Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015
Líkur á flugslysi 1:6 og Samgöngustofa kærir sig kollótta
31.7.2015 | 08:22
Samkvæmt Morgunblaðinu veit Samgöngustofa ekkert um Heklugos. Þann 22. ágúst 2014 sagði stofnunin eftirfarandi í viðtali við Morgunblaðið:
Samgöngustofa gaf þau svör að engar takmarkanir séu gefnar út fyrir flugumferð nema fyrirséð sé að gos sé að hefjast, eða ef gos er þegar hafið.
Í gær lét starfsmaður stofnunar hafa þetta eftir sér í viðtali við Morgunblaðið:
Það eru litlar líkur á því að Hekla gjósi og valdi slysi, af því að þetta tekur allt sinn tíma og Hekla er vel vöktuð. Þeir fljúga í 30.000 fetum þannig að líkurnar á að þetta valdi slysi eru engar, eða litlar.
Og í dag segir þriðji starfsmaður stofnunarinnar þetta í samtali við Morgunblaðið:
Menn telja sig vera nokkuð örugga með að vera með 30-60 mínútna fyrirvara á slíku gosi. Það er nægur fyrirvari. Allar flugvélar sem eru á þessu svæði eru í beinu talsambandi við Isavia. Það er fljótgert að beina þeim frá,« sagði Hlín. Það er viðbúnaðaráætlun í gildi hjá Veðurstofunni og Isavia og hún er æfð reglulega. Menn telja sig viðbúna ef eitthvað gerist.
Stofnunin er greinilega ekkert að fylgjast með. Í fyrra reyndi hún að þegja um málið, í ár er fyrst svarað með skætingi og síðan er reynt að krafsa sig út úr málinu. Stofnunin er hins vegar á þeirri skoðun að Heklugos sé engin ógn við flugumferð.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og einn virtasti vísindamaður þjóðarinnar, er á annarri skoðun og er eftirfarandi haft eftir honum í fyrirlestri um Heklugos frá því í fyrra.
Í fyrirlestri Páls kom m.a. fram að það tæki tíu mínútur að gefa út viðvörun eftir að eldgosið sést. Flugmenn sjá ekki endilega gosmökkinn sjálfir. Því er næsta víst að flugvél sem á eftir innan við tíu mínútna flug að Heklu muni fljúga inn í gosmökkinn. Miðað við að 24 farþegaþotur leggi leið sína yfir eldfjallið á hverjum sólarhring eru líkurnar 1:6 að næsta eldgos grandi farþegaþotu sem á leið yfir eldfjallið.
Álit Samgöngustofu er hins vegar þetta: Það eru litlar líkur á því að Hekla gjósi og valdi slysi, af því að þetta tekur allt sinn tíma og Hekla er vel vöktuð.
Sláandi munur er á rökum vísindamannsins og orðavaðli Samgöngustofu. Er til of mikils mælst að stofnunin taki sig á?
Þotan rétt slapp við gosið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hroki Samgöngustofu vegna orða Páls Einarssonar
30.7.2015 | 08:25
Það getur verið að þeir séu með einn flugpunkt yfir Heklu. Við vitum ekkert um það, en þeir fljúga bara inn á íslenskt yfirráðasvæði eftir ákveðnum hnitum. Það eru litlar líkur á því að Hekla gjósi og valdi slysi, af því að þetta tekur allt sinn tíma og Hekla er vel vöktuð. Þeir fljúga í 30.000 fetum þannig að líkurnar á að þetta valdi slysi eru engar, eða litlar.
Ofangreint er haft eftir starfsmanni í fræðslumálum hjá Samgöngustofu. Auðvitað er þetta hárrétt hjá honum enda hef ég það beint frá bílstjóra hjá Hreyfli að Hekla muni ekki gjósa á næstunni og þegar það gerist er það aldrei þegar flugvélar eru í nánd.
Annan þekki ég sem afgreiðir á kassa hjá Bónus. Hann tekur undir orð starfsmanns Samgöngustofu og segir engar líkur á að Hekla gjósi og valdi slysum.
Sama segir frænka mín sem er vel að sér í flugmálum, hefur oft flogið og jafnvel litið sem snöggvast inn í flugstjórnarklefa. Hún heldur því fram að Páll Einarsson verði nú að átta sig á því að flugvélar hafa stýri og sumarhverjar handbremsur.
Jafnvel hæstaréttarlögmaður, góður vinur minn, heldur því fram að það sé útilokað annað en að hægt sé að koma í veg fyrir slys þegar Hekla gjósi.
Ég held að allir þeir sem hér hafa verið nefndir hafi ekki hundsvit á því sem þeir eru að segja. Þar að auki er það ansi snöfurmannlegt hjá starfsmanni í fræðslumálum hjá Samgöngustofu að afgreiða sérfræðiáliti Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings, einn fremsta vísindamann þjóðarinnar með ofangreindum orðum. Sé þetta skoðun Samgöngustofu ætti að leggja hana niður. Þetta er eins og halda því fram að lítil hætta sé á slysum á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar vegna þess að þar séu umferðaljós og lögreglan leggi leið sína þangað tiltölulega oft.
Með fullri virðingu fyrir starfsmanni í fræðslumálum hjá Samgöngustofu sem og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar, þá væri þeim sæmast að taka mark á aðvörunarorðum manns sem gerst til þekkir og mælir af vinsemd og kurteisi. Slíkum manni á ekki að taka með stofnanahroka heldur þakka fyrir og fara að ráðum hans.
Varar við þotuflugi yfir Heklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ósannindin um Sjálfstæðisflokkinn og heilbrigðismálin
29.7.2015 | 09:43
Ögmundur ákvað að fara niður í svað aðdróttana og samsæriskenninga. Með ódrengilegum hætti dylgjar hann um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Úr verður risastórt samsæri. Í boði ríkisstjórnarinnar gæti draumur frjálshyggjunnar um alvöru markað á sviði sjúkdóma og lækninga verið að rætast.
Ögmundur fellir dóm yfir tugum einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og segir að um brask sé að ræða. [...]
Engu skiptir þótt ríkisstjórnin sem Ögmundur sat í hafi tekið fyrstu skrefin og samið við umrædd fyrirtæki. Slík smáatriði mega ekki þvælast fyrir þegar höggið er til andstæðinga.
Ekki er algengt að stjórnmálamaður sé flengdur opinberlega, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Ögmundur Jónasson, alþingismaður og fyrrum ráðherra í vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur upp á síðkastið verið iðinn við ósannindaskrif um heilbrigðismál og Sjálfstæðisflokkinn.
Ögmundur hirtur
Væntanlega er hann að leggja línurnar fyrir komandi komandi stjórnmálavetur. Vandinn er hins vegar sá að Ögmundur, sá orðmargi stjórnmálamaður, fer ekki alls kostar rétt með staðreyndir eins og Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, rekur í ágætri grein sinni í Morgunblaði dagsins og ofangreind tilvitnun er úr. Óli Björn hirtir Ögmund fyrir ósannsögli hans og dylgjur svo að undan hlýtur að svíða.
Einföld súlurit í greininni segja það sem segja þarf, þau fara rétt með staðreyndir, öfugt við það sem Ögmundur heldur fram. Hann hefur iðulega sagt að framlög til Landspítalans hafi lækkað hjá núverandi ríkisstjórn en svo er aldeilis ekki, þau hafa þvert á móti stórhækkað. Sama er með útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála.
Skrökið þulið nógu oft
Óli Björn Kárason er bæði ritfær og rökfastur í grein sinni og hann segir meðal annars:
Átök hugmynda er nauðsynleg í frjálsu samfélagi. Því miður höfum við sem fylkjum okkur undir merki borgaralegra afla - erum hægrimenn - ekki gengið eins rösklega fram og keppinautarnir. Engu er líkara en að við hræðumst að taka til máls; berja frá okkur, svara andstæðingum og afla hugmyndum og stefnu fylgis.
Þetta er ein skýringin á því að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hefur tekist að móta ímynd flokksins í hugum þúsunda kjósenda. Í þeirri vissu að fáir verði til svara, er járnið hamrað. Gildir hið fornkveðna; ef þú endurtekur vitleysuna nægilega oft er góð von um að fólk trúi fjarstæðunni líkt og um sannleika sé að ræða. Til verða heilagar möntrur þar sem sífellt er þulið það sama.
Á að loka SÁA og Hjartavernd
Annar stjórnmálamaður, Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur á svipuðum málum í grein í Fréttablaðinu í gær. Hann ræðir um einkavæðingu í heilbrigðismálum á Íslandi og vekur athygli á merkilegum staðreyndum.
Ef við notum orðalag vinstrimanna þá stóð ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar, ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, að stærstu einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Og er það virkilega svo að prófessorinn [Stefán Ólafsson] þekki ekki muninn á bandarísku heilbrigðiskerfi og því skandinavíska? Það eitt og sér hlýtur að teljast mjög alvarlegt mál.
Eigum við að banna einkarekstur? Er hann á móti einkarekstri í heilbrigðismálum? Á ríkið að taka yfir rekstur einkaaðila? Það myndi þýða að eftirfarandi rekstrareiningum yrði lokað:
- SÁÁ
- Reykjalundi
- Grund
- Hrafnistu
- Sóltúni (reyndar nær öllum hjúkrunarheimilum landsins)
- Tannlæknastofum
- Sérfræðilæknastofum
- Heilsugæslu Salahverfis
- Sjálfstæðum heimilislækningastofum
- Krabbameinsfélaginu
- Rauða krossi Íslands
- Hjartavernd
- o.s.frv.
Með öðrum orðum erum við að tala um að taka upp fyrirkomulag sem hvergi þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Trúir einhver því að heilbrigðisþjónustan á Íslandi verði betri ef við bönnum einkarekstur?
Að veita góða heilbrigðisþjónustu er eilífðarverkefni. Við sjálfstæðismenn höfum forgangsraðað í þágu þeirrar þjónustu, það sama verður ekki sagt um íslenska vinstrimenn.
Er ekki kominn tími til að landsmenn fari að taka það með fyrirvara það sem þeir kumpánar segja, Ögmundur Jónasson, alþingismaður, og Stefán Ólafsson, prófessor.
Bandaríska leiðin hans Stefáns
Stefán Ólafsson reynir að svara Guðlaugi Þór í pistli á vefritinu Eyjan. Þar segir hann:
Þegar Guðlaugur Þór telur upp fjölda stofnana í þriðja geiranum (SÁÁ og Hjartavernd o.fl.) og einkarekna þætti heilbrigðiskerfisins og segir að ég vilji loka því öllu þá er hann að afbaka umræðuna úr hófi og það veit hann vel.
Heldur er það ódýr málflutningur hjá þingmanninum. Hann á að vera heiðarlegri og hafa betri rök fyrir máli sínu.
Ég var hins vegar að vara við veikingu opinbera samtryggingarkerfisins, með tilvísun til slæmrar reynslu af bandarísku leiðinni.
Hin svokallaða bandaríska leið er ekki á dagskrá hjá íslenskum stjórnmálaflokkum, allra síst Sjálfstæðisflokknum sem margoft hefur í ályktunum sínum varið núverandi heilbrigðiskerfi og stutt það eins og Óli Björn Kárason færir rök fyrir í áðurnefndri grein sinni.
Annars er það stórundarlegt þegar vinstri sinnaðir stjórnmálamenn eins og Stefán Ólafsson eru staðnir að ósannsögli þá breyta þeir um stefnu og fara að tala um allt annað.
Einkarekstur er staðreynd í íslenska heilbrigðiskerfinu og hefur þar reynst vel. Þegar Stefáni Ólafssyni er bent á það fer hann undan í flæmingi og segist ekki hafa meint svoleiðis einkarekstur ... sko bara bandarísku leiðina. Hver í ósköpunum var að tala um einhverja bandaríska leið? Hún er bara eitthvað sem vaxið hefur í kollinum á Stetil og tilgangurinn aðeins einn, að nota sem barefli á Sjálfstæðisflokkinn.
Hrærigrautur réttlætingarinnar
Þetta eru hins vegar bara enn ein ósannindi stjórnmálamannsins, prófessors Stefáns, sem í áðurnefndri grein segist vera:
- Talsmaður blandaðs hagkerfis
- Ekki hugmyndafræðingur vinstri manna
- Miðjumaður í þjóðmálaumræðunni
- Stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar í sumu, ekki öðru
- Stuðningsmaður þriðja geirans í opinberri velferðaþjónustu
- Á móti veikingu opinbera samtryggingakerfisins
- Á móti bandarísku leiðinni
Maðurinn flokkar sig greinilega meðal góðu gæjanna í stjórnmálaumræðunni. Hins vegar hefur verið sagt að því flóknari sem eigin réttlæting reynist vera því meira bull er hún og sá sem fyrir henni stendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Njólin, þjóðarjurtin
25.7.2015 | 16:27
Njóli nokkur vex upp á umferðareyju í Reykjavíkurborg og fagnar í ár fjórða starfsári sínu þar.
Eftir nokkrar vikur verður hann orðinn svo stór og mikill að eigin sögn að hann getur jafnvel boðið sig fram til forseta þó hann hafi ekkert gert nema vaxið lifað í Reykjavík.
Enginn amast við honum lengur og því teljur hann sig hafa gert mikið gagn enda grænn um þessar mundir þó eðli hans sé þannig að um síður verði hann rauðbrúnn.
Sko, ég er engin lúpína, enda er ég fyrir friðinn, ást, samskipti og bræðralag. Hún veður hins vegar yfir allt og alla. Vissulega eru fjölmargir leiðangrar gerðir út til höfuðs lúpínunni. Hún er rifin upp með rótum, eitrað fyrir hana og gáfumenni rita lærðar greinar um hana enda eru gróðurleysur Íslands eru í stórhættu hennar vegna.
Njólinn glottir á meðan, hann bara vex þarn og hefur aldrei gert annað en að ná að skjóta rótum þar sem hann átti aldrei að vera. Í skjólið hans sækir ruslið og yljar honum um rætur og eflir sjálfstraustið. Hann gægist upp fyrir kantsteininn og segir: Hér er ég, grænn og aldeilis frábær og yndislegur. Og ruslið fagnar orðum hans og kallar hann þrifajurt. Þú ert ekki eins og hinar jurtir landsins, kallar grasið sem náði að skjóta rótum þarna í óþrifunum.
Sækjum áfram segir njólinn, þið grös og ég skjótum næst rótum í sprunginni steypunni. Þetta er okkar land, nóg pláss fyrir alla nema helvítis lúpínuna.
Njólann snertir hins vegar ekki neinn enda þjóðarjurtin.
Ófrjó hugsun stjórnvalda og ferðaþjónustunnar
23.7.2015 | 15:09
Fólk sem ekki hefur frjóa hugsun tekur oftar en ekki slæmar ákvarðanir. Þannig er það oft með ríkisvaldið að það hleypur þunglamalega hingað og þangað og reynir að bera í bætiflákann vegna aðstæðna sem upp koma, það er að skattleggja.
Engin stefna er í ferðamálum hér á landi. Afleiðingin er ótrúleg kraðak ferðamanna á örfáa staði á landinu, Þingvelli, Gullfoss, Geysi og örfáa aðra. Ef aðstæður væru hinar sömu í fiskveiðum myndu allir sækja þorsk á Halamiðum og láta aðrar fisktegundir vera hringinn í kringum landið. Þetta er ekki til góðs, hvorki fyrir þjóðina né ferðaþjónustuna.
Sem betur fer tókst að verjast ráðherra ferðamála sem vildi setja ferðaskatt á landsmenn, rukka þá fyrir aðgang að landinu sem þeir hafa haft óskoraðan rétt til frá landnámi. Nú kemur sami ráðherra og hefur óskaplegar áhyggjur af Laugaveginum og vill fara að kröfu Ferðafélags Íslands og skattleggja göngufólk sem leggur leið sína milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Raunar er þessi gönguleið sú ofmetnasta á landinu, stendur engan veginn undir því að vera sú fjölfarnasta á landinu en það er annað mál.
Best væri að setja kvóta á leiðina, rétt eins og gert er í fisknum. Ekki fari fleiri um hana heldur en geta gist í fjallaskálum í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Botnum eða gengið hana á einum degi. Útfærslan er þarf ekki að vera flókin.
En hvernig er það með aðrar gönguleiðir á landinu, lengri leiðir. Nei, þær eru ekki kynntar á sama hátt og Laugavegurinn. Gullfoss-Geysir stíllinn er á þessu öllu. Útlendingar fá það sterklega á tilfinninguna að gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur sé sú merkilegasta á landinu, rétt eins og það skipti öllu máli að hafa séð Gullfoss og Geysi. Þessu hafa ferðaþjónustuaðilar haldið að útlendingum af ferðaþjónustuaðilum í tugi ára. Engu má breyta því þeir kunna aðeins að reka rútur og bílaleigur.
Frjó hugsun er ekki til. Ferðaþjónustan haga sér eins og iðnaður, er með gullglampa í augum og stjórnvöld koma á eftir með sama augnablikið og vilja græða pening. Engum dettur í hug að Laugavegirnir eru fjölmargir á landinu, fossarnir eru óteljandi, háhitasvæðin fjölmörg og enginn gefur smáatriðum landsins gaum. Allir eru svo uppteknir að moka útlendingum í stóru wow-in sem þó eru ekkert merkileg lengur vegna átroðnings.
Hér er til dæmis listi yfir tuttugu staði sem fæstir ná augum ferðaskrifstofa og þeir eru síst af öllu ómerkilegri en Laugavegurinn og Gullfoss og Geysir. Ég gæti talið um margfalt fleiri.
- Hattver í Jökulgili skammt frá Landmannalaugum og raunar Jökulgil allt
- Gjáin fyrir ofan Stöng í Þjórsárdal
- Rauðibotn, Hólmsá og Hólmsárlón
- Hólmsárfossar neðan við Mælifellssand
- Á og foss sem fellur í hvelfingu efst í Fróðárdal, vestan Draugamúla. Einstaklega fallegt er ofan fossins. Þekki ekki nöfn á þessum stöðum
- Rauðisandur
- Spákonufell við Skagaströnd
- Dyrfjöll
- Borgarfjörður eystri
- Vatnsdalur við Heinabergsjökull í Vatnajökli
- Kálfafellsdalur
- Vestrahorn, gönguleiðin undir frá Papaósi að Horni, einnig gönguleiðin upp Kastárdal og í niður skriðurnar við Kambshorn.
- Gönguleiðin um Endalausadal
- Ketillaugarfjall
- Esjufjöll
- Grímsvötn
- Núpsstaðaskógar
- Upptök Bláfjallakvíslar norðan Öldufells
- Þjófadalir
- Heiðmörk ofan höfuðborgarsvæðisins
Hugnast gjaldtaka á Laugaveginum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þótti þér ekki Ísland þá yfirbragðsmikið til að sjá?
18.7.2015 | 21:35
Hekla er að breytast ... eða er það ég. Að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hafa áður orðið jafn móður, svitnað eins mikið og verið eins þreyttur þegar upp var komið. Uppi var skítakuldi, hávaðarok en útsýnið undursamlegt.
Og þar sem ég stóð þarna og horfði yfir landið flaug mér í hug ljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem ég hef í miklum hávegum. Ekki svo að ég kunni það utan að, kannski hálft fyrsta erindið:
Þú stóðst á tindi Heklu hám
og horfðir yfir landið fríða,
þar sem um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám;
en Loki bundinn beið í gjótum
bjargstuddum undir jökulrótum
þótti þér ekki Ísland þá
yfirbragðsmikið til að sjá?
Varla hefur verið ort fegurra kvæði á íslensku. Hvílík orðsnilld, þvílíkt hugarflug.
Ég hef ábyggilega gengið yfir eitt hundrað sinnum á Heklu ... jæja, kannski tæplega það. Allt í lagi, ábyggilega meira en tíu sinnum. Hún er alltaf jafn heillandi og fögur, að minnsta kosti tilsýndar. Svo bregður maður skíðunum undir sig og leggur maður í gönguna. Já, ég gekk upp á gönguskíðum, með skinnum undir, tel það betra í mjúkum snjónum. Sá þó eftir því að hafa ekki notað fjallaskíðin.
Á og á miðri leið er ekki laust við að sú hugsun hvarfli að manni að snúa við. Gönguleiðin upp norðausturhrygginn er brött til að byrja með en svo minnkar brattinn en tindurinn lætur lengi, lengi bíða eftir sér. Hundleiðinlega lengi.
Á leiðinni er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvað gera skal ef svo ólíklega vilji til að gos hefjist. Jú, koma sér niður, fara á móti vindi, míga í gíga og eld, bjarga bílnum, drekka vatn ... og svo framvegis.
Lesandinn getur því ímyndað sér fátið sem greip mig þegar skyndilega lyfti sér þyrla Landhelgisgæslunnar upp fyrir hlíðar fjallsins og hringsólaði yfir mér.
Eldgos, eldgos, æpti ég í huganum og lét mig fallast framm á skíðastafina og horfið á flykkið nálgast, taka taka einn hring og hverfa aftur sömu leið og hún kom.
Ja, hérna, hugsaði ég og varð rólegri. Varla er um að ræða eldgos, annars mynd þyrlan sækja mig og flytja til byggð ... tja nema að áhöfnin hefði þekkt mig og ályktað sem svo að ekki tæki því að bjarga einum vesælum fjallamanni sem hvort eð er var að dauða kominn af þreytu ...
Ég gekk áfram og skemmti mér með viðlíka hugsunum. Ótrúlegt hvernig hugsunun fer á reik í gönguferðum. Og ég hló inni í mér.
Skyndilega, nokkuð fjær, birtist þyrlan aftur. Skyldu þeir nú hafa skipt um skoðun, hugsaði ég, dró upp myndavélina og smellti af nokkrum myndum af því sem ég hélt vera upphafið af björgun minni sem þó reyndist röng ályktun af minni hálfu. Svo hvarf bara þyrlan niður vestan við fjallið.
Um leið og ég hélt göngunni áfram var ég þess fullviss að áhöfnin hafi einfaldlega verið að taka myndir af glæsilegum göngustíl mínum. Um leið rétti ég úr bakinu, snýtti mér undan vindi, þurrkaði nefið með erminni og sveif áfram með sama tilþrifamikla hættinum sem fyrr.
Toppurinn var að hluta snjólaus. Undir barmi toppgígsins er hiti og eimur lagði upp af honum. Sjálfur gígurinn var hins vegar fullur af snjó.
Hlémegin við kassa sem nefndur hefur verið Café Hekla af vísindamönnum var skjól að finna fyrir strangri norðanáttinni. Kassinn geymir ýmis konar tæki meðal annars til mælinga á gasi, skjálftavirkni, skorpuþenslu og annað sem getur sagt til um líðan fjallsins, það er hvort það væntir sín.
Eftir rúmlega tveggja tíma göngu var ég kominn upp. Á leiðinni hafði ég mætt níu manns sem voru á niðurleið en enginn var uppi. Nokkrir þeirra sem ég hitti höfðu varað mig við því að uppi væri kalt. Það var rangt, uppi var skítkalt og því staldraði ég ekki lengi við heldur skíðaði niður eftir að hafa drukkið og etið nægju mína.
Niðurferðin var nú ekkert glæsileg. Linkulegur snjórinn var erfiður og ég bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa ekki farið upp á fjallaskíðunum, var með þau í bílnum. Enginn sá mig kútveltast þarna í brekkunum en óbrotinn komst ég niður.
Myndirnar skýra sig nú sjálfar.
- Í upphafi göngu.
- Þessa slides-mynd tók í skemmtilegri flugferð með Birni Rúrikssyni, þeim ágæta ljósmyndara með meiru. Þetta var 20. júní 1983. Toppurinn hefur mikið breyst frá því myndin var tekin.
- Þarna hverfur þyrla Landhelgisgæslunnar, myndin er talsvert stækkuð.
- Og svona lítur toppurinn á Heklu út þegar upp er komið. Lengst til vinstri en kassinn með mælitækjunum.
- Þessa slides-mynd tók ég 30. júlí 1987.
- Til samanburðar við síðustu mynd er þessi, tekin 17. júlí 2015. Miklu meiri snjór í fjallinu núna.
Gott ráð er að smella á myndirnar, þá stækka þær og verða fyrir vikið skemmilegri á að horfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hélstu að fjölgun ferðamanna væri öll af hinu góða?
16.7.2015 | 14:45
Þjóðin kætist og ræður sér ekki fyrir fögnuði yfir fjölgun ferðamanna. Einn milljón og tvöhundruð þúsund manns á ári. Munar miklu fyrir ríkissjóð. Stjórnmálamenn eru himinnlifandi.
Hins vegar er ekki allt sem sýnist. Fæstir gerðu sér grein fyrir því að þessum hrikalega fjölda útlendra gesta fylgdi neinn vandi. Því er nú öðru nær og nær öruggt að kosta þarf talsverðum fjármunum til vegna vandans.
Þetta er það helsta:
- Fjölgun bíla á þjóðvegum með hlutfallslegri aukningu slysa. Þjóðvegir landsins eru engan veginn undir þetta búnir.
- Fjölgun fólks í fjallaferðum, oft vanbúið fólk, án kunnáttu og leiðsagnar. Slysum hefur fjölgað mikið.
- Margföldun á útköllum lögreglu, björgunarsveita og þyrlna Landhelgisgæslunnar. Björgunarsveitir ráða ekki við vandamálið.
- Gríðarlegur sóðaskapur við helstu ferðamannastaði. Dettur til dæmis einhverjum í hug að enginn þurfi að ganga örna sinna? Því fleiri sem eru á faraldsfæti því meiri sóðaskapur.
- Átroðningur á helstu ferðaleiðum gangandi og akandi fólks
- Fyrir fimmtán árum mátti við því búast að hitta einn náunga á strigaskóm með plastpoka í hönd á Laugaveginum og var sá að leita að the hotel in Landmannalaugar. Nú má búast við margfalt fleiri slíkum á þessari og öðrum gönguleiðum, allir að leita að hótelinu.
- Náttúra landsins selst unnvörpum ef svo má að orði komast. Náttúra landsins er hins vegar stórhættuleg, því fleiri sem hingað koma því fleirum verður hún að aldurtila.
Fyrir um fimm árum spáði Jón Karl Ólafsson þáverandi formaður SAF því að milljónasti ferðamaðurinn myndi koma hingað til lands á árinu 2015. Hann hafði ekki rétt fyrir sér því í ár kemur sá 1.200.000.
Þeir sem heyrðu spádóminn tóku andköf og töldu Jón Karl frekar rugludall en hitt. Hann vissi og veit þó sínu viti. Hann benti á að þjóðfélagið væri ekki undirbúið undir þennan fjölda. Grunnatriði eins og þjóðvegir, flugsamgöngur, ferjusiglingar og fleira og fleira þyrfti að laga. Fátt hefur hins vegar breyst.
Staðreyndin er líka sú að hingað koma ekki bara kurteisir og góðir ferðamenn. Líka hinir, glæpamenn, ruddar og sóðar. Þeir koma í skjóli hinna, drekka óhóflega, gera þarfir sínar við þjóðargrafreitinn, troða illsakir við mann og annan, stela, meiða og svo framvegis.
Af hverju eru landsmenn svona hissa á hegðun ferðamanna?
Halda menn að engu þurfi að breyta vegna fjölgunar ferðamanna?
Í mörg ár var ein vinsælasta bæjarhátíð landsins haldin á Skagaströnd. Þangað komu á Kántríhátíð margfaldur fjöldi bæjarins, jafnvel tólffaldur. Svo fengu heimamenn leið á ferðamönnum sem kunnu sér ekki hóf, drukku frá sér allt vit, hægðu sér í næsta garði, sprændu þar sem þeir stóðu eða sátu, neyttu eiturlyfja og sóðuðu út bæinn eins og þeim væri borgað fyrir það.
Einn góðan veðurdag sögðu heimamenn að nú væri nóg komið og þeir hættu þessari vitleysu. Síðan hefur mannlífið verið fámennara á sumrin en áður en hins vegar miklu betra.
Er íslenska þjóðin komin í sama spor og Skagstrendingar forðum?
Míga og skíta glottandi við Gullfoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimtufreki krakkinn í sælgætisbúðinni
16.7.2015 | 08:50
Hjúkrunarfræðingar haga sér eins og argasta mafía, fyrirgefið orðbragðið en maður getur ekki lengur orða bundist. Félagið heldur að kröfur þess séu ólíkar öllum öðrum launakröfum og verði farið að þeim hafi það engin áhrif á launakröfur annarra launþegafélaga. Þess vegna hóta hjúkrunarfræðingar hryðjuverkum í samfélginu nema allt sé gert sem félagið krefst.
Þannig ganga ekki hlutirnir fyrir sig hér á landi og hafa aldrei gert. Ekki heldur hefur það tíðkast hér á landi að launþegafélög gefi fullnægjandi skýringu á launakröfum sínum né breytingu á töxtum og öðru tengdu. Þess vegna veit almenningur ekkert hversu mikill útgjaldaaukinn verður fyrir ríkissjóð veri gengið að ítrustu kröfum hjúkrunarfræðinga. Þar að auki hafa þeir ekki ljáð máls á neinum tilslökunum frá upphaflegum kröfum.
Læknar gerðu þetta sama í vetur. Fóru í mafíuhlutverkið og hótuðu hryðjuverkum. Almenningur varð skelfingu lostinn og mikill þrýstingur var á að farið yrði að kröfu þeirra. Auðvitað vissu allir að hjúkrunafræðingar og aðrir starfsmenn myndu koma í kjölfarið með óbilgjarnar kröfur. Það gekk eftir.
Sama er uppi núna. Óupplýstum almenningi finnst allt í lagi að ganga að kröfum hjúkrunarmafíunnar vegna þess að stéttin er svo mikilvæg. Sannarlega er hún það.
Hins vegar er ótækt að fara að ítrustu kröfum þeirra. Efnahagur þjóðarinnar hefur ekki efni á því nema því aðeins að forysta hjúrunarfræðinga geti tryggt að ekki komi aðrar stéttir á eftir og heimti samskonar fullnustu á ítrustu kröfum sínum. Það geta hjúkrunarfræðingar auðvitað ekki. Þess í stað berja þeir höfðinu við steininn og heimta og heimta rétt eins og óþægur krakki í sælgætisbúðinni.
Munurinn á óþæga krakkanum og hjúkrunarfræðingunum er sá að krakkinn tekur sönsum, hann lærir og veit að það þýðir ekkert að grenja og spakara eftir að foreldrarnir hafa tekið ákvörðun
Hjúkrunarfræðingarnir aðhafast annað. Þeir ráða almannatengla, henda inn fréttum á fjölmiðlanna og sýna fram á að heilbrigðiskerfið er á leið í hundana og það sé allt ríkisstjórninni vondu að kenna. Og fjölmiðlar birta allt í gúrkutíðinni. Þeir fóru í verkfall og síðan í skipulagðar uppsagnir.
Minna fer fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar sem hjúkrunarfræðingum bauðst þess efnis að leiðrétting á launum þeirra gangi yfir nokkur ár. Flestum sem sjá yfir sviðið í gegnum óbrengluð gleraugu vita að það er eina lausnin.
Lausnin er ekki 50% launahækkun í dag með skelfilegum og nær ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, launaþróun í landinu og efnahagslíf.
Afleiðingar verða tvímælalaust samskonar kröfur annarra launþegafélögum. Slík hækkun á laun mun hafa hrikaleg áhrif á verðbólguna, óðaverðbólgan mun verða ráðandi næstu árin. Verðlag mun hækka, vextir munu stórhækka og víxlhækkanir launa og verðlags ganga út í það óendanlega.
Í ofangreindu er ábyrgð Félags hjúkrunarfræðinga falin. Með óbilgirni sinni og mafíustælum verður þetta afleiðingin. Þess vegna er kominn tími til að spyrna við fótum.
Og nú telja hjúkrunarfræðingar sig þess umkomna að hóta brotthlaupi úr landinu. Þeir ætla sem sagt að yfirgefa þjóðfélagið sem veitti þeim ókeypis menntun í sínu fagi, gerði þá að frábæru starfsfólki sem er ábyggilega til sóma fyrir hvaða heilbrigðiskerfi sem er í öllum heiminum.
Þetta fólk segir beinlínis við okkur hin: Hér tilboð sem þið getið ekki hafnað. Er það ekki svona sem Mafían tekur til orða?
Nei, maður getur andskotakornið ekki lengur orða bundist. Þetta er hinn nýi raunveruleiki, og næst kemur Bandalag háskólamanna og hagar sér eins og krakkinn í sælgætisbúðinni.
Lokun gjörgæslu yfirvofandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orkan í Blönduvirkjun
15.7.2015 | 11:34
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.
Ofangreind ályktun Alþingis er ekki nema rétt um eins og hálfs árs gömul. Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri á Skagaströnd, minnir á hana í ágætri grein í Morgunblaði dagsins. Það þýðir því ekkert að agnúast út í forna yfirlýsingu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen frá því 1982. Hún var einfaldlega endurnýjuð af Alþingi 15. janúar 2014 og sú heldur gildi sínu þangað til annað verður ákveðið.
Staðreyndin er sú að fólki fækkar á Norðurland vestra. Jafnvel þó atvinnuleysistölur séu þar lægri en víðast annars staðar segir það ekki alla söguna. Þeir sem til þekkja vita að atvinnumöguleikar í fámenninu á landsbyggðinni eru litlir. Þeir sem missa vinnuna fara einfaldlega annað, í flestum tilviku á höfuðborgarsvæðið. Þegar annað hjóna á í hlut er viðbúið að fjölskyldan flytjist öll í burtu.
Afleiðing verður oftast sú að mikilvægasta fólkið vantar í samfélögin, fólkið sem býr til börnin. Efnahagsleg þýðing þessa fólks sem er á aldrinum 20-45 ára er miklu meiri heldur en hjá öðrum aldurshópum. Þetta er fólkið sem hefur allt annað neyslumunstur en eldra fólk og yngra. Það fjarfestir, verslar og ferðast á allt annan hátt en aðrir.
Þjóðfélagið í heild verður að huga að byggðamálum. Það hefur einfaldlega ekki efni á að landshlutar fari í eyði. Halldór G. Ólafsson segir í niðurlagi greinar sinnar:
Það er gott að búa í Húnavatnssýslu enda þar góð samfélög og gott fólk. Svæðið má muna fífil sinn fegurri enda þurft að greiða dýru verði stórfelldar breytingar á atvinnuháttum. Húnvetningar hafa allt of lengi sætt sig við að staðbundin auðlind, þ.e. orka Blönduvirkjunar, hefur ekki verið nýtt svæðinu til framdráttar. Alþingi hefur sent frá sér vel ígrundaða tillögu sem styður réttmæta kröfu Húnvetninga og því er rétt að leggjast saman á árarnar og snúa vörn í sókn.
Óvissa með Blöndu-samþykktina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lúpínan í blóma
8.7.2015 | 08:55
Gleymum því nefnilega ekki að lúpínan er að bæta fyrir misgjörðir okkar og illa meðferð á landinu okkar, hún er að leggja undir sig örfoka land og auðnir, sandfláka og urðir; allt verður fagurblátt og af því sæt angan.
Þegar við erum öll öll, þegar mannkynið hefur komið sjálfu sér fyrir kattarnef, sem verður eflaust fljótlega, en þó vonandi ekki strax, mun lúpínan skríða yfir allt, Ísland verður Bláland, en síðan víkur hún fyrir grasi og öðrum gróðri, hneigir höfuð og hörfar kurteislega.
Segðu mér nú, kæri lesandi: Er ekki miklu betra að hafa sem fyrirmynd svo ósérhlífna og vinalega jurt og lúpínu, plöntu sem framleiðir áburð úr loftinu einu saman, græðir örfoka land og býr undir annan gróður? Ætti það ekki að vera takmark okkar Íslendinga að gera heiminn betri líkt og lúpínuskúfurinn frjói?
Svona skemmtilega ritar hinn ágæti blaðamaður Árni Matthíasson, í Pistil Morgunblaðs dagsins. Mikið er ég nú sammála honum, eins og svo oft áður.
Í gær rölti ég í veðurblíðunni upp á Úlfarsfell og hafði nú alveg gleymt því að núna er lúpínan í blóma. Þar eru miklar og fagar breiður af henni leggur sætan ilminn fyrir vit göngufólks. Svona er þetta víða um land þar sem lúpínan hefur náð fótfestu. Lúpínubreiðurnar eru sem ævintýraland. Ekki spillir heldur fyrir að hún bætir jarðveginn og undirbýr hann fyrir aðrar jurtir.
Margir sjá ofsjónum yfir lúpínunni og vilja með öllu móti losna við hana og heyrst hefur um rándýrar herferðir gegn henni. Í hryðjuverkum gegn þessari fallegu og gagnlegu jurt hafa sumir lagt á sig að rífa hana upp með rótum og jafnvel eitra fyrir henni með stórhættulegum efnum. Líklega er ástæðan sú að þörf er á að vernda gróðurleysur landsins ... eða hvað?
En hvernig má losna við lúpínuna? Jú, það er einfalt. Hún víkur umsvifalaust fái hún ekki næga birtu. Því er um að gera að fylgja í fótspor lúpínunnar og gróðursetja tré. Það hefur víða verið gert með frábærum árangri. Ég hlakka til þess tíma, sem hlýtur að vera örskammt í, að skógræktarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki nú til við að gróðursetja tré í lúpínubreiður á Úlfarsfelli, Ásfjalli, við Rauðavatn, meðfram Suðurlandsvegi og miklu víðar. Ég er viss um að þúsundir manna myndu vilja taka þátt í slíku átaki enda vart til göfugra verkefni en að rækta skóg (og lúpínu).
Er ekki kominn tími til að fá almenning með sér í skógræktina?