Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2022

Spámaðurinn Stormur úr Hafnarfirði mælir

Þvílíkt vit, þvílík andagift. Þetta datt mér í hug þegar ég las frétt í Mogganum mínum í morgun. Fyrirsögnin er:

Ekki öll von úti fyrir sumarið í ár.

Og ég hugsaði með sjálfum mér kvur árinn hefði nú komið fyrir blessað sumarið. Svo las ég fréttina og komst að því sem algjörlega hafði farið framhjá mér að veðrið í sumar hefði verið slæmt en líklega væri það skána.

Fréttin er viðtal við samfylkingarmann í Hafnarfirði sem hefur viðurnefnið Stormur og ku vera skyggn eða eitthvað svoleiðis. Hann mælir eins og einsetumaðurinn á fjallstoppi sem hefur öðlast skilning á lífsgátunni og allri tilverunni. Hann segir:

Hann bætir við að veðrið á landinu muni halda áfram að vera breytilegt eftir dögum, eins og það á til að vera á Íslandi.

Þetta er djúp speki og nú skil ég hvers vegna Mogginn tók viðtal við manninn. Í örstuttu máli lýsir hann veðurlagi á Íslandi sem enginn hefur áður áttað sig á.

Svo rýnir samfylkingarmaðurinn í kristalskúlu sína, spilin eða innyfli sláturdýra og rís upp og mælir að hætti þeirra sem vita meira en við, aum alþýða manna:

Það munu skiptast á skin og skúrir eins og það hefur alltaf verið frá upphafi landnáms og jafnvel fyrir það.

Í hljóðri bæn þakkar maður skaparanum og ritstjórn Moggans fyrir fréttina. Hvernig hefðum við dauðlegir menn getað lifað af sumarið án hennar.

Vitur maður sem ég þekki afar vel spáði því um síðustu áramót að fram til vors myndi verða kalt. Svo myndi hlýna og gróður dafna fram á haust er aftur tæki að kólna. Hann veit greinilega ekki neitt miðað við spámanninn Storm.

Annars er ég doldið hissa á því að samfylkingarmaðurinn skyldi ekki hafa verið spurður að um frelsarann, hvenær hans sé von frá himnum, þar sem allt veður verður til. Sko, mannkynið hefur beðið eftir honum í nærri tvö þúsund ár (það er frelsaranum ekki Stormi).

Svo er það allt annað mál að ég vissi ekki til þess að veðrið í sumar hefði verið slæmt.  Svona er maður nú vitlaus. Auðvitað hefði ég ekki átt á ganga á fjöll og ferðast um landið í júní og júlí. Ég vissi bara ekkert af þessum Stormi. Fór ekki einu sinni eftir veðurspá ríkisins. Og nú er ég efins um að hægt sé að halda áfram fjallaferðum.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband