Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Ríkisstjórnin veðsetur landið og miðin, hvað er þá eftir

Ekki þarf nema áframhaldandi alþjóðlega kreppu til að við getum ekki staðið við afborganir af Icesave samningnum. Og þegar skilið er á milli íslenskrar þjóðar og þess lands sem hún hefur átt í ellefuhundruð ár þá er hún ekki lengur sjálfstæð þegar gengið hefur verið á veðin heldur á skuldaklafa þeirra sem einu sinni þóttust vera bandamenn hennar.

Þjóðin kaus alls ekki um Icesave í síðustu kosningum. Allt tal um slíkt er þvert á alla skynsemi og er hreinlega ósatt.

Það er hins vegar dagsatt að fjármálaráðherra fullyrti fyrir síðustu kosningar að niðurstaða samningaviðræðna við Breta og Hollendinga yrðu glæsilegar fyrir Íslendinga. Fyrir þessi orð þyrfti maðurinn að gjalda.

Samningurinn er slíkur að þjóðin mun eiga mjög erfitt með að standa við hann. Ríkisstjórnin hefur veðstett eignir þjóðarinnar fyrir skuldum óreiðumanna. Þetta er hin sama ríkisstjórn og vill setja ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindirnar. Má þá búast við því að bresk stjórnvöld nái loks því markmiði sínu að sölsa undir sig fiskimiðin þegar hin íslenska þjóð lendir í vandræðum með afborganir af þessum endemissamningi?

Í grein í Morgunblaðinu hefur Jón Daníelsson fært mjög góð rök fyrir því að hafna beri Icesave samningnum. 

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og alþingismaður hefur einnig fært fyrir því góð rök að afborganir af Icesve megi aldrei fara yfir 1% af vergri landsframleiðslu.

Staðan í þjóðmálum er slík að nú er nausynlegt að þingmenn snúi baki saman og myndi þjóðstjórn. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á slíku þá er það á þessari ögurstundu.


mbl.is Þjóðin kaus um Icesave í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórn - ekki stjórn og stjórnarandstöðu

Þegar upplýsingar vantar verða til kviksögur. Vandi ríkisstjórnarinnar er að frá henni koma upplýsingar seint og illa.

Það styrkir hins vegar ekki virðingu Alþingis þegar þingmenn blaðra um allt og ekkert og taka jafnvel kjaftasögur og bera þær undir ráðherra í opinberum fyrirspurnatímum.

Á viðsjárverðum tímum verður bæði stjórn og stjórnarandstaða að gæta sín. Þingmenn verða að gæta að virðingu sinni, sýna yfirvegun og skynsemi í umræðum.

Staða mála er slík að nú þarf að mynda þjóðstjórn til að vinna að þeim efnahagsvanda sem við eigum við að etja.

Það er ekki forsvaranlegt að við þessar aðstæður skiptist Alþingi í stjórn og stjórnarandstöða. Þetta er ekki lengur pólitískur fótbolti heldur barátta um líf eða dauða sjálfstæðs þjóðfélags.


mbl.is Ekki krafa um þjóðnýtingu lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfnuð með verkefnin sín en hvað með raunveruleikann?

Auðvitað ber að fagna því að ríkisstjórnin skuli vera hálfnuð með 100 daga áætlun sína. Það skiptir þó minnstu máli. Aðalatriðin eru einfaldlega þessi:

 

  1. Enn eru um 18.000 manns atvinnulausir
  2. Verðbólgan lækkar ekki
  3. Stýrivextir eru 13% en nálægt núlli í nágrannalöndunum
  4. Bankarnir eru lokaðir atvinnufyrirtækjum
  5. Gjaldþrot fyrirtækja vegna verkefnaskorts er gríðarlegt
  6. Gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað afar mikið
  7. Fjárhagslegur vandi heimilanna er ofboðslegur
  8. Viðskipti við útlönd eru afar erfið vegna stöðu krónunnar

 

Og lái mér einhver þótt sá grunur læðist nú að manni að ríkisstjórnin sé barasta ekki að gera það sem hún á að gera. Eftir fimm mánuði mælist árangurinn í framlögðum skjölum en ekki fækkun á atvinnuleysisskrá, lækkun verðbólgu, styrkara atvinnulífi, traustum bönkum, færri heimilum í fjárhagsvanda, fækkun á gjaldþrotaúrskurðum og auðveldari viðskiptum við útlönd.

Nei, 21 verkefni af 48 kláruð!

Teikna mynd á gúmmískó, raða til á skrifborðinu, senda samúðarkveðjur til fjölskyldu sem missti íbúðina ... Jú, verkefnin geta verið mörg og mismunandi. Hver hefur auga með þessari ríkisstjórn og bendir henni á að hún sé hreinlega ekki að vinna í réttum málum eða vinna rétt?


mbl.is Segir 21 verkefni af 48 afgreidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk eða málefnaleg ákvörðun um stýrivexti?

Líkast til hefur peningastefnunefnd Seðlabankans verið í pólitískri klemmu frá upphafi. Hún var einfaldlega sett á fót til að vera hvort tveggja, annars vegar framlenging hins pólitíska valds í stjórnarráðinu og hins vegar einnig til að gera ákvörðun Seðlabankans sennilegri og faglegri í augum almennings.

Auðvitað er þetta tvennt ósamrýmanlegt. Munum að Davíð Oddsson var rekinn úr Seðlabankanum og þá var peningastefnunefndin sett á laggirnar, gjörsamlega að nauðsynlausu. Tilgangurinn var sá að láta svo líta út fyrir að vaxtaákvarðanirnar væru faglegar. Engu skipti þó stjórn Seðlabankans hafi ávallt rökstutt ákvarðanir sínar.

Hvað hitt varðar þá hefur peningamálastefnunefndin ekki alfarið leyft sér að fara eftir dagskipunum forsætisráðherra  og fjármálaráðherra enda hafa stýrivextir ekki lækkað nema um 5% á þeim tíma sem vinstri menn hafa stýrt landinu.

Niðurstaðan er því sú að brottrekstur Davíðs Oddssonar hafði engar þær jákvæðu afleiðingar sem pólitíkusar vinstri manna lofuðu. Þvert á móti hefur stjórn bankan verið á mestu leyti á sama veg og var á tíma Davíðs.

Þá er það málið sem mestu varðar og það eru afskipti stjórnmálamanna að vaxtaákvörðunum. Þó svo að ég sé einn þeirra sem telja að stýrivextir þurfi að lækka niður í 5%, jafnvel enn neðar, þá krefst ég þess að það verði gert á faglegum forsendum. Ég hafna alfarið „pennastriksaðferðum“ vinstri stjórnarinnar, að hún geti einfaldlega sett fram óskalista og þá verði farið í að uppfylla hann þrátt fyrir að aðstæður leyfi það ekki.

Það er einfaldlega verra að þvinga stýrivexti niður á pólitískum forsendum heldur en að halda þeim í 13 eða 18% af málefnalegum ástæðum.


mbl.is Peningastefnunefnd í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband