Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Víða stórskemmdir á landinu

DSC00068Eðli máls samkvæmt myndast átroðningur á vinsælum gönguleiðum. Þannig er það víða á Laugaveginum, Fimmvöruhálsi, Hornströndum og á mörgum vinsælum fjöllum eins og Esju, Vífilsfelli, Hengli, svo einhver dæmi séu nefnd.

Vandinn liggur sérsklega þar sem gönguleiðir liggja í halla, þar  grefst stígurinn niður og verður farvegur vatns sem heldur áfram að dýpka hann og breikka. Þar með er hann ófær og göngufólk færir sig eðlilega til hliðar og þar endurtekur sagan sig. Innan skamms verður til breitt forað sem engum er til góðs.

Göngustígar eru bráðnauðsynlegir en hins vegar er þeim oft mislagðar hendur sem standa að gerð þeirra. Alvarlegast er þegar göngustígar eru lagðir þar sem fólk vill ekki ganga. Þá verða til slóðar út frá göngustígum enda leitast ferðamaðurinn við að komast sem stystu leið á milli staða. Skiptir þá engu þó einhverjir spekúlantar vilji þröngva honum til að fara í aðra átt.

Átroðningur ferðamanna mun eðlilega aukast eftir því sem ferðamönnum fjölgar. Þess vegna þarf að taka víða til hendinni og laga göngustíga, koma í veg fyrir að þeir grafist niður og verði að lækjarfarvegum.

DSCN6675Það er rangt sem framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir í viðtalinu að „5.000 manns hreinlega „hverfa inn í gönguleiðirnar“ við Landmannalaugar án nokkurra vandkvæða“.

Ummerki um þetta fólk er greinileg sem og þá sem eftir koma. Átroðningur ár eftir ár verður til þess að gönguleiðir slitna og nýjar myndast. Það er ótrúlegt að framkvæmdstjórinn geri sér ekki grein fyrir þessu.

Vandinn við ferðamennskuna á hálendinu er einfaldlega sú staðreynd að nokkrir ferðamannastaðir hafa náð miklum vinsældum og það má rekja til þess að í áratugi var ekkert talað um annað en Landmannalaugar og Þórsmörk. Ekki var reynt að byggja upp ferðaþjónustu annars staðar eða kynna aðra staði. Það hefur sem betur fer breyst á síðustu árum.


mbl.is Þarf að takmarka aðgang að hálendinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband