Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Orð bera keim af þeim sem þau mæla

SiluettaÞú getur ekki vaðið tvisvar í sömu ánni. Það er alltaf nýtt vatn sem leikur um fætur þér.

Svo mun vera um vatnið eins og Heraklítus sagði í Grikklandi fyrir um 2500 árum. Og eins er það með vatnið og tímann, hvort tveggja er alltaf nýtt sé rétt talið.

Ári að ljúka og nýtt að byrja. Þetta nefnast oft tímamót og æði margir upphefjast rétt eins og að áramót hafi í för með sér náttúrulegar breytingar. Svo er nú ekki. Hinn 1. janúar er litlu frábrugðinn 31. desember. Eini munurinn er talning tímans. Rétt eins og þegar sekúnda verður að annarri, mínúta mætir þeirri næstu, klukkustundir raðast í tímanna safn og svo gerist með daga, vikur, mánuði og endanlega hvert ár.

Þrátt fyrir óteljandi slík mót gerist ekkert í náttúrunni, að minnsta kosti ekkert sem við leikmenn greinum. Hún heldur ekki upp á neitt. Engin uppstytta verður í tilefni áramóta, himinninn mun ekki skjóta eldingum og þeyta þrumum. Sólin mun ekki gægjast óvænt fram úr skýjunum eða hitastig dagsins breytast. Ekkert tekur tillit til tímans þó svo að hann sé alls staðar allt um vefjandi. Náttúran er einfaldlega blind, miskunnarlaus og ópersónuleg. Allt fram streymir endalaust. Jafnvel dýrin skynja ekki nokkra breytingu nema hugsanlega fyrir tilstilli manna. Kýrnar tala ekki mannamál um áramót. Hvorki hundur né köttur tárast og óska hvorum öðrum gleðilegs árs.

Jafnvel klettarnir opnast ekki og huldufólk syngur ekki messu í Tungustöpum landsins og óskasteinninn er ófundinn. 

Svona er þetta nú gjörsamlega gerilsneytt og leiðinlegt þegar litast er um með gagnaugunum. 

Samfélag manna er hins vegar með allt öðrum brag og þar er lífið miklu bjartara en kuldaleg náttúran gefur tilefni til. Við njótum tímans, teljum hann, söfnum honum og geymum til upprifjunar. Dagsmótin eru raunveruleg. Við leggjumst til svefns að kvöldi dags og vöknum að morgni annars. Fyrr en varir fögnum við vikulokum og þannig eru vikumótin nær áþreifanleg. Svo er um mánaðamót, árstíðir og áramót.

Af tilefninu eru ávörpin eru lík og af tilfinningu veitt. Góðan dag, góða helgi, til hamingju með afmæðið, gleðileg jól, gleðilegt sumar ... og gleðilegt ár.

Allt beinist þetta að því sama, að við og allir aðrir getum glaðst. Þannig er lífið bara  okkuð indælt hvort sem við erum búsett hér á landi eða annars staðar enda eiga flestir þá ósk æðsta að njóta lífsins með sínu fólki. Eða eins og Tómas Guðmundsson, skáld orðaði það í ljóðinu „Ljóð um unga konu frá Súdan“:

Samt dáðist ég enn meir að hinu, 
hve hjörtum mannanna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu.

Skrýtilegt er það nú samt hversu fáir virðast gera sér grein fyrir einföldum sannindum.

Í takti við annað fólk er ekki úr vegi að ég snýti mér, þurrki tárin af hvörmum og manna mig upp í að óska lesendum mínum gleðilegs og ekki síst gæfuríks komandi árs. Svo held ég til þess fólks sem ég unni mest. En fyrst þetta:

Lítill drengur spurði föður sinn hvort Neró hefði ekki verið slæmur maður. 

„Gerspilltur,“ svaraði faðir hans ...

Löngu síðar spurði annar drengur föður sinn hins sama.

„Ég veit ekki hvort hægt er að segja það,“ svaraði faðirinn. „Maður má ekki dæma of hart. en því verður ekki neitað að hann fór oft miður heppilega að ráði sínu.“

Hér á landi tíðkast að dæma hart. Virkir í athugasemdum ræða smámál líkt og morð og þar af leiðir að þegar um morð er fjallað er munurinn á því á smáatriðum enginn. Þannig er líka pólitíkin, umræðuhefði. Óþrifatalið ræður öllu enda er það tilgangurinn sem helgar meðalið eins og svo oft áður.

Þessu verður að breyta í stjórnmálum og umfjöllun um þau, jafnt á Alþingi, í fjölmiðlum, í athugasemdakerfum fjölmiðla sem og á kaffistofum og heita pottinum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að orð bera keim af þeim sem þau mæla. Orðum sínum getur enginn afneitað. Betra er því að hugsa sig um áður en illt er mælt.

Ég óska lesendum mínum og nokkrum öðrum landsmönnum gleðilegra áramóta og öllum farsældar á komandi ári.


Tuttugu punktar úr pistlum ársins

Á árinu 2015 ári skrifaði ég samtals eitthundrað áttatíu og fimm pistla á þessum vettvangi.

Maður er að slappast, það verður að viðurkenna.

Þegar litið er yfir það sem ég hef skrifað á árinu 2015 er vekur eftirfarandi að minnsta kosti athygli mína:

  1. Fyrir hönd ríkissjóðs keypti skattrannsóknarstjóri lista yfir skattsvikara og greiddi fyrir án reiknings, sem sagt á svörtu. Skyldi Ríkisskattstjóri gera athugasemdir við viðskiptin?
  2. Samstöðuganga þjóðarleiðtoga vegna morðanna í útgáfufyrirtækinu Charlie Hebdo var sviðsett. Íslenski forsætisráðherrann tók ekki þátt í leikritinu og fékk miklar ákúrur frá stjórnarandstöðunni.
  3. Á landsfundi Samfylkingarinnar fór allt í handaskolum. Rafræn kosning klikkaði, gerð var tilraun til valdaráns, þeir sem máttu kjósa fengu það ekki, þeir sem ekki máttu kjósa fengu leyfi til þess og formaðurinn var endurkjörinn með einu atkvæði. Ríkisútvarpið hafði ekkert við þetta að athuga. En hefði sonalagað gerst hjá Sjálfstæðisflokknum ...
  4. Árangur Pírata í skoðanakönnunum helgast af því að Sjálfstæðismenn eru of latir til að berjast og of feitir til að flýja. Grínlaust virðist sem að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn kerfisflokkur en Píratar verndarar einstaklingsfrelsisins.
  5. Þetta höfðu Staksteinar í Mogganum um náttúrupassann að segja og ég er sammála: „Passinn hafði það þó umfram gistináttagjaldið að hægt var að nota hann til að abbast upp á, angra og auðmýkja landann þegar hann labbaði inn á forna slóð.“
  6. Hver skyldi hafa fundið upp á þeirri vitleysu að kalla leikmenn í boltaliði „lærisveina“ þjálfarans? Sumir fjölmiðlamenn halda þessu statt og stöðugt fram sem ber ekki vitni um annað en þekkingarleysi og skort á málskilningi.
  7. Vitræn umræða um kjarasamninga og verkföll er útilokuð nema launþegafélög og atvinnurekendur gefi réttar upplýsingar um kjör launþega, heildarlaun og útgreidd laun. Ef ekki heldur leikritið í kjarasamningum áfram en það var skrifað fyrir fimmtíu árum.
  8. Kosningaúrslitin í Skotlandi síðasta vor urðu þau að flokkur sem fékk 50% atkvæða fékk fimmtíu og sex þingmenn. Aðrir þrír flokkar sem fengu tæplega 47% atkvæða fengu þrjá þingmenn kjörna. Háværar kröfur eru um að sama kerfi verði tekið upp hér á landi.
  9. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, varaði við því að flugvélar geti flogið inn í gosmökk Heklu án þess að flugmenn sjái hann. Starfsmaður Samgöngustofu sem er ekki jarðfræðimenntaður taldi viðvaranir Páls ekki á rökum reistar. Við svo situr enn í dag.
  10. Margir halda að fjölgun ferðamanna sé af hinu góða. Svo er ekki. Alvarleg náttúruspjöll fylgja séu engar gagnráðstafanir gerðar.
  11. Lúpínan er þjóðarblóm, engin önnur jurt má kallast landgræðslujurt.
  12. Menningararfurinn í gömlum húsum í Reykjavík týnist óðum.
  13. Þetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.Svona var skrifað í Morgunblaðinu á árinu.
  14. Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.
  15. Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri.
  16. Sú hugsun að gott sé að breyta klukkunni svo bjartara verði fyrr á daginn er skiljanleg. Hugsunin gengur þó frekar skammt. Í dag er birtutíminn rétt rúmar fimm klukkustundir. Hann lengist ekki við það að breyta klukkunni.
  17. Svokallaður aðgerðarhópurinn Anonymous telst vera pólitískur sértrúarhópur sem hefur umfangsmikla sérþekkingu á tölvutækni og internetinu. Hann er eins og önnur glæpasamtök, mafían, Daesh eða Isis í heimi íslamista. Hópurinn telur hefndina vera sína af því að hann hefur tæknikunnáttu til að beita henni. 
  18. Staðreyndin er sú að opin og lýðræðisleg samfélög í Evrópu eru miskunnarlaust misnotuð af glæpamönnum undir margvíslegu yfirskini, meðal annars trúarlegu. Ekki er hægt að búa við slíkt, það liggur í augum uppi. Ef eftirlit Schengen-svæðisins hefur brugðist að þessu leiti þarf að lagfæra misfellurnar og bregðast við af hörku. Sé niðurstaðan sú að taka upp vegabréfaeftirlit að nýju þá verður svo að vera.
  19. Hvenær er maður kjörin á þing og hvenær ekki? Þetta er ein mikilvægasta spurningin sem hrokkið hefur upp úr þeim stjórnmálamanni sem telur sig hvorki kjörinn né ókjörinn. Líklegast er Mörður Árnason hálfkjörinn.
  20. Sé einhver þannig gerður að hann vilji afsala sér hlutverki sínu sem uppalandi til einhverra óskilgreinds fólks úti í bæ þá verður bara svo að vera. Er hins vegar nokkur vissa fyrir því að þetta fólk boði annað en það sem slæmt er? Þegar öllu er á botninn hvolft er frekar líklegt að börnin læri fátt mikilvægt utan heimilisins ... og auðvitað skólans.

Auðvitað hljóp ég bara á hundavaði yfir það sem ég skrifaði. Eflaust kemur í ljós við nánari rýni að þetta er allt tóm vitleysa.


Er pólitík Ólínu Þorvarðardóttur uppbyggileg og vönduð?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er mynd sem gengur fram af mér. Hún virðist nógu sakleysisleg þó. Tveir æðstu ráðamenn þjóðarinnar blómum skrýddir og skælbrosandi ásamt ritstjóra Fréttablaðsins framan við kyrfilega merktar höfuðstöðvar 365. „Gerðu viðskipti ársins“ segir í myndatexta þar sem vísað er til samnings stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna að mati dómnefndar Markaðarins, Stöðvar 2 og Vísis.

Svo ósmekklega ritar Ólína Þorvarðardóttir, varðaþingmaður Samfylkingarinnar í pressan.is. Við þetta er fjölmargt að athuga og ekki úr vegi að spyrja og svara nokkrum spurningum.

Er Ólína stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar?

Nei, hún er andstæðingur hennar og finnur henni allt til foráttu. Jóhanna2

Var Ólína stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar?

Já, það var hún.

Hafði hún einhverjar athugasemdir við að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, væri valin kona ársins af tímaritinu Nýju lífi?

Nei, síður en svo.

Kallaði hún myndina af Jóhönnu „mellumynd“?

Nei, guð hjálpi þér.

Skrifaði Ólína við það tækifæri eitthvað á þessa leið til ófrægðar Jóhönnu: 

Hér er skólabókardæmi um það hvernig hagsmunatengsl fjölmiðils og valdhafa tvinnast saman á einni mynd. „Mellumynd“ gæti einhver kallað þetta (afsakið orðbragðið). Hér má sjá fjölmiðil koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum, sem aftur njóta góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils.

Nei, en hún skrifaði þetta í í dag í vefritið pressan.is. Hún var ekki að tala um Jóhönnu heldur vondu kallanna.

Gat verið að Nýtt líf hefði kosið Jóhönnu til að „koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils“?

Nei, auðvitað ekki.

Og af hverju er þá Ólína að tuða yfir öðrum sem fá viðlíka sæmd?

Það er einfalt. Ólína er bara á móti núverandi ríkisstjórn og hún studdi síðustu ríkisstjórn og Jóhönnu Sigurðardóttur með ráð og dáð.

Allir aðrir en eru vondir og illa meinandi, þó ekki hún Jóhanna sem þó tók við svipaðri sæmd af fjölmiðli árið 2009.

Svona eru sumir stjórnmálamenn vanir að ausa aðra auri, rétt eins og einhver taki mark á Gróu greyinu á Leiti. 

Sannast sagna eru svona skrif hundleiðinleg rétt eins og sá stjórnmálamaður sem ritar. Hún er með óþrifin upp á baki eftir að hafa rægt vondu kallanna. 

Óskaplega hlýtur svona fólk að vera illa innrætt og í eðli sínu leiðinlegt. Finnst einhverjum svona pólitík skemmtileg og innihaldsrík?

 

 


Svindl fjölmiðla um völvur og spádóma fyrir næsta ár

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur á í vök að verjast allt árið að því er fram kemur í kristalskúlu Völvu DV. Kúturinn sem Dagur B. heldur í raun í og heldur honum á floti, er máttlaus stjórnarandstaða í borginni. Sú lélegasta um áratugaskeið.

Fjárhagsstaða borgarinnar er myllusteinn Dags og þegar sífellt kemur betur í ljós að embættismenn og kjörnir fulltrúar draga ekki úr utanlandsferðum og dagpeningagreiðslum molnar úr undirstöðum sem Dagur hefur treyst á.

Svo segir völva dv.is um framtíðina í borgarstjórn Reykjavíkur. Afar sennilegt ...

Óvandaðir fjölmiðlar halda því fram að hægt sé að horfa fram í tímann og segja til um hvað þá gerist. Auðvitað er það ekki hægt. Enginn getur spáð fyrir um hvað gerist.

Sannarlega er hægt að giska á hvað muni gerast með því að draga ályktanir af því sem þekkt er. Þannig er mjög líklegt að kalt verði fram á vor og hlýrra að sumarlagi en að vetri til.

Gera má ráð fyrir að ríkisstjórn sem situr með stuðningi þrjátíu og átta þingmanna af sextíu og þremur muni halda áfram út kjörtímabilið. Um leið er líklegt að illskeytt stjórnarandstaða muni ekki láta af þeim tilburðum sem hún hefur sýnt síðustu mánuði. Ekki þarf völvu eða spámann til að semja líklega atburðarás með þessari forskrift.

Um veðrið er auðvelt að spá, það er í raun og veru alltaf eins frá ári til árs en þó koma af og til fram einhverjir ófyrirséðir atburðir til dæmis miklir stormar.

Verða einhver eldgos á næsta ári? Hugsanlega. Engin gat þó spáð fyrir um eldgosin á Fimmvörðuhálsi, í Eyjafjallajökli, Vatnajökli eða í Holuhrauni. Enginn spáði fyrir um efnahagshrunið 2008.

Svona spámennska í fjölmiðlum er auðvitað ekkert annað en tilraun til að selja blöðin. Völvur eða spákonur eru einfaldlega samantekin ráð á ritstjórnum um sennilegar ágiskanir. Síst af öllu eru þetta staðreyndir og fjarri lagi um einhver vísindi að ræða.

Jarðskjálftahrina mun lengi vel hrista Suðurland og miðhálendið áður en krafturinn leysist í læðingi. ­Mikið jökul­vatn mun hlaupa fram en á óbyggðu landi. Rafmagn mun fara af og bæir einangrast en mannskaði verður ekki. Umbrotin standa ekki lengi.

Þessi auma spá kemur líka úr dv.is. Er eiginlega ekkert frambærilegra en þetta að fá frá völvu DV?

Jarðskjálftar sem munu „lengi vel hrista Suðurland og miðhálendið ...“ en umbrotin standa ekki lengi ... en samt „lengi vel“. Þvílíkt bull og vitleysa. Látum það þó vera en kann enginn að skrifa á DV og er enginn yfirlestur greina á fjölmiðlinum.

Verst að ekki finnast neinir fjölmiðlar sem geta flett ofan af svindli fjölmiðla í spámennsku fyrir næsta ár.


Þeir sem klappa tröllin upp viðhalda vondri umræðuhefð

Við verðum að breyta umræðuhefðinni, er niðurstaða greinar sem einn stofnenda Pírata, Smári McCarthy, skrifar í Stundina í dag. Greinin birtist í kjölfar frétta um vandræðagang á spjallsvæði Pírata, þar sem of mikið mun hafa þótt vera af því sem Smári kallar „fávitalegar skoðanir.“

Í grein sinni, þar sem hvatt er til kurteisi og yfirvegaðrar umræðu, kallar Smári valdhafa „siðlaus, mannvond fífl.“ Hann segir einnig fjölda fólks á alþingi „tala viðstöðulaust með rassgatinu.“

Um fjölmiðla hefur hann það meðal annars að segja, að „svokallaðir blaðamenn skófla upp hverskyns bulli“ og að flestir fjölmiðlar virðist „sáttir við að láta frá sér hvaða rætnu drullu sem er.“

Smári varar við því, að óvönduð umræða og fjölmiðlun verði til þess að sá tími komi þegar enginn hreinlega muni lengur hvernig á að vera „kurteis og gagnrýninn.“

Þannig stendur skrifað í vefriti sem nefnist Herðubreið, höfundurinn er Karl Th. Birgisson ritstjóra. Við fyrstu sýn er þetta svo sem gott á Smára McCarthy.

Hér hef ég nokkrum sinnum gert athugasemdir við hina margumræddu umræðuhefð sem einna helst er óþrifalegust í stjórnmálum. Spara þar margir ekki stóru orðin sem er svo sem allt í lagi ef ekki fylgja formælingar og uppnefni. Ástæðan er eflaust sú að mörgum er heitt í hamsi og láta vaða, ekki aðeins í athugasemdadálkum fjölmiðla heldur einnig á hinu háa Alþingi.

Líkur benda til að sá sem tvinnar saman óhróðri og andstyggilegheitum um annað fólk þjáist af öðru eða hvort tveggja þessu:

  • Sá sem lætur svona út úr sér er fyrst og fremst að upphefja sjálfan sig. Þekkt er að upphafning á eigin verðleikum á uppruna sinn í aumu sjálfsáliti, þörf á viðurkenningu annarra og oftar en ekki slæmu uppeldi. Til viðbótar er afar líklegt að sá sem niðurlægir aðra trúi því innst inni að fyrir vikið upphefjist hann sjálfur
  • Viðkomandi heldur að einhver trúi óhróðrinum og missi álit á þeim sem um er rætt. Sé einhverjum nógu illa borinn sagan; sönn, hálfsönn eða ósönn, sé mannorðið ónýtt. Þetta er aðferð sem kennd er við Gróu á Leiti.

Ofangreint er auðvitað þvert á alla málefnalega umræðu þar sem rökræður um skoðanir og stefnu skipta öllu en sá sem orðar þær skiptir minna máli.

Hversu oft höfum við ekki séð og heyrt hinn háværa og freka taka yfir umræður og „rúlla andstæðingnum upp“ eins og það er oft nefnt. Staðreyndin er þó engu að síður sú að málstaður þess sem fer hallloka í umræðum þarf síður en svo að vera lakari eða verri en þess sem er talinn hafa haft yfirhöndina.

Þegar upp er staðið skiptir afstaða lesenda eða áheyrenda öllu máli, að þeir sjái í gegnum umræðuna, átti sig á því hvaða málstaður er góður. Þeir sem klappa tröllin upp, hvetja til vondrar umræðu og viðhalda hefðinni. Hinir halda sig frá henni, varast opinberlega að veita tröllunum athygli.

Í raun og veru er Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, að berja á pólitískum andstæðingi. Þetta er í hnotskurn hin vonda íslenska umræðuhefð í stjórnmálum. 

Eðlilegra hefði verið að hrósa Smára McCarthy fyrir að hafa snúið við blaðinu, tekið afstöðu gegn vondri umræðuhefð. Þess í stað leggur ritstjórinn á sig að rifja upp ill ummæli Smára til að gera lítið úr greininni og sinnaskiptum hans. 

Engin breyting verður á umræðuhefðinni í íslenskum stjórnmálum sé ráðist með illu á einn af boðberum breytinga.


Er ekki ráð að Ögmundur og Stefán sameinist?

Þeim virðist fjölga á Íslandi sem ekki sjá nekt keisarans. Auðvitað á allur ríkisrekstur að vera í stöðugri endurmótun. En það gildir um allt efnahagskerfið. Líka hið einkarekna. Stundum getur smá stofnun verið kröftugri en stór og síðan öfugt. Og stundum eru tillögur settar fram bara til að passa upp á hagsmuni. Það hefur Viðskiptaráðið gert svo lengi sem ég man eftir. En á meðal annarra orða, hví ekki sameina Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins? Er þetta ekki sama tóbakið?

Svo segir Ögmundur Jónasson, alþingismaður á heimasíðu sinni, ég er „áskrifandi“ að pistlum hans, fæ tvær meldingar í hvert sinn er hann skrifar eitthvað þar. 

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar stundum pistla á vefritið Eyja. Stundum les ég greinar hans. Hann segir á í pistli

Kanski Viðskiptaráð ætti að líta sér nær. Það eru ansi margar stofnanir og samtök einkageirans að gera það sama og Viðskiptaráð, þ.e. að reyna að hafa áhrif á stjórnmálin í þágu eigin hagsmuna (SA, LÍU, SI, Samtök atvinnurekenda, SFF, o.m.fl.). Þarna mætti sameina og spara, í anda tillagna Viðskiptaráðs.

Þetta er allt fjármagnað með félagsgjöldum á fyrirtæki, sem fleyta kostnaðinum svo út í verðlagið. Við erum með eitt hæsta verðlag í heimi, án þess að hafa hæstu laun í heimi. Kanski það sé á ábyrgð einkageirans? Væri ekki verðugt verkefni fyrir Viðskiptaráð að lækka verðlag á Íslandi, með hagræðingu í einkageira, án þess að lækka laun vinnandi fólks?

Hérna eru komnar athyglisverðar tillögur um að frjáls félagasamtök sameinist og það leggja þeir vinstri mennirnir Ögmundur og Stefán fram hvor í sínu lagi.

Í anda tillögu þeirra sýnist mér tilvalið að Ögmundur og Stefán sameinist. Eru þeir ekki sama tóbakið?

Rökstuðningurinn er sá að þeir eyða hvorir um sig plássi á netinu við að messa um sömu málin. Væri ekki verðugra að þeir litu til hins fækkandi hóps vinstri manna á Íslandi og skrifuðu hér eftir sameiginlegar greinar til að auðvelda fólki lesturinn og afla upplýsinga.


Þrjú þúsund og þrjú hundruð jólakveðjur út í tómið

JólakveðjurÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglegt.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna, í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks, þá staðreynd að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í tómið.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obboðslega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal tekið fram að höfundur fer jafnan út á svalir þennan dag)

(Myndin er af sérútbúnu ökutæki við dreifingu á jólakveðjum Ríkisútvarpsins. Hugsanlega  blandast einhver snjór með kveðjunun, en það er nú bara svoooo jólalegt)


mbl.is 3.300 jólakveðjur lesnar í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eiginlega rangt við það sem forsetinn sagði?

Sýnist ÓRG vilja nýja forgangsröðun. Hvað með að hætta að úthluta forsetanum milljónum fyrir stórveislur þar sem veisluborðin svigna?

Þetta mun Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagt á Twitter vegna þessara orða forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, í Ríkisútvarpinu (feitletrun er undirritaðs):

Satt að segja er mér það óskiljanlegt að í svona litlu landi með svona öflugar og margþættar stofnanir og alla þessa umræðu um velferðina og samhjálpina skuli okkur ekki takast að skipuleggja okkur á þann hátt að það geti allir gengið að því vísu að þeir geti haldið hátíðir af þessu tagi á mannsæmandi hátt. Að þurfa að standa hérna í biðröð í kuldanum til þess að fá skyr og mjólk og brauð og kjöt og smá gjafir handa börnunum sínum. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að þessari þjóð takist ekki að leysa þetta vandamál.

Ég fæ ekki betur séð en að Ólafur Ragnar mæli hér fyrir munn flestra, að minnsta kosti þeirra sem ég þekki til sem og þeirra er tjáð sig hafa í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Hvað er eiginlega svo slæmt við þessi orð forsetans. Þau eru einfaldlega rétt, skiptir engu hver starfi hans er eða hver laun hans eru. 

Formaður flokksins míns fellur hér í þá gryfju að snúa í fljótfærni út úr orðum forsetans á þann veg sem ekki er hægt að verja. Orð hans eru með miklum ólíkindum og jafnvel ég verð að setja þau í samhengi við kröfur sem fengu ekki brautargengi við afgreiðslu fjárlaga næsta árs. Hér er að sjálfsögðu átt við kröfu um að að bætur aldraðra og öryrkja væru afturvirkar á sama hátt og laun ráðherra og þingmanna samkvæmt leiðréttingu kjaradóms.

Flestir gera þá kröfu til formanns Sjálfstæðisflokksins að hann stundi ekki þá umræðuhefð sem einkennt hefur vinstri menn framar öðrum. Ég hef áður skrifað hér um þá áráttu margra að stunda persónulegar árásir og illdeilur í stað málefnalegra rökræðna. Eftir hrunið vildu margir breyta þessari margumræddu hefð og ekki síst voru vinstri menn háværir um þessi efni.

Þingmenn og aðrir forystumenn vinstri flokka gleymdu samt hratt og markvisst öllum heitstrengingum og hafa sokkið æ dýpra í hyldýpi skítlegs orðalags en nokkur dæmi eru um á síðustu áratugum. 

Telji formaður Sjálfstæðisflokksins að hann megi vegna orða forsetans atyrða hann fyrir ofangreindar skoðanir þá er illt í efni. Þetta endar aldrei vel nema annar hvort sitji á strák sínum. Við slíkar aðstæður varð til málshátturinn „Sá vægir sem vitið hefur meira“. Hann er einfaldlega hvatning til að enginn fari í tilgangslaust orðaskak, það skilar aldrei neinu.

Og núna fyrir örstutti segir á visir.is að Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsstjarna, skipti sér að málum með eftirfarandi orðum:

Kommon- hann er að benda á að þetta hangir allt saman. ÓRG ætti amk að þurrka kavíarinn úr munnvikunum.

Hvernig getur sjónvarpsmaður látið svona út úr sér. Þó hann beri ekki virðingu fyrir forsetaembættinu né þeim sem gegnir starfanum ætti Gísli Marteinn að bera þá virðingu fyrir sjálfum sér og reyna ekki að vera fyndinn eins og óuppdreginn götustrákur.

Ég er einfaldlega sammála forsetanum og held þó engar stórveislur þar sem veisluborðin svigna hvað þá að ég smjatti á kavíar.


Ný Þjóðmál komin út með fjölbreyttu efni

Þjóðmál cGuðirnir Frjáls Verslun og Frjálsir Fjármagnsflutningar byggja heimsveldi sitt á því að hægt sé að flytja allt um heim allan á tiltölulega auðveldan og ódýran hátt. Það er enn hægt. Í leiðinni er dreift sjúkdómum og meinsemdum, en þó einsleitni á öllum sviðum. Störf eru flutt þangað sem vinnuaflið er ódýrast. Stjórnendurnir eru ósnertanlegir og njóta annarra kjara en verkalýðurinn. Gróðinn á lögheimili í skattaskjólum. Þetta er hin nýja nýlendustefna fjármagnsins.

Þannig ritar Tómas Ingi Olrich, fyrrum þingmaður, menntamálaráðherra og sendiherra, í stórmerkilegri og vel skrifaðri grein undir fyrirsögninni „Fullveldi smáríkja á öld mandarínanna“ (feitletrun er undirritaðs). Hún er í nýjasta hefti Þjóðmála sem kom út í síðustu viku. Fullyrða má að það er óvenjulegt að einn af fyrrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sé svo gagnrýninn á alþjóðavæðinguna.

Nú ber til tíðinda að útgefandi og ritstjóri Þjóðmála er Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Jakob F. Ásgeirsson er hættur sem útgefandi ritsins en hann stofnaði það fyrir um ellefu árum varð það á hans vegum afar fjölbreytilegt og áhugavert rit um stjórnmál hér á landi og erlendis.

Nýja ritið er fullt af fróðlegum greinum eftir skarpa og vel skrifandi áhugamenn um íslensk stjórnmál og samfélag; Björn Bjarnason, Gísla Hauksson, Friðrik Friðriksson, Skafta Harðarson, Jóhann J. Ólafsson, Tómas Inga Olrich, Hannes H. Gissurarson og Sigurð Má Jónsson.

Höfundur þessara lína fékk að auki að birta grein eftir sig í ritinu. Greinin ber nafnið „Þversögnin“ og fjallar um umhverfismál og náttúruvernd hér á landi. Í henni er fjallað á nokkuð gagnrýnan hátt um málin og vakin athygli á þeirri staðreynd að þrátt fyrir nokkuð skýr lög og reglur um umhverfismál er illa gengið um náttúruna.

Um leið hefur orðið grundvallarbreyting á viðhorfum almennings til útiveru og ferðalaga. Eðlilegt er að í ljósi þess sé spurt hvort hnignandi fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum geti tengst því að ekki aðeins vinstri menn vilji vernda náttúru landsins. Getur verið að flokkurinn hlusti ekki á fólkið sem ann náttúru Íslands?

Ekki er ráðlegt að rekja efni greinarinnar frekar en þess engu að síður ber að geta þess að nú er þörf á því að Sjálfstæðisflokkurinn taki sig á í náttúruvernd og umhverfismálum. Honum dugar ekki lengur að benda til fortíðar og vitna til löngu látinna forystumanna flokksins sem létu sér náttúruvernd og umhverfismál skipta. Nú er knýjandi nauðsyn á að flokkurinn líti til framtíðar. Stuðningur við hann byggir ekki síst á stefnu hans í þessum málum, ekki stefnuleysi.

Þjóðmál kostar aðeins 1.500 krónur í lausasölu. Áskrift kostar 5.000 krónur, askrift@thjodmal.is.


Úldin skata mengar í gegnum síma

skataRétt eftir hádegi á Þorláksmessu í fyrra hrindi í mig maður út af verkefni sem við vorum að vinna saman. Áttum við stutt spjall. Að því loknu þurfti ég í verslun og er ég greiddi fyrir kaupin spurði afgreiðslustúlkan hvort ég hefði verið í skötuveislu. Ég neitaði því, sagði sem satt var að úldin skata væri það versta sem ég hefði nokkru sinni bragðað. Hún sagði engu að síður að af mér væri eimur af þessari leiðu skötulykt.

Ég var dálítið hugsi eftir þetta og komst að þeirri niðurstöðu að viðmælandi minn í símanum hefði verið að koma úr skötuveislu þar sem boðið var upp á svo úldna og eitraða skötu að lyktin hefði bókstaflega mengað í gengum símann. Alveg satt, eins og börnin segja.

Þetta datt mér í hug er ég las pistil Árna Matthíassonar, blaðamanns, í Morgunblaði dagsins. Hann segir frá manni sem hafði hitt skötuneytanda á götu og sá hafi lagt hönd á öxl hans. Afleiðingin varð sú að sá fyrrnefndi lyktaði eins og úldin fiskur.

Þessaar tvær sögur eiga það sameiginlegt að af Þorláksmessuskötunni er fýla mikil sem vekur ógleði hjá flestu sómakæru fólki. Það sem er hins vegar jákvætt er að skoðanakannanir sýna að ungt fólk étur síður skötu en það eldra. Þetta er því ósiður sem um síðir mun deyja út.

Ég er ákveðinn í því að svara ekki í símann í dag fyrr en eftir klukkan fjögur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband