku máli. 

Tillaga: Liðin í úrvalsdeild karla í fótbolta hafa ekki sömu stefnu um leikmannakaup í „sumarglugganum“ …

2.

Eftirtektarsamir nágrannar vöktu íbúa í brennandi húsi.

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Ekki er rangt að orða þetta svona. Hins vegar eru til fleiri orð sem nota má í staðinn fyrir langa, samsetta orðið eftirtektarsamur. Eitt af þeim er lýsingarorðið vökull en samkvæmt orðabókin merkir bókstaflega þann sem vakir lengi, þann sem er athugull eða áhugasamur.

Munum að notkun þessara orða veltur á samhenginu. Í þessu tilviki er líka hægt að nota orðið athugull

Tillaga: Vökulir nágrannar vöktu íbúa í brennandi húsi.

3.

„Fjölskylda greiddi 1,3 milljónir fyrir íbúð sem reyndist ekki vera til staðar.

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Óvanir skrifarar þekkjast úr. Þeir skrifa „um að ræða“, „vera til staðar“ og annað álíka sem gerir lítið fyrir frásögnina en eyðileggur stílinn.

Þarna er síðasta orðinu algjörlega ofaukið.

Tillaga: Fjölskylda greiddi 1,3 milljónir fyrir íbúð sem reyndist ekki vera til.

4.

„Knatt­spyrnu­kon­an Meg­an Rap­in­oe hef­ur held­ur bet­ur verið í umræðunni þessa dag­anna en hún er að eiga frá­bært heims­meist­ara­mót fyr­ir Banda­rík­in í Frakklandi þessa dag­anna.

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Málsgreinin er ómerkilegt hnoð. Leirburðurinn „hún er að eiga“ er furðuleg framlenging á einföldu orðalagi, hún á. Í þessu tilviki stendur fóboltakonan sig afburða vel og því bara óskiljanleg fíkn í nafnorð að segja að hún „eigi gott mót“.

Svona leirskrif eru ótrúlega algeng og bendir til að blaðamaðurinn hafi ekki úr miklum orðaforða að moða. Eru engir á fjölmiðlum sem segja nýliðunum til eða skiptir málfar engu máli?

Síðar í fréttinni segir.

… en ríkj­andi heims­meist­ar­arn­ir eru þar með komn­ir í undanúr­slit.

Lið sem er heimsmeistari er einfaldlega heimsmeistari, óþarfi að taka það fram að það sé ríkjandi. Hverju bætir orðið „ríkjandi“ við frásögnina? Engu.

Tillaga: Bandaríska knatt­spyrnu­kon­an Meg­an Rap­in­oe hef­ur held­ur bet­ur verið í umræðunni þessa dag­anna. Hún hefur staðið sig frá­bærlega á heims­meist­ara­mótinu í Frakklandi.

5.

„Jón Guðni birti myndir af því á Facebook-síðu sína þar sem má sjá hann með umbúðir á hausnum eftir viðskipti við Hörð.

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Þetta er illa skrifað, hugsunarlaust. Hafi blaðamaðurinn lesið fréttina yfir bendir flest til að hann sé slakur í skrifum.

myndir af því … þar sem má sjá“.

Ekkert samhengi er í þessu.

Var maðurinn með umbúðir ofan á hausnum eða var bundið um höfuð hans?

Er kappleikur tveggja liða viðskipti eða í viðureign?

Margir blaðamenn hafa hvorki nægan orðaforða né skilning á málinu til að gera skrifað eðlilegan texta. Þar að auki er fljótfærnin mikil. Afleiðingin er stórskemmd frétt.

Stuttu síðar var fréttinni breytt og orðalagið um „viðskiptin“ þurrkað úr. Hún byrjar núna svona:

Það fór fram Íslendingaslagur á dögunum en lið Krasnodar og CSKA Moskva áttust þá við í Austurríki.

Þetta er ljótt að sjá, endemis vitleysa.

Hvað er þetta „það“ sem fréttin byrjar á? Jú, persónufornafnið. Setningar sem byrja á „það“ flokkast oft sem leppur því hann er gjörsamlega merkingarsnauðurHann er algengur í barnamáli og í talmáli fullorðinna og er fátt út á það að setja. Í ritmáli er hann afar hvimleiður. Þar kallast persónufornafnið aukafrumlag sem flestir reyna að forðast. Afar þroskandi er að skrifa sig framhjá leppnum.

Tillaga: Jón Guðni birti myndir af sér með umbúðir um höfuðið eftir viðureignina við Hörð.

6.

„Sykurskatturinn er milli tannanna á hjá fólki.

Frétt kl. 12 í fréttum Bylgjunnar 30.6.2019.    

Athugasemd: Fréttamaðurinn á líklega við að mikil umræða sé um sykurskattinn. Hann skilur þó ekki orðasambandið að vera á milli tannanna. Það þýðir ekki umræða heldur er beinlínis verið að baktala þann sem fyrir verður. Sykurskatturinn er hér ekki baktalaður og þar af leiðandi á orðalagið ekki við.

Blaða- og fréttamenn freistast of oft til að nota málshætti, orðtök og orðatiltæki sem þeir skilja ekki. Sérstaklega á þetta við um ungt fólk sem hefur lítið stundað bóklestur og þar af leiðandi ekki byggt upp orðaforða eða ítarlegan skilning á málinu. Fyrir alla er öruggast er að skrifa einfalt mál, forðast orðtök og orðatiltæki.

Tillaga: Fólk ræðir mikið um sykurskattinn.

7.

„Donald Trump var í dag fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna sem fer til Norður-Kóreu.

Frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og einnig í kvöldfréttum sjónvarps 30.6.2019.   

Athugasemd: Samkvæmt þessi mun Trump hafa setið í hjólastól eða á þríhjóli (veðja á það síðarnefnda) og einhver ýtt honum yfir landamærin.

Nei, varla. Hér er verið að rugla með orðið „sitjandi“, rétt eins og bullað er með „ríkjandi“. Hið fyrrnefnda er stundum haft um kjörna ráðamenn, forseti er sagður „sitjandi“ jafnvel þó hann standi eða liggi út af. Hið síðarnefnda er tíðum misnotað í íþróttafréttum, heimsmeistarar eða landsmeistarar eru oft sagðir „ríkjandi“ sem er skiljanlega gagnslaus viðbót.

Sé Trump fyrsti bandaríski forsetinn sem fer yfir til Norður-Kóreu þarf ekkert að tíunda það frekar. Viðbótin „sitjandi“ bætir engu við skilning hlustandans. Öðru máli gildi ef Clinton eða Bush hefðu farið til Norður-Kóreu. Þá væri við hæfi að geta þess að þeir séu fyrrverandi forsetar, ef svo ólíklega vildi til að einhver vissi það ekki.

Tillaga: Donald Trump var í dag fyrsti bandaríski forsetinn sem fer til Norður-Kóreu.


Skemmdir framdar, atvik, atvik, atvik og aukning í mætingu

Orðlof og annað

Norsk örnefni á Íslandi

Herðubreið á Mývatnsöræfum er talið eitt fegursta fjall á Íslandi og var fjallið kjörið þjóðarfjall Íslendinga árið 2002, á alþjóðlegu ári fjallsins. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum 1682 m á hæð, og Herðubreið við Eldgjá, 812 m, sunnan Skuggafjallakvíslar og Ófærufoss í Skuggafjallagjá. 

Fjallið Herdabreida er einnig að finna við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem einna flestir landnámsmenn virðast hafa komið, og eru nokkur líkindi með fjöllunum þótt fjalladrottningin sé mun tignarlegri.

Norsk örnefni á Íslandi og torræð örnefni í Eyjafirði.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hann segir þó að sem betur fer hafi grafan í gær ekki framið neinar skemmdir á landsvæðinu heldur aðeins lagað hluta vegarins.

Frétt á frettabladid.is.      

Athugasemd: Hér er skrýtilega frá sagt. Til að lesendur átti sig á þessu er tilvalið að setja skófla í stað gröfu. Þá yrði málsgreinin svona:

Hann segir þó að sem betur fer hafi skóflan í gær ekki framið neinar skemmdir á landsvæðinu heldur aðeins lagað hluta vegarins.

Grafa skemmir ekkert frekar en skófla, hrífa, hamar eða önnur verkfæri. Veldur hver á heldur, segir málshátturinn. Fólk stjórnar verkfærum og getur byggt upp eða valdið skemmdum.

Svo er það hitt, að „fremja skemmdir“. Sagnir eru á stöðugu undanhaldi í fréttum og flóttann rekur nefnifallsdraugurinn. Af hverju má ekki segja að stjórnandi gröfunnar hafi ekkert skemmt? Er það ekki einfaldara, skiljanlegra og rökréttara?

Tillaga: Hann segir þó að sem betur fer hafi stjórnandi gröfunnar ekki skemmt neitt í gær heldur lagað hluta vegarins.

2.

„Kallað var á björg­un­ar­sveit­ir og sjúkra­flutn­inga­menn um hálf­sjöleytið í kvöld vegna slasaðs ein­stak­lings í Finnafirði.

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Einstaklingurinn sem slasaðist er án efa maður. Karlar og konur eru menn. Í fréttinni kemur fram að sá slasaði er ferðamaður. Líklega kynlaus …

Í fréttinni segir líka:

Að sögn Davíðs Más Bjarna­son­ar hjá Slysa­varn­ar­fé­lag­inu Lands­björg eru viðbragðsaðilar ný­komn­ir á vett­vang en bera þurfti hinn slasaða ein­hverja vega­lengd að sjúkra­bíl.

Enginn veit hvað viðbragðsaðili er. Samkvæmt fréttinni eru það ekki björgunarsveitarmenn. Hugsanlega slökkviliðið, fólk af næstu bæjum, vegfarendur. Af hverju eru blaðamenn ekki nákvæmari en þetta í skrifum sínum?

Þessi frammistaða blaðamannsins er eins og að kalla seljendur fíkniefna söluaðila, sem er án efa réttnefni. Eða innflytjendur umboðsaðila. Eða akandi, gangandi, hjólandi, hlaupandi skokkandi fólk umferðaraðila. Þá getur frétt verið svona:

Söluaðilar umboðsaðila falbuðu vöru sína meðal umferðaraðila.

Þetta heitir að vera nákvæmur fréttaaðili fjölmiðlaaðilarekstri. Eða hitt þó heldur.

Loks verður að nefna að sá slasaði var borinn „einhverja“ vegalengd. Má vera að það sé ekki rangt en skýrara hefði verið að segja að bera hafi þurft manninn nokkra vegalengd.

Tillaga: Kallað var á björg­un­ar­sveit­ir og sjúkra­flutn­inga­menn um hálf­sjöleytið í kvöld vegna slasaðs manns í Finnafirði.

3.

„Skráðum atvikum á Landspítala hefur fjölgað um 7,6% á milli ára á sama tíma og alvarlegum atvikum hefur fækkað úr sjö atvikum í þrjú.

Frétt blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 27.6.2019.       

Athugasemd: Hér er allt í atvikum, þrjú slík í einni málsgrein sem er tveimur of mikið. Þetta kallast tugga, tuð, jórtur eða nástaða og er óþægilega algeng hjá blaðamönnum sem og öðru textagerðarfólki. 

Nástaða er ljót, eyðileggur stíl og skemmir fyrir lesendum. Vandinn er sá að margir skrifarar gera sér ekki grein fyrir nástöðu en þeir sem það gera forðast hana eins og heitan eldinn. Lausnin er að skrifa sig framhjá henni og það er holl aðferð og bætir skrifin margfalt.

Svo er það hitt. Atvik er nafnorð í hvorugkyni og merkir atburður, eitthvað sem gerist. Í ofangreindri tilvitnun er atvik notað sem neikvæður atburður sem er rangt: „Skráðum atvikum …“ Merkingin er mistök, óhöpp eða annað sem veldur skaða og kemur orðalagið frá Landspítalanum.

Þetta er svona álíka eins og að kalla umferðarslys atvik. Tilbúið dæmi:

Umferðaratvik varð á Selfossi þegar ekið var á gangandi mann og hann slasaðist.

Ferðaatvik varð í Esju er maður snéri sig á fæti.

Þetta gengur ekki. Við getum ekki leyft okkur að breyta tungumálinu einhliða. Í svona umræðu verður að gera greinarmun á slæmum eða neikvæðum atvikum frá öllum öðrum atvikum sem vissulega geta verið bæði hlutlaus og jafnvel ánægjuleg.

Á malid.is segir:

atvik nafnorð hvorugkyn, eitthvað sem gerist, atburður

atvikið átti sér stað um miðja nótt

þau rifjuðu upp mörg spaugileg atvik úr ferðalaginu

<sjúklingnum líður> eftir atvikum

honum líður vel miðað eðli veikindanna

Atvik er gott og gilt orð en eins og fram kemur hér fyrir ofan þarf að skýra atvikið á einhvern hátt. Það má ekki merkja eitthvað slæmt eins og spítalinn gefur sér.

Tillaga: Neikvæðum atvikum skráðum á Landspítala hefur fjölgað um 7,6% á milli ára. Um leið hefur þeim alvarlegu fækkað úr sjö í þrjú.

3.

„Það var ákveðið að loka vega­slóðanum að Sauðleysu­vatni í friðland­inu að Fjalla­baki.

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Slóði er nafnorð í karlkyni og vegaslóði einnig og er hvort tveggja haft um lélega vegi eða vegatroðninga. Orðinu má ekki rugla saman við kvenkynsnafnorðið slóð og merkir spor eða för.

Ég hefði hins vegar orðað þetta dálítið á annan veg, sjá tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Ákveðið hefur verið að loka vega­slóðanum að Sauðleysu­vatni í friðlandinu að Fjalla­baki.

4.

„… aukning er í mætingu á völlinn.

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Sagt er að áhorfendum hafi fjölgað á fótboltaleikjum og er það vel enda er íþróttin heillandi. Hins vegar er það tóm della að segja að „aukning hafi orðið í mætingu á völlinn“. 

Hér hefur nafnorðasýkin heltekið blaðamanninn sem kann ekki að koma orðum að svo sjálfsagðri staðreynd að áhorfendur hafi fjölgað. Hvernig skyldi hann hafa orðað það ef áhorfendum hafi fækkað? … minnkun er í mætingu á völlinn“?

Margt fleira er gagnrýnisvert við fréttina. Í henni er meiri áhersla á orð en efni. Svona byrjar fréttin:

Pepsi Max-deild karla er að ná fyrri styrk, eftir mögur ár í efstu deild karla, er varðar gæði innan vallar og mætingu, er deildin aftur í sókn. 

Í tilvitnuninni er fullyrt að Pepsi Max-deild karla sé í efstu deild karla sem er bull því efsta deild hefur fyrrnefnda nafnið. Og svo þetta: „… er varðar gæði innan vallar og mætingu“. Þetta er bara orðahnoð, leirburður.

Stundum er það ekki gott fyrir félögin og leikmenn sem hefur verið farið silkihönskum í mörg ár …

Hvað er það „sem hefur verið farið silkihönskum“ í mörg ár. Þetta er ófullgerð málsgrein, gjörsamlega óskiljanleg því blaðamaðurinn kastar til höndunum og enginn les yfir.

Það er að hjálpa Pepsi Max-deild karla mikið hversu stór nöfn spila nú í deildinni …

Sem kunnugt er leikur fólk fótbolta, ekki nöfn. Þetta er afar kjánalegt orðalag en átt er við að þekktir landsliðsmenn séu komnir frá útlöndum og leiki nú með íslenskum liðum. Af hverju segir blaðamaðurinn: „Það er að hjálpa ...“ en ekki það hjálpar.

… óvænt úrslit úti um allt. 

Blaðamaðurinn er ekki barn að segja frá fótboltaleikjum heldur fullorðinn maður. Þá kröfu verður að gera til blaðamanna að þeir kunni að orða hugsun sína. Hann gæti sagt að oft hafi útslit leikja verið óvænt.

Ótrúlegar endurkomur hafa sést og þegar fólk mætir á völlinn er erfitt að lesa í úrslitin áður en flautað er til leiks.

Hvað eru endurkomur? Hvað eru endurkomur sem sjást? Eru til endurkomur sem ekki sjást? Hafa úrslit leikja nokkurn tímann verið fyrirsjáanleg? 

Svona skrif eru tóm endaleysa og þeim fylgir að íslenskt mál, stíll og framsetning skipti ekki máli. Staðreyndin er samt sú að skemmdar fréttir hafa áhrif á lesendur, sérstaklega þá yngri því boðskapurinn er sá að allt sé leyfilegt. 

Hvernig væri nú fótboltinn ef ekki væru reglur sem fara þarf eftir?

Tillaga: … áhorfendum á fótboltaleikjum fjölgar.


Púkk, samkomulag við sjálfan sig og brot reisna

Orðlof og annað

Tunga um tönn eða höfuð

Einhverjum vefst tunga um tönn, einhverjum verður ógreitt um svör, verður svarafátt […] Orðatiltækið er kunnugt frá fyrri hluta 19. aldar: 

Honum má sjálfum ekki vefjast tuga um tennur. 

Sennilega er að fyrirmyndin sé hið forna orðatiltæki einhverjum vefst tunga um höfuð, það er tungan (lausmælgi) verður einhverjum að bana.

Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, blaðsíða 661 (hér örlítið breytt).

Mannsins tunga verður honum oft að falli (Síraksbók 5, 15, Gamla testamentið)) […] 

Svipaðan boðskap er víða að finna í fornu máli, til dæmis Hávamálum: tunga er höfuð bani, sbr. Einnig Njáls sögu: 

gæti hann, að honum vefjist eigi tungan um höfuð 

í merkingunni verði honum að bana.

Tunga er hér tákn þess sem talað er, orða eða ummæla manns, og hugsunin er sú að orð manna geti orði þeim að falli eða bana. Ekki er líklegt að orðskviðurinn eigi rætur sínar í Síraksbók, gegn því mæla fornmálsdæmin, en svipaða hugsun er að finna í Matteusarguðspjalli: 

Af orðum þínum skaltu réttlátur verða, og af orðum þínum muntu meiddur verða 

[…] sbr. einnig: 

Gæt þú vandlega tungu þinnar því að það er virkta ráð fyrir því að tunga þín má sæma þig og tunga þín má dæma þig.

Rætur málsins, Jón G. Friðjónsson, blaðsíðu 325 (hér örlítið breytt).

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Finnur hefur vissulega gert mistök eins og ungra varnarmanna er von og vísa en …

Frétt á á blaðsíðu 10 í „sporti“ Fréttablaðsins 25.6.2019.      

Athugasemd: Með því að segja einhver geri eins og hans er eða var von og vísa er átt við að aðrir eigi vísa von frá honum. Orðalagið er jákvætt, þvert á merkinguna í fréttinni. 

Í bókinni Mergur málsins segir orðtakið:

… þess er að vænta að einhver geri eitthvað (jákvætt) að venju. […] Vísa virðist merkja ´venja´, samanber svo sem vísa og vani hefur verið til […]

Engin vonar að ungir varnarmenn geri mistök en þeir eiga það hins vegar til ekki síður en aðrir leikmenn. Hér er von lykilorðið.

Um annan leikmann segir í sömu grein:

Bjarki Steinn var einn mest ógnandi leikmaður Skagaliðsins …

Hér hefði verið einfaldara að segja

Bjarki Steinn ógnaði mótherjum sínum meir en aðrir leikmenn Skagaliðsins …

Betur færi hins vegar á því að segja að leikmaðurinn hafi sókndjarfur og erfður fyrir andstæðinga liðsins en að hann hafi verið ógnandi. Hér er orðið ekki gegnsætt. Ég man til dæmis eftir leikmanni sem var svo mikill tuddi að sumir fengu margir sár og marbletti eftir fótboltaleik gegn honum. Er ekki slíkur leikamaður ógnandi?

Um annan leikmann segir í grein Fréttablaðsins að hann hafi verið „rulluspilari“. Skilur einhver það orð? Ennfremur segir svo:

Hann hefur svo brotið sér leið inn í byrjunarliðið …

Þetta er ekki rangt orðalag en óvenjulegt. Engu líkar en hann hafi komist í liðið á ólöglegan hátt eða með frekju. Skárra væri að segja að hann hafi komist í byrjunarliðið vegna góðrar frammistöðu sinnar.

Um annan segir: 

Þá hefur hann lagt þrjú mörk í púkkið hjá Fylkisliðinu“

Um nafnorðið púkk segir á malid.is:

púkk h. (19. öld) ‘sérstakt spil’. To. úr d. puk […]

Sem sagt, tökuorð úr dönsku en hefur lifað hér frá á 19. öld þrátt fyrir að fáir þekki spilið núorðið. Hefði ekki verið einfaldara að orða þetta á þann veg að leikmaðurinn hafi skorað þrjú mörk fyrir liði. Punktur.

Tillaga: Finnur hefur vissulega gert mistök sem ekki er óalgengt hjá ungum varnarmönnum, en …

2.

„„Ég gerði sam­komu­lag við sjálf­an mig; ég ætla að tolla í tíu tíma. Ég ætla ekki að gef­ast upp.“

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Eðli máls vegna er ekki hægt „að gera samkomulag við sjálfan sig“. Minnst tvo þarf til að gera samkomulag. Auvðitað gerðist ekkert annað en að maðurinn ákvað að gera þetta. Einfaldara er það nú ekki.

Svona kjánatal er líkt því sem oft sést í fjölmiðlum: „að standa með sjálfum sér“. Það er gjörsamlega útilokað vegna þess að hver maður stendur einn, enginn einn er tveir. 

Svo er það annað mál að flestir geta auðveldlega farið hjá sér ...

Tillaga: „Ég ákvað að tolla í tíu tíma. Ég ætla ekki að gef­ast upp.“

3.

„Alls eiga 21 borg á Indlandi það á hættu að missa allt grunnvatn fyrir 2020 …

Frétt á dv.is.       

Athugasemd: Þetta er ábyggilega fljótfærnisvilla en mjög slæmt að láta hana birtast. 

Einn í tölunni tuttugu og einn er auðsjáanlega eintöluorð og því á tuttugu og ein borg í vanda. Hærri tala en einn er í fleirtölu. Væru borgirnar tuttugu og tvær eða fleiri eiga (ættu) þær í sama vanda.

Fjölmiðlar mega ekki birta villur. Til þess eru villuleitarforrit í tölvum blaðamanna. Þær eru þó heimskar sem þýðir að blaðmenn verða að lesa fréttir sína yfir fyrir birtingu. Tölvuforrit eru samt varsöm, engin gerði athugasemd gera þótt þarna stæði „Tuttugu og tvær borg …“ eða álíka rétt skrifað bull.

Betur fer á því að skrifa tölur með bókstöfum en tölustöfum, að minnsta kosti lágar tölur.

Stafsetninga- og málfarsvillur í fjölmiðlum er grafalvarlegt mál, svipað og skemmdur matur. Hvort tveggja hefur afar slæmar afleiðingar.

Tillaga: Alls á tuttugu og ein borg á Indlandi það á hættu að missa allt grunnvatn fyrir árið 2020 …

4.

„… fyrir meiriháttar skattalagabrot vegna reksturs ferðaskrifstofufyrirtækisins Ævintýrareisna.

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Hér er nafnið Ævintýrareisur rangt fallbeygt, raunar vitlaust skrifað því „reisna“ er ekki til í neinu eignarfalli nafnorðsins.

Reisn er nafnorð í kvenkyni og er eintöluorð, er ekki til í fleirtölu.

Orðið reisur er fallbeygt svona í fleirtölu: reisur, reisur, reisum, reisa. Orðið er tökuorð úr dönsku, sama og rejse, ferðast. Ekki verra fyrir það en er núorðið afar lítið notað í íslensku.

Sama beygingarvilla er í frétt hjá mbl.is.  Ég fletti því upp dómnum hjá Héraðsdómi Reykjaness og komst að því að hin ranga fallbeyging er ekki í honum. 

Þegar ég er í vafa um fallbeygingu orða leita ég á malid.is og þar fæst alltaf svar á vef sem nefnist Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. Inn á þennan vef ættu blaðamenn að fara oft á dag séu þeir í vafa um beygingu. Lykilspurningin er þó þessi: Hvað eiga þeir að gera sem aldrei eru í vafa um fall nafnorða en skrifa þau samt vitlaust?

Tillaga: … fyrir meiriháttar skattalagabrot vegna reksturs ferðaskrifstofufyrirtækisins Ævintýrareisa.


Verslun lokar, valkostur, og er að hafa það notalegt

Orðlof og annað

Láta mikið með hann

Skipting fólks í „kynþætti“ eftir útliti er löngu dauð í vísindunum en ýmsir halda þó meintum mun á lofti. Þó er vafasamt að segja að þeir „láti mikið með hann“.

láta mikið með e-n (manneskju) er að hafa dálæti á honum. Þeir gera mikið úr honum, þ.e.: telja hann mikilvægan eða ýkja hann.

Málið, blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 25.6.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Þeir voru bara ósköp skömm­ustu­leg­ir og leiðir eitthvað.“

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Hvað merki að vera „leiður eitthvað“? Þekkir einhver þetta orðalag? Nei, auðvitað ekki. „Eitthvað“ í tilvitnuðum orðum er einhvers konar hikorð eða orð sem sumir skjóta inn í frásögn sína þegar þeim finnst hún ekki vera nógu orðmörg.

Enginn segir nýliðum í blaðamennsku til. Þeir halda að þeir eigi að endurrita nákvæmlega það sem viðmælandinn segir. Í prentmiðlum eða vefmiðlum á ekki að gera það. Verkefni blaðamanna er að koma hugsun viðmælenda til skila, ekki dreifa vitleysum eða málvillum sem upp úr þeim hrökkva.

Tillaga: „Þeir voru bara ósköp skömm­ustu­leg­ir og leiðir.“

2.

„Tölvutek lokar eftir 12 ár í rekstri.

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Hverju skyldi verslunin Tölvutek hafa lokað? Nei, verslanir geta hvorki opnað né lokað. Stórmunur er á því að verslun loki og verslun sé lokað.

Á vefnum mbl.is er þessi fyrirsögn:

Ölfusá opnaði í morg­un.

Þarna eru blaðamenn við sama heygarðshornið og á Vísi. Fljótið sem kennt er við Ölfus opnar ekki eitt eða neitt enda hafur náttúran ekki sjálfstæða hugsun og ekki heldur fyrirtæki.

Tillaga: Tölvutek lokað eftir 12 ár í rekstri

3.

„Markmið með verðhækkun á sætindi er að gera óhollustu erfiðari valkost fyrir neytendur [...]

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: „Valkostur“ er heimskulegt orð. Það er samsett af tveimur orðum sem hafa mjög svipaða merkingu. Margir eiga val um fjölmarga hluti og aðrir leita annarra kosta.

Upplýstir blaðamenn og aðrir skrifarar eru nær hættir að nota þetta furðulega orð. Þá kemur sumarið, sólin brosir en nýliðarnir sem leysa af á fjölmiðlunum halda að þeir eigi að skrifa fréttir með „flottum“ orðum eða einhvers konar stofnanamállýsku. Þá verður svokallað hrun.

Þegar skattur hefur verið hækkaður á sykri velja margir aðra kosti og ódýrari. Hinir geta valið um að halda áfram að kaupa sykurvörur eða hætt því.

Tillaga: Markmið með verðhækkun á sætindi er að gera óhollustu erfiðari kost fyrir neytendur, enda kostar hann samfélagið meira.

4.

„Hann er að hafa það notalegt með vini sínum …

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Æ algengara er að blaðamenn láti nægja að segja „er að hafa“, það er fyrsta persóna eintala sagnarinnar að vera og nafnhátt sagnarinnar að hafa. Úr verður afar flatt og ómerkilegt mál eins og sést á tilvitnuninni.

Þeir sem svona skrifa eru greinilega byrjendur með lítinn orðaforða. Óþarfi að nota sögnina að vera, hún hjálpar ekkert, gerir hugsunina ekki skýrari.

Til að átta sig nánar á þessu má geta þess að sagnorðum í setningu er skipt í aðalsögn og hjálparsögn. Hjálparsagnir geta aldrei staðið einar og sér án aðalsagnar, þá verður setningin botnlaus. 

Hér eru hjálparsagnir í þremur setningum feitletraðar: Ég er farinn út. Hann vill verða bílstjóri. Hún er líklega komin heim.

Af þessu tilefni eru hér nokkrar hugleiðingar: Málfræðileg hugtök hafa lítið að segja fyrir flesta og því ekki mikil þörf að leggja áherslu á þau. Aðalatriðið er málkenndin, tilfinningin fyrir málinu, hvort heldur að það sé „gott“ eða „vont“, „rétt“ eða „rangt“, það er oft smekksatriði. 

Máltilfinning fæst ekki nema með lestri bóka, helst frá barnæsku og langt fram á fullorðinsár.

Fólk sem hefur lesið mikið getur skrifað. Það hefur ríkulegan orðaforða og kann á blæbrigði tungumálsins, hvað er við hæfi og hvað ekki. 

Sá sem aldrei hefur ástundað lestur getur ekki skrifað. Einfaldara getur það ekki verið. Ekki dugar að hafa lesið „aðeins“ skólabækur vegna þrýstings frá kennurum eða foreldrum. Sá mun alltaf skrifa skemmdan texta og skemmdin smitar út frá sér eins og mygla í mat.

Ágæti lesandi, veistu hvers vegna fjölmiðlar ráða til sín fólk í blaðamennsku sem eru slakir skrifarar? Nokkrar ástæður eru fyrir því, til dæmis frændsemi og kunningsskapur, en þó oftar en ekki vegna þess að slíkir eru hræódýrir starfsmenn, eru á byrjendalaunum í nokkuð langan tíma áður en þeir eru reknir og aðrir byrjendur ráðnir í þeirra stað. 

Þetta er ástæðan fyrir uppnefninu „blaðabörn“ sem er afar niðurlægjandi og ljótt að nota. Samt freistast maður til þess.

Tillaga: Hann hefur það notalegt með vini sínum …

 


Mótorhjólum misbeitt gegn náttúru landsins - myndir

0J2B8253Akstur utan vega er alvarlegt vandamála á suðvesturhorni landsins. Sérstakur vandi er vegna mótorhjóla, svokallaðra „krossara“. Félagsskapur manna mótorhjólum fékk fyrir um tuttugu árum aðstöðu austan við Vífilsfell, þar sem heita Bolöldur. Það var misráðið því mótorhjólalið hefur iðkað akstur langt út fyrir það svæði sem þeim var markað og valdið stórskaða á náttúrnni.

Nú er svo komið að hjólastígar hafa myndast vestan við Vífilsfell og Bláfjöll, einnig austan við fjöllin og má segja að Bláfjöll séu nær hringekin en þar á hvergi að vera ekið á vélknúnum ökutækjum. Raunar hefur verið ekið langleiðina upp á topp Vífilsfells.

DSC_0064Sandkletturinn Ölduhorn vestan undir Víflsfelli hefur verið hringspólaður og umhverfi hans stórskemmt og verður seint lagað þó mótorhjólaumferðin leggist af.

Vestan undir Hengli hafa mótorhjólamenn reykspólað eins og þeir eigi svæðið. Spólað sig upp móbergsklappir, og tætt þær. Þeir hafa hjólað inn í Innstadal, fylgt gömlum göngu- og kindastígum, breikkað þá og dýpkað.

Um helgina sá ég svo merki um akstur mótorhjóla í Grindaskörðum. Þar hefur hjólum verið ekið upp bratta hlíð við Miðbolla. Má vera að það hafi verið gert á meðan frost var í jörðu og snjór að hluta til á. Engu að síður sjá ummerkin greinilega, mosinn er dauður í hjólförunum.

DSC_0179Svo virðist vera að margir „krossarar“ beri enga virðingu fyrir náttúru landsins og telji sér heimilt að aka af augum svo framarlega sem þeir nást ekki, kærðir og dæmdir. Þetta viðhorf er svo hrikalega ruddalegt að engu tali tekur. Þörf er á því að taka á þessum vanda, hirða „krossara“ og kæra.

Efsta myndin er tekin í Grindaskörðum, horft niður. Þarna sést hvernig hjólakapparnir hafa gert nokkrar tilraunir til að komast upp brekku. Snjór hefur verið í brekkunni ekki á mosanum sem er dauður í hjólförunum.

Önnur myndin er tekin vestan undir Vífilsfelli. Þarna hafa myndast þrír troðningar hlið við hlið. Þegar sá fyrsti er illfær færa kapparnir sig til hliðar og búa til annan og svo koll af kolli.

DSCN0667Þriðja myndin er líka tekin undir Vífilsfelli, undir Ölduhorni. Þar gera „krossarar“ sitt besta til að eyðileggja fallega náttúru.

Fjórða myndin er tekin vestan undir Hengli á leið í Marardal. Þarna hafa kappar reynt sig við móbergið og greinilega komist upp, hrósað sigri. Má vera að þeir hafi verið á nagladekkjum.

dsc_4423_bSíðasta myndin er af mótorhjólamönnum sem komust langleiðina upp á Vífilsfell. Þarna eru þeir ofan við svokallaða Sléttu, á leið niður móbergið. Þeir komst ekki miklu ofar en þetta. Sem betur fer var nægur snjór og þeir náðu ekki að spóla sig í gegnum hann. Dekkin voru alsett stórum nöglum og er mjúkt móbergið engin fyrirstaða. 

 

 


mbl.is Mótorhjólum ekið utan vega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalla eftir, horfa til og afhjúpa eða upplýsa

Orðlof og annað

Nýleg nýyrði

Það eru ekki aðeins tækninýjungar sem þurfa ný orð, samfélagsbreytingar leiða einnig til þess að mynduð eru nýyrði. Orðið útrásarvíkingur kemur fram 2008 og á síðustu mánuðum hefur mikið verið rætt um aflandskrónur.

Í kjölfar stóraukinnar ferðamennsku bættist nýyrðið lundabúð við orðaforðann og nýjungar í mataræði hafa líka skilað ýmsum nýyrðum, svo sem steinaldarfæði og lágkolvetnafæði.  [...]

Sumum nýyrðum er ætlað að leysa af hólmi orð sem þykja ekki hæfa vönduðu máli. Emoji, hinar litlu myndir sem snjallsímanotendur nota til að tjá það sem orð fá ekki lýst, hafa fengið íslenska heitið tjámerki.

Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Sir Alex biðlar til Man. United.

Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Varla er maðurinn á biðilsbuxunum en látum það nú vera. Á vefnum Skysports segir í fyrirsögn um sama mál:

Sir Alex Ferguson urges Man United to appoint Steve Walsh in consultancy role.

Íslenska blaðamanninn skortir orð. Hann þýðir enska orðið „urge“ sem sögnina að biðla á íslensku. Allt bendir þó til að Alex Ferguson sé að hvetja fótboltafélagið til að ráða þennan mann.

Tillaga: Sir Alex hvetur Man. United til að ráða Steve Walsh

2.

„… manni rænt ásamt dóttur sinni.

Dagskrárkynning kl. 19.35 í Ríkissjónvarpinu 19.6.2019.         

Athugasemd: Á hlaupum heyrði ég dagkrárkynni segja þetta í Sjónvarpinu. Þetta er ekki rétt.

Tillaga: … manni rænt ásamt dóttur hans.

3.

„Man. United horf­ir til Norwich.

Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Ekkert er að því að orða það þannig þegar einhver lítur til annars með ákveð markmið í huga. Sú er merkingin á að horfa til einhvers.

Hins vegar er eitthvað að þegar orðalagið er notað þrisvar í örstuttri frétt. 

  1. Man. United horf­ir til Norwich.
  2. For­ráðamenn Manchester United horfa nú til Norwich …
  3. Leikmaður­inn sem United horf­ir til er …

Í fréttinni segir:

Leikmaður­inn sem United horf­ir til er hinn 19 ára gamli Max Aarons …

Orðalagið er enskuskotið. Betur fer á því að segja:

Leikmaður­inn sem United horf­ir til er Max Aarons 19 ára gamall …

Í fréttinni segir:

Hann er landsliðsmaður U19 ára liðs Eng­lands og er sagður passa vel í nýja leik­manna­stefnu á Old Trafford að sækja unga Breta til fé­lags­ins.

Þetta er ekki fullkláruð málsgrein og frekar klúðursleg. Eitthvað vantar í síðustu setninguna sem er svokölluð innskotssetning. Þarna þyrfti að setja kommu á eftir Trafford eða eitthvað annað. Skárra er þó þetta:

Hann er í U19 ára landsliði Eng­lands og er sagður passa vel í nýja leik­manna­stefnu á Old Trafford en í henni felst meðal annars að ráða unga Breta til fé­lags­ins.

Efnislega er hins vegar dálítið kjánaleg málsgrein.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Jakob sagður eiga að skammast sín af Elínu.

Fyrirsögn á dv.is.         

Athugasemd: Þessi fyrirsögn skilst illa. Hún gengur ekki upp. Má vera að Jakob eigi að skammast sín fyrir Elínu eða Jakob eigi að skammast sín vegna Elínar eða Elín vilji að Jakob skammist sín. Hvernig sem reynt er að botna í fyrirsögninni er ljóst að hún er tómt bull. 

Í heild sinni er fyrirsögnin svona:

Jakob sagður eiga að skammast sín af Elínu „Jakob Frímann. Þú ert mengaður. Mengaður af fordómum, þekkingarleysi og fyrirlitningu“

Blaðamaðurinn virðist ekki hafa hugmynd um hvað fyrirsögn er. Skynsamir blaðamenn myndu skipta henni í yfir og undirfyrirsögn, sjá tillöguna. Í það minnsta vantar einn punkt. 

Hins vega er furðulegt að DV skuli leyfa sér að að birta meiðandi og ruddalega umsögn. Skiptir engu þó viðmælandinn hafi rétt fyrir sér, fjölmiðillinn verður að fylgja ákveðnum siðareglum í þessum efnum. Hvorki er ástæða til að ofbjóða lesendum né þeim sem um er rætt. Það er einfaldlega ljótt. 

Vafasamt er að endurbirta meiðandi ummæli sem finnast á samfélagsmiðlum. Það er ekki góð blaðamennska.

Tillaga: Elín segir að Jakob eigi að skammast sín - Þú ert mengaður af fordómum, þekkingarleysi og fyrirlitningu.

5.

„Kevin Costner afhjúpar 27 ára gamalt leyndarmál á bak við hið fræga Bodyguard-plakat.

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Hvað merkir sögnin að afhjúpa? Leikarinn Kevin Costner gerði ekkert annað en að segja frá því sem gerðist. Hann afhjúpaði ekkert heldur upplýsti, sagði frá.

Sá sem skrifar áttar sig ekki á blæbrigðum málsins, notar orð sem ekki hæfir í frásögninni. Í heimildinni, Entertainment, stendur ekkert um afhjúpun á leyndarmáli. Afhjúpun er bara uppspuni hjá blaðamanninum.

Tillaga: Kevin Costner segir frá leyndarmálinu um fræga Bodyguard-plakatið.

6.

„Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands og leiðtogaefni Íhaldsflokksins kallaði eftir því að keppinautur hans í leiðtogakjörinu, Boris Johnson, skorist ekki undan því að mæta í kappræður í sjónvarpssal nú í vikunni.

Fréttir á visir.is.          

Athugasemd: Þetta er of löng og í þokkabót skrýtin samsetning. „Kalla eftir því að Boris skorist ekki undan …“. Málsgreinina hlýtur að vera hægt að einfalda.

Hvað þýðir að „kalla eftir“ einhverju? Þetta er eitt vinsælasta tískuorð blaðamanna sem þýða án hugsunar beint úr ensku orðasambandið „to call for“.

Á íslensku merkir sögnin að kalla að hrópa, hrópa á, það er að hækka röddina. Nú kalla allir eftir breytingum, svörum eða öðru þegar merkingin er sú að verið er að heimta, krefjast eða hvetja til breytinga.

Don’t be a dick, Boris“, sagði einhver á netinu. Bein þýðing á íslensku væri ekki alveg það átt er við.

Athygli vekur að blaðamaðurinn kallar Hunt leiðtogaefni en ekki Johnson. 

Tillaga: Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands skoraði á keppinaut sinn í leiðtogakjörinu, Boris Johnson, fyrrum utanríkisráðherra, að mæta í kappræður í sjónvarpssal nú í vikunni.


Bestu íslensku fyrirtækjanöfnin á ensku 2019

Hér verða veitt verðlaun fyrir bestu íslensku fyrirtækjaheitin á ensku fyrir árið 2019. Aðstandendur eiga heiður skilinn fyrir að auðvelda landsmönnum skilning á starfsemi sem vart væri hægt að orða á íslensku, því hallærislega tungumáli.

Lesendur eru beðnir um að velja besta heitið og senda tillögur sínar til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og merkja ráðherranum. Dregið verður úr innsendum tillögum og sá heppni sendur til útlands á kostnað íslenskrar málnefndar.

Reykjavik midsummer music, 20. til 23. júní 2019. Tónleikahátíð. Auglýst undir þessu heiti vegna þess að enginn myndi skilja Miðsumarstónleikar í Reykjavík eða eitthvað álíka á íslensku.

Mink Campers, hjólhýsi, íslensk framleiðsla. Allir skilja hvað átt er við enda væri það tóm vitleysa að nota íslenskt nafn enda er markhópurinn búsettur hér á landi.

Collection, fataverslun í miðbæ Reykjavíkur. Vera má að þessi verslun sé í eigu útlendinga og í helstu borgum séu reknar sambærilegar verslanir undir þessu heiti. Það væri því hrikaleg goðgá að nota íslenskt nafn enda myndu hérlendir ekki skilja slíkt rugl.

Home and youÞetta er ábyggilega alþjóðleg verslun sem ekki verður rekin á Íslandi undir nafninu „hómen djú“ eins og framburðurinn hljómar í útvarpsauglýsingum. Hvað þá að það væri nefnt íslensku nafni.

Sea Life Trust, rekur náttúruminjasafn í Vestmannaeyjum. Óvíst hvort þetta sé íslenskt fyrirtæki eða útlenskt. Þvílíkar hamfarir yrðu ef nafnið væri á íslensku. Nóg hafa eyjaskeggjar þurft að þola svo það bætist ekki ofan á.

Sahara. Þetta er stafræn auglýsingastofa og sækir auðvitað viðskipti til útlanda. Þar af leiðandi væri ómögulegt að héti Mýrdalssandur, Fjörusandur eða Öræfi. Útlendingar myndu þurfa læknisaðstoðar við áður en þeir gætu skipt við stofu með slíku nafni.

Lögmannsstofan Sævar Þór & PartnersÞeir eru þrír sem starfa á lögmannsstofunni. Fyrir utan Sævar eru félagar hans, afsakið, partnerar hans, þar á vappi þeir Lalli og Svenni. Hvað yrði um viðskiptin er fyrirtækið héti því hallærislega nafni Lögmannsstofan Sævar Þór og félagar? Því miður myndu þau verða að engu og það veit Sævar manna best.

Doktor Byke. Fyrirtæki sérhæfir sig í viðgerðum á reiðhjólum. Ekki nokkur maður myndi skilja ef það héti Reiðhjólalæknirinn eða álíka hallærislegu íslensku nafni. Líklega kemur fólk í hrönnum frá útlöndum til að fá gert við tvíhjólin sín. Íslenskt nafn myndi án efa gera út af við þau viðskipti.

Eyesland. Fyndið og spaugsamt fólk rekur gleraugnaverslun undir þessu nafni. Sko, fyrir þá sem ekki vita er það borið fram „æsland“ sem er nákvæmlega eins framburður og á nafni landsins okkar á ensku, „Æsland“. Svona skop verður aldrei gamaldags og hallærislegt eins og hið forna tungumál „æslandikkk“. Fólk kemur beinlínis hlægjandi inn í búðina og þeir sem þurfa engin viðskipti hlægja að nafninu og þrá ekkert heitar en að þurfa á glasses að halda.

Hjólhýsa mover. Tæki sem hreyfir hjólhýsi úr stað má alls ekki heita Hjólhýsahreyfir. Alkunna er að íslenska er frekar takmarkað tungumál. Það er alrangt sem skáldið kvað, að á íslensku mætti „alltaf finna svar og orða stórt og smátt sem er og var“. Þess vegna er skynsamlegt, svona fyrst í stað að blanda saman ensku og íslensku í auglýsingum fyrirtækisins og það er svikalaust gert. Þegar íslenskan er útdauð er auðvelt að endurvinna auglýsinguna, stroka út örfá íslensk orð og sjá auglýsingin er orðin ensk án mikils kostnaðar.

Fagna ber samræmdu og þungu átaki sem fólk í viðskiptum hefur lagt í gegn íslenskunni. Holan dropar steininn eins og sagt er ... Fyrr en varir verður íslenskan ekki lengur deyjandi tungumál, hún verður útdauð. Þá er markmiðinu náð.

Skammarverðlaunin hljóta eigendur auglýsingastofu sem áður hét Hype, borið fram „hæp“, og er fallegt enskt nafn. Í tómu rugli breyttu þeir nafninu í Aldeilis. Hver skilur svoleiðis? Má bara gera svona án leyfis?

Látum þetta nú nægja og förum á Seacret solstice festival in Poolvalley in Smoketown.

 


Ofnotaðir frasar í fjölmiðlum

Hér segir frá ofnotuðum frösum í fjölmiðlum, tískuorðasamböndum sem blaðamenn geta varla slitið sig frá. 

Ég er ekki að setja út á þessa frasa, síður en svo. Hins vegar má alveg hvíla sum, nota önnur í staðinn. Stundum viðist sem blaðamenn séu að búa til einhvers konar blaðamannamál sem enginn annar notar. Það er einhver konar flækjumál: Löggan talar löggumál og stjórnsýslan stofnanamál. Allir virðast tala og skrifa það sem aðrir búast við að þeir geri. Fæstir nota hausinn.

Ég hef áður tekið saman álíka lista, sjá hér

  1. Gera það gott. Notað til dæmis um þá sem standa sig vel. Allir eru að gera það gott, færri standa sig, eru duglegir og svo framvegis. 
  2. Sannfærandi sigur: Einkum notað í boltaíþróttum þegar sigurliðið þarf lítið að hafa fyrir sigrinum. Samt er aldrei talað um ósannfærandi sigur.
  3. Skella sér í eitthvað. Að sögn skellir fólk sér í allt mögulegt, sólbað, verslunarferð, partí, bílferð, rúmið … Óljóst er hvort skellur fylgir. Oft er nóg að segja að einhver hafi varið í búðir, partí, bílferð eða bara í rúmið.
  4. Gera sér lítið fyrir. Þegar einhver hefur gert eitthvað auðveldlega eða fengið einhverju áorkað, jafnvel á skemmri tíma en aðrir, er tíðum sagt að sá „hafi gert sér lítið fyrir“, ekki einfaldlega gert það sem hann gerði. 
  5. Kalla þetta gott. Oftast notað í stað þess að segja að einhver sé hættur, ætti að hætta eða vilji hætta. Orðasambandið er oftar en ekki notað á hallærislegan máta.
  6. Kíkja á eitthvað. Þegar einhver frægur dvelst á Íslandi skoðar hann sjaldnast ferðamannastaði, heimsækir ekki staði eða bregður sér hingað eða þangað. Hann eða hún kíkir á Gullfoss, Þingvelli eða Mývatn. Við hin kíkjum á veitingastað og erum þar stundum í drykklanga stund, jafnvel margar klukkustundir.
  7. Til margra ára. Í stað þess að segja í mörg ár kemur þetta orðalag. Þau voru gift í mörg ár er stundum sagt en tískufólkið segir að hún/hann hafi verið maki til margra ár. Þjálfari í mörg ár, þjálfari til margra ára. Frekar leiðigjarnt.
  8. Horfa til þess. Víða ofnotað. Oftast ágætt að nota einfalt sagnorð. Horfa til þess að fjármagna þurfi reksturinn. Betra er að segja að fjármagna þurfi reksturinn eða leita leiða til þess.
  9. Eiga sér stað. Oftast gagnslaust og bætir engu við en sumum finnst þetta svo sannfærandi viðbót. Dæmi: Þegar kaupin á bílnum áttu sér stað, en betra er að segja; þegar bíllinn var keyptur. Einfalt.
  10. Um ræðir. Þetta má alveg hverfa, að minnsta kosti í nokkur ár. Það sem um ræðir hjá aðilum vinnumarkaðarins er stytting vinnuvikunnar. Betra er að segja að þeir ræði leiðir til að stytta vinnuvikuna.
  11. Viðbragðsaðilar. Sumir blaðamenn þrá orðalagi „response team“ og nota því viðbragðsaðilar.  Lögregla, sjúkralið, björgunarsveitir, slökkvilið bregðast ekki við nema þeim sé tilkynnt um óhapp eða slys. Þeir sem eru vitni eða koma snemma á slysstað bregðast flestir við. Þeir eru allt eins „viðbragðsaðilar“. Hvaða gagn er af orðinu ef allir eru nú orðnir viðbragðsaðilar.

Dómsigur banns Trumps, kíkja á fossa, og viðvarandi skúrir

Orðlof og annað

Hvert stefnir íslenskan?

Ég fór í Bónus á dögunum og kom á afgreiðslukassann og segi við drenginn sem stimplaði inn að ég ætlaði að fá þetta hvorutveggja. Hann kallar í næsta afgreiðslumann. „Siggi er hvorutveggja „bæði“?“

Þá var ég á ferð í fyrra og kom á þekktan veitingastað norðan heiða. Ungur maður stóð við afgreiðsluborðið. „Can I help you?“ Ég segi á íslensku „Já, takk, en er ekki einhver á þessum bæ sem talar íslensku?“ 

Afgreiðslumaðurinn snarar sér inn í eldhús og kemur að vörmu spori. „Get ég aðstoðað herrann?“ 

Húmorinn í lagi hjá þessum unga manni en hvert stefnir íslensk tunga þegar Íslendingar eru ávarpaðir á erlendri tungu í sinni heimasveit?

Arnór Ragnarsson, grein í Morgunblaðinu 11.6.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Dómsigur fyrir bann Trump við transfólki í hernum.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Skilur einhver þessa fyrirsögn? Málfræðilega er hún rétt og  engin stafsetningavilla. Er þá ekki allt gott? Nei, hér vantar smáræði sem kallast rökrétt hugsun. Sigraði bann Trumps“ fyrir rétti eða var það staðfest?

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Í dag hafa Armstrong og Han­sen verið í Húsa­felli og sam­kvæmt In­sta­gram-reikn­ingi hans fóru þau meðal annars og kíktu á Hraun­fossa.

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Útlendingar „kíkja“ einatt á hina og þessa staði á landinu ef marka má blaðamenn. Sögnin að kíkja merki ekki að skoða. Á malid.is segir meðal annars: 

Kíkja s. (17. öld) ‘gægjast, horfa í kíki’. To., sbr. nýnorska og sænska kika, danska kige […] Líklega sk. keikur og kikna og upphafl. merk. ‘að beygja sig eða reigja til að sjá betur’. Sjá kíkir og kikka.

Í daglegu tali er sögnin að kíkja fyrst og fremst höfð um að koma stuttlega við, horfa í gegnum kíki, skoða laumulega og álíka. Orðið er frekar ofnotað, er tískuorð og frekar leiðinlegt sem slíkt.

Svo er það þetta orðalag sem er dálítið ruglað: „Fóru meðal annars og kíktu ...“ Eru þrjú fyrstu orðin ekki óþörf?

Enska orðið „account“ getur þýtt reikningur. „Accountant“ þýðir bókhaldari og „accounting“ er reikningshald, það er bókhald og gerð ársreiknings og fleira.

Mér finnst alveg ótækt að áskrift mín að Instagram eða Facebook sé kölluð reikningur. Lýsi hér með eftir gegnsærra orði.

Tillaga: Í dag hafa Armstrong og Han­sen verið í Húsa­felli og samkvæmt In­sta­gram-áskrift hans skoðuðu þau Hraun­fossa.

3.

„Viðvarandi skúrir.

Veðurfréttir kl. 22 í Ríkissjónvarpinu 18.6.2019.           

Athugasemd: Lýsingarorðið viðvarandi er hrein og klár danska sem hefur náð góðri fótfestu í íslensku máli. Danska orðabókin segir um orðið:

[Vedvarende] som består til stadighed fx om uudtømmelige energiformer som solenergi og vindenergi

Á malid.is segir:

… sem varir lengi, sem erfitt er að losna við

Nafnorðið skúr, sem er í kvenkyni og er í merkingunni regn sem stendur stutt yfir, er svolítið vandmeðfarið. Því má ekki rugla saman við karlkynsorðið skúr sem merkir lítil og óvönduð bygging sem einkum er notuð til geymslu. Að vísu eru til bílskúrar sem yfirleitt eru traustlega byggðir.

Skúrin, regnskúrin, beygist svona í eintölu: Skúr, skúr, skúr til skúrar. Í fleirtölu: Skúrir, skúrir, skúrum, til skúra.

Skúrinn, hjallurinn, beygist svona í eintölu: Skúr, skúr, skúr, skúrs. Í fleirtölu: Skúrar, skúra, skúrum, skúra.

Dæmi:

  1. Skúrin féll á skúrinn.
  2. Þau stóðu af sér skúrirnar í skúrunum.
  3. Hann tafðist vegna skúrarinnar.
  4. Þau töfðust vegna skúranna.
  5. Á morgun verður leiðinda skúraveður.
  6. Ekki hlakka ég til þessara skúraveðra.

Einsleitni tungumálsins er fjölbreytileg ... eða þannig.

Tillaga: Skúraveður.

4.

„Haffærisskírteini líka komið fljótlega.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 19.6.2019.           

Athugasemd: Er orðaröðin ekki dálítið skrýtin í þessari setningu? Svo virðist sem orðin hafi farið á flakk því svona talar varla nokkur maður.

Tillaga: Haffærnisskírteinið kemur líka fljótlega.


Hjólhýsamover, stofna til nýs lífs og hann Pebble Beach

Orðlof og annað

Prósent

Varast skyldi að líta á orðið prósent sem óbeygjanlegt orð. Fyrirtækið var rekið með fimm prósenta halla. Verðið er sjö prósentum lægra. Fimmtán prósent landsmanna horfðu (ekki „horfði“) á þáttinn. Hundrað komma eins prósents hækkun.

Málfarsbankinn.

Orðið falbeygist svo í eintölu: Prósent, prósent, prósenti, prósents. Í fleirtölu: Prósent, prósent, prósentum, prósenta.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Dómsigur fyrir bann Trump við transfólki í hernum.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Skilur einhver þessa fyrirsögn? Málfræðilega er hún rétt og  engin stafsetningavilla. Er þá ekki allt gott? Nei, bann Trumps sigraði ekkert. Hins vegar hélt tilskipun Trumps sem bannar transfólk fái að gegna herþjónustu.

Tillaga: Trump sigrar í dómsmáli vegna transfólks í hernum.

2.

„Hjólhýsa mover.

Auglýsing á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 15. júní 2019.          

Athugasemd: Fyrirsögnin á auglýsingunni er afar aum. Blandað er saman íslensku og ensku rétt eins og þau séu sama tungumálið. Slík gengur ekki. Skynsamlegra er að nota bara annað tungumálið. Auglýsandinn hlýtur að geta gert betur, þó ekki sé nema af virðingu fyrir hugsanlegum kaupendum.

Í þessu tilviki hefði mátt segja „hjólhýsa hreyfir“ enda verið að kynna tæki sem hreyfir við þungum hjólhýsum, nokkuð sem einn eða tveir menn bifa varla.

Tillaga: Hjólhýsahreyfir.

3.

„Frelsissvipt af barnsföður sínum …

Frétt á dv.is.          

Athugasemd: Veit ekki hvort svona flokkist sem leti, þekkingarleysi eða hvort tveggja. Þá verður til ýmislegt skrýtið: Einhver framkvæmir afbrot, frelsissviptir eða „aðgerðagerir“ í stað þess að brjóta af sér, svipta frelsi eða gera eitthvað.

Blaðamenn sem svona skrifa eru ekki vanir, hafa ekki mikinn orðaforða og gera sér ekki grein fyrir neyðarlegum takmörkunum sínum. Yfirleitt fer betur á því að nota germynd, eins og gert er í tillögunni, heldur en að nota þolmynd, eins og er í tilvitnuninni.

Tillaga: Barnsfaðirinn svipti hana frelsi.

4.

„Fyrir þeim var erfitt að stofna til nýs lífs.

Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Í nokkuð góðri grein er fjallað um afleiðingar slyssins í Chernobyl. Höfundurinn hefði samt mátt lesa greinina miklu betur yfir fyrir birtingu. Nokkur fljótfærni bagar hann.

Tilvitnunin er dálítið skrýtin. Eiginlega er þetta ómöguleg setning, ber mikinn keim af þýðingu úr ensku. Því miður hafði ég ekki fyrir því að kanna heimildina en hún gæti hafa verið svona á ensku:

For them it was difficult to begin a new life.

Á íslensku er það orðað þannig að við getna kvikni nýtt líf. Varla er blaðamaðurinn að tala um erfiðleika við getnað, sem þó er ekki útilokað.

Hins vegar kann að vera að hann eigi við að fólk sem hafi flutt búferlum hafi átt erfitt með að lagag sig að nýju umhverfi. Sé svo væri betra að segja það þannig.

Í greininni segir einnig:

Í Hvíta-Rússlandi bjó fólk á svæði þar sem joðskortur var við líði.

Höfundurinn verður að átta sig á að sjálfvirk villuleitarforrit í tölvunni skilja ekki blæbrigði íslensks mál. Það gerir ekki greinarmun á lýði og líði, hvort tveggja er rétt skrifað en merkingin er ekki hin sama.

Það sem er við lýði er hjá lýðnum og ritað með ufsilon í. Hins vegar er oft sagt að eitthvað líði hjá, líði yfir eða ský líði yfir loftin blá og er allt annað.

Tillaga: Fyrir þau var erfitt að aðlagast nýjum heimkynnum.

5.

„Sjálfstæði Grænlands mun verða.

Frétt á kjarninn.is.           

Athugasemd: Verða hvað? Líklega á blaðamaðurinn við að Grænland muni verða sjálfstætt. Eitthvað útlenskt er við þessa fyrirsögn. Má vera að hún sé nær dönsku en íslensku. 

Tillaga: Grænland mun verða sjálfstætt.

6.

Pebble Beach gaf bestu kylfingum heimsins tækifæri til að sýna klassagolf.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 18.6.2019.          

Athugasemd: Hann virðist vera einstakur maður þessi Pebble Beach og ætti að fara sem víðast með nemendur sína og sýna klassagolf. 

Nei, Pebbel Beach er ekki maður, heldur staður, golfvöllur. Völlurinn virðist vera svo góður að kylfingar hafi náð að spila þar frábærlega vel. Hálfasnalegt að orða þetta eins og segir í fyrirsögninni.

Tillaga: Bestu kylfingar í heimi spiluðu frábærlega á Pebble Beach. 

 

7.

„Samkvæmt könnuninni, sem hafa verður eðlilegan fyrirvara á eins og á öðrum slíkum, eru nú aftur fleiri jákvæðir en neikvæðir vegna aðstæðna í efna- hagslífinu eftir neikvæðari svörun fyrr á árinu þar sem fleiri töldu aðstæður slæmar en góðar.

Leiðari Morgunblaðsins 18.6.2019.         

Athugasemd: Nú kunna einhverir að halda að ég væri með leiðarahöfund Morgunblaðsins á heilanum. Það er að hluta til rétt, hef lesið leiðarann blaðsins með athygli í áratugi. Í gegnum tíðina hafa ritstjórar blaðsins skrifað góða leiðara og hafa aðrir komið að skrifunum og oftast gert vel. Núverandi ritstjóri er beinlínis í uppáhaldi hjá mér.

Nú bregður svo við að ritstjórinn er fjarverandi og einhver sem ekki skrifar vel hleypur í skarðið. Leiðarinn er frekar illa skrifaður, rétt eins og leiðari gærdagsins. Verst er þó að höfundurinn virðist ekki hafa yfirsýn yfir það sem hann vill segja. Skrifin verða því slöpp endursögn úr fréttum en ætti að vera sjálfstæð greining og stefnumið.

Ofangreind tilvitnun úr leiðara dagsins er endemis langloka. Höfundurinn virðist ekki skilja að punktur er besti vinur allra skrifara. Samt fjandskapast hann við blessaðan punktinn og flækir málsgreinar í innskotssetningar og aukasetningar þar til mann þrýtur örendið við lesturinn.

Svona skrif er víti til varnaðar.

Tillaga: Samkvæmt könnuninni eru nú aftur fleiri jákvæðir en neikvæðir vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Fyrr á árinu voru svarendur neikvæðari, töldu aðstæður slæmar, færri fannst þær góðar.


Illa skrifaður leiðari í Mogganum

Skyld´ann Davíð vita af´essu? varð mér að orði þar sem ég sat við morgunverðarborðið og las leiðara Morgunblaðsins. Ljóst að ritstjóri blaðsins er ekki höfundurinn. Er að hugsa um að krefjast endurgreiðslu á áskriftinni.

Leiðarinn byrjar svona: 

75 ár eru langur tími í lífi einstaklinga og jafnvel í lífi heilla ríkja.

Aldrei skal byrja setningu á tölustöfum. Hins vegar er í lagi að skrifa tölur með bókstöfum. Þarna hefði öllu að skaðlausu má segja: Sjötíu og fimm ár er langur tími ... 

Sögnin að vera (er) er í tilvitnuninni í þriðju persónu fleirtölu (eru) en ætti að vera í eintölu því þarna er vísað til orðsins tíma, sem er í eintölu.

Vaxandi lífslíkur má telja meðal þess mikla árangurs sem náðst hefur hér á landi frá því að landið fékk sjálfstæði, og raunar allt frá því að það fékk fullveldi, enda voru lífslíkur fólks innan við sextíu ár fyrir einni öld.

Meðalaldur hefur hækkað í öllum löndum Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu sjötíu og fimm árum. Það væri meiri frétt ef lífslíkur Íslendinga væru ekki í samræmi við það sem gerst hefur meðal annarra þjóða. 

Betur fer á því að orða hugsunina svona:

Þegar þjóðin fékk fullveldi, fyrir rúmri einni öld, voru lífslíkur fólks innan við sextíu ár. Meðalaldurinn nú er miklu hærri og verður það að teljast mikill árangur. 

Hnitmiðuð hugsun er ekki fólgin í mörgum orðum:

Þegar horft er til samanburðar á milli landa sést einnig að Ísland er í allra fremstu röð þegar kemur að lífslíkum, sem segir mikið um hve vel hefur tekist til og hve gott er að búa á Íslandi.

Málsgreinin er allt of löng og segir í raun ekkert annað en þetta:

Meðalaldur er hærri á Íslandi en víðast annars staðar og bendir til að vel hafi tekist og gott sé að búa hér.

Þetta er mun styttri málsgrein og hnitmiðaðri og engin nástaða eins og í tilvitnuninni.

Hér er matur heilnæmur og hollur miðað við það sem víðast þekkist og nóg til af honum. Hér eru loftgæði mikil og nóg er af vatni sem enginn þarf að óttast að drekka.

Öllum ætti að vera ljóst að höfundurinn á við Ísland. Engu að síður tönglast hann á „hér“ svo úr verður nástaða. Með nær engri hugsun hefði hann getað orðað þetta svona:

Við Íslendingar framleiðum heilnæman og hollan mat. Hvergi er skortur á vatni og loftgæði eru mikil.

Auðvitað er þetta bölvað hnoð og algjörlega stíllaust. Nafnorðastíllinn er yfirþyrmandi.

Síðar er talað er um að „tengja saman byggðir landsins“ og örstuttu síðar hnýtur lesandinn um „Sú tenging ...“. Þetta er eins og þegar óskrifandi hugsjónamanni er falið að rita ályktun stjórnmálaflokks (sem gerist æði oft). Útkoman verður frekar óáhugaverð.

Þó að Íslendingum hafi fjölgað mikið frá því að landið hlaut sjálfstæði eru þeir enn fáir í samhengi við aðrar þjóðir og þurfa að vinna vel saman og standa saman um að efla hag lands og þjóðar.

Höfundur leiðarans veit ekki hvað nafnorðið samhengi þýðir. Það þýðir ekki samanburður. Íslendingar kunna að vera fáir í samanburði við aðrar þjóðir. Á eftir kemur einhvers konar hvatning á ekki við í sömu málsgreina og malið um fjölgun landsmanna.

Strax á eftir greinaskilum segir:

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til að þessu leyti.

Þetta er hreinlega óskiljanlegt innskot, lesandinn veit ekkert hvað höfundurinn á við.

Á eftir kemur innantómur texti, nokkurs konar helgidagablaður:

Ísland hefur á því tímabili sem hér um ræðir farið um langan veg frá fátækt til farsældar. Það er fjarri því sjálfsagt að ná slíkum árangri og mikilvægt að leiða hugann að því hvernig svo mátti verða.

Svo innantóm eru þessi orð að það jaðrar við að bergmál heyrist.

Svo er það þessi langloka:

Fyrir utan þær heilnæmu aðstæður sem áður voru nefndar og öflugt heilbrigðistkerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi, og fær vonandi að vaxa og dafna áfram með fjölbreyttum hætti, hefur sá grunnur sem lagður hefur verið með víðtæku og öflugu menntakerfi verið nauðsynleg forsenda vaxandi hagsældar.

Orðið „heilbrigðiskerfi“ er þarna rangt skrifað. Punktur er mjög áhrifamikið tæki í skrifum. Hann styttir málsgreinar, krefur skrifara um skýra hugsun og stundum er hann bráðnauðsynlegur fyrir stílinn. Öll þessi orð segja í raun ekkert, eru bara blaður enda ekkert rökrétt samhengi milli einstakra setninga. Leiðarinn er gagnslaus ef lesandinn greinir ekki fulla hugsun höfundarins.

Næst er boðið upp á frasasýningu; sú fyrirhyggja, sýnd var, ráðast í og loks setning sem skilst ekki. 

Sú fyrirhyggja sem sýnd var við að ráðast í virkjanir orkuauðlindanna, vatnsfallanna og heita vatnsins, hefur skilað þjóðinni miklum verðmætum og lífsgæðum. Þau skyldi aldrei vanmeta og þeim má aldrei glutra niður.

Hvað á aldrei að vanmeta og hverju má ekki glutra niður? Á höfundurinn við virkjanir, verðmæti, lífsgæði eða eitthvað annað? 

Þá hefur þjóðin verið farsæl þegar kemur að undirstöðuatvinnuvegunum, sjávarútvegi og landbúnaði.

„Þá“ hvað ...? Kemur að hverju ...? Þetta er ljóta samsetningin. Hún bendir til þess að höfundurinn sé ekki vanur skrifum og sé ungur að árum. Er annars ferðaþjónusta ekki orðin að undirstöðuatvinnuvegi?

Þau verðmæti sem sótt hafa verið í sjóinn á lýðveldistímanum hafa tryggt þjóðinni nauðsynlegan gjaldeyri og það var mikil gæfa að forystumenn þjóðarinnar skyldu hafa kjark til að víkka út landhelgina, sem ekki var sjálfsagt og tók mjög á.

Hvað var sótt í sjóinn? Var það kannski reki?

Halló! Var landhelgin „víkkuð út“? Skrýtið orðalag. Eldri og reyndari blaðamenn, raunar allflestir landsmenn hefðu sagt að landhelgin hafi verið stækkuð. Orðalagið bendir eindregið til þess að höfundurinn sé útlendingur og leiðarinn hafi verið skrifaður á framandi tungu en þýðingin fengin úr Google Translate?

Var stækkun landhelginnar ekki sjálfsögð? Fjöldi fólks telur svo hafa verið.

Tók útfærslan á? Nei, í öll skiptin var hún verkefni sem unnið var að af mikilli þekkingu, skipulagi og dugnaði. 

Niðurlag leiðarans er svona:

Ísland hefur á 75 ára afmæli lýðveldisins traustan grunn að byggja á. Ef byggt er ofan á þennan grunn og gætt að því í hvívetna að grafa ekki undan honum geta ungir Íslendingar dagsins í dag horft til baka að 75 árum liðnum og séð þar aðra ævintýralega ferð vaxandi velsældar.

Hverjir grafa undan grunni? Líkingamál er gagnslaust nema að höfundurinn kunni að halda því áfram eða skilja hvenær á að hætta líkingunni. Yfir óþarfann er strikað.

Í heildina er leiðarinn frámunalega illa skrifaður. Reynt hefur verið að færa rök fyrir því hér að ofan. Stíllinn er slæmur og innihaldið rýrt.

Heyrst hefur af tölvuforritum sem geta ritað sennilegar frásagnir og jafnvel sögur og ljóð á enska tungu. Þegar nánar er að gáð vantar tölvuna ekki fín orð, huggulega frasa eða góða réttritun, heldur hugsun. Hún er svo óskaplega mikilvæg, sérstaklega þegar hana vantar.

Ég vona bara að Davíð Oddsson sé við góða heilsu og eftir að þessa löngu helgi haldi hann áfram skrifa leiðara. 


Halldór Blöndal talar niður til Davíðs Oddssonar

Þegar Davíð Oddsson tjáir sig missa andstæðingar hans oft alla sjálfstillingu. Þetta gerðist þegar síðasta Reykjavíkurbréf sunnudagsblaðs Morgunblaðsins kom út. Þeir sem lesa bréfið titra og bulla rétt og þeir sem aldrei lesa það en bulla þó hinum til samlætis.

Þeir sem telja sig eiga einhverra harma að hefna að vitna oftast til orða Davíðs í óbeinni ræðu, þá geta þeir túlkað orð hans að vild, venjulega þvert á það sem maðurinn sagði.

Alltaf, hreint alltaf, skrifar Davíð Oddsson yfirvegað og málefnalega en oftar en ekki felst broddur í orðum hans og þá hrína þeir sem fyrir verða en við hinir höfum ánægju af góðum skrifum, kristaltærri pólitíkinni, kaldhæðninni og skopinu. 

Svo ber það til tíðinda að Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, reyndir í blaðagrein að setja niður í við Davíð. Hann segir:

Og auðvitað hefn­ir það sín, ef illa ligg­ur á manni, - þá mikl­ar maður hlut­ina fyr­ir sér og freist­ast til að fara ekki rétt með.

Eitthvað er að Halldóri sem talar niður til Davíðs, reynir að brúka föðurlegan umvöndunartón. Segir í fyrsta lagi að hann hafi skrifað þar síðasta Reykjavíkurbréf í slæmu skapi og í öðru lagi að hafi ekki farið rétt með. Þetta er allt svo skrýtið og furðulegt og auðvitað sprek fyrir óvinafagnað enda logaði vel hjá andstæðingum Sjálfstæðisflokksins sem ráða sér ekki fyrir kæti og tala um klofning. 

Mesta furðu vekur þó, að maður sem á mestalla sína upphefð í stjórnmálum Davíð Oddssyni að þakka, skuli telja sig þess umkominn að tala niður til hans. Þó hlakkað hafi í óvinum Sjálfstæðisflokksins og hælbítum Davíðs eftir þessi orð endurgalt Davíð ekki sendinguna á sama veg. Hann kann sig betur. Í umfjöllun sinni fékk Halldór samt dágóðan skammt af skopi og kaldhæðni, en meiðandi var umfjöllunin um hann ekki. 

Í stjórnmálum skiptir miklu að vera vel áttaður, hafa skýra stefnu. Halldór tekur meira mark á ættarvitanum, sem Davíð nefnir svo, en sjálfstæðri skoðanamyndun. Og Davíð segir:

Nú sýna kannanir að allur þorri flokksmanna er á móti orkupakkaruglinu. Enginn hefur fengið að vita af hverju forystan fór gegn flokknum í Icesave. Og nú fær enginn að vita „af hverju í ósköpunum“, svo notuð séu orð formannsins sjálfs, laskaður flokkurinn á að taka á sig enn meiri högg. Halldór Blöndal áttar sig ekki á þessu fremur en Icesave, sem hann hafði barist gegn þar til ættarvitinn tók öll völd. Þessi sami ættarviti sem núna er að ærast í segulstormunum.

Það vantaði ekki neitt upp á það að hann sendi þá gömlum vinum sínum kveðjurnar eftir krókaleiðum vegna þess að þeir mökkuðu ekki með. Þeirra svik voru að fara ekki kollhnís þegar kallið barst frá Steingrími og kröfuhöfum.

Enginn kali virðist vera í orðum Davíð gagnvart Halldóri því hann segir:

Nú hefur bréfritari ekki heyrt í Halldóri lengi. En hann hringir til manna allt í kringum þann með sama hætti og síðast og þeir segja að það liggi þetta líka óskaplega illa á honum núna. Það hlýtur að gera það, því að Halldór er innst inni drengur góður.

Við sem heima sitjum og stundum ekki pólitík nema í bloggum og af og til í heita pottinum erum doldið hissa á því að gamall samherji hafi ekki einfaldlega hringt í Davíð og spurt hvers vegna hann sé á móti þriðja orkupakkanum sem svo er kallaður. Má vera að virðingin fyrir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins sé svo mikill, og blönduð ótta, að betra sé að kalla til hans úr fjarlægð og hlaup síðan á brott og fela sig eins og götustráka er siður.

Eða heldur Halldór Blöndal að enn liggi illa á ritstjóranum og Davíð í fýlu sé verri viðureignar en Davíð í góðu skapi. Hvor sem staðan er á Davíð er ekki víst að Halldór bjargi sér á hlaupum. Reykjavíkurbréfið hefur ábyggilega hitt hann vel. Má vera að hann standi upp aftur. Þá væri ráð að hann hringi í Davíð, ekki skrifa bréf, nema kannski vísnabréf.

Halldór veit ekki að opinbert bréf í fjölmiðli er yfirlýsing, ekki vingjarnleg ábending.

Eitt verður Halldór Blöndal að vita að Davíð Oddsson á mikið fylgi innan Sjálfstæðisflokksins. Þar erum við fjölmörg sem misvirðum það sé Davíð sýnd ókurteisi. Það er einmitt ástæðan fyrir þessum skrifum.


Fimm mestu jarðskjálftavæði landsins

Helstu jarðskjálftasvæði landsins virðast vera fimm.

  1. Norðaustan við Grindavík
  2. Norðan Laufafells á Fjallabaki
  3. Bárðarbunga
  4. Herðubreið
  5. Austan Grímseyjar 

Þetta þýðir þó ekki að von sé á eldgosi á þessum svæðum, og þó. Margar ástæður eru fyrir jarðskjálftum, meðal annars kvika sem er að brjóta sér leið upp á yfirborð.

GrindavíkAustan við Grindavík, það er norðan Hraunsvíkur og sunnan Fagradalsfjalls. Þarna hafa verið miklar jarðhræringar undanfarið ár. Flestir skjálftarnir eru frekar litlir, stórir. Raunar hefur verið mikil hreyfing á Reykjanesskaga og þá mest þarna og einnig suðvestan við Kleifarvatn, á Sveifluhálsi og í Móhálsadal. Raunar er það þannig að stórir skjálftar eru mjög sjaldgæfir á Reykjanesi enda er það svokallað fráreksbelti.

Undanfarin misseri hafa skjálftar norðan við Laufafell og austan við Rauðufossafjöll vakið athygli leikmanna. Þarna er tiltölulega stutt í Heklu en í kringum hana hafa orðið fjölmörg eldgos. Svo virðist sem að skjálftarnir teygi sig til austurs í áttina að Torfajökli. Ég hef hitt tvo mæta menn sem trúa því að þarna muni innan skamms hefjast eldgos. Annar þessara er draumspakur maður sem aldrei hefur haft rétt fyrir sér, hinn er áhugasamur landvörður sem vit sínu viti.Bárður

Bárðarbungu þekkja allir og þar er skelfilegt um að litast. Þar er gat ofan í tvöþúsund metra háan jökulinn og niður í hyldýpi þar sem bræðsluvatnið sýður og bullar og bíður þess sem verða vil.

Eldgosið í Holuhrauni varð þegar kvika braut sér leið til austur, snarsnéri svo til norðurs undan hallanum og kom síðan upp á yfirborðið á gamalkunnugum slóðum þar sem gosið hafði fyrir tvöhundruð árum.

Nú velta menn því fyrir sér hvort Bárði vaxi ásmegin og taki að dæla kviku af enn meiri þrýstingi en síðustu misserin. Verður þá aftur gos í Holuhrauni eða nær kvikan að brjótast til austurs í áttina til Kverkfjalla eða Grímsvatna? Hvað gerist þá?

HerðubreiðÍ kringum Herðubreið hefur verið mikil skjálftavirkni undanfarin ár, sérstaklega suðvestan við fjallið. Sumir telja að þarna undir sé kvika að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Fátt annað getur skýrt svona viðvarandi staðbundna skjálfta.

Austan Grímseyjar hafa verið miklir skjálftar á undanförnum árum. Fátt er hins vegar vitað um það, til þess vantar jarðskjálftamæla á sjávarbotni.

Athugið að kortin sem hér birtast er frá Loftmyndum, loftmyndir.is. Þau sýna jarðskjálfta frá síðasta sólarhring til síðustu sex mánaða.


Stoltenberg, viðhlæjandi eða vinur?

Jens Stoltenberg var forsætisráðherra Noregs þegar fjármálakreppan reið yfir heiminn og hér á Íslandi kölluðum við hana hrunið, sem er réttnefni. Lítið gagn hafði þjóðin þá af „frændum“ okkar á Norðurlöndum, nema auðvitað Færeyingum.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir um Stoltenberg í Fróðleiksmolum sínum í Morgunblaði dagsins:

Hvernig sýndi hann það, þegar hann var forsætisráðherra Noregs árin 2008-2009? Ólíkt Færeyingum og Pólverjum, sem veittu okkur í bankahruninu aðstoð án skilyrða, neituðu Norðmenn öllum okkar óskum um aðstoð. Stoltenberg, sem er jafnaðarmaður, lagði flokksbræðrum sínum í Bretlandi, Alistair Darling og Gordon Brown, lið á alþjóðavettvangi og beitti sér gegn því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlypi undir bagga, fyrr en við hefðum gengið að freklegum kröfum Darlings og Browns, sem þá þegar höfðu sett á okkur hryðjuverkalög. (Hryðjuverkalög! Á annað aðildarríki Atlantshafsbandalagsins!)

Norsk stjórnvöld aðstoðuðu síðan norska fjáraflamenn við að sölsa undir sig vænar eignir Glitnis á smánarverði, eins og ég lýsi nákvæmlega í skýrslu minni fyrir fjármálaráðuneytið, sem aðgengileg er á Netinu.

Minni okkar er hverfult og við gleymum því sem hendir. Segja má að nútímamaðurinn hafi ekkert annað en skammtímaminni. Sem betur fer getum við leitað heimilda víða, til dæmis á netinu. Svo eru til menn eins og Hannes sem eru einfaldlega minnugir og rifja á hvað gerðist á þessum örlagaríku árum þegar allt hrundi.

Stoltenberg er núna framkvæmdastjóri Nató. Hann þjáðist greinilega af skammtímaminni þegar hann kom í opinbera heimsókn til landsins fyrir örfáum dögum. Hann sagðist vera vinur Íslendinga en um það má deila. Hver er góður og traustur vinur? Varla sá sem grefur undan vini sínum með illu umtali. Þá farnast manni best vinalausum.

Eða eins og oft er sagt: Með slíkum vini fjölgar beinlínis í óvinaflokknum. Og ekki eru allir viðhlæjendur vinir.


Ragna og Kúbu-Gylfi til æðstu metorða

Vinstrið gleymir ekki veittum stuðningi á sínum verstu árum. Ríkisstjórn Steingríms núverandi forseta Alþingis, og Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi eldri borgara, hafði stuðst við Gylfa Magnússon, hagfræðiprófessor, og Rögnu Árnadóttur, núverandi aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Þeim verður nú veglega launuð liðveislan.

Fyrst voru gerð að ráðherrum. Tilgangurinn var sá að gefa ríkistjórninni þolanlegra yfirbragð en Vinstri grænir og Samfylkingarmenn gátu. Má vera að það hafi tekist. Hins vegar varð Gylfi Magnússon sér til minnkunar í harðsvíruðum áróðri sínum fyrir því að ríkissjóður Íslands greiddi skuldir einkafyrirtækis, það er Landsbankans gamla. Þótti flestum það ekki skynsamleg ráðstöfun á almannafé enda var þessi alræmda ríkisstjórn gerð afturreka með lögin með synjun forseta Íslands á þeim og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem öll þjóðin reyndist á móti því að skattfé væri notað til að greiða skuldir óreiðumanna.

Gylfi hótaði því að Ísland yrði „Kúba norðursins“ samþykktu landsmenn ekki að ríkissjóður ábyrgðist Icesave skuldirnar. Síðan hefur hann haft viðurnefnið Kúbu-Gylfi. Þá loksins að þjóðin losnaði við vinstri stjórnina hefur efnahagur landsins blómstrað og hefur aldrei verið betri en nú. Kúba er enn á sínum stað og betra væri að Gylfi væri áfram á sínum, en svo verður því miður ekki. Enn er samt hlegið að orðum Gylfa, nú góðlátlega.

Miklar ávirðingar hvíla á þeim sem sátu í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, þeirri sem þóttist vera skjaldborg heimilanna í landinu en reyndist bara áþján og byrði fyrir þau og atvinnulífið.

Nú hefur Ragna Árnadóttir verið gerð að æðsta yfirmanni löggjafarþingsins, það er fyrir utan forseta þess. Á þingi sat hún aldrei með fullum réttindum en var með meirihlutanum í því að reyna að láta ríkissjóð greiða skuldir Landsbankans.

Hún og Gylfi voru líka fylgjandi því að landsdómsmál var höfðað gegn pólitískum andstæðingi ríkisstjórnarinnar. Þetta og fleira til er þeim báðum til ævarandi skammar.

Gylfi Magnússon verður innan skamms ráðinn seðlabankastjóri og þá má segja að allt sé fullkomnað. Vinstri menn sjái um sína. Þakklæti Steingríms, Jóhönnu, Katrínar og annarra vinstri manna fæst hér greitt úr ríkissjóði í formi bitlinga.


mbl.is Ragna nýr skrifstofustjóri Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akkúrat núna og lekkerir tónar

Orðlof og annað

Betri íslenska

Þeim sem spyrja hvernig eigi að tala betri íslensku er venjulega bent á að lesa sem mest, og lestur er mikilvægur á margan hátt. 

Af lestri lærir fólk ný orð og orðasambönd og hvernig eigi að nota þau, áttar sig á ýmsum merkingarblæbrigðum orða og orðasambanda sem það þekkir fyrir, og fær tilfinningu fyrir málsniði – hvað á saman, hvað tilheyrir hverri stíltegund, hvað á við í tilteknum aðstæðum.

Kristinn Schram, Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Rúss­neska of­ur­fyr­ir­sæt­an Ir­ina Shayak er stödd á Íslandi akkúrat núna.

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ég er viss um að sami blaðamaðurinn og skrifaði ofangreinda setningu er sá sami og skrifaði „akkúrat núna“ í frétt í Morgunblaðinu 10. júní 2019, sjá hér (athugasemd númer 6). Í henni segir:

Akkúrat núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …“

Um svona vill skrifari segja þetta:

  1. Eitt er að bulla með slettu, annað er að gera það oft (athugið ég nota ekki tískuorðið „ítrekað). 
  2. Vont er þegar sá sem þetta gerir er blaðamaður. 
  3. Enn verra er að vera samstarfsmaður blaðamannsins og hafa ekki sagt honum til. 
  4. Verst af öllu er að vera ritstjóri eða ritstjórnarfulltrúi á fjölmiðlum og hafa ekki komið auga á bullið og veitt blaðamanninum vinsamlegt tiltal.

Já, það er vandratað í henni veröld. En hver þessi fyrirsæta er veit ég ekki né heldur hvað ofurfyrirsæta er. Hins vegar veit ég hvað hetja er og ofurhetja en sú vitneskja er úr „súpermanbíómyndum“.

Tillaga: Rúss­neska of­ur­fyr­ir­sæt­an Ir­ina Shayak er núna stödd á Íslandi.

2.

17 frum­vörp hafa verið af­greidd á Alþingi í dag …

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Af hverju getur blaðamaðurinn ekki skrifað töluna sautján með bókstöfum? 

Í Morgunblaðinu 13. júní 2109 segir á blaðsíðu 34, undir millifyrirsögn:

14 árum síðar, þegar Anna María var orðin þekkt leik- og söngkona …

Af hverju ekki fjórtán árum síðar eða um 14 árum síðar, rúmlega eða tæplega? Líklega eru sumarstarfmennirnir teknir til óspilltra málanna á Mogganum. Leiðbeinir enginn byrjendum? 

Hvergi tíðkast að byrja setningu á tölustöfum, í flestum tungumálum er varað við því. Af hverju: Vegna þess að þeir eru allt annars eðlis en bókstafir og oftast til annarra hluta nytsamlegri. Á eftir punkti kemur stór upphafsstafur, þetta er reglan í flestum tungumálum. Tölustafir eru alltaf eins, eru eins og aðskotahlutir, gefa ekki það sama til kynna og bókstafir.

Ég hef haft það fyrir reglu að skrifa lágar tölur í bókstöfum, það er aðrar en dagsetningar. Margir miða við lægri tölur en eitt hundrað en aðrar með tölustöfum. Þetta veltur á smekk.

Tillaga: Sautján frum­vörp hafa verið af­greidd á Alþingi í dag, öll með mikl­um meiri­hluta at­kvæða.

3.

„Þurrkur skapar vanda á vegum á Suðurlandi og rykið er eins og jóreykur í kúrekamynd.

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 12. júní 2019.          

Athugasemd: Margir góðir blaðamenn starfa á Morgunblaðinu meðal þeirra er sá sem þekkir orðið jóreykur. Hann veit að jór er gamalt heiti og merkir hestur. Þegar einn eða fleiri hestar hlaupa á þurru landi þyrlast upp ryk. Forðum og jafnvel enn er það nefnt jóreykur, að vísu ryk, ekki reykur.

Alltaf ánægjulegt að lesa góðan texta.

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Ljós­ir og lekk­er­ir tón­ar eru áber­andi í íbúðinni …

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hér er ekki verið að tala um tónleika í íbúð, hugsanlega liti á veggjum og jafnvel húsgögnum. Því miður er engin skýring á „tónunum“. Svona er nú sérfræðitalið orðið sérfræðilegt að einfaldur lesandi áttar sig ekki á „fréttinni“.

Hér áður fyrr var allt „lekkert“, jafnvel „gasalega lekkert“. Sérstaklega föt og hárgreiðsla kvenna, húsgögn og annað mikilvægt. Síðan fór vegur þessarar slettu hnignandi sem og mörg önnur á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Enginn amast við því. 

Þegar einhver segir eitthvað vera „lekkert“ þykir það ótrúlega gamaldags („retró“) og bendir aðallega til þess að sá sem notar orðið sé nokkuð við aldur.

Orðið hefur ábyggilega borist hingað úr dönsku. Á Wiktionary segir um ættfræði orðsins:

From Middle Dutch lecker, derived from the verb lekken (“lick”) (Dutch likken). Cognate to German lecker, Afrikaans lekker, Middle Low German lecker, Norwegian lekker, Swedish läcker and Danish lækker.

Líklega lifir þetta orð ágætu lífi í þessum tungumálum þó úr þrótti þess dragi hér.

Tillaga: Ljós­ir og snotrir tón­ar eru áber­andi í íbúðinni …


Álfar, dropasteinar, dropsteinar og strá

820804-40Í grein í Morgunblaðinu er þeim hótað kynferðislegri óáran sem skemma og brjóta í íslenskum hraunhellum. Greinarhöfundur hefur þetta að eigin sögn frá þremur forvitrum álfkonum sem þó vita ekki muninn á dropsteinum og dropasteinum.  

Höfundurinn hefur þetta eftir álfunum: 

Brjóti karl dropastein missir hann þegar reisn. Brjóti kona dropastein missir elskhugi hennar getuna til samræðis.

Í enn styttra máli, konan sem brýtur steininn fær enga refsingu en álfarnir hefna sín á elskhuga hennar. Ekki þykir þetta nú mikil speki úr álfheimum. Þess ber þó að gæta að hefndarþorsti álfa er mikill eins og glögglega kemur fram í þjóðsögum. Einnig eru mörg dæmi um gjafmildi þeirra og gæsku.

Þetta er þó ekki aðalmálið heldur að umgengni í hraunhellum er vandamál, og hefur verið það lengi. Við því þarf að bregðast og það verður aðeins gert með því að loka hellum, selja aðgang að þeim og ráða gæslufólk til starfa. Greinin er skrifuð til að vekja athygli á víðtæku vandamáli, þó má deila um framsetninguna.

Svo er það hitt. Sko ... dropsteinar og dropasteinar er sitthvað.

820804-5Dropasteinar þekkjast ekki hér á landi en víða annars staðar. Þar falla kalksteinsríkir dropar ofan úr lofti hella og á gólf þeirra og þar verða til á löngum tíma drangar, drýli eða kerti úr kalki, oft litfögur. Sama er með loftið, þar teygja sig niður mjó kalksteinskerti og rennur vatn niður með þeim og svo fellur dropinn niður. Þetta eru dropasteinar, með ´a´.

Dropsteinar eru hins vegar allt annað þó myndunin sé ekki ólík. Þeir fyrirfinnast í hraunhellum. og myndast aðeins þegar hraun hættir að renna. Þá er mikill hiti í hellinum, hann bræðir úr þaki hellisins og þá falla hraundropar. Þeir renna hægt niður úr loftinu, mynda þar kerti og falla svo á gólfið og þar verða til dropsteinar sem geta orðið ansi háir.

Fyrir þrjátíu og sjö árum var mér bent á svona hraunhelli og sagt frá dropsteinunum sem þar er að finna. Þeir væru afar fallegir en þá mætti alls ekki snerta enda afar viðkvæmir og ekki fara með þá út. Ég og kunningi minn leituðum lengi að hellinum og fundum hann loks. Opið var lítið og erfitt að komast inn í hann því niðri þurfti a skríða nokkra metra eftir örmjóum göngum þar til komið var í stærri hvelfingu. Þetta var stórkostleg upplifun en nokkuð skelfileg þegar maður skreið eftir þröngum göngum og finna að ekki var mikið pláss til að fylla lungun af lofti. Þegar maður andaði að sér fannst hvernig gólf og þak gangnanna þrýsti á móti, gaf ekkert eftir.

820804-29Í stóru hvelfingunni var fjöldi undurfagurra dropsteina og raunar dropstráa, örmjórra hraunstráa, sem glömpuðu í birtunni af vasaljósunum. Þetta var mikill fjársjóður, silfur í kílóatali. Þar sem hellirinn var hæstur er hann meira en mannhæðarhár. 

Einhverjir höfðu verið þarna á undan okkur. Nokkrir dropsteinar voru fallnir, annað hvort höfðu forverar okkar rekist í þá eða þeir hrunið í jarðskjálftum. Minnugir varnaðarorðanna gættum við vel að hreyfingum okkar, vildum ekki skemma neitt. Svo hégómlegur sem ég er gat ég ekki stillt mig um annað en að stinga inn á mig litlum dropsteini til minningar um ferðina.

Svo fórum við út og þar dró ég upp fjársjóðinn en álögin höfðu brostið. Ég hélt þarna bara á gráum steini sem var um flest líkur öðru hraungrjóti. Engin auðæfi, ekkert silfur. Og þarna skildi ég staðreyndir lífsins, njóta ber náttúrunnar með augunum, ekki skemma eða reyna að flytja hana til. Hún nýtur sín best við uppruna sinn.

Tvennu er við þetta að bæta. Hellirinn hefur verið tryggilega lokaður. Sem betur fer.

Svo er það hitt. Lög álfkvennanna höfðu líklega ekki tekið gildi þegar ég fór í hellinn. Mér hafði líklega verið refsilaust að fjarlægja brotið kerti úr hellinum. Að minnsta kosti hefur engin kona kvartað (svo ég viti).

Myndir:

Efsta myndin er af þéttum „skógi“ dropsteina. Þarna kemst enginn nema skemma þá.

Miðmyndin er í göngunum að hellinum. Þar var skelfilega þröngt og alls ekki fyrir þá sem þjást af innilokunarkennd.

Neðsta myndin er af dropsteinum og stráum. Takið eftir hversu mjóir dropsteinarnir eru og á miðri mynd tengist dropsteinn við hellisloftið með örmjóu hraunstrái. Stórkostlegt fyrirbrigði.


Stingandi stafur, öryggistékk og akkúrat núna

Orðlof og annað

Hundraðkall

Í óformlegu tali um peninga er oft notaður síðari liðurinn -kall, fimmkall, tíkall, fimmtíukall, hundraðkall og svo framvegis, -kall er framburðarmynd af karl. 

Þessi notkun þekkist í málinu að minnsta kosti frá því um aldamótin 1900. Hún er líklegast komin úr dönsku þar sem orðin femkarl og tikarl voru notuð áður um fimm- og tíukrónu peninga.

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Það er ekki stingandi stafur fyrir því sem hann skrifar um mig …““

Frétt á dv.is.          

Athugasemd: Hér er furðulega tekið til orða. Má vera að þetta sé samsláttur orðatiltækja. Flestir hafa heyrt um að á einhverjum stöðum sé ekki að finna „stingandi strá“, en „stingandi stafur“. Hvað er átt við?

Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir í aðalatriðum:

Öll strá stanga/stinga, allt er e-m andsnúið, allt snýst gegn e-m. […] Orðatiltækið er kunnugt frá síðari hluta 17. aldar: Öll strá stinga mig og á það sér fyrirmynd í forni máli.

Orðin „stingandi stafur“ eru höfð eftir viðmælanda blaðsins en ég dreg stórlega í efa að svona sé almennt tekið til orða. Miklu líklegra er að hann hafi ætlað að segja sem svo að enginn stafur sé fyrir skrifunum. Má vera að hann hafi blandað orðatiltækjunum ekki nokkur stafur og stingandi strá. Sem kemur á óvart, rétt eins og „þruma úr heiðskýrum læk“ svo notað sé orðalag kunningja míns. Ein af skyldum blaðamanns er að lagfæra orðalag viðmælandans, ekki dreifa villum.

Tillaga: „Það er enginn sannleikur í því sem hann skrifar um mig …

2.

„Sterkra vinda von í Bláa lóns keppni.

Frétt í dv.is.          

Athugasemd: Vel getur verið að eitt keppnisliðið í hjólreiðakeppninni sem kennd er við Bláa lónið kallist „Sterkir vindar“. Hitt veit ég að sterkir vindar kallast á íslensku hvassviðri eða jafnvel stormur.

Af hverju þarf að nota barnarmál, tala um mikinn eða lítinn vind? Af hverju má ekki nota gömul og góð orð sem tákna vind? Því miður þekkja æ færri þessu gömlu veðurorð þó eru til á annað hundrað íslensk orð um vindstyrk, sjá hér.

Tillaga: Búist við hvassvirðri í Bláa lóns keppni.

3.

„Tyrk­nesku leik­menn­irn­ir munu hafa verið afar óhress­ir með mikl­ar taf­ir í Leifs­stöð en þar þurftu þeir að fara í gegn­um sér­stakt ör­yggis­tékk

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Þetta er ekki boðlegt. Hvað er „ör­yggis­tékk“? Líklega öryggisskoðun, leit sem allir flugfarþegar ganga í gegnum við brottför og komu.

„Tékk“ er sletta, er ekkert annað en framburðurinn á ensku sögninni eða nafnorðinu „check“. Í enskri orðabók segir um „security check“:

a search of an area or of a person and their baggage for concealed weapons or bombs.

„Öryggistékk“ er sletta sem afar fáir nota enda flestum tamara að segja öryggisskoðun. Ísavia nefnir á vefsíðu sinni öryggisskoðun og öryggisleit sem er hrein og klár íslenska.

Fyrir kemur að í talmáli sé talað um að „tékka“ á einhverju, flugmenn og fleiri tala um „tékklista“, jafnvel „tékka“ sumir á orðabókinni þegar þeir vita ekki hvernig eigi að stafsetja orð eða hvað það þýðir. Orðið er samt við það að hverfa sem er ágætt.

Hver skyldi nú vera munurinn á öryggisskoðun og „sérstakri öryggisskoðun“? Enginn, myndi ég halda, nema því aðeins að sú sérstaka væri útskýrð nánar.

Tillaga: Tyrk­nesku leik­menn­irn­ir munu hafa verið afar óhress­ir með mikl­ar taf­ir í Leifs­stöð en þar þurftu þeir að fara í gegn­um öryggisskoðun …

4.

„Lét­ust á vett­vangi slyss­ins.

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Með sorg í huga verður skrifari að gera athugasemdir við frétt vefrits Moggans um banaslys á flugvelli í Fljótshlíð. Það er einfaldlega ekki hægt birta svona fyrirsögn. 

Í fréttinni segir þar að auki:

All­ir þrír sem lét­ust í flug­slys­inu í Múla­koti í gær lét­ust á vettvangi. 

„Vettvangur“ er ofnotað tískuorð sem á væntanlega að gefa frétt virðulegra yfirbragð. Hingað til hefur þó verið látið nægja að segja að fólk hafi látist í slysi. Af frásögninni leiðir hvar það gerðist. Annað mál er ef fólk deyr síðar vegna afleiðinga slyss.

Fleiri athugasemdir má gera við fréttina en þær eru aukaatriði því efni fréttarinnar er afar sorgleg. Þó er mikilvægt er að fjölmiðlar vandi orðalag í fréttaflutningi.

Tillaga: Létust í flugslysi

5.

38% hjúkrunarfræðinema töldu sig vera að miklu eða mjög miklu leyti útbrunnin vegna námsins …

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 11. júní 2019.          

Athugasemd: Ekki byrja setningu á tölustöfum. Þetta er regla sem höfð er í heiðri um allan heim og hefur oft verið nefnd hér. Ástæðan er einfaldlega sú að tölustafir eru annars eðlis en bókstafir.

Á vefnum Grammar Monster segir:

It is considered untidy to start sentences with figures. You should either reword your sentence or write the number in full.

Mjög auðvelt er að hafa hér annan hátt á en að byrja á tölustöfum, sjá tillöguna.

Tillaga: Um 38% hjúkrunarfræðinema töldu sig vera að miklu eða mjög miklu leyti útbrunnin vegna námsins …

6.

„„Akkúrat núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …““

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 11. júní 2019.          

Athugasemd: Sérkennilegt að sjá svona forna slettu í frétt. Yfirleitt er orðið aðeins notað í talmáli. Í ritmáli dugar atviksorðið núna sem er miklu betra og eðlilegra. Þarna má sleppa „akkúrat“ án þess að merking setningarinnar breytist. 

Fréttin er illskiljanleg. Í henni segir:

Líkin eru brennd, við höldum áfram að leita að fleirum …

Ekki er ljóst hvort að þeir sem fundu líkin hafi brennt þau eða þau hafi fundist brennd. Heimildin virðist vera vefsíðan TRTWorld. Í henni segir:

"Right now we have 95 dead civilians. The bodies are burned. We are continuing to look for others," 

Ensku orðin „right now“ eru hér þýdd sem „akkúrat núna“. Þetta ber ekki gott vitni um málkennd blaðamannsins. Í fréttinni kemur fram að fólk hafi verið brennt lifandi. Ekkert er um það í frétt Moggans, reyndar er hún frekar lítil og takmörkuð en umfjöllunarefni er stærra en lesendur fá að vita.

Tillaga:Núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …“

 


Atvinnuviðtal vegna embættis Seðlabankastjóra

Gylfi atvinnuviðtal- Góðan dag.

- Góðan daginn.

- Fáðu þér sæti við borðið.

- Við hliðina á ykkur?

- Nei, góði. Á móti okkur. Þú ert umsækjandi um stöðuna, við eigum að meta þig.

- Já, ég skil.

- Og þú heitir ...?

- Ha? Þið vitið að ég er að sækja um djobbið, hafið boðað mig í viðtal en við ekki hvað ég heiti.

- Tja ... þetta er nú bara formsins vegna.

- Allt í læ ... Ég heiti Gylfi Magnússon.

- Þökk fyrir. Já, hér er umsóknin, neðst í bunkanum. Þú ert prófessor í Háskóla Íslands með reynslu sem ráðherra ...

- Frá mínu sjónarhorni séð er þetta ekki neinn bunki, bara þrjá umsóknir og ég sé héðan hvað hinir heita jafnvel þó allt sé á hvolfi.

- Við hérna í Seðlabankanum erum nú ekkert að fela hlutina, viljum helst starfa fyrir opnum tjöldum..

- Getur það verið? Enginn veit hvers vegna Már Guðmundsson réðst á Samherja, enginn veit hvers vegna vaxtastiginu hefur verið haldið hærra en í nágrannalöndunum, enginn veit hvers vegna ekki er ketófæði í mötuneytinu, enginn veit hvers vegna gúmmíbátur er í bílageymslunni og enginn veit hvers vegna stelpan í móttökunni er með hærri laun en aðalhagfærðingurinn.

- Sko, verið er að gera skýrslu um hvert og eitt af þessu sem þú nefnir og eru líkur til að þær klárist á næstunni en þær verða ekki birtar opinberlega, eru aðeins til innanhúsneyslu. En erindið við þig er ekki að tala um árás Más á Samherja, vaxtastigið, ketófæði, gúmmíbátinn, hálaunuðu stelpuna í móttökunni og fleira dularfullt og yfirnáttúrulegt í Seðlabankanum heldur kanna hvort þú sért fær um að vera Seðlabankastjóri.

- Ég er það.

- Þú segir það. Okkar er að ákveða það.

- Þú segir það ...

- Hvað áttu við?

- Sosum ekkert annað en að ég hef talað við Kötu.

- Við höfum líka talað við hana. Oft. Oftar en þú, skal ég segja þér.

- Þá skilurðu stöðuna, e´þaki?

- Víkjum nú að öðru. Segðu okkur hérna í nefndinni hverjir eru styrkleikar þínir?

- Því er auðsvarað. Ég var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms og þar var Kata líka.

- Já, það er rétt, þú sast í vinstri stjórninni?

- Nei, ég sat í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta sem sló skjaldborg um heimilin í landinu, bjargaði þeim frá hruninu sem Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Björn Bjarnason og fleiri skíthælar úr Sjálfstæðisflokkum ollu með því að einkavinavæða bankanna og stela Símapeningunum.

- Þú veist að Iðnaðarbankinn var ekki einkavæddur?

- Víst var hann einkavæddur.

- Þú veist að Verslunarbankinn og sparisjóðirnir voru ekki einkavæddir?

- Auðvitað voru þeir einvinavæddir annars væri ábyrgð Davíðs og hirðsveina hans ekki svo ýkja mikil.

- Látum þetta gott heita enda er Seðlabankinn ekki í stjórnmálum. En hverjir eru veikleikar þínir?

- Ég hef fáa veikleika, kaupi af góðmennsku minni einni saman happdrættismiða fjölmargra félagasamtaka, hef samt aldrei fengið vinning. Skrýtið. Stundum brosi ég til fátækra, svona til að sýna þeim hluttekningu. Auðvitað á maður ekki að gera svoleiðis, það gæti misskilist vegna þess að ég brosi ekki oft. En hvað á ég að gera, ég er svo góður maður. Versla oft í Bónus og tala við krakkana á kössunum, jafnvel á útlensku. Helló, há mutsj is þis æskrím ... 

- Hvernig stjórnandi ertu, Gylfi?

- Ég er elskaður og dáður af flestum sem ekki þekkja mig. Hef aldrei verið kærður fyrir einelti eða þaðan af verra. Er almennt góður við börn og málleysingja. Ekkert upp á mig að klaga.

- Þú segir flestum. Eru einhverjir sem ekki kunna að meta þig?

- Þeir eru afar fáir. Bara helv... hann Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Björn Bjarnason og nokkrir aðrir sem bera ábyrgð á hruninu sem varð 2008.

- Þú veist að kreppan árið 2008 var líka í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Það var ekki bara hér sem bankar féllu.

- Nei, þetta eru bara sögusagnir. Engar beinharðar sannanir fyrir því, bara tvær þrjár bíómyndir. Hrunið var íhaldinu að kenna. Punktur.

- Af hverju langar þig til að verða Seðlabankastjóri?

- Kata stakk upp á þessu. Hélt fyrst að hún væri að djóka, en ég er svona eins og gæinn sem fékk laun fyrir að vera borgarstjóri, mikið gefinn fyrir vel launuðu en létt inndjobb.

- Fengir þú starf seðlabankastjóra, hvað myndir þú gera fyrsta daginn?

- Því er auðsvarað. Ég mæti snemma í vinnu, svona um klukkan tíu. Færi þá beint í kaffi. Segi svo upp ritara Seðlabankastjóra enda mun hann leka öllu frá mér til Más og Davíðs. Síðan myndi ég taka niður málverkið af Davíð og setja það niður í peningabrennsluna. Þá er komið hádegi og tími fyrir ketó fæði. Eftir hádegi myndi ég beintengja krónuna við Evru og svo myndi ég breyta um nafn á vístölum. Neysluvísitala myndi til dæmis framvegis heita neyslureynslunotkunarviðminunarnordiskstatistisktölur. Um að gera að feta sig ekki í fortíðinni, vera djarfur og róttækur í breytingum.

- Þá komum við að málinu sem fæstir geta rætt um. Hverjar eru launakröfur þínar?

- Sko, ekki minna en Már hefur í dag. Annars geturðu bara gleymt mér. Ég væri nokkuð sáttur með 6.000.000.000 krónur á mánuði. Og auðvitað held ég áfram að styrkja bágstadda með því að láta Seðlabankann kaupa happdrættismiða.

- Já, þetta er nú orðið gott. Held að við höfum fengið nokkra skýra mynd af því hver þú ert, hvernig þú hugsar og hvað þú ætlar að gera.

- Þýðir þetta að ég fái djobbið sem hún Kata lofaði mér.

- Um það vil ég nú ekkert segja á þessari stundu. Við eigum eftir að taka tvo aðra í viðtal en það er nú bara formsins vegna. Við munum auðvitað mæla með ráðningu þinni eins og Kata krafðist að við gerðum. Hún tekur svo ákvörðun um ráðninguna.

- Gott því ég sagði upp hjá Háskólanum fyrir þremur mánuðum. Bömmer ef ég fengi ekki þetta djobb.


Stjórnarandstaða bíður eftir seppuku ríkisstjórnarinnar

Svo virðist sem furðuleg pattstaða sé komin upp á Alþingi. Hún er í stuttu máli þessi: Miðflokkurinn vill ræða orkupakka þrjú og helst rökræða við stjórnarliða um hann en enginn nennir því lengur.

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar eru fylgjandi pakkanum sækjast ekkert eftir því að hann verði samþykkur. Þeir bíða bara eftir stór málinu, að ríkisstjórnarflokkarnir klippi á málþóf Miðflokksins. Þá myndi gefast prýðilegt tækifæri til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að leyfa ekki lýðræðislegar umræður.

Ríkisstjórnarflokkarnir vilja samþykkja orkupakkann en þeir geta ekki klippt á málþófið vegna þess að þeir vilja ekki gefa stjórnarandstöðunni tækifæri til að kalla þá ólýðræðislega og annað þaðan af verra.

Hvernig á þá að taka á málinu?

Það er ekki hægt. Þetta er eins og á taflborði þegar allir leikir eru slæmir, hafa í för með sér tap. Á meðan líður tíminn.

Eini þingmaður stjórnarandstöðunnar sem hefur gagnrýnt málþóf Miðflokkinn er Inga Sæland úr Flokki fólksins, og það gerði hún með hávaða og látum, en er þó eins og þeir Miðflokksmenn á móti pakkanum. Inga kom reynslulaus inn í stjórnmálin en hefur tekið ótrúlegum framförum sem þó hafa kostað mikið, svita og tár en varla blóð.

Um daginn sendi stjórnarandstaða skilaboð til hennar og bað hana um að vera ekki að tjá sig um málþófið því beðið væri eftir „seppuku“ ríkisstjórnarinnar, það er að hún neyti meirihluta síns og stöðvi málþófið. Þetta skilur Inga og veður nú ekki upp á dekk nema til að gagnrýna hæstvirtan forseta Alþingis um allt annað.

Smám saman missir almenningur áhuga á orkupakkanum. Sólin skín í heiði og allt er gott. Heyskapur er að hafinn og sauðfé og túrhestar arka á fjall.

Eftir sitja þingmenn Miðflokksins og endurtaka ræður sínar og enginn nennir að rökræða við þá. Þetta er svona eins og að ætla sér að fara á kvennafar á tómu öldurhúsi.

 

Í Wikipediu segir:

Seppuku eða harakiri er virðuleg sjálfsmorðsaðferð sem samúræjar notuðu við viss skilyrði, henni mætti líkja við helgisið. Hún felst í því að kviðrista sjálfan sig fyrir framan vitni, jafnvel er annar samúræji honum til aðstoðar sem afhöfðar hann örskotsstundu eftir að hann hefur kviðrist sig. Í Japan er siður fyrir því að menn skrifi örstutt ljóð (haiku) fyrir dauðan, margir samúræjar skrifuðu slíkt áður en þeir tóku líf sitt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband