Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Frelsi til að velja ekki Ríkisútvarpið

RÚV er mikilvæg menningarstofnun sem sinnir hlutverki sínu af miklum metnaði. Sú sem þetta skrifar ólst upp við RÚV og hlaut í gegnum Rás 1 menningarlegt uppeldi sem hún verður ævinlega þakklát fyrir. Þeir sem harðast gagnrýna RÚV ættu að horfa aftur til æskuáranna og rifja upp kynni sín af RÚV. Geri þeir það má ætla að klakinn sem þeir geyma í brjósti sér gagnvart stofnuninni muni bráðna og kalt hjarta þeirra taki að hlýna. Hver er ekki þakklátur fyrir útvarpsleikrit, síðdegissögur, ljóðaflutning, Sinfóníutónleika, útvarpsmessur, bænir, upplestur á Passíusálmum, síðasta lag fyrir fréttir? – og svo mætti lengi halda áfram að telja, en plássið leyfir það ekki. Halda þessir háværu, en sennilega fámennu gagnrýnendur, að þessi dagskrá myndi sjálfkrafa flytjast á aðra fjölmiðla yrði RÚV gert óstarfhæft?

Svona ritar Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins í Pistilinn í blaði dagsins. Ég er ekki sammála henni, aldrei þessu vant, og er ekki, að ég held, með tiltakanlega „kalt hjarta“. Ég man glöggt eftir Ríkisútvarpinu í æsku minni. Maður fann til þess að það var einokunarstofnun en með þokkalegt útvarpstæki sem náði miðbylgju var maður ekki bundinn við að hlusta á dagskrá Ríkisútvarpsins. Unga fólkið hlustaði miklu frekar á erlendar stöðvar og þar með talið Kanann.

Ein útvarpsstöð getur ekki gert svo öllum líki. Þess vegna er ekki ástæða til að klappa saman lófum og vegsama Ríkisútvarpið fyrir að hafa gert eitthvað ... Samanburðinn hafði maður ekki í gamla daga nema þegar maður náði þeim aldri að verða gagnrýninn og vilja velja. Þá stillti maður á Kanann eða Radíó Lúxemburg og slökkti á ríkisútvarpinu sem tróð í mann undarlega valinni tónlist, misjöfnum leikritum og enn misjöfnum ræðum manna sem kölluð voru „erindi“. Hugsanlega hefði ég fengið betri dagskrá ef um frjálsa samkeppni hefði verið að ræða í útvarpsrekstri. Metnaðurinn var lítill.

Mjólkursamsalan er sambærilegt einokunarfyrirtæki, þó ekki opinbert. Ég stekk ekkert upp á svið og fagna því að hafa fengið mjólk, súrmjólk eða undanrennu í gegnum árin. Hugsanlega hefði ég fengið betri vörur ef um frjálsa samkeppni hefði verið að ræða. 

Póstur og sími var einokunarfyrirtæki í eigu ríkisins og bauð ekkert upp á merkilega þjónustu, allra síst í sölu símtækja. Ætli maður hefði ekki fengið betri þjónustu ef um frjálsa samkeppni hefði verið að ræða.

Niðurstaðan er þessi: Einokunarfyrirtæki eru alltaf til óþurftar, skiptir litlu hvort þau eru í eigu ríkisins eða annarra aðila. Þetta er einfaldlega söguleg staðreynd. Það er einnig staðreynd að Ríkisútvarpið reynir hvað það getur til að fela eignaraðild ríkisins og dæmi um það er nafnómyndin Rúv.

En guði sé lof fyrir að maður hafði í gamla daga aðgang að útvarpstækjum, segulböndum og plötuspilurum. Þeir sem það höfðu voru ekki eins háðir slakri þjónustu Ríkisútvarpsins. Margt hefur breyst í dag. Nú þarf enginn að nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins, nema auðvitað að hann vilji það. Sá er auðvitað munurinn, frelsi til að velja.


Köttum er sléttsama um eigendur sína

Við háskólann í Lincoln í Lincolnskíri í Bretlandi starfar kattavinurinn Daniel Mills sem hefur rannsakað ketti af miklum áhuga undanfarinn áratug. Það kemur kannski kattarvinum á óvart, en ekki mér, að meðal þess sem fram hefur komið í rannsóknum hans er að köttum er sléttsama um „eigendur sína“, reyndar svo sama að þeir kæra sig kollótta um það hvort eigandinn sé að koma eða fara og gildir einu hvort viðkomandi hafi borið köttinn á höndum sér, fóðrað hann á rjóma og styrjuhrognum, strokið og kjassað.

Ofangreint er eftir Árna Matthíasson, blaðamann Morgunblaðsins úr Pistli dagsins. Þetta er mikill og merkilegur fróðleikur sem maður þóttist þó vita fyrir. Kattavinur hefur alveg sérstaka merkingu í huga fólks en hjá köttum er ábyggilega ekkert til sem nefnist „mannvinur“ aðeins sá sem gefur að éta.

 


Hríðskota- og vélbyssulaus sveitarfélög

Umræðan um byssur, hríðskotabyssur og vélbyssur er dálítið undarlegt. Margir skjóta án afláts en spyrja aldrei. Sannleikurinn er þeirra hverjar svo sem staðreyndirnar eru. Margir eru hríðskjótandi að stjórnvöldum en svörin eru aukaatriði. Aðrir eru sannkallaðir vélbyssukjaftar og vanda engum kveðjurnar hvar svo sem sannleikurinn liggur.

Þeir eru ekki margir sem kunna að stilla sig og ræða málin af ró og yfirvegun. Jafnvel bæjarstjórinn í Hafnarfirði vill ekki sjá vélbyssu í bænum, hvað þá lögreglumann með vélbyssu.

Það minnir mann á ályktanir sem tíðkuðust mjög fyrir nokkrum árum er hvert sveitarfélagið á fætur öðru vildi ekki sjá kjarnorkusprengju á sínu landi. Hafnarfjörður lýsti sig kjarnorkuvopnalaust svæði og sama var með önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þannig var það líka með öll önnur sveitarfélög landsins enda eðli máls vegna ótækt ef nágrannasveitarfélagið leyfði kjarnorkuvopn á sínu landi. Svipað eins og ef Skagabyggð væri kjarnorkuvopnalaust en Skagaströnd leyfði slíkt tól á sínu landi (fyrir þá sem ekki vita umlykur fyrrnefnda sveitarfélagið það síðarnefnda, það er að segja landfræðilega ...). 

Nú er það bara spurningin hvort friðarsamtök efni ekki til annars átaks og boði hríðskotabyssulaus sveitarfélög og jafnvel vélbyssulaus sveitarfélög. Hér er auðvitað átt við lögregluna sem og almenning rétt eins og þegar sveitarfélögin lýstu sig kjarnorkuvopnalaus þá var ábyggilega átt við að hvorki einstaklingar né löggan mætti eiga slík vopn, hvað þá brúka þau. 

Þegar ég var í sumarlöggunni í gamla daga var skammbyssa í hanskahólfinu á sumum vegalögreglubílum. Ekki veit ég til þess að neinn hafi meiðst þess vegna nema stöku svartbakar. Hins vegar veit ég ekki til þess að kjarnorkusprengja hafi verið í neinum bíl.

Sé ætlunin að sveitarfélög álykti gegn hríðskota- og vélbyssum hjá löggu og landhelgisgæslu þyrfti að jafnframt að álykta gegn vopnahaldi misyndismanna. Þá er hugsanlegt að jafnvægi komist á.

En hugsið ykkur, hvernig væri nú staðan ef löggan væri betur vopnum búin en vonda liðið ...?


Kjósa tóma vitleysu, segir Samfylkingarmaðurinn um kjósendur

Þetta eru ábyggilega ein merkilegustu ummæli ársins og jafnvel aldarinnar. Hlustaði á Sprengisand á útvarpsstöðinni Bylgjan sunnudagsmorguninn 26. október. Þar var meðal annarra Stefán Jóhann Hafstein, fyrrverandi dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu og stjórnmálamaður fyrir Samfylkinguna og fyrrverandi borgarfulltrúi.

Verið var að tala um spillingu í þjóðfélaginu. Stefán Jóhann fór mikinn og dró ekkert úr skoðunum sínum og hélt því fram að spillingin væri alls ráðandi en nefndi því miður ekki eitt einasta dæmi frekar en þeir sem halda hinu sama fram í athugasemdakerfum dagblaða og vefsíðna.

Þá kom að ummælum ársins er Stefán Jóhann dró kjósendur inn í spillingarumræðuna og sagði:

Jafnvel kjósendur eru farnir að samsama sig þessu [spillingunni]. Eiga ekki von á neinu öðru og eru jafnvel að taka þátt í að leika eftir leikreglum spillingarinnar, til dæmis að kjósa tóma vitleysu.

Enginn af viðmælendum í þættinum hváði við. Stjórnandinn Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, lét eins og það væru bara viðurkennd sannindi að fólk kysi tóma vitleysu. Raunar er það svo að hann rökræðir aldrei við viðmælendur sína, hversu heimskuleg orð eða tvíræð þeir láta út út sér.

Auðvitað vilja sumir halda því fram að kjósendur kunni ekki fótum sínum forráð, sérstaklega tapararnir.

Langflestir kusu til dæmis ekki Samfylkinguna í síðustu Alþingiskosningum. Var það vitleysa? Nærri því meirihluti fólks kaus Jón Gnarr og lið hans til valda í sveitastjórnarkosningunum fyrir rúmum fjórum árum. Var það vitleysa? Var það vitleysa að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græna, Framsókn og aðra? Sum framboð ná ekki að koma manni að. Eru þessi framboð tóm vitleysa?

Fyrir hönd kjósenda er mér misboðið. Ég hef aldrei kosið „tóma vitleysu“ og ég þekki ekki nokkurn mann sem hefur gert slíkt. Að vísu má halda því fram að fjölmargir kjósendur hafi síðar meir séð eftir vali sínu en það er allt annar handleggur.

 


Hvað er verið að spara með 4.847 skammstöfunum?

Listi um skammstafanir er í vinnslu; alls 4.847 skammstafanir og styttingar. Skýringar fylgja talsverðum hluta efnisins. Flokkunin er þessi:

Eiginleg skammstöfun: t.d., o.s.frv.
Stytting:
- Almennt: aðaleink.
- Föður- og móðurnöfn: Gunnarss., Helgad.
- Skírnarnöfn: Kr., Ág.
Tákn og stakir bókstafir: $, a.
Akróným:
Akróným I (sem kveðið er að, einstakir stafir): Kea
Akróným II (sem ekki er kveðið að): ADSL
Akróným III (sem kveðið er að, orðhlutar): Rannís
 
Ofangreint er birt á ágætri vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar sem er uppfull af fróðleik og upplýsingum sem allir hafa gaman og ekki síður þörf á að notfæra sér.
 
Skammstafanir eru að mínu mati algjörlega óþarfar. Þær eru nær eingöngu notaðar í ritmáli, enginn ber skammstöfun fram nema það sem er að ofan nefnt „Akróným“ sem auðvitað er ekki íslenska heldur að uppruna gríska. Látum það nú vera.
 
Ég er sannfærður um að skammstafanir og styttingar eigi uppruna sinn á þeim tíma er þörf var á að spara pláss í prentun. Þetta má rekja til blýsetningar en hafa öðlast nær því eilíft líf jafnvel þó fyrir margt löngu hafi runnið upp tölvuöld og engin þörf á að spara verðmætt pláss á prentaðri síðu.
 
Hvers vegna ætti ég til dæmis að nota skammsstöfunina „t.d.“? Af hverju ætti ég að skrifa Sigurðars. í stað Sigurðarson? Hvaða gagn er af því að segja nóv, apr, júl, sept eða des í stað þess að skrifa mánaðarnöfnin fullum fetum? Ég held því fram að skammstafanir stuðli ekki að góðum skilningi á texta sem er prentaður eða er á tölvuskjá. Hvað er eiginlega verið að spara með skammstöfunum?
 
Auðvitað eru skammstafanir bara gamaldags brúk vegna aðstæðna sem ekki lengur eiga við. Nú byggist notkun þeirra bara af leti eða hugsunarleysi. 
 
Svo er það allt annar handleggur þetta með skammstafanir fyrirtækja eða að sem á vefsíðum Stofnunar Árna Magnússon er nefnt „Akróným (leiðinlegt orð). Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri er langt nafn og líklega þörf á styttingunni í KEA. Hugsanlega er óhætt að segja Rannís í stað Rannsóknamiðstöð Íslands.
 
Held að RÚV sé eiginlega feluleikur, sé sett upp til að fela hlut ríkisins í nafninu. Sama er með því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins felur nafn sitt á vefsíðu sinni sem kölluð er vinbudin.is. Þessir aðilar telja farsæll að þykjast vera eitthvað annað en ríkisstofnun og má vissulega færa gild rök fyrir þeirri afstöðu.
 
(Hér gæti ég haldið áfram mali mínu og nefnt t.d. prentað mál frá 2. nóv. '13, kl. 11:30, 14. des. '13, kl. 13:00 og e.t.v. af þessu ári, t.a.m. 1. feb. '14 og 2. júl. '14. Ýmisl. skýrist af áðurn. dæmum o.fl. o.s.frv.
 
 
 
 
 

Byssur, löggan, almenningur og ofbeldi

SS logreglan 1977

Þegar ég var tvítugur var ég þess heiðurs aðnjótandi að vera ráðinn í lögregluna, var svokallaður sumarlögreglumaður. Var í þessu starfi í tvö sumur, 1978 og 1979. Þetta var gríðarlega lærdómsríkur tími, heillandi, skemmtilegur en um leið hræðilegur. Maður kynntist ýmsu misjöfnu, sumu góðu og öðru slæmu. 

Ég náði kynntist mörgum góðum lögreglumönnum, óbreyttum, varðstjórum, yfirlögregluþjónum og lögreglustjóranum. Eiginlega kom mér það mest á óvart að allt voru þetta ósköp venjulegir menn sem komu í vinnuna sína, sinntu henni af alúð og skyldurækni, fóru svo heim til fjölskyldu sinnar.

Hérna verð ég að skjóta inn lítill sögu. 

Þegar ég var kringum sex til níu ára aldur „teikuðum“ við Gaui, æskuvinur minn bíla eins og siður var hjá öllum heilbrigðum strákum meðan snjór var nægur. Stundum um helgar hjálpaði ég honum Gauja að bera út Tímann. Eitt sinn er við áttum eftir að fara í örfá hús í neðri Barmahlíð eða Mávahlíð, man það ekki, sáum við leigubíl nema staðar til að hleypa farþega út. Tækifærið var gráupplagt og við gripum það. Fengum salíbunu alveg niður að Engihlíð, þá slepptum við takinu, hlógum og ærsluðum í einhvers konar endorfínvímu. Þá kom löggan að okkur án þess að við sæjum, greip okkur glóðvolga. Við urðum óskaplega hræddir, sáum sæng okkar uppreidda. Biðum refsingar löggunnar, foreldra okkar, skólans og við urðum sannfærðir um að við kæmumst ábyggilega aldrei inn í himnaríki, ekki vegna þess að við „teikuðum“ heldur af því að við vorum staðnir að verki.

670900-3

Þá gerðist nokkuð merkilegt. Löggumaðurinn skammaði okkur ekki, tók okkur ekki fasta, heldur talaði við okkur eins og jafningja. Hann bauð okkur inn í lögreglubílinn og þar sagði hann og félagi hans okkur frá slysum og óhöppum sem orðið höfðu þegar strákar „teikuðu“ bíla. Svo kvaddi hann, við sluppum, urðum aftur frjálsir menn. Ræðuhöld lögreglumannanna höfðu þó þær afleiðingar að við hétum hvorum öðrum því að „teika“ aldrei aftur. Og við það stóðum við báðir, að minnsta kosti í mörg ár á eftir. Hvað svo sem síðar gerðist ...

Þessa sögu segi ég vegna þess að ég hafði bara góða reynslu af löggunni og hún breyttist ekki við að starfa þar. Þetta er bara fólk í vinnunni sinni.

Nú gerist það að fjölmargir geta vart á sér heilum tekið vegna þeirrar staðreyndar að lögregla landsins er vopnuð og gæti hugsanlega fengið enn öflugri vopn en hún þegar hefur. Af þessu hef ég ekki miklar áhyggjur. Lögreglumenn munu ábyggilega fara vel með þau tæki og tól sem þeir hafa. Hjá þeim byggist yfirleitt allt á því að tryggja öryggi almennings. Þeir eru þó til, eru örfáir sem treysta ekki lögreglunni og vilji helst af öllu berja á henni. Þetta fólk skilur ekki eðli starfsins. Slíkt fólk grýtti lögregluna fyrir framan Alþingishúsið og stjórnarráðið við Lækjartorg í mótmælunum 2008 og 2009. Lögregluna sem gætti almannaeigna og einstaklinga á þingi og í ríkisstjórn, þá sem sinntu starfi sínu af skyldurækni.

Sumt fólk skilur ekki lögreglustarfið. Mér er eitt furðulegt atvik frá störfum mínum í lögreglunni í fersku minni. Við vorum sendir fjórir í bíl niður á Lækjartorg en þar voru gangandi lögreglumenn í vandræðum með drukkinn mann. Þegar þangað var komið stóðu félagar okkar og reyndu að ræða við drukkna manninn og félaga hans. Það gekk illa. Hann hafði í hótunum og var reiður mjög. Hann hafði brotið rúðu og var ástæða til að taka manninn inn og gera skýrslu um atvikið. Þegar að félagar mínir reyndu að leiða hann í burtu streittist hann á móti. Hann var fílefldur og þurftum við sex menn að taka verulega á til að koma honum í járn.

Og hvað haldið þið að sumir af þeim sem stóðu í kring hafi sagt?

„Þvílíkur ruddaskapur í löggunni. Ráðast sex á einn mann!“

Þetta heyrði ég frá mörgum. Hvað vildi fólkið eiginlega að lögreglan gerði? Áttum við að bjóða upp á einhvers konar „sanngjarnan fæting“, einn á móti einum. Reyna einn í einu að handtaka bandbrjálaðan mann og fjarlægja hann?

Það hefði ábyggilega endað með stórslysi fyrir báða aðila. Um síðri komum við aumingjans manninum inn í bíl, fórum með hann á lögreglustöð, létum hann þar sofa úr sér. Daginn eftir var hann hinn vænsti maður og sá eftir öllu. Hann átti bara í vandræðum með áfengi.

Stundum fórum við í íþróttatíma hjá honum Guðbrandi Þorkelssyni, varðstjóra. Hann kenndi okkur græningjunum ýmis brögð brögð sem áttu að koma að góðum notum við handtöku vandræðagemsa. Svo kenndi hann að ganga í takt, heilsa með „honnör“ og annað gáfulegt.

Guðbrandur hélt því fram að við ættum að vera stuttklipptir.

„Svona eins og ég“, gall í mér.

Hann gekk að mér og skoðaði á mér kollinn. Svo gerðist það eldsnöggt, að hann greip í hárið á mér og snéri mig niður án þess að ég gæti rönd við reist.

„Nei, Sigurður, þú ert með of mikið hár,“ sagði hann. „Hver og einn getur haft þig undir og annað hvort stórslasað þig eða drepið.“

Auðvitað var þetta rétt hjá honum. Verð þó að taka það fram að á þessum árum var ég hárprúður og með gáfuleg kollvik. Þau hafa síðan smám saman náð yfir allt höfuðið. Hitt er víst að enginn getur lengur snúið mig niður á hárinu ...

Auk íþróttatíma voru skotæfingar ... Má nefna það í ljósi umræðunnar? 

Jú, auðvitað átti lögreglan þá eins og nú skotvopn. Skammbyssur, riffla, haglabyssur og ég heyrði að einhvers staðar væru til hríðskotabyssur, sá þær þó aldrei.

Við fengum í hendur skammbyssur, „revolvers“ svona eins og notaðar eru í kábojmyndum. Okkur var sagt hvernig ætti að nota byssurnar, hvað ætti að varast og hvernig ætti að halda þeim við. Framar öllu var okkur sagt að við ættum aldrei að láta þær sjást, notkun þeirra væri algjört neyðarúrræði. Aldrei voru þær notaðar meðan ég var þessi tvö sumur í lögreglunni. Minnir þó að í sumum vegalögreglubílum hafi skammbyssa verið í tösku.

Árlega fór fram keppni í skotfimi með skammbyssu. Ég var dálítið hittinn og fékk að minnsta kosti munnlegt hrós fyrir árangur. Held að seinna árið sem ég var í löggunni hafi við á B vaktinni unnið keppni vakta.

Sem sagt. Byssur hafa verið til hjá lögreglunni. Margt hefur þó breyst frá því ég var sumarlögreglumaður og æfingar og meðhöndlun skotvopna allt önnur. Ég hef þó enga trú á öðru en að grundvallarhugsun stjórnenda lögreglunnar sé hin sama og áður. 

Ég hef ekki áhyggjur af lögreglunni. Held vandinn sé þeir sem ráðast með ofbeldi að lögreglunni vegna þess að ofbeldismaður lætur hendur skipta hvort sem hann á eitthvað óuppgert við aðra einstaklinga eða lögreglu. Slíkt er eðli ofbeldismannsins.


Esjuhlíðar fyrr og nú og samanburður á myndum

slitlagMerkileg frétt var í Morgunblaði dagsins og fjallaði hún um steinsteyptan veg undir Esjunni en sá hefur látið lítið á sjá á fjörtíu árum.Enn merkilegri eru jafnvel myndirnar tvær sem fylgja fréttinni og ég hef hér tekið traustataki.

Eins og sjá má eru myndin frá Vegagerðinni, hægra megin, tekin nákvæmlega á sama stað og sú vinstra megin sem Mats Wibe Lund tók þegar verið var að steypa veginn 1972. Mats er frábær ljósmyndari eins og margir vita og hefur næmt auga fyrir landslagi. Að sjálfsögðu tekur hann mynd þar sem Gunnlaugsskarð og Kistufell fær að njóta sín. Á þeim rúmu fjörtíu árum sem liðin eru hefur skógræktarstarfi við Mógilsá vaxið fiskur um hrygg og er nú allt annað að sjá Esjuhlíðar á þessum stað.

Nokkuð gaman er að ganga um skógræktarsvæðið og ber helst á því ofarlega að að norðanmegin grenitrjáa eru þau næstum kalin en sunnan megin eru þau gróskumikil. Þetta er auðvitað afleiðingin af snörpum og langvarandi köldum vindum sem falla niður af Esjubrúnum og niður í Kollafjörð og oft rífur hann upp skara og sverfur þannig plöntugreyin.

Myndin er tekin rétt fyrir neðan þar sem nú er bílastæði fyrir þá sem vilja ganga upp Þverfellshorn. Þar er umferð alltof mikil og þess vegna er hún fyrir mig orðin einna sísta leiðin á Esjuna til að fara. Vel frekar Kistufell eða Kerhólakamb.

Annars er svo óskaplega gaman að bera gamlar myndir við nútímann. Það hef ég stundum gert hér. Nefna má þessar greinar:

 

Fleirum man ég ekki eftir í augnablikinu. Hins vegar er þetta svona á framkvæmdaplani að velja myndir sem maður kemst yfir og sýna muninn.
 
Ævi manns á jörðu eru þó afar stutt en breytingar á landslagi gerast hægt og oft á árhundruðum eða þúsundum. Undaskilið eru þó jöklarnir en Morgunblaðið gerir ágætlega skil í dag breytingum sem áhugamenn og vísindamenn hafa fylgst með í tugi ára.

 


Stigakjafturinn í ræðustól Alþingis fer enn og aftur með fleipur

En þá berast fréttir af því að til séu peningar til að endurnýja eða kaupa ný vopn fyrir lögregluna.
 
Nei, Björn Valur. Þetta voru ekki áreiðanlegar fréttir?
 
Hríðskotabyssur, hálfsjálfvirkar byssur, af sömu fjárlögum og gera ekki ráð fyrir því að börnum sé boðið hér upp á framhaldsskólanám og fullorðnu fólki úthýst úr framhaldsskólanámi sömuleiðis. 
 
Nei, Björn Valur, hættu nú alveg. Einhvern tímann hefðu svona tengingar verið kallaðar lýðskrum. 
 
Af sömu fjárlögum er gert ráð fyrir því að hægt sé að kaupa hér einhver hundruð nýrra hríðskotabyssa og hálfsjálfvirkra skammbyssa fyrir lögregluna.
 
Varstu búinn að lesa fjárlögin eða trúðirðu bara fréttum?
 
Og ég neita að trúa því að það hafi safnast slíkur söfnuður saman í þessa tvo stjórnmálaflokka að þeim finnist þetta öllum allt í lagi. Og ég höfða til framsóknarmanna sérstaklega og ég spyr ykkur öll hæstvirtu og háttvirtu þingmenn Framsóknarflokksins: Finnst ykkur þetta allt í lagi? Komuð þið hingað til þings í þessum erindagjörðum? Eða ætlið þið að spyrna við fótum, taka á ykkur rögg og stöðva þessa bölvuðu vitleysu sem þetta sannarlega er.
 
Af hverju spyr hann ekki líka háttvirta þingmenn Sjálfstæðisflokksins, stjórn Hvatar eða Heimdellinga eða kjördæmisfélag Sjálfstæðismanna í Austur-Húnavatnssýslu?
 
Hann er nú meiri strigakjafturinn, hann Björn Valur Gíslason, sem hrökklaðist af þingi eftir aðeins eitt kjörtímabil. Samflokksmenn hans vildu hann ekki á þing en gerðu hann þó að varaformanni flokksins sem fékk, meðal annars vegna Björns Vals, háðulega útreið í síðustu alþingiskosningum.
 
Svo stendur hann, varaþingmaðurinn, upp á Alþingi og fer með tómt fleipur og tvinnar saman byssur og nám. Af hverju lætur hann ekki nægja að fara í Keflavíkurgöngu. Það var þó alltaf dálítil reisn í þeim.
 
Ofangreindar tilvitnanir eru úr ræðu mannsins á Alþingi samkvæmt frétt ... DV.
 

Whiskey on The Rocks í skerjagarðinum

Frá miðjum áttunda áratugnum taldi sænski sjóherinn sig reglubundið skynja sovéska kafbáta í sinni lögsögu og elti þá. En þeir fundu engan. Ekki fyrr en í október 1981 þegar sovéskan kafbát rak upp í kletta í Karlskrona og Svíi, á morgungöngu með hundinn sinn, sá hann þar. Þetta þótti ekki gott fyrir Sovétríkin, og ekki heldur gott fyrir sænska sjóherinn, en eftirlaunamenn með hund máttu vel við una.

Kafbáturinn var W-137 af Whiskey-gerð. Whiskey on the rocks, sagði umheimurinn og Svíum var ekki skemmt.  

Hann er rífandi skemmtilegur leiðarahöfundur Morgunblaðs dagsins sem skrifar um kafbátaleit Svía í skerjagarðinum sínum. Og í lokin segir höfundurinn:

Nú virðast kafbátar vera komnir á kreik á ný. Vel má vera að Pútín sé að minna á sig. Jafn líklegt er að Svíar fái ekki úr því skorið nema Rússar strandi sínum bát. En þetta er ekki kalt stríð. En til öryggis ættu Svíar að fjölga tímabundið eftirlaunaþegum með rakka á grunsamlegum fjörum. Það hefur reynst drýgsta varnaraðgerð þeirra í tvær aldir.

Mér er stórlega til efs að hægt sé að ræða um kafbátaleitarstarfsemi Svía án þess að maður brosi í það minnsta út í annað. Þessi bægslagangur „bræðraþjóðarinnar“ er svo óskaplega árangurslaus að hann minnir á leit gamla Alþýðuflokksins eftir atkvæðum eða Pírata eftir frambjóðendum. Hvort tveggja grátbroslegt.

 

 


Enn og aftur fara Rússar illa með Svía

Skömmu áður en Sovétríkin hrundu belgdu þau sig út og þóttust umtalsvert meiri en þau í raun voru. Kafbátar þeirra iðkuðu feluleik í sænska skerjagarðinum sér til skemmtunar.

Fjöldi tilvika eru skráð á árunum 1962 til 1988. Allt var þetta taugatrekkjandi en árangurslaust leitarstarf bræðra vorra í sænska flotanum. Raunar var það svo í lokin að þetta voru sagðir smákafbátar, gott ef ekki fjarstýrðir. Svona skýringar áttu að hjálpa til við að útskýra árangursleysið. Auðvitað harðneituðu Sovétmenn tilvist kafbáta í sænska skerjagarðinum en brostu áreiðanlega út undan skegginu.

Það var ekki fyrr en 27. október 1981 að kafbátur sigldi upp á sker við Karlskrona að sænski flotinn fékk smávægilega uppreisn æru. Glottu þá sænsk stjórnvöld en Sovétmenn áttu afar illt með að neita glæpnum.

Það sem hins vegar vakti sífellt meiri athygli eftir því sem meintum kafbátum fjölgaði í sænska skerjagarðinum var hversu erfiðlega sænska flotanum tókst að hafa upp á þeim. Raunar var það svo að aldrei tókst þeim að elta uppi einn einasta kafbát. Strand rússneska kafbátsins var ekki sænskum að þakka.

Eftir að Sovétríkin hrundu hefur greinilega ekki mikið gerst. Þrátt fyrir alla sína tækni er Svíum gjörsamlega ómögulegt að finna rússneska kafbáta innan eigin lögsögu og eru þó nokkur tilvik skráð um eltingarleiki. Og enn og aftur valsa Rússarnir út og inn um sænska skerjagarðinn og sænski flotinn lítur út eins og skátar í skemmtiferð í árabátum.

Tvennt er nú til ráða hjá sænskum. Annað hvort efla þeir varnir sínar eða þeir taki með viðhöfn á móti Rússunum eins og hverjum öðrum ferðamönnum. Víst má vera að hið síðarnefnda gæti styrkt sænska ferðaþjónustu umtalsvert. Á meðan breiðist sama meinfýsna glottið út á andliti Kremlverja eins og gerðist þegar þeir voru kenndir við Sovétið.


mbl.is Rússneskt skip á leið til Svíþjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband