Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Er skjálftavirkni í Öskju og Herðubreiðartöglum Bárði að kenna?

140831 Á leið í Öskju

Nú gýs á þeim stað þar sem berggangurinn hefur lengst náð í norður. Gossprungan er merkt á meðfylgjandi mynd.

Framrás berggangsins hefur verið ansi skjót síðasta hálfa mánuðinn, allt frá því hann byrjaði rétt við Bárðarbungu og þangað til að hægði á honum síðasta miðvikudag. Hann þaut áfram að meðaltali um fimm km á dag fyrstu tíu dagana. Síðan hefur eiginlega ekkert gerst nema að úr honum hefur í tvígang gubbast hraun upp á yfirborð jarðar. Miðað við það sem gengur á í Bárðarbungu og kraftinn í bergganginum hafa gosin tvö verið óttalegir aumingjar. Ef til vill er meira í vændum.

Hugsanlega má draga þá ályktun að þegar hægir á ferð berggangsins séu meiri líkur að kvika villist upp á yfirborðið.

Jarðfræðingar hafa talað um áhrifasvæði Bárðarbungu og Öskju. Ekki er leikmanni ljóst hvað það þýðir. Hitt er víst að annað hvort dró úr þrýstingi í bergganginum svo hann fór ekki inn á áhrifasvæði Öskju eða hann á eftir að fara þangað inn.

Þegar litið er á meðfylgjandi mynd þar sem skjálftar síðustu klukkustunda eru sýndir, sést að fjöldi skjálfta hafa orðið í Dyngjufjöllum og í Herðubreiðartöglum. Að vísu er það ekki einsdæmi á þessu ári. Ekki er langt síðan að skjálftahrina var í Herðubreið og þar fyrir sunnan. Það sem nú er að gerast virðist þó frá leikmannsins sjónarhóli tengjast atburðum í Bárðarbungu og bergganginum títtnefnda.

Merkilegast er þó að skjálftarnir raða sér í nær beina línu í stefnunni SV-NA. Fróðlegt væri að vita hvort þessir skjálftar í Herðubreiðartöglum og fyrir Öskjuopi tengist bergganginum úr Bárðarbungu.

Möttullinn

Norðan berggangsins, í suðurhlíðum Dyngjufjalla, hefur oft gosið. Þar er hver hraunstraumurinn ofan á öðrum svo hraundyngja hefur myndast. Þarna er fjöldi gíga hér og þar en suður úr henni sést greinileg gossprunga sem með góðum vilja má hugsa sér að liggi alveg suður í þá sprungu sem nú gýs úr. 

Dyngjufjöll eru eðlilega mikið sprungin enda aðeins eitthundrað þrjátíu og níu ár frá því að þar gaus og Askja varð til. Í því sambandi er mjög brýnt að hafa það í huga að Askja er í Dyngjuföllum, ekki öfugt. Dyngjufjöll eru gríðarstór og vestan við þau er aðeins minna fjallabákn sem nefnist Dyngjufjöll ytri.

Svo er það hitt, að askja er heiti á jarðfræðilegu fyrirbrigði sem nefnt er „caldera“ á ensku. Öskjur eru víða á landinu og myndast á margvíslegan máta en þær teljast til megineldstöðva. Undir þeim eru stór kvikuhólf og úr þeim kemur kvikan í gosum sem þar verða. Talið er að Askja í Dyngjufjöllum hafi myndast við það að kvikuhólfið undir henni hafi tæmst og þak hennar hrunið.

Bárðarbunga er líka askja og hún er um 60 ferkm að stærð. Askjan í Dyngjufjöllum er nokkuð minni, „aðeins“ 45 ferkm.

Galapagos 2

Munurinn á þessum tveimur megineldstöðum sá að undir Bárðarbungu er svokallaður möttulstrókur, heitur reitur, eins og það er oft nefnt. Möttulstrókar eru ekki margir. Teljast vera innan við þrjátíu á jörðinni. Þeir eru allir á mótum rekfleka. Kvikan í þeim kemur lóðbeint upp frá mikli dýpi, jafnvel allt að 100 km. Sjá mynd.

Hér er strókurinn talinn vera um þrjú til fjögurhundruð km breiður. Bent hefur verið á að hann lyftir landinu, svo mikill er þrýstingurinn í honum.

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, segir frá því í ævisögu sinni, að möttulstrókurinn undir Bárðarbungu muni á næstur milljón árum færast til austurs. Um leið mun stór hluti Íslands síga hægt og virðulega í hafið. Um síðir verður Ísland þá eins og Glapagoseyjar. Hæstu tindarnir standa upp úr en láglendið verður djúpt í hafi.

Gott er að vera við öllu búinn. Skyldi vera hægt að kaupa lóð á tindi Snæfells ...?


mbl.is Hraunið er nokkurra metra þykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosið er hætt, aðeins gufumekkir rísa frá sprungunni

Gosmynd Ómars

Eitthvað verður undan að láta þegar straumur kviku þrýstist upp í gegnum jarðskorpuna. Þá brestur eitthvað um brestur um síðir.

Rétt eftir miðnætti varð eldgos en það virðist vera hætt. Stóð aðeins yfir í um fjórar klukkustundir eftir því sem starfsmenn Veðurstofunnar fullyrða.

Af frábærum myndum Ómars Ragnarssonar og félaga hans má sjá að úr gosstöðvunum rýkur en það er aðeins gufa, engin aska. Ómar flaug óhikað í gegnum gufuna og hvorki honum né flugvélinni varð meint af.

Ég leyfði mér að taka eina mynd frá Ómari, en hún birtist á ruv.is í morgun ásamt hreyfimyndum.

Þarna sést gufumökkurinn og hvergi glittir í eld. Þetta má raunar einnig sjá á vefmyndavélum Mílu.

Merkilegast þykir mér að þetta litla gos hefur komið upp í gömlu gossprungunni í Holuhrauni en hún er eftir því sem sagt er frá því 1797, meira en tvö hundruð ára gömul. Raunar sýnist mér að hraungangurinn undir stefni eftir gamalli sprungu sem liggur í gegnum vestanverð Dyngjufjöll. Jarðfræðingar draga þó í efa að gangurinn nái til fjalla. 

 


mbl.is Sprungan er 900 metra löng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru kamarmál Ferðafélagsins því til vorkunnar?

880728-17

Nokkuð ankannalegt er að lesa um kvartanir framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands vegna kamarmála í Hrafntinnuskeri og víðar sem lesa má um í Morgunblaði dagsins. Það er nú ekki beinlínis gefnar ferðirnar hjá félaginu né heldur gistingin.

Sé farið milli Landmannalauga og Þórsmerkur með Ferðafélaginu kostar það 69.000 krónur fyrir félagsmann og 74.000 fyrir hina. Þetta þýðir frá 13.800 krónur á dag. Væntanlega er reiknað með því að göngumenn gangi örna sinna í skálum sem félagið býður upp á og þar séu þau þægindi til hægðarauka að salernispappír sé tiltækur í hverjum kamri.

Gisting í skálum félagsins á Laugaveginum kostar 4.000 krónur fyrir félagsmenn en 6.500 krónur fyrir hina. Þetta er dálítið vel í látið, en sleppum því. Væntanlega er reiknað með því að þeir sem gisti megi létta af sér í kömrum félagsins.

880728-16

Engin ástæða er til þess að vorkenna Ferðafélagi Íslands. Það býður upp á gönguferðir, gistingu í skálum og innifaldar eru kamarferðir. Félagið fær borgað fyrir þjónustuna og án efa er hagnaður af rekstrinum.

Ferðir Ferðafélagsins hækka á hverju ári. Ástæðan er ábyggilega verðlagsþróun frekar en að félagið vilji beinlínis hagnast meira og meira af starfsemi sinni.

Hvernig rotþær við skála á Laugaveginum eru tæmdar og hversu margir lítrar koma upp er algjört aukaatriði vegna þeirra einföldu staðreyndar að Ferðafélag Íslands fær fé frá notendum þjónustunnar til að sinna þessu verkefni.

Fjölgi farþegum og gestum í skálunum á Laugaveginum er græðir félagið. Ekki hafa birst auglýsingar þar sem félagið hvetur landsmenn til að ferðast ekki á þessum slóðum.

Hér eru tvær myndir sem tengjast beinlínis umfjöllunarefninu. Þær eru teknar í júlí 1988 og á þeim tíma hafði Ferðafélagið yfir að ráða sjálfboðaliðum sem afgreiddu kamarmálin enda var ekki örtröð í þá tíð á Laugaveginum. Tveir menn komu, veltu við kamrinum og stóð þá gúmmelaðið í hrauk. Síðan var það urðað og kamarinn settur á annan stað. Eða var gúmmelaðið flutt til byggða? Nú stendur Höskuldsskáli þarna og gamli skálinn var fluttur í Botna, sunnan Emstra. Á þetta er bent til að lesendur skilji hversu gríðarleg breyting hefur orðið í ferðamálum á hálendinu á einum aldarfjórðungi.


mbl.is Ferðamenn fylla rotþrærnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berggangur Bárðar veldur skjálfta í Dyngjufjöllum

140828 Á leið í Öskju kl 1300

Sé litið yfir norðanverðan Vatnajökul og haft í huga að sem þar er að gerast í jarðskorpunni vekur tvennt athygli leikmanns.

Annars vegar er það sem er að gerast í og við Bárðarbungu og hins vegar atburðirnir á milli Dyngjujökuls og Öskju. Hið síðarnefnda á athygli mína þessa stundina og hér ætla ég að segja frá vangaveltum mínum.

Þegar berggangurinn með fljótandi kviku var að marka sér leið frá austanverðri Bárðarbungu og norðaustur um Dyngjujökul fylgdu því hundruð jarðskjálfta á hverjum degi. Skjálftarnir voru allir djúpir. Fylgjast mátti með því hvernig þeir röðuðust í þyrpingu meðfram sprungunni og stundum mátti greina hugsanlega leið sem sprungan tók.

140828 Bárðarbunga kl 1317

Á loftmyndinni frá Google Maps hér fyrir ofan sjást jarðskjálftar frá því í dag og í gær. Hins vegar verða jarðskjálftarnir aðeins þar sem berggangurinn er að brjóta sér leið og síðan hætta þeir að mestu. Þetta má sjá á neðri myndinni sem er frá sama tíma.

Sem sagt, jarðskjálftarnir hætta um leið og greitt samband hefur komist á við Bárðarbungu. Hér geng ég út frá því sem staðreynd er jarðfræðingarnir halda fram, að kvikan í bergganginum sé ættuð úr Bárðarbungu. Á miðmyndinni hef ég markað leið berggangsins, svona á að giska. Aungvir jarðskjálftar eru það, rétt eins og hann sé ekki til.

Svo er það dálítið skrýtið, og þó ekki, hvernig dreifing skjálfta er umhverfis bergganginn. Engu líkar er en að kvikan sé að brjóta sér leið frá honum eftir því sem kostur er. Eflaust er það bara ósköp eðlilegt. Þá er það spurningin hvert hún leitar. Sé þetta rétt þá eru er áhrifasvæði berggangsins í gula reitnum. Stundum hefur mátt sjá reglu í dreifingu skjálfta og það gæti bent til þess að kvikustraumur kvíslist hugsanlega til austurs. Athyglisvert er að það gerist ekki til vesturs ef gengið er út frá því sem vísu að skjálftarnir marki feril kvikunnar.

Þá er það hvíti ramminn í efri myndinni hér að ofan, Dyngjufjöll og umhverfi þeirra. Jarðfræðingar hafa talað um áhrifasvið Öskju annars vegar og Bárðarbungu hins vegar. Þar séu tvö öfl enginn vill að eigi í nánu sambandi. Afleiðingin er afar óholl.

980810-69

Nú er orðið afar greinilegt að Dyngjufjöll „vita“ af berggangi Bárðar. Mikill titringur er í fjöllunum og skjálftum fjölgar gríðarlega frá degi til dags. Þarna er engin kyrrstaða eins og þar sem berggangurinn hefur farið um og „lokið sér af“.

Leikmaðurinn veltir fyrir sér hvort kvika sé þegar komin inn í áhrifasvið Öskju eða hvort jarðskjálftarnir séu hreyfing á brotaskilum sem þegar eru þekkt.

Merkilegast af öllu telst þó vera að berggangurinn skuli ekki kvíslast heldur stefna rakleitt í Dyngjufjöll. Sú skoðun er uppi að síðast þegar þetta gerðist hafi gosið þarna 1875 með hrikalegum afleiðingum. 

Eitt sinn er gistum við nokkur norðan við flæður Jökulsár á Fjöllum, á svipuðum slóðum og bergkvikan er núna. Þarna er allt marflatt hið næsta, sandorpið hraun undir, en fjallasýnin tilkomumikil. Fyrir miðri mynd eru Kverkfjöll og hægra megin sést í hluta Dyngjujökuls. 

 


mbl.is Vatnsstaða hækkað um 5-10 metra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst Jesú, svo Kristinn ... Hvar endar þetta?

Sagan byrjaði með því að honum Jesúsi Jósefssyni var úthýst út úr Rás1. Og nú hefur Kristni R. Ólafssyni verið úthýst af Rás2. Hvar endar það sem hefur svona byrjun ...?

Þetta er ábyggilega allt gott og blessað af fjármálalegum ástæðum. Hitt er verra að í stað þeirra tveggja sem flestir þekkja og kunna vel eru ráðnir einstaklingar sem kunna ekki að segja frá, hafa slæm tök á íslensku máli, skortir almenna þekkingu en eru eflaust hámenntuð í ganglitlum fræðum.


mbl.is „Kosta þó ekki neinar fúlgur fjár“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölþreifinn Bárður skekur landið

140825 Áleið í öskju

Hann Bárður með bungu sinni virðist vera fjölþreifinn og er nú að reyna við hana Öskju. Hvað gerist veit enginn en mikið óskaplega getur verið áhugavert að sjá hvernig fer ef berggangur Bárðar nær undir Öskju ...

Ég tók eftir því að Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, sagði eftirfarandi í viðtali sem finna má á vef Ríkisútvarpsins: 

Hingað til hafa jarðvísindamenn talið að lítil tenging sé á milli þessara tveggja jarðstöðvakerfa [Öskju og Bárðarbungu], en atburðir síðustu daga sýna fram á að endurskoða þarf myndina sem menn hafa gert sér af Bárðarbungukerfinu,“ segir Páll.

„Sprungusveimur út frá Bárðarbungu til norðurs hefur til þessa verið teiknaður upp á Dyngjuhálsi, en nú sjáum við fram á að innskot frá Bárðarbungu er að stefna í átt að Holuhrauni og gígnum þar.“

140825 skjálftar n jökuls

Holuhraun er talið hafa runnið árið 1797 ... og kom úr gíg sem er á sprungu sem liggur í norðaustur nálægt jaðri Dyngjujökuls. „Þetta hraun hefur verið talið til eldstöðvakerfis Öskju, en efnasamsetning þess svipar hins vegar til Bárðarbungukerfisins,“ segir Páll. „Þetta gæti sýnt fram á að eldstöðvakerfi Bárðarbungu nær lengra til austurs - er breiðara en við töldum áður og það er alls ekki útilokað að til staðar sé tenging milli Bárðarbungukerfisins og Öskjukerfisins. 

Þetta eru merkileg orð hjá Páli, að skil milli eldstöðvakerfa séu ekki eins glögg eins og áður var haldið. Það breytir því ekki að nokkur spenna er meðal vísindamanna og almennings yfir því hvað geti gerst ef berggangurinn sem myndast hefur austan við Bárðarbungu nær inn í Öskju í Dyngjufjöllum. Þangað á hann aðeins eftir rúma fimmtán kílómetra.

140825 Skjálftar á landinu

Berggangurinn hefur lítið hreyft sig til norðurs frá því í gær en engu að síður eru talsverðir skjálftar framarlega í honum. Sú kenning hefur verið viðruð að hægt og hægt rísi gígtappinn í Bráðarbungu og svo skyndilega er eins og lofti sé hleypt út. Þá verður mikill jarðskjálfti og hann sígur aftur niður. Um leið þrýstist bergkvika inn í ganginn og hann þrýstist áfram í norður. Þetta er eins og þegar pumpað er í vindsæng, stigið ofan á pumpuna sem leggst saman og sendir loft eftir slöngunni inn í sængina.

Á miðmyndinni sjáum við að mikil hreyfing er á landinu umhverfis Bárðarbungu. Athygli vekja snarpir jarðskjálftar í Tungnafellsjökli, jökullinn vinstra (hægra) megin við Vatnajökul. Einnig eru skjálftar í Kverkfjöllum þar fyrir norðan og allt austur að Hálslóni. Sterkir skjálftar eru út um allan Vatnajökul og jafnvel í nágrenni Hafnar í Hornafirði varð einn stór í gær. Skjálftar í Bárðarbungu og bergganginum hreyfa þannig við sprungum eftir einhverju neðanjarðarkerfi sem okkur leikmönnum er hulið en jarðvísindamenn kunnar meiri skil á.

Þó maður hafi nú ekki lært mikið í menntaskóla fyrir þrjátíu árum man ég þó að ágætur jarðfræðingur sem kenndi þar hafði orð á því að hugsanlega væri tengin milli eldgoss í Heimaey og Surtsey og þeirri staðreynd að gos í Kötlu léti bíða eftir sér. Þetta þóttu nú heldur glannalegar yfirlýsingar en eru nú að ég held viðurkenndar. Tengingar á milli eldstöðvakerfa eru meiri en margir halda og hræringar á einum stað geta komið gosi af stað í fjarlægri eldsstöð.

Neðsta myndin sýnir jarðskjálfta á öllu landinu um hádegi í dag. Furðulega kyrt er víðast um landið nema þar sem tengingar eru við Bárðarbungu. Vitað er að Lakagígar tengjast Bárði augljósum böndum og þau má rekja allt suður í Kötlu. Áðurnefnd fjölþreifni Bárðar er því staðreynd. Hann kitlar ekki aðeins Öskju heldur jafnvel líka Kötlu. Með nokkrum sanni má fullyrða að Bárður sé svo fjölþreyfinn að hann hann skeki stóran hluta landsins.

 

 


Berggangurinn úr Bárðarbungu nálgast Öskju

Þróun skjálftavirkni

Tæplega tuttugu km eru í beinni loftlínu frá sporði Dyngjujökuls í suðurhlíðar Þorvaldstinds í Öskju. Nú þegar er sá frægi berggangur, sem uppruna sinn úr kviku Bárðarbungu, kominn um þriðjung leiðarinnar undir jökullausu landinu ef marka má mynd hér fyrir neðan.

Getur hugsast að orkan í kvikunni í bergganginum sé svo mikil að hún geti þrýst sér alla leiðina að Öskju án þess að koma upp á yfirborðið? Hvað gerist þegar tvær miklar eldstöðvar tengjast á þennan hátt? Ugglaust væri hægt að yrkja um það tvíræða vísu en alvaran er meiri en svo að það sér reynt hér ... 

Meðfylgjandi kort sem birt er með frétt á mbl.is er afar gott og lýsandi fyrir stöðu mála. Það sýnir vel þróunina, hvernig berggangurinn hefur vaxið og dafnað.

Á leið í Öskju

Athygli vekur hversu margir stórir skjálftar hafa orðið vegna berggangsins. Aðeins í dag, sunnudag, hafa frá miðnætti orðið 39 skjálftar stærri en 3 stig, og það aðeins í norðanverðum bergganginum.

Ég held að fjöldi skjálfta í norðan verðum Vatnajökli hafi á sama tíma verið 1.123, langflestir á sama stað.

Þetta held ég að sé algjör einsdæmi í sögu jarðskjálftamælinga, sel það þó ekki dýrara en ég keypti ...

Gleymum þó ekki sjálfri Bárðarbungu. Þar hafa orðið miklir skjálftar og ekki útséð um að þar geti dregið til tíðinda.

Ekki er heldur útilokað að eldur verði uppi á tveimur stöðum samtímis. 

 

 


mbl.is Skjálftavirkni fyrir norðan jökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjósi á annað borð finnst varla betri staður en framan við Dyngjujökul

140824 kl 1202Berggangurinn sem myndaðist í síðustu viku austan við Bárðarbungu hefur lengst gríðarlega og er nú orðinn líklega um 40 km langur og er án efa kominn undan Dyngjujökli og er undir flæðunum fyrir framan hann.

Þetta má greinilega sjá á meðfylgjandi mynd frá því um kl. 12 í dag. Til samanburðar er mynd frá því í gærmorgun. Í fyrstu var stefna berggangsins SV-NA.

Á efri myndinni sést hvernig stefna gangsins hefur breyst og er nú nær því að vera S-N.

Á neðri myndinni sem tekin var af vefnum um hádegi í gær sést hvernig staðan var þá og hversu miklu munar á stöðunni á tveimur dögum. 

140823 Bárðarb og Dyngju kl 1308

Þetta eru áhugaverðir tímar. Sú spurning brennur á fólki hvort gjósi og þá hvar.

Jarðvísindamenn eru ekki margorðir og varast að vera með miklar yfirlýsingar. Nóg er að aðstæður hafi verið slíkar í gær að talið var að gos hefði byrjað undir Dyngjujökli. Vont er að gefa út ranga tilkynningu og enn verra er að gefa út spár sem byggjast á getgátum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að kvika flæðir undir jarðskorpunni og ástæðan er þrýstingur að neðan. Til að losni um þennan þrýsting þarf annað hvort að gjósa eða kvikan fái að streyma eitthvað lárétt án þess að koma upp á yfirborðið. Smám saman léttir þetta á þrýstingnum.

140824 Afskekkt2

Gjósi á annað borð í kjölfar þessara umbrota í Bárðarbungu og Dyngjujökli er varla hægt að finna „betri“ stað eða afskekktari en sporð Dyngjujökuls eða flæðurnar þar fyrir framan. 

Þarna eru engin mannvirki, aðeins vegaslóðir sem engu skipta. Það væri mikil mildi ef gosið kæmi þarna upp og þá myndi hraun renna og eflaust hlaðast upp og hugsanlega mynda dyngju með tímanum.

Á þessum kortum Landmælinga Íslands sést skýrt hvar hugsanlegur gosstaður er. Varla er hægt að kvarta yfir staðarvalinu ... 

Ísland

 


mbl.is Litakóða vegna flugs breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kann Mogginn ekkert í landafræði?

Meint Bárðarbunga2

Ég hef bloggað á Moggablogginu frá því 2006, að því er mig minnir. Aldrei nokkurn tímann hef ég tvíbloggað með sömu frétt. Raunar hef ég reynt að hætta að blogga með fréttum, að minnsta kosti dregið úr því.

Fyrir tæpum klukkutíma bloggaði ég með frétt á mbl.is. Með fréttinni var nokkuð falleg mynd úr Kverkfjöllum og hún sögð af Bárðarbungu. Það þótti mér afar miður.

Fyrir nokkrum mínútum sá ég aðra frétt á mbl.is með annarri fallegri mynd sem tekin er úr flugvél yfir Tungnárjökli og horft er yfir upptök Skaftár, nyrsta hluta Langasjávar og víðar. Þessa mynd segir mbl.is að sé af Bárðarbungu og Jökulsá á Fjöllum.

Eitthvað er að hjá Mogganum í kvöld og maður getur hreinlega ekki orða bundist.

Þessi vinnubrögð eru slæm. Blaðamaður sem þekkir ekki til í landafræði á ekki að skrifa frétt um eldgos, skjálftavirkni eða starf vísindamanna í þessum greinum.


Kolröng mynd með frétt

Meint Bárðarbunga

Val á myndum skiptir miklu máli fyrir frétt. Ekki gengur til dæmis að birta mynd með frétt af núverandi forsætisráðherra og segja að hann heiti Jóhanna Sigurðardóttir.

Jafn vont er að birta frétt úr Kverkfjöllum með Dyngjujökul í baksýn og halda því fram í myndatexta að myndin sé af eða frá Bárðarbungu.

Fréttir eiga að vera sannleikanum samkvæmar, bæði texti og myndir.

Frá Bárðarbungu og í Kverkfjöll eru tæplega fjörtíu km í beinni loftlínu og í góðu skyggni má sjá á milli þessara staða. Það er hins vegar fjarri lagi að hægt sé að segja þá einn og hinn sama.


mbl.is Mat vísindamanna að ekkert gos sé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband