Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017

Sláandi munur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og aðalfundi Pírata

Aðalfundur PírataAðalfundur Pírata var um síðustu helgi. Um sjötíu manns mættu á hann og réði þetta fólk ráðum sínum. Þessi mynd var tekin við það tækifæri. Í síðustu Alþingiskosningum fengu Píratar 27.449 atkvæði. Fundarsókn á aðalfundinum virðist vera í litlu samræmi við fjölda kjósenda.

Landsfundur Sjfl 2015Landsfundur Sjálfstæðiflokksins verður haldinn 3. til 5. nóvember næstkomandi. Hann er að jafnaði haldinn annað hvert ár. Þessi mynd var tekin á síðasta landsfundi. Nærri tvö þúsund manns sóttu fundinn.

Þess má geta að fundir margra málefnanefnda voru þá fjölmennari en aðalfundur Pírata. Flokkurinn fékk 54.990 atkvæði í síðustu Alþingiskosningum. Styrkur flokksins felst meðal annars í því að svo margir taka þátt í málefnastarfi hans.

 


Þingmaður sækist eftir fyrsta veðrétti í dægurmáli

Sumir kalla það að „stela málum“ þegar þingmenn grípa dægurflugur eða fréttir og krefjast fundar í nefnd Alþingis til að ræða reginhneyksli, óréttlæti eða mannvonsku. Aðrir nefna þetta að „hertaka mál“.

Í sjálfu sér skiptir litlu hvað það er kallað en tilgangurinn er einfaldlega sá að verða sér út um fjölmiðlaumfjöllun.

Þegar svo er komið að þingmenn halda að skipti öllu að komast í fjölmiðla þá er eitthvað að. Um leið virðist afar skammt í einhvers konar „pópulisma“ eða að haga seglum eftir vindi. 

Að sjálfsögðu kunna fjölmörg mál að vera þess eðlis að brýnt sé að ræða þau í þingnefndum og sum eru ærið alvarleg. Það fer þó ekki á milli mála þegar þingmaður sækist eftir fyrsta veðrétti í dægurmáli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir pantar að eiga umfjöllun um áhuga kínverskra fjárfesta um kaup á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum. Enn hefur hún ekki pantað þingfund um myglu í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur. Skrýtið.


mbl.is Þurfum að vera vakandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa Kvennablaðsins um að afpersónugera fólk

Fólk sem vinnur embættisstörf þar sem hlutleysis er krafist á að gæta þess í hvívetna að persóna þeirra verði sem ósýnilegust. Ósjaldan eru góðir embættismenn út á við fölleit grámenni sem fáir vita hvaða menn hafa að geyma.

Þannig skrifar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri vefritsins Kvennablaðið. Tilefnið eru umræður um klæðaburð konu sem er ríkissaksóknari. Svo illilega mislíkaði ritstjóranum við klæðaburðinn að hún skrifaði ofangreint og bætir svo við:

Saksóknari klæðist hempu til að verða hluti af þeirri stofnun sem hann tilheyrir og starfar fyrir. Hempan beinlínis táknar hlutleysi og á að afpersónugera þann einstakling sem henni klæðist. Gamaldags kannski en er það ekki einmitt nauðsynlegt í starfi saksóknara?

Embættismenn sem klæðast flegnum stuttum kjólum eða nærbol og stuttbuxum undir flaxandi hempunni draga óneitanlega athyglina frá störfum sem þau gegna og að þeim sjálfum. Það segir sig sjálft.

Þessi orð eru með ólíkindum og eru ekkert annað en fasismi af verstu gerð, tilraun til að afmá öll persónueinkenni fólks.

Eiga íslenskir embættismenn að vera hlutlausir? Nei, þeir eiga að taka afstöðu til ólíkra mála, skera úr um álitamál og halda því fram sem hagkvæmast er fyrir íslenska þjóð og þá auðvitað með hliðsjón af þeirri stofnun sem þeir vinna hjá. Ótal dæmi eru um slíkt og á móti kemur að fjöldi dæma eru til um hið gagnstæða. Á umboðsmaður Alþingis að vera hlutlaus, á ríkisendurskoðandi, sýslumaður eða forstjóri Barnaverndarstofu? Þessir aðilar taka afstöðu og þeim er borgað fyrir það. Síst af öllu er saksóknari hlutlaus.

En ... þeir þurfa að gæta að lögum, reglum og fjölmörgu öðru. Þar með er ekki sagt að þeir séu gráir eða ósýnilegir. Þeir fara í sundlaugarnar, ganga á fjöll, skokka, sleikja sólina, hlægja og skemmta sér með vinum og ættingjum. Og það sem meira er, embættismenn koma fjölmargir í vinnuna sólbrúnir og ferskir eða kátir og glaðir eftir að hafa notið tímans eftir vinnu eða í sumarfríi.

Hvað er hlutleysi? Saksóknari sem styðst við staf eða hækjur hefur ákveðin persónueinkenni sem ekki verða frá honum tekin. Hvernig er hægt að „afpersónugera“ hann? Hárlaus maður hefur önnur persónueinkenni en sá sem er með mikið hár. Hvorn á að „afpersónugera“? Dimmraddaður maður er eftirtektarverður miðað við þann sem ekki hefur slíkan róm? Hvorn á að „afpersónugera“? Sumir eru dökkir yfirlitum, margir ljósir, aðrir með freknur. Þannig verður æ erfiðara að „afpersónugera“ einstakling. Nema auðvitað með valdboði eins og gerist víða undir yfirskini trúar.

Í íslömskum rétttrúnaði er konum víða gert að klæðast hempu, poka sem settur er yfir þær svo enginn karl fái á þær litið og geti truflast kynferðislega í daglegum störfum sínum. Þær þakka auðvitað allraáaðarsamlegast fyrir að gat sé gert á pokann svo þær sjái frá sér. Þessar konur hafa á mjög einfaldan hátt verið „afpersónugerðar“. Má vera að ritstjóri Kvennablaðsins hafi haft þessa einföldu lausn í huga þegar hún býsnast yfir embættismönnum „sem klæðast flegnum stuttum kjólum eða nærbol og stuttbuxum undir flaxandi hempunni draga óneitanlega athyglina frá störfum sem þau gegna og að þeim sjálfum. Það segir sig sjálft.“

Krafa Steinunnar Ólínu um að „afpersónugera“ fólk er merkileg. Hún er að hvetja til ofbeldis. Hvað á að gera ef fólk neitar að gangast undir „grámennskuna“? Karlmaður neitar til dæmist að nota bindi og ganga í jakka og kona sem neitar að hneppa pokann upp í háls?

Ágæti lesandi, áttarðu þig á því hversu forpokuð og gamaldags þessi skoðun Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur, ritstjóra Kvennablaðsins er? 

  • Embættismenn eiga að vera „grámenni“.
  • Saksóknari skal „afpersónugerast“.

Þetta eru einfaldlega andstyggileg viðhorf, fjandsamleg konum jafnt og körlum. Þau ganga þvert gegn þeirri hvatningu að móttaka fjölbreytileika einstaklinga, leyfa þeim að njóta sín.

Fyrir alla muni, berjumst gegn svona fasískum tilburðum til að steypa alla í sama mót. Fögnum fjölbreytileikanum.


Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Vafamál: „Stela dýrag­arðsdýr­um til mat­ar.“ Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Ofangreinda fyrirsögn má skilja á þann veg að einhver hafi stolið mat til að gefa dýrum í dýragarðinum. Nei, blaðamaðurinn á við að svangt fólk hafi stolið dýrunum og étið þau. Sé þetta réttur skilningur af hverju er það þá ekki sagt í stað þess að flækja málin? Svo má velta því fyrir sér hvort hægt sé að nota einhver önnur orð en dýragarðsdýr, tvítekning, rétt eins og bílaleigubíll.

Tillaga: Dýragarðsdýrum stolið og þau étin.

2.

Vafamál: „Símkerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins liggur nú niðri“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Líklega er símakerfið bilað. Þegar þannig stendur á hneygjast margir til að segja eitthvað annað. Líklega er þetta smit frá ensku máli,  „The phones are down“. Janvel ensk tunga hefur fjölda orða sem líka er hægt að nota: „not functioning, not functional, not in working order, not in operation, inoperative, malfunctioning, out of order, broken, broken-down, acting up, unserviceable, faulty, defective, in disrepair; not in service, unavailable for use, not in use, out of action, out of commission; informal conked out, bust, (gone) kaput, gone phut, on the blink, gone haywire …“ Þannig er íslensk líka, þeir vita sem leggja stund á lestur.

Tillaga: Símakerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins liggur nú niðri/er óvirkt.

3.

Vafamál: „Halldór hefur stigið til hliðar.“ Dæmigert orðalag í fjölmiðlum. 

Athugasemd: Núorðið hætta menn sjaldnast að mati fjölmiðlunga. Svo enskuskotnir eru þeir að ekki má lengur segja að einhver sé hættur. „He has stepped aside …,“ er stundum sagt á ensku. Enskir segja líka: „he stepped down as …“ Þá er líka átt við að maðurinn hafi hætt. Á sama hátt er sagt: „ She stepped in to take his place,“ og þá er átt við að hún hafi tekið við starfi hans. Sá sem heldur að hægt sé að nota ensku sem fyrirmynd í íslensku á við vanda að etja. Miklu betra er að segja að einhver hafi hætt því aldrei er að vita hvað sá er að gera sem stígur til hliðar. Og fyrir alla muni ekki segja að Halldór hafi stigið niður og síst af öllu að arftakinn hafi stigið inn.

Tillaga: Halldór er hættur.

4.

Vafamál: „Ef maður hefði meiðst í leik þá hefði samningurinn verið af borðinu fyrir mig og klúbbana.“ Frétt á vefsíðunni 433.is

Athugasemd: Hér er átt við að vegna meiðsla hefði ekkert orðið úr samningi, hann dreginn til baka. Á ensku er sagt: „The offer remains on the table“ eða „it is off the table“. Annað hvort er samningurinn í boði eða ekki. Borð skiptir hér engu. Íslenskan ræður við aðstæðurnar án þess. Raunar er þessi málsgrein illa skrifuð og hugsunarlaust.

Tillaga: Ef ég hefði meiðst í leik hefði samningurinn verið dreginn til baka.

5.

Vafamál: „Samkvæmt mýtunni barðist hershöfðinginn gegn íslamistum með því að nota svínsblóð í fjöldamorði.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Þetta er eiginlega óskiljanleg málsgrein. Blaðamaðurinn hefði þurft að umorða hana svo hún skiljist. Síðar í fréttinni kemur að vísu í ljós hvers kyns var. Málsgreinin hefði ekki verið út í hött hefði skýringin komið strax á eftir, það er þetta að nota svínsblóð.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

Vafamál: „Samkvæmt trúarsetningu múslima eru svín óhrein dýr og er múslimum alfarið meinað að borða kjöt þeirra.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Nokkur munur er á því að meina einhverjum eitthvað eða banna. Sá sem þetta ritar skilur sögnina að meina þannig að einhver sé hindraður: lögreglan meinaði ljósmyndara að komast að slysstað eða að einhverjum er meinað að kaupa skotvopn. Á móti kemur að margt er í lögum sem bannar borgurunum að gera hitt eða þetta. Bannað er að aka á rauðu ljósi þó enginn meini mér að gera það. Dálítið asnalegt og algjörlega stíllaust að segja eða skrifa: Svín eru óhrein dýr og bannað að borða kjöt þeirra. Lóan er þjóðarfugl Íslendinga og bannað er að borða kjöt hennar. Að vísu er þetta síðasta ekki rétt, hins vegar er bannað að skjóta fuglinn. Eftir stendur að sá sem svona ritar telst illa ritfær.

Tillaga: Samkvæmt trúarsetningu múslima eru svín óhrein dýr og er þeim alfarið bannað að borða svínakjöt.

7.

Vafamál: „„Við erum bara svolítið að missa unga fólkið frá okkur í ferðaþjónustu,“ segir Þórgunnur Torfadóttir, skólastjóri Hornafjarðar, í samtali við Vísi.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Þetta er svolítið skrýtið sem haft er eftir skólastjóranum og honum ekki til sóma. Af samhengi fréttarinnar má ráða að það sé ekki margt fólk sem fari frá kennslu í ferðaþjónustu. Það er hins vegar þetta atviksorð ‚svolítið‘ sem bögglast fyrir þeim sem þetta ritar en hann hefur ekki næga þekkingu til að skýra hvers vegna. Held þó að það sé atviksorð og strax á eftir nafnháttur sagnar sem truflar. Meira er þó að. Skólastjórinn er undir erlendum áhrifum þegar hún segir: ‚Við erum bara …‘ Atburðurinn er yfirstaðinn, hún hefur þegar misst fólkið. Um þetta var rætt í þessum pistli, sjá þar lið nr. 3.

Tillaga: Við höfum misst fólk úr kennslu í ferðaþjónustu, þó ekki marga.

8.

Vafamál: „Meirihluta stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta segjast munu aldrei, nokkurn tímann hætta að styðja hann. Sama hvað.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Niðurlagið í tilvitnuninni er dæmi um áhrif úr ensku. Blaðamaðurinn er reynslulítill og enginn les yfir það sem hann skrifar. Á vefsíðu CNN segir: „Most people who are on the Trump train say they are definitely, absolutely never getting off -- no matter what.“ „No matter what,“ er innihaldsrík fullyrðing á ensku. „Sama hvað,“ hefur enga merkingu á íslensku. Botninn vantar. Setning verður að hafa sögn til að standa undir nafni. Blaðamaður sem er glöggur, vel lesinn og skynsamur (eins og allir blaðamenn eiga að vera) hefði ekki þurft að gera neitt annað en að bæta við einu sagnorði og þá hefði allt gengið upp.

Tillaga: Meirihluta stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta segjast munu aldrei, nokkurn tímann hætta að styðja hann. Sama hvað gerist.

9.

Vafamál: „Slökkvilið þurfti að brjóta sér leið inn í íbúðina en reykur lá yfir allri íbúðinni þegar inn var komið.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Hvernig getur reykur „legið yfir íbúðinni“? Jú, hafi hann verið á næstu hæð. Af fréttinni má hins vegar ráða að reykur hafi verið í íbúðinni. Óskiljanlegt er hvers vegna blaðamaðurinn tekur svona til orða. Svo er það stóra spurningin: Var ekki reykur í íbúðinni áður en slökkviliðsmenn komust inn í hana? Illa skrifuð frétt, orðið íbúð tvítekið.

Tillaga: Slökkvilið þurfti að brjóta sér leið inn í íbúðina sem var full af reyk.

10.

Vafamál: „Krón­prins komst ekki inn án skil­rík­is“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Skilríki er fleirtöluorð og ekki til í eintölu. Án efa hefur blaðamaðurinn gert mistök í fljótfærni sinni því í greininni er rétt farið með orðið. Hins vegar er ekkert að því að stoppa kóngafólk af og krefjast skilríkja þegar það á við.

Tillaga: Krónsprins komst ekki inn án skilríkja.


Eru ljón á eða í veginum?

Hér er fjallað um málfar og stuðst við „Gott mál“, ritgerð Ólafs Oddssonar, íslenskukennara í MR, útgefin 2004.

Ólafur (f. 1943, d. 2011) er mjög eftirminnilegur fyrir þekkingu sína, ljúfa lund og góða hæfilega til að vekja athygli manns á blæbrigðum íslenskrar tungu og fornbókmenntum. Ritið sem hér er nefnt er afar fróðlegt og tekur á mörgu ambögum sem enn má sjá í fjölmiðlum, því miður.

1.

Vafamál: „Fótboltamaðurinn sparkaði boltanum upp völlinn.“ Algengt í íþróttafréttum fjölmiðla.

Athugasemd: Þetta er einfaldlega rangt vegna þess að fótboltavöllur er ekki lóðréttur.  Margir íþróttafréttamenn halda að þeir geti búið til einhvers konar „íþróttamál“. Við getum ekki heldur farið „niður“ til Spánar. Betra er að fara suður til Spánar og norður til Íslands, alls ekki „upp“ til Íslands.

Tillaga: Fótboltamaðurinn sparkaði boltanum fram völlinn. 

2.

Vafamál: „Þetta tilboð er með öllu óásættanlegt.“ Algengt orðalag í fréttum fjölmiðla.

Athugasemd: „Óásættanlegt“ er hrá þýðing úr ensku: „unacceptable“. Íslenskan á hér mörg ágæt orð: ótækur, óviðunandi, fráleitur, kemur ekki til greina/álita. Sama má segja um orðið „ásættanlegt“.

Tillaga: Þetta tilboð er fráleitt.

3.

Vafamál: „Bankarnir eru að skila góðum hagnaði um þessar mundir.“ Algengt orðalag í fréttum fjölmiðla.

Athugasemd: Sumir nota alloft orðasambandið vera + nafnhátt af aðalsögn. Dæmi: Víkingar eru að standa sig vel í þessum leik. Betra væri: Víkingar hafa staðið sig vel í þessum leik. Annað dæmi: Athafnamenn eru að græða mikið um þessar mundir. - Þetta eru erlend máláhrif og hekki mælt með þessu orðalagi hér.

Tillaga: Bankarnir skila góðum hagnaði um þessar mundir.

 

4.

Vafamál: „Þegar þú ert að klífa hæstu fjöll heims þá þarft þú að nota súrefnisgrímu.“ Algengt orðalag í tal- og ritmáli.

Athugasemd: Fornafnið ‚þú‘ hefur lengst af haft merkinguna: persóna sem er ávörpuð. Dæmi: Þú ert vinur minn - Æ meir hefur borið á því að menn noti fornafnið ‚þú‘ sem óákveðið fornafn, það er „maður“. Það er talið ættað úr ensku enda getur fornafnið ‚you‘ haft þessa merkingu. Það leiðir og oft til stílhnökra vegna nástöðu eins og fram kemur í tilvitnuninni.

Tillaga: Þeir sem klífa hæstu fjöll heims þurfa að nota súrefnisgrímu.

5.

Vafamál: „Sumir vilja hafa hér bjór á boðstólnum.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Sumir virðast ekki skilja orðalagið ‚hafa eitthvað á boðstólum’. Það merkir að hafa e-ð‚ til sölu eða hafa e-ð fram að bjóða. Boðstólar tákna bekki eða borð sem vörur voru fram boðnar á. Að hafa e-ð á boðstólum -  ekki: ?boð- eða borðstólnum - merkir því upphaflega að hafa vöru á slíkum bekkjum eða borðum eða með öðrum orðum: að hafa eitthvað til sölu. 

Tillaga: Sumir vilja hafa hér bjór á boðstólum.

6.

Vafamál: „Hún fór villur vegar.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Hvort er betra: Hún fór vill vegar (vega) eða: Hún fór villur vegar (vega)? - Hið fyrra er betra. Orðið ‚villur‘ er lýsingarorð, en ef. er svonefnt tillitseignarfall. Þetta er með sama hætti og þegar sagt er: Hann er illur/hún er ill viðureignar. Orðalagið ‚fara villur vega‘, þýðir að villast, vera villtur. Menn segja: Hann fór villur, - þeir fóru villir, - hún fór vill og þær fóru villur vega(r).

Tillaga: Hún fór vill vega.

7.

Vafamál: „Mörg ljón eru í veginum.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Þekkt er orðtakið ‚Það eru mörg ljón á veginum‘, það er margt verður hér til hindrunar eða veldur erfiðleikum. Líkingin er auðskilin er  stundum virðast menn ekki skilaorðtakið og tala þá um ‚ljón í veginum‘. þetta afbrigði styðst ekki við íslenska málvenju.

Tillaga: Mörg ljón eru á veginum.

8.

Vafamál: „Snuðra hljóp á þráðinn í samningaviðræðum.“ Þekkt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: orðið ‚snurða‘ þýðir í bókstaflegri merkingu harður samsnúningur á snúnum þræði eða hnökri. Í yfirfærðri merkingu er það haft um óvænt ósamkomulag eða vandræði sem upp koma. Ekki er ráðlegt að rugla þessu saman viðsögnina ‚snuðra‘, en hún merkir njósna eða forvitnast um eitthvað.

Tillaga: Snurða hljóp á þráðinn í samningaviðræðum.

9.

Vafamál: Söluaðilar eru ósáttir.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Orðið ‚aðili’ er oft ofnotað. Hér má nefna framkvæmdaaðila, samkeppnisaðila, söluaðila, margumrædda aðila vinnumarkaðarins og jafnvel aðila hjónabands. Oft er hægt að orða þetta betur með öðrum hætti.

Tillaga: Seljendur eru ósáttir.

10.

Vafamál: „Hinn 16. nóvember 2017 verður 210 ára ártíð Jónasar Hallgrímssonar.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Allir þekkja orðið ‚afmæli‘. En bent skal á að orðið ‚ártíð‘ tengist ekki fæðingu manna heldur dauða og það þýðir dánardægur. Æskilegt er að rugla þessu ekki saman. Jóna Hallgrímsson var fæddur 16. nóvember 1807 og hann lést 26. maí 1845. 

Tillaga: Hinn 16. nóvember 2017 verða 210 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.

 

 


Tilgerðarlegt lýðræði eða einn maður, eitt atkvæði?

Út af fyrir sig er það virðingarverð tilraun að finna aftur upp hjólið. Má vera að sá hringur sem forðum var fundinn upp sé ekki nógu góður né heldur þær tilraunir og endurbætur sem síðan hefur hugsanlega verið reynt að gera á honum. Þó flögrar sú hugsun að manni hvort tímanum sé ekki betur verið í önnur og gagnlegri verkefni.

Rétt eins með hjólið er sífellt verið að gera tilraunir með lýðræðið. Þær hafa sjaldnast tekist mjög vel, niðurstaðan verður yfirleitt sú sem forðum þótti reynast best, einn maður, eitt atkvæði.

Vörður í Reykjavík hefur síðustu árum ekki riðið feitum hesti frá prófkjörum sem félagið hefur staðið fyrir. Þvert á móti, því sífellt fækkar þeim sem þátt taka, jafnvel þó hver kjósandi fái úthlutað einu atkvæði. Vissulega er ekki Verði einum um að kenna heldur ábyggilega líka þeim sem hafa verið valdir til forystu í landsmálum og borgarmálum sem og kynningu á stefnumálum. Framhjá því verður þó ekki skotist að Vörður hefur síst af öllu náð að kynna prófkjör og frambjóðendur nægilega, afleiðingin er flestum ljós sem líta á kjörsóknina.

Nú hefur Vörður gerst þreyttur á grundvallaratriðum lýðræðisins og ætlar að gera tilraunir með prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vonandi í því skyni að reyna að auka þátttöku almennings. Þetta hljómar dálítið sósíalísískt, ekki satt, lýðræði með undantekningum og skilyrðum. Hugmyndirnar eru eins og hugsanlegar endurbætur á hjólinu, þær munu ábyggilega gera það betra og þægilegra. En hve lengi hægt að endurbæta hjól svo það virki betur?

Staðreyndin er einfaldlega sú að hjól undir hjólbörum, hjólastóli, reiðhjóli eða bíl snúast á sama hátt í öllum tilfellum. Sá sem vill endurbæta hjólið ætti frekar að einbeita sér að veginum, grundvellinnum, sem það rúllar eftir. 

Vörður ætti á sama hátt að leggja meiri rækt við þann grundvöll sem lýðræðið byggir á. Grundvöllurinn undir það eru stefnumálin og kjósendur ekki skraut eða tilgerð. Einn maður, eitt atkvæði og sá sem fær þau flest er forystumaðurinn. Einfaldara og betra verður það aldrei, rétt eins og hjólið. Hjól er bara hjól og verður ekkert annað. Lýðræðið er í sjálfu sér einfalt, en lengi má þó endurbæta grundvöllinn og kynninguna.

Má vera að stjórnarmenn í Verði viti þetta og telji áminninguna einskis verða og þeirra mesta skemmtun sé tilraunin ekki kynningarstarfið. Þá eru þeir á miklum villigötum - á þeim rúllar hjólið illa.


mbl.is Á von á að ráðið samþykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flöskuskeyti sigla og sjófuglamenn fylgjast með

Flöskuskeyti 1Hugsanlega er lélegt málfar og óskipulega skrifaðar fréttir ekki alfarið blaðamönnum að kenna heldur líka fréttastjórum og ritstjórum fjölmiðla sem vanrækja skyldur sínar. Eiður heitinn Guðnason orðaði það þannig að enginn les yfir eða fylgist með því sem birt er.

Ég hef ekki nánda nærri sömu þekkingu og kunnáttu og Eiður í íslensku máli en bragð er að þá barnið finnur. Manni getur nú blöskrað. 

Hér er frétt á mbl.is sem ég ætlaði að lesa mér til fróðleiks en hún er svo hroðvirknislega skrifuð að efni hennar fór fyrir ofan garð hjá mér, ég gleymdi mér í orðalagi og orðavali. Gott er að smella á myndirnar hægra megin til að stækka þær og gera skýrari.

Rauðar undirstrikanir eru villur og þær bláu eru endurtekningar sem sumir nefna nástöðu, síbylju eða jórtur.

Hér verður ekki fjallað um allar villurnar sem eru undirstrikaðar, aðeins nokkrar.

Líklega er hægt að orða það þannig að flöskuskeytum sé „sleppt“ í hafið. Betur fer á því að segja að þeim hafi verið varpað, kastað eða hent í hafið vegna þess að um er að ræða dauða hluti. Við sleppum fiskum, fuglum og dýrum og þau forða sér.

Þeir sem ekki eru vanir skrifum og hafa ekki góða þekkingu á íslensku máli segja oft á tíðum að eitthvað „samanstandi“ af hinu og þessu. Afar auðvelt er að skrifa sig framhjá þessari dönsku slettu sé þekking og vilji fyrir hendi.

„Flöskuskeytin rekja vetrarstöðvar farfugla.“ Hvernig á að skilja þetta? 

Flöskuskeyti 2Hvað eru „sjófuglamenn“? Hverjir eru „aðilar“? Hvernig geta flöskuskeyti „siglt“? Hvað er átt við með að flöskuskeytum hafi verið „hent út“, út í geim?

Fyrir mörgum, mörgum árum starfaði ég sem blaðamaður á Vísi. Þá var það regla að Elías Snæland Jónsson, fréttastjóri, las yfir öll handrit sem áttu að birtast. Hann sendi þau oftast til baka ef hann þurfti að gera einhverjar athugasemdir. Þó vont væri að vera kallaður á teppið fyrir villur lærði maður af tiltalinu. Svona vinnubrögð eru varla tíðkuð lengur. Má vera að fréttastjórar og ritstjórar hafi ekki lengur áhuga á íslensku máli.

 

 


Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Hér eru gerðar nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. 

1.

Vafamál: „Þvílíka gullið sem fer í Hafnarfjörðinn ef FH kemst áfram.“ Fyrirsögn á visir.is.

Athugasemd: Þetta er tóm vitleysa, skiptir engu þó haft sé orðrétt haft eftir einhverjum. Blaðamanni ber að leiðrétta og laga vitleysu sem haft er eftir viðmælandanum.

Tillaga: Miklar tekjur sem koma til Hafnarfjarðar ef FH kemst áfram.

2.

Vafamál: Minnkandi vatnavextir hafa verið í Múlakvísl …“ Upphaf fréttatíma hjá Ríkisútvarpinu laugardaginn 29. júlí 2017, kl. 11:00

Athugasemd: Minnkandi aukning … Þetta hljómar hálfkjánalega. Af hverju er ekki hægt að vanda sig og segja að dregið hafi úr vatnavöxtum eða vatnið hafi rénað? Man eftir því að ég fékk bágt fyrir að skrifa í ritgerð í MR að gæði hafi verið góð. Ofangreint er af sama stofni.

Tillaga: Dregið hefur úr vatnavöxtum í Múlakvísl … Eða: Vatn í Múlakvísl hefur rénað ... 

3.

Vafamál: Yf­ir­völd í Ástr­al­íu hafa komið í veg fyr­ir hryðju­ver­kárás sem bein­ast átti gegn flug­vél.“ Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Eitthvað er að þessari málsgrein. Hvers átti flugvélin að gjalda. Eflaust má halda því fram að hægt sé að fremja hryðjuverk gegn samgöngutækjum. Flestir myndu þó orða þetta á annan hátt enda ábyggilega til lítils að eyðileggja einhver tæki ef mannslífin fylgja ekki með.

Tillaga: Yfirvöld í Ástralíu hafa komið í veg fyrir hryðjuverk í lofti. Eða: … í flugvél.

4.

Vafamál: Vegagerðin og lögreglan hafa vaktað ánna [Múlakvísl] frá því í gærkvöldi og stóðu sjónpóst á brúnni austan við Vík. Brúin er nýleg og á að standa jökulhlaup en árið 2011 sópaðist gamla brúin í burtu. Nú er vegurinn hannaður svo vatn flæði yfir hann til að hlífa brúnni.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Margt er fljótfærnislega skrifað í þessari tilvitnun. Hið fyrsta er ritun á nafnorðinu ‚á‘ en þarna er það í þolfalli og á að rita ‚ána‘. Sjónpóstur er undarlegt orð sérstaklega vegna þess að yfirvöld vöktuðu ána. Að ‚standa sjónpóst‘ er nokkuð yfirdrifið þar sem einfalt er að orðað það þannig að áin hafi verið vöktuð. Sjónpóstur er líklega þýðing úr öðru máli, finnst ekki í orðabók. Að öðru leyti er orðalagið frekar hjákátlegt. Múlakvísl er jökulfljót, ekki á.

Tillaga: Frá því í gærkvöldi hefur vegagerðin og lögreglan vaktað fljótið af brúnni. Hún var byggð eftir að sú gamla eyðilagðist í jökulhlaupinu árið 2011. Litlar líkur eru taldar á því að nýtt hlaup eyðileggi brúna því aðstæður eru þannig hannaðar að vegurinn lætur fyrr undan vatnavöxtum.

5.

Vafamál: Fjölmenn leit er hafin að tveimur aðilum á Fimmvörðuhálsi, …“ og „Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út til að sinna eftirgrennslan eftir konunni …“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Frekar er það kjánalegt að kalla fólk ‚aðila‘, að minnsta kosti í þessu samhengi, það er þó gert tvisvar í fréttinni. Sé verið að leita að fólki ber að segja það berum orðum, ekki fela í einhverri stofnanamállýsku. Í stað þess að nota geldan nafnorðastíl og tala um að „sinna eftirgrennslan“ fer betur á því að segja björgunarsveitir hafi leitað, svipast um eða bara grennslast fyrir um týnt fólk.

Tillaga: Fjölmenn leit er hafin að ungu fólki á Fimmvörðuhálsi … Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út til að grennslast fyrir um konuna/leita/svipast um eftir …

6.

Vafamál: Björgvin hækkaði sig upp um tvö sæti frá því í fyrra.“ Fyrirsögn á visir.is

Athugasemd: Þegar eitthvað eða einhver hækkar þá er stefnan upp á við. Óþarfi að bæta við „upp“. Í sömu keppni náði Íslendingur sem var efsta sæti í fyrra ekki sama árangri. Enginn myndi segja að hann hefði lækkað niður í þriðja sæti í kvennaflokki.

Tillaga: Björgvin hækkaði sig um tvö sæti frá því í fyrra.

7.

Vafamál: Enginn, nema morðinginn, veit hvað gerðist eftir að Charlene kyssti móður sína bless á biðstöð strætisvagna klukkan 19.15.“ Frétt í dv.is

Athugasemd: Þegar einhver fer er oftast sagt að sá kveðji, oft með kossi. Að kyssa einhvern bless er ekki beinlínis rangt en telst frekar barnamál. „Kyssti mömmu bless“, segir í millifyrirsögn. Greinilegt að blaðamaðurinn er ekki vel að sér og lítil von til að þekking hans batni þar sem enginn kemur með ábendingar eða leiðréttingar.

Tillaga: Enginn, nema morðinginn, veit hvað gerðist eftir að Charlene kvaddi móður sína með kossi á biðstöð strætisvagna klukkan 19.15.

8.

Vafamál: Það er kannski ekki að furða að hún hafi hlegið því eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan samanstóð salatið af hráum lauk og tómötum og engu öðru.“ Frétt í dv.is

Athugasemd: Ofmælt er að ofangreind tilvitnun sé úr frétt, þetta er einhvers konar „ekkifrétt“ um stúlku sem fékk ekki það sem hún pantaði á veitingastað einhvers staðar úti í heimi. Illa skrifandi „fréttamenn“ grípa oft til samsetta orðsins „samanstanda“. Matur er oft sagður samanstanda af hinu og þessu í stað þess að segja að milliliðalaust að í réttinum sé þetta eða hitt.

Tillaga: Ekki er að furða þó hún hafi hlegið því eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var salatið ekkert annað en hrár laukur og tómatar.

9.

Vafamál: Clement ráðger­ir að Gylfi fari.“ Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Vissulega er til sagnorðið ‚að ráðgera‘ en það þykir að minnsta kosti ekki gott til notkunar á þennan hátt, er raunar herfilega ljótt. Orðasambandið ‚að gera ráð fyrir‘ kemur að öllu leyti í staðinn. Einnig má nota mörg góð sagnorð eins og að telja, búast, halda og fleiri.

Tillaga: Clement gerir ráð fyrir að Gylfi fari, … telur að Gylfi fari, … býst við að Gylfi fari, … heldur að Gylfi fari og svo framvegis

10.

Vafamál: „„Ég á erfitt með að tjá mig um þetta því það er engin kvörtun á mínu borði,“ sagði Guðjón Ármann í fyrstu. En það var í gær.“ Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Hvers vegna byrjar blaðamaðurinn setningu á samtengingunni ‚en‘? Tilvitnunin skilst ekki. Sagði maðurinn þetta í gær eða á hann við að kvörtunin hafi ekki verið á borði hans í gær en hún sé þar núna? Orðalagið ‚í fyrstu‘ og ‚í gær‘ rugla lesandann svo ekki sé talað um samtenginguna, og úr verður bull. Blaðamaðurinn les því ekki yfir það sem hann skrifar.

Tillaga: Engin tillaga er gerð því þetta skilst ekki.

 

 

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband