Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Pólitísk rykframleiðsla Stefáns Ólafssonar um Icesave

Einn þeirra sem hvað heitast var í hamsi og harðast barðist að Icesave samningarnir væru samþykktir var Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. Hann sagði í grein í Fréttablaðinu 17. ágúst 2009:

Samt segja sumir nú að íslenska þjóðin beri ekki ábyrgð á þessari skuld. Hvað þýðir það? Jú, með því er fullyrt að íslenskur banki hafi mátt raka að sér erlendu sparifé, undir fölsku flaggi. Innstæðutryggingakerfið íslenska hafi verið „í plati" gagnvart útlendingum en í fullu gildi fyrir Íslendinga, sem hafa nú þegar fengið innstæður sínar bættar. Forsendan er sú, að Landsbankinn hafi mátt ræna almenning í Bretlandi og Hollandi að vild, ef allt færi á versta veg.

Davíð Oddsson fullyrti þannig nýlega að Íslendingum bæri ekki að greiða þetta. Málið er honum skyldara en öðrum. 

Pólitísk rykframleiðsla 

Svona rökræða margir snillingar sem leggja eingöngu stund á pólitíska rykframleiðslu. Gefa sér forsendur eins og: „að íslenskur banki hafi mátt raka að sér erlendu sparifé, undir fölsku flaggi“ og leggja síðan út af þessum orðum rétt eins og einhver annar hefði sagt þau. Segja svo í lokin: Sjáið nú hversu vondir þessir menn eru en ég góður ...

Stefán er lítill spámaður eins og eftirfarandi orð hans sem þyrlast í rykmekkinum eru glöggt merki um:

Svo segja menn að ábyrgð okkar hefði átt að útkljá fyrir dómstólum. Þar hefði málflutningur okkar þurft að vera sá, að innstæðutryggingakerfið á Íslandi hafi aðeins verið fyrir íslenska viðskiptavini Landsbankans en ekki þá erlendu. Halda menn að nokkur dómstóll hefði dæmt Íslandi í vil í slíku máli? Varla. Líklegra er að slík framganga hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð.

Óskaplega hlýtur það að vera sárt fyrir Stefán að hafa orðið vitni að endalokum Icesave málsins fyrir EFTA dómstólnum. Lögfræðileg þekking mannsins reyndist haldlítil þó hann hafi reynt að halda öðru fram. Og svo bætist alltaf við pólitíska rykframleiðslan, þetta með að tap fyrir dómstólum „hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð.“

Ber þjóð ábyrgð á gjörðum einstaklinga eða fyrirtækja? 

Hvernig geta menn eiginlega sagt þetta. Fyrir nokkrum árum voru hrikaleg málaferli í Belgíu vegna þess að glæpamenn rændu ungum stúlkum, misþyrmdu og nauðguðu. Hollenskir herflokkar gerðu hrikaleg mistök við borgina Srebrenica þar sem Serbar myrtu um átta þúsund Bosníumenn. Engum, ekki nokkrum manni dettur það í hug að yfirfæra glæpi, mistök eða annað sem gerist hjá einni þjóð yfir á alla íbúa hennar. Að halda slíku fram er ekki bara heimska heldur ruddaskapur. Sómi Stefáns felst hins vegar í því að halda því fram að Íslendingar séu ræningjaþjóð, nema ákveðnum skilyrðum sé fullnægt. Ég hef skömm á svona málflutningi.

Rökstuðningur Steingríms og Indriða

Og svo hélt Stefán Ólafsson áfram að þyrla ryki:

Lífskjör Íslendinga verða um margt betri en lífskjör Breta þrátt fyrir þessar auknu byrðar.

Mér sýnist af öllum gögnum málsins og vel rökstuddum greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar o.fl., að niðurstaðan sé skýr. Hártoganir um langsótta lagaklæki eða kvein um að við ráðum ekki við þetta koma okkur hvorki lönd né strönd. Það er því ekki viðeigandi að betla né hlaupa frá málinu. Í öllu falli er slíkt ekki tímabært. Við þurfum nú að sýna heiminum að við erum heiðarleg þjóð sem vill standa við skuldbindingar sínar.

Þeir sem vilja fella samninginn bjóða heldur ekki upp á neina vitræna lausn. Fullyrða einungis að hægt sé að fá betri samning, án þess að neitt bendi til þess. Þó var fyrri ríkisstjórn kominn áleiðis með verri samning sl. haust. Markmið stjórnarandstöðunnar er aðeins að skapa ríkisstjórninni erfiðleika og fella hana.

Þjóðin hafnaði „vel rökstuddum greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar“. Það var svo einfalt og auðvelt að hafna Steingrími og Indriða.

Stefán gerði lítið úr þeim orðum Davíðs Oddssonar að þjóðin ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Hann þyrlaði upp einn einum rykbakkanum og reyndi að tengja Davíð og Sjálfstæðisflokkinn við það ógæfufólk sem er ábyrgt yfir bankahruninu.

Hin vitræna lausn 

Þeir sem vilja fella samninginn bjóða heldur ekki upp á neina vitræna lausn.“ Stefán taldi þvert á móti að allt vitið væri í því fólgið að samþykkja Svavarssamninginn, studdum „greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar“. En þjóðin lét ekki bjóða sér rök Steingríms, Indriða eða Stefáns. Hún neitaði að greiða skuldir óreiðumanna og dómstóll alþjóðasamfélagsins var á sama máli.

Og í lokin segir Stefán í grein sinni um „Siðfræði Icesave málsins“:

Þeir sem bera hina eiginlegu sök á því hvernig komið er fyrir þjóðinni eiga hins vegar enn eftir að biðja afsökunar, svo ekki sé meira sagt.

Í dag birtir Stefán Ólafsson nýja grein um Icesave málið á pressan.is. Hann hefur gjörsamlega snúið við blaðinu, rétt eins og flestir hinir sem vildu annað hvort að þjóðin fengi ekki að kjósa um Icesave samningana eða að hún samþykkti þá.

Stefán segir fátt um endalok Icesave málsins

Í greininni reynir Stefán að snúa umræðunni við. Hann reynir ekki að réttlæta fyrr orð heldur reynir að breyta umræðunni og kenna Davíð Oddsyni um allt. Og hvað skyldi maðurinn nú segja um endalok Icesave málsins?

Við skulum fagna því lengi og innilega að vel hefur unnist úr þessu máli á lokasprettinum.

Ekkert annað. Hann er eins og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Öll láta að því liggja að sigurinn í málinu hafi verið vegna atbeina þeirra. Stefán biðst ekki einu sinni afsökunar á fyrri blaðagreinum sínum eins og þó margir hafa gert. Hann lætur bara sem ekkert sé, grípur til sömu ráða og skötuhjúin sem hér voru nefnd, að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt saman.

Skyldi Stefán Ólafsson vera innst inni samála þeim orðum sem látin voru falla fyrir rúmum fjórum árum að íslensk þjóð skuli ekki greiða skuldir óreiðumanna? 

Þessari spurningu hefur hann aldrei svarað og mun líklega seint gera. Fyrr mun líklega botnfrjósa í neðra. Honum ferst þá eins og talsmanni ESB sem segir ekkert hafa breyst við EFTA dóminn.

 


ÆTLAR GNARR AÐ MATREIÐA EISTA?

Ef Jón Kristinsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur tíma til að skemmta sér í utanlandsferðum þá er það hans mál. Persónulega tel ég að staða mála í Reykjavík sé þannig að borgarstjóri eigi að halda sig í vinnunni.

Þó ég hafi ekki nokkra trú á því að hann geri neitt gagn sem borgarstjóri þá ber honum þá að sýna öðrum fordæmi, þ.e. sem þiggja laun frá borginni og sinna sínu starfi. Líklega má ekki lengur halda því fram að hann sé gagnslaus í embætti, flokkast sem einelti.

Svo má eflaust gera ráð fyrir því að hann greiði fyrir ferð og uppihald til Serbíu úr sínum eigin vasa. Ég vona að hann rati til Serbíu því það væri nú ekki gott fyrir orðstír Reykjavíkur færi hann til Eistlands.

Þetta er maðurinn sem kvartar undan því að fólk tali niðrandi til hans, leggur hann í einelti og sýnir margháttaðan dónaskap. Ekki veit ég hvort maðurinn kann að matreiða, hitt má ætla að hann hafi hráefnið fyrir þessa tilteknu keppni.

Þeir sem liggja undir ámæli geta án efa komið með krók á móti bragði og reynt, að minnsta kosti reynt, að sinna starfi sínu betur. Ekki leika, það gengur ekki, heldur reyna ... 


mbl.is Jón Gnarr tekur áskoruninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silkihanskar Kastljóss á Wikileaks

Ég hef ákveðna samúð með málstað Wikileaks en hins vegar finnst mér Kastljósviðtalið við Kristinn Hrafnsson í kvöld dálítið einhliða. Allt viðtalið gekk út á samúðina með málstað Kristins ekki var nein tilraun gerð til að kryfja málið og koma með áleitnar spurningar.f

Staðreyndin er einfaldlega sú að Wikileaks fékk á einhvern hátt gríðarlegan fjöld trúnaðarskjala frá bandarískum stjórnvöldum. Hvernig skyldi þá standa á því að Bandaríkjamenn vilja halda leynd á þessum skjölum og telja að birting þeirra geti valdið fólki og ríki skaða? Það getur ekki verið að birting ríkisleyndarmála, hvað svo sem það er, geti alltaf verið af hinu góða. Í ljósi þess má skilja hvers vegna Bandaríkjamenn leggi svo mikla áherslu á að rannsaka lekann og helst að draga þá fyrir dóm sem ábyrgði bera á honum og helst alla þá sem málið snertir.

Hér er ég fyrst og fremst að benda á þá staðreynd að öll mál hafa að minnsta kosti tvær hliðar og í Kastljósinu kom aðeins fram afstaða Wikileaks.

Oft er það þannig að stjórnendur Kastljós taka viðmælendur sína föstum tökum og krefjast svara, „grilla þá“ eins og svo oft er sagt. Af hverju voru silkihanskarnir brúkaðir á Kristinn Hrafsson?


mbl.is Stöðvaði samstarf við FBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léleg fréttaskrif Landsbjargar

DSCN5223

Stafsetning getur skipt máli til að frétt skiljist. Í frétt mbl.is um mann sem slasaðist segir:

Sérhæft fjallabjörgunarfólk björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu er nú á leið á Esju að sækja slasaðan mann. Um er að ræða göngumann sem féll í klettunum fyrir ofan stein.

Þetta er nú ekki vel skrifað. Betur hefði farið á því að segja: Fjallabjörgunarfólk er er nú á leið á Esju að sækja slasaðan göngumann sem féll í klettunum ...

Sá steinn sem frá er sagt er stóreflis grjót við gönguleiðina upp á Þverfellshorn. Á það hefur verið fest stálskilti og í það skorið orðið STEINN eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Síðan hefur þetta orðið að örnefni og göngufólk talar um að ganga upp að Steini. Æ færri halda áfram upp. Það gerði hins vegar göngumaðurinn.

Frá Steini er brött brekka upp að hömrunum og líkast til hefur manninum skrikað þar fótur, hann fallið, runnið langa leið og slasat. 

Þar til fyrir skömmu hef ég hneykslast  og oft skrfiað um fréttir fjölmiðla um slys og óhöpp þar sem þurft hefur aðstoð björgunarsveita. Ég veit það núna að sökin er ekki alfarið þeirra. Þeir taka fréttir orðrétt frá vef Landsbjargar og þar er grunnurinn fyrir rassbögur og rugl sem endurspeglast til dæmis í frétt mbl.is.

Landfræðiþekking þeirra sem skrifa fréttir á vef Landsbjargar er oftast lítil. Til dæmis er Esjan afar stór og í frétt er það til bóta að þrengja svæðið og nefna Þverfellshorn til sögunnar.

Ég ætla að taka hér djúpt í árinni og fullyrða að Landsbjörg þurfi að lagfæra stórlega fréttaflutning sinn á netinu. Hann er samtökunum síst af öllu til bóta, hvorki efni né málfar.

Sama á við fjölmiðla. það er ekki forsvaranlegt að þeir gleypi athugasemdalaust við innantómum fréttum, hvorki frá Landsbjörg né öðrum. 


mbl.is Féll í klettum á Esjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málsvörum stjórnarmeirihluta fjölgað

Meirihlutinn

Mörgum hefur þótt það frekar aðlaðandi að greina betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þess vegna kom upp sú hugmynd fyrir löngu síðan að ráðherrar mættu ekki vera þingmenn.

Það er út af fyrir sig alveg gott og blessað. Hitt er arfaslæmt að þrátt fyrir þessa breytingu myndu ráðherrar eiga sæti á Alþingi með öllum réttindum nema atkvæðisrétti.

Nú sitja sextíu og þrír þingmenn á Alþingi og ráðherrar eru átta. Látum vera að óljóst er á þessu augnabliki hversu marga stuðningsmenn ríkisstjórnin hefur, gerum ráð fyrir að þeir séu þrjátíu og þrír.

Væri ofangreint ákvæði í gildi væri fjörtíu og einn maður fyrir meirihlutann en aðeins þrjátíu fyrir minnilhlutann.

Allir sjá hversu mikið myndi hallast á stjórnarandstöðuna og hún eiginlega kaffærð af meirihlutanum. Er það þetta sem átt er við með skýrari greiningu á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds? Og varla telst þetta lýðræðisleg lausn.

Einhverjir kunna að benda á að lækna mætti þetta vandamál með því að taka málfrelsið af ráðherrum eða að ráðherrar mættu ekki sitja á þingi. Hvort tveggja held ég að sé síst af öllu til bóta. Framkvæmdavaldið þarf að standa fyrir svörum á þinginu, mæla fyrir þeim málum sem það leggur fram og svo framvegis. 

Þegar öllu er á botninn hvolft er líklega betra að hreyfa ekkert við þessu ákvæði eins og það er í stjórnarskrá lýðveldisins. 


mbl.is Styrkir ekki stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 sinnum fleiri taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins en VG

KristjánogSteingrímur

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, fékk 199 atkvæði í fyrsta sæti í forvali flokksins í Norðausturkjördæmi vegna komandi alþingiskosninga. Kristján Þór Júlíusson, oddviti sjálfstæðismanna í sama kjördæmi fékk 2.223 atkvæði í fyrsta sæti í prófkjöri síðastliðinn laugardag.

Kristján Þór er því liðlega 11-sinnum „stærri” en Steingrímur Jóhann í því sem kannað hefur verið höfuðvígi Vinstri grænna.

Alls kusu 261 í forvali VG í desember sem mun hafa staðið í eina viku. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðaustur lögðu 2.714 flokksmenn leið sína á kjörstað eða tíu sinnum fleiri en greiddu atkvæði hjá VG. Þátttaka í forvali VG var 36% en um 62% hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þetta fann ég á www.t24.is, vef Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna nýtur greinilega lítils fylgis í kjördæmi sínu, raunar eins og flokkur hans allur. 


Lagabálkur ESB á leið í íslensk lög

Umræða um að þjóðin fái að kjósa um aðildarsamning er því blekking ef búið er að innleiða allan lagabálk ESB í íslenskt lagasafn áður en slík kosning á sér stað.

Hvað ætla stjórnvöld að gera ef þjóðin segir nei? Ætla þau að vinda ofan af öllum lögunum sem breytt var?

Það er aðeins eitt sem kemur í veg fyrir slíka ólýðræðislega lagasetningu sem þessi þvingaða aðlögun krefst, það er að þjóðin fái að kjósa um hvort hún vilji ganga í ESB eða ekki, áður en lengra er haldið.

Úr grein Sigurbjörns Svavarssonar í Morgunblaðinu í morgun.


Jóhanna fyrir og eftir EFTA dóminn

Mér finnst þetta markleysa og finnst mjög dapurlegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins verði um lög sem þegar eru orðin orðin úrelt. [...]

Ég óttast að töfin geti farið að kosta okkur meira en ávinningurinn af nýjum samningi. ASÍ segir að þetta mál hafi nú þegar seinkað endurreisninni um hálft ár með þeim kostnaði sem því fylgir. [...]

Sumir virðast halda að málið hverfi ef lögin verða felld en það er mikill misskilningur. Það er líka misskilningur að málið fari beint fyrir dómstóla. Þjóðirnar þrjár verða að standa sameiginlega að slíku en Bretar og Hollendingar hafa alltaf hafnað þeirri leið.

Hvað sagði Jóhanna svo þegar sigur Íslands varð ljós í gær?

Ég var sjálf mjög trúuð á málstað Íslands. [...] Það var alveg ljóst að við höfðum alla tíð trú á því, og sögðum það alltaf umbúðalaust, að Ísland hefði ekki brotið neitt í þessari tilskipun.

Einmitt. Alveg umbúðalaust.

 Fuglahvísl amx.is vitnar í Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætiráðherra.


Furðulegt fyrirkomulag formannskjör í fylkingunni

Hjá Samfylkingunni kjósa menn rafrænt. Það er til mikillar fyrirmyndar og öðrum stjórnmálaflokkum til eftirbreytni.

Kosningunni lauk í gær og nokkrum sekúndum síðar hefðu úrslit átt að vera ljós. Þeir jafnaðarmenn þorðu hins vegar ekki að stíga skrefið til fulls og leyfðu að líka væri kosið á hinn forna veg. þau atkvæði munu væntanleg með bréfdúfum, skipum og landpóstinum (þessum á hrossi með lúður) í vor.

Ekki ætla ég að kvarta undan skipulagi í Samfylkingunni. Hitt verð ég að segja, vegna þess að ég veit hvernig málin eru í Sjálfstæðisflokknum, að þar hafa hátt á annað þúsund atkvæði í formannskjöri verið talin á rúmri klukkustund á landsfundi og er þó ekki um rafræna kosningu að ræða, allt á hinn forna máta. 

Til hvers er þá verið að brúka rafræna kosningu ef úrslitin mega ekki vera strax ljós? Nei, þeir ætla að bíða með upplýsingarnar fram á fjórða dag eftir að kosningu lýkur og tilkynna þá um nýja formanninn. 


mbl.is Um þriðjungur félagsmanna kaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi skipi rannsóknarnefnd um Icesave

Icesave kostn

Almenningur hlýtur að vera hugsi út af endalokum Icesave málsins. Víst er að margir kunna að vera fegnir að málinu sé lokið, hins vegar er það svo að leiði getur aldrei verið rök fyrir afstöðu í neinu máli. Vandinn hverfur ekki þó maður reyni að gleyma honum eða sleppa því að leysa hann.

Leiðinn 

Ég man að fjölmargir, fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn og fólk sem tjáði sig um Icesave samningana vildi ganga til samninga vegna þess að málið væri útrætt, ekkert væri frekar hægt að segja um það. Hins vegar voru þeir til sem tóku á annan hátt á umræðunni, gáfu sig ekki og vildu leiða málið til lykta á þann hátt sem þjóðinni væri fyrir bestu, ekki að létta leiðanum af þeim sem nenna ekki að hugsa. Fólkinu sem leiðist stjórnmálin. 

Milljarðarnir 

Morgunblaðið hefur verið óþreytandi í baráttunni gegn Icesave og á miklar þakkir skildar fyrir. Í góðri fréttaskýringu Harðar Ægissonar í blaðinu í dag er að finna myndina sem hér fylgir með. Hún þarfnast ekki skýringa. Jafnvel samningurinn sem kenndur er við lögmanninn Buchheit hefði kostað þjóðina 64 milljarða króna.

Sökin 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar sagði í fjölmiðlum í gær að við ættum ekki að leita sökudólga í Icesave-málinu. Það getur vel verið rétt. Lítum hins vegar á hvað mistökin í málinu hefðu getað kostað þjóðina. Gengið var hvað eftir annað gegn þjóðinni. Hún þurfti að hafa fyrir því að hafna samningum í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslum og ríkisstjórnin baðst ekki einu sinni lausnar. Hún kunni ekki að skammast sín og ganga frá eftir að þjóðin löðrungaði hana.

Landsdómur 

Þjóðin stóð saman gegn Alþingi og ríkisstjórn og hún hafði rétt fyrir sér. Sigurður Kári Kristjánsson, sem var alþingismaður í nokkur ár, vildi láta rannsaka Icesave málið frá upphafi til enda. Ég er fyllilega sammála honum. Þetta þarf að gera rétt eins og gert var með ákærurnar á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.

Ríkisstjórn sem fær tvisvar afsvar frá þjóðinni á að segja af sér. Þegar svo kemur í ljós að sú stefna sem þjóðin tók var rétt ber ríkisstjórninni að segja af sér.

En nei, hún gerir það ekki. Hún kann ekki að skammast sín, hún biðst ekki einu sinni afsökunar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband