Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Öld frá strandi Goðafoss við Straumnes í Aðalvík

StraumnesÍ dag er ein öld er liðin síðan Goðafoss strandaði við Straumnes undir samnefndu fjalli yst í Aðalvík. Þar sem flakið liggur núna munar aðeins um sexhundruð metrum að skipið hefði náð fyrir Straumnes. Miðað við það var það ótrúleg óheppni að skipið skuli hafa siglt upp í fjöru.

Skipstjórinn mun hafa gefið fyrsta stýrimanni stefnu til að sigla eftir út úr Aðalvík og hvarf hann svo úr brúnni. Úti var slæmt veður, snjókoma og ekkert skyggni og vissi stýrimaður ekki fyrr til en að skipið steytti á grunni.

Talstöðvar skipsins biluðu í strandinu og útilokað var að senda út hjálparbeiðni. Um borð voru fimmtíu og átta manns, farþegar og áhöfn.

Þegar skipið strandaði drapst á ljósavél og þurfti fólk að bíða í tvo sólarhringa í myrkri. Það var ekki fyrr en stýrimaður og nokkrir hásetar gátu róið á björgunarbát inn að Látrum í Aðalvík að hjálpin barst. Vandamálið var þá að allir bátar stóðu uppi enda hávetur og útræði ekkert. Mikil vinna var að sjósetja báta, senda skilaboð á milli bæja og skipuleggja hjálparstarf.

Aðalvíkingar björguðu áhöfn og farþegum. Má gera sér í hugarlund hversu aðstæður voru erfiðar. Þetta var frækileg björgun, enda veður slæmt og snjór og ís á fjörum og báta heimamanna byggðir til fiskveiða en ekki björgunarstarfa.

Straumnes4Goðafoss var nýtt skip, byggt í Kaupmannahöfn 1915 fyrir Eimskipafélag Ísland sem nefnt var „óskabarn þjóðarinnar, stofnað 17. janúar 1914. Strandið var gríðarlegt áfall fyrir félagið.

Árið 1980 fór ég í fyrsta skipti um Hornstrandir, ferðirnar áttu eftir að verða ótalmargar síðan. Þá gengum við þrír félagar á Straumnesfjall og að herstöðinni gömlu þar uppi. Eftir að hafa skoðað okkur um þar, skildu leiðir, þeir héldu sömu leið til baka en mér lék hugur á að fara niður að hinu sögufræga Straumnesi og ekki síður að Goðafossi.

Þetta var tilkomumikil ganga, niður Straumnesdal og út að vitanum á Straumnesi. Þar fyrir utan mætast hafstraumar og gat verið viðsjálvert fyrir litla báta að fara í röstina sem þar varð oft afar mikil.

Straumnes3Örskammt fyrir innan Straumnes, aðeins um hálfum kílómetra, eins og nefnt var hér í upphafi, liggur flakið af Goðafossi. Þegar ég átti leið þarna um höfðu áratugirnir farið illa með flakið. Aðeins stjórnborðsstefnið var nokkuð heillegt og mastur stóð skáhalt út í Aðalvík rétt eins og bending inn hana, minnisvarði um frækilegt björgunarafrek heimamanna. Skammt frá var stór gufuketill en skipið var knúið gufu.

Ég var einn, veðrið var ákaflega fallegt og stillt og áhrifin voru eins og að koma í kirkjugarð, mér fannst þetta nærri því helgur reitur.

Auðvitað var ekkert heillegt í skipinu. Brim, frost og óveður höfðu fyrir löngu tortímt því sem heimamenn gátu ekki bjargað.

Í Morgunblaði dagsins ritar Matthildur Guðmundsdóttir, Aðalvíkingur, grein þar sem hún fjallar um strand Goðafoss. Í henni segir hún:

Enginn spurði Látramenn hversu miklu eldsneyti þeir hefðu eytt við að flytja fólkið í land og bæta við ferð til Ísafjarðar. Það spurði heldur enginn um hve mikil matföng hefðu farið til að fæða 58 manns, en vetrarforði Látramanna minnkaði að sjálfsögðu við þessa björgun. Björgunarlaun voru engin.

400 olíutunnur voru um borð í Goðafossi og voru Látramenn fengnir til að bjarga þessum tunnum eftir því sem veður leyfði og sem laun fyrir þá vinnu fengu heimamenn ½ tunnu á hvert heimili.

Eitthvað máttu heimamenn nýta úr brotnandi skipsflakinu og til gamans má geta þess að eitt fjósið á staðnum varð frægt fyrir fína hurð sem þar var og á stóð með gylltum stöfum: „Fyrsta farrými.“

Straumnes2Forðum var það þannig að ekki var spurt um laun fyrir að bjarga náunganum í nauð hans. Þannig er það ekki heldur í dag.

Myndir, hægt er að stækka allar myndir:

  1. Loftmynd af Straumnesfjalli. Inn á það hefur strandstaðurinn verið merktur. Látrar eru neðst í hægra horninu. Þangað eru tæplega tíu kílómetra leið, róður á móti hvassviðri.
  2. Mynd af flaki Goðafoss, tekin 1980
  3. Mynd af stefni Goðafoss, tekin 1980
  4. Mynd tekin ofan af Straumnesfjalli 1995
  5. Goðafoss, skip Eimskipafélagsins.

Goðafoss

 


Ríkisstjórn um það sem er mikilvægast

Óli Björn KárasonSvo eru þeir sem eiga sér aðra drauma: Að mynduð verði ríkisstjórn sem tekst á við verkefnin sem mestu skipta: Heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, menntakerfið og fjárfestingu í innviðum, ekki síst samgöngum. Að mynduð verði ríkisstjórn flokka sem eru tilbúnir til að nýta uppsveiflu í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar, án þess að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki, sem fyrr fremur en síðar mun draga úr hagsæld.

Svona orðar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skoðun sína sem raunar er stefna flokksins, og er einfaldlega ástæðan fyrir því að ég og tugþúsundir annarra kjósum hann. Þetta er að finna í grein Óla Björns í Morgunblaði dagsins, hófsöm, fallega orðuð og einlæg.

Þó er skammt er í varnaðarorðin:

Niðurstaða kosninganna í lok október kemur í veg fyrir að hægt sé að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka. Þessa vegna verða að minnsta kosti þrír flokkar að koma að næstu ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna geta leitað að málum sem sundra þjóðinni eða náð saman um þau sem skipta almenning mestu.

Þetta er eiginlega það sem maður fær stundum á tilfinninguna, að hinn pólitíski tilgangur sé ekki sá að vinna landi og þjóð sem best heldur að sundra og jafnvel að bylta því sem áunnist hefur. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef verkefni nýrrar ríkisstjórnar hverju sinni sé að umbylta öllu, draga til baka það sem fyrri ríkisstjórn hefur gert og svo framvegis, leggja ofurskatta á einstaklinga og fyrirtæki svo dæmi sé tekið. 

Óli Björn er ekki sammála þessu. Hann hvetur til þess að stjórnmálaflokkarnir leiti að málum sem sameina, skipta þjóðina mestu.

Hann leggst gegn skattahækkunum, telur að það skerði samkeppnisaðstöðu þjóðarinnar ef skattar séu hærri hér en í nágrannalöndunum, það muni einfaldlega valda því að okkur muni ganga erfiðlega að fá vel menntað fólk heim aftur ef það fær miklu hærri laun í öðrum löndum.

Í niðurlagi greinarinnar bendir hann á mikilvægt atriði:

Í stað þess að takast á um skattahækkanir er skynsamlegra að leggja drög að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Ef fjármagnskostnaður í hlutfalli af gjöldum hefði verið svipaður á síðasta ári og 2003-2006 hefði ríkið haft 46 milljörðum meira úr að spila. Þetta er næstum jafnmikið og allur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta eitt lítið atriði sem gott er að hafa á minnisblaði og hafa upp á borði við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í meginatriðum hljóta allir að vera sammála því sem Óli Björn Kárason segir í greininni.

 


Ekki logar á perunni hjá Degi borgarstjóra

Fékk í kvöld orðsendingu frá manni nokkrum sem telst vera mjög ábyggilegur. Hann heldur því fram að aðeins 134 perur séu í ár á jólatrénu á Austurvelli. Í fyrra voru þær 148 og árið þar áður voru þær 166. Ástæðan fyrir fækkun pera á tréinu sem og að slökkt sé á því á kvöldin sé sparnaður borgarstjórans.

Þetta þýðir einfaldlega að slökkt er á jólatrénu þegar skyggja tekur ... Margir velta því fyrir sér hvers vegna ljós sé látið loga á því meðan dagsbirtu nýtur. 

Velti því fyrir mér hvort þetta sé satt.

 


mbl.is Óslóartréð tendrað í 64. skipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið forna -at- er ágætt í netfang

Þegar Sigfinnur afi minn Sigtryggson dó fékk ég til eignar Íslendingasögurnar hans. Þetta voru fallega innbundnar bækur sem sómdu sér vel í bókahillunni. Í dag eru þær orðnar verulega slitnar og ekki eins álitlegar og forðum er ég var ellefu ára snáði með þessar fínu bækur í höndunum. Bendir kannski til að þær hafi verið illilega lesnar, sumar þó meira en aðrar. Eyrbyggja er frekar snjáð, einnig Laxdæla, Grettissaga og Njálssaga.

Jæja, ég vandist á að lesa fornsögurnar með gamalli stafsetningu og man ekki til þess að mér þætti það neitt tiltökumál. Merkilegt var samt þegar komið var í Menntaskólann að fá nokkrar sögur á samræmdu nútímamáli. 

Nú gerist það að í dag var ég með annað eyrað við gufuna og datt þá inn á þátt með Braga Valdimarssyni sem spjallaði um íslenskt mál í þættinum „Tungubrjótur“. Fínn þáttur.

Líklega var það tilviljun að þegar „Tungubrjóti“ var lokið var leikið tónverkið „Hnetubrjóturinn“ eftir rússneska tónskáldið Pyotr Ilyich Tchaikovsky. Tónlistin er um tækið sem notað er til að brjóta hnetu. Held að ekkert sé til sem nefnist „Hnotubrjótur“. Samt er iðulega sagt frá „hnotubrjótinum eftir Tchaikovsky“. Hnota er viðartegund og um hana hefur enginn ort listaverk í tónum eftir því sem ég best veit. Hnota er þó iðulega söguð og til eru þeir sem leika tóna á sög.

Nóg um það. Bragi vakti í þætti sínum athygli á tákninu „@“, það er „att“ merkinu sem notað er í tölvupóstum. Það segir til um eiganda tölvupósts, þess sem sent er til eða póstur fæst frá, dæmi: gunnar@hlidarenda.is.

Viðkvæmt fólk eins og ég og fleiri höfum oft varast að kalla táknið „att“ af því að það er meint útlenska. Þess í stað segja margir „hjá“ og skrifa stundum gunnar(hjá)hlidarenda.is til þess að villa um fyrir tölvuþrjótum og netfangasöfnurum.

Bragi bendir á að í fornsögum með fornri stafsetningu er forsetningin „at“ skrifað í stað „að“:

Þeira sonr var Hámundr, faðir Gunnars at Hlíðarenda.

Og hér kviknar ábyggilega ljós hjá lesandanum rétt eins er peran í hausnum á mér glóði þegar Bragi nefndi þessa einföldu staðreynd.

Sumsé. Við þurfum ekkert annað en að brúka forna íslensku og segja upphátt að netfangið sé „gunnar at hlíðarenda.is“. Svo er það bara smekkatriði hversu fast við kveðum að hinni fornu sögn, segjum „at“ eða „att“.

Málið leyst. Íslenskan leynir á sér.

 


Katrín, fyrir og eftir kosningar

Sko, við lofum að hækka bætur fyrir öryrkja, lífeyri aldraða, margfalda framlög til heilbrigðismála, hækka laun kennara, leggja stóraukið fé til samgöngumála, hjálpa öllum þeim sem eiga bágt, setja peninga í skóna úti í glugga og bara alls kyns gott fyrir alla nema suma.

Sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ekki eitthvað á þessa leið fyrir nokkrum vikum?

Ha, hvað segirðu? Eru ekki peningar í ríkissjóði til að gera þetta allt. Og við sem lofuðum öllu fögru fyrir kosningarnar. Æ, æ ... þá verðum við bara að gera eitthvað minna (sko ... nema við hækkum leggjum aukna skatta á laun yfir 400.000 krónur).

Sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ekki eitthvað á þessa núna eftir kosningar? 

 


mbl.is „Hefðum átt að geta náð saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handhafi umboðs til myndunar ríkisstjórnar hefur einstaka stöðu

DSC_7152_HDREkki er allt sem virðist. Stundum eru aðstæður þannig að hinir skýrustu menn hafa rangt fyrir sér jafnvel þó þeir velji að fara leið sem vörðuð er málefnum, rökum og augljósum staðreyndum. 

Sá sem þetta ritar hefur varið nokkuð langri æfi í að skrölta einn eða með öðrum um fjöll og firnindi landsins og telur sig upplýstari og betri mann fyrir vikið enda hafa ekki næstum því allar ferðirnar verið til fjár um sumar hreinlega hrakfallaferðir.

Í gönguferðum æxlast mál þannig að oftar en ekki er gengið í einfaldri röð. Einn gengur fyrstur, einhver er síðastur og á milli eru hinir einn eða fleiri. Nú kann einhver að halda að sá sem fyrstur gengur sé forystusauðurinn, leiðtoginn, fararstjórinn, sá sem þekkir leiðina best. Oft er það þannig en þó ekki alltaf.

Þegar skyggni er slæmt skynjar sá fremsti stefnuna ekki eins vel og sá þriðji í röðinni eða jafnvel sá aftasti. Ástæðan er einföld. Fremsti maður hefur oft ekkert viðmið heldur er hann er nærri því „blindur“. Þeir sem eru aftar í röðinni taka þá eftir því, hafi þeir augun hjá sér, þegar röðin beygir lítið eitt til hægri (má vera að svigkraftur jarðar valdi því). Sá fremsti getur einfaldlega ekki gengið nokkur hundruð metra án þess að beygja af leið. Verkefni leiðsögumannsins er að taka eftir þessu og leiðrétta stefnuna.

Yfirleitt ruglast vanir fararstjórar og leiðsögumenn ekki í ríminu. Hinir eiga það til að ruglast. Þeir velja frekar rollugötu eða akveg sem fyrir verður frekar en að halda uppgefinni stefnu. Reynsluleysið er oft vandamál, það er ekkert sniðugt.

910511-17Einu sinni gengum við þrír félagar yfir endilangan Eyjafjallajökul, frá vestri til austurs og var stefnan sett á toppinn og síðan niður á Fimmvörðuháls og þaðan ofan í Goðaland og í Bása. Þegar við höfðum komist upp fyrir hamrabeltin og að jökulrótum var komin þoka og þar fyrir ofan snjóaði nokkuð. Við vorum með áttirnar á hreinu og létum skyggnisleysið ekki stöðva okkur (þetta var fyrir daga GPS staðsetningatækja).

Á leiðinni upp jökulinn gekk ég aftastur en sá sem var fremstur var alvanur skíðagöngumaður fæddur á Siglufirði. Hann lét ekki forystuhlutverkið af hendi með góðu og því ákváðum við hinir að hrekkja hann dálítið.

910511-21Hér kemur dálítið snúin lýsing: Með því að sá sem var í miðju gekk út úr stefnunni til hægri en ég til vinstri virðist sá fremsti hafa farið út úr stefnunni. Nokkrir metrar voru á milli manna og við hrópuðum og bentum Siglfirðingnum á villu sína. Hann tók athugasemdinni vel, veifaði og skíðaði á „réttan“ stað fyrir framan okkur og svo gengum við áfram.

Þá endurtókum við leikinn en núna í hina áttina. Og enn þurfti norðanmaðurinn að færa sig um set til að geta haldið „réttri“ stefnu. Og í þriðja skiptið villtum við um fyrir honum og þá staðnæmdist hann, tók af sér snjóuga húfuna og klóraði sér í kollinum. Skildi greinilega ekkert í þessu rugli í sér. Við buðum honum að skipta um stöðu og þáði hann það með þökkum. Gekk ég áfram aftastur og bar nú ekkert til tíðinda þar til við komum upp að Goðasteini. Þar snjóaði ákaft og áðum við þar stundarkorn og fengum okkur brauðbita og að drekka..

910511-40Ég skil bara ekkert í því hvernig ég gat villst svona,“ sagði Siglfirðingurinn, alveg miður sín. „Kannski er ég bara ekkert vel fyrirkallaður,“ bætti hann við. Þá gátum við ekki stillt okkur og sögðum honum hvað hafði gerst. Hann hló með okkur og fannst þetta hinn skemmtilegasti hrekkur en erfði hann ekki við okkur. Síðan hefur þessi saga oft verið sögð þegar verið er að benda á hversu vitlaust hið augljósa virðist oft vera.

Allt þetta og jafnvel meira til flaug í gegnum huga minn í dag þegar ég las Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Oft er að finna þar mikinn fróðleik um stjórnmál enda kemur fyrir að sá skrifi sem hefur að baki mikla reynslu úr pólitíkinni. Augnva reynslu hef ég úr þeirri tík þó ég lengi hafi staðið á hliðarlínunni og lagt eitthvurt smáræði til málanna við litlar undirtektir. Fróðleikurinn heillar og ég les mikið. 

Nú í haust hef ég haldið því fram á þessum vettvangi að svokallað umboð forseta Íslands til myndunar ríkisstjórnar sé frekar lítilsháttar vegna þess að sá getur myndað stjórn sem fær til þess meirihluta þingmanna. Þetta er einfalt, rétt og augljóst. En ... rétt eins og í hlíðum Eyjafjallajökuls, er hið einfalda og augljósa ekki alltaf hið rétta. Stundum getur staðan verið þannig að nauðsynlegt sé að hafa umboð forsetans í vasanum.

Um þetta segir höfundur Reykjavíkurbréfsins (feitletranir eru mínar):

Umboðsveitingin er fjarri því að vera óljós gervigerningur. Hún gefur handhafa umboðsins einstæða stöðu. Henni fylgir til að mynda mjög rík óskráð hefð, sem byggt hefur verið á. Handhafi umboðs til að mynda stjórn getur þannig með vísan til þess leitað hvers konar aðstoðar og upplýsinga frá ráðuneytum og stofnunum um stöðu mála og þeim er skylt að bregðast skjótt við. Handhafi umboðsins getur einnig eftir atvikum og í samráði við ráðuneyti leitað útreikninga og greinargerða fagaðila utan stjórnsýslunnar, sem forsætisráðuneytið sæi um að kosta, innan allra eðlilegra marka.

Embættismenn ráðuneyta og stofnana eru í þessu tilviki undanþegnir því að láta yfirmenn sína í starfandi ríkisstjórn vita eftir hverju handhafi stjórnarmyndunarumboðs er að slægjast. Nyti forystumaður, sem reyndi stjórnarmyndun, ekki slíkrar þjónustu, hefði hann mun lakari stöðu en aðrir. Stofnanir á borð við Seðlabanka, Hagstofu og fleiri stofnanir gefa handhafa stjórnarmyndunarumboðs upplýsingar, óski hann eftir þeim, og hugsanlega án slíkrar beiðni, sem geta gagnast honum í viðræðum og hann fer auðvitað vel með.

Þetta fyrirkomulag hefur iðulega haft verulega þýðingu. Þegar enginn hefur umboðið, en allir mega reyna, má augljóst vera að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í mun sterkari stöðu en allir aðrir.

Þess vegna er þessi „opnapottsaðferð“ ekki notuð fyrr en fokið er í flest skjól.

Þegar formaður Samfylkingar sagði aðspurður í sjónvarpi að þetta „væri sniðugt“ byggist það á skiljanlegu reynsluleysi.

Niðurlagið í tilvitnuninni er óborganlegt, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Merkilegt er hversu víðtæk stjórnsýsluleg „völd“ umboðshafinn hefur. Hann sækir einfaldlega þær upplýsingar sem hann þarf á að halda og starfsmenn ráðherra láta ekki ráðherra vita hvað hann hefur óskað eftir, jafnvel kann að vera þeir séu bundnir trúnaði um málið sem sé ofar skyldum við ráðherrann.

Þessu hafði ég ekki gert mér grein fyrir þegar ég gerði lítið úr umboði forseta Íslands. Ekki nokkur álitsgjafi fjölmiðlanna hefur nefnt þetta. Stjórnmálafræðingar sem eru látnir tröllríða fréttatímum ríkisútvarpsins og síðum prent- og vefmiðla hafa greinilega ekki haft hugmynd um þetta. Líklega fara þeir nú að nefna þessi einföldu sannindi og láta þá sem svo að þetta sé á allra vitorði. 

Greinilegt er að ákveðnar hefðir hafa myndast um umboð til stjórnarmyndunar, bæði hjá forsetaembættinu og þeim sem það með höndum hverju sinni. Það er gott og mikilvægt að halda þeim eins og kostur er.

Eftir að hafa lesið Reykjavíkurbréfið held ég að forseti hafi átt að veita formanni Sjálfstæðisflokksins umboðið aftur því aðstæður hafa gjörbreyst síðan hann reyndi fyrir sér síðast, rétt eins og höfundurinn segir.

 

 


Er Katrín Jakobsdóttir farsæll stjórnmálamaður?

Er Katrín Jakobsdóttir farsæll stjórnmálamaður? Össur Skarphéðinsson, margfyrrverandi (ráðherra, þingmaður ...) heldur því fram. 

Þó mér sé það hulin ráðgáta í hverju farsæld Katrínar felist þá veit ég það eitt að hún felst ekki í eftirfarandi:

  1. Setu hennar í ríkisstjórn vinstri flokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna
  2. Úrslitum kosninganna 2013 þar sem Vinstri grænir fengu 10,9% atkvæða og sjö þingmenn, fengu árið 2009 21,7% atkvæða og 19 þingmenn.
  3. Hrossakaup hennar, hún og félagar hennar samþykktu að sækja um aðild að ESB og fá greitt fyrir með ráðherrasætum
  4. Meðferð hennar og samþingmanna á Icesave samningunum
  5. Landsdómsákæran gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra

Fleira má telja upp en fátt bendir til þess að Katrín Jakobsdóttir sé farsæll stjórnmálamaður. Flest hefur snúist gegn henni og þeim flokki sem hún leiðir nú. Jafnvel þjóðin hefur ekki verið par hrifin af afstöðu hennar, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur fjórum sinnum í það minnsta.

 


mbl.is Katrín verði ráðherra innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki í ríkisstjórn með VG

Nú tæpa nokkrir sérsinna Sjálfstæðismenn á því að flokkurinn og Vinstri grænir þurfi að mynda stjórn saman. Að mínu viti, sem að vísu er ekki til skiptanna, tel ég að það sé hið mesta óráð. 

Alltof mikið ber á milli þessara tveggja flokka í grundvallaratriðum til að þeir geti unnið saman þar að auki er fæstum þeirra treystandi fyrir stjórn landsins. Vinstri grænir munu leggjast í áróður fyrir auknum ríkisútgjöldum og þá verður erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gæta aðhalds.

Þar fyrir utan er staðan í þjóðarbúinu góð. Ugglaust hefði verið meiri þörf á að þessir tveir flokkar hefðu myndað ríkisstjórn eftir hrunið eða tekið saman þátt í þjóðstjórn. Það var ekki gert af ástæðum sem allir vita.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir á vefsíðu sinni:

Staðreyndin er sú að við sem þjóð stöndum núna frammi fyrir sögulegum tækifærum til að leiða í jörð deilur og illindi sem klofið hafa þjóðina og valdið miklum skaða. Við getum skapað ríkisstjórn sem hefur nægilega breiða skírskotun til að leiða til lykta deilu um Evrópusambandið, uppbyggingu velferðarkerfisins, virkjanir, gjaldtöku á ferðamálastöðum og fl. Sterk stjórn getur skapað sátt um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, byggðamál og svo margt annað. Auðvitað þurfa þá báðir aðilar að gefa eftir, en þannig gerast góðir hlutir.

Ég óska þess að jólasveinninn gefi mér tölvu og prentara í jólagjöf. Ekki verða allar óskir uppfylltar og sumar eru beinlínis skaðlegar.

KatrínRíkisstjórnarsamstarf við Vinstri græna mun aldrei bæta þann skaða sem sá flokkur og forverar hans hafa valdið landi og þjóð og það verður seint fyrirgefið. Eigum við að telja upp nokkur atriði:

  1. Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra kostaði ríkissjóð 187 milljónir króna.
  2. Lygaflaumur og rógur VG um Davíð Oddson, fyrrum forsætisráðherra
  3. Icesave I
  4. Icesave II
  5. Icesave III
  6. Móti þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB árið 2009
  7. Samþykkti aðildarumsókn að ESB árið 2009
  8. Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar er talin hafa verið 3 milljarðar króna
  9. Árnapálslögin (nr. 151/2010) til varnar fjármagnseigendum og gegn skuldurum
  10. Lagðist ekki gegn loftárásum NATO á Líbýu
  11. Samþykkti leyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu
  12. Veitti stóriðju á Bakka við Húsavík undanþágu frá skattalögum
  13. Veitti ríkisábyrgð á Vaðlaheiðagöngum
  14. Hefndardómsmál í Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra
  15. Hleypti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn á gafl í stjórnarráði Íslands
  16. Skattahækkanir á almenning í kjölfar hrunsins
  17. Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna í kjölfar hrunsins
  18. Ófrægingarherferðin gegn Ríkisendurskoðun vegna kaupa á bókhaldskerfi fyrir ríkið
  19. Íslandsbanki gefinn kröfuhöfum
  20. Arionbanki gefinn kröfuhöfum
  21. Norðmaður ráðinn í embætti Seðlabankastjóra
  22. Sparisjóður Keflavíkur, fall hans og endurreisn kostaði almenning 25 milljarða krónur.

SteingrímurÁn efa má finna fleiri ávirðingar á Vinstri græna, hef birt þennan lista áður og þessi atriði eru víti til varnaðar.

Við Sjálfstæðismenn þurfum að muna að Vinstri grænir eru aungvir vinir þrátt fyrir brosmilda ásjónu núverandi formanns. Að baki stendur liðið með hamra og sigðar, tilbúnir til að láta til skarar skríða þegar réttar aðstæður skapast.

 


mbl.is Enginn einn flokkur fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn á að halda sér til hlés við stjórnarmyndun

Forseti Íslands á algjörlega að halda sig til hlés á meðan á stjórnarmyndunarviðræðum stendur eða þreifingum í þá átt. Aðeins er tæpur mánuður frá kosningum og ekkert undrunarefni að ríkisstjórn skuli enn ekki hafa verið mynduð.

Á visir.is eru vangaveltur um að forsetinn þurfi að fara að reka á eftir með stjórnarmyndun. Þetta er algjörleg út í hött. Eini vandinn með starfstjórn er sú að hún hefur ekki afl til að fá fjárlagafrumvarp lögfest. Í sjálfu sér skiptir það ekki stórmáli vegna þess að aðrar leiðir eru til að halda ríkinu fjárhagslega gangandi.

Ljóst má hins vegar vera að úrslit þingkosninganna voru ávísun á stjórnarkreppu. Sitjandi ríkisstjórn féll og nær útilokað er að stjórnarandstaðan geti myndað meirihluta. Hversu mikið sem Vinstri grænir gylla svokallaða „fjölbreytni“ í fimm flokka stjórn þá yrði hún alltaf nær óvirk og líf hennar að öllum líkindum ærið skammvinnt.

Tveggja eða þriggja flokka ríkisstjórnir ganga best, nemi meirihlutinn í það minnsta kosti tveimur til þremur mönnum. Annað býður heim hættunni á spillingu.

Ekki verður leyst úr stjórnarkreppu með því að forsetinn gerist verkstjóri yfir þinginu, berji formenn flokkanna áfram með harðri hendi. Eðli þingræðisins er viljinn til að mynda meirihlutastjórn. Ríkisstjórn verður ekki mynduð með þvingunum forseta heldur trausti sem er á milli manna. Málefnastaðan skiptir litlu, persónulegt traust skiptir öllu.

Nýjar kosningar eru eina leiðin til að leysa úr stjórnarkreppu. Pattstaðan breytist ekki þó allir formenn fái stjórnarumboðið í viku eða tíu daga í senn. Raunar er það með öllu óeðlilegt að forsetinn íhugi að leyfa öllum að reyna sig við stjórnarmyndun. Til hvers í ósköpunum ætti til dæmis formaður Samfylkingarinnar að fá að mynda stjórn? Geti hann það ekki í óformlegu spjalli mun hann ekki geta það þegar til alvörunnar kemur.

Stjórnarmyndunarumboð er í raun og veru ekki til. Meirihluti getur myndast án íhlutunar forseta og þannig á það að vera. Enginn setur út á að forsetinn standi í dyragættinni og fylgist með, það skaða ekkert. 

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur talar eins og spámiðill rétt eins og flestir aðrir álitsgjafar með þessa menntun. Í viðtalinu á visir.is talar hann eins og hann viti nákvæmlega hvað forsetinn sé að hugsa eða hvað hann ætti að hugsa. Hann kemur með nýja frasa um stjórnarmyndunarviðræðurnar, kallar þær „lausbeislaðar“. Hvernig í ósköpunum verða stjórnarmyndunarviðræðu „beislaðar“?

Í sannleika sagt er orðið afar þreytandi að fylgjast með þessu stjórnmálafræðingum mala og mala um það sem allir vita og skilja. Mikli nær væri fyrir fjölmiðla að snúa sér að almenning og spyrja hann álits um stöðu mála. Baldur Þórhallsson hefur ekkert nýtt fram að færa í fréttinni á visir.is, nema ef til vill það að lesandinn greinir pínulítið ergelsi yfir því að fimmflokkaríkisstjórnin komst ekki á koppinn.


Tekjur borgarinnar aukast en skuldir hækka

En Magnús Már er hreykinn af því að áætlun meirihluta borgarstjórnar sýnir 1,8 milljarða afgang á næsta ári. Borgarfulltrúinn lætur í engu getið að bætt afkoma byggist á tekjum af söluhagnaði og sölu byggingarréttar. Vonandi verður rekstrarniðurstaðan jákvæð og grunur um að forsendur fjárhagsáætlunar séu þegar brostnar reynist ekki á rökum reistur. Því miður er hins vegar töluvert í land að rekstur A-hluta sé sjálfbær.

Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaði dagsins. Í henni segir hann borgarfulltrúa Samfylkingarinnar til um rekstur borgarinnar.

Borgarfulltrúann Magnús Már Guðmundsson þekkja fáir. Hann er hluti af vinstra liðinu sem stjórnar Reykjavíkurborg en hefur látið lítið fara fyrir sér. Var raunar í sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar við kosningarnar 2014. Þó vildi svo til að hann vaknaði einn rigningardaginn fyrir skömmu og skrifaði grein því honum sárnaði við Óla Björn vegna enn annarrar greinar.

Skemmst er nú frá því að segja að Óli Björn birtir í grein dagsins syndaregistur vinstra liðsins í borgarstjórn. Það lítur svona út og það er hreint hörmuleg upptalning:

  • Langtímaskuldir A-hluta jukust um 137% að raunvirði frá árslokum 2009 (árið fyrir valdatöku Samfylkingar og ári eftir hrun fjármálakerfisins) til loka árs 2015.
  • Heildarskuldir nær tvöfölduðust og voru tæplega 40 milljörðum meiri á föstu verðlagi.
  • Eigið fé minnkaði um 2,9 milljarða.
  • Heildartekjur voru 16,5 milljörðum krónum hærri að raunvirði 2015 en 2009.
  • A-hluti hafði 113 þúsund krónum hærri tekjur af hverjum borgarbúa 2015 en 2009 á föstu verðlagi. Rekstrargjöld voru hins vegar 199 þúsund krónum hærri.
  • Skuldir A-hluta jukust að raunvirði um 315 þúsund krónur á hvern íbúa. Eigið fé minnkaði á sama tíma um 45 þúsund.
  • Að raunvirði var veltufé frá rekstri 38% minna á síðasta ári en 2009. Veltufé er mælikvarði á stöðu grunnrekstrar A-hluta.
  • Í árslok 2009 var veltufjárhlutfallið 2,12 en var komið niður í 1,18 við lok síðasta árs.

Afrekaskráin er ekki sérlega glæsileg. Magnús Már vill því fremur benda á fögur fyrirheit um framtíðina en standa skil á kosningaloforðum og afrekum liðinna ára:

„Með aga og skipulögðum vinnubrögðum kraftmikils starfsfólks, stjórnenda og meirihlutans í borgarstjórn hefur tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi sem sýnir góðan rekstur Reykjavíkurborgar.“

 

Gamli frasinn um grjót og glerhús á hér ágætlega við. Til skýringar er A-hluti borgarsjóðs sá hluti rekstrarins sem alfarið er rekinn af skattfé, B-hlutinn eru fyrirtæki og stofnanir borgarinnar sem reknar eru sem sjálfstæðar einingar.

Hvernig verður það svo EF vinstri flokkarnir ná saman um ríkisstjórn. Þá verður það eflaust orðað af stolti og barnslegri gleði að þeim hafi tekist að koma sér saman um eitthvað ... bara eitthvað.

Við skulum vona að ekki komi til þess að sama klúðrið verði við landstjórnina og í Reykjavík.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband