Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Samfylkingin skipuleggur atvinnuhúsnæði í grænum Laugardal

Hjálmar Sveinsson, varaformaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir rétt að búið sé að opna fyrir möguleikann á því að á þessu svæði rísi tveggja til fjögurra hæða háar byggingar en að ekkert sé ákveðið í þeim efnum. 

aðalskipulag

Þetta segir í frétt á bls. 19 í Morgunblaðinu í dag. Þar viðurkennir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að verið sé að ræða um breytingar á nýtingu Laugardals, byggja í stað þess að hafa hann sem grænt svæði til útivistar. 

Þarna er fyrirhugað að byggja múr, blokkarmúr, þar sem nú er gróskumikill trjágróður og mikil prýði fyrir dalinn og Suðurlandsbraut. 

Að vísu er Samfylkingin á harðahlaupum frá þessum áætlunum og þykist ekkert vita, þær séu á annarra vegum. Formanninum, Hjámari Sveinssyni, vefst hreinlega tunga um höfuð í þessu viðtali og hann fabúlerar um „tortryggni“, „... mikilvægt að menn átti sig á staðreyndum...“ og annað álíka. Alveg dæmigert fyrir talsmáta pólitísks flóttamanns í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar, bendir á að fjögurra hæða blokk verði sex hæða frá Laugardal séð vegna hallans í landinu.  Þar að auki verður pláss myndað fyrir baklóðir blokkanna. Hann segir í viðtalinu við Morgunblaðið:

Við vitum ekkert hvernig starfsemi verður þarna svo þar gætu menn verið með bílaverkstæði, bílhræ og vörugáma sem myndu blasa við fólki frá dalnum séð. Þessar blokkir takmarka og jafnvel eyðileggja svæðið fyrir neðan varðandi möguleika á íþróttavöllum og skuggavarpið verður alveg rosalegt. 

Skúli Víkingsson, jarðfræðingur og formaður samtakanna Verndum Laugardalinn, segir í viðtali við Morgunblaðið.

Ef þessi áform ganga eftir munum við ekki sjá gróður og göngustíga heldur bakhliðar blokka sem verða með svipuðu móti og gengur og gerist í Síðumúla

Ég efa það ekki að í dag flykkjast sumir á kjörstað og geta ekki beðið eftir því að greiða Samfylkingunni atkvæði vegna einstakrar frammistöðu í skipulagsmálum borgarinnar síðustu fjögur árin svo ekki sé talað um þá framtíðarsýn sem hér er lýst.

Ég er að minnsta kosti ekki einn þeirra og kýs Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst vegna skipulagsmála.


Hvar á að kjósa?

Heimili

Ég flutti milli hverfa í vetur sem leið og var ekki alveg viss hvort ég ætti að kjósa í gamla hverfinu eða því nýja. Af rælni leitaði ég á vef Sjálfstæðisflokksins, xd.is, og sá að þar eru þeir með þetta rafrænt.

Ég þurfti aðeins að slá inn kennitöluna mína og þá kom í ljós að ég ætti að kjósa í nýja hverfinu.

Í gamla daga var alltaf miðað við kjörskrá frá 1. desember en nú er þetta allt miklu fullkomnara og kjörskráin nærri því rétt miðað við að fólk tilkynni tímanlega um flutning.

Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá stjórnvöldum og ekki síður Sjálfstæðisflokknum. 


Ég kýs Sjálfstæðisflokkinn og og horfi til nýs dags

Samfylkingin gerði ekkert til hjálpar heimilunum eftir efnahagshrunið, var eiginlega til óþurftar í ríkisstjórninni 2009-2013. Forystu menn flokksins hlógu að núverandi ríkisstjórnarflokkum þegar þeir settu í stefnuskrá sína að leiðrétta þann skaða sem heimili landsins höfðu orðið fyrir.

Og þegar ríkisstjórnin efndi loforð sitt hélt Samfylkingin því fram að leiðréttingin væri of lítil og fleiri fengju aðstoð en þurftu ...

Á sama tíma lofar Samfylkingin í 3000 leiguíbúðum á næsta kjörtímabili, sem þýðir 75 milljarðar króna. Flokkurinn pælir hins vegar ekkert í fjármögnuninni né heldur hvort leigjendur séu allir í sama vanda, ábyggilega.

Ég skal segja ykkur, lesendur góðir, að það er slæmt að vera leigjandi. Ég hef reynsluna. Það er miklu, miklu betra að vera eigandi íbúðar og ráða yfir sínu hvar og hvernig maður býr. 

Þess vegna á að hvetja almenning til að eiga sína íbúð, letja til leigu. Kjósi einhverjir leigumarkaðinn á borginni ekki að vera á honum í samkeppni við þá sem vilja leigja út eignir sínar.

Samfylkingin heldur upp bæði fasteignaverði og okurleigu í borginni með því að bjóða ekki upp á nægilega margar lóðir til nýbygginga. Þannig hefur það verið síðustu árin, þannig var það með R-listann alræmda.

Þess vegna hefur Mosfellsbær, Kópavogur, Seltjarnarnes, Garðabær og Hafnarfjörður stækkað margfalt meira hlutfallslega en Reykjavík.

Hversu skynsamlegt er að kjósa þá sem lofa öllu fögru en hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að framkvæma hlutina? Hvernig er hægt að kjósa Samfylkinguna og 75 milljarða leiguíbúðaloforð hennar? Ég hef hlustað á Dag B. Eggertsson fullyrða að hægt sé að standa við loforðið, en ég skil ekki Dag. Svo virðist sem hann komist aldrei að kjarna málsins ... en mikil ósköp sem hann talar fallega og lengi, of lengi.

Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að ég ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum. Ég lítil til framtíðar, horfi til nýs dags með bjartsýni.

Ég skora á alla, hvar í sveitarfélagi sem þeir búa, að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  


Loksins, loksins vefur um Vífilsfell

vifilsfell.isÍ dag náðist ánægjulegur áfangi fyrir mig og margt fleira gott fólk. Vefurinn um Vífilsfell var opnaður eftir nærri eins árs undirbúning og vinnu.

Við fengum bæjarstjórann í Kópavogi, Ármann Kr. Ólafsson, til að opna vefinn formlega. Hann tók vel í málaleitun okkar og hefur greinilega áhuga á verkefninu og erindinu sem fylgir.

Í upphafi var ætlunin að búa til lítinn bækling um Vífilsfell og hann var kominn á góðan rekspöl þegar ég og fleiri áttuðum okkur á því að pappírinn var afar takmarkandi og annað hvort var að gefa út bók eða setja þetta á vefinn. 

Ég byrjaði að skipuleggja vefinn síðasta haust og þá fór maður að leita að myndum. Alla tíð hef ég tekið mikið af myndum, þær eru eiginlega nokkurs konar dagbókarfærslur í ferðalögum og gönguferðum. Vandinn er sá að maður á aldrei réttu myndirnar þegar komið er að útgáfu af einhverju tagi. Samt er alveg merkilegt hvernig hefur úr ræst. Myndin á forsíðu vefsins tók ég til dæmis í yndislegu veðri í ágúst 2006 og síðustu myndirnar tók ég í þremur ferðum í maí. Eftir það small vefurinn saman.

0J2B7748

Vonandi gangast hann lesendum og þá sérstaklega þeim sem vilja ganga á Vífilsfell. Þá til tilganginum náð.

Annars er það nú þannig að Vífilsfell varð ekki fyrir valinu út af einhverri tilviljum. Um fjallið hef ég farið síðustu áratugi með mörgu skemmtilegu og góðu fólki og smám saman lært að þekkja það. Hins vegar var það ekki fyrr en eftir margar ferðir upp norðausturhornið að ég fór að pæla í öðrum uppgönguleiðum. Þá áttaði ég mig á fegurð fjallsins. Við fórum að að fara upp gilið vestan við fjallið. Fyrri hluta árs er það auðfarið, snjór í botninum en dálítið bratt. Seinni hluta árs er snjórinn farinn og dálítið klungur í gilsbotninum. Þegar komið er upp úr gilinu sést til toppsins og þar er alveg stórkostlegt svæði, það er suðvestan megin. Þarna er hægt að skoða alveg óskaplega fallegt móberg með margvíslegri lögun og formi, smágert og stórgert, og þarna eru magnaðir útsýnisstaðir til jafnt austurs og vesturs svo ekki sé talað um útsýnið af toppnum.

Ég fullyrði það hér að Vífilsfell er fallegasta fjallið á Suðvesturlandi sé tekið mið að þeim náttúruundrum sem þar eru. Um leið er fjallið vanmetið. Meðan hundruð eða þúsundir manna raða sér upp í göngu á Þverfellshorn í Esju sjást örfáir í Vífilsfelli. Ástæðan er einfaldlega sú að fjallið er ekki mjög þekkt og þar að auki er erfitt að komast að því. Engar upplýsingar eru um fjallið, engin skipulögð bílastæði og engar merktar gönguleiðir.

Við sem nefnum okkur Vini Vífilsfells höfum í hug að breyta þessu. Við höfum sent bæjarstjóranum í Kópavogi bréf þar sem við bjóðum fram þjónustu okkar til að auðvelda aðgengi að fjallinu. Meðal þess sem við viljum gera er eftirfarandi: 

  1.  
    1. Gerð vefsíðunnar vifilsfell.is fyrir tölvu og síma
    2. Gerð vefsíðunnar vifilsfell.is fyrir tölvu og síma
    3. Gerð Fésbókarsíðu um Vífilsfell
    4. Gerð korts af gönguleiðum fyrir vef og skilti
    5. Merking gönguleiða á Vífilsfelli
    6. Uppsetningu vegpresta á Vífilsfelli
    7. Hönnun og gerð upplýsingaskilta
    8. Vinna við gerð göngustíga

Vefurinn vifilsfell.is er tilbúin en verður þó seint fullkláraður enda á hann að vera í stöðugri mótun. Hann er tvímælalaust mikilvægasta gagnið fyrir kynningu á Vífilsfelli. Þar eru birtar leiðarlýsingar, skýr kort, góðar myndir af gönguleiðum og fróðleikur um jarðfræði. Vefurinn er aðgengilegur á flestum gerðum snjallsíma. Með því að leita á vefsíðunni er auðveldlega hægt að finna gönguleiðir og læra á fjallið.

Stefnt er að því að ljúka við hin sex verkefnin í sumar ef áhugi er fyrir því hjá Kópavogsbæ.

Sjöunda verkefnið, vinna við gerð göngustíga, er þess eðlis að vart er við því að búast að hægt sé vinna nema á lengri tíma og þá með leyfi skipulagsyfirvalda.

Hlutverk Kópavogsbæjar

Vinir Vífilsfells telja að fjögur verkefni þurfi að vinna með fulltingi Kópavogsbæjar:

  1. Gerð tveggja til þriggja þokkalegra bílastæða við upphaf gönguleiða á Vífilsfell
  2. Lagfæring akvega að bílastæðum, hugsanlega í samvinnu við Vegagerð ríkisins
  3. Uppsetning ramma fyrir tvö til þrjú upplýsingaskilti við bílastæði
  4. Vinna við gerð göngustíga, hugsanlega á samvinnu við vinnuskóla Kópavogsbæjar
Kort

Hér er lögð áhersla á að vinna að verkefnum til bráðabirgða þannig að göngufólk komist auðveldlega á öllum tegundum bíla að upphafi gönguleiða með „P“ merkjunum á kortinu hér til hægri [kortið kemur af vefnum]. ...

Við sem tilheyrum hinum óformlega félagsskap Vinir Vífilsfells vonum auðvitað að bæjaryfirvöld í Kópavogi taki vel í erindi okkar. Við viljum byrja smátt og hugsanlega má bæta við síðar. Verkefnin eru næg.

Ég hvet lesendur til að skoða vefinn og helst af öllu fara út og ganga á Vífilsfell. 


Nei, nei, Samfylkingin ætlar ekki að taka af þér bílinn, en ...

Setjum sem svo að einhver út í bæ kæmi til þín, lesandi góður, og tæki af þér bílinn og segði þér að fara ferða þinna gangandi eða hjólandi? Varla yrðir þú sáttur við það.

Undanfarin tvö ár hef ég hjólað og gengið um borgina. Ég á ekki bíl og hef því gripið til annarra kosta. Og ég skal segja þér það, að hjólreiðar og göngur eru ákaflega hollar og skemmtilegar. Þessi ferðamáti leysir þó ekki einkabílinn af hólmi.

Ég ætla að halda áfram að hjóla en á næstu dögum ætla ég að kaupa bíl. Ástæðan er einföld. Ég hef einfaldlega ekki tíma til að skjótast á milli bæjarhluta á gangandi, hjólandi eða í strætó. Þess vegna er einkabíllinn nauðsynlegur kostur.

En náunginn sem ég nefndi hér í upphafi hann er til og hann hefur þegar banka á dyrnar hjá þér. Hann heitir Samfylkingin og Björt framtíð sem saman boða frekar dapra framtíð eins og fram kemur í grein Mörtu Guðjónsdóttur í Morgunblaði dagsins:

Nýju Aðalskipulagi er fyrst og síðast ætlað að umbreyta ferðavenjum borgarbúa á mjög róttækan hátt. Skipulaginu er ætlað að tryggja að stór hluti borgarbúa hætti að aka á bílum sínum til og frá vinnu en fari þess í stað gangandi, hjólandi eða með almenningsvögnum.

Svona breytingum á ferðavenjum fólks er hægt að ná fram með góðu eða illu. Líklega myndu mun fleiri ganga, hjóla eða taka almenningsvagna til vinnu sinnar ef þeir kostir yrðu álitlegri en þeir eru í dag. Í þeim efnum má margt betrumbæta. En það fer lítið fyrir slíkum áþreifanlegum áformum í nýju Aðalskipulagi. Ferðavenjum okkar á því ekki að breyta með góðu heldur með illu: Með því að leggja stein í götu okkar.

 

Borgarrými með fjölþætt hlutverk ... 

Og ekki nóg með þetta. Marta segir í grein sinni:

Meginhugmynd borgaryfirvalda og Aðalskipulags felst í þeim áformum að hægja svo á allri umferð vélknúinna ökutækja að fólk gefist upp á því að aka á bílum sínum til og frá vinnu. Í Aðalskipulaginu er þetta orðað svo, sem eitt helsta markmiðið í samgöngumálum: „Götur verði endurhannaðar sem borgarrými með fjölþætt hlutverk.“ 

Hvers konar talsmáti er þetta í aðalskipulaginu? Jú, þetta er dæmigert rugl þeirra sem hafa ekkert fyrir stafni og kalla svart hvítt og hvítt svart. Það gleymist að götur eru götur og eina meginmarkmið með götum er að greiða fyrir umferð. Hjá Samfylkingunni og Besta flokknum er það hins vegar ekki svo eins og Marta Guðjónsdóttir bendir réttilega á:

 

Skemmdarverk

Breytingar á Hofsvallagötu, Snorrabraut og Borgartúni eru því einungis forsmekkur að því sem koma skal. Hringbrautinni á að gera sömu skil innan skamms, sem og Miklubraut, frá Lönguhlíð að Kringlumýrarbraut.

Suðurlandsbrautin verður þrengd, fjórum mikilvægum samgönguæðum borgarinnar verður breytt úr stofnbrautum í tengibrautir, tuttugu tengibrautir missa það hlutverk sitt.

Akreinum Gullinbrúar verður fækkað úr fjórum í tvær, en sú brú er lífæð borgarinnar við tæplega tuttugu þúsund manna íbúðarhverfi. 

Og hvað skyldi þetta þýða fyrir borgarbúa?

Þessi samgöngustefna er glórulaus. Hún mun innan tíðar leggja óheyrilegan tímaskatt á einstaklinga og fyrirtæki. Búast má við að ferðatími fólks til og frá vinnustað muni tvöfaldast á næsta kjörtímabili. Í mörgum tilfellum mun ferðatími vinnandi fólks til og frá vinnustað lengjast sem nemur öllu sumarfríi þess á ársgrundvelli

Hvað finnst svo lesandanum um þetta? Er það ásættanlegt að eyða öllum þessum tíma í stað þess að einfalda og byggja upp samgöngur?

Nei, þetta er auðvitað ekkert annað en skemmdarverk. Hlutverk borgaryfirvalda er að byggja upp en ekki draga úr. Styrkja umferð akandi, hjólandi og gangandi fólks en ekki etja þessum ferðamátum saman rétt eins og þeir geti ekki þróast samhliða.

Hér í upphafi var spurt hvernig lesandanum yrði við ef einhver kæmi og vildi taka bílinn af honum. Sá er þegar kominn en hann er ekki svo blátt áfram eins og þar var lýst. Hann er Dagur Eggertsson sem hefur einlæga talanda sem mörgum þykir þægilegur en malið og öll orðaflækjan felur það markmið sem hér að ofan er lýst. Sérstaklega ættu kjósendur að leggja við hlustir þegar hann talar. Auðvitað ætlar Dagur ekki að taka af þér bílinn, kæri lesandi. Nei, nei. Hann ætlar bara að gera þér illmögulegt að nota hann.

Mér finnst, eftir fjögurra ára ofríki vinstri manna í ríkisstjórn og fjögurra ára klepptæka vinstri stjórn í borginni eiginlega nóg komið og tími til að vísa þessu liði úr valdastólunum.

Hlustum á hvað Dagur B. Eggertsson segir, ekki hvernig hann segir það. En ef þú, lesandi góður, nennir ekki að hlusta á Dag fara hring eftir hring í kringum málefnið án þess að komast nokkru sinni á kjarna málsins, lestu þá greinina eftir Mörtu Guðjónssdóttur. Svo væri ekki úr vegi að skoða bloggið hans Ívars Pálssonar og pistla hans um skipulagsmál.

 


Dagur lofar að byggja leiguíbúðir fyrir 75 milljarða króna

Loforð Samfylkingarinnar kostar ekki undir 75 þúsund milljónum króna miðað við að hver íbúð kosti að meðaltali 25 milljónir króna í byggingu. Þetta jafngildir öllum fasteignagjöldum Reykjavíkurborgar í liðlega sex ár eða útsvarstekjum í eitt ár og sex mánuði betur. 
 
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður, í afar fróðlegri grein í Morgunblaði dagsins, þar sem hann vekur athygli á að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, lofar að byggja 3000 íbúðir í borginni á næsta kjörtímabili. T
 
akið eftir að þessi Dagur kemur úr sama flokki og stýrði ríkisstjórn sem gerði ekkert fyrir heimilin í landinu eftir hrunið en bjargaði skuldum þeirra á eftirminnilegan hátt en lét eignir þeirra blæða út. Sá sami flokkur hatast við núverandi ríkisstjórn sem þó er að gera við þann forsendubrest sem varð í hruninu ... fyrir fimm árum ...! Rök Dags og félaga hans á þingi eru að ekki séu til peningar til að gera þetta. Samt ætlar hann að galdra fram sömu fjárhæð, 75 milljarða króna til að byggja bæjarblokkir fyrir okkur leigjendur.
 
Og Óli Björn segir í niðurlagi greinar sinnar: 
 
Reykvískt heimili þar sem mánaðartekjurnar eru alls 700 þúsund krónur mun að óbreyttu greiða 4,9 milljónir króna í útsvar á næsta kjörtímabili. Á sama tíma mun fjölskylda, með sömu laun en búsett í sveitarfélagi sem leggur á lægsta útsvarið, greiða tæplega 698 þúsund krónum lægri fjárhæð.
 
Með öðrum orðum: Fjölskyldan í Reykjavík þarf að horfa á bak heilum mánaðarlaunum á næstu fjórum árum. 
 
Óli Björn ræðir hér aðeins um skattahugmyndir vinstri manna í borgarstjórn. Hann nefnir ekki að núverandi borgarstjórnarmeirihluti ætlar hann að gera upptækar eignir borgarbú samkvæmt skipulagstillögum þessa liðs. Í þokkabót á svo að stórminnka grænu svæði. Skoðið bara skipulagstillögur um Hjarðarhaga og Suðurlandsbraut, svo eitthvað sé nefnt. Eða blokkirnar sem Dagur og félagar ætla að byggja ofan í lágreista bygg í Skerjafirði.
 
Er hægt að treysta svona liði fyrir borginni okkar? Hefur ekki verið nóg um skemmdarverk núverandi borgarstjórnarmeirihluta á borginni? Lítum bara í kringum okkur. 
 
 

Texti á dulmáli eða bara slæm stafsetning

Stafsetning

„JÁ, ÉG FÉKK TÖLVUPÓSTINN FRÁ ÞÉR. VAR HANN Á DULMÁLI EÐA ERTU BARA SVONA LÉLEGUR Í STAFSETNINGU?“ 

Sá þessa teiknimynd í Morgunblaði dagsins. Fannst mikið sannleikskorn í henni. Ástæðan er sú að ég les iðulega athugasemdir með fréttum í netmiðlum og Facebook. Er alltaf jafnhissa á því hversu stór hluti fólks skrifar ekki rétt mál eða hirðir ekki um að skrifa rétt.

 


Þess vegna er sjálfstæði Íslands í hættu

Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu, sem Alþingi samþykkti sumarið 2009 að leggja fram varðar hins vegar grundvallaratriði um líf Íslendinga í þessu landi. Hún snertir sjálfstæði Íslands, sem þjóðin barðist fyrir um aldur.

Með því er ekki sagt að þeir sem vilja aðild að Evrópusambandinu séu verri Íslendingar heldur en aðrir, heldur einfaldlega að mat þeirra á stöðu Íslands innan Evrópusambandsins sé rangt. Það mun enginn hirða um það hvað 320 þúsund einstaklingar hafa að segja gagnvart 500 milljónum manna, sem nú búa í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Þess vegna er sjálfstæði Íslands í hættu.

Þetta snýst hvorki um „þjóðrembu“ eins og stuðningsmenn aðildar hafa tilhneigingu til að halda fram, né tilhneigingu til „einangrunar“, sem þeir halda líka fram.

Þetta snýst um það sjálfstæði, sem við fengum í áföngum á síðustu rúmum 100 árum.
 
Þetta ritar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á Evrópuvaktinni. Hér er vel mælt og það af manni sem hefur haft einna gleggstu sýn yfir pólitíska atburðarás undanfarinna áratuga. 
 
Allt tal um samning við Evrópusambandið er tóm vitleysa. ESB býður ekki upp á samning heldur eingöngu upp á aðlögun að sambandinu. Þess vegna voru það reginmistök að Alþingi afgreiddi ekki þingsályktunartillöguna um að draga aðildarumsókn Íslands til baka. 

Örfirisey eða Öffersey

ÖfferseyÞað myndi nú ekki skaða þó blaðamenn Morgunblaðsins tileinki sér þann góða sið að líta á landakort áður en þeir skrifa frétt. Þá kemur í ljós að hin meinta „Örfirisey“ á Skarðsströnd heitir Öffersey. Raunar eru þær tvær, sú Stóra og sú Litla. Ef litið er á miðja myndina má ábyggilega greina örnefnið.

Hins vegar veit ég ekki hvor útgáfan af nafninu er réttari en halla mér að þeirri útgáfu sem Landmælingar Íslands benda þá. Væri Mogginn með rétta útgáfu hefði hann ábyggilega lengt fréttina og frætt lesendur sína um muninn á þessum tveimur nöfnum. Það hefði nú verið gaman enda eru fleiri en ég áhugamenn um örnefni. Svo kann það líka að vera að blaðamaðurinn hafi giskað á stafsetninguna.

Niðurstaðan mín er nú bara þessi, að án þess að birta landakort er fréttin aðeins hálf. Og hálf frétt er léleg frétt og ekki góð blaðamennska.


mbl.is Hvalreki á Skarðsströnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru Reykjavík æsku minnar?

Hvernig verða bæir eða borgir til? Sjaldnast gerist það á þann veg að einhver félög eða ofvirkir menn takið það upp af sjálfsdáðum að skipuleggja og byggja hundruð eða þúsunda húsa. Nei, nær alltaf þróast þéttbýli hægt og rólega. Einstaklingar byggja upp, hver á sinn hátt, hús úreldast og önnur eru byggð í staðinn. Þannig verða bæir og borgir til, á þann hátt þróaðist til dæmis miðbærinn í Reykjavík. Þannig varð til fjölbreytni og mannlífið fylgdi eðlilega með.

Nú þykir hins vegar „farsælla“ að skipuleggja allt út í hörgul. Fasteignafélög ætla að skapa upp á sitt eindæmi miðbæjarkjarna og þá er ekkert annað í excelskjalinu en hámarks nýting á lóðum til að hagnaðurinn verði sem mestur. Hér eru ekki Jón og Gunna í dæminu og ekki fyrirtækið þeirra. Nei, allt er teiknað upp og okkur er sagt að svona eigi miðbæjarkjarni að vera og þau hjón verða leigutakar í stóreignafyrirtækjunum.

Farsældin er borin fyrir borð af því að einstaklingarnir sem eiga að nota húsnæðið eru ekki með í ráðum. Hægfara þróun er ýtt til hliðar og skyndabitaþróunin tekur yfir í skipulagsmálum miðbæjar Reykjavíkur. Þar á að byggja risastór fuglabjörg og á milli eru sprungur fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Hraðinn á þessu öllu er svo mikill að útilokað er fyrir mig eða aðra að ganga með barnabörnunum og benda þeim á Reykjavík æsku minnar.

Hvar ertu Reykjavík æsku minnar? Hvað hefur komið í staðinn? Erum við Reykvíkingar sátt við það sem gerst hefur í borginni síðustu áratugi og hvað virðist ætla að koma á næstu árum. Lítið bara á skipulag Samfylgingarinnar og Bjartrar framtíðar, Dags og varaborgarstjórans. Þar er öllu snúið á haus, liðið hefur ekkert lært en heldur áfram að tala endalaust án þess að nokkur maður skilji. En mikið fjandi sem hann Dagur segir það fallega ... 

 


mbl.is Vilja skapa nýjan miðbæjarkjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband