Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Kjartan er leiðtoginn í borgarstjórn

Kjartan-Magnússon-1Einn af þeim stjórnmálamönnum sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir er Kjartan Magnússon, borgarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hann tekur núna þátt í leiðtogakjöri flokksins og vil ég nota þennan vettvang til að mæla með honum.

Kjartan er heiðarlegur maður, duglegur og fylginn sér. Hann hefur yfirgripsmeiri þekkingu á borgarmálum en nokkur annar sem ég þekki enda setið í borgarstjórn frá árinu 1999.

Ég hef oft leitað til Kjartan vegna ýmissa mála, fyrst og fremst til að afla mér upplýsinga. Hann er greiðvikinn og hjálpar umsvifalaust. 

Ég vil hvetja alla Sjálfstæðismenn í Reykjavík til að greiða atkvæði í leiðtogakjörinu á laugardaginn og setja Kjartan í fyrsta sæti.

Við þurfum stefnufasta menn í borgarstjórn. Kjartan er slíkur maður, hann hefur vissulega ákveðnar skoðanir en hefur aldrei brugðist stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. Munum að hann var í öðru sæti á listanum 2014 en með samstilltu átaki verður hann leiðtoginn.


Vísir stendur sig, Mogginn situr eftir

180122 VísirOft á dag kíki ég á fréttasíður vefmiðlanna, Moggans, Vísis, DV og jafnvel fleiri. Auðvitað byrja ég oftast á mbl.is en mér til mikillar furðu hefur það gerst æ oftar að visir.is er fyrstur með fréttirnar. Þar að auki eru fréttirnar oft ítarlegri.

Þannig var þetta í dag. Ein merkilegasta fréttin dagsins er sú að demókratar og repúblikanar hafa náð samkomulagi og bráðabirgðafjárlög en ríkisvaldið í Bandaríkjunum var lokað í dag vegna þess að aungvar heimildir hafa verið til að greiða fyrir rekstur ríkisins.

Þetta er Vísir með á hreinu og birtir umsvifalaust sem fyrstu frétt á forsíðu vefsins.

Mogginn er hins vegar eitthvað að pæla í viðhorfum forsætisráðherra til klúðurs dómsmálaráðherra vegna skipunar dómara í Landsrétt.

Maður velti fyrir sér hvað eiginlega sé að gerast hjá Morgunblaðinu. Því hefur verið gaukað að mér að margir afbrags blaðamenn hafi á undanförnum misserum horfum frá útgáfunni og fundið nýjan vettvang hjá Vísi og Fréttablaðinu.

Í þeirra stað hafa verið ráðnir ungt fólk með enga reynslu, sumt varla skrifandi í íslensku og í þokkabót illa upplýst og þekkja lítt til blaðamennskustarfa og það sem verra er, enginn er til leiðsagnar.

180122 mblRaunar er þetta oft vandamál hjá Vísi og Fréttablaðinu líka en þó sérstaklega hjá DV og fréttamiðlum Eyjunnar og Pressunnar. Ástæðan er líklega sú að ungir starfsmenn eru ódýrari en reynsluboltar og verkefni hinna fyrrnefndu er að fylla upp í plássið milli auglýsinga, ekki að sinna alvörðu blaðamennsku.

Fyrir vikið er fjórða valdið í hræðilegum vanda. Má vera að Kjarnanum og Stundinni undanskildum en skrifin á þessum tveimur síðastnefndum miðlum eru ekki nógu góð.

 


Tíðindalaust af jarðskjálftum á landinu

SkjálftakortTíðindalaust á vesturvígstöðvunum heitir frábær bók eftir Erich Maria Remarque og fjallar um heimstyrjöldina síðari. Ég ætla nú ekki að rekja söguþráð þessara ágætu bókar en nafn hennar flaug í huga mér er ég skoðaði jarðskjálftavef Veðurstofunnar. Segja má að tíðindalaust sé af jarðskjálftum landsins eins og glögglega má sjá á meðfylgjandi mynd.

Aðeins eru skráðir 47 skjálftar hafa orðið frá því á seinni hluta síðasta sunnudags. Yfirleitt eru þeir margfalt fleiri. Aðeins fimm skjálftar hafa verið í dag og flestir frekar vægir. Mýrdalsjökull er rólegur, á Vatnajökli er allt með kyrrum kjörum. Ef ekki væri fyrir Tjörnesbrotabeltið væru skjálftarnir á landinu enn færri, en þar hafa tveir verið í dag en alls 17 frá því seinnipart sunnudags.

Svona er nú staðan. Jarðskjálftar koma í hryðjum ef svo má segja.

Sumir halda því fram að þetta hlé í jarðskjálftum verði skammvinnt, nú skelli á hrina jarðskjálfta og eldgosa.

Þessu er ég fyllilega sammála en hef ekkert fyrir mér í því frekar en aðrir. Draumar hafa ekkert að segja og á þá trúi ég ekki (þetta er skot á þann draumspaka sem segir af og til að eitthvað muni nú gerast (aldrei rætist neitt hjá honum)). Þar af leiðandi mun ekkert gerast fyrr en í júní.

 


Eldgos vestan við Herðubreið?

180107 Herðubreið, gosHundruð jarðskjálfta verða á landinu á hverjum sólarhring. Flestir raðast þeir eftir hinu virka gosbelti landsins. Allir verða eru vegna hreyfinga á jarðskorpunni og falla þeir flestir eftir þekktum sprungusvæðum, aðrir vegna kvikuhreyfinga.

Skjálftar þurfa ekki endilega að verða vegna þess að í eldgos sé í nánd. Þeir geta hins vegar orðið þegar kvika þrengir sér upp í gegnum sprungur í jarðskorpunni eða þrýstingur af hennar völdum veldur brestum og hún nær að streyma upp. Til þess að svo megi verða þarf að vera undirliggjandi þrýstingur rétt eins og gerðist þegar kerfið undir Bárðarbungu reyndi að komast upp á yfirborðið en fann sér ekki aðra leið en 40 km norðar, í Flæðum Jökulsár á Fjöllum þar sem gaus árið 2014, í annað skiptið síðan 1797.

180107 Herðubreið, gos cEldgos þurfa ekki að vera ofsaleg eins og gerðist þegar gaust í Eyjafjallajökli eða í Grímsvötnum. Þau geta verið „hæglát“ rétt eins og þegar gaus í Holuhrauni á Flæðum. Þá mallar gosið í langan tíma og hraunið dreifist um stórt svæði, gríðarlegt magn. Eða þegar gaus á Fimmvörðuhálsi 2010.

Þegar gos verður og svokallaðar dyngjur myndast er gosið yfirleitt „hæglátt“ og jafnvel er virknin í rykkjum. Þannig hefur það líklega verið þegar Trölladyngja, Kollóttadyngja og Skjaldbreið mynduðust. Herðubreið hefði orðið dyngja ef gosið sem myndaði hana hefði ekki orðið þegar jökull lá yfir landinu.

„Hæglátt“ gos var þetta orðað hér að framan. Þetta orð er ekki jarðfræðilegt heldur orðalag leikmannsins sem hefur ekki fulla mynd af því sem gerðist. Kalla má svona gos „rólegt“. Nú er ég loks kominn að kjarna málsins, því sem er tilefni pistilsins í þetta sinn.

Í kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl hafa verið viðvarandi jarðskjálftar undanfarin ár. Varla líður sá dagur að þar mælist ekki skjálfti. Yfirleitt eru þetta litlir skjálftar sem vekja ekki mikla athygli nema fyrir þá sök hversu margir þeir eru. Uppruni þeirra er á fjögurra kílómetra dýpi eða meira og telja vísindamenn að ástæðan séu kvikuhreyfingar. Eitthvað veldur því að þarna er kvika undir þrýstingi og bankar á jarðskorpuna. Enn hefur hún ekki fundið uppgönguleið. Og hversu djúpt er í kvikuna? Munum að Hvalfjarðargöng eru 5,6 km, svona svipað og nemur í kvikuna undir Herðubreið.

Þetta er allt doldið merkilegt og ekki síður að skjálftarnir dreifast í kringum Herðubreið, sjaldgæft er að þeir mælist í henni, það kemur þó fyrir. Stærðin er frá yfirleitt frá einu og upp í rúmlega tvö stig. 

Aðallega hafa þeir þó orðið suðvestan megin fjallsins. Einnig í norðanverðum Herðubreiðartöglum og svo líka á Vikursandi og má eiginlega fullyrða að þeir tengist líka Öskju.

Eðlilegt að spyrja hvað gerist. Vont er um slíkt að spá. Væri jarðfræðingur spurður gæfi hann þrjá kosti:

  1. Jarðskjálftarnir deyja smám saman út
  2. Jarðskjálftarnir munu ekki valda eldgosi
  3. Jarðskjálftarnir munu einhvern tímann valda eldgosi

Eðlilega munu þeir leggja áherslu á fyrsta og annan liðinn enda er ólíklegra að þarna gjósi og er þá ábyggilega vísað til svipaðra aðstæðna annars staðar. Jarðskjálftar eru sjaldnast fyrirboðar um eldgos en þeir geta svo sannarlega verið það.

Setjum nú sem svo að jarðskorpan muni bresta og kvikan komast upp á yfirborðið og hraun fari að renna. Líklegast er að eitt gosop myndist og hraunið verður frekar þunnfljótandi og getur flætt langar leiðir. Landinu hallar til austurs og hraunið myndi renna í áttina að Jökulsá á Fjöllum og þaðan hallar landinu að Herðubreiðarlindum. Allir geta áttað sig á afleiðingunum. Lindirnar fara undir hraun og það stíflar fljótið.

Holuhraunið rann tæplega 20 km frá eldstöðinni á árunum 2014-15. Frá 730 m hæðarpunkti, sem er um miðja vegu milli Herðubreiðar og Bræðrafells, eru hægt að mæla um 14 km að Jökulsá á Fjöllum renni það suður fyrir fjallið.

Landi norðan við Herðubreið hallar til norðurs og austurs og frá áðurnefndum hæðarpunkti er hægt að mæla um 15 km að Herðubreiðarlindum og Jökulsánni.

Líklegt að gosið muni stöðvast af og til. Goshléin gætu verið í nokkra mánuði eða jafnvel ár. Hraun munu því renna á víxl og kólna svo, safnast upp og á löngum tíma, mynda dyngju. Má vera að gos á þessum stað lifi í mannsaldur.

Fyrir um 2900 árum varð á þessum sömu slóðum eldgos og eldstöðin hefur verið nefnd Flatadyngja. Hraunið úr henni rann til austurs, á milli Herðubreiðar og Herðubreiðartagla og raunar allt í kringum Herðubreið. Áður hafði það sama gerst þegar Bræðrafellsdyngja gaus fyrir minna en 4500 árum. Bræðrafell er í suðausturjaðrinum á Kollóttudyngju en hin síðarnefnda gaus fyrir um 7000 árum.

Raunar er það svo að á þessu svæði, það er norðan Dyngjufjalla, vestan Herðubreiðar og austan Kollóttudyngju er aragrúi eldborga af ýmsu tagi og úr sumum hafa runnið víðáttumikil hraun og önnur á eftir þeim og svo koll af kolli í þúsundir ára. Raunar má sjá hraun úr Bræðrafellsdyngju við Jökulsá á Fjöllum, þar náði hraun úr Flötudyngju náði ekki að renna yfir.

Niðurstaðan er því sú að það er ekki ólíklegt að það gjósi enn einu sinni austan Herðubreiðar. Svæðið er virkt, undir kraumar kvikan, bankar á jarðskorpuna og þegar hún gefur örlítið eftir verður eldgos. Þannig varð það í Holuhrauni og þannig verður það í hrauninu sem rann úr Flötudyngju, Bræðrafellsdyngju og öllum þeim eldsstöðvum sem á undan þessum áðurnefndu.

Nei, ég ætla ekki að nefna neina dagsetningu. Hef ekki hundsvit á jarðfræði. Draumspakur maður nefndi miðjan júní á þessu ári. Sel það ekki dýrar en ég keypti.

Efra kortið er stórkostlega skemmtilegt. Það er frá Isor og sýnir jarðfræði á stórum hluta landsins. Ég bætti inn örvunum til áhersluauka.

Neðra kortið er frá Loftmyndum, einstaklega gott kort og þægilegt í notkun. Á því sjást hvar helstu jarðskjálftar hafa orðið á þessu svæði síðustu sex mánuði.

 

 


Hverjir hafa lokið þjónustu hjá Virk?

2.383 einstaklingar voru í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK í lok árs 2017, 17% fleiri en um síðustu áramót, og í lok árs höfðu alls 12.856 leitað til VIRK frá stofnun starfsendurhæfingasjóðsins árið 2008.

1.854 einstaklingar komu nýir inn í þjónustu hjá VIRK á árinu 2017, 8.2% fleiri en árið 2016 og hafa ekki áður svo margir hafið starfsendurhæfingu á einu ári. 1.164 einstaklingar luku starfsendurhæfingarþjónustu árið 2017, svo til næstum jafnmargir og árið á undan. Meðaltímalengd einstaklinga í þjónustu hjá VIRK var tæplega 15 mánuðir 2017 og lengdist um næstum 2 mánuði á milli ára.

Árangur og ávinningur af starfsemi VIRK - fjárhagslegur og samfélagslegur - er mjög mikill þar sem hún hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði. 7.333 einstaklingar hafa lokið þjónustu, útskrifast, frá VIRK og rúmlega 70% þeirra eru virkir á vinnumarkaði við útskrift, eru með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám.

Þennan árangur hafa utanaðkomandi aðilar staðfest en niðurstöður athugunar Talnakönnunar sýna að ávinningurinn af starfsemi VIRK á árinu 2016 hafi numið um 13,6 miljörðum og að reiknaður meðalsparnaður á hvern útskrifaðan einstakling fari vaxandi á milli ára, var 12,2 milljónir en 10 milljónir árin 2013-2015.

Þá sýna þjónustukannanir VIRK að þátttakendur eru undantekningalítið mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana auka verulega bæði lífsgæði sín og vinnugetu.

Þetta er frétt hjá Virk, starfsendurhæfingarsjóðsins. Hún er illa skrifuð. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
  1. Höfundurinn þekkir ekki nástöðu. Sífellt er tönglast á orðinu starf, starfsemi eða starfsendurhæfing.
  2. Höfundur byrjar setningar á tölustöfum, það er aldrei gert í íslensku ritmáli.
  3. Höfundur hefur ruglast í ríminu. Virk veitir þjónustu. Þeir sem njóta hennar eru ekki í þjónustu hjá Virk, þar er þeim þjónað.
  4. Góð regla í skrifum er að strika út óþörf orð, helminga textann. Setja punkt sem oftast, stytta setningar og málsgreinar (jonas.is). Þetta er ekki gert hér að ofan.

Gagnslítið er að kynna mikilvæga starfsemi með lélegum skrifum.

 

Hurð réðst á fimmtugan flugmann

Flugmaður lést í slysi á flugvellinum í Kittilä í norðurhluta Finnlands í gær. Frá þessu greinir YLE.

Flugmaðurinn, sem var fimmtugur að aldri, á að hafa verið á leiðinni um borð í flugvél þegar hurð flugvélarinnar fór í hann með þeim afleiðingum að hann lést samstundis.

Vélin er af gerðinni Gulfstream G 150, með sæti fyrir tuttugu farþega, og skráð í Austurríki. Fram hefur komið að maðurinn sem lést ekki finnskur ríkisborgari. Lögregla telur ekki að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.

Kittilä er að finna um 150 kílómetrum norður af Rovaniemi og um 80 kílómetrum frá sænsku landamærunum.

Í þessa frétt vantar það eitt lögreglan hafi sleppt hurðinni að lokinni yfirheyrslu enda ekki talið að „eitthvað saknæmt hafi átt sér stað“.

Þetta er frétt af vefmiðlinum visir.is og er vart boðleg, svo hroðvirknislega er hún skrifuð.

Gera má ráð fyrir að hurðin hafi skellst á flugmanninn, það er hins vegar ekki sagt heldur að hún hafi farið í hann, rétt eins og þegar varnarmaður í fótbolta eða handbolta fer í sóknarmann. Nema því aðeins að hurðin hafi farið í manninn, inn í hann. Við nánari umhugsun gæti hurðin hafa ráðist á flugmanninn.

Blaðamaðurinn er alls ekki viss. Flugmaðurinn „á að hafa verið á leiðinni ...“ en var ekki á leiðinni.

Í fréttinni segir: „Fram hefur komið að maðurinn sem lést sé ekki finnskur ...“, var þá ekki hægt að segja að hann hafi ekki verið finnskur. Og hvar kom þetta fram, ekki í fréttinni.

Svo gleymir blaðamaðurinn að segja frá því hvers vegna hurðin „fór í“ flugmanninn. Klúður.


Gleðileg jól til þín, nytjastuldur og lagt á dóttur

1.

„Hop jökla ógn­ar líf­ríki jök­uláa um all­an heim.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Má vera að lesandinn hafi aðrar tilfinningu fyrir þessari fyrirsögn en sá sem hér ritar. Vissulega hopa jöklar en það sem meira er, og það er fréttnæmara, þeir rýrna. Hins vegar er fyrirsögnin góð og gild. Fréttin fjallar um það sem gerist á landi eftir að jökullinn hefur horfið (hopað, styst, minnkað, bráðnað, þynnst, rýrnað …).

TillagaRýrnun jökla ógn­ar líf­ríki jök­uláa um all­an heim.

 

2.

„Það þýðir að repúblikanar og demókratar hlutu jafnmörg atkvæði. Ríkislög Virginíu kveða á um að kasta skuli upp um sigurvegara ef jafnt er. Formaður kjörstjórnar segir líklegast að nafn sigurvegarans verði dregið úr glerskál.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Hér er margt að. Undarlegt að orða það þannig að „kasta skuli upp um sigurvegara“. Sá sem kastar upp er að gubba. Óskiljanleg barnamál er að orða það þannig að „kasta skuli upp um sigurvegara“. Ótvíræðara orðalag er að varpa hlutkesti.

Dráttur á nafni úr skál er ekki það sama og að varpa hlutkesti. Þetta er illa skrifuð frétt og nær óskiljanleg. Er enginn blaðamaður með metnað á visir.is?

Tillaga: Ríkislög Virginíu kveða á um að varpa skuli hlutkesti reynist tveir frambjóðendur með flest atkvæði.

 

3.

„Nokkrum dögum síðar fékk hann hringingu frá Happdrætti Háskólans og var boðið að taka þátt. Hann var þá nýbúinn að leggja á dóttur sína í Danmörku.“ 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Ekki kemur fram í fréttinni hvað maðurinn var búinn að leggja á dóttur sína. Má vera að hann hafi verið að tala við dóttur sína í síma og kann hún að búa í Danmörku. Með hefðbundnum borðsímum er hægt að „leggja á“, þá slitnar símtalið.

Með farsímum er hins vegar ekki hægt „að leggja á“. Þess vegna hefði blaðamaðurinn átt að orða þetta á annan og einfaldari hátt.

Tillaga: Hann var þá nýbúinn að tala við dóttur sína í síma en hún býr í Danmörku.

 

4.

„Með því vill fólkið sýna ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás samstöðu.“ 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Oft eru langar málsgreinar erfiðar sérstaklega þegar notuð eru orðtök. Stundum slitna þau og verða dálítið kjánaleg. Algengt er „að sýna samstöðu“ með einhverju eða eins og í tilvitnuninni hér að ofan. 

Þetta er ekki löng málsgrein en hefði mátt endurskrifa. Alltaf þarf að hugsa til lesenda. Sá sem skrifar skilur hugsanlega það sem hann fjallar um en þar með er ekki sagt að aðrir geri það. 

Sá sem þetta ritar velti því eitt augnablik fyrir sér hver þessi samstaða væri sem gerði stórskotaliðsárás. 

Eftirfarandi regla er frá Jónasi Kristjánssyni, fyrrum ritstjóra sem ráðleggur blaðamönnum að skrifa einfalt mál: „Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. […] Settu punkt sem oftast, styttu setningar og málsgreinar.“ Sjá jonas.is

Tillaga: Með því vill fólkið sýna samstöðu með ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás.

 

5.

„Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og óttast var að væri sprengja reyndist vera hrossatað sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Tað er þurrkaður skítur húsdýra. Fréttin er þýdd úr erlendum fréttamiðli og þar er enska orði „manure“ sem blaðamaður þýðir og kallar hrossatað.

Sá sem þetta ritar heldur að blessaður fjármálaráðherrann hafi beinlínis fengið blautan skít í pakkanum, sem hefur ábyggilega miklu betra til áhersluauka en sá þurri.

Tillaga: Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og var óttast að væri sprengja, reyndist vera hrossaskítur sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað.

 

6.

„Þeir sem gistu fangageymslur voru þar meðal annars vegna nytjastuldar á bifreið, ráns, líkamsárásar og þjófnaðar.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Nytjastuldur er líklega þjófnaður á einhverju til eigin nota, jafnvel til að selja. Þjófnaður er bara þjófnaður, þjófur er þjófur, steliþjófur er líka þjófur. Yfirleitt er það sem stolið er notað.

Hér er ekki eingöngu við blaðamann að sakast fyrir utan að hann tekur texta frá lögreglunni og birtir athugasemdalaust sem þykir nú ekki góð blaðamennska.

Skyldi sá sem ritaði textann vita hver er munurinn á „nytjastuld á bifreið“ og þjófnaði á bifreið? Eða muninn á ráni og þjófnaði? Held að á þessu sé stigsmunur. Þýfi nefnist það sem er stolið og sem líklega er dregið af nafnorðinu þjófur. Þjófnaður er hugsanlega eitthvað minna en rán. 

Sá sem þetta ritar veit ekki hvort nytjastuldur sé rán eða þjófnaður. Margvíslegu er stolið, til er bílstuldur, bókastuldur, bréfastuldur, eggjastuldur, fjárstuldur, gagnastuldur, heimildastuldur, hugverkastuldur, peningastuldur, smástuldur, vopnastuldur og ábygglilega fleiri samsetningar við orðið stuldur. Sá sem stelur getur svo verið stuldamaður.

Þar að auki er til munaþjófnaður. Er það nytjastjuldur?

Held að það sé hollt að velta þessu fyrir sér í stað þess að láta sem svo að þessi orð séu samheiti. Það er dálítið heimskt.

Tillaga: Þeir sem gistu fangageymslur voru þar meðal annars vegna ráns, líkamsárásar og þjófnaðar.

 

7.

„Gleðileg jól til þín, Gunna mín.“ 

Algeng kveðja á Facebook.    

Athugasemd: Víðar en á Facebook má sjá svona kveðjur. Þetta er ekki beinlínis rangt en heldur víðs fjarri íslenskum venjum. Yfirleitt er sagt: „Góðan daginn, Gunna mín“. Enginn segir góðan daginn til þín, Gunna mín. Það er frekar tilgerðarlegt og stirt.

Almenn er sagt gleðileg jól, gleðilegt ár, gleðilegt sumar og álíka án þess að bæta við forsetningunni „til“. Formlega dugar að segja: Ég óska þér gleðilegra jóla, Gunna mín.

Sá sem vill halda troða ensku máli inn í það íslenska gæti þess vegna sagt: Gleðilega Kristsmessu til þín, Gunna mín.

Tillaga: Gleðileg jól, Gunna mín.

 

8.

„Mannskæð snjóflóð voru í svissnesku Ölpunum yfir jólin þar sem þrír létust, einn skíðamaður og tveir fjallgöngumenn.“ 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Í tilvitnuninn er tvítekið að fólk hafi farist í snjóflóðum. Blaðamaðurinn hefur varla tilfinningu fyrir því sem hann skrifar. Fréttin er flausturslega skrifuð og kemst ekki í hálfkvisti það sem segir á reuters.com.

Á Vísi segir þetta: „Að sögn lögreglu hreif snjóflóðið manninn með sér meira en kílómetra leið yfir grýtt svæði.“ 

Sögnin að hrífa merkir að taka, hrifsa eða álíka. Hún dugar ekki ein og sér, annað sagnorð vantar, það er sögnina að bera. Maðurinn barst með snjóflóðinu. Snjóflóðið féll á manninn og bar hann meira en einn kílómetra. 

Loks er greint frá því að „viðbragðsaðilar“ hafi fundið skíðamann. Þetta orð er frekar vinsælt. Við vitum að lögreglan bregst við mörgu, sama er með slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, húsverði, gangbrautarverði, meindýraeyði og jafnvel þá sem ryðja snjó af þjóðvegum. 

Hverjir eru „viðbragðsaðilar“? Eru það þeir sem bregðast við einhverju, þeir sem bregður við, þeir sem bregðast … Getur verið að gangbrautarvörður hafi komið að skíðamanninum? Eða meindýraeyðir?

Staðreyndin er einfaldlega sú að „viðbragðsaðili“ er rassbaga frá blaðamönnum eða illa skrifandi höfundum fréttatilkynninga hjá lögreglu eða öðrum „viðbragðsaðilum“. Orðið er algjör óþarfi, ekki lýsandi á neinn hátt, miklu frekar letiorð þeirr sem nenna ekki að skrifa hver „viðbragðsaðilinn“ er

Tillaga: Skíðamaður og fjallgöngumenn fórust um jólin í snjóflóðum í svissnesku Ölpunum.

 

9.

„Tvö fjallaslys og tvær leitir á jóladag.“ 

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 27. desember 2017.     

Athugasemd: Fyrir kemur að bílar rekast á, þá er það bílslys. Allir vita hvað flugslys er. Umferðaslys ekki aðeins við bílslys heldur líka reiðhjólaslys, slys á á göngustígum og svo framvegis. 

Hvað skyldi „fjallaslys“ vera? Sumum þykir Akrafjall svo skrambi ljótt að það sé hreinlega slys hvernig til tókst hjá skaparanum. Einhver miður orðheppinn taldi annað fjall frekar í ætt við „mykjuhrúgu“ svo vægt sé til orða tekið. Í jarðsögunni getur eitt fjall rekist á annað en það gerist bara á löngum tíma.

Líklega á „fjallaslys“ við slys fólks í mörgum fjöllum. Þetta er svo sem ágætt nýyrði en ef göngumaður slasast í Vífilsfelli er það vænanlega „fjallslys“, það er í eintölu. Sé sagt frá því slysi og öðru í Akrafjalli  kallast þau „fjallaslys“, það er í fleirtölu.

„Fjallaslys“ er ekki nýtt orð og þrátt fyrir það sem hér segir er það þokkalega nothæft. Á mbl.is segir fyrir þremur árum: „Eitt versta fjalla­slys sög­unn­ar átti sér stað 17. júlí 1990 á Lenín­t­ind­in­um í Pamír­fjöll­um í Kirgíst­an, skammt frá kín­versku landa­mær­un­um.“ Á dv.is má finna álíka notkun á orðinu.

Þó fannst þeim sem þetta ritar meira lýsandi að nota þá tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Tveir slösuðust á fjöllum og tvisvar leitað að fólki.

 

10.

„Áramótamengunin skaðlegri en í eldgosi.“ 

Tilvísun í frétt á forsíðu á visir.is.       

Athugasemd: Þessi tilvísun er hreinlega röng en skrifast varla á blaðamannin því fréttin sjálf hefur þessa fyrirsögn: “Mengunin skaðlegri en í eldgosi“. Þetta veldur engum misskilningi.

Sé eldgos í gangi um áramót veldur það varla meiri mengun um áramót en á öðrum tímum árs. Hins vegar er mikið um skotelda um áramót og þeir menga.

Tillaga: Mengun um áramót er skaðlegri en í eldgosi.


Veitum hinum raunverulegu burðarásum orðu

Engin ástæða er til að lasta þá sem forseti Íslands sæmdi á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Allt ábyggilega gott fólk og flestir heimsfrægir á Íslandi. Orðuveitingar hafa þó lengi einkennst af því að heiðra þá sem hafa unnið vinnuna sína um langa tíð, helst að lokinni starfsæfi. Alls kyns embættismenn hafa hlotið hana fyrir störf sem án efa hafa verið framúrskarandi, forystumenn í atvinnulífinu og listamenn af ýmsu tagi.

Minna hefur farið fyrir því ágæta láglaunafólki sem hefur sinnt störfum sínum af engu minni kostgæfni að starfsemin á vinnustað þeirra hefði farið á hliðina hefðu það ekki mætt í skamman eða lengri tíma.

Mér er það minnisstætt á árinu sem leið að starfsmaður sýslumannsembættis varð bráðkvaddur, samstarfsmönnum og vinum til mikillar sorgar ekki síður en fjölskyldu. Starf þessa ágæta manns varð ekki fyllt fyrr en löngu síðar jafnvel þó allir samstarfsmenn legðust á eitt. 

Á vinnuferðum mínum um landið allt síðasta ár hef ég kynnst fjölda fólks sem eru burðarásar á vinnustöðum sínum, skynsamt, yfirvegað, harðduglegt og heiðarlegt fólk. Ég á hér ekki við stjórendur eða yfirmenn heldur fólkið „á gólfinu“ eins og það er oft nefnt. Hversu mikilvægt er það ekki fyrir þjóðfélagið að sem flestir búi yfir þessum kostum? Nóg er af úrtölufólkinu, slugsurum og þykjustuliðinu.

Ég gæti nafngreint fjölda fólks hjá sýslumannsembættum landsins sem eiga skilið að fá orðu fyrir störf sín. Auðvelt er að nefna jafnmarga sem hafa sinnt félagsmálum og verið þar burðarásar. Í ónefndu ferðafélagi þekkti ég fólk sem naut félagsskaparins en lagði á sig ómælda vinnu til að félagið næði að blómstra og viðskiptavinir þess gætu notið þess að ferðast um landið.

Lesendur mínir geta ábyggilega bætt hér um betur og nefnt alþýðumanninn, konu og karl, sem ættu skilið orðu fyrir störf sín. Fólkið sem sinnir störfum sínum á þann hátt að mætti það einn góðan veðurdag ekki í vinnuna eða félagslífið myndi þjóðfélagið hreinlega stöðvast. Ég er næstu því vissuum að jörðin myndi hætta að snúast.

Einhver lesenda minna sem er málkunnugur forsetanum ætti að skjóta þessu  að honum. Má vera að við næstu orðuveitingu fengju burðarásarnir umbun þjóðfélagsins fyrir störf sín. Þá yrði kátt á landinu.


mbl.is Tólf fengu fálkaorðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband