Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Göngu- og hjólastígurinn sem vantar á Seltjarnesi

Þörf­in er mjög knýj­andi og við vit­um það al­veg. Við erum full­kom­lega meðvituð um umræðuna, ég hef bæði fylgst með á Face­book og svo er ég sjálf­ur í þessu hjólaum­hverfi og þekki þetta al­veg. Í umræðunni hef­ur aðeins verið að skjóta á mig og ég ætla að standa mína plikt.

Þetta segir Bjarni Þór Álfþórsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness. Því ber að fagna að bærinn ætli að búa til hjólstíg frá umhverfis nesið. Það er löngu tímabært.

Hins vegar er það óskiljanlegt að göngu og hjólastígur skuli ekki vera lagður meðfram suðurströnd Seltjarnarness. Hér á ég við leiðina frá götunni Suðurströnd og með sjónum, sunnan Hrólfskálavarar og að Sörlaskjóli. Þar á Reykjavíkurborg að taka við og gera göngu- og hjólastíg framhjá Faxaskjóli og tengja við stígana við Ægissíðu.

Á þessari suðurströnd er kemst enginn um nema fuglinn fljúgandi, verulegur þröskuldur fyrir göngu- og hjólafólk. Þess í stað er því ýtt út á þrönga gangstétt við Nesveg með öllum vegamótum sem þar eru til gangandi og hjólandi fólki til óþurftar.

í fljótu bragði man ég ekki eftir að göngustíg með sjó vanti á neinum öðrum stíg á því landi sem telst til hins forna Seltjarnarness. Undaskil þó Sundahöfn og nágrenni.

Skora nú á Seltirninga að redda þessu og setja göngu- og hjólastíg þarna  á áætlun hjá sér. Sjá nánar á myndinni hér fyrir neðan. Gott er að tvísmella á hana til að sjá betur. Loftmyndin er frá Samsýn og má finna á ja.is.

Hjólastígur 2

 


mbl.is Hjólastígur löngu tímabær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðborg Reykjavíkur og menningararfurinn

mynd-19Sérkenni Reykjavíkur eru lítil hús, oft bárujárnsklædd, og rýmið milli húsanna. Þ.e. auk húsanna sjálfra eru það bakgarðarnir og það hvernig húsum er raðað á milli gatna sem gefa gamla bænum í Reykjavík sinn sérstaka og aðlaðandi blæ. En þessu er nú markvisst verið að eyða. Það er eins og að hvar sem finnst bil milli húsa vilji menn fylla í það og auka nýtingarhlutfallið. Byggja alveg út að lóðarmörkum og sem mest upp í loft þ.a. ef allir gerðu slíkt hið sama myndi byggðin samanstanda af samfelldum steypuklumpum sem næðu frá einni götu til annarrar.

Þróun miðbæjar Reykjavíkur hefur mörgum verið áhyggjuefni í langan tíma. Svo virðist sem borgaryfirvöld hafi fallið í þá gryfju að leyfa alltof mikið byggingarmagn á lóðum sem orðið hafa til vegna skipulegrar úreldingar húsa. Verktakar hafa keypt gömul hús með það eitt í huga að fá að rífa þau og byggja ný og krafan er að hafa nýtingarhlutfallið á hverjum byggingarreit sem hæst.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skrifar afar áhugaverða og þarflega grein á vefsíðu sína og birtir sláandi myndir sem styrkja umfjöllun hans. tilvitnunin hér að ofan er úr greininni.

Í heildina er grein Sigmundar góð þó svo að hægt sé að gagnrýna einstök efnisatriði. Það skiptir ekki öllu máli. Staðreyndin er sú að í langan tíma hefur gömlum og menningarsögulegum húsum fækkað í Reykjavík. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur þekkir ekki lengur Reykjavík æsku sinnar. Húsin eru horfin, götunum er breytt, gömlu bryggjurnar rifnar og á hverjum lofastórum bletti er reynt að byggja til hins ýtrasta. Og svo rammt kveður að þessum stíl að borgin skipuleggur byggingar með engum bílastæðum. Hvaða skoðun sem fólk hefur á bílum og bílamenningu þá koma opin bílastæði í stað húsa.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var viðhorf fólks til gamalla húsa og byggðar mjög neikvætt. Þá átti að breyta öllu, henda því gamla og byggja nýtt. Tímamót urðu með Torfusamtökunum á áttunda áratugnum en þau spyrntu hraustlega við fótum, kröfðust þess að Bernhöftstorfan í Reykjavík væri vernduð. Samtökin opnuðu augu okkar margra sem. Víða um land saknar fólk bygginga sem rifnar voru einungis vegna þess að þau vöru gömul og talin fyrir.

Við þurfum að líta heilstætt á það sem við erum að gera og hvernig við viljum að þéttbýli og land þróast. Það gengur auðvitað ekki að við breytum þéttbýlisstöðum þannig að þau verði óþekkjanleg komandi kynslóðum ekki frekar en við breytum landi á sama hátt. Tæknin er slík að hægt er að byggja gríðarlega mörg hús og gjörbreyta þéttbýlinu. Jafnvel er hægt að eyða heilu fjöllunum og nota efnið til dæmis til landfyllingar úti í Faxaflóa.

Ég tek undir margt það sem Sigmundur Davíð segir í grein sinni, til dæmis eftirfarandi:

Áfram verða langflestar byggingar á Íslandi hannaðar í samtímastíl (módernisma). Það er hins vegar fráleitt að halda því fram að ekki megi byggja í hefðbundnum stíl þar sem það á við, t.d. til að styrkja heildarmyndina. Allt er þetta spurning um samhengi. Það væri jafnfráleitt að byggja bárujárnsklætt turnhús í Ármúla eins og það er að byggja gráa kassabyggingu í gamla bænum.

Það er hlutverk borgaryfirvalda að leggja línurnar í skipulagsmálum á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun umhverfisins og vernd menningararfsins, þess sem tengir okkur við sögu borgarinnar og gerir gamla bæinn að sérstæðum og aðlaðandi stað. Yfirvöld þurfa að gæta jafnræðis og umfram allt forðast að menn séu verðlaunaðir fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsað fyrir að leggja til umhverfisins.

Hver skyldu nú viðbrögð borgarstjórnar verða við þessari grein forsætisráðherrans. Auðvitað óttast maður skítkast og ómálefnalegar aðfinnslur. En, alltaf má þó vona ...

Hún er sláandi þessi mynd sem hér er birt, en hún er úr grein Sigmundar.


mbl.is Gagnrýnir skipulagsmál í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma ábyrgð kennara og foreldra í byrjendalæsi

Byrjendalæsi er umtalaðasta nýyrðið þennan ágústmánuð. Í gamla daga var einfaldlega talað um að læra að lesa. Það var minnir mig ekkert mál. Dálítið stagl að muna stafi, kveða rétt að þeim og svo small þetta svo einstaklega vel saman að síðan hefur maður getað lesið sér til gagns og ánægju. Ég minnist þess ekki að hafa rekist á nein vandamál þegar maður var að kenna börnunum sínum að lesa.

Núna er lestrarkennsla að því er virðist vera orðið gríðarlegt vandamál en ekki einfalt verkefni. Í þokkabót virðast stjórnvöld og stofnanir deila um hvernig eigi að kenna börnum að lesa og ekki síður um árangurinn.

Staðreyndin er þó sú að börn læra að lesa. Fyrst þarf að kenna stafina og þá þarf að leggja á minnið. Svo þarf að kenna hvernig stafirnir mynda orð. Börn eiga ekkert val um lestrarnámið, þau eiga að hlýða. Flóknara er það ekki nema fyrir það hlutfall barna sem eiga í raunverulegum erfiðleikum og þá þarf að taka á þeim sérstaklega án þess að yfirfæra þá erfiðleika á börn sem gengur vel.

Vandinn lýtur hins vegar að þjóðfélagin í heild sinni, samkeppninni um athygli barna. Fjöldi barna lesa ekki lengur bækur, fá enga æfingu í lestri nema í gegnum einfalda tölvuleiki eða kennsluforrit. Svo virðist sem foreldrar halda ekki bóklestri að börnum og ekki heldur kennarar. Þetta veldur margháttuðum vanda, orðaforðinn minnkar, tilfinning fyrir móðurmálinu hverfur smám saman, hæfni í ritgerðasmíði verður lakari, hugsunin verður ekki eins skýr og nákvæm, þekkingarbanki einstaklingsins vex ekki og fleira mætti til taka.

Auðvitað eiga foreldrar að hafa forgöngu um að kenna börnum að lesa og síðar vinna með skólanum, vekja áhuga þeirra á bóklestri. Geri þeir það ekki er auðvitað komið vandamál. En þvílík ómenning og skepnuskapur er að nenna ekki eða gefa sér ekki tíma til að sinna barni sínu í námi þess.

Ég hef rætt við fjölmarga foreldra og sú kenning er uppi að þau börn sem eiga í erfiðleikum með lestur, byrjendalæsi, er ekki sinnt sem skyldi af foreldrum þeirra og kennurum.

Boðskapurinn til stjórnvalda og ekki síst til kennara er einfaldlega þessi: Hættið að tuða í börnunum. Takið foreldrana til skoðunar og kennið þeim að styðja við bakið á börnunum. Í því er lausnin fólgin. Börnin geta yfirleitt það sem fyrir þau er lagt.

Gæti verið að ég sé að einfalda málið of mikið? Nei, það held ég ekki. Foreldrar og kennarar bera ábyrgð á menntun barna. Punktur.

Geti þeir ekki unnið saman er illt í efni. Munum þó að fólk er mismunandi, skiptir engu hvaða störfum það gegnir. Ekki hafa allir hæfileika, leikni, gáfur eða getu til að vekja áhuga barna. Og drottinn minn dýri, ekki eru öll börn yndisleg og elskuleg. Erfðir og uppeldi barna og ekki síður foreldra gera það stundum að verkum að allt fer í handaskolum.

Börnin sitja uppi með foreldra sína og þeir með börnin sín. Kennarar eru hins vegar ekki nein erfðafræðilega né guðleg forsjón og þeim má auðveldlega skipta út.

Sé árangur barna í lestri og öðru námi slakur á fyrst og fremst að beina sjónum að foreldrum og kennurum þeirra.


Farsinn um formennsku og ekki-formennsku

Helgi SigAllt er svo skrýtið við Bjarta framtíð. Flokkurinn er með sex þingmenn en þeir sjást ekki og svo virðist sem þeir dormi í þingstólum sínum án þess að gera nokkurn skapaðan hlut nema leggja til að klukkunni verði breytt.

Svo verður til einhvers konar farsi. Heiða Kristín Helgadóttir, sú sem stofnaði Bjarta framtíð og á fyrsta veðrétt í flokknum, segist ekki ætla taka sæti varaþingmanns vegna þess að formaður flokksins sé svo ... tja, óskemmtilegur. Þetta fengum við, almenningur, á tilfinninguna eftir að hafa fylgst með fjölmiðlum.

Næst á dagskránni var að unga konan lýsti því yfir að hún ætlaði að verða formaður í stað Guðmundar Steingrímssonar, sem gerir ekkert, aflar ekki atkvæða og ... tja er bara svo óskemmtilegur.

Þá segist þessi Guðmundur vera hættur, gefi ekki framar kost á sér sem formaður, líklega af því að Heiða Kristín hafi rétt fyrir sér. Besti vinur hans og samhlaupsmaður úr Samfylkingunni, Róbert Marshall, þingflokksformaður, segist líka ætli að hætta sem formaður.

Undur og stórmerki gerast þá á eftir, Guðmundur Steingrímsson leggur til að öll dýrin í skóginum verði vinir og skiptist á að ver'ann, það er að segja formaður flokksins, helst í nokkra daga í senn.

Af sex þingmönnum finnast tveir sem ekki vilja verða formenn en við bætast stórbændur í sveitarstjórnum sem segjast geta alveg hreint tekið að sér formennskuna. Óvíst er hvort þeir eigi við hefðbundna formennsku eða þá sem kenna má við höfrungahlaup.

Einn þingmaður segist ekkert hafa pælt í formennsku af því að enginn hafi skorað á hann ...

Loks kemur Heiða Kristín og segist ekki ætla að verða formaður. Hún hafi bara verið að plata, fá upp umræðu og sjá hvernig málin þróuðust. Enginn þýfgaði hana þó um þetta og fjölmiðlar létu sem hún hefði á réttu að standa.

Jæja, hér á undan er nokkur grein gerð fyrir þróun mála. Ljóst má þó vera að margt undarlegt og eðlilegt vantar inn í lýsinguna. Til dæmis hvort einhverjir fleiri hafi slegið úr og í um formennskuna og jafnvel hvort þingmaðurinn sem enginn skoraði á til formennsku hafi í raun hugsað vel og vandlega um hugsanlega formennsku og sé þar af leiðandi mjög svo tilkippilegur, að minnsta kosti tilkippilegri en hann áður vildi vera láta.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni og stórskemmtilegt er að fylgjast með Bjartri framtíð um leið og pælt er í veðrinu. Hvort tveggja mun halda áfram að koma okkur á óvart en þó er líklegast að veðrið sé til framtíðar en síður Björt framtíð.

Meðfylgjandi mynd er eftir Helga Sigurðsson, skopmyndateiknara og birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst  2015. Hún lýsir betur stöðu Bestaflokksins en pistillinn hér að ofan.


mbl.is Snerist aldrei um að verða formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á mótorhjóli á göngustígum í Heiðmörk

MótorhjólHann sparaði ekki bensínið fanturinn á ónúmeraða mótorhjólin sem spændi upp göngustíga í Heiðmörk í gær. Sem betur fer voru fáir á ferð á þessum slóðum.

Ekki var ég nógu snöggur að grípa til myndavélarinnar í símanum en náði þó mynd af manninum þegar hann þeysti framhjá mér.

För 1Auðvitað er akstur mótorhjóla bannaður á göngustígum í Heiðmörk. Það segir sig sjálft. Hjólunum er ekið hratt og víðast eru blindbeygjur á stígum og þar er mikil slysahætta.

Mótorhjól spæna upp göngustíga. Þeim er bremsað á beygjum, gefið í þegar komið er út úr þeim, spænt í brekkum og svo framvegis. 

Ég var akandi þegar ég mætti mótorhjólakappanum. Hann snarstoppaði, hringspólaði og hvarf svo af veginum og inn á göngustíginn. Sá ekki betur en að hann sendi mér fingurinn um leið og hann hvarf.

Eftir þetta heyrði ég vélarhljóðið af og til hingað og þangað um skóginn.

För 2Þegar ég snéri til baka sá ég að hann hafði greinilega farið um flestar gönguleiðir sem lágu yfir veginn, yndislega fallegar gönguleiðir sem margir nota til að styrkja sig í hlaupum.

Ekkert eftirlit er með umferð í Heiðmörk. Komið hefur fyrir að för hafa sést eftir bíla sem hringspóla á bílastæðum. Stundum hafa orðið stórskemmdir á þeim. Skógræktin hefur brugðist við þessu með því að raða stóreflis björgum á bílastæðin, til að auðvelda þeim að leggja sem vilja og um leið að takmarka olnbogarými ökufanta. Það hefur dugað.

Hins vegar gengur ekkert að koma í veg fyrir umferð mótorhjólafanta. Þessi sem ég sá í gær var greinilega um tvítugt og því varla hægt að kenna óvitaskap um gerðir hans.

För 3Vandinn er sá að mótorhjólamenn hafa fært sig ansi mikið upp á skaftið á síðustu árum. Þeir hafa myndað ljótar slóðir vestan undir Henglinum, hringekið Bláfjöll og í þokkabót aka þeir margir um á númerslausum hjólum sem á eingöngu að nota á lokuðum keppnissvæðum. Slíkt svæði er við Bolöldu, við veginn inn í Jósefsdal. Þar leika þeir sér og ættu að vera öllum til friðs. Hins vegar aka þeir einir eða í hópum um nágrennið og til að mynda hafa þeir spænt um gróin svæði vestan undir Vífilsfelli, við Öldustein og í áttina að skíðasvæðunum.

Þetta lið skemmir að sjálfsögðu fyrir þeim sem iðka íþrótt sína á lokuðum svæðum eða fara löglega um vegi.

 


Hvað gerir verslunin í landinu þegar tollar lækka?

Ég held að of margar kynslóðir sem alist hafa upp á Íslandi hafi litið á það sem sjálfsagðan hlut að margir hlutir kostuðu meira á Íslandi en annars staðar. Það væri því eftirsóknarvert að komast til útlanda til að sækja sér hluti sem væru ódýrari þar. Ég spyr; hvers vegna í ósköpunum ættu slíkir hlutir að vera eitthvað dýrari sem einhverju nemur hér en annars staðar? Munurinn ætti eingöngu að liggja í fjarlægðinni og með nútíma flutningatækni er að verða sífellt ódýrara að koma hlutum heimshorna á milli.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, í merkilegu viðtali í Morgunblaðinu í dag (feitletranir eru mínar). Í sannleika sagt velta flestir fullorðnir Íslendingar verðlaginu mikið fyrir sér og undrast hvernig á því geti staðið að allar vörur séu margfalt dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum. Auðvitað er það algjörlega ótækt að það sé hagkvæmara að fara til útlanda og kaupa fatnað eða raftæki. 

Óhófleg álagning verslunarinnar?

Á síðustu dögum hafa Neytendasamtökin birt markaðskönnun á verði sjónvarpa hér á landi og í Danmörku. Miklu munar á verðinu en það sem athyglisverðara er að Neytendasamtökin fullyrða að ekki sé hægt að skýra verðmuninn með því að kenna opinberum álögum um. Þá liggur við að beina sjónum að álagningu verslunarinnar.

Páll Vilhjálmsson, segir í pistli á bloggsíðu sinni Tilfallandi athugasemdir undir fyrirsögninni Samtök verslunar og þjófnaðar:

Raftæki eru dýrust á Íslandi í allri Evrópu, þótt opinberar álögur séu hér alls ekki hærri en til dæmis í Danmörku.

Verslunin hér á landi kemst í krafti fákeppni upp með að okra á okkur.

Það er mergurinn málsins.

Gæti verið að álagning verslunarinnar sé úr hófi fram? Hvernig stendur til dæmis á því að hægt er að bjóða meira en 80% afslátt á útsölum?

Tollalækkanir

Lífsbaráttan snýst hins vegar um meira en sjónvarpstæki. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir í Morgunblaðsviðtalinu:

Við eigum að grípa þau tækifæri sem liggja í þessu og leggja áherslu á að það verði auðveldara fyrir fólk að ná endum saman eins og þetta er dæmi um. Það er hægt að vinda ofan af þessu og nú árar þannig að við erum að framleiða gríðarleg verðmæti, fáum miklar gjaldeyristekjur og þá er lag að fjarlægja þessar eftirlegukindur erfiðra ára. Þetta er kjarabót fyrir þá sem komast sjaldnar út fyrir landsteinana, þetta færir verslun heim og opnar fyrir tækifæri í netverslun. Menn eru þá lausir við þau gjöld sem ella yrðu lögð á.

Fyrir okkur launþega eru þessi orð í tíma töluð. Við fylgjumst auðvitað með framhaldinu af miklum áhuga og jafnvel spenningi. Ef að líkum lætur þarf ekki að bíða lengi eftir því að Bjarni fylgi þessum málum eftir. 

Er versluninni treystandi?

Hitt er svo allt annað mál hvernig verslunin tekur á tollalækkunum. Reynslan hefur kennt okkur að ekki er öllum verslunarrekendum treystandi. Þarf af leiðir að brýnt er að Neytendasamtökin haldi vöku sinni og gæti að verðlagi fyrir og eftir tollabreytingar. Það er ekki einfalt mál.

Um daginn lagði ég leið mína í útsölu í verslun þar sem ég hafði mánuði áður keypt vöru til heimilisnota og vildi bæta við. Kom þá í ljós að nákvæmlega sama vara og hafði áður kostað 9.900 krónur var á útsölunni verðlögð á 13.900 krónur. Í einfeldni minni hélt ég að á útsölum lækkaði verð en ekki öfugt.

Lái mér hvers sem vill þegar ég opinbera hér efasemdir mínar á heiðarleika margra sem reka verslanir.


Blést um koll og smurðist miklu blóði

mbl blést um kollÞetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.

Stundum verða hinir mestu skussar í íslensku máli algjörlega kjaftstopp við lestur Morgunblaðsins og mbl.is og það á ekki síst við um þann sem hér ritstýrir. Ofangreinda tilvitnun er úr mbl.is frá því 17. ágúst og þó fréttin hafi verið uppfærð síðan hefur þetta ekki verið lagað.

Vakin er athygli á þessu í pistli Eiðs Guðnasona, Molar og málfar í miðlum. Þar segir:

Fréttabörn ganga laus á mbl.is. Enginn virðist þarna hafa verið á vaktinni til að gæta þeirra.

Ekki veit ég hvað skilyrði eru fyrir ráðningum fólks í störf blaðamanna. Þetta og svo ótalmargt fleira bendir til að alltof margir sinna starfi sínu ekki nægilega vel. Í raun og veru þarf bara einn nokkuð „sjóaðan“ mann á hverjum fjölmiðli sem les yfir fréttir áður en þær birtast. Um leið væri hægt að koma í veg alvarlegustu villurnar.

Úbbs, það skyldi þó ekki vera að þetta sé þegar gert ... Þá er illt í efni.


mbl.is Smurður blóði annarra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hirðuleysi Egils Helgasonar um staðreyndir

Nú eru uppi sterkar raddir innan Sjálfstæðisflokksins um að láta gömlu staðfestuna í utanríkismálum lönd og leið. Þarna fer fremstur í flokki Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður flokksins – maður sem þó lifði samkvæmt hugmyndinni um vestræna samvinnu þegar hann var forsætisráðherra – og svo er merkilegt að heyra núverandi formann flokksins, Bjarna Benediktsson, ljá máls á þessu. Nokkrir þingmenn hafa þó tekið sig til og áréttað að gömlu viðhorfin, staðfestan, sé enn í gildi, og það gerir líka Björn Bjarnason, sem lengi var helsti hugmyndafræðingur flokksins í utanríkis- og öryggismálum:

Þetta segir Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður, í pistli sínum á Eyjunni í dag. Yfirleitt finnst mér hann ekki vandfýsinn á rök, lætur sleggjudóma ráða, sérstaklega þegar um Sjálfstæðisflokkinn er að ræða. Þá er hann viss um að flokkurinn sé um allt sekur. Sama er þegar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og fyrrverandi formaður flokksins, er til umræðu, þá eiginlega allt látið flakka rétt eins og sést í ofangreindri tilvitnun. Engin vinsemd í þann garð og þaðan af síður sanngirni.

Egill Helgason færir ekki nokkurn staf fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi breytt um skoðun varðandi vestræna samvinnu né heldur hjá Davíð Oddssyni, Bjarna Benediktssyni, núverandi formanni, eða Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra flokksins. Hræringar í hausnum á Agli finna sér eins og endranær leið út á bloggið hans rétt eins og vatn fylgir þyngdarlögmálinu. Slíkur lekandi segir þó ekkert um Sjálfstæðisflokkinn né áðurnefnda Sjálfstæðismenn.

Staðreyndin er hins vegar sú að margir Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur að útflutningi þjóðarinnar. Hann skiptir efnahagslífið gríðarlegu máli ekki síst þegar markaðir lokast hvort sem það er vegna markaðsvanda eða handvömm stjórnvalda og þá sérstaklega utanríkisráðherra landsins sem staðfesti viðskiptaþvinganir á Rússland án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum og hvað þá að skoða mögulegar afleiðingar.

Pistlar Egils Helgasonar eru vissulega mikið lesnir en það er sorglegt þegar hann fer með rangt mál til þess eins að ófrægja fólk og flokka. Það skiptir ekki heldur nokkru máli þó hann vitni í pistlinum í grein manns sem er jafnhirðulaus um staðreyndir eins og Egill sjálfur.

Enn stendur Sjálfstæðisflokkurinn fastur á skoðun sinni um vestræna samvinnu í öryggismálum og tekur þátt í þeim málum eftir því sem kostur er. Þetta hefur ekkert breyst. Umræðan snýst hins vegar um að ríkja þarf jafnvægi milli ríkja í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi, það gengur ekki að Ísland beri þyngri byrðar en aðrir.


Grobbsamir Skotar í barnlegum þykjustuleik

Skosku hermennirnir sem ferðast um landið eru sagðir hafa ekið utan vega, keyrt í Holuhrauni og margt annað hræðilegt. Ég leit á heimasíðu og Facebook síðu þeirra og sá engar myndir um nein óhæfuverk. Á meðan get ég ekkert sett út á þá annað en það sem þeir segjast ætla að gera. Enn ferðast þeir bara um í barnalegum þykjustuleik.

Þeir skosku segja eftirfarandi á spjallhluta vefsíðu þeirra 18. ágúst,http://www.operation-ragnarok.co.uk/messages.html:

It is unfortunate that we seem to have received an influx of attention to or website for the wrong reasons. An ill informed individual has suggested that we have stepped outside of Icelandic laws. THIS IS NOT THE CASE.

All of our actions remain legal and respectful to this incredibly beautiful country. All driving activities have taken place within designated tracks found with Icelandic road maps.

Should anyone wish to discuss our actions please email us directly on team@operation-ragnarok.co.uk

We have met some incredibly friendly and welcoming Icelandic people on our travels and thank you for everyone's support so far.

Þetta ætti nú að slá á mesta æsinginn hjá fólki. Í raun vekur frekar óhug að lesa ávirðingar sem Íslendingar ber upp á þessa pilta á spjallsíðunni án þess að hafa meira fyrir sér en óstaðfestar fréttir. Meðan ekkert er ljóst um brot þessara manna ber fólki að tala varlega. Það er hins vegar ekki raunin.

Auðvitað vekur óhug þegar einhver segist ætla að aka upp á íslensk eldfjöll, utan vega og koma þar að auki á bíl sem við fyrstu sýn virðist útbúinn fyrir slíkt.

Raunar er bíllinn frekar ómerkilegur miðað við íslenska jeppa. Hann er lítið upphækkaður og ekki á stórum dekkjum. Miðað við marga útlenda bíla sem maður hefur séð virðist þessi óttalega máttlaus og viðvaningslega útbúinn. Jafnvel ég hef átt betri bíl til átaka í snjó, sem raunar er það eina sem leyfist í utanvegaakstri hér á landi - sem betur fer.

Hugsanlega hafa þessir náungar ekið utan vega við Holuhraun en ég tel útilokað að þeir hafi ekið á því, það er bara ekki gerlegt. Ég hef þar að auki enga trú á að þeir hafi gengið alla leið inn að gígunum í hrauninu. Þangað er langt, gríðarlegt torleiði og ekkert annað að sjá en það sem má virða fyrir sér með miklu minni fyrirhöfn á þúsund stöðum um allt landið.

Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að þetta væru grobbsamir gæjar sem þykjast ætla að afreka eitthvað stórkostlegt en þegar til kastanna kemur virðast þeir vera ósköp venjulegir ferðamenn. Þeir birta myndir af sér í skrýtnum aðstæðum, stilla sér hetjulega upp og gera svo ósköp mikið úr því sem á að virðast vera afrek. Í raun virðast þeir ekki gera annað en það sem margir útlendir ferðamenn leyfa sér.

Hinkrum nú við og leyfum lögreglu að spjalla við kauða eða bíðum eftir að sjá myndir af meintum spellvirkjum þeirra.

 


mbl.is Kanna utanvegaakstur hermanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óafvitandi lagði Ísland meira undir en aðrar þjóðir

Stjórnmálaumræðan hér á landi fer oft skelfilegar leiðir út um víðan völl. Nú er til dæmis því haldið fram að gagnrýni á viðskiptaþvinganir ESB, Bandaríkjanna og annarra þjóða á viðskiptabann á Rússa sé andstætt viðhorfum til mannréttinda. Þetta má lesa í pistlum fjölda gáfumanna og álitsgjafa. 

Staðreyndin er hins vegar fjarri því að gagnrýnin sé andstæð málstað íbúa í Úkraínu sem eiga undir högg að sækja vegna innrásar Rússa, innlimun hluta af landsins og stuðning þeirra við uppreisnaraðila í austurhluta landsins.

Evrópusambandið, Bandaríkin og nokkur önnur ríki ákváðu vissulega að setja viðskiptabann á Rússland vegna atburðanna í Úkraínu. Viðskiptabannið er þó fjarri því að vera algjört því það er hannað eftir þörfum stóru ríkjanna sem enn þurfa að kaupa gas frá Rússlandi og selja þangað vörur sem eru efnahag vestur Evrópulanda afar mikilvægar.

Niðurstaðan er því sú að viðskiptabannið er eiginlega meira í orði en á borði. Þýskaland þarf til dæmis enn nauðsynlega á gasi að halda og landið selur tæknivörur, bíla og annað fyrir milljarða til Rússlands. Hið sama á við flest önnur ríki. Hins vegar eru hergögn og tækni sem hægt er að nota í hernaði ekki seld þangað. 

Í fljótfærni studdu íslensk stjórnvöld viðskiptaþvinganir á Rússa án þess að huga að afleiðingunum, eða rétt eins og segir í leiðara Morgunblaðsins í síðustu viku: 

Það er fyrst nú að renna upp fyrir fólki hversu dýrkeypt þessi síðustu afglöp eru að verða. Því, eins og fyrr sagði, var látið undir höfuð leggjast að gera áhættumat eins og sjálfsagt var og kynna það þjóðinni áður en „boðið“ um aðild að refsiaðgerðum var þegið.

Afleiðingin er sem sagt sú að við þurfum að sæta viðskiptabanni Rússa sem eru mótaðgerðir vegna viðskiptaþvingana vesturveldanna.

Þó málið allt snúist í grunninn um mannréttindi og sjálfstæði þjóða þá stendur eitt og aðeins eitt upp úr: Viðskiptaþvinganir gegn Rússum voru hannaðar á þann hátt að stórveldin töpuðu litlu sem engu á þeim. Um örríkið Ísland er allt annað uppi á tengingnum.

Hafi verið raunverulegur áhugi á því að láta Rússa finna fyrir viðskiptaþvingunum hefði verið lokð fyrir gaskaup þaðan, bannað að flytja út matvöru til Rússland og tækni- og iðnaðarvörur sömuleiðis útilokaðar. Auðvitað var þetta ekki gert enda tilgangurinn með viðskiptabanninu ekki sá að stórveldin töpuðu á því. Skítt með tap Íslands sem óafvitandi lagði meira undir en flestar aðrar þjóðir.


mbl.is Stefnubreyting eða ekki stefnubreyting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband