Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

Magn af snjó í klofnu og gyrtu landi með tilliti til veðurfars

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Nokkur munur er á því að ganga og labba.  Núorðið labba flestir, þó fer engin í labbitúr um labbileiðir og ekki heldur á labbstéttum. Allir labba í göngutúrum um gönguleiðir og einnig á gangstéttum. Mörgum finnst labbitalið hvimleitt.

labba s. (17. öld) ‘rölta, ganga’; sbr. nno. labbaþramma’, sæ. máll. labba ‘ganga þyngslalega, taka e-ð með höndunum’. 

So. er vísast nafnleidd, sbr. nno. labb ‘fótur, löpp’, sæ. labb ‘stór fótur, klunnaleg hönd’, fær. labbi ‘fótur, loppa’, sbr. einnig fhþ. lappo k. ‘handarflötur, lófi; árarblað’. 

Af so. labba eru leidd no. labb h. ‘rölt,…’ og labbi k. ‘smásnáði (gæluyrði); fjörulalli; †karlmannsnafn’ (sbr. fsæ. Labbe, en sjá Labbi). Sjá lófi (1), lappa og löpp. malid.is

 

 

1.

„Landið klofið með til­liti til veðurs.“ Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Þetta er ein kjánalegast fyrirsögn sem hugsast getur og er hún þó ekki málfræðilega röng. Landið klofnar ekki vegna veðurs, veður er á landinu, ekki í. Hins vegar getur veðrið skipst í tvö horn, jafnvel fleiri enda eru veðursvæðin mörg og ólík. Sagnorðið er ekki rétt valið.

Sé litið til veðurkortsins sem fylgir fréttinni verður ekki sól á austurhlutanum heldur aðeins á norðaustanmegin, það er á aðeins fjórðungi landsins.

Með tilliti til … Svona orðasamband er hér og víðar algjörlega gagnslaust og í raun algjörlega máttlaust í skrifum. Miklu betra er að skrifa sig framhjá svona klisjum og reyna að sýna svolítinn ferskleika í stað uppgjafar.

Áður en blaðamaðurinn skilar fyrirsögn þarf hann að huga að því sem verið er að segja. Áherslan á að vera á veðrinu, því er spáð að það verði ekki eins á vesturhlutanum og þeim eystri. Sem sagt, skiptist í tvö horn.

Í vísnaþætti Halldórs Blöndal á bls. 29 í Morgunblaðinu 26-06-2018 er þessi vísa eftir Magnús Geir Guðmundsson: 

Nú Sunnlendingum segja ber, 
svolítið af standinu.
Rétt sem snöggvast rignir hér, 
röngum megin á landinu!

Vissulega má segja að hér sé skemmtilega að orði komist um meintan „klofning landsins með tilliti til veðurs“, svo gripið sé til málfars blaðamannsins.

Og nú er að spreyta sig og koma með þokkalega tillögu um fyrirsögn.

Tillaga: Sól fyrir norðaustan annars staðar rigning

2.

„Maðurinn var svo fluttur í Emstruskála af björgunarsveitarfólki sem gaf honum heitt að borða og drekka.“ 

Úr frétt á visir.is.          

Athugasemd: Hjá fréttamiðlinum Vísi sinnir enginn prófarkalestri og kannar gæði frétta fyrir birtingu þeirra. Þar af leiðandi fáum við lesendur afar oft skemmdar fréttir. Matvara má aldrei vera skemmd, um það gilda lög. Hins vegar er öllum sama þó fréttir sé þrælskemmdar og myglaðar.

Í ofangreindri málsgrein er ekki sagt að björgunarsveit hafi flutt manninn í Emstruskála (sem er í svonefndum Botnum), heldur að hann hafi verið fluttur af henni. Röng orðaröð í málsgrein byggir á þolmynd en ekki germynd eins og eðlilegra væri og fyrir það líður fréttin.

Í þessari stuttu frétt segir líka:

Ferðamaðurinn var á göngu á Syðra-Fjallabaki og hafði villst á milli Hvanngils og Emstra.

Þetta getur varla staðist. Emstrur eru landsvæði og ná frá Bláfjallakvísl  að Emstruá fremri. Gönguleiðin um Laugaveginn liggur að hluta til um Hvanngil en mynni þess nær að Kaldaklofskvísl, sumir segja að Bláfjallakvísl. Ólíklegt er að einhver hafi villst á þeirri stuttu leið og miklu nær að sá sem skrifaði fréttina þekki ekki til staðhátta. Er þó fréttin komin frá Landsbjörgu og blaðamaður Moggans birtir hana gagnrýnislaust, veit ekkert betur. Þetta var nú útúrdúr um landafræði en ekki málfar.

Ennfremur segir í fréttinni:

Björgunarsveitarfólkið vissi af aðila á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu og bað hann um að keyra slóðann á því svæði sem talið var að maðurinn væri á, en hann hafði tengst farsímasendi og þannig var unnið að því að finna staðsetningu hans

Þetta er nú meira langlokan. Hver er aðili, var það maður af holdi og blóði, Faxaflóahafnir eða Stjórnarráð Íslands? Spyr sá sem ekki veit. 

Auðvitað átti blaðamaðurinn að skipta þessari 42 orða málsgrein og 243 áslátta í tvær eða fleiri. Þá hefði þetta litið svona út:

Björgunarsveitarfólkið vissi af manni á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu. Hann var beðinn um að aka um Emstrur, en þar var talið að ferðamaðurinn væri. Endurvarpsstöðvar farsíma á þessum slóðum höfðu tekið við símtali mannsins og var þannig reynt að finna út staðsetningu hans. 

Auðvitað er hægt að gera miklu betur en þetta. Skylda blaðamannsins er að skrifa frétt sem skilst.

Fyrirsögn fréttarinnar er þessi:

Björgunarsveitir aðstoðuðu ferðamann í vandræðum á hálendinu.

Miklu betur fer á því að segja að ferðamaðurinn hafi verið í vandræðum í Emstrum. Hálendið er víðfeðmt en Emstrur miklu minni.

Tillaga: Björgunarsveitarfólkið flutti manninn í Emstruskála í Botnum og gaf honum að heitt að borða og drekka.

3.

„Snjó­koma og strekk­ing­ur er á Fimm­vörðuhálsi og nokkuð magn af ný­fölln­um snjó.“ Úr frétt á visir.is.        

Athugasemd: Ég er að velta því fyrir mér hvort blaðamaðurinn hafi mælt nýfallinn snjó í grömmum, kílóum eða jafnvel tonnum. Úr því að hann er að tala um magn af snjó er brýnt að vita hversu mikið það var.

Í alvöru talað. Kannast einhver við orðasambandið magn af snjó

Í fréttinni segir ennfremur:

Lands­björg bend­ir á mik­il­vægi þess að fólk sem hug­ar að ferðalög­um á há­lendi lands­ins fylg­ist með veður­spá og kynni sér aðstæður …

Er þetta nú boðlegt hjá Landsbjörgu eða Mogganum. Hrikalega stirt stofnanamál. Fyrir hverja er verið að skrifa? Ráðuneytisstjóra? Af hverju ekki svona: 

Mikilvægt er að fólk á ferð um hálendið fylgist með veðurspá og kynni sér aðstæður og hafi góðan útbúnað meðferðis …

Í tilvitnuninni er ekki orð um útbúnað. Skrýtið.

Loks skal hér getið um enn eitt ruglið í fréttinni:

Göngumaður­inn er ör­magna en held­ur kyrru fyr­ir við ákveðna stiku og talið er að hann finn­ist fljót­lega.

Svo vill nú til að sá sem hér skrifar tók þátt í að stika gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, að minnsta kosti að hluta. Engin stika er númeruð og þær eru ótalmargar. Sé ferðamaðurinn við ákveðna stiku getur það eflaust átt við alla 1231 eða hvað þær eru nú margar. Þó er gott að vita að hann er á gönguleiðinni nema því aðeins að stikan hafi fokið og hann sé einhver staðar vestan við gönguleiðina og bíði þar til eilífðarnóns. Með stikuna í fanginu, járn-, plast- eða tréstiku … Verst væri þó ef stikan væri óákveðin!

Ekki aðeins blaðamönnum Moggans er veitt opin heimild til að skrifa tómt bull í fréttadálka og víðar. Engum er bent, ekkert er kennt. Þar eru framin skemmdarverk á íslensku máli.

Tillaga: Björgunarsveitarfólkið flutti manninn í Emstruskála í Botnum og gaf honum að heitt að borða og drekka.

4.

„Gyrtu sig af frá ferðamönn­um á Látra­bjargi.“ Fyrirsögn á mbl.is.        

Athugasemd: Þessi fyrirsögn og fréttin sjálf ollu mér heilabrotum. Og þegar ég er ekki viss þá leita ég í málfarsbankann, malid.is. þar segir á einfaldlega:

Athuga að rugla ekki saman sögnunum gyrða og girða.

    1. Sögnin gyrða merkir: spenna belti eða ól um.
    2. Sögnin girða merkir: gera girðingu eða garð.

Þarna fékk ég staðfestingu á því sem ég hélt. Fréttin segir frá rannsóknum vísindamanna á fuglum í Látrabjargi. Þeir (vísindamennirnir, ekki fuglarnir) fengu ekki frið í störfum sínum vegna forvitni ferðamanna. Svo mikill var ágangurinn að vísindamennirnir þeir girtu rannsóknarsvæði sitt svo þeir fengju frið.

Hins vegar gyrtu þeir sig ekki, og allra síst í brók, nema hugsanlega í óeiginlegri merkingu, þegar allar aðrar bjargir voru bannaðar.

Ég er ekki alveg sáttur við orðalagið að vísindamennirnir hafi girt sig af. Sögnin að girða felur það óhjákvæmilega í sér að þeir sem eru innan girðingar blandist ekki við þá sem eru utan hennar.

Líklega fer betur á því að segja það sem fram kemur í tillögunni hér fyrir neðan (hún er þó rækilega ofstuðluð, sem líklega gerir ekkert til).

Lokaorð: Ekki veit ég hvernig vinnubrögðin eru á Mogganum. Ég sendi í gærkvöldi blaðamanninum sem skrifað fréttina stutta ábendingu, raunar ekkert annað en það sem segir hér að ofan og er fengið frá malid.is. Ekkert svar hefur borist. Hins vegar var fréttin lagfærð níu klukkustundum síðar og nú er stendur skrifað girt í stað gyrt.

Tillaga: Settu upp girðingu til að fá frið fyrir ferðamönnum.

5.

„Þorleifur ásamt íbúa Norður-Kóreu. Í bakgrunni má sjá akur þar sem ræktun fer fram.“ Myndatexti á bls. 24 í Morgunblaðinu 28.06.2018.       

Athugasemd: Vart er hægt að hugsa sér akur á annan hátt en að þar sé eitthvað matarkyns ræktað. Takið eftir, þar er ræktað … miklu eðlilegra orðalag á íslensku en að þar fari ræktun fram.

Ræktun er nafnorð en sagnorðið er að rækta. Íslenska byggir á sagnorðum en þeir sem hafa slaka hugsun eða minni þekkingu og ætla sér að vinna sig í álit skrifa svokallaðan nafnorðastíl. Hann virðist oft formlegri og svona stofnanalegri en er einfaldlega stirðbusalegur og uppfullur af tilgerð.

Annars staðar í sömu grein stendur skrifað:

Að sögn Þorleifs voru leiðsögumenn hópsins í Norður-Kóreu afar hjálpsamir og reyndu hvað þeir gátu að láta óskir ferðamanna verða að veruleika. 

Hér kemur enn eitt tilbrigðið um nafnorðastílinn. Yfirleitt fer betur á því að uppfylla óskir en reyna að láta þær verða að veruleika. Hægt er að gera fleiri athugasemdir við málfar og orðanotkun í greininni.

Hér er áhugaverð tenging við það sem á undan hefur verið sagt:

Sagnorð gegna mikilvægu hlutverki í tungumálum. Á það við um íslensku ekki síður en önnur mál. Sagnir eru þó missterkar. Því er mikilvægt að huga vel að vali þeirra þegar við viljum orða hugsanir okkar á áhrifamikinn hátt.

Sumir telja að sagnorð séu á undanhaldi í máli manna. Fólk hneigist þá til að skeyta saman nafnorði og merkingarlítilli sögn, svokallaðri hækju, fremur en að nota eitt kjarngott sagnorð til að tjá hugsunina. Textinn lengist við þetta og við segjum það sama af minni krafti. Málið missir bæði hraða og hnitmiðun. Það er ekki til bóta.

Með þessu er þó ekki sagt að aldrei eigi að nota merkingarlitlar sagnir og nafnorðastíl. Hins vegar má fullyrða að sagnorðastíllinn sé yfirleitt æskilegri.

Skoðum eftirfarandi dæmi

Sagnorðastíll: Stofnunin kallaði … Íbúum hefur fjölgað … Varan batnaði …

Nafnorðastíll, hækjur: Stofnunin gerði könnun á … Íbúafjöldi hefur vaxið … Gæði vörunnar jukust …

Þetta er úr vefnum Málgagnið, en þar er fjallað á einfaldan hátt um íslenskt mál.

Tillaga: Þorleifur ásamt íbúa Norður-Kóreu. Í bakgrunni má sjá akur.

 


Bera trú í einhvern, venda sífellt kvæði í kross og gera gott mót

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Hannes ber trú í þjóðina fyrir næsta leik á HM – „Við ætlum ekki heim“.“ Fyrirsögn á dv.is.        

Athugasemd: Hér er dálítið skrýtilega tekið til orða. Íþróttablaðamenn hafa yfirburða þekking á íþróttum en þeir eru margir lakari íslensku máli. Mikill skaði hlýst af því.

Vart er hægt að bera trú í einhvern, hvorki einstakling, hóp né þjóð. Orðalagið er líkast því að verið sé að moka einhverju, skófla einhverju. Réttari lýsing að Hannes markvörður reyni að fullvisa okkur um að næst muni allt ganga betur.

Tillaga: Hannes reynir að fullvissa þjóðina að betur gangi í næsta leik: „Við ætlum ekki heim.“

2.

„Trump vendir kvæði sínu í kross um hættuna af Norður-Kóreu.“ Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Orðtök og málshættir eru oft til vandræða í fréttum. Um slík segir Jónas Kristjánsson, fyrrum blaðamaður, í pistlum sínum:

Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.

Því miður hefur blaðamaðurinn sem skrifaði tilvitnunina ekki menntað sig í blaðamennsku Jónasar og því fer sem fer. Áður hafði sami blaðamaður skrifað þessa fyrirsögn á visir.is

Macron vonar að Trump vendi kvæði sínu í kross í loftslagsmálum.

Hver veit hversu oft hann notar þennan frasa? Blaðamaður sem skrifar í klisjum á í vanda jafnvel þó hann viti ekki af því. Yfirleitt duga málshættir og orðtök illa í fyrirsögnum. Eins og Jónas Kristjánsson segir um fyrirsagnir:

Fyrirsögn á að selja aðgang að megintextanum. Fráleitt er, að notendur þurfi að lesa textann til að skilja fyrirsögnina. Allt er skaðlegt, sem seinkar lestri. Notandinn vill ekki þurfa að staldra við til að hugsa. Fyrirsögn á að renna ljúft inn í megintexta.

Við þetta er engu að bæta.

Tillaga: Trump ítrekar fyrri skoðun sína um hættuna af Norður-Kóreu.

3.

„Hann er að gera gríðarlega gott mót.“ Þulur lýsir leik Mexico og Suður Kóreu á RUV 23.6.2018.      

Athugasemd: Engin skynsemi er í þessum ummælum. Standi einhver sig vel á að segja það beinum orðum. Sé landslið einhvers lands að standa sig vel skal segja það þannig. Orðasambandið að gera gott mót er ekki til. Samsetning er röng. Þetta komið úr ensku. (make a good tournament, doing a good game …). Þulurinn á í vanda og hann veit ekki af því.

Íþróttamót getur verið gott, keppendur geta staðið sig vel á móti, áhorfendur geta verið ánægðir með gott mót en enginn er þess umkominn gera mót, ekki einu sinni mótshaldarinn. Hann heldur mótið og það getur verið vel heppnað eða ekki.

Sé Google notað til að leita að þessu orðasambandi eru niðurstöðurnar alltof margrar, til dæmis:

  • Viðskiptablaðið: Guðlaugur gerir gott mót
  • Vísir: Eyþór er að gera gott mót á erlendri grundu
  • gkg.is: Birgir að gera sitt besta mót til þessa (Golfklúbbur Kópavogs)

Ónýta klisjan er afar algeng og þetta aðeins lítið brot.

Tillaga: Hann/liðið stendur sig vel á mótinu.

4.

„Upp með sokkana!“ Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 23. júní 2018.      

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er ein hin besta sem sést hefur í íslenskum fjölmiðlum í langan tíma. Hún skírskotar til texta í lagi Ómars Ragnarssonar um Jóa útherja, heyra og hlusta hér. Þar heyrist hrópað: 

„ÁFRAM KR. Þegiðu Egill, þetta er landsliðið. Þórólfur, upp með sokkanna. Útaf með dómarann. ÚTAF MEÐ DÓMARANN“

Þórólfur Bekk var frægur fótboltamaður og þekktur fyrir að leika með sokkanna niðri enda var víst ekki krafa að menn léku með legghlífar eins og í dag.

Upp með sokkanna hefur tvíræða merkingu. Annars vegar að draga þá upp á legginn og hins vegar að standa sig betur.

Í þessari frábæru fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins sjást vonsviknir íslenskir landsliðsmenn eftir tapið gegn Nígeríu. 

Boðaskapur Fréttablaðsins er þessi: 

Áfram Ísland, við styðjum ykkur fram í rauðan dauðann.

En það þurfti ekki að orða þetta í öllum þessum orðum heldur var notuð einföld, auðskiljanleg þrjú orð skrifuð: Upp með sokkanna.

Frábært. Betri gerast ekki fyrirsagnirnar.

Tillaga: [Engin gerð]

 

Íslenska er mál sagnorðanna

Hér er vitnað til Jónasar Kristjánssonar:

Mesta slysahættan á ritstjórnarskrifstofum er í fyrirsögnum. Fyrirsagnagerð krefst langrar þjálfunar og mikillar málþekkingar. Svo fá orð eru í fyrirsögnum, að þau geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar.

Óreyndir setja oft þarflaus aukaorð í fyrirsagnir til að þær fylli. Fyrirsagnir vísa oft til efnis, sem ekki er fremst í grein. Hún er þá úr fókus. Umskrifa þarf greinina.

Virkar sagnir eru lykilorð fyrirsagna. Íslenska er mál sagnorðanna, eins og enska.

Forðist skammstafi. Notið stutt orð. Klippið út óþörf orð. „Stjórnin mun skoða áætlun”, gæti verið fyrirsögn víða í blaði. Hvaða stjórn, hvaða áætlun? Fyrirsagnir eru oft styttar í meiningarleysu. Fyrirsagnir eru oft samdar í tímahraki og verða þá oft ekki góðar.

    • Slepptu lýsingar-, atviksorðum, samtengingum, forsetningum, öllum smáorðum.
    • Notaðu heila hugsun.
    • Veldu orðin upp úr fréttinni.
    • Notaðu ekki hástafi. Lesast illa.
    • Notaðu ekki tákn, !?,%$@”/
    • Finnu stysta orðið: Kusu.

Ef fyrirsögn er lengri en ein lína, má ekki skipta orði milli lína. Það seinkar lestri og getur valdið misskilningi:

Jón er kvart-

samur bóndi

Notið sömu orð í fyrirsögn og eru notuð í greininni.

Fyrirsögn á að selja aðgang að megintextanum. Fráleitt er, að notendur þurfi að lesa textann til að skilja fyrirsögnina. Allt er skaðlegt, sem seinkar lestri. Notandinn vill ekki þurfa að staldra við til að hugsa. Fyrirsögn á að renna ljúft inn í megintexta.

Í gamla daga voru fyrirsagnir oft margra hæða. Auk aðalfyrirsagnar voru ýmsar gerðir yfirfyrirsagna og undirfyrirsagna. Nú er annað hvort aðalfyrirsögnin ein eða annað hvort með yfir- eða undirfyrirsögn að auki.

Margir skanna blöð í stað þess að lesa þau. Eins og þeir skanna skjá í fartölvu eða gemsa. Fyrirsögn þarf að taka tillit til fólks, sem hefur ekki tíma aflögu. Hástafir eiga ekki heima í fyrirsögnum (ekki heldur í meginmáli) vegna þess, að erfitt er að lesa slíkt letur. […]

Öll handrit þarf að lesa af öðrum en höfundi. Prófarkalestur tíðkast enn á íslenskum fjölmiðlum, en hefur lagst niður víða erlendis. Þar taka vaktstjórar við því hlutverki. Þetta þýðir, að íslenskir fjölmiðlar eiga að vera á góðu máli.

Núverandi kerfi prófarkalestrar í stoðdeild kemur ekki í stað “copy editors”. Hinir síðarnefndu stunda handleiðslu, hinir fyrrnefndu leiðrétta í kyrrþey. Af því stafa margar rangfærslur í fyrirsögnum.

Handleiðslan er betri. Af henni læra blaðamenn.

Iðn verður stundum að list.

Ef blaðamennska er iðn, þá er fyrirsagnagerð list.

Fyrirsagnagerð er hástig blaðamennskunnar.

Hæst launuðu blaðamennirnir eru fyrirsagnasmiðir götublaða.

Sá, sem semur fyrirsagnir, þarf að geta ráðið við plássið, sem er til umráða. Sé það upp á 15 stafi og bil í línu, semur hann slíka fyrirsögn. Sé það upp á 6 stafi og bil í línu, semur hann slíka. Hann býr ekki til fyrirsögn, sem kemst ekki í plássið.

Þessir ráð gilda öll enn um blaðamennsku. Því miður eru alltof fáir sem leita sér ráða í blaðamennsku og einnig fáir sem veita þau. Sjálfsálitið er stundum mikið en það jaðrar við hroka að leita sér ekki fróðleiks, fletta ekki upp í orðabók, nota ekki malid.is, hafa ekki landakort til hliðsjónar, treysta á eina heimild þegar margar eru innan seilingar og svo framvegis.

Gleggstu upplýsingar um skrif er að finna á vefnum jonas.is. Þangað eiga fleiri en blaðamenn að leita.

 


Mjög gott crowd, voru surprised, showið gekk vel ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Líkinu hagrætt

„Mér fannst hann svo tilvalinn í starfið að ég lagði hann til.“ Gaman væri að vita hve margir hnjóta um þetta. 

Að leggja e-n til hefur löngum þýtt að hagræða líki, veita e-m nábjargirnar. Að nota orðasambandið um það hafa e-n undir í átökum, eins og stundum sést, flokkast líklega undir spaugsemi. 

Málið á bls. 40 í Morgunblaðinu 16.6.18.

 

1.

„Sumarmessan: Hjörvar tók Heimi á teppið fyrir seinar skiptingar.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Þetta er heimskuleg fyrirsögn í alla staði. Í sjónvarpsþætti á Stöð2 var rætt um leik Íslands og Argentínu á HM í Moskvu. Blaðamaður tekur að sér að endursegja það markverðasta sem fram kom í sjónvarpsþættinum. Niðurstaðan er bull í fyrirsögn.

Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, tók ekki Heimi á teppið vegna þess að sá síðarnefndi var ekki þarna til að taka við ávítum eða gagnrýni. Nær er að segja að Hjörvar hafi gagnrýnt landsliðsþjálfarann. Blaðamaðurinn veit ekki hvað orðatiltækið að taka einhvern á teppið þýðir.

Annað álíka er  taka einhvern á beinið. Í bæði skiptin er verið að kalla einhvern fyrir. Beinið var vissulega til á skrifstofu skólameistara Menntaskólans á Akureyri, Sigurðar Guðmundssonar. Þeir sem hann stefndi til sín fyrir óknytti, lélegan námsárangur eða álíka þurftu að setjast á það. Þá varð til orðtakið að taka einhvern á beinið. Hjá Guðna rektor í MR var ekkert bein en ágætt teppi og stóll að því að mig minnir. Þar fengu nemendur yfirhalningu samkvæmt því sem þeir áttu skilið.

Svo er það þetta með seinar skiptingar. Íþróttablaðamenn eru margir hverjir hinir mestu bullukollar í stíl, frásögn og málfræði. Svipað rugl er fljótasta markið á leiktíðinni. Þá er átt við hversu fljótt leikmaður hafi skorað mark í fótboltaleik. Þykir það hið mesta afrek að koma boltanum sem fyrst inn. Á ensku er talað um „the fastest goal„ og af barnslegri einlægni þýðir blaðamaðurinn orðrétt. Ó, hvað svoleiðis er nú sætt!

Með seinum skiptingum er átt við að landsliðsþjálfarinn hafi verið lengið að skipta óþreyttum leikmanni inn á völlinn í stað þess sem meiddist og lék liðið því í hátt í eina mínútu einum færri.

Hins vegar er skiptingin aldrei sein, ekki frekar en markið sé fljótt. Held að það þurfi ekki að útskýra þetta nánar?

Í fréttinni, sem þó er er ekkert illa skrifuð, segir blaðamaður:

Þá fékk Ísland mark í bakið eftir slæman varnarleik, einum færri eftir meiðsli.

Illt er að meiðast í baki eða fá boltann í bakið en hvað merkir það að fá mark í bakið? Ógætilegt tal getur til dæmis komið í bakið á þeim sem það gerir, honum hefnist fyrir. Þó varnarleikurinn sé slæmur er frekar illa orðað að segja að mark hafi komið í bakið á liðinu. Betra hefði verið að segja að það hafi hefnt sín að sinna ekki varnarleiknum betur.

Tillaga: Sumarmessan: Hjörvar gagnrýndi Heimi fyrir að vera lengi með innáskiptingu.

2.

„Harry Kane kom Eng­lend­ing­um til bjarg­ar.“ Fyrirsögn mbl.is.       

Athugasemd: Hér er sagt frá fótboltaleik á HM og áttust við Englendingar og Túnisbúar. Harry þessi Kane er enskur, er í landsliði Englands og skoraði mark. Engu að síður er fyrirsögnin á þann veg að halda mætti að maðurinn væri ekki Englendingur og hefði þannig komið þeim til bjargar.

Í sjálfri fréttinni segir svo:

Staðan var svo jöfn á 34. mín­útu eft­ir að Kyle Wal­ker gaf klaufa­lega víta­spyrnu. 

Hér er ekki rétt með farið. Kyle Walker gaf ekki eitt eða neitt. Hann braut af sér og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. 

Nú kann einhver að segja að þetta sé íþróttamál. Sú viðbára er tóm vitleysa eins og svo margt annað sem hrekkur frá íþróttablaðamönnum. Það væri nú saga til næsta bæjar ef steliþjófur „hafi gefið klaufalegt innbrot“. Svona er bara ekki hægt að taka til orða. Íþróttamál getur verið gott og gilt en má ekki ganga í berhögg við íslenska málfræði eða almenna skynsemi.

Tillaga: Harry Kane tryggði Englendingum sigurinn.

3.

„Þeir voru mjög gott crowd. […] Þeir voru svona surprised og bara gaman, showið gekk vel og bara stemning.“ Úr frétt á dv.is.        

Athugasemd: Þetta segir Björn Bragi Arnarson, einn af uppistöndurum, sem skemmtu íslensku landsliðsmönnunum í Rússlandi. 

Björn Bragi heldur að hugsun hans komist ekki til skila nema með því að nota útlensku til áhersluauka. Hann er líklega á þeirri skoðun að íslenskan sé frekar máttlaus þegar kemur að því að lýsa einhverju sem einhverju máli skiptir.

Þó slettunum sé sleppt er ofangreint svo vit- og hugsunarlaus að varla er hægt að endursegja hana á íslensku án þess að niðurstaðan verði enn heimskulegri. Furðulegt að blaðamaðurinn sem þetta samdi skuli ekki hafa betri skilning á starfi sínu og íslensku en raun ber vitni. Honum ber auðvitað að skrifa fréttina á slettulausri íslensku, best hefði þó verið ef hann hefði haft vit á að sleppa þessu rugli.

Tillaga: Tekki hægt að bæta viti í svona rugl.

4.

„Helgi og Gummi eru að vinna mikla vinnu á bakvið tjöldin. Síðan er Heimir góður að gefa þér skýr hlutverk sem að hann vill að séu kláruð vel.“ Úr frétt á visir.is.         

Athugasemd: Það er nefnilega það. Helgi og Gummi þurfa að vinna mikla vinnu. Hér hefði verið nóg að segja að þeir félagar vinni mikið á bak við tjöldin.

Ekki tekur svo betra við í næstu málsgrein. Hún er tómt klúður og engin skýr hugsun, hvorki hjá viðmælanda né blaðamanni.

Tillaga: Helgi og Gummi vinna mikið á bak við tjöldin. Heimir er duglegur að gefa samstarfsmönnum sínum verkefni sem hann vill að séu vel unnin.


Íslensk fyrirtæki með ensk nöfn?

Ekki hafa allir jafn miklar áhyggjur af því að vinna þýðingar á íslensku og Víkverji. Vinur Víkverja á snjáldru greindi frá því nýlega að hann hefði rekist á nýjan stað í miðbænum sem héti Bastard upp á ensku.

Þessi nafngift væri ekkert einsdæmi því á leið hans að heiman í vinnuna gengi hann fram hjá The Drunk Rabbit, City Center Hotel, Iceware, American Bar, Dirty Burgers and Ribs, The Laundromat Café, The English Pub, Shooters Coyote Club, Ginger, The Hot Dog Stand, Nordic Store, Mountaineers of Iceland, 66 North, Icemart Souvenirs, What’s On, Pride of Iceland, Joe & The Juice, Guide to Iceland, Center Hotels, Flying Tiger, Icelandic Red Cross, Booking Centre, Woolcano, Scandinavian ... Er þetta ekki orðið ágætt? vikverji@mbl.is

Víkverji á bls. 29 í Morgunblaðinu 20.06.2018


Standandi eða sitjandi lófklapp og frásending viðbragða

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Teljanleg fyrirbæri

„Sálarró og auður fer ekki alltaf saman.“ „Framboð og eftirspurn stenst ekki alltaf á.“ 

Þetta er löng hefð: að sögnin sé í eintölu nema fyrirbærin séu teljanleg: „Klósettburstinn og eggjaklukkan týndust í flutningunum.“ 

Sé annað orðið í fleirtölu má snúa þeim við: „Tækni og vísindi haldast í hendur.“

Pistillinn Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 13. júní 2018

 

1.

„Auglýsingastofur byggja á mannauð.“ 

Í frétt á visir.is.       

Athugasemd: Forsetningin á getur stýrt bæði þolfalli og þágufalli. Dæmi: Hann gengur á vegginn. Hann gengur á veggnum. Á þessu tvennu er mikill munur.

Mannauður er nafnorð í karlkyni og beygist svona; mannauður, mannauð, mannauði, mannauðs. Kvenkynsnafnið Auður beygist eins nema í eignarfalli og þá er það Auðar.

Tillaga: Auglýsingastofur byggja á mannauði

2.

„Þingmenn gáfu ríkisstjórninni einnig standandi lófaklapp fyrir viðbrögð hennar við árásum ríkisstjórnar Trump á Trudeau.“ 

Í frétt á visir.is.       

Athugasemd: Hér er tiltölulega stutt málsgrein með óþægilega mörgum villum. Raunar er hún öll tómt klúður.

Hvað er standandi lófatak? Líklega rennur lesendum í grun að þá standi áheyrendur upp úr stólum sínum og klappi einhverjum lof í lófa.

Ofangreind tilvitun er þýðing úr ensku, í frétt Reuters segir:

… and gave a standing ovation for the government’s response …

Ovation er ekki aðeins lófaklapp, þó fylgir það væntanlega fögnuðinum. Hver skyldi vera munurinn á lófaklappi eða lófataki? Líklega er hann engin eftir því sem ég best fæ séð. Held þó að hið síðarnefnda sé algengara.

Hefur einhver heyrt um sitjandi lófaklapp? Nei, varla, lófatak situr hvorki né stendur. Mjög algengt er að fólk klappi sitjandi en þegar eitthvað sérstakt er að gerast lýsa áhorfendur ánægju sinni eða fögnuði með því að rísa úr sætum og fagna. Á ensku er sagt „give a standing ovation“. Þá er það ekki aðeins klappað heldur líka fagnað á annan hátt, hrópað, kallað og svo framvegis.

Ég er hins vegar ekki alveg viss um hvort að hægt sé að þýða þessi orð með standandi lófaklapp. Því leitaði ég til Jóhannesar B. Sigtryggssonar hjá Íslenskri málnefnd og hann sagði í tölvupósti sínum:

Þetta orðasamband standandi lófatak virðist ekki vera gamalt í málinu og ég finn eingöngu dæmi um það í nýlegum dagblöðum. Mér finnst líklegt að það sé tökuþýðing úr ensku eins og þú bendir á. Eðlilegra væri til að mynda að tala um dynjandi lófatak eða að stjórnin hafi verið hyllt fyrir ...

Svo er það annað. Er hægt að gefa lófatak. Nei, það er ekki gert á íslensku þó svo að orðalagið sé þannig á ensku. Á okkar máli klöppum við einhverjum lof í lófa en enskir „gefa lófaklapp“. Þó margt sé gott í enskri tungu er óþarfi að apa allt eftir.

Fróðlegt væri að fá vangaveltur frá lesendum um þetta.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

3.

„Klukkan 15:53 í dag barst Neyðarlínunni tilkynning um alvarlegt umferðarslys í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. En þar valt sendibifreið. […] Vegna alvarleika slyssins var óskað eftir aðstoð þyrlu LHG sem flutti annan aðilann á sjúkrahús í Reykjavík.“ 

Í frétt á Facebook lögreglunnar á Vestfjörðum.     

Athugasemd: Ef við lítum framhjá efnisatriðum hræðilegrar frétta og skoðum aðeins framsetninguna eru athugasemdirnar margar. Þetta er einfaldlega illa skrifað hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Vefmiðlar eins visir.is og mbl.is taka svo tilkynninguna orðrétt upp og laga ekkert, láta bara mata sig.

Afar óeðlilegt er að byrja setningu á samtengingu, hún er þarna óþörf. Annað hvort hefði átt að sleppa punktinum á undan og setja kommu eða sleppa samtengingunni.

Alvarleiki er kjánalegt orð og býr til nafnorðamiðaða setningu.

Til viðbótar er það svo að hvorki þyrlur né sjúkrabílar hjálpa heldur fólkið sem stjórnar þessum tækjum.

Loks er annar þeirra sem slasaðist kallaður aðili. Hvað á þetta að þýða? Hvort slasaðist maður eða aðili? Svo tekið sé heimspekilega til orða þá eru ekki allir aðilar menn, en sumir menn geta stundum verið aðilar.

Á öðrum fjölmiðlum hefur komið fram að aðstandendum hafi verið „gert viðvart“ um slysið. Eðlilegra er að orða það þannig að þeim hafi verið tilkynnt um slysið.

Tillaga: Klukkan 15:53 í dag barst Neyðarlínunni tilkynning um alvarlegt umferðarslys í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi, en þar hafði sendibíll oltið. […] Slysið var alvarlegt og því var óskað eftir aðstoð aðstoð Landhelgisgæslunnar og var annar hinna slösuðu fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.

4.

„Talibanar höfðu í gær enn ekki sent frá sér nein viðbrögð vegna fráfalls foringja síns. “ 

Úr frétt á bls 23 í Morgunblaðinu 16.6.18.     

Athugasemd: Engin hugsun er í þessu orðalagi; „senda frá sér viðbrögð“. Þetta stríðir svo illilega gegn málvitund allra. Grundvallarreglan er sú að lesa yfir fyrir birtingu.

Allir bregðast við, slíkt kallast viðbragð og viðbrögð manna eru ólík. Hins vegar sendir enginn frá sér viðbragð, það er heimskulegur nafnorðastíll sem engum er til sóma, hvorki blaðamanni né fjölmiðli. Loks má geta þess að stundum er forsetning ráðandi um merkingu sagnar því eitt er að bregðast og annað að bregðast við.

Í fréttinni stendur einnig:

Malala hefur vakið mikla athygli um allan heim fyrir hugrakka baráttu sína …

Hugrökk barátta er ekki til. Hins vegar getur einn eða fleiri verið þekktir fyrir hugrekki í baráttu sinni. Baráttan ein og sér er hvorki hugrökk né heigul. Fólk getur samt verið annað hvort.

Öll þessi „frétt“ hefur öll einkenni þýðingar úr ensku og blaðamaðurinn hefur ekki næga þekking á íslensku til að skrifa fréttina.

Tillaga: Talibanar höfðu í gær ekki enn brugðist opinberlega við vegna fráfalls foringja síns.

4.

„Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er komið að fótum fram …“ 

Grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á bls. 25 í Morgunblaðinu 16.6.18.

Athugasemd: Mikilvægt er að nota orðatiltæki sem hæfa efni þess sem um er rætt. Kjánalegt er að segja að skip sé orðið svo gamalt að það sé komið að fótum fram, en það er ekki beinlínis vitlaust. Ekki frekar en að halda því fram að starfsmenn flugfélags hafi ýtt flugvél úr vör. Hvað þá að bíll aki á lensi upp Bröttubrekku. 

Stíll er mikilvægur í greinaskrifum. Gæta þarf að mörgu, ekki síst orðatiltækjum og málsháttum eiga ekki beinlínis við. Grundvallaratriðið er að skrifa stuttar setningar, flækja ekki frásögnina með misskýrum orðatiltækjum og ekki síst, nota millifyrirsagnir. Athygli lesenda er svo óskaplega hverful og það þarf skrifarinn að hafa helst í huga. 

Heiðrún Lind hefði mátt vanda sig betur með grein sína og þá er ekki úr vegi að fá einhvern annan til að lesa yfir. Það hjálpar yfirleitt.

Tillaga: Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er orðið gamalt og lúið.

5.

„Verðandi mæður leitast við að fæða utan Landspítalans vegna manneklu.“ 

Fyrirsögn á visir.is. 

Athugasemd: Röð orða í setningu skiptir máli annars er hætt við að lesendur misskilji. Samt misskilja fáir ofangreinda setningu vegna þess að manneklan á við Landspítalann, ekki verðandi mæður. Ég held samt að orðaröðin sé röng.

Prófum að skipta út orðinu mannekla og setja í staðinn veikindi. Þá verður fyrirsögnin svona:

Verðandi mæður leitast við að fæða utan Landspítalans vegna veikinda.

Þá er það spurningin hvort veikindi séu hjá verðandi mæðrum eða á Landspítalanum. Væntanlega eiga veikindi við mæður og því eðlilegt að orðið sé þeim tengt.

Sama á við um fyrirsögnina á Vísi. Snjall blaðamaður hefði orðað hana á annan hátt. Þetta er allt saman svo ansi auðvelt ef hugsun og pælingar fylgja skrifunum.

Tillaga: Mannekla á Landspítalanum knýr verðandi mæður til að fæða annars staðar.


Rændi nýburann eða nýburanum í gærkvöldi eða gærkvöld?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Ekki til eftirbreytni

Erlendis er staðaratviksorð og táknar dvöl á stað – eins og inni, úti og uppi t.d. – en ekki för til staðar. Því ætti ekki að „fara erlendis“ frekar en að „fara inni“ eða „fara heima“. Maður fer inn og fer heim. Langi mann úr landi getur maður farið út eða utan eða til útlanda.

Pistillinn Málið á bls. 40 í Morgunblaðinu 10. júní 2018

 

1.

„Í gærkvöld …“ 

Algengt í fréttum á Ríkisútvarpinu.      

Athugasemd: Valur sigraði Fram í gærkvöld, árekstur varð á Miklubraut í gærkvöld, flogið var til Akureyrar í gærkvöld … Þannig er iðulega tekið til orða í fréttum Ríkisútvarpsins. Engu líkar er en að hvorugkynsnafnorðið kvöld sé eins í þremur föllum; kvöld, kvöld, kvöld, kvölds.

Ég er vanari að þágufallið sé kvöldi. Valur sigraði Fram í gærkvöldi, árekstur varð á Miklubraut í gærkvöldi, flogið var til Akureyrar í gærkvöldi

Til að vera viss ráðfærði ég mig í gærkvöldi við hina ágætu vefsíðu malid.is. Þar stendur eftirfarandi:

Bæði er hægt að segja í gærkvöld og í gærkvöldi.

Og hananú … Ég sætti mig auðvitað við þennan dóm enda ekki alveg alvitur. Hitt er alveg morgunljóst að mér finnst gærkvöld Ríkisútvarpsins hálf tilgerðarlegt og held því áfram því sem ég er vanastur.

Athygli vekur þó að allir starfsmenn Ríkisútvarpsins segja gærkvöld. Allir beygja sig undir regluna, engin undantekning. Vonandi veit það á gott og brátt mun beygingar-, tíðar og aðrar málfarsvillur heyra til fortíðar í „útvarpi allra landsmanna“. Verkefnið er ærið en upphafið lofar góðu. 

Ég hlakka þó til að heyra einhvern uppreisnarsinnaðan starfsmann leyfa sér að segja fréttir frá síðasta kvöldi. Ég bíð, og bíð, og bíð … frá því í gærkvöldi.

Tillaga: Í gærkvöldi …

2.

„Rændi nýbura.“ 

Fyrirsögn á bls. 2 í Fréttablaðinu 9. júní 2018.    

Athugasemd: Eins og vera ber á fyrirsögn að vekja athygli á frétt. Spenntur las ég hana og athygli mín var vakin. Hvað skyldi nýburinn hafa verið með sem freistaði steliþjófsins?

Allir þekkja munninn á að ræna einhvern og ræna einhverjum. Á þessu tvennu er grundvallarmunur sem vart þarf að útskýra hér. Vandinn er hins vegar sá að nafnorðið nýburi er eins í öllum aukaföllum, nýbura.

Þar af leiðandi hefur blaðamaðurinn ekki gert neitt málfarslega rangt af sér. Fyrirsögnin vakti þó athygli.

Svo ekkert fari nú á milli mála hefði verið hægt að orða fyrirsögnina á annan hátt. Raunar gerir blaðamaðurinn það afar smekklega í meginmáli fréttarinnar og þar er fyrirsögnin komin.

Tillaga: Nam nýbura á brott

3.

„Meiddi fé­laga sína af gá­leysi.“ 

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Þó fyrirsögnin sé ekki beinlínis röng tekur enginn svona til orða. Þarna er blaðamaður fastur í dómi sem er skrifaður á einhvers konar stofnanamállýsku. Ein helgasta skylda blaðamanns er að koma fréttum frá sér á skiljanlegu máli sem er um leið þarf að vera málfarslega eðlilegt. Yfirleitt fer þetta tvennt ágætlega saman, gæti hann að sér.

Eitthvað segir mér að gáleysið þýði að ökumaðurinn hafi ekki ætlað að skaða neinn. Slysið varð þar af leiðandi óvart. Fréttin fjallar þó ekki um þetta heldur dóm sem ökumaður bifreiðar fékk vegna gáleysilegs aksturs og hafa verið undir áhrifum vímuefna þegar hann slasaði félaga sína.

Ökumaðurinn meiddi ekki félaga sína, hann beinlínis slasaði þá. Annar handleggsbrotnaði og hinn rifbeinsbrotnaði. Plástur dugar ekki á svona meiddi. 

Tillaga: Ók dópaður og slasaði félaga sína.

4.

„74 tölvu­póstsvik­ar­ar hand­tekn­ir.“ 

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Almennt er ekki ritaðir tölustafir í byrjun setningar. Þannig er þetta út um allan heim. Hér á landi vita margir blaðamenn ekkert um þessa venju, hafa ekki tekið eftir í skóla eða haft slæma kennara. Hvorugt er þó afsökunarefni. Ritstjórar eiga að sjá þetta og ekki sætta sig við það.

Blaðamaður á vef Moggans skrifar tölustaf í upphafi fyrirsagnar og einnig tvisvar í upphafi setninga í fréttinni. Þetta er ljótt.

Reglan skýrist af þessum dæmum:

  • Tólf lærisveinar ...
  • Þrjátíu prósent atkvæðaa 
  • Tíu litlir negrastrákar (má segja þetta?) ...
  • Fimmtán þáttakendur ...
  • Einn fjórði íbúa ...
  • Tveir þriðju meirihluti ...
  • Sjöundaá (bær á Rauðasandi, vinssamlegast ekki skrifa 7undará) ...

Svona er alheimsreglan (!). Blaðamenn, ekki ofbjóða lesendum. Ekki skemma fréttir. Fylgjum góðum reglum og siðum.

Tillaga: Sjötíu og fjórir tölvupóstsvikarar handteknir


Málaliði Vesturverks reynir að fegra Hvalárvirkjun

kort VestfEr til of mikils mælst að þeir sem búa við allsnægtir höfuðborgarsvæðisins með örugga orku á lágmarksverði, fjölbreytta atvinnumöguleika og alla nauðsynlega innviði á sínum stað, standi með okkur Vestfirðingum í þeirri viðleitni að gera fjórðunginn okkar að sambærilegum búsetukosti og önnur svæði Íslands?

Af slíkum endemum skrifar Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, sem á sér þá ósk eina að fá að reisa svokallaða Hvalárvirkjun og spilla þar með einu mikilfengnasta fossasvæði landsins. Grein birtist á síðu 30 í Morgunblaðinu, laugardaginn 9. júní 2018.

Málaliðinn

Þetta er ekki fyrsta greinin sem málaliði Vesturverks skrifar í Moggann. Í fyrri greinum reynir hún að gera lítið úr þeim sem unna landi sínu og vilja verja það fyrir ágangi virkjunarfyrirtækja. 

Ofangreind tilvitnun er innantóm tal. Reynt er að koma því að hjá lesendum að lífsgæði Vestfirðinga séu lakari en íbúa á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að Hvalárvirkjun vantar. Þetta er einfaldlega rangt. Vestfirðingar eiga kost á öllum þeim „allsnægtum“ sem aðrir landsmenn njóta. Ég hef búið á Ísafirði, að vísu í skamman tíma hef margoft ferðast um Vestfirði og tel mig þekkja þá nokkuð vel sem og mannlífið sem þar þrífst. 

Hvalárvirkju hefur enga þýðingu

Hvalárvirkjun hefur ekkert að gera með neinar framfarir í raforkumálum fyrir Vestfirði. Það sjá allir sem skoða kortið hér fyrir ofan. Takið eftir að raforkulínan frá fyrirhugaðri Hvalárvirkjun (sú bleika) tengist raforkulínunni í Kollafirði í Austur-Barðastrandasýslu. Svo merkilega vill til að þar um er fyrir línan frá hringtengingu landsins.

Af kortinu má draga þá einföldu ályktun að Hvalárvirkjun Vesturverks mun ekki hafa nein áhrif á raforkukerfið á Vestfjörðum umfram þá raforku sem kemur frá Kröfluvirkjun eða  Smyrlabjargarárvirkjun í Suðursveit, skammt frá Hornafirði. 

Í raun er það fáránleg röksemd að halda eftirfarandi fram en það gerir Birna Lárusdóttir, málaliði Vesturverks:

Nú hillir undir að langþráðar framfarir í raforkumálum og atvinnuuppbyggingu líti dagsins ljós á Vestfjörðum. Um það eru þeir sérfræðingar samdóma, sem hafa sett sig gaumgæfilega inn í það hvaða þýðingu Hvalárvirkjun, og nauðsynleg orkuflutningsmannvirki henni tengdri, munu hafa fyrir orkuöryggi og möguleika til atvinnusköpunar í fjórðungnum.

Þetta er þvílíkt rugl að tekur ekki nokkru tali. Vestfjörðum er ekki skömmtuð raforka. Þar er framleitt rafmagn og þeir fá það rafmagn sem þarf.

 

Hringtengingu vantar

Vandinn í landshlutanum er sá að þar er ekki hringtenging raforkulína. Rofni raflína á einum stað verður rafmagnslaust þar fyrir norðan. Hvalárvirkjun mun engu breyta um það.

Mesta framfaraspor í raforkumálum á Vestfjörðum er ekki Hvalárvirkjun, fjarri því, heldur hringtengingin. Punktur. Vanti eitthvað upp á allsnægtir á Vestfjörðum getur hringtengingin hjálpað þar eitthvað upp á.

Hvalárvirkjun er óþörf. Vesturverk leggur ekki krónu í raforkulínu frá virkjuninni í Kollafjörð. Ríkissjóði er ætlað að gera punga út fjórum milljörðum króna í verkið. Fyrir vikið er rafmagnssalan allt í einu orðin rekstrarlega hagkvæm. Einhver myndi nú kvarta ef fiskiskip með ríflegan kvóta ætlaðist til að ríkissjóður kostaði flutning aflans frá miðum og til lands.

Hvað er nú næst á dagskránni. Miðað við ómálefnalegan málflutning Birnu Lárusdóttur gæti ég nefnt virkjun Bjarnafjarðarár í samnefndum firði. Vatnsmikið fljót allan ársins hring. Sama er með Reykjafjarðarósinn, Þaralátursósinn og fleiri vatnsföll þar fyrir norðan. Ætlar Vesturverk að láta bara staðar numið með Hvalárvirkjun í þeim göfuga tilgangi að  tryggja allsnægtir, orkuöryggi eð atvinnusköpun á Vestfjörðum? Getur fyrirtækið ekki grætt á fleiri stöðum?

Skipulagsstofnun harðorð

Birnu Lárusdóttur, málaliða Vesturverks til upplýsingar, eru fleiri á móti Hvalárvirkjun en Tómas Guðbjartsson, læknir. Sá ágæti maður hefur verið afar duglegur að vekja athygli á fyrirhuguðum hryðjuverkum Vesturverska á landinu við Hvalá og Eyvindará. Hins vegar skrifaði hann ekki eftirfarandi fyrir Skipulagsstofnun:

Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði.

Inngrip í vatnafar svæðisins verður mikið og mun rennsli í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará minnka verulega og hafa áhrif á ásýnd vatnsfallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalárgljúfrum, fossaraðar í Eyvindarfjarðará, Hvalárfoss og Rjúkandafoss.

Samlegð með áhrifum fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og mögulegrar Austurgilsvirkjunar á Langadalsströnd eykur enn á áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni.

Og ekki heldur skrifaði Tómas læknir þetta heldur Skipulagsstofnun:

Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verða talsvert neikvæð þar sem umfangsmikið svæði verður fyrir raski.

Hvor er trúverðugri, hugsjónamaðurinn eða málaliðinn

Munurinn á Tómasi Guðbjartssyni, lækni, og Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa Vesturverks, einfaldur. Sá fyrrnefndi er hugsjónamaður fullur eldmóðs um náttúruvernd. Sú síðarnefnda er ráðin til að tvinna saman sennilegar lýsingar á herferð Vesturverks gegn landinu.

Hvorum trúir þú ágæti lesandi, hugsjónamanninum eða málaliðanum?

 


Blaðamenn skrifa almennt of langar málsgreinar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Ekki til eftirbreytni

Enska fornafnið some getur bæði þýtt einhver og nokkur, m.a. Það hefur smitað okkur svo að við segjum iðulega „einhverjum árum seinna“ (nokkrum árum seinna), „þetta munar einhverjum milljónum“ (þetta munar milljónum), að ógleymdu „þetta eru einhverjir tíu menn“ (einir tíu eða um það bil tíu menn).

Pistillinn Málið á bls. 66 í Morgunblaðinu 7. júní 2018

 

1.

„Haf­ís og ís­jak­ar nálg­ast landið.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Hver er munurinn á hafís og ísjaka? Jú, ísjaki flýtur á sjó eða vatni, jafnvel finnast þeir á þurru eftir að fjarað hefur undan þeim.

Má vera að þetta sé einhver hártogun. Hafís getur vissulega verið ísjakar og ísjakar hafís. Mér finnst hins vegar að nóg sé að segja að hafís nálgist landið. Þeir sem til þekkja og eru ekki börn, vita að á undan meginísnum reka ísjakar. Hvort tveggja er þó hafís, jafnvel þó að hann hafi brotnað úr jökli í grænlenskum fjörðum.

Tillaga: Hafís nálgast landið.

2.

„Ég gat ekki sofið þegar við vor­um í sund­ur,“ sagði Amal Cloo­ney í ræðu sinni um eig­in­mann sinni Geor­ge Clooney.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Ég myndi ekki heldur sofa ef ég væri í sundur nema ef vera skyldi svefninum langa.

Bein þýðing gengur ekki alltaf. „When we were apart,“ er þarna þýtt, þegar við vorum í sundur. Þeir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir málinu vita að þetta gengur ekki upp. Þó gerðist það oftsinnis á skóla- og sveitaböllum í gamla daga að fólk var rifið í sundur. Líklega hefur eitthvað annað verið í gangi þar en það sem Clooney konan á við.

Sundur er atviksorð og merkir stundum að taka eitthvað sem er eitt og gera að tvennu. Rífa í sundur, saga í sundur, slíta í sundur og svo framvegis. Á rómantískan hátt má segja að karl og kona (par) séu eitt en það er ekki svo þegar öllu er á botninn hvolft. Þegar þau eru ekki saman eru þau aðskilin (ekki þó skilin að borði og sæng eða lögum, sem þó getur verið).

Tillaga: Ég get vart sofið þegar við erum ekki saman, sagði Amal Clooney í ræðu sinni um eiginmann sinn, Georg Clooney.

3.

Tveir koma til með að starfa í alþjóðlegri stjórn­stöð lög­gæslu í Moskvu og þrír munu fylgja ís­lenska landsliðinu á þá staði sem Ísland kepp­ir á og fylgja rúss­nesk­um lög­reglu­mönn­um við eft­ir­lit í kring­um stuðnings­manna­svæði og leik­vang. 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Eitt af því versta sem ég verð fyrir í skrifum er nástaða orða, það er nálægð sömu eða skyldra orða. Má vera að einhver telji það nú óttalegan „kverúlantahátt“ að setja þetta fyrir sig. Stíll er þó alltaf mikilvægur. Gæti skrifari ekki að sér getur hann skemmt textann og um leið missir lesandinn áhugann og veit oft ekki hvers vegna. Athyglin hverfur.

Hér að ofan hefði blaðamaður auðveldlega getað komist hjá þessari nástöðu sem blasir við lesendum. Í fyrsta lagi er málsgreinin of löng.

Gott er að fylgja reglu Jónasar Kristjánssonar, fyrrum ritstjóra, sjá hér. „Settu punkt sem víðast,“ segir hann, og það ekki að ástæðulausu. Krakkar í blaðamennsku og jafnvel eldri jálkar eru margir of sparir á punkta. 

Svo er það nástaðan. Ég mæli með tillögunni hér að neðan. Sögnin að fylgja hefur ótvíræða tengingu áfram og óþarfi er að endurtaka hana.

Tillaga: Tveir munu starfa í alþjóðlegri stjórn­stöð lög­gæslu í Moskvu. Þrír munu fylgja ís­lenska landsliðinu á keppnisstaðina og verða þar með rúss­nesk­um lög­reglu­mönn­um við eft­ir­lit.

4.

Karol­ina varð af­skap­lega glöð þegar hún fékk frétt­irn­ar því hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyr­ir sig og sína fjöl­skyldu og því ljóst að hún er búin að spara sér heil­mik­inn pen­inga.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Frekar er þetta nú illa skrifað og af lítilli kunnáttu. Munum reglu Jónasar Kristjánssonar, að setja punkt sem oftast. Ekki reyna að teygja lopann, þá á skrifarinn það á ættu að lesandinn missi athyglina.

Í málsgreininni eru 35 orð, helmingi fleiri en ráðlagt er.

Jónas segir: 

Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.

Þessi regla er tær snilld, hvorki meira né minna. Blaðamaðurinn sem skrifaði ofangreinda tilvitnun hefði átt að þekkja hana. Þá hefði hann skrifað svipað eins og í tillögunni hér að neðan.

Loks má geta þess að í íslensku kemur afturbeygða fornafnið á eftir nafnorðinu. Það er fjölskylduna sína en ekki sína fjölskyldu. Hið síðarnefnda er undir enskum áhrifum.

Tillaga: Karol­ina varð af­skap­lega glöð þegar hún fékk frétt­irn­ar. Hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyr­ir sig og fjöl­skyldu sína. Nú hefur hún sparað sér heil­mik­inn pen­inga.


Lýðurinn ákærir, dæmir og tekur af lífi ... en úbbs!

Hvar eru nú hælbítarnir sem reyndu að rakka niður æru Braga Guðbrandssonar með því að tengja hann við barnaníð og fleira ógeðfellt. Ég tek eindregið undir orð Ögmundar Jónassonar, fyrrum ráðherra og alþingismann, en hann segir meðal annars um mál Braga á vefsíðu sinni:

Á undanförnum mánuðum hefur Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu (nú í leyfi), verið borinn þungum sökum í nokkrum fjölmiðlum og á Alþingi. Honum var gefið að sök að hafa gerst brotlegur við lög, farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel lagst á sveif með barnaníðingi!

Núverandi félags- og jafnréttisráðherra fékk einnig sinn skammt. [...]

Stundin birti myndir og fyrirsagnir sem tengdu Braga Guðbrandsson illri meðferð á börnum og Kjarninn sagði á þá leið að nú væru allir raftar dregnir á flot til að verja spillinguna en einhverjir þingmenn stæðu sem betur fer í fæturna til að berjast gegn ósómanum. [...]

Ég minnist þess varla að eins hörð hríð hafi verið gerð að æru nokkurs embættismanns og æru Braga Guðbrandssonar í þessu makalausa máli.

Í þessu samhengi má nefna að hermt er að þingmaður hafi gengið svo langt að hafa samband við sendiráð Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum til að vara við níðingnum í framboði!

En nú er kominn niðurstaða óháðrar rannsóknarnefndar. Og viti menn, sakborningurinn Bragi Guðbrandsson er að fullu sýknaður og hreinsaður af svívirðilegum áburði á hendur honum í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli, sem sagt er hafa verið hið alvarlegasta í þeirri gagnrýni sem fram var borin á hendur honum og þar sem honum var ætlað að hafa farið út fyrir sitt verksvið sitt í trássi við lög.

Ásmundur Einar Daðason, núverandi félagsmálaráðherra, má einnig vel við una því hann hefur haldið hárrétt á málum samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, með einni undantekningu þó. Og það er að hafa látið niðurstöður ráðuneytisins frá því í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar, standa óhaggaðar því í ljós kemur að þær voru settar fram að óathuguðu máli. Með öðrum orðum, ráðuneytið hafi verið búið að gera forstjórara Barnaverndarstofu að skotspæni áður en úttekt hefði farið farið fram. Auk þess hefðu stjórnsýslureglur verið þverbrotnar. Ráðuneytið fær almennt slæma útreið í skýrslunni og er legið á hálsi fyrir að hafa ekki rannsakað þau mál sem þar voru færð upp á borð áður en niðurstaða var fengin. Þetta þýðir að alrangt er hjá Þorsteini Víglundssyni, fyrrum ráðherra að í niðurstöðum ráðuneytisins hefði verið að finna lokapunktinn í málinu. [...]

Núverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur stigið afgerandi skref til að laga stjórnsýsluna og á hann fyrir það lof skilið. Hann hefur gert rétt í því að stíga upp úr gömlum hjólförum á þessu málasviði og horfa til framtíðar.

En nú þegar Ásmundur Einar og höfuðsakborningurinn Bragi Guðbrandsson hafa báðir verið „sýknaðir", hvað gera þá hinir sjálfskipuðu dómarar? Þar er ég til dæmis að tala um formann velferðarnefndar Alþingis (Halldóra Mogensen, pírati] sem hafði uppi stór orð; þingkonuna [pírati?] sem hafði samband við norrænu sendiráðin til að rægja íslenska frambjóðandann; sleggjudómarann, fyrrum félagsmálaráðherra, Þorstein Víglundsson, sem sjálfur situr uppi með svarta Pétur, fjölmiðlamennina sem átu upp allan áburðinn gagnrýnislaust og svo hina sem voru beinir gerendur í aðförinni.

Ætlar þetta fólk, hinir sjálfskipuðu dómarar, að biðjast afsökunar?

Gott hjá Ögmundi.

Hver er svo þessi sjálfskipaði baráttumaður fyrir „réttlætinu“ sem rægði Braga Guðbrandsson við norrænu sendiráðin. Var það annar pírati? Mikilvægt er að fá að vita hver ærumorðingi er.

Þetta á að kenna fólki að betra er að kynna sér málin áður en haldið er í öfgafulla „réttlætisherferð“ í anda Trump. Aldrei nokkurn tímann er skynsamlegt að skjóta og spyrja svo. Lýðurinn vill taka mann af lífi og þegar í ljós kemur að sá var saklaust segir það bara „úbbs“.

Fjölmörg dæmi eru um svona samantekin ráð að berja á einstaklingum í þjóðfélaginu, stjórnálamönnum, embættismönnum og einstaklingum sem fátt hafa til saka unnið. Enn og aftur hengir lýðurinn morðingja Lúkasar uppi í ljósastaur, en úbbs ... þarna ærslast Lúkas algjörlega ódauður.


mbl.is Verið „afskaplega sársaukafullt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir halda með landsliðinu en er hægt að halda á móti því?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Gott mál

Íslenskan virðist hægt og bítandi vera að renna saman við hið alltumlykjandi tungumál ensku og æ oftar verður maður var við að fólk gerir ekki greinarmun á ensku orðalagi og íslensku. Fólk „tekur“ sturtu, svo dæmi sé tekið og fátt er eins óþolandi og þegar afgreiðslufólk segir „eigðu góðan dag“ í stað þess að segja einfaldlega „njóttu dagsins“ eða „hafðu það gott í dag“.

Úr pistlinum Ljósvakinn á bls. 34 í Morgunblaðinu 5. júní 2018. Höfundur er Helgi Snær Sigurðsson.

 

1.

„Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu eftir að varnarmenn KA voru of lengi að stíga út á móti honum. Í raun hefði mátt flauta leikinn af þarna, enda fátt markvert sem gerðist eftir þetta.“ 

Úr frétt á bls. í íþróttblaði Morgunblaðsins 1. júní 2018.      

Athugasemd: Margir blanda sama tíðum sagnorða, þar á meðal ég. Í tilvitnuninni er sagt frá fótboltaleik sem er afstaðinn. Maður skoraði mark, greinileg þátíð. Varnarmennirnir „voru of lengi að stíga fram“, og þarna er sögnin í nafnhætti, sem auðvitað er ekki rangt.

Lítum aðeins nánar á þetta. Maðurinn skoraði af því að varnarmennirnir stigu ekki ekki nógu fljótt fram, vörðust illa eða voru of seinir. Hér eru sagnirnar í þátíð og því meira samræmi í frásögninni, sjá líka tillöguna hér fyrir neðan. Vont er ef skrifarar villast í tíðum svo úr verður barnsleg frásögn í þátíð og nafnhætti. Hér er ýkt dæmi tíðarvillu sagna. 

Jón kemur og vann til fjögur og fer þá og sést ekki meir.

Betra er að orða þetta svona: Jón kom, vann til fjögur, fór þá og sást ekki meir.

Stíll er gríðarlega mikilvægur svo skrif verði áhugaverð og þægileg aflestrar. Margs ber að gæta sem ekki liggur í augum uppi en sem betur fer er málið svo fjölbreytt að hver og einn getur mótað sinn eigin stíl, sé þekking og vilji til þess. Stílleysi er hræðileg algengt í blaðmennsku.

Að lokum má benda á ofnotkun ábendingarfornafna, vandi sem ég á oft í erfiðleikum með. Þau hafa oft ekkert gildi, skemma bara fyrir. Þar að auki eru þau oft rangt staðsett. Berum til dæmis saman tilvitnunina og tillöguna hér að neðan.

Af lestri greinarinnar virðist þó að ýmislegt markvert hafi gerst eftir að FH skoraði. Í fréttinni er sagt frá stórleik varnarmanns sem átti alls kostar við framherja KA, raunar svo að ástæða var til að geta um frammistöðu hans í fyrirsögn.

Tillaga: Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á nítjándu mínútu eftir seinagang varnarmana KA. Eftir markið hefði mátt flauta leikinn af enda gerðist fátt markvert það sem eftir lifði leiks.

2.

„Melania Trump fylgir eiginmanninum ekki á leiðtogafundina.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Orðaröð í íslensku fer oft eftir smekk þess sem skrifar og ekkert við því að gera nema þegar hún fer í bága við málkennd lesandans. 

Mér finnst ofangreind fyrirsögn ekki góð og vil hafa atviksorðið ekki á eftir sögninni. Þetta kann þó að fara eftir smekk hvers og eins

Tillaga: Melania Trump fylgir ekki eiginmanninum á leiðtogafundina.

 

3.

„Það er aðeins einn stuðningsmaður sem segist halda á móti Íslandi og það er Hollendingurinn.“ 

Úr frétt á visir.is.      

Athugasemd: Skringileg málsgrein. Hún ber blaðamanninum sem skrifaði ekki vel söguna. Sá er ekki stuðningsmaður íslenska landsliðsins sem heldur ekki með því, svo einfalt er það.

Ég held með Íslandi, segir einhver, en er hægt að „halda á móti íslenska liðinu“. Er þá ekki morgunljóst að hann heldur ekki með íslenska liðinu.

Til er orðasambandið að halda á móti. Þá er merkingin sú að styðja við, til dæmis að eitthvað falli ekki. Dæmi, ég held á móti svo bíllinn renni ekki niður brekkuna meðan þú setur hann í handbremsu.

Niðurstaðan er að þetta er barnamál, málfar sem spunnið er upp af þeim sem hefur ekki þekkingu á íslensku máli, er með takmaraðan orðaforða. Verst er þó að enginn les yfir hjá Vísi, enginn leiðbeinir blaðamanninum. Og hvernig á hann þá að geta bætt sig?

Annars er hér ágætt tækifæri til að upplýsa um leyndarmál. Þeir sem byrja  setningar eða málsgreinar á aukafrumlagi, til dæmis „það er …“ eru yfirleitt ekki góðir í skrifum. Nánar um þetta aukafrumlag sem oft er nefndur leiðindaleppur, sjá hér.

Tillaga: Aðeins einn segist ekki halda með Íslandi og það er Hollendingurinn.

4.

„Félagar hennar sendu frá sér neyðaróp eftir að konan slasaðist.“ 

Úr frétt á bls. 15 í Morgunblaðinu 6. júní 2018     

Athugasemd: Má vera að enginn munur sé á neyðarkalli eða neyðarópi. Hins vegar er löng hefð fyrir því að þegar haft er samband í gegnum talstöð er það nefnt kall, nafnorð dregið af sögninni að kalla. Þannig var það fyrir tíma gsm síma, stærri skip voru með loftskeytamenn, jafnvel flugvélar. Síðar komu talstöðvar í bíla og þá var sagt: Gufunes, Gufunes, R1456 kallar.

Í einhverjum hálfkæringi segir blaðamaður Morgunblaðsins að félagar konu sem slasaðist á norðanverðu hálendinu hafi sent frá sér neyðaróp. „Ó, gvöð“, gætu þeir hafa hrópað upp yfir sig er konan meiddi sig. Björgnarsveitir í Eyjafirði kunna að hafa haft opinn glugga, heyrt ópið og runnið á hljóðið og komið blesssaðri konunni undir læknishendur.

Hvað veit ég svo sem. Ég er bara lesandi og furða mig oft á Mogganum. Þar með er ekki sagt að ég geti ekki haft gaman af tilraunum blaðamanna til að þróa málið. Held samt að um ófyrirsjáanlega framtíð muni neyðarkall verða ráðandi og neyðaróp verði áfram haft um afmarkaðri hluti. Líklega fer best á því svo lesendur skilji við hvað er á sem raunar ætti að vera markmið ritstjórnarinnar. Því miður stendur hún ekki alltaf undir ábyrgð sinni.

Tillaga: Félagar konunnar sendu frá sér neyðarkall eftir að hún slasaðist.


Með endemum ómálefnaleg stjórnarandstaða

Mikið skrambi er ég feginn að Vinstri grænir eru í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ástæðan er einfaldlega sú að nú er einum úrtöluflokknum færra í stjórnarandstöðunni. Flest af því sem Vinstri græni gagnrýndu undanfarnar ríkisstjórnir er þeim gleymt og grafið af því að ábyrgð fylgir valdastöðu en ábyrgðaleysi stjórnarandstöðu. Svona yfirleitt ...

Ég horfði á eldhúsdagsumræðurnar og fékk það á tilfinninguna að þingmenn væru orðnir óþreyjufullir að komast í sumarfrí. Sérstaklega var stjórnarandstaðan máttlaus og ... já, ég verð bara að segja það ... leiðinleg.

Oddný Harðardóttur, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er vel læs og það kom sér vel því hún hefði aldrei getað lært ræðuna sína, hvað þá að hún hafi trúað á það sem hún þó sagði, svo mikið hikstaði hún og hikaði við flutning hennar.

Píratinn með útlensku röddina, man aldrei hvað hann heitir, flutti afbragðsgóða ræðu um eitthvað sem enginn man lengur. Hann var hins vegar afar sannfærandi þó eldmóðurinn hafi nú ekki beinlínis lekið af honum.

Á tímabili varð mér starsýnt á forseta Alþingis sem um tíma sat fyrir aftan ræðumenn. Gat ekki betur séð en að Steingrímur J. Sigfússon dottaði. Má vera að verkjalyfin hafi bara farið svona illa í hann. Munum að maðurinn er stórslasaður og í fatla.

Fyrrum félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, hefur náð einstökum tökum á ræðumennsku þingmanna sem voru aldraðir er ég var á unglingsárum. Slík ræðumennska nefnist í daglegu talið „framsóknartal“ og hefur aldrei þótt skemmtilegt. Hæfileikar Þorsteins eru slíkir að jafnvel formaður Framsóknarflokks kemst ekki með tærnar nálægt því þar sem hann hefur raddböndin. Líklega sem betur fer! 

Af þeim stjórnarandstæðingum sem ég hlustaði á fannst mér þingmenn Flokks fólksins bera af. Formaðurinn flutti afar tilfinningaþrungna ræðu og var ég, Sjálfstæðismaðurinn, fyllilega sammála henni. Ólafur Ísleifsson, þingmaður og hagfræðingur, flutti einnig verulega góða ræðu. Ég er jafnan sammála Ólafi enda er hann gamall félagi í Sjálfstæðisflokknum. Lokaorð hans voru að þjóðin gæfi sjálfri sér fullveldisgjöf sem er vernd og eflingu íslenskra tungu með því að efla kennslu og rannsóknir. Mikið er ég sammála Ólafi.

Afsakið, ég veit ekki hvaðan Hanna Katrín Friðriksdóttir kemur. Hún er eins og flestir í þessum flokki einstaklega óáhugaverð og ómálefnaleg í málflutningi sínum. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hún og félagar hennar voru fyrir átta mánuðum í ríkisstjórn. Þá gagnrýndi hún ekkert. Sat bara með hendur í skauti og lét sér líða vel.

Ótrúlegt hvernig þingmenn stjórnarandstöðunnar eru heilagir í málflutningi sínum og skiptir þá engu þó þeir hafi verið í ríkisstjórn áður og þá svikið og svindlað af vild. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband