Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Matvælaöryggi er lífsnauðsynlegt

Ýmsir halda því statt og stöðugt fram að ljótir kapítalistar hafi það eitt markmið að halda uppi háu vöruverði og græða sem mest á óbreyttri alþýðu þessa lands. Sem rök benda þeir á að vöruverð hér sé mun hærra en í Evrópu og Ameríku, sérstaklega verð á matvælum.

Ég er ekki sammála, því enginn getur stundað viðskipti og verðlagt vöru sína og þjónustu nema við því verði sem markaðurinn er tilbúinn til að greiða.

Svo er það allt annað mál hvernig stendur á því að vöruverð er hærra hér á landi en í öðrum löndum. Ég bjó fyrir mörgum árum í Noregi og þar var verðlagið ekki ósvipað því sem var hér og þannig held ég að það sé enn. Á árinu 2005 bjó ég í nokkra mánuði í senn á Spáni og Grikklandi og þar var verðlagið helmingi lægra en hér heima.

Ekki er einfalt mál að bera saman verðlag á t.d. matvöru á milli landa. Þar kemur margt til álita eins og til dæmis íbúafjöldi landsins og hlutfall innflutnings á matvöru, þ.e. að hve miklu leyti eru matvöru framleiddar innanlands og hversu mikið er nauðsynlegt að flytja inn. Sé gert ráð fyrir því að frjáls verðmyndun ríki í landinu þá má frekar búast við því að markaður ráði verðmyndun nema því aðeins og stjórnmálamenn geri innanlandsframleiðslu hærra undir höfði en innfluttri.

Þannig er það hér á landi, lögð eru tollar, gjöld og ýmsar aðrar takmarkanir á innfluttar landbúnaðarafurðir til þess að styrkja innanlandsframleiðslu.

Margir krefjast þess að innflutningur verði gefinn frjáls, íslenskur landbúnaður eigi að geta staðið jafnfætis útlendum þegar kemur að vali neytandans í verslunum hér á landi.

Ég er varkár, kannski íhaldssamur, og þó ég sé hlyntur frelsi leyfi ég mér að  staldra við og íhuga ýmis álitamál. Skoðum nokkur sem benda til þess að ekki skyldi gefa innflutning landbúnaðarafurða alveg frjálsan:    

  • Framleiðsla er dýrari hér á landi vegna náttúrulegra aðstæðna, uppskerur miklu færri en erlendis.
  • Framleiðsla hér á landi er „lífrænni" en víðast hvar annars staðar. Til dæmis má ekki nota fúkkalyf í fóður og hormónanotkun er bönnuð, varnir gegn skordýrum verða að vera náttúrlegar osfrv.
  • Vegna sjúkdómsvarna er innflutningur á erlendum dýrastofnum er miklum takmörkunum háður og þar með verður öll ræktun erfiðari.
  • Svokallað „matvælaöryggi" landsins byggist á því ef einhver ógn steðjar að annars staðar þá ætti þjóðin að geta brauðfætt sig. Nefna má styrjaldir, náttúruhamfarir af einhverju tagi, hrun í viðskiptum milli landa og fleira.
  • Landbúnaður er alls staðar niðurgreiddur og víðast deila menn um réttlæti slíkra styrkja. Verði slíkir styrkir lækkaðir eða aflagðir hækkar verðið að sjálfsögðu.

Mönnum verður eðlilega hverft við svona upplýsingar og þeir sem hæst hrópa um landbúnaðinn draga djúpt andann nokkrum sinnum og fara að hugsa.

Ég hef marga spurt hvort þeir séu þeirrar skoðunar að þessi fimm atriði hafi verið fundin upp til þess eins að hækka vöruverð hér á landi. Nei, að sjálfsögðu ekki.

Svo stendur alltaf einhver upp og heldur því blákalt fram að ekki sé hægt að stunda landbúnað hér á landi og best sé að leggja hann af nema sem frístundabúskap. Aldrei verði slíkar aðstæður í heiminum að við getum ekki flutt inn landbúnaðarafurðir, þetta sé allt tómt kjaftæði. Svona er ekki hægt að rökræða.

Ég hef lengi verið hugsi yfir þessum fimm atriðum og hef ekki enn komist að niðurstöðu. Hins vegar vildi ég gjarnan geta keypt grískan fetaost í verslunum hér á landi svo ekki sé talað um gríska tómata, gúrkur og annað góðgæti til að búa til hið margrómaða gríska salat sem ég féll kylliflatur fyrir síðasta sumar - fetaostinn gríska get ég einfaldlega borðað sem aðalmáltíð.

En ... Svo kemur alltaf þetta „en", fyrirvarinn, þankinn sem allt tefur. Í málflutningi margra stjórnmálamanna virðist allt vera annað hvort svart eða hvítt. Þannig er það bara í bíómyndum og skáldsögum.

Ekkert er einfalt, svo „einfalt" er það. Allar fullyrðingar bera með sér einhvern efa.

Ef til vill getur einhver rökstutt þá skoðun sína að þessi fimm atriði sem áður eru nefnd séu ekki þess eðlis að þau þurfa að koma í veg fyrir frjálsan innflutning landbúnaðarafurða þá skal ég hlusta og jafnvel taka fagnandi undir ef rökin eru traust.

Á meðan hallast ég helst að því að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi ... svona í meginatriðum. Og þess vegna tek ég undir með forseta Íslands þegar hann talar um fæðuöryggi þjóðarinnar.


mbl.is Hlutverk landbúnaðar í fæðuöryggi þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband