Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Á að verja náttúruna fyrir náttúrunni?

Á þessari stundu er ómögulegt að segja hvort eldgosið á Fimmvörðuhálsi haldi áfram eða ekki. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að fyrr eða síðar þurfum við að taka afstöðu til máls sem við blasir ekki aðeins vegna hraunrennslis heldur líka vegna ágangs straumvatna.
 
dsc_0291.jpg
Í stuttu máli er spurningin þessi: Er réttlætanlegt að verja náttúruvinjar fyrir náttúruöflunum?
 
Svarið kann að vefjast kann fyrir mörgum enda vart mögulegt að gefa hreinskiptið svar við henni. 

Bæði er að með spurningunni er krafist ígrundaðs svars um vandann og erfitt er að komast hjá því að það hafi nokkurs konar útlokunaráhrif.

Sá sem er á móti því að verja náttúruna fyrir náttúrunni getur til dæmist horft fram á það að Þingvellir leggist undir hraun. Sá sem er vörnunum hlyntur gæti hins vegar séð fram á meiriháttar rask við að verja til dæmist stað eins og Þingvelli og það rask getur jafnvel verið meira en sá óskundi sem hraunið veldur.

aurar_til_bu_arkletts_01.jpg

Hér eru tvær myndir sem ég tók af Foldum í Goðalandi og horft til Réttarfells og Valahnúks. Sú efri var tekin árið 2001 og sú seinni 2009. 

Greinilegt er að Krossá hefur þarna eyðilagt gríðarlegt landflæmi sem hafði gróið ágætlega upp. Þeir sem hlyntir eru vörnum gegn ágangi náttúrunnar segja áreiðanlega að þessar myndir sýni hversu eyðileggingaröflin eru ágeng. Vilja menn til dæmis að Krossá fái að brjótast alveg inn í Bása og eyðileggi útivistarsvæðið? útivistarmenn eru ekki á þeirri skoðun og nú hefur verið settur grjótgarður sem á að varna frekari ágangi fljótsins.

aurar_til_bu_arkletts_09.jpg

Sá sem er á móti vörnum getur væntanlega haldið því fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem land grær upp á Krossáreyrum og eyðileggist síðan af sömu öflum og áttu þátt í því að græða það upp - sjálfri náttúrunni.

Svo koma tvær aðrar myndir til samanburðar. Báðar eru teknar af sama stað, rétt fyrir ofan þar sem áður var brú yfir Hrunaá. Horft er yfir Krossáraura til Búðarkletts.

Efri myndin var tekin um 2001 og sú neðri í fyrra sumar.

Munurinn er sláandi. Hrunaá er ólíkindatól. Hún er miklu vatnsmeiri en Krossá og í vætutíð getur hún hlaupið fram og rutt frá sér öllu sem á vegi hennar verður.

Það gerði hún fyrir tveimur árum og eyðilagði brúna og ekki nóg með það, tók af veginn allt frá brúarstæðinu og niður að Strákagili.

Ekki er mikið eftir af gróðrinum sem hafði náð að vaxa og græða upp Krossáraura á þessum slóðum. Sé nánar rýnt í efri myndina sjást þó gamlir og grónir farvegir Hrunaár og Krossár.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni eða ætti ég að segja á Krossáraurum.

Nú er komið að stóru spurningunni. Hvað eigum við að gera þegar (eða ætti ég að segja ef) hraunið rennur úr Hrunárgili og fram á Krossáraura. Erum við tilbúinn að láta skeika að sköpuðu og leyfa hrauninu að veltast á milli hlíða, brenna og skemma kunnuglega staði?

dsc_0290.jpg

Eigum við að leyfa náttúrunni að breyta landinu á þann hátt sem við myndum aldrei leyfa okkur sjálfum að gera.

Á neðstu myndinni, sem ég tók síðasta sumar, sjáum við niður alla Krossáraura, því sem næst frá fjallinu Gelti. Í fjarska sést Réttarfell og fyrir miðri mynd er Valahnúkur. 

Þetta er stórkostlegt land, það vita allir sem þarna hafa verið, og það kann að vera í hættu en hversu mikilli veit maður ekki. Ég er ekkert sérstaklega trúaður á þá kenningu að hugsanlegt hraunrennsli haldi sig fyrir miðjum dalnum og láti hlíðarnar beggja vegna í friði. Krossá hagar sér ekki þannig og því skyldi glóandi hraun gera það?

Spurningin er heldur þó gildi sínu: Er réttlætanlegt að verja náttúruvinjar fyrir náttúruöflunum?

Ég hvet alla sem treysta sér í rökræðuna til að skrifa í athugasemdakerfið, rökstyðjum skoðun okkar og forðumst alhæfingar eða sleggjudóma.

 


mbl.is Litlar breytingar á skjálftavirkni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ja, hérna, girðingar og allt ...

Forvitni manna og jafnvel heimsku gagnvart náttúruöflunum eru lítil takmörk sett. Hins vegar verður maður æ meir undrandi á viðbrögðum yfirvalda og raunar frásögnum fjölmiðla. Veit sannarlega ekki hvernig á að flokka þær gjörðir ...

Ja, hérna, gáfumannafélagið búið að panta girðingu sem ætlað er að setja upp á Fimmvörðuhálsi. Girðing ein og sér hefur ekkert að segja. Til viðbótar þarf mannskap til að halda fólki frá.

Hvað gerist þegar einhver kemst bak við girðinguna og kemst síðan ekki fram fyrir hana þegar hraunið skríður fram? Eða er ætluna að að setja upp margra kílómeters langa girðingu?

Hvað gerist þegar hvessir verulega? Hver ætlar þá að passa upp á grindverkið, reisa það við þegar það fýkur á hliðina?

Snúum okkur nú að frétt mbl.is. Svo öllu sé nú til haga haldið þá er farið niður á Heljarkamb hvort heldur að farið sé suður eða norður hann. Um aðrar áttir er ekki að ræða. Af Heljarkambi er má sjá niður í Hrunárgil á aðra hönd en Hvannárgil á hina. Útsýnið er hins vegar frekar takmarkað, sérstaklega til austurs.

Hraunið er að renna undir snjóinn og svo hrynur niður þar sem fólk er nýbúið að standa,“ sagði Svanur. ...
... Á þeirri leið þarf að ganga upp snjóbrekku sem getur mögulega brostið og skriðið fram. „Fólk virðist vera tilbúið að leggja sig í lífshættu til að komast kannski örlítið nær,“ sagði Svanur. 

Þarna er vitnað í formann Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.Ég get eiginlega ekki séð fyrir mér snarkheitt hraunið renna undir snjóinn, jafnvel þar sem fólk hefur staðið. Og þessi snjóbrekka, hún er nú meira náttúrufyrirbrigðið. Kannski þyrfti bara að setja girðingu í kringum hana enda líklega meira til vandræða en saklausir ferðamenn.


mbl.is Hraunið verður afgirt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að færðinni inn í Bása

Er eitthvað samsæri í gangi milli lögreglu og blaðamanna um að gera meira úr færð inn í Þórsmörk og Bása en efni standa til?

Samkvæmt upplýsingum frá skálavörðum og fararstjórujm Útivistar í Básum er sumarfærð þangað inneftir. Lítið sem ekkert er í ám en vegurinn er nokkuð grýttur á köflum.

Sú fullyrðing að bílar á 35" dekkjum eigin í erfiðleikum með að aka eftir Þórsmerkurvegi er tómt bull og vitleysa.

Það eina sem ökumenn þurfa að hafa í huga er að vinna rétt vöð yfir árnar og fara varlega. Þá á ekki aðeins við núna heldur alltaf. Vegurinn er grófur, hefur oftast verið það og þess vegna er vissara að aka með gát. Hann er hins vegar ekki gerður fyrir fólksbíla, aðeins stærri fjórhjóladrifsbíla. Lágir fjórhjóladrifsbílar gætu skemmst á veginum eða á leið yfir ár.


mbl.is Margir komnir í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagðar gönguferðir á gosstöðvarnar úr Básum

fotografier-0011_975980.jpg

Kominn tími til að Goðalandið verði opnað fyrir ferðalöngum. Gott til þess að vita að lögregluvakt verði á svæðinu en ég botna ekkert í því hvernig löggan ætlar að koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða með því að staðsetja sig við mynni Hvannárgils og Hrunárgils.

Enginn gengur upp eftir Hvannárgili. Þeir sem vilja sjá hraunstrauminn ganga upp á Votupalla vestan við Útigönguhöfða og þaðan ofarlega í Hvannárgili þangað til komið er að Úthólmum þar sem hraunið er.

Sama á við með Hrunárgil. Hægt er að klöngrast niður í Ytra-Hrunárgil frá Foldum. Lögreglan getur einfaldlega ekki komið í veg fyrir að fólk fari sér að voða.

Hins vegar á lögreglan og björgunarsveitir að staðsetja sig við mynni Ytra-Hrunárgils og í Básum og vera þar til viðtals og viðvörunar. Staðreyndin er sú að hætt er við því að menn aki undir áhrifum um helgina.

Ferðamenn ættu hins vegar að nýta sér Útivist. Skáli félagsins í Básum verður opinn yfir páskana. Þaulkunnugir fararstjórar félagsins ætla daglega að bjóða upp á göngur upp að gosstöðvunum og á öryggum stöðum ofan Hvannárgils. Meðal annars er ætlunin að fara í kvöldgöngur.

Á myndinni eru fararstjórarnir Reynir Þór Sigurðsson (til vinstri) og Óli Þór Hilmarsson. þeir munu stjórna gönguferðum að gosstöðvunum og hraunfossunum um páskana.

Einnig mun Útivist bjóða upp á ferðir á Fimmvörðuháls frá Skógum og og þeim ferðum stjórna fararstjórar sem hafa mikla reynslu af ferðum um Hálsinn.

Þeir sem ekki þekkja til á þessum slóðum ættu tvímælalaust að nýta sér ferðir Útivisar frekar en að ana út í einhverja óvissu.


mbl.is Litlar líkur á frekara gosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg mynd af hraunfossi í Hvannárgil

cld100326_1373.jpg

Mér var í gærkvöldi bent á heimasíðu Chris Lund, ljósmyndara. Hann hefur tekið geysilega fallegar myndir af gosinu á Fimmvörðuhálsi. Ein ber af, sú sem hér fylgir með. Hún er á heimsmælikvarða.

Myndin er án efa tekin í ljósaskiptunum á föstudagskvöldið og sýnir hraunrennslið úr gígnum og niður í Hvannárgil. Þetta er það snemma að enn hafði umferð gangandi og bíla verið hindrunarlaus vestur fyrir gosstöðvarnar. Nú hefur orðið breyting á og líkur benda til þess að hraun taki að renna innan skamms niður í Innra-Suðurgil sem er afgil úr Hvannárgili.

Chris Lund er sonur hins þekkta ljósmyndara Mats-Wibe Lund. Heimasíða Chris er http://www.photoshelter.com/c/chris/. Myndin er hér birt með leyfi Chris.


mbl.is Eldgosið enn á sama styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf er gleggri upplýsinga fyrir almenning

100329_kort_sta_a_hrauns.jpg

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að lesa „skýrsluna“ um niðurstöður kortlagningar í og við Hrunárgil. Ég átti von á að fá kort með staðsetningu hraunstraumsins, myndir sem lýstu stöðu hraunsins og svo framvegis.

GPS punktar segja leikmönnum lítið um staðsetningu hraunsins. Fólk vill fá kort með staðsetningum. 

Nauðsynlegt er að gera greinamun á Innra-Hrunárgili og Ytra-Hrunárgili. Með því að stinga út staðsetninguna kemur í ljós að hraunjaðarinn er enn í innra gilinu og er endinn eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Hraunjaðarinn í Hvannárgili er hins vegar ágiskun.

Hrunaá hefur ekki gufað upp, hún rennur enn, líklega milli þess og hlíðar og sýður á henni. Straumurinn er hins vegar svo mikill að hún hefur ekki horfið með öllu. Gaman hefði nú verið að sjá mynd af ánni, maður gæti þá gert sér grein fyrir því hversu mikill hluti hennar er í vökvaformi. Með því að rýna í myndina myndi ég giska á að rennslið sé um helmingur þess sem normalt er á þessum árstíma.

Í skýrslunni var engu að síður forvitnilegt að lesa um árkeiluna fyrir framan Hrunárgil, ég geri ráð fyrir að um sé að ræða Innra-Hrunárgil. Hún veldur því að hraunið mun falla til að byrja með til SA, upp í gilið við hliðina.

Árkeila er einfaldlega bunga sem myndast vegna framburðar árinnar úr gilinu. Samskonar árkeila er fyrir framan Hvannárgil og hún er gríðarstór enda mikill framburður úr gilinu. Sú árkeila mun án efa valda því að hraunstraumurinn úr Hvannárgili mun leggjast fljótleg til vinstri, vesturs, í stað þess að velta yfir að Valahnúk og stífla þar dalinn eins og sumir halda.

Þetta er einfaldlega það sem sjálf Hvanná gerir og breytir varla miklu þó í kjölfar hennar komið seigfljótandi apalhraun.

Annars er ég óðum að ná heilsu og nenni nú varla lengur að styðjast við óáreiðanlegar fréttir frá vísindamönnum eða öðrum. Best að kanna þetta allt sjálfur en til þess þarf maður að komast inn í Goðaland. Hvernig maður svindlar sér þá framhjá vörðum bannveldisins veit ég ekki enn.  


mbl.is Mikilll hiti í Hruná
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er enn bann norðan Hálsins?

Greinilega samantekin ráð lögreglu, veðurfræðinga og fréttamanna að letja fólk til ferða á Hálsinn. Skelfilegar tölur um vindkælingu og frosmark gegna þessu hlutverki.

Hins vegar háir það ekki neinum sem vel er klæddur. Vandamálið getur hins vegar verið vikurinn sem fer af stað í rokinu í bland við snjóinn. Það verður nú skafrenningur í lagi. Raunar hræringur ...

Áhugi minn beinist nú að norðurhliðinni, gönguleiðinni upp úr Goðalandi. Bíð spenntur eftir því að banni við umferð inn í Þórsmörk verði aflétt. Eyjafjallajökull er tekinn að hjaðna, gosóróinn líka og vatnið í ánum var aldrei meir en í meðallagi á sumrin. Til hvers þá að banna umferð inn í Þórsmörk og Goðaland? Fyrst okkur vitleysingunum var leyft að fara á Fimmvörðuháls sunnanmegin af hverju ekki leyfa okkur að fara norðanmegin? 


mbl.is Ekkert ferðaveður á gossvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvannárgil er fögur náttúrusmíð

Margir hafa haft samband við mig og spurt hvers konar gil þetta Hvannárgil sé. Ég hef sagt frá því að gilið sé afar fallegt og raunar stórkostleg náttúrusmíð. Eiginlega finnst mér ætti að banna umferð hrauns í því, nema kannski upp í móti!

Gilið er afskaplega vanmetið. Ég viðurkenni að mér fannst það hrikalega langt og leiðinglegt eftir að hafa villst niður það sem ungur maður eftir ferð með honum Hermanni Valssyni á Eyjafjallajökul. Síðar hef ég kynnst því betur og þau kynni hafa sannfært mig um að Hvannárgil er einfaldlega fögur, raunar stórkostleg náttúrusmíð.

Því miður eru flestar myndirnar mínar úr Hvannárgili á filmum og skanner ekki handhægur. Með eftirfarandi frásögn fylgja þó þrjár myndir teknar á stafræna vél.

Hvannárgil 

p0002728.jpg

Gilið er gríðarlega langt og djúpt, líklega eru um 14 km frá mynni þess í norðvestri og upp að Heljarkambi í suðaustri.

Tvö afgil ganga til suðurs úr Hvannárgili. Hið fremra nefnist Suðurgil og skerst inn í landið við Merkurtungur og nær allt vestur undir Merkurtungnahaus. Hitt gilið er minna og nafnlaust, má þess vegna heita Innra-Suðurgil. Mynni þess er því sem næst sunnan við Útigönguhöfða og þaðan liggur það austan við Merkurtungnahaus og allt inn að Fimmvörðuhálsi. Þar innst er brattur og illfær skriðjökull sem Þórður Tómasson segir í riti sínu um Þórsmörk að heiti Hvannárjökull. 

Gönguleiðir eru ágætar um Hvannárgil nema um miðkaflann, þ.e. frá Innra Básaskarði að Útigönguhöfða. Þar eru veggir gilsins háir ogbrattir, stundum lóðréttir og áin slær sér milli bakka svo erfitt er að fara þar um án þess að vaða margoft.

Engu að síður er þetta áhugaverð leið fyrir þá sem sækjast eftir nokkrum átökum á ferð sinni um landið.

p0002726.jpg

Innra-Suðurgil er mjög torfarið og verða á því sífelldar breytingar eftir því sem best verður séð og alls ekki mælt með því að ganga um það nema með góðum útbúnaði því sjálfheldur voru þar nokkrar. Síðast var ég þar á Ferð með Árna Jóhannssyni sem lengi var formaður Útivistar. Þá áttum við ekki önnur úrræði en að vaða straumþunga og djúpa ána til að komast áfram.

Af ókunnugleika telja margir Hvannárgil vera erfitt og leiðinlegt yfirferðar. Því er nú fráleitt þannig varið. Hvannárgil er að vísu langt en hægt er að skipta því í tvo eða fleiri hluta.

Á síðustu árum hefur gönguleiðin frá Heljarkambi í Bása orðið æ vinsælli enda mjög falleg og auðveld. Þeir sem hafa oft farið yfir Fimmvörðuháls velja þessa leið til tilbreytingar.

Fremri hluti Hvannárgils er einnig nokkuð vinsæll og er þá genginn hringur frá Básum, gengið annð hvort upp í Fremra-Básaskarð eða Innra-Básaskarð og þaðan yfir í Hvannárgil. Leiðin er frekar auðveld fyrir flesta. Gilið er stórkostlegt, það er hátt og veggir brattir. Á aðra hlið er Réttarfell og á hina Stakkholt og sléttlendið næst Hvannárgili nefnist Hátindaflatir.

p0002731.jpg

Gönguleiðin í kringum Réttarfell 

Hana má fara hvort heldur réttsælis eða rangsælis en hér er valin sú síðarnefnda, en hin leiðin er þó engu síðri. Upphafið er sem fyrr við Básaskála og er göngustígnum fylgt alla leið upp í Fremra Básaskarð og tekur gangan um það bil hálftíma. Þá strembnasti hlutinn að baki og auðveld ganga það sem eftir er.

Í Fremra-Básaskarði er vegprestur enda þar um nokkrar leiðir að velja en hér er bendingu hans fylgt ofan í Hvannárgil eftir greinilegum göngustíg.

Margt er að sjá, veðrað móbergið í Réttarfellinu, lóðrétta hamraveggi Hvannárgils, múkkann sem flýgur yfir og jafnvel stöku hrafna sem stundum ráðast á múkkana og éta þá.

Á korti í bók Þórðar Tómassonar, Þórsmörk, er skráð örnefnið Móhella þar sem gönguleiðin liggur um. Engar frekari upplýsingar eru gefnar um nafnið sem þó má til sanns vegar færa því landslagið er að mestu móberg.

100328_kort.jpg

Handan Hvannár opnast Suðurgil sem teygir sig inn að hömrunum fyrir neðan Eyjafjallajökul. Nokkru fjær er Innra-Suðurgil á  milli þessara tveggja gilja heita Merkurtungur.

Ofan í Hvannárgili er gönguleiðin ógreinilegri og ógreiðfærari því áin á það til að slá sér sitt á hvað á leið sinni út úrgilinu og flytja um leið til stórgrýti. Þetta er þó ekkert til vandræða. 

Gunnufuð eða Mangafuð er vestan megin í mynni gilsins ogminnir á sögnina um hjónin sem lögðust út. Sjá nánar um gönguleiðina að Stakkog Gunnufuð í kaflanum um Stakkholt.

Þegar komið er út úr Hvannárgili er haldið áfram með Réttarfelli og síðan með vegarslóðanum út að Álfakirkju. Þar tekur kjarrlendið við og nú má velja um tvær leiðir að Básaskála. Fyrri kosturinn er að ganga eftir veginum ogþarf þá að stikla Básalækinn sem þarna er nokkuð stór og breiður. Hinn kosturinn er sá að ganga með fjallinu eftir göngustígnum. Þessar leiðir er ólíkar og sú síðarnefnda er seinfarnari en ólíkt fallegri.

Textinn í þessu bloggi er úr óbirtu handriti að gönguleiðum á Goðalandi, Þórsmörk og víðar eftir undirritaðan.

Efsta myndin er út neðri hluta Hvannárgils. Þar er yfirleitt allt mjög vel fært. Á næstu mynd stendur drengur og horfir niður eftir þeim hluta Hvannárgils sem er illfær, þó ekki ófær. Á þriðju myndinni er horft upp Hvannárgil, allt að Heljarkambi og Bröttufannarfelli. Um þennan hluta gilsins rennur líklega hraun núna.


mbl.is Nýr hraunfoss í Hrunagili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kappið ber oft skynsemina ofurliði

100328_kort_hraun.jpg

„Ég hef einu sinni farið upp á Fimmvörðuháls í þyrlu en þetta er í fysta sinn sem ég kem af Hálsinum með flugvél,“ sagði Óli Þór Hilmarsson, vinur minn, sem kom seint í gærkvöldi af Fimmvörðuhálsi. Hann og félagar hans fluttu með sér fisvélina sem hlekktist á í lendingu á Hálsinum í gær. Sem betur fer meiddist flugmaðurinn ekki alvarlega en vélin er mikið löskuð.

Þeir höfðu í gærmorgun ekið upp á Háls til að sinna viðhaldi Fimmvörðuskála. Um eitt leitið í nótt komu þeir að Skógum og höfðu á leiðinni boðið örmagna göngufólki fara eða tekið við bakpokur.

Greinilegt er að vonin um að sjá eldgosið hefur villt um fyrir mörgum og þeir ekki gert ráð fyrir að þegar upp væri komið lægi fyrir sama leið til baka. Fyrir marga er 30 km dagsganga einfaldlega ofraun.

Ég er ekki svartsýnn maður en eftir að hafa verið fararstjóri í langan tíma veit ég að kappið getur borið skynsemina ofurliði - ekki síst mína eigin. Í  gærkvöldi var meira en tíu gráðu frost á Hálsinum og nokkur vindur. Spáin gerir ráð fyrir að í dag verði enn kaldara og hvassara. Góður fatnaður er því grundvallaratriði.

Ef vel á að vera þarf að leggja af stað úr Reykjavík l. 6 að morgni, hefja göngu frá Skógum fyrir klukkan níu til að hægt sé að ljúka henni fyrir myrkur, það er milli átta og níu.

Á meðfylgjandi korti má sjá útbreiðslu hraunsins eftir því sem ég best veit. 


mbl.is Jafn gangur í gosinu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áheyrilegur og sennilegur maður

Eru fleiri en ég sem finnst erfitt að fatta hvað Dagur B. Eggertsson er yfirleitt að segja? Ég viðurkenni þó að allt sem af vörum hans fellur er afar áheyrilegt og sennilegt. Hins vegar er ég sjaldnast neinu nær um kjarna málsins, oftast miklu ruglaðri. En það lýsir nú bara mér - ekki Degi.
mbl.is „Mörg hundruð störf í húfi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband