Bestu íslensku fyrirtækjanöfnin á ensku 2019

Hér verða veitt verðlaun fyrir bestu íslensku fyrirtækjaheitin á ensku fyrir árið 2019. Aðstandendur eiga heiður skilinn fyrir að auðvelda landsmönnum skilning á starfsemi sem vart væri hægt að orða á íslensku, því hallærislega tungumáli.

Lesendur eru beðnir um að velja besta heitið og senda tillögur sínar til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og merkja ráðherranum. Dregið verður úr innsendum tillögum og sá heppni sendur til útlands á kostnað íslenskrar málnefndar.

Reykjavik midsummer music, 20. til 23. júní 2019. Tónleikahátíð. Auglýst undir þessu heiti vegna þess að enginn myndi skilja Miðsumarstónleikar í Reykjavík eða eitthvað álíka á íslensku.

Mink Campers, hjólhýsi, íslensk framleiðsla. Allir skilja hvað átt er við enda væri það tóm vitleysa að nota íslenskt nafn enda er markhópurinn búsettur hér á landi.

Collection, fataverslun í miðbæ Reykjavíkur. Vera má að þessi verslun sé í eigu útlendinga og í helstu borgum séu reknar sambærilegar verslanir undir þessu heiti. Það væri því hrikaleg goðgá að nota íslenskt nafn enda myndu hérlendir ekki skilja slíkt rugl.

Home and youÞetta er ábyggilega alþjóðleg verslun sem ekki verður rekin á Íslandi undir nafninu „hómen djú“ eins og framburðurinn hljómar í útvarpsauglýsingum. Hvað þá að það væri nefnt íslensku nafni.

Sea Life Trust, rekur náttúruminjasafn í Vestmannaeyjum. Óvíst hvort þetta sé íslenskt fyrirtæki eða útlenskt. Þvílíkar hamfarir yrðu ef nafnið væri á íslensku. Nóg hafa eyjaskeggjar þurft að þola svo það bætist ekki ofan á.

Sahara. Þetta er stafræn auglýsingastofa og sækir auðvitað viðskipti til útlanda. Þar af leiðandi væri ómögulegt að héti Mýrdalssandur, Fjörusandur eða Öræfi. Útlendingar myndu þurfa læknisaðstoðar við áður en þeir gætu skipt við stofu með slíku nafni.

Lögmannsstofan Sævar Þór & PartnersÞeir eru þrír sem starfa á lögmannsstofunni. Fyrir utan Sævar eru félagar hans, afsakið, partnerar hans, þar á vappi þeir Lalli og Svenni. Hvað yrði um viðskiptin er fyrirtækið héti því hallærislega nafni Lögmannsstofan Sævar Þór og félagar? Því miður myndu þau verða að engu og það veit Sævar manna best.

Doktor Byke. Fyrirtæki sérhæfir sig í viðgerðum á reiðhjólum. Ekki nokkur maður myndi skilja ef það héti Reiðhjólalæknirinn eða álíka hallærislegu íslensku nafni. Líklega kemur fólk í hrönnum frá útlöndum til að fá gert við tvíhjólin sín. Íslenskt nafn myndi án efa gera út af við þau viðskipti.

Eyesland. Fyndið og spaugsamt fólk rekur gleraugnaverslun undir þessu nafni. Sko, fyrir þá sem ekki vita er það borið fram „æsland“ sem er nákvæmlega eins framburður og á nafni landsins okkar á ensku, „Æsland“. Svona skop verður aldrei gamaldags og hallærislegt eins og hið forna tungumál „æslandikkk“. Fólk kemur beinlínis hlægjandi inn í búðina og þeir sem þurfa engin viðskipti hlægja að nafninu og þrá ekkert heitar en að þurfa á glasses að halda.

Hjólhýsa mover. Tæki sem hreyfir hjólhýsi úr stað má alls ekki heita Hjólhýsahreyfir. Alkunna er að íslenska er frekar takmarkað tungumál. Það er alrangt sem skáldið kvað, að á íslensku mætti „alltaf finna svar og orða stórt og smátt sem er og var“. Þess vegna er skynsamlegt, svona fyrst í stað að blanda saman ensku og íslensku í auglýsingum fyrirtækisins og það er svikalaust gert. Þegar íslenskan er útdauð er auðvelt að endurvinna auglýsinguna, stroka út örfá íslensk orð og sjá auglýsingin er orðin ensk án mikils kostnaðar.

Fagna ber samræmdu og þungu átaki sem fólk í viðskiptum hefur lagt í gegn íslenskunni. Holan dropar steininn eins og sagt er ... Fyrr en varir verður íslenskan ekki lengur deyjandi tungumál, hún verður útdauð. Þá er markmiðinu náð.

Skammarverðlaunin hljóta eigendur auglýsingastofu sem áður hét Hype, borið fram „hæp“, og er fallegt enskt nafn. Í tómu rugli breyttu þeir nafninu í Aldeilis. Hver skilur svoleiðis? Má bara gera svona án leyfis?

Látum þetta nú nægja og förum á Seacret solstice festival in Poolvalley in Smoketown.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Svo er líka til íslensk nöfn sem hafa góðan húmor eins og t.d. ALLTAF. Allt (af). Fyrirtæki sem tekur t.d. krot af veggjum!! (ég tengist ekki þessu fyrirtæki og veit ekkert um það nema nafnið). 

Sigurður I B Guðmundsson, 21.6.2019 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband