Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Hva, ekkert að gerast í Kötlu?

111130 SkjálftarJar#A2340C

Um daginn kvartaði ég óvart undan skorti á jarðskjálftum í Mýrdalsjökli.  Og enn virðist ekkert að gerast þarna utan tvö hikst sem varla geta flokkast undir jarðskjálfta.

Vinstra megin er jarðskjálftakortið eins og það er núna. Kortið hægra megin sýnir stöðuna frá því fyrir hálfum mánuði.

Þetta gengur auðvitað ekki. Búið var að lofa eldgosi en efndirnar eru engar. Komu þó að málum allir fjölmiðlar, flestar vefsíður, jarðfræðingar, leikmenn og draumspakir kallar og kellingar.

Þeir allra spökust, fróðir og vel lesnir menn eins og ég, spáðu gosi þegar tæki að hausta því þá væri minnst fargið á jöklinum. Sá tími er örugglega liðinn og nú er kominn vetur og nokkur kíló farin að bætast á Kötlu því væntanlega snjóar þar eins og annars staðar.

Ég heimta svör. Hver stendur á bak við alla þessa umræðu um eldgos í Mýrdalsjökli? Vinsamlegast ekki nefna Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þó hann sé í haust talinn ábyrgðarmaður fyrir öllu því sem miður fer hér á landi ...

 


Góð ákvörðun hjá Símanum

Það verður nú að segjast eins og er að ákvörðun Símans um að setja þrepaskipt þak á gagnanotkun viðskiptavina sinna erlendis ber vott um óvænta umhyggju. Staðreyndin er einfaldlega sú að í flestum símum eru forrit sem sækja sér gagna í gegnum 3G kerfið hvort sem eigandi símans vill það eða ekki og vefnotkunin er hrikalega dýr. Nema auðvitað að eigandinn sé svo forsjáll að loka fyrir umrædda gagnasöfnun og nýt sér ekki 3G fyrir netið.

Dæmi eru um að fólk komi heim með gríðarlega háa reikninga eftir ferð til útlanda. Ástæðan er ofangreind og þá skiptir mestu að gagnasöfnun símans fer eins og símtalið, fyrst heim til Íslands og síðan ef til vill til Bandaríkjanna þar sem uppruni forritsins, appsins, er.

Gleðin yfir fullkomnum og skemmtilegum síma kárnar oft á tíðum þegar reikningurinn fyrir notkun hans berst. Þess vegna ber að fagna þessu frumkvæði Símans enda bara ágætt að vera í viðskiptum við hann.

Þær kröfur munu án efa vaxa að álögur símafyrirtækja vegna forrita verði lækkaðar. Það er auðvitað ekki nokkur hemja að fá til dæmis 30.000 króna símreikning og þar af séu gjöld vegna hringinga aðeins 7.000 krónur. Þetta er því miður mjög algengt, jafnvel hér á landi. Mismunurinn eru fyrir netnotkun og annars smáræðis ...


mbl.is Setja þak á gagnanotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smíði fornminja, sálfræði VG og ESB fléttan

Allt tal um að hér hafi verið unnin sú vinna sem valdið geti sárindum í stjórnarsamstarfi er með miklum ólíkindum og fer raunar ekki milli mála að hér eru spunameistarar ESB-fléttunnar að verki.

Þetta segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar - stéttarfélags í grein í Mogganum í morgun. Hann er einn fjórmenninganna sem í starfshópi um gerð tillagna í fiskveiðistjórnun á vegum sjávarútvegsráðherra. Það eru einmitt hugmyndir þessa starfshóps sem notaðar hafa verið sem yfirskin til að reka Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni.

Aðasteinn fer vítt yfir og sparar ríkisstjórninni ekki kveðjurnar. Hann segir:

Þau einu fyrirmæli sem við fengum var að vinna sem best úr þeim tæplega 40 umsögnum sem bárust Alþingi um málið og flestar reyndust neikvæðar í garð þess frumvarps sem legið hafði fyrir. Hér höfðum við að veganesti skýrslu sáttanefndarinnar og stefnu ríkisstjórnarinnar. Við einsettum okkur að feta einstigi, fara millileið án þess að við hefðum mikla von um að hægt væri að sætta ólík sjónarmið. En þetta var reynt og svo er annarra að dæma um hvernig til hefur tekist. Ráðherra tók ekki þátt í stefnumótun hópsins eins og áður sagði enda ekki erindi okkar að leggja fram sérstakar tillögur hans heldur faglega nálgun á viðfangsefninu. 

Heimska og heimóttarskapur

Vinstri grænir eru annars sérstakt sálfræðilegt rannsóknarefni, þeir bentu á Kárahnjúka þegar vernda átti Eyjabakka, þeir bentu á gufuaflsvirkjanir þegar vernda átti Kárahnjúka, þeir bentu á ferðaþjónustu, þegar vernda átti gufuna, þeir bentu á skoska jarðfræðinema í Vatnajökulsþjóðgarði þegar banna átti hestamenn, þeir benda á hvað þegar stoppa á uppbyggingu í ferðaþjónustu?

Sigurði Ragnarssyni, framkvæmdastjóra á Egilsstöðum, er mikið niðri fyrir í grein sem hann skrifar í Moggann í morgun um synjun innanríkisráðherra á landakaupum Kínamannsins. Greinin er vel skrifuð og skemmtileg. Hann segir þetta í lokin:

Að lokum, ef einhverjum hefur dottið í hug að þetta sé skrifað í mikilli gremju og reiði þá hefur hann algjörlega rétt fyrir sér.

 Spurt um Þorláksbúð í Skálholti

Ótiltekinn hópur manna hefur tekið sig til og hafið smíði fornminja í hlaðinu á Skálholti. Þar virðist ekkert til sparað.

Það vekur auðvitað athygli því á sama tíma berst önnur og vitiborin starfsemi í Skálholti í bökkum, þannig að erfiðleikar eru á að taka á móti fólki til kirkju og tónleika, að ekki sé talað um ferðamenn vegna skorts á aðstöðu fyrir snyrtingu.

Þannig skrifar Vilhjálmur Bjarnason, lektor við HÍ, í grein í Mogganum í morgun. Hann leggur fram tuttugu og sjö spurningar sem hann vill fá svör við frá þeim sem höndla um Þorláksbúð, beint og óbeint. Hann vill til dæmis fá að vita hvaða sofnuður Þorláksbúðafélagið er, hver beri ábyrgð á verkinu fjárhagslega, kostnað, bókhald, endurskoðun, aðkomu sveitarfélagsins, húsafirðinarnefndar og loks kemur spurning númer tuttugu og sjö:

Og svo að lokum: Annast Árni Johnsen alþingismaður, fyrrverandi formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins, fjárreiður Þorláksbúðarnefndar, eða hefur einhver afskipti af þeim?

Allar ofangreinar greinar eru á blaðsíðu 27 í Mogganum og engin ástæða til að láta þær framhjá sér fara. Þær eru vel skrifaðar og upplýsingagildi þeirra er mikið hvort sem lesendur séu sammála efni þeirra eða ekki.

 


Vinstri grænir heimaskítsmát

Jón bjarna

Enginn skyldi vanmeta grasrótina, sérstaklega ekki í stjórnmálaflokki. Það hefur flokkseigendafélag Vinstri grænna gert með ófyrirséðum afleiðingum. Hún hefur nú risið upp til varnar Jóni Bjarnasyni. Ætlunin er að reka úr ríkisstjórninni vegna ómögulegs minnisblaðs um fiskveiðar af því að hann er á móti ESB ... eða þannig.

Grasrótin í VG hefur nú birt dagblaðaauglýsingu til stuðnings Jóni. Undir hana rita um 150 vinstri grænir. Liggur nærri að það sé mest allt kjörfylgi flokksins fyrir utan þingmenn og ráðherra.

Auglýsing er sem gula spjaldið á formann Vinstri Grænna. Fari sá sínu fram má búast við rauða spjaldinu. Því fylgir engin gleði þó flokkurinn flaggi yfirleitt rauðum dulum og aldrei grænum.

Auglýsingin til stuðnings Jóni er mjög alvarleg áminning til flokkseigendafélagsins. Það getur ekki farið sínu fram, hefur ekki til þess stuðning.

Mikill klofningur er í Vinstri grænum, hann er hvort tveggja málefnalegur og persónulegur. Um leið liggur eiginlega ljóst fyrir að málið er of langt komið til að flokkseigendafélagið geti bakkað.

Tveir kostir virðast vera í stöðunni : 

  • Flokkseigendafélagið fer að vilja Samfylkingarinnar og rekur Jón Bjarnason
  • Flokkseigendafélagið lætur undan grasrótinni og rekur ekki Jón Bjarnason

Vinstri grænir eru eiginlega heimaskítsmát, eins og það er kallað, þeir hafa skorað sjálfsmark, skotið sig í fótinn ... Báðir kostirnir eru ávísun á stjórnarslit og sá síðarnefndi klýfur flokkinn í þokkabót. Staðan er alfarið þeim að kenna. Það er útilokað að kenna Samfylkingunni um allan þennan vandræðagang. Samstarfsflokkur gengur eins langt og hinn flokkurinn leyfir honum. Samfylkingin er fyrir löngu kominn inn á stofugólfið hjá Vinstri grænum og með lúkurnar í fjölskyldusilfrinu.

Þess vegna spái ég kosningum í janúar eða febrúar. 


Grýla ráðkastast með jólasveinanna

Vandræðin innan VG, Jónsmál, ESB og almenn stefna flokksins, eru farin að koma niður á getu Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Hann hefur hingað til viljað koma fram sem landsföðurlegur og ábyrgur. Það hefur hins vegar ekki alltaf tekist.

Nú bregður hins vegar svo við að hann er farinn að vanrækja skyldur sínar í fjármálaráðuneytinu. Ríkisendurskoðun gagnrýnir hann harðlega fyrir að „gleyma“ að gera ráð fyrir kostnaði upp á 11,2 milljarða króna vegn ríkisvæðingar á SpKef inn í fjárlög. 

Ríkisendurskoðun strýkur Steingrími blíðlega og hælir fyrir skáldagáfuna. Steingrímur ætlar að 7,6 milljarðar króna komi fyrir sölu ríkiseigna. Það finnst Ríkisendurskoðun heldur liðlega krítað.

Uppáhaldsumræðuefni fjölmiðla síðustu áratugi endaði með því að Ögmundur Jónasson, sérstakur klofninsráðherra ríkisstjórnarinnar fékk í henni samþykkt að byggt yrði nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Fjármálaráðherra hefur launað Ögmundi greiðann og gerir ekki ráð fyrir krónu í þá framkvæmd.

Jón Bjarnason fékk að finna til tevatnsins vegna einhverra plagga um lög um fiskveiðar og var laminn með þeim útaf ESB ... Steingrímur vanrækti hins vegar starf sitt sem ritstjóri fjárlagafrumvarpsins en fær varla bágt fyrir enda er hann höfuð flokkseigendafélags Vinstri grænna og fer sínu fram sem slíkur. Hann er eins og Grýla sem ráðkastast með jólasveinanna.


Kremlarlógía VG í Reykjavík

Nákvæmlega á þeirri stundu er flokkseigendafélag Vinstri grænna er að plotta með Samfylkingunni gegn Jóni Bjarnasyni finnur stjórn félags Vinstri grænna í Reykjavík óskapleg þörf hjá sér til að álykta um synjun innanríkisráðherra á landakaupum útlendings.

Vissulega eru umrædd landakaup mikilvægt mál til ályktunar. Hins vegar er þögnin ærandi um hugsanlegan brottrekstur Jóns. Hefur þó umræddur innanríkisráðherra lýst yfir stuðningi sínum við manninn.

Við nánari umhugsun kann þetta allt saman að vera einhvers konar Kremlarlógía. Hið eðla félag VG í Reykjavík er í raun að gera er að lýsa svona óbeint á ská yfir miklum og staðföstum stuðningi við títtnefndan Jón ...

En hvað veit ég sosum um Kremlarlógíur ...? 


mbl.is Lýsa ánægju með Ögmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klekkt á Jóni vegna sjávarútvegsmála

Fyrirfram hefði mátt halda að fjölmiðlar, flokkar og þingmenn fögnuðu vinnubrögðum af þessu tagi enda eru þau tvímælalaust í góðu samræmi við nútímalegar hugmyndir um gegnsæja stjórnsýslu. En þess í stað er nú reynt að refsa Jóni fyrir þessa upplýsingagjöf með því að reka hann úr embætti! Er einhver sem ekki sér í gegnum þetta sjónarspil? Tylliástæðan er svo fáránleg og smávaxin að það getur enginn tekið mark á henni. Í henni felst það eitt af hálfu Samfylkingarmanna að koma höggi á pólitískan andstæðing og fá einhvern annan í hans stað sem gæti orðið leiðitamari í ESB-málinu.

Þetta rita Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, á vefsíðu Vinstrivaktarinnar gegn ESB. Vart þarf að taka það fram að hann er flokksbundinn í VG.

Ragnar fjallar þarna um hvað Jón Bjarnason var í raun og veru að gera þegar hann birti á vefsíðu ráðuneytisins hugmyndir um breytingar á lögum um fiskveiðar. Ragnar heldur því blákalt fram og hefur fyrir því ágæt rök að ástæðan fyrir árásum á Jón séu fyrst og fremst afstaða hans gegn ESB. Hún hugnist Samfylkingunni ekki og hefur hún lengi reynt að losna við Jón úr ríkisstjórninni. 

Ragnar orðar þetta ágætlega og veit eflaust manna best hvað gerst hefur bakvið tjöldin:

Jóhanna þrýstir nú mjög á VG að skipta út Jóni Bjarnasyni fyrir einhvern sem sé leiðitamari í ESB-málinu og notar að yfirvarpi meintan ágreining  um málsmeðferð kvótafrumvarpa.  Sök Jóns er þó sú ein að reyna að sætta stríðandi fylkingar í stjórnarflokkunum en þar er hver höndin uppi á móti annarri í þessu máli.

Forysta Samfylkingarinnar hefur lengi rætt það í sinn hóp hvernig losna megi við Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni. Ástæðuna þekkja allir: hann er andvígur aðild að ESB, eins og raunar flestir sem starfa í atvinnugreinum sem heyra undir ráðuneyti Jóns, landbúnaði og sjávarútvegi, enda alþekkt að einmitt í þeim greinum yrði mestu fórnað við ESB-aðild.

Lengi var unnið að því að hrekja Jón út úr ríkisstjórninni í tengslum við endurskipulagningu stjórnarráðsins. En það mál hefur dregist á langinn og nú er þolinmæði Samfylkingarmanna gagnvart Jóni á þrotum og þeir hafa ákveðið að ráðast að honum með því að finna eitthvað það sem unnt væri að gagnrýna hann fyrir

Og hvað dró Jóhanna og lið hennar upp úr skúffunni? Ákveðið var að klekkja á Jóni með því að vísa til vandræðagangs stjórnarflokkanna í kringum kvótamál sjávarútvegsins. Jóhanna réðist síðan hvað eftir annað opinberlega  á Jón Bjarnason í fjölmiðlum, sem er afar fátítt að forsætisráðherra leyfi sér gagnvart ráðherrum sínum. Glæpur Jóns átti að vera fólgin í því að hafa birt á netinu ýmsa punkta starfshóps um hugsanlega lausn kvótamálsins.

Jafnframt var sterklega gefið í skyn að Jón hefði með þessum upplýsingum sett fram einhvers konar úrslitakosti. Og ríkissjónvarpið og Fréttablaðið tóku óspart þátt í þessu leikriti Samfylkingarinnar eins og vænta mátti. Þannig var sagt af þáttastjórnenda Kastljóss í gærkvöldi að Jón „hefði varpað sprengju" þegar ráðherrann var einfaldlega að gefa hagsmunaaðilum og þjóðinni allri tækifæri til að kynna sér hvaða hugmyndir voru uppi um lausn málsins í starfshópi sem vann að málinu fyrir ráðuneytið. 


mbl.is Sjávarútvegsmálin einungis yfirskin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er eitthvað að marka Steingrím joð

Sumir voru þeirrar skoðunar að Vinstri grænir gætu orðið bjargvættir þjóðarinnar. Að minnsta kosti fengu þeir mikinn meðbyr í síðustu kosningum. Þeir hinir sömu hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með stjórnarsetu flokksins og undrast hversu fljótt hann varð að steinrunninni stofnun, meira burókratí en ráðuneytin sem þeir eiga þó að stjórna.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er ólíkindatól. Hann er á móti ESB aðild en styður engu að síður aðlögunarviðræðurnar, hann er með Jóni Bjarnasyni en styður hann ekki, hann vill leggja kolefnisskatt á stóriðjuna eða heykist svo á því. Er eitthvað að marka manninn?

Þetta varð Óla Birni Kárasyni á vefnum www.T24.is að umræðuefni. Hann segir:

Hringlandahátturinn og stefnuleysið heldur áfram við stjórn landsmála. Steingrímur J. Sigfússon lýsti því yfir á fundi í dag með Samtökum atvinnulífsins og fulltrúum helstu fyrirtækja sem ætlað er að greiða kolefnisgjald, að hann ætli að leggja þau áform til hliðar. Þetta kemur fram í frétt Mbl.is.

Fyrir viku sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, í tilefni af bréfi forstjóra Elkem til þingmanna:

Það stendur ekki til að Ísland verði einhver skattaparadís fyrir mengandi starfsemi sem er orðin skattlögð alls staðar erlendis. Það er ekki það sem við viljum, er það?

 Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins hélt Steingrímur því fram að aldrei hafi verið samið um að almennar skattabreytingar komi ekki við þessi fyrirtæki eins og önnur:

 Og fyndist mönnum það sanngjarnt ef að innlendu atvinnugreinarnar sem fyrir eru, öll umferðin, sjávarútvegurinn, aðrir slíkir sem nota mikið af jarðefnaeldsneyti, að þeir borgi kolefnisgjald en þessi iðnaður sé algjörlega laus við það?

Framganga fjármálaráðherra eykur ekki tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi. Hér fara stjórnvöld fram í algjöru stefnuleysi og rekjast síðan undan. Það sem sagt var fyrir viku er gert merkingarlaust. Og innlendir og erlendir fjárfestar, sem og landsmenn allir hrista hausinn, og velta því fyrir sér hvort eitthvað sé að marka það sem sagt er í þessari viku. 


Undratækið iPad

Mér dettur þetta í hug eftir að hafa kynnst iPad. Það er ótrúlegt undratæki, að minnsta kosti fyrir fréttafíkil. Að geta lesið blöð hvaðanæva úr heiminum á jafneinfaldan hátt og í iPad er með ólíkindum. Vegna þess hve ég skrifa mikið kemur tækið þó ekki í stað tölvunnar hjá mér.

Þannig skrifar Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og alþingismaður. Ég gekk inn í búð hjá söluaðila Apple um daginn og keypti einn iPad. Sá fram á að enginn myndi vilja gefa mér slíkan í jólagjöf. Hrifning mín á tækinu er nú síst minni en Björns.

Raunar hef ég verið forfallinn Makkavinur allt frá því ég sá fyrsta Makkann en það var líklega árið 1984 eða 85. Áður hafði ég farið á námskeið og lært flóknar skipanir í DOS en skildi hreinlega ekki hvers vegna tölvur gætu verið fyrir aðra en hámenntaða tölvunarfræðinga.

Makkinn breytti tilveru minni og síðan hef ég notað hann. Nú sit ég við MacBook Pro fartölvu, hef tengt hana við 23" skjá og í dokk er iPhone tæki. Ég segi tæki vegna þess að sími er aðeins einn af mörgum eiginleikum þess. Og inni á stofuborði er iPad en í honum var ég að lesa skáldsögu sem ég keypti á rafrænu formi. Ég á stórt og mikið bókasafn en við liggur að manni sundli við þá tilhugsun að allar bækurnar gætu geymst inni í iPad-inum og raunar þúsundir til viðbótar. Og að geta ferðast um allan heim með stórt bókasafn, nærri því í rassvasanum, það er ótrúlegt. Þó er makalaust hvað maður venst þessari tækni fljótt. allar bækur, öll skjöl getur maður haft handbær í iPad. Pappírslausa tilveran nálgast óðum.


Veruleg hætta á að heilbrigðiskerfið hrynji

Nú er svo komið og hefur verið í nokkur ár, að það er hærra hlutfall af læknum í Flugleiðavélunum en í matsal LSH í hádeginu. Allir á leið utan eða út í aukavinnu til þess að vinna fyrir salti í grautinn. Menn fá auðveldlega íhlaupavinnu, gjarnan 2-3 vikur í senn og fá vel borgað fyrir. Í smábæ þar sem ég þekki til hafa íslenskir læknar mannað heila stöðu á heilsugæslunni í mörg ár með því að koma nokkrar vikur í senn hver og einn. Ég hef það frá fyrstu hendi að þeir eru mjög vinsælir og vel liðnir.

Góður vinur minn skrifaði mér um daginn og ofangreind tilvitnun er frá honum komin. Hann er læknir eins og auðvelt er að giska á. 

Mér brá mikið við lesturinn. Ég veit að atgervisflótti til útlanda mun eftir örskamman tíma verða mikið vandamál hér á landi. Hins vegar gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu margir læknar hafa flust út landi eða eru á þeim buxunum. Þetta er þó staðreynd. 

Morgunblaðið fjallaði vel um þessi mál í gær. Þar er bent á að 227 íslenskir læknar hafi fengið lækningaleyfi í Svíþjóð, Noregi og Danmörku á árunum 2008-10, langflestir í Svíþjóð. Í Noregi fengu yfir 100 íslenskir hjúkrunarfræðingar leyfi á árunum 2009-10. Þessar tölur segja okkur hrikalega sögu um stöðu heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Að sjálfsögðu eru þetta afleiðingar hrunsins. Hins vegar eru nú þrjú ár frá þeim atburði og enn er ekkert lát á atgervisflótta. Ábyrgðina á bera auðvitað þeir sem bregðast ekki við vandamálum. Ríkisstjórnin hefur ekki haft getu, þekkingu eða vilja til að bregðast við afleiðingum hrunsins. Hún skilur ekki hvers vegna vel menntað fólk hrekst úr landi. Getur það eft til vill verið að hin norræna velferð felist í því atgervisflótta til Norðurlandanna?

Aðstæður íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru sláanda samkvæmt bréfi læknisins. Ég bendi á að lestur þess er ekki fyrir viðkvæma og með þessum orðum er ég ekki að spauga. 

Vinur minn leyfði mér að birta hluta þess með miklum semingi en biður mig að greina ekki frá nafni sínu. En hér er sá hluti bréfsins sem hann heimilaði mér að birta eftir mikla eftirgangsmuni:

Það er mikil eftirspurn eftir læknum í flestum nágrannalöndunum, sérstaklega reyndum og sérhæfðum. Íslendingar eru satt að segja mjög vinsæll vinnukraftur. Sjálfur gæti ég flutt út þegar á morgun en við bíðum væntanlega um sinn, af fjölskylduástæðum aðallega. 

Ekki veit ég um einn einasta lækni í sérnámi eða starfandi erlendis sem vill eða getur flutt heim næstu árin. Mér þætti fróðlegt að vita hvort það sé yfir höfuð einhver slíkur til? Það er bara della að koma heim úr góðum aðstæðum í erfiðið heima til þess eins að snarlækka í launum og geta jafnvel ekki einu sinni borgað námslánin og eignast húsnæði. Þetta leiðir í flestum tilfellum til þess að fólk festist endanlega í starfi. Það er heldur ekki gott að flytja heim seinna, kannski með stálpaða unglinga og þegar menn eru orðnir fastir í starfi, vel borgaðir og virtir þá þarf ekki stúdentspróf til að skilja hversu erfitt er að taka sig og fjölskylduna upp og flytja til Íslands.

Þeir sem eru enn í vinnu heima sligast fyrr eða seinna og gefast upp á óbærilegu álaginu sem þegar er farið að segja verulega til sín sums staðar.

Launin 

Menn geta alveg kallað svona tal  eigingirni og hégóma en staðreyndin er að læknar komu heim allt að 10 -15 árum eftir að flestir skólafélagar voru farnir að vinna vel fyrir sér, oft þá þegar með skuldir ofan á námslánin og bættu svo á sig enn meir skuldum til að "eignast" gott húsnæði í von um að geta unnið af sér skuldirnar. Sjálfur eyddi ég mörgum milljónum í að flytja fjölskylduna milli landa í tvígang til þess að fá góða menntun.

Það er útbreiddur misskilningur að læknar séu "kostaðir" í framhaldsnámi erlendis. Svo er alls ekki, þvert á móti. Laun í framhaldsnámi eru ekki neinn lúxus eins og sumir halda. Nægir oftast bara til að hafa það bærilegt. Rafvirkinn sem bjó við hliðina á okkur lengst af meðan ég var í sérnámi var með mun betri innkomu en ég fyrir helmingi færri unna tíma! Hann var meira að segja með meira tímakaup en ég fyrir að sitja heima á tíðindalitlum útkallsvöktum fyrir orkuver en ég hafði fyrir að vera allan slólarhringinn á brjálaðri staðarvakt á spítalanum.

Heima á Íslandi er oft vitnað í innkomutölur um einstaka lækna íslenska sem reka sjálfa sig sem fyrirtæki og hafa milljónir á mánuði í skattlagða innkomu. En það eru sko undantekningarnar. Þó læknar hafi getað „haft það gott“ á pappírnum þá fylgir því gríðarleg vinna. Vegna aðstæðna er vinnu- og sérstaklega vaktaálag á sérfræðinga heima mun meira en eðlilegt þykir í öðrum löndum. Það hefur aldrei komið almennilega fram í umræðunni - merkilegt nokk.


Tækjabúnaðurinn 

Það eru ekki bara launakjörin sem eru að gefa sig þarna heima. Tækjakosturinn er gamall, bilaður og úreltur. Um daginn var verið að grafa eftir fornminjum í grasblettinum fyrir utan sérhæfðasta spítala landsins. Ég lagði þá til að fólkið hætti þessu púli og kæmi bara í kaffi inn á skurðstofugang. Þar gætum við sýnt þeim alvöru fornminjar í fullri notkun.

Það má ekkert kaupa eða endurnýja. Þegar eitthvað er loks keypt, oftast vegna þess að það gamla datt í sundur í notkun, þá er það verðið sem öllu ræður. Í þessu sem öðru gildir að gæðin eru tengd við það verð sem greitt er. Iðullega eru valin ódýrari tæki, minna hentug og hreinlega lélegri bara til að spara á pappírnum.

Nýlega varð til dæmis að henda heilum lager af nálum og lyfjabrunnum sem keypt var ódýrt frá austurlöndum, að mér skilst. Lyfjabrunnar eru aðallega notaðir til að hjálpa krabbameinsveikum en þetta var svo lélegt að það var ekki þorandi að nota það!

Góðgerðafélög 

Hið opinbera reiðir sig stöðugt á að líknar- og góðgerðafélög gefi fé til nauðsynlegra tækjakaupa. Fyrir bragðið hallar verulega á ýmsar deildir þar sem ekki þykir eins fínt og hjarta-, barna- eða krabbameinsdeildir. Fást einhverjir til dæmis til að stofna styrktarsjóð botnlanga- og gallblöðrusjúklinga svo hægt sé að safna fyrir almennilegum kviðsjárgræjum á hátæknispítalann?

Ráðamenn tala enn um að það sé hægt að spara í heilbrigðisgeiranum „án þess að minnka þjónustustigið“. Staðreyndin er að þjónustustigið hefur í flestu tilliti minnkað jafnt og þétt í mörg ár og nú fer það að hrynja ef ekki er spyrnt við fótum.

Hátæknisjúkrahús 

Að lokum skulum við hafa það hugfast að hátæknisjúkrahús verður ekki byggt úr steinsteypu heldur úr góðum vinnuaðstæðum fyrir hámenntað, ánægt fólk sem fær að velja sér góð tæki og efni að vinna með. Ef við höfum ekki efni á því höfum við alls ekki efni á steinsteypunni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband