Verslun lokar, valkostur, og er að hafa það notalegt

Orðlof og annað

Láta mikið með hann

Skipting fólks í „kynþætti“ eftir útliti er löngu dauð í vísindunum en ýmsir halda þó meintum mun á lofti. Þó er vafasamt að segja að þeir „láti mikið með hann“.

láta mikið með e-n (manneskju) er að hafa dálæti á honum. Þeir gera mikið úr honum, þ.e.: telja hann mikilvægan eða ýkja hann.

Málið, blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 25.6.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Þeir voru bara ósköp skömm­ustu­leg­ir og leiðir eitthvað.“

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Hvað merki að vera „leiður eitthvað“? Þekkir einhver þetta orðalag? Nei, auðvitað ekki. „Eitthvað“ í tilvitnuðum orðum er einhvers konar hikorð eða orð sem sumir skjóta inn í frásögn sína þegar þeim finnst hún ekki vera nógu orðmörg.

Enginn segir nýliðum í blaðamennsku til. Þeir halda að þeir eigi að endurrita nákvæmlega það sem viðmælandinn segir. Í prentmiðlum eða vefmiðlum á ekki að gera það. Verkefni blaðamanna er að koma hugsun viðmælenda til skila, ekki dreifa vitleysum eða málvillum sem upp úr þeim hrökkva.

Tillaga: „Þeir voru bara ósköp skömm­ustu­leg­ir og leiðir.“

2.

„Tölvutek lokar eftir 12 ár í rekstri.

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Hverju skyldi verslunin Tölvutek hafa lokað? Nei, verslanir geta hvorki opnað né lokað. Stórmunur er á því að verslun loki og verslun sé lokað.

Á vefnum mbl.is er þessi fyrirsögn:

Ölfusá opnaði í morg­un.

Þarna eru blaðamenn við sama heygarðshornið og á Vísi. Fljótið sem kennt er við Ölfus opnar ekki eitt eða neitt enda hafur náttúran ekki sjálfstæða hugsun og ekki heldur fyrirtæki.

Tillaga: Tölvutek lokað eftir 12 ár í rekstri

3.

„Markmið með verðhækkun á sætindi er að gera óhollustu erfiðari valkost fyrir neytendur [...]

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: „Valkostur“ er heimskulegt orð. Það er samsett af tveimur orðum sem hafa mjög svipaða merkingu. Margir eiga val um fjölmarga hluti og aðrir leita annarra kosta.

Upplýstir blaðamenn og aðrir skrifarar eru nær hættir að nota þetta furðulega orð. Þá kemur sumarið, sólin brosir en nýliðarnir sem leysa af á fjölmiðlunum halda að þeir eigi að skrifa fréttir með „flottum“ orðum eða einhvers konar stofnanamállýsku. Þá verður svokallað hrun.

Þegar skattur hefur verið hækkaður á sykri velja margir aðra kosti og ódýrari. Hinir geta valið um að halda áfram að kaupa sykurvörur eða hætt því.

Tillaga: Markmið með verðhækkun á sætindi er að gera óhollustu erfiðari kost fyrir neytendur, enda kostar hann samfélagið meira.

4.

„Hann er að hafa það notalegt með vini sínum …

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Æ algengara er að blaðamenn láti nægja að segja „er að hafa“, það er fyrsta persóna eintala sagnarinnar að vera og nafnhátt sagnarinnar að hafa. Úr verður afar flatt og ómerkilegt mál eins og sést á tilvitnuninni.

Þeir sem svona skrifa eru greinilega byrjendur með lítinn orðaforða. Óþarfi að nota sögnina að vera, hún hjálpar ekkert, gerir hugsunina ekki skýrari.

Til að átta sig nánar á þessu má geta þess að sagnorðum í setningu er skipt í aðalsögn og hjálparsögn. Hjálparsagnir geta aldrei staðið einar og sér án aðalsagnar, þá verður setningin botnlaus. 

Hér eru hjálparsagnir í þremur setningum feitletraðar: Ég er farinn út. Hann vill verða bílstjóri. Hún er líklega komin heim.

Af þessu tilefni eru hér nokkrar hugleiðingar: Málfræðileg hugtök hafa lítið að segja fyrir flesta og því ekki mikil þörf að leggja áherslu á þau. Aðalatriðið er málkenndin, tilfinningin fyrir málinu, hvort heldur að það sé „gott“ eða „vont“, „rétt“ eða „rangt“, það er oft smekksatriði. 

Máltilfinning fæst ekki nema með lestri bóka, helst frá barnæsku og langt fram á fullorðinsár.

Fólk sem hefur lesið mikið getur skrifað. Það hefur ríkulegan orðaforða og kann á blæbrigði tungumálsins, hvað er við hæfi og hvað ekki. 

Sá sem aldrei hefur ástundað lestur getur ekki skrifað. Einfaldara getur það ekki verið. Ekki dugar að hafa lesið „aðeins“ skólabækur vegna þrýstings frá kennurum eða foreldrum. Sá mun alltaf skrifa skemmdan texta og skemmdin smitar út frá sér eins og mygla í mat.

Ágæti lesandi, veistu hvers vegna fjölmiðlar ráða til sín fólk í blaðamennsku sem eru slakir skrifarar? Nokkrar ástæður eru fyrir því, til dæmis frændsemi og kunningsskapur, en þó oftar en ekki vegna þess að slíkir eru hræódýrir starfsmenn, eru á byrjendalaunum í nokkuð langan tíma áður en þeir eru reknir og aðrir byrjendur ráðnir í þeirra stað. 

Þetta er ástæðan fyrir uppnefninu „blaðabörn“ sem er afar niðurlægjandi og ljótt að nota. Samt freistast maður til þess.

Tillaga: Hann hefur það notalegt með vini sínum …

 


Mótorhjólum misbeitt gegn náttúru landsins - myndir

0J2B8253Akstur utan vega er alvarlegt vandamála á suðvesturhorni landsins. Sérstakur vandi er vegna mótorhjóla, svokallaðra „krossara“. Félagsskapur manna mótorhjólum fékk fyrir um tuttugu árum aðstöðu austan við Vífilsfell, þar sem heita Bolöldur. Það var misráðið því mótorhjólalið hefur iðkað akstur langt út fyrir það svæði sem þeim var markað og valdið stórskaða á náttúrnni.

Nú er svo komið að hjólastígar hafa myndast vestan við Vífilsfell og Bláfjöll, einnig austan við fjöllin og má segja að Bláfjöll séu nær hringekin en þar á hvergi að vera ekið á vélknúnum ökutækjum. Raunar hefur verið ekið langleiðina upp á topp Vífilsfells.

DSC_0064Sandkletturinn Ölduhorn vestan undir Víflsfelli hefur verið hringspólaður og umhverfi hans stórskemmt og verður seint lagað þó mótorhjólaumferðin leggist af.

Vestan undir Hengli hafa mótorhjólamenn reykspólað eins og þeir eigi svæðið. Spólað sig upp móbergsklappir, og tætt þær. Þeir hafa hjólað inn í Innstadal, fylgt gömlum göngu- og kindastígum, breikkað þá og dýpkað.

Um helgina sá ég svo merki um akstur mótorhjóla í Grindaskörðum. Þar hefur hjólum verið ekið upp bratta hlíð við Miðbolla. Má vera að það hafi verið gert á meðan frost var í jörðu og snjór að hluta til á. Engu að síður sjá ummerkin greinilega, mosinn er dauður í hjólförunum.

DSC_0179Svo virðist vera að margir „krossarar“ beri enga virðingu fyrir náttúru landsins og telji sér heimilt að aka af augum svo framarlega sem þeir nást ekki, kærðir og dæmdir. Þetta viðhorf er svo hrikalega ruddalegt að engu tali tekur. Þörf er á því að taka á þessum vanda, hirða „krossara“ og kæra.

Efsta myndin er tekin í Grindaskörðum, horft niður. Þarna sést hvernig hjólakapparnir hafa gert nokkrar tilraunir til að komast upp brekku. Snjór hefur verið í brekkunni ekki á mosanum sem er dauður í hjólförunum.

Önnur myndin er tekin vestan undir Vífilsfelli. Þarna hafa myndast þrír troðningar hlið við hlið. Þegar sá fyrsti er illfær færa kapparnir sig til hliðar og búa til annan og svo koll af kolli.

DSCN0667Þriðja myndin er líka tekin undir Vífilsfelli, undir Ölduhorni. Þar gera „krossarar“ sitt besta til að eyðileggja fallega náttúru.

Fjórða myndin er tekin vestan undir Hengli á leið í Marardal. Þarna hafa kappar reynt sig við móbergið og greinilega komist upp, hrósað sigri. Má vera að þeir hafi verið á nagladekkjum.

dsc_4423_bSíðasta myndin er af mótorhjólamönnum sem komust langleiðina upp á Vífilsfell. Þarna eru þeir ofan við svokallaða Sléttu, á leið niður móbergið. Þeir komst ekki miklu ofar en þetta. Sem betur fer var nægur snjór og þeir náðu ekki að spóla sig í gegnum hann. Dekkin voru alsett stórum nöglum og er mjúkt móbergið engin fyrirstaða. 

 

 


mbl.is Mótorhjólum ekið utan vega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband