Hjólhýsamover, stofna til nýs lífs og hann Pebble Beach

Orðlof og annað

Prósent

Varast skyldi að líta á orðið prósent sem óbeygjanlegt orð. Fyrirtækið var rekið með fimm prósenta halla. Verðið er sjö prósentum lægra. Fimmtán prósent landsmanna horfðu (ekki „horfði“) á þáttinn. Hundrað komma eins prósents hækkun.

Málfarsbankinn.

Orðið falbeygist svo í eintölu: Prósent, prósent, prósenti, prósents. Í fleirtölu: Prósent, prósent, prósentum, prósenta.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Dómsigur fyrir bann Trump við transfólki í hernum.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Skilur einhver þessa fyrirsögn? Málfræðilega er hún rétt og  engin stafsetningavilla. Er þá ekki allt gott? Nei, bann Trumps sigraði ekkert. Hins vegar hélt tilskipun Trumps sem bannar transfólk fái að gegna herþjónustu.

Tillaga: Trump sigrar í dómsmáli vegna transfólks í hernum.

2.

„Hjólhýsa mover.

Auglýsing á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 15. júní 2019.          

Athugasemd: Fyrirsögnin á auglýsingunni er afar aum. Blandað er saman íslensku og ensku rétt eins og þau séu sama tungumálið. Slík gengur ekki. Skynsamlegra er að nota bara annað tungumálið. Auglýsandinn hlýtur að geta gert betur, þó ekki sé nema af virðingu fyrir hugsanlegum kaupendum.

Í þessu tilviki hefði mátt segja „hjólhýsa hreyfir“ enda verið að kynna tæki sem hreyfir við þungum hjólhýsum, nokkuð sem einn eða tveir menn bifa varla.

Tillaga: Hjólhýsahreyfir.

3.

„Frelsissvipt af barnsföður sínum …

Frétt á dv.is.          

Athugasemd: Veit ekki hvort svona flokkist sem leti, þekkingarleysi eða hvort tveggja. Þá verður til ýmislegt skrýtið: Einhver framkvæmir afbrot, frelsissviptir eða „aðgerðagerir“ í stað þess að brjóta af sér, svipta frelsi eða gera eitthvað.

Blaðamenn sem svona skrifa eru ekki vanir, hafa ekki mikinn orðaforða og gera sér ekki grein fyrir neyðarlegum takmörkunum sínum. Yfirleitt fer betur á því að nota germynd, eins og gert er í tillögunni, heldur en að nota þolmynd, eins og er í tilvitnuninni.

Tillaga: Barnsfaðirinn svipti hana frelsi.

4.

„Fyrir þeim var erfitt að stofna til nýs lífs.

Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Í nokkuð góðri grein er fjallað um afleiðingar slyssins í Chernobyl. Höfundurinn hefði samt mátt lesa greinina miklu betur yfir fyrir birtingu. Nokkur fljótfærni bagar hann.

Tilvitnunin er dálítið skrýtin. Eiginlega er þetta ómöguleg setning, ber mikinn keim af þýðingu úr ensku. Því miður hafði ég ekki fyrir því að kanna heimildina en hún gæti hafa verið svona á ensku:

For them it was difficult to begin a new life.

Á íslensku er það orðað þannig að við getna kvikni nýtt líf. Varla er blaðamaðurinn að tala um erfiðleika við getnað, sem þó er ekki útilokað.

Hins vegar kann að vera að hann eigi við að fólk sem hafi flutt búferlum hafi átt erfitt með að lagag sig að nýju umhverfi. Sé svo væri betra að segja það þannig.

Í greininni segir einnig:

Í Hvíta-Rússlandi bjó fólk á svæði þar sem joðskortur var við líði.

Höfundurinn verður að átta sig á að sjálfvirk villuleitarforrit í tölvunni skilja ekki blæbrigði íslensks mál. Það gerir ekki greinarmun á lýði og líði, hvort tveggja er rétt skrifað en merkingin er ekki hin sama.

Það sem er við lýði er hjá lýðnum og ritað með ufsilon í. Hins vegar er oft sagt að eitthvað líði hjá, líði yfir eða ský líði yfir loftin blá og er allt annað.

Tillaga: Fyrir þau var erfitt að aðlagast nýjum heimkynnum.

5.

„Sjálfstæði Grænlands mun verða.

Frétt á kjarninn.is.           

Athugasemd: Verða hvað? Líklega á blaðamaðurinn við að Grænland muni verða sjálfstætt. Eitthvað útlenskt er við þessa fyrirsögn. Má vera að hún sé nær dönsku en íslensku. 

Tillaga: Grænland mun verða sjálfstætt.

6.

Pebble Beach gaf bestu kylfingum heimsins tækifæri til að sýna klassagolf.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 18.6.2019.          

Athugasemd: Hann virðist vera einstakur maður þessi Pebble Beach og ætti að fara sem víðast með nemendur sína og sýna klassagolf. 

Nei, Pebbel Beach er ekki maður, heldur staður, golfvöllur. Völlurinn virðist vera svo góður að kylfingar hafi náð að spila þar frábærlega vel. Hálfasnalegt að orða þetta eins og segir í fyrirsögninni.

Tillaga: Bestu kylfingar í heimi spiluðu frábærlega á Pebble Beach. 

 

7.

„Samkvæmt könnuninni, sem hafa verður eðlilegan fyrirvara á eins og á öðrum slíkum, eru nú aftur fleiri jákvæðir en neikvæðir vegna aðstæðna í efna- hagslífinu eftir neikvæðari svörun fyrr á árinu þar sem fleiri töldu aðstæður slæmar en góðar.

Leiðari Morgunblaðsins 18.6.2019.         

Athugasemd: Nú kunna einhverir að halda að ég væri með leiðarahöfund Morgunblaðsins á heilanum. Það er að hluta til rétt, hef lesið leiðarann blaðsins með athygli í áratugi. Í gegnum tíðina hafa ritstjórar blaðsins skrifað góða leiðara og hafa aðrir komið að skrifunum og oftast gert vel. Núverandi ritstjóri er beinlínis í uppáhaldi hjá mér.

Nú bregður svo við að ritstjórinn er fjarverandi og einhver sem ekki skrifar vel hleypur í skarðið. Leiðarinn er frekar illa skrifaður, rétt eins og leiðari gærdagsins. Verst er þó að höfundurinn virðist ekki hafa yfirsýn yfir það sem hann vill segja. Skrifin verða því slöpp endursögn úr fréttum en ætti að vera sjálfstæð greining og stefnumið.

Ofangreind tilvitnun úr leiðara dagsins er endemis langloka. Höfundurinn virðist ekki skilja að punktur er besti vinur allra skrifara. Samt fjandskapast hann við blessaðan punktinn og flækir málsgreinar í innskotssetningar og aukasetningar þar til mann þrýtur örendið við lesturinn.

Svona skrif er víti til varnaðar.

Tillaga: Samkvæmt könnuninni eru nú aftur fleiri jákvæðir en neikvæðir vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Fyrr á árinu voru svarendur neikvæðari, töldu aðstæður slæmar, færri fannst þær góðar.


Bloggfærslur 18. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband