Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

Já, yrði Össur ekki bara góður forseti þrátt fyrir allt ...?

Einhverjir gera að því skóna að Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og fyrrum utanríkisráðherra, ætli að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ég held að hann væri nú bara skástur þeirra sem ég hef heyrt að hafi áhuga á djobbinu.

Ekki þekki ég Össur persónulega. Man bara eftir honum sem róttækum vinstri manni í Háskólapólitíkinni um það leyti er ég hóf þar nám. Sat nokkrum sinnum í stjórn stúdentaráðs og horfði með undrun á Össur, þennan skarpa kómmónista sem ekki hataðist við forystu Vökumanna heldur tókst á við þá með leiftrandi húmor.

Hann var kjaftfor, veifaði hreinu sakavottorði sem líklega var frekar óalgengt meðal róttæklinga og reif kjaft á áheyrendapöllum Alþingis. Össur var á þessum árum svona almennt velheppnaður Marxisti, Trotskyisti, Leninisti, Stalinisti eða hvað það hét nú sem þessir krakkar áttu við að etja í sál sinni á þessum tíma.

Svo læknaðist Össur og hóf vegferð sína til hægri.

Hann dvaldi um stund í Alþýðubandalaginu, var þar vinamargur enda góður sögumaður og með auga fyrir hinu skoplega í tilverunni. Ekki man ég eftir því að hann hafi komið við í Alþýðuflokknum en þegar vinstri menn ákváðu að sameina vinstrið í íslenskum stjórnmálum stökk hann til og varð fyrsti formaður Samfylkingarinnar.

Þar vermdi hann að eigin sögn sætið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var vinstrisins útvaldi formaður. Þar með var sagan skrifuð og síðan hefur leið Samfylkingarinnar legið niður á við. Jafnaðarmenn hafa alla tíð haft einkennilegt lag á að niðurlægja og rægja formenn sína. Bæði lentu í þeim óþrifum, Össur og Ingibjörg. Össur er sá eini sem lifði það af í pólitíkinni.

Össur varð svo utanríkisráðherra í einu vinstri stjórninni sem enst hefur út kjörtímabilið, að minnsta kosti svona formlega séð. Örlög hennar voru að vísu eins og Brésnefs, aðalritara sovéska kommúnistaflokksins, sem dó löngu áður en honum og samstarfsmönnum hans varð það ljóst. Vinstri stjórnin dó þegar þjóðin hafnaði Icesave en stjórnin vissi bara ekkert af því fyrr en löngu síðar heldur hélt áfram að gera óskunda í þjóðlífinu eins og uppvakningurinn Móri sem hljóp erinda þeirra sem vöktu hann upp.

Hæst bar stjórnmálaferil Össurar Skarphéðinssonar er hann þann 16 júlí 2009 bar upp þingsályktunartillögum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og fékk hana samþykkta. Þr var hann sem sigurvegari og veifaði þingsályktuninni rétt eins og hann hafði mörgum árum áður veifað sakavottorðinu sínu.

Aftur á móti verður að segjast að Össur hefur vissulega skrapað botninn á stjórnmálaferli sínum. Þessi fimm mál marka þann botn:

  1. Þingsályktunartillagan um aðildina að ESB og að hafa neitað að bera málið fyrst upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  2. Fullyrðingin um að aðlögunarviðræðurnar væru aðildarviðræður og ESB og Ísland gætu samið jafnvel þvert á Lissabonsáttmálann.
  3. Fullyrðingin um að fiskveiðiauðlindir Íslands gætu verið undanþegnar í aðlögunarviðræðunum við ESB
  4. Stuðningurinn við Icesave samninganna.
  5. Þrátt fyrir digurbarkalega kosningabaráttu féll vinstri stjórnin eins móbergshnullungur úr tindi Vífilsfells og endar í frumeindum fyrir neðan.

Þrátt fyrir allt þetta og miklu meira virðist Össur haldið geðprýði sinni og skopskyni. Manninn markar hvernig hann tekst á við áföllin. Þau hafa ekki mótað hann heldur styrkt. Hann stendur teinréttur þrátt fyrir ESB málið, Icesave og síðustu kosningar, lætur eins og ekkert hafi í skorist, bara gleymir öllu eða mótmælir öllu.

Já, ég væri alveg tilbúinn til að kjósa Össur í forsetakosningunum. Ég hef þá trú að hann, líkt og Ólafur Ragnar Grímsson, standi með þjóðinni og gefi lítið fyrir hagsmuni gamalla baráttufélaga sem trúa innst inni á rússnesk gáfumenni í kommúnistaflokki eða sameinaða og sundraða vinstrimenn í móbergsrykinu undir Vífilsfelli eða annars staðar.


Sóley Tómasdóttir í vörn vegna miðbæjarskipulagsins

Hvað skipulagsmál í miðborginni varðar, þá held ég að langflestir séu sammála um það að það mætti vera minna byggingarmagn á þeim reit sem að um ræðir. Það er aftur á móti ekki það sem ég hef mestar áhyggjur af.

Það sem mér finnst undarlegt og mér finnst vera eitthvað sem þarf að fara að ræða, er áhugasvið forsætisráðherra og það hvernig hann ítrekað virðist vera að skipta sér af viðfangsefnum sveitarstjórnarstigsins. Ég velti því fyrir mér hvort forsætisráðherra ætli að fara að skipta sér af opnunartíma sundstaða eða öðrum viðfangsefnum sveitarstjórnarstigsins. Hvort honum sé eitthvað óviðkomandi yfir höfuð.

Þetta segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, í visir.is í dag. Hún fordæmir skoðanir forsætisráðherra á skipulagi miðbæjar Reykjavíkur. Engu að síður virðast borgarbúar vera sammála ráðherranum og skilja lítið í skipulaginu.

Stefnuleysi meirihlutans í borgarstjórn er æpandi. Þar er engin virðing fyrir fortíðinni, allt miðast við að byggja sem mest á hverjum stað.

Afskipti forsætisráðherra eru fullkomlega eðlilegar. Reykjavík er höfuðborg landsins og allir hafa leyfi til að benda á það sem þar fer miður. Ástæðan er einfaldlega sú að skipulag er þess eðlis að þegar hafist er handa við vinnu samkvæmt því er ekki aftur snúið. 

Skiptir engu þó Sóley Tómasdóttir skæli í fjölmiðlum og hreyti einhverjum ónotum í forsætisráðherra, hún má gera það sem henni þykir mestur sómi að. Hitt sjá allir að hún reynir að beina athygli frá gagnrýni ráðherrans og að einhverju allt öðru. Staðreyndin er nefnilega sú að skipulag norðurhluta miðbæjarins gengur ekki upp, það er í engu samhengi við syðri hlutann.

Svo má benda forsætisráðherra á að einstakir miðar á sundstaði borgarinnar eru seldir við okurverði. Sóley Tómasdóttir vill ekki taka á því.


Árni Páll krefst rannsóknar eftir pólitískum hentugleikum

Í aðalatriðum held ég að það fyrirkomulag sem sett var upp hafi gengið vel. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, eins og mér finnst hv. þingmaður og reyndar margir fleiri stundum óska sér. Það varð niðurstaða Alþingis að skilja með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti á milli stjórnmálanna og þess hvernig farið væri með eignarhaldið í fjármálastofnunum sem ríkið ætti aðild að. Það er einfaldlega þannig að Bankasýslan er algerlega sjálfstæð í störfum sínum og ráðherra er samkvæmt lögum bannað að hafa afskipti af þeim nema með tilteknum hætti sem er þá í formi skriflegra tilmæla sem Bankasýslan bregst við og þau samskipti eru síðan gerð opinber.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi 21. október 2010, en þá var á þinginu rætt um kaup Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna á eignarhaldsfélaginu Vestía. Landsbankinn seldi félagið í án nokkurs útboðs eða í söluferli af neinu tagi.

Í gær virðist dálítill annar skilningur uppi á möguleikum fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnar Íslands en var þegar Steingrímur Sigfússon gegndi stöðunni.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sagði þetta á Alþingi í gær:

Við vissum það eftir umfjöllun á opinberum vettvangi á síðasta ári, um sölu Landsbankans á Borgun, að það fyrirtæki hafði verið selt til útvalinna kaupenda sem voru sérvaldir af Landsbankanum og fengu einir að bjóða í Borgunarhlutinn. Salan fór fram í leyni og án nokkurrar samkeppni um verð og verðið var hlálegt miðað við virði fyrirtækisins og arðgreiðslur úr því.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við og endurreisa traust á Landsbankanum eftir þessa hörmungarsögu alla saman [sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun]? Styður hann hugmyndir okkar um rannsókn á sölunni, fyrirkomulagi hennar og tildrögum? Mun hann standa með okkur að því að knýja fram slíka rannsókn til að allt fáist upp á borð varðandi þessi viðskipti og þá sé hægt að draga af því lærdóm þegar við höldum áfram með fyrirsjáanlega sölu ríkiseigna á næstu missirum?

Formaður Samfylkingarinnar óskaði ekki eftir rannsókn á sölu Landsbankann á eignarhaldsfélaginu Vestíu á árinu 2010, var hann þó með fullri meðvitund og glaðvakandi. Nú vill hann upphefja gríðarlegar rannsóknir á sölunni á Borgun og heldur að fjármála- og efnahagsmálaráðherra hafi einhver tök á því að seilast til innan Landsbankans og tukta þar menn. 

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, sem gegnir stöðunni nú, eru sammála um þessi mál. Bankasýslan fer með málefni Landsbankans en ekki stjórnmálamenn. Punktur.

Skýringin á upphlaupi Árna Páls er einfaldlega þessi: Pólitísk markmið Samfylkingarinnar eru að berja á núverandi ríkisstjórn, skiptir engu að síðasta ríkisstjórn gerði nákvæmlega það sama. Þá var það ekki „glæpsamlegt“ en er það nú.

Er nokkur furða þótt margir dragi í efa að Samfylkingin eigi framtíð fyrir sér.


Nei takk, ekki Baldur Þórhallsson

Spurt er í dag í könnun á vegum Gallups á Íslandi hvort stuðningur sé fyrir því að Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, verði næsti forseti Íslands.

Ég hef engan áhuga á Baldri. Held að nóg sé af vinstri gáfumönnum í hugsanlegu framboði svo ekki bætist við einn enn.

Greinilegt er að margir eru að hugsa sér til hreyfings nú þegar þokkalega launað starf á Bessastöðum er í boði. Helst er snoppufrítt fólk sem lítið sem lítt hefur skarað framúr samborgurum sínum sjái djobbið í ljósrauðum bjarma, jafnvel eldrauðum. Má vera að þjóðin þurfi á lítilsigldum náunga að halda, manni sem hefur helst ekki neinar skoðanir aðrar en þær sem falla hinum vinstrimönnum vel í geð.

Vinir eru þó vinum verstir. Vinstri gáfumaður þarf þó ekki alltaf að vera trúr og dyggur vinur vinstri intelligensíunnar þegar á reynir. Dæmi eru um að vinstri gáfumaður í embætti forseta Íslands hafi valið að standa frekar með þjóðinni. Slíkt er kallað að standa í lappirnar.


Prinsíppið maður, prinsíppið ...

AxlaböndHér er auðvitað um mikla skerðingu á persónufrelsi að ræða, þegar verið er með lagaboði að reyna að hafa vit fyrir fólki á þennan hátt, og raunar mjög skiptar skoðanir um málið úti í þjóðfélaginu.

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, alþingimaður og síðar ráðherra, á Alþingi árið 1981 við umræður um lögleiðingu öryggsbelta í bifreiðum. Ummælin hennar og annarra eru rifjuð upp í stórskemmilegri grein í Morgublaði dagsins en hún byggist öðrum þræði á viðtali við Ómar Ragnarsson um þessi mál.

Svo vitlausar voru skoðanir þingmanna fyrir 35 árum og gengu þau þvert á flokka, fjölmargir voru töluðu tóma steypu miðað við það sem við vitum í dag. Aðrir voru skýrir og skynsamir eins og Vilmundur Gylfason. 

Sá sem þetta ritar var nú ekki neitt miklu merkilegri en aðrir, hvort sem þeir voru á þingi eða annars staðar í þjóðfélaginu. Við og nokkrir félagar í Vöku í Háskóla Íslands tuðuðum eins og Jóhanna Sigurðardóttir um skerðingu á persónufrelsi og réttinn til að aka um hættulega fjallvegi og eiga þess kost á að henda sér út úr bílnum. 

Henda sér hvert?

Löngu síðar, eftir að ég hafði farið að nota öryggisbelti, valt bíll sem ég var farþegi í af sléttum vegi og út í móa. Á meðan bíllinn rúllaði flögraði ekki að mér að kasta mér út úr honum né heldur velti ég því fyrir mér hvernig ég ætti að sleppa óslasaður frá þessum hörmungum. Ég reyndi bara að halda mér. Svo endaði bíllinn á réttum kili og enginn slasaðist. 

Af þessu óhappi lærði ég þá einföldu staðreynd að slys gerast svo hratt að enginn tími er til annars en að bíða þess sem verða vill. Á meðan er lífsnauðsynlegt að geta treyst á öryggisbelti og loftpúða.

Auðvitað þráaðist ég við að setja á mig öryggisbelti í einhvern tíma eftir lögleiðingu þeirra. Þetta snérist allt um prinsíppið maður, prinsíppið ... Láta ekki einhvern úti í bæ stjórna lífi manns.

Svo gerist það einhvern tímann er ég einu sinni sem oftar spennti ársgamlan son minn í öryggisstólinn í aftursæti bílsins. Svo ek ég síðan af stað með einhvern rugludall í farþegasætinu við hliðina á mér. Man ekkert hver það var. Og hvað heldurðu? Sá segist undrandi á því að ég gæti öryggis barnsins en ekki míns, spenni ekki öryggisbeltið mitt.

„Hvers á barnið þitt að gjalda ef eitthvað kemur fyrir,“ spurði þessi náungi.

Það kemur ekkert fyrir mig vegna þess að ég er svo góður bílstjóri, fullyrti með sama hroka og elsti bróðir minn átti stundum til enda vissum við allt, kunnum allt miklu betur en allir aðrir.

„Eru aðrir bílstjórar jafngóðir og þú,“ spurði þessi maður í farþegasætinu og horfði á mig.

Mér vafðist tunga um höfuð, því þrátt fyrir að vera hrokafullur „besservisser“ var ég ekki það vitlaus að ég skildi ekki hvað maðurinn átti við.

Ekki man ég hvort ég spennti beltið í þessari ökuferð. Hafi svo verið gerði ég það ábyggilega gert með einhverri ólund.

En upp frá þessum degi hef ég alltaf ekið með beltin spennt og allir í mínum bíl. Raunar tók það nokkurn tíma fyrir mig að átta mig á því að farþegar í aftursæti þurfa líka að spenna belti. 

Ég endilega koma því aftur að á þessum vettvangi að ég notaði nákvæmlega þessi rök gegn elsta bróður mínum sem þráaðist lengur en ég við að spenna öryggisbelti í bíl. Hann var greindari maður en ég og horfði á mig um stund og sagði svo: Já, þú meinar það. Uppfrá því ók hann alltaf með spennt belti.

Svo verð ég að segja að mikið andskoti vorum við vitlaus þarna forðum daga í Vöku. Og líka Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og hin gáfumennin í þjóðfélaginu sem skildu ekki þjóðfélagslega þýðingu þess að hafa öryggisbeltin spennt - alltaf.

Myndin er af axlaböndunum mínum, fann ekki mynd af öryggibeltinu.


Getur Gylfi Magnússon rætt hlutlaust um einkavæðinu bankanna?

Það fór eiginlega allt úrskeiðis sem hægt var í fyrri einkavæðingunni. Ferlið var ekki gagnsætt. Leikreglurnar voru ekki ljósar í upphafi og voru kannski ekki einu sinni eðlilegar,

Gylfi Magnússon fyrrum ráðherra lætur hafa ofangreint eftir sér í viðtali á visir.is í dag í tilefni þess að hann ætlar að halda fyrirlestur um „aðferðafræði við einkavæðingu og hvað hægt er að læra af einkavæðingarferlinu 2002-2003“.

Gylfi er dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Íslands þegar Icesave málið varð að gríðarlegu vandamáli í samskiptum Hollands, Bretlands og Íslands. Einkabankinn, Landsbanki Íslands, hafði orðið gjaldþrota og Gylfi og samráðherrar hans í vinstri stjórn lýðveldisins og stuðningsmenn á Alþingi vildu að ríkissjóður ábyrgðist skuldir bankans við innistæðueigendur í þessum löndum. Þekktastur er hann fyrir að hóta þjóðinni með því að halda því fram að Ísland yrði sem „Kúba norðursins“ druslaðist hún ekki til að samþykkja ríkisvæðingu skulda gjaldþrota einkabanka.

Þjóðin hafnaði margsinnis skoðunum Gyfla og félaga hans, síðast var ríkisstjórninni sem hann sagt í kastað á öskuhauga sögunnar.

Í Fréttablaðinu þann 14. febrúar reyndi Gylfi að draga ummæli sín til baka, en hann gerði það með greinilegri ólund og leiðindum á þennan hátt:

Samlíkingin við Kúbu var vanhugsuð og kjánaleg og ekki nema sjálfsagt að biðjast velvirðingar á henni.

Enn kemur Gylfi og telur sig hafa nýjar og haldbærar upplýsingar um einkavæðingu bankanna sem ekki hafa enn komið fram? Varla.

Má búast við hlutlausum dómi Gylfa yfir einkavæðingunni? Nei, hann er þegar búinn að segja það sem segja þarf. Hann mun ábyggilega verða jafn pólitískur og hlutdrægur eins og þegar hann hótaði þjóðinni með „Kúbu norðursins“.

Á þessum vettvangi hefur oft verið skrifað um einkavæðingu bankanna. Enn er úr vegi að rifja aðeins upp hvernig var með hana.

Ríkisendurskoðun

Ein mikilvægasta stofnun Alþingis er Ríkisendurskoðun. Munum að hún lýtur ekki framkvæmdavaldinu heldur löggjafarvaldinu. Enginn getur haldið því fram með neinum rökum að stofnunin sé vasanum á stjórnvöldum á hverjum tíma og framleiði fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Hún nýtur einfaldlega óskoraðs sjálfstæðis og fer vel með það. 

Í Desember 2003 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þetta er afar merkileg skýrsla og raunar sú eina sem gerð hefur verið á einkavæðingu bankanna. 

Enginn hefur gagnrýnt úttektina. Það sem merkilegra telst er að þeir sem hafa hnýtt í einkavæðingu bankanna gera það ekki með rökum úr skýrslunni. Ekki einu sinni Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands hefur gagnrýnt hana.

Söluaðferðin

Jú, bankarnir féllu, en var það vegna þess að þeir höfðu verið einkavæddir? Margir halda því fram.

Það gleymist þó að Glitnir var ekki ríkisbanki og hafði aldrei verið, ekki heldur forverar hans. Hann var stofnaður sem Íslandsbanki árið 1990 en ári áður höfðu einkabankarnir Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands

Var þá hrunið vegna einkavæðingar tveggja ríkisbanka? Í áðurnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar voru engar athugasemdir gerðar vegna þessa þó hún segi að um sölu á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands:

 „... verði að teljast óheppilega. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Þetta er eiginlega það bitastæðasta sem Ríkisendurskoðun hafði um einkavæðinguna að segja. Engin spilling fannst, ekkert tortryggilegt annað en þetta með dreifða eignaraðild. Engu að síður voru um 32% Landsbanka Íslands í eigu annarra en tíu stærstu

Spilling

Einkavæðing bankanna var eðlilegur þáttur í framþróun þjóðfélagsins. Fyrirkomulagið sem gilti áður var gjörsamlega gagnslaust. Ekki nokkur maður með viti vill fara aftur til þeirra ára er þingmenn sátu í bankaráðum og bankastjórar voru skipaðir pólitískt.

Um leið ættu allir að vita að bankar eru í einkaeigu víðast um öll lönd, engin krafa hefur verið gerð um breytingar á því fyrirkomulagi. Vandinn í bankarekstri, eins og í öðrum rekstri, er að misjafn sauður er í mörgu fé. Einkavæðing bankanna mistókst ekki, en þeir sem eignuðust þá og ráðandi hluti í þeim fóru með þá á hausinn. Svo einfalt er málið.

Það tíðkasta að tala um spillingu jafnvel gjörspillingu, sérstaklega í stjórnkerfinu ef ekki líka á Alþingi. Þannig tala aðeins rökþrota fólk sem reynir með öllum ráðum að upphefja sjálft sig. „Nei, ég er sko ekki spilltur það eru allir hinir sem eru vondir og spilltir.“

Einkavæðing ríkisbankanna tveggja var ekki ástæðan fyrir hruninu. Ekki frekar en það sé bílaframleiðandanum Toyota að kenna að ökumaðurinn í Yaris bílnum var fullur og olli stórslysi. Sé svo er öllu snúið á hvolf, rangt verður rétt og rétt verður rangt. 

Fróðlegt verður að heyra skoðun Gylfa Magnússonar, fyrrum ráðherra, sé á einkavæðingunni. Hins vegar er óhætt að fullyrða að engar nýjar upplýsingar munu koma fram hjá honum, aðeins útúrsnúningur og tætingur úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hálfsannleikur á borð við „Kúbu norðursins“.

 


Hvenær má maður fá uppreist æru og gerast nýtur borgari?

Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru manndráp einkamál. Hugmyndin um ríkistryggða mannhelgi kom með konungsvaldi. Í stað hefndardrápa milli fjölskyldna, og eftir atvikum sátta þeirra á milli, tryggði ríkisvaldið samfélagsfriðinn með því að gera manndráp að opinberu refsimáli.

Þessi ágætu orð ritar Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggsíðu sinni „Tilfallandi athugasemdir“. 

Hefnd er alltaf vond og í eðli sínu ljót vegna þess að þó hún hafi greinilegt upphaf er enginn glöggur endi á henni. Fornsögur okkar segja frá hefndardrápum og líka sáttum. Mörgum er minnistætt niðurlag Harðar sögu og Hólmverja en þar segir (greinaskil og feitletrun en mín):

Þá hafði Hörður nítján vetur og tuttugu er hann var veginn og höfðu honum flestir tímar til heiðurs og metnaðar gengið utan þeir þrír vetur er hann var í útlegð.

Segir og svo Styrmir prestur hinn fróði að honum þykir hann hafa verið í meira lagi af sekum mönnum sakir visku og vopnfimi og allrar atgjörvi, hins og annars að hann var svo mikils virður útlendis að jarlinn í Gautlandi gifti honum dóttur sína, þess hins þriðja að eftir engan einn mann á Íslandi hafa jafnmargir menn verið í hefnd drepnir og urðu þeir allir ógildir.

Hér er átt við að allir voru „löglega“ drepnir vegna vígs Harðar Grímkelssonar og lesandi sögunnar fagnar eflaust í huga sér enda var hann hetja mikil. Hörður var þó útlagi í Hvalfirði síðustu þrjú ár ævi sinnar og var búandfólki þar til mikils ama og tjóns. Tóku bændur því sig til og drápu Hörð og héldu að þar með væri vandinn úr sögunni. Þeir reiknuðu þó ekki með hefndinni.

Löngu síðar gerist það í „siðaðra“ manna þjóðfélagi að rétturinn til hefndar flyst til ríkisvaldsins og heitir eftir það refsing. Hún er gerð að lögum og þeir sem brjóta af sér fá allir svipaða refsingu.

Þrátt fyrir ríkisvæðingu hefndarréttarins hefur hefndarþorstinn ekki aldeilis vikið úr huga fólks. Að sumu leyti er það ósköp skiljanlegt enda æ sjaldgæfara að fólk leyfi sér að fá útrás fyrir þörfina á að hefna.

Stundum er sagt að þjóðfélag Íslendinga byggist á kristilegum gildum. Sjaldnast eru þau gildi útskýrð nánar. Þegar betur er að gáð má segja að þau birtast í nokkrum lífsreglum sem eiga rót sína að rekja til boðorðanna tíu og boðskaps í ritum Nýja Testamentisins. Bregðist mér ekki minnið byggjast þau öðru fremur á kærleika, virðingu fyrir lífi og öðru fólki, réttindum annarra og ekki síst að rækta eigin anda. Þetta og fleira til er flestum mikilvægt hvort sem fólk telur sig kristið eða ekki. Með jákvæðni hugarfarsins byggja menn samfélag og styrkja samstarf milli fólks og þjóða.

Hefndin skilar hins vegar aldrei neinu, hún býr til ástand upplausnar og erfiðleika. Eitrar samfélagið og samskipti fólks.

Á hverju nærist nú allur þessi hefndarþorsti sem lesa má um í fjölmiðlum svo ekki sé talað um athugasemdadálka? Er fólki sjálfrátt að þessu leyti? 

Fjöldinn allur af bíómyndum og sjónvarpsþáttum eru í boði hér á landi og um allan hinn vestræna heim og víðar. Einhvern veginn er það svo að áhugaverðustu myndirnar fjalla um morð, eltingaleik við morðingjann, réttarhöld yfir honum og síðast en ekki síst hefnd makans, barna eða annarra. Jú, þetta er svo óskaplega skemmtilegt, ég viðurkenni það. Smám saman síast þó inn að dauðarefsingin sé réttlætanleg og ef um allt þrýtur megi sá sem á um sárt að binda refsa sjálfur, drepa helv... morðingjann.

Fyrr en varir fer ég að trúa því að hefndin sé mín skoðun og sannfæring og því réttlætanleg. Þá velti ég því fyrir mér hversu oft réttlætinu hafi ekki verið fullnægt af sjálfskipuðum dómara og böðli sem fór einfaldlega mannavillt? Hvar varð um réttlætinguna þegar mistökin uppgötvuðust? 

Ennfremur má spyrja hversu oft brotamönnum verið neitað um tækifæri til betrunar? Sá sem ekki fær betrun leiðist óhjákvæmilega aftur og aftur inn á glæpabraut vegna þess að honum hefur ekki boðist neitt annað.

Þannig snýr samfélagið baki við þeim sem þurfa á því að halda og líf fjölda fólks verður verra.

Margir eru eflaust búnir að gleyma gömlu konunni sem fyrir um sextán árum var myrt heima hjá sér í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Morðinginn fékk auðvitað makleg málagjöld og var dæmdur í sextán ára fangelsi. Nokkrum árum síðar gerast þau undur að sonur konunnar heimsótti morðingja móður sinnar í fangelsið, ræddi við hann og fyrirgaf honum ódæðið ... Það hafði hins vegar engin áhrif og ódæðismaðurinn hélt áfram á glæpabrautinni eftir að hann losnaði úr fangelsi.

Niðurstaðan er því sú að hin kristilegu gildi eru ekki algild í þjófélaginu. Sumir trúa á fyrirgefninguna en aðrir styðja sig við hefndina.

Ekki veit ég hvað einsatklingur þarf að sitja lengi í fangelsi til að öðlast rétt til lífs á ný. Ef til vill leggst dómstóll götunnar alfarið gegn því að nokkur maður fái uppreist æru sinnar, geti snúið aftur, tekið þátt í þjóðfélaginu og gerst nýtur maður þrátt fyrir glæp sinn. Eflaust kunna sumir að benda á ódæðismanninn sem myrti gömlu konuna í fjölbýlishúsinu og segja að mönnum sé ekki viðbjargandi.

Vera má að enginn geti breyst til hins betra. Þá er vissara að fjölga fangelsum og auka refsingar því einhvern tímann sagði kunnur maður að sá einn sem syndlaus væri ætti að kasta fyrsta steininum. Ábyggilega er leitun að slíkum manni, hann finnst þó einna síst í athugasemdakerfum fjölmiðla eða meðal þeirra sem hæst hrópa.


Er Kári Stefánsson hættur að leggja samstarfsfólk sitt í einelti?

Ég sagði að ég hafi rek­ist á þing­mann Sjálf­stæðis­flokks­ins í Kringl­unni í gær og að hann hafi komið með þá kenn­ingu að frum­varpið hafi verið samið af Hög­um.

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í viðtali við mbl.is. Með öðrum orðum sagt er Kári að dreifa sögusögnum. Það verður honum aldrei til framdráttar, en hversu mikinn frama þarf hann frekar.

Ég hitti lögreglumann í gær sem sagði að hann væri ekki viss um að Kári Stefánsson sé hættur að leggja samstarfsfólk sitt í einelti.

Er ekki alveg hrikalegt hversu vondur maður Kári er?“

„Jú, hann er skeppna.“

„Hann er skíthæll enda leggur hann samstarfsfólk sitt í einelti?“

Með því að dreifa sögusögnum er verið að gera lítið úr viðkomandi. Hér er ég að skrökva til um Kára og læt þess getið hvernig fólk hugsanlega gæti tekið á svona upplögnum fréttum. Er það ekki tilgangurinn með sögusögnum?

Sá sem ekki getur vitnað til heimildarmanns er einfaldlega að fara með staðlausa stafi. Slíkt er afar ómerkilegt.

Ég hef enga trú á því að þingmaður einhvers flokks vilji vera heimildarmaður Kára sé um að ræða eitthvað sem gæti komið samflokksmanni hans illa. Raunar er ég þess fullviss að enginn þingamaður ljúga upp á samþingmann sinn, sama í hvaða flokki hann er.

Ég er ekki jafnviss um heilindi Kára Stefánssonar eigi ég að taka mig af sögu hans um að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi fengið Haga til að semja áfengisfrumvarpið. Og að Kári skuli leggja samstarfsfólk sitt í einelti. Hræðilegt ...


mbl.is Segir yfirlýsinguna illa hugsaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af bílum sem taka tvö stæði í bílahúsi

IMG_5055Flestir lifa lífinu þannig að þeir vilja leggja af ósiði og bæta sig, þar með að taka ríkara tillit til annarra. Sá sem þetta ritar er jafn breyskur og aðrir en reynir hvað hann getur að vera hjálpsamur, málefnalegur ... en ekki tekst það nú alltaf sem skyldi.

Um þessar mundir hef ég vinnuaðstöðu á Laugaveginum og legg bílnum í Bílastæðishúsið á Hverfisgötunni. Listin IMG_5057að leggja í stæði er mörgum erfið, bílastæðin heldur mjó og oft þyrfti maður á góðri megrun að halda til að geta sæmilega komist út úr bílnum.

Það er hins vegar ekki stóra vandamálið heldur þeir sem ekki höndla þá list að leggja bíl sínum vel í stæði eða þá að þeir hreinlega nenna því ekki.

IMG_5366Daglega bölvar maður þeim sem leggja illa, raunar taka yfir tvö bílastæði með því að staðsetja bíl sinn nærri því á hvítri línu sem afmarkar þau og stundum er hreinlega lagt á línuna eða yfir hana. Tvö stæði tekin.

Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið frá því 17. desember og fram til dagsins í dag. Hér kennir margra grasa.

IMG_5369Ekki er aðeins fínu bílunum illa lagt heldur eru þetta alls kyns bílar.

Viðbáran er eflaust sú að fólk er að flýta sér, má ekki vera að því að leggja almennilega. Sumir eru rétt að skreppa, verða bara nokkrar mínútur.

IMG_5371Betra er að orða þetta rétt. Þeir sem ekki kunna að leggja í stæði ættu ekki að hafa réttindi til að aka bíl. Sá sem ekki getur stjórnað bíl undir svona kringumstæðum er slæmur bílstjóri. Sá sem hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig og tekur ekki tillit til annarra er slæmur bílstjóri. Sá sem er að flýta sér svo mikið að hann geti ekki farið eftir reglum er slæmur bílstjóri.

IMG_5372Hér eru nokkrar myndir teknar í bílastæðahúsinu og sýna hvernig slæmir ökumenn leggja bílum sínum.

Af hverju fara stöðumælaverðir ekki inn í bílahúsin og sekta þá sem taka tvö stæði?

Með því að klikka einu sinni á mynd má stækka hana og þá má betur sjá smáatriðin.


Bálför David Bowies

Blaðamenn kunna ekki allir nærfærnislegt orðalag þegar kemur að andláti einstaklings og jarðarför.

Um hinstu för þess ágæta tónlistamann David Bowie segir til dæmis á mbl.is:

Að sögn Daily Mail voru lík­ams­leif­ar söngv­ar­ans brennd­ar í kyrrþey ...

Á visir.is er orðalagið um sama atburð:

Lík breska listamannsins David Bowie hefur verið brennt til ösku í New York.

Á pressan.is er orðalagið allt annað:

Breskir fjölmiðlar segja að bálför David Bowie hafi farið fram nokkrum klukkustundum eftir andlát hans á sunnudaginn

Líklega myndu flestir segja að bálför sé snyrtilegra og hóflegra orð en flest annað þó svo að annað sé ekki beinlínis rangt.

Vart þörf á að taka það fram að lík hafi verið brennt til ösku nema að hugsanlega séu aðrir kostir mögulegir við bálför. Svo mun þó ekki vera. 

Hins vegar eru líkamsleifar varla rétt orð í þessu tilviki og varla þörf á að skýra það orð nánar.

Þetta er hér nefnt vegna þess að taktleysi og ónærgætni gætir oft hjá sumum blaðamönnum. Þeir kunna ekki að segja frá og skilja ekki að blæbrigði frásagnarinnar eiga að vera ólík eftir því hvað um er fjallað hverju sinni. Ugglaust er það slæmt að blaðamenn skilji þetta ekki en verra er ef enginn segir þeim til.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband