Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég kýs Katrínu Jakobsdóttir

Ég gerði fyrir löngu upp hug minn, þurfti í raun ekki langa umhugsun. Enginn kom til greina nema Katrín Jakobsdóttir. Hún hefur staðið sig afburða vel sem forsætisráðherra í ríkisstjórn þriggja ólíkra flokka, verið óumdeildur leiðtogi ríkisstjórnar sem náð hefur gríðarlega góðum árangri
Ekki nokkur vafi í mínum huga að hún verði afskaplega góður forseti. Sá sem gegnir embættinu þarf að vera víðsýnn, bera virðingu fyrir fjölbreyttri menningu þjóðarinnar og stuðla að því að hún blómstri. Forsetinn er um leið brjóstvörn lýðræðisins.
 
Mér hefur sýnst Katrín búa yfir sterkri réttlætiskennd án þess að í starfi hennar hefi hún haft annað að leiðarljósi en hagmuni þjóðarinnar allrar.
Ég er Sjálfstæðismaður og fylki mér nú í sístækkandi hóp flokksmanna sem styður Katrínu. Margir hafa atast í mér vegna þessa og munu eflaust halda því áfram en ég er ekki einn því rúmlega helmingur flokksmanna styður hana. Því ber að fagna.
Við þá sem eru enn tvístígandi vil ég segja það eitt að kosningar til forseta Íslands eru leynilegar. Enginn veit hvernig maður ráðstafar atkvæði sínu.
Síðustu skoðanakannanir benda til þess að fylgi við Katrínu vaxi dag frá degi, þökk sé öflugu grasrótarstarfi stuðningsmanna hennar, Sjálfstæðismanna sem annarra.
 
Tryggjum að embætti forseta Íslands verði vel skipað.

Landsbankinn sýnir kjörnum fulltrúum fingurinn

Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur. Bankastjórinn segir að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við. Bankinn sé ekki ríkisbanki heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins. Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu?

Leiðari Morgunblaðs dagsins er beinskeyttur og afar góður. Hann fjallar um kjörna fulltrúa á þingi og í sveitarfélögum og máttleysi þeirra gagnvart embættismannavaldi, álitsgjöfum og þrýstihópum. Nú er svo komið að kjörnir fulltrúar eru í aukahlutverki eins og það er orðað í fyrirsögn leiðarans.

Furðuleg kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM benda til þess að stjórnmálamenn, þjóðkjörnir fulltrúar, hafi afsalað sér völdum til þeirra sem bera ekki neina ábyrgð. Í leiðara Moggans segir:

Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram.

Það er tímabært að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera, þeirra á valdið að vera og þeir þurfa að axla þá ábyrgð. Almannavaldinu má ekki „útvista“.

Bankasýslan var sett á fót til að ráðherra geti ekki haft bein áhrif á stjórnun ríkisbanka. Fyrirbærið er kalla „armslengd frá ráðherra“. 

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng og höfundur leiðarans og segir í grein í Morgunblaði dagsins:

Uppákoman í kringum kaupin á TM er áminning um á hvaða villigötur við erum komin. Búið er að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda og embættismanna.

Og í lok greinar sinnar segir Óli Björn:

Eftir því sem valdsvið úrskurðarnefnda eykst og þeim fjölgar, gjáin milli stjórna ríkis- fyrirtækja og eigandans breikkar, því óljósari er hugmyndin um að valdið sé sótt til almennings og að kjörnir fulltrúar séu umboðsmenn kjósenda.

Einhvern veginn virðast mál þróast hægt og hægt á þann hátt að valdið færist frá kjörnum fulltrúum til einhvera annarra. Þegar þetta hefur gerst og mál eru komin í óefni og þá loks standa menn upp og gera athugasemdir.

Bankastjórn Landsbankans virðist fara sínu fram og bankastjórinn segir bankann almenningsfyrirtæki og stefna ráðherra eða ríkisstjórnar komi bankanum ekkert við. Gerður hefur verið samningur við annan banka um kaup á tryggingafélaginu án fyrirvara um samþykki hluthafafundar. Verði fallið frá kaupunum á TM virðist Landsbankinn þurfa að greiða seljandanum skaðabætur. Á skýru alþýðumáli kallast svona lagað að senda stjórnvöldum fingurinn. 

Ekki er furða þó margir reki upp stór augu. Stjórnarandstaðan kennir fjármálaráðherra um og reynir að koma því inn hjá álitsgjöfum, þrýstihópum og fjölmiðlum að hann hafi alla tíð vitað um málavexti. Lætur svona í veðrinu vaka að hann hafi unnið til saka eins og segir í ljóðinu.

Stjórnarandstaðan horfir ekki á málavexti heldur notar tækifærið til að níða fjármálaráðherra vegna þess að hann gæti verið sekur um eitthvað óljóst. Er þetta ekki dálítið kunnugleg aðferðafræði?

 

 

 


Pópúlistinn Þórunn Sveinbjarnardóttir upphefur sjálfa sig

BarnamálamorðingiMargir stjórnmálamenn eru svo illa málefnalega haldnir að þeir kunna ekkert ráð annað en að gera lítið úr skoðunum andstæðinga sinna og jafnvel niðurlægja þá. Aðferðin gengur þvert á málefnalega rökræðu.

Kjarni aðferðarinnar er að vitna aldrei beint til orða andstæðingsins heldur segja frá þeim með eigin orðum (í óbeinni ræðu).

Síðan er lagt út af hinum meintu orðum með af miklum þunga, gagnrýni og jafnvel hæðni. Markmiðið er augljóst og síst af öllu göfugt.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, alþingismaður, virðist vera geðug kona, þykist buguð undan vonsku heimsins og fellir tár þegar hún fréttir af nothæfum harmi til til að slá um sig með.  

Í Morgunblaðinu 23.1.23 fær hún birta stutta grein eftir sig í henni segir stendur meðal annars:

Fyr­ir helgi skrifaði Bjarni Bene­dikts­son, ut­an­rík­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sig út úr ábyrgri og lýðræðis­legri umræðu um mál­efni út­lend­inga hér á landi með ósmekk­legri sam­suðu út­lend­inga­andúðar og hræðslu­áróðurs.

Lesendur rekur í rogastans, ekki síst þeir sem þokkalega fylgjast með stjórnmálaumræðunni. Aðrir kunna að samsinna henni af því hún er svo geðþekk. Mjúkmált og elskulegt fólk segir aldrei neitt ljótt um aðra.

Engu að síður er ástæða til að greina stuttlega það sem hún segir um Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins í áðurnefndri grein:

  1. Skrif Bjarna eru ekki ábyrg.
  2. Skrifin eru þvert á lýðræðislega umræðu um málefni útlendinga.
  3. Skrif Bjarna markast af útlendingaandúð.
  4. Bjarni stendur fyrir hræðsluáróður

Allt þetta er rangt enda getur Þórunn ekki beint á neitt í skrifum Bjarna sem réttlætir ummælin. Þórunn er einfaldlega „popúlisti,“ notar fasískar aðferðir til að gera lítið úr andstæðingi sínum og upphefja sjálfan sig í leiðinni sem væntanlega er tilgangurinn.

Hér er það helsta sem Bjarni sagði í færslu sinni á Facebook.19.1.23:

  1. Hann er ósáttur við að tjaldbúðir á Austurvelli.
  2. Erlendir þjóðfánar eiga ekki að vera fyrir framan Alþingi.
  3. Ekkert land hefur tekið við fleiri Palestínumönnum.
  4. Núverandi fyrirkomulag um hælisleitendamál ætti að vera svipað og hjá nágrannaþjónunum.

Bjarni leggur fram rök sem sumir kunna vissulega að vera á móti. Ekkert í orðum hans stendur undir skítkasti Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Þórunn lýgur upp á Bjarna og skammast sín ekki.

Áður en einhver lesandi fari nú að agnúast út í það sem ég segi vil ég taka það fram að persónulega er mér alveg sama um tjöld og erlenda þjóðfána á Austurvelli. Þar að auki er ég hlynntur frjálsu palestínsku ríki rétt eins og stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar vilja.

Hins vegar finnst mér þeir sem búa í tjöldunum á Austurvelli vegi ódrengilega að þjóðinni sem hýsir þá með því að setja skilti á stórt tjald með orðinu „barnamorðaráðherra“. Sjá meðfylgjandi mynd. Að öllum líkindum er átt við íslenskan ráðherra. Við nánari umhugsun kunna Palestínumenn á Íslandi að vera í slæmum félagsskap hérlendra.


Frábær umfjöllun Moggans um atburðina í Grindavík

Screenshot 2024-01-15 at 09.59.09Eldgosið við Grindavík er aðalumfjöllunarefni Mogga dagsins. Aðdáunarvert er hversu vel blaðið er unnið. Ritstjórnin er afar góð og skipulögð og blaðamenn standa undir væntingum lesenda. 

Myndir ljósmyndara Moggans eru afskaplega góðar, vel unnar og klipptar. Forsíðumyndin er sláandi, tekin á þeim tíma dags er við, almenningur, héldum að nú væri öllu lokið, sprungan myndi teygja sig inn í bæinn og glóandi hraun myndi engu eira. Sem betur fer virðist nú að svartsýnustu spár muni ekki rætast. Grindavíkurbær stendur enn og íbúarnir eru eðlilega beygðir en alls ekki brotnir, eins og það hefur verið orðað.

Á einfaldan hátt rekja blaðmenn aðdraganda eldgosa við Fagradalsfjall og norðan Grindavíkur frá því 15. desember 2019 og fram til dagsins í gær, 14. janúar 2024. Mynd Kristins Magnússonar á blaðsíðu fjögur er stórkostleg og sýnir að varnargarðarnir björguðu bænum frá hrauninu sem hafði án efa runnið inn í hann. Um leið sýnir myndin varnarleysið gagnvart eldsprungunni sem opnaðist rétt við bæjarmörkin og eyðilagði þrjú hús. Mynd Árna Sæbergs ljósmyndara á blaðsíðu fimm til sex er tekin úr austri og sýnir á sama hátt jarðeldinn sem ryðst á íbúðarhúsin.

Ég tek sérstaklega eftir hversu allar myndirnar eru skarpar og eftirvinnslan góð.

Viðtölin við heimamenn og jarðvísindamenn eru fróðleg. Athygli mína vakti viðtalið við Vilhjálm Árnason, Grindvíkinginn sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Heimili hans er örskammt frá glóandi hrauninu. Hann segir í lok viðtalsins:

Við eyðum ekki óvissunni með náttúruna, en við getum eytt óvissu fólks hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Það verður líka að hafa svör fyrir fyrirtækin, svo þau flytji ekki varanlega á brott.

Í þessum örfáu orðum felst kjarni málsins eins og sakir standa núna, á öðrum degi eldgossins, og nærri tveimur mánuðum eftir að ósköpin hófust.

Umfjöllun Moggans um eldsumbrotin eru afar góð. Þau eru fræðandi og upplýsandi fyrir almenning.


Ójafnvægið sem veldur hlýnun jarðar

„It’s freezing í New York - where the hell is global warming?“ sagði Donald Trump meðan hann var forseti Bandaríkjanna. Sumir landsmenn hans hlógu honum til geðs, aðrir hlógu vegna grunnhyggni mannsins sem jafnan talar án þess að íhuga málavexti.

Hérlendir spámenn hafa oftsinnis bent á snjóinn úti og fullyrt hæðnislega að hlýnun jarðar sé tóm vitleysa. Aðrir hafa sagt að koltvíoxíð geti varla verið slæm fyrir umhverfið því ljóstillífun gróðurs breytir því með vatni í sykrur og súrefni.

Upphrópanir eiga sjaldnast neitt sameiginlegt með rökræðum. Þeir sem hæst hrópa og eru sennilegastir ná oft miklu meiri árangri en þeir sem vanda sig og feta sig orðmargir að kjarna málsins. Þeir sem ekki lesa fjölmiðla eða bækur grípa óvandaðar fyrirsagnir og gera þær að sínum. Fyrirsagnahausar hafa oft hátt.

Júlíus Sólnes fyrrverandi prófessor ritar afar merkilega grein í Morgunblað dagsins. Hann segir, þvert á það sem margir hafa fullyrt, að varhugavert sé að túlka hærra hitastig jarðar sé af völdum sívaxandi losunar koltvíoxíðs. Júlíus og fjöldi annarra vísindamanna sem hann nefnir vilja fara aðra leið.

Kjarni málsins í grein Júlíusar er þessi:

Geim­vís­inda­stofn­un Banda­ríkj­anna, NASA, hef­ur nú um 40 ára skeið mælt orku­strauma sól­ar og jarðkerf­is­ins inn og út úr gufu­hvolf­inu með gervi­tungl­um sín­um og geislamæli­tækj­um, rétt fyr­ir ofan loft­hjúp jarðar.

Jarðkerfið fær lang­mest­an hluta þeirr­ar orku (99,98%) sem ger­ir jörðina byggi­lega frá sól­inni. Ársmeðaltal ork­unn­ar sem við fáum frá sól­inni er 340 W/m2 (vött á fer­metra) miðað við allt yf­ir­borð jarðar (510,072 millj­ón fer­kíló­metr­ar).

Til þess að lofts­lag á jörðinni hald­ist stöðugt, verðum við skila sömu orku til baka út í geim­inn. Ef við skil­um minni orku en við fáum frá sól­inni, hleðst hún upp í jarðkerf­inu, það hlýn­ar. Ef við skil­um meiri orku til baka, kóln­ar. Þetta er ein­föld eðlis­fræði.

Þetta er ekki aðeins eðlisfræði heldur einfalt bókhald. Hvað verður svo um þessa orku sem hleðst upp í jarðarkerfinu ár hvert?

Júlíus vitnar í síðustu ástandsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál. Þar kemur þetta fram:

  • Um 91% umframorkunnar fer í að hita upp heimhöfin
  • Um 3% fara í að bræða ísinn á Grænlandi, Suðurskautslandinu og landjökla jarðar
  • um 5% hitar upp þurrlendi jarðar
  • um 1% hitar upp andrúmsloftið.

Þetta eru stórmerkilegar upplýsingar og Júlíus lýkur grein sinni með þessum orðum:

Þótt ekki sé hægt að nota hita­mæl­ing­ar sem vís­bend­ingu, er hlýn­un sjáv­ar og orkuó­jafn­vægið skýr vitn­is­b­urður um hnatt­ræna hlýn­un, sem ekki er hægt að skýra nema með auknu magni gróður­húsaloft­teg­unda í loft­hjúp jarðar. Hana ber að taka al­var­lega og grípa til viðeig­andi ráðstaf­ana.

 

 

 


Déskotinn ...

Ég var fyrsti maðurinn í Ríkið þennan Þorláksmessumorgun þegar aðventan reyndi af veikum mætti að lýsa upp skammdegismorguninn. Auðvitað vildi ég gera mitt til að gera tilveruna bjartari.

Gekk því út í rökkrið með nokkra bjóra í fanginu og rándýra koníaksflösku. Áður en ég bakkaði út úr stæðinu smellti ég einum bjór opnum með annarri hendi, „með einari“ eins og við strákarnir segjum stundum. Munaði ekkert um það. Snjall, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn forðum í brennunni. Hjá mér var önnur glóð sem ég hugsaði gott til.

Ég bakkaði og ók síðan áfram en komst ekki út. Þar sem ég hafði ekið inn kom bíll á móti mér og að auki var þarna bannskilti; Útakstur bannaður. Ég glotti eins og Skarphéðinn í liðsbón á Þingvöllum. Umsvifalaust beygði ég til hægri og það ískraði næstum því í dekkjum. Flott.

Við hitt hliðið biðu nokkrir bílar eftir að komast út. Ég teygði mig í bjórinn og var kominn með hann að vörunum þegar ég tók eftir mótorhjólalöggumanni með hvítan hjálm sem stóð við fremsta bílinn.

Hvað í fjandanum er löggan að gera? hugsaði ég með mér. Ofurnæmur skilningur minn á aðstæðum var slíkur að svarið var lá mér í augum uppi. Varlega lagði ég bjórinn frá mér í flöskuhólfið á milli sætanna, setti húfuna mína ofan á og svo hann sæist nú ekki. Svo opnaði ég alla glugga til að lofta út gufunni úr bjórnum sem ég hafði opnað.

Löggan var með eitthvað tæki og otaði því að mér.

Hvað er þetta, spurði ég áhyggjufullur.

Það kemur í ljós, sagði löggan og brosti feimnislega. Blástu.

„Má ég ekki bara koma síðar, spurði ég. Því þegar þarna var komið sögu sá ég dálítið eftir því að hafa burstað tennurnar í morgun upp úr vodka, en þá hafði mér fundist það alveg rosalega fyndið. Andremman sem fylgdi var hins vegar ekki góð. Ég át því piparkökur frá Bónusi í morgunmat til að eyða bragðinu.

Löggan hló og hélt ég væri að gera að gamni mínu.

Sko, ég verð örugglega betur upplagður á morgun, fullyrti ég.

Ha, ha, ha. Löggan hló innilega.

Ég blés og reyndi að velja skársta loftið úr lungunum en það misheppnaðist.

Heyrðu nú góði, sagði löggan, þegar tækið pípti. Röddin breytti um tón, hætti að vera föðurleg, og nú var hann eins og kennari sem komst að því að ég hafði ekki lært heima. Hann hló ekki lengur og brosti ekki heldur.

Viltu gjöra svo vel og stíga út úr bílnum? Svo mikill mannþekkjari er ég að ég áttaði mig nokkuð skjótt á því að þetta var ekki spurning.

Ég horfði á lögguna. Fann að haka seig.

Löggan horfði á mig. Gleðilaust.

Ég gaf í. Rúllaði upp öllum gluggum. Saug upp í nefið. Gerði þetta þrennt án þess að fipast. Bíllinn hökti fyrst en náði samt að komast áfram og ég ók á fullri ferð út úr bílastæðinu, upp næstu götu til austurs, niður þar næstu og svo til vinstri og þá hafði ég farið í hring, kominn aftur að hliðinu þar sem ég hafði ekið út án þess að kveðja kátu lögguna. Sá á eftir lögguhjólinu á leið upp götuna sem ég hafði ekið. Auðvitað myndi hann ekki vita að ég væri kominn aftur á sama stað.

Déskoti hvað ég er klókur, hugsaði ég, kveikti á græjunum og hlustaði á Va, pensiero, Þrælakórinn úr Nabucco eftir Verdi, þenja raust sína. Ég hækkaði og ók aftur sömu leið og ók eins og hinir, var bara rólegur. Kórinn fyllti bílinn. En uppi á horni beygði ég í vestur og saup á bjórnum. Hann var kaldur og góður. Snillingur þessi Verdi. Del Giordano le rive saluta ... söng kórinn.

Nokkru síðar heyrði ég í sírenu löggubíls. Blá, blikkandi ljós langt fyrir aftan mig. Ég svínbeygði til hægri og fyrir stóran vörubíl sem flautaði á mig og ljótur bílstjórinn sendi mér illt auga. Mér var alveg sama, ég hægði ferðina mikið og sendi honum fingurkveðju út um hliðargluggann. Ljótur bílstjórinn þeytti eimpípurnar og var alveg kominn upp að mér að aftan. Ég hafði búist við þessu. Nú skyggði vörubíllinn á mig svo löggan sá mig ekki enda ók hún á fullri ferð vestur. Bjánar. Áttu ekkert í mig. ... O mia Patria, si bella e perduta!  ... Þvílík fegurð og ég trallaði með.

Ég yfirgaf félagsskap vörubílsins, gaf í og ók sem byssubrendur á eftir löggunni. Þessu býst enginn lögga við, að fulli kallinn aki á eftir henni í eftirleitinni. Þarna var ég eins og hann Arnes útilegumaður sem leitað var að í Akrafjalli á 18. öld. Hann hafði slegist í hóp leitarmanna og hjálpaði þeim að leita að sjálfum sér og gekk það eðlilega frekar illa. Enginn áttaði sig á klókindum Arnesar né heldur áttaði löggan sig á mínum.

Ég gaf í og fylgdi löggunni á þeysireið hennar í vestur. Þá varð mér litið í baksýnisspegilinn. Déskotinn. Fyrir aftan mig glömpuðu blá ljós og nógu skarpur var ég til að átta mig á að það voru engin jólaljós. Ég skipti eldsnöggt um akrein og bláu ljósin fylgdu. Dé...

Þetta hlýtur að vera tilviljun, hugsaði ég. Opnaði annan bjór „með einari“, saup á honum og fann að mér óx ásmegin. Ég get allt. Er mestur og bestur. Gatnamót voru framundan. Með bjórinn í hægri hendi beygði ég til vinstri, bíllinn tók vel við, í dekkjunum ískraði þegar hann skrensaði á blautu malbikinu, svona alveg eins og í bíómyndum. Í baksýnisspeglinum sá ég að löggan elti mig ekki, hún fjarlægðist, og ég sem af öllum háska hlæ, gaf í. Bíllinn þeyttist áfram og beint í fangið á kyrrstæðum strætó sem á óskiljanlegan hátt beið á rauðu ljósi. Ég fór ekki lengra þennan daginn nema ef verið gæti að ég hafi farið til himna. Til baka kom ég, man ekki hvort ég hafi verið rekinn vegna drykkjuskapar eða farið sjálfviljugur enda allt eins líklegt að þar hafi verið löng biðröð eins og eftir kóvid skimun. Skipti engu máli. 

Verst þótti mér að ég hafði misst bjórinn og hann sullaðist út um allan bíl. Ég man svo glöggt eftir suðinu sem kom úr sprungnum bjórdósum á á gólfinu.

... che ne infonda al patire virtù! Þrælakórinn lauk söng sínum.

Déskotinn ... man ég að mér varð á orði, þegar ég sá bjórinn freyða á gólfinu. Skyldi koníakið vera óbrotið?

En þá vaknaði ég.

Sá að sængurverið var rifið. Lampinn lá brotinn á útvarpinu sem suðaði. Gluggatjöldin voru komin upp í rúm og ég hafði migið á mig.

Déskotinn.


Tví-svala-jóla-kveðjur mínar eru jólalegri en síbylja Ríkisútvarpsins

Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann, og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).

Jólakveðjur útvarpsins

útvarpNú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.

Úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda enn fleiri kveðjur þetta árið en í fyrra. Það bendir eindregið til þess að fleiri og fleiri láta Rúvið plata sig. 

Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).

Á kaffistofunni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum  Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.

Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakkaár, nýttlíða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir fjögur þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Hreint útilokað. Vonlaust. Óraunhæft. 

Ríkisútvarpið græðir

Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.

Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send en fór aldrei í loftið. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í algleymið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, berja krakkanna eða eitthvað annað þarflegt. Það er nú svo agalega jólalegt. Ha? Ekki satt?

Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega tuttugu milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Útvarpsstjórinn las í fyrra í tvær mínútur meðan teknar voru hreyfimyndir og ljósmyndir af honum við þessa iðju og svo fór hann heim. Allir hinir eru þegar á launaskrá svo kostnaðurinn er enginn. Bara tekjur. Stórbissniss.

En bíddu nú aldeilis við, kæri lesandi.

Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.

Rafræna tómið 

Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður, svo óskaplega jólalegur jólasiður um jólin. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur í fyrra, hitteðfyrr, þarhitteðfyrra, þarogþarogþarhitteðfyrra. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu, hjá því hverfur allt út í rafrænt tómið á bak við hringi Satúrnusar. 

Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta og mun ekki einu sinni reyna það.

Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu og aðdáun fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem áður var nefnt og er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum eins og dæmi síðustu ára sanna.

Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu? Í Kína? Ó nei. Ekki aldeilis. „Á skal á endanum vaða“, eins og kellingin sagði. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.

Gasalega jólalegt

Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra bregðast við (og verða þá „viðbragðsaðili“) lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Trump eða kóngurinn í Lúxúmbúrg eða einhver annar).

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það, þú þarna útvarpsstjóri!

(Vilji svo til að einhver óglöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)


Er sá mótmælandi sem beitir ofbeldi?

„Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð. Ég er rosa fegin að hafa getað óskað honum gleðilegra jóla,“ segir Katrín Harðardóttir mótmælandi í samtali við Vísi.

Er ofbeldi alltaf réttlætanlegt? En er það stundum réttlætanlegt? Hvenær er það réttlætanlegt og hvenær ekki?

Þessar spurningar leita á mann þegar fréttir berast af því að Katrín Harðardóttir mótmælandi hafi ráðist að utanríkisráðherra og hellt yfir hann einhverju rauðu dufti sem kallað er glimmer. Er það ekki ofbeldi? 

Er líklegt að sá sem verður fyrir ofbeldi breyti um skoðun og fari að vilja ofbeldismannsins?  

Sautján manna hópur réðst fyrir sléttu ári á tvo menn í veitingahúsi í Bankastræti, barði þá til óbóta og annar þeirra var stunginn með hnífi. Þeim hafði ofboðið eitthvað sem tvímenningarnir höfðu gert.

Í ágúst kveiktu glæpamenn í bíl lögreglumanns. Þeim hefur líklega ofboðið starf mannsins.

Í september síðast liðinn réðust menn á útlending sem sótti ráðstefnu á vegum Samtakanna 78. Ljóst má vera að þeim ofbauð að kynhneigð ráðstefnugestsins var önnur en þeirra.

Eru einhverjar líkur á því að þeir sem urðu þarna fyrir ofbeldi hafi látið segjast? Samþykkt það sem ofbeldismennirnir vildu? Nei.

Getur smávægilegt ofbeldi stigmagnast og enda með limlestingum eða dauða?

Prófessorinn í bandaríska háskólanum tók upp byssu og skaut á samstarfsmenn sína af því af hann fékk ekki stöðuhækkun sem hann vildi.

Frakkinn greip hníf og lagði til fólks úti á götu af því að hann vildi hefna fyrir stuðning franskra stjórnvalda við morðæði Ísraela á Gaza.

Í New York ætlaði rithöfundurinn Salman Rushdie að flytja ræðu um Bandaríkin sem griðarstað fyrir rithöfunda úr öðrum löndum. Bandaríkjamaðurinn Hadi Matar stakk Rushdie margsinnis, meðal annar í hægra augað. Ástæðan var einfaldlega gagnrýni Rushdies á Islam og bók hans Sálmar Satans.

Ofbeldismaður réttlætir valdbeitingu sína, heldur að hún breyti tilverunni til hins betra. Það gerist aldrei. Blóð réttlætir ekkert.

Mér ofbýður ofbeldi Katrínar Harðardóttur mótmælanda. Hún réttlætir gerðir sína rétt eins og aðrir ofbeldismenn. Í sannleika sagt er enginn munur á ofbeldi annar en stigsmunur. 

Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð.

Þetta segir mótmælandinn í viðtali við Vísi. Hann réttlætir ofbeldið rétt eins og aðrir ofbeldismenn.

Svo er það siðferðilega spurningin: Hvenær verður mótmælandi að ofbeldismanni?

 


Mynd af óróasvæðinu við Grindavík

IMGT4769_IMGT4771 Neo b

Veðurstofan gerir góð kort af óróasvæðinu í og við Grindavík. Þó hefur vantað nógu góðar myndir fyrir okkur sem erum ekki gjörkunnugir staðháttum. Um daginn gekk ég leyfislaust á Þorbjarnarfell og tók þar nokkrar myndir af staðháttum. Þar á meðal þá sem hér fylgir.

Ég leyfði mér að setja inn örnefnin sem koma oft fyrir í grindvísku fréttunum, hef vonandi sett þau rétt. Svo virðist sem myndin sé ekki alveg í fókus hér fyrir ofan en þá er best að tvísmella á hana og hún birtist í allri sinni fegurð enda er landslagið er tilkomumikið.

Mikið er talað um Hagafell. Það er móbergsfjall en gígar eru vestan við það og eru tengdir Sundhnúksgígunum sem eru norðaustan við fellið. Þeir urðu til í gosi fyrir rúmlega 2000 árum. Um helmingur húsa í Grindavík stendur á hrauninu sem þá rann. Hinn helmingurinn stendur á um 8000 ára gömlu hrauni og Hópsnes er úr sama gosi.

Fagradalsfjall er í baksýn og þar glittir í gíginn frá árinu 2021. Ef grannt er skoðað, hægra megin við Stóra-Hrút, sést dökkur hrauntaumur sem rann í sama gosi ofan í Nátthagadal.

Sýlingarfell er vinstra megin á myndinni. Hraunið úr Sundhnúksgígum rann allt í kringum fjallið og er Blá lónið á mörkum þess og Illhrauns sem rann á árunum 1210 og 1240. Jafngömul eru Eldvarpahraun og Arnarseturshraun sem eru skammt frá.

Sýlingarfell er torkennilegt örnefni við fyrstu sýn. Í Íslenskri orðsifjabók segir að sögnin að sýla merki að gera skarð eða skoru í eitthvað. Sýling, sýldur getur verið fjármark, eyrnamark. Efst í Sýlingarfelli er lægð, vera kann að nafn fjallsins sé dregið af henni, sýlingunni.

Að lokum tvennt. Taka verður undir með því sem jarðfræðingar segja að eldgos á Reykjanesi eru aldrei ofsaleg, eru yfirleitt skammvinn. Stærsta hættan er af hraunrennsli. 

Loks er hér kortið sem Veðurstofan gaf út í dag. Afar skýrt fyrir þá sem vilja átta sig á staðháttum. Hægt er að stækka það með því að tvísmella.

Hættusvæði

 


Barbie þenaði - lofthelgi yfir landi - vel tókst að tímasetja gos

Orðlof

Minna starfshlutfall

Ekki hefi ég ákveðnar skoðanir á því hvort það var rétt ákvörðun að loka sendiráðinu í Moskvu. Það hefði kannski mátt draga úr starfseminni eins og hin norrænu löndin gerðu í sínum sendiráðum. 

Það var líklega erfiðara fyrir okkur að gera það því það eru bara fáar hræður starfandi í okkar sendiráði. En samt hefði mátt draga úr umfanginu, t.d. með því að láta sendiherrann sofa til hádegis annan hvern dag. 

Þórir S. Gröndal ræðismaður í Ameríku í grein í Morgunblaðinu 8.8.823. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Að sögn Magnús­ar Tuma Guðmunds­son­ar, jarðeðlis­fræðings, er óró­inn ekki enn kominn niður í bak­grunns­gildi.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað er átt við með „bakgrunnsgildi“? Af hverju skýrir blaðamaðurinn ekki orðið út fyrir lesendum? Blaðamaður þarf að vera gagnrýninn í störfum sínum. Spyrja, spyrja og spyrja.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Kallar eftir lengri frest fyrir Níger.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Orðalagið „kalla eftir“ skilst ekki. Er verið að biðja um lengri frest, óska eftir honum, krefjast, heimta eða álíka. Tillagan miðast við efni fréttarinnar.

Líklega er heimild blaðamannsins fréttveitan Reuters en þar stendur í fyrirsögn: 

Italy calls on West African states (ECOWAS) to extend Niger ultimatum.

Þýðing blaðamannsins verður að teljast frekar hraðsoðin enda þýðir enska orðalagið „calls on“ ekki að einhver hafa kallað eða kallað eftir. Líklega hefur utanríkisráðherrann skorað á Afríkuríkin að veit lengri frest.

Tillaga: Vilja lengri frest fyrir Niger.

3.

Barbie þénaði meira en millj­arð.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þetta skilst en kvikmyndin Barbie þénar ekki neitt frekar en bíll eða aðrir dauðir hlutir. Framleiðendur myndarinnar hafa hins vegar þénað á henni og það allvel. Þó verður að viðurkenna að í fljótu bragði er nokkuð snúið að orða þetta á annan hátt en segir í tillögunni.

Blaðamenn sem hafa ekki alist upp við lestur skilja stundum ekki orðin sem þeir grípa til. Sögnin að þéna er fallegt orð og merkir að vinna sér inn pening. 

Það er skylt orðinu þjóna, þénari og þénasta. Stundum er sagt að þénustan hafi verið góð og er þá átt við að þjónustuna, til dæmis á veitingahúsi. Í dönsku finnst orðið „tjenlig“ einni „tjene“ og svipuð orð í öðrum norðurlandamálum 

Tillaga: Meira en milljarður í tekjur af Barbie.

4.

Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi yfir landinu vegna …“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Alkunna er að lofthelgi landa er hvergi annars staðar en yfir þeim eins og orðið bendir til. Til að ekkert misskiljist tekur blaðamaðurinn það fram að hún sé yfir landinu. Það er góðra gjalda vert.

Tillaga: Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi landsins vegna …

5.

Allt þýfi var endurheimt úr næturráni í Skerjafirði.“

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Orðaröðin skiptir máli. Tillagan er skárri.

Tillaga: Allt þýfi úr næturráni í Skerjafirði hefur verið endurheimt.

6.

Telja má jákvætt við nýafstaðið gos hve vel tókst að tímasetja það.“

Forystugrein Morgunblaðsins 8.8.23.

Athugasemd: Þetta er óskiljanlegt. Í orðunum felst að mannlegur máttur hafi komið gosinu af stað. Flest bendir til að svo sé ekki.

Tillaga: Engin tillaga.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband