Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

Blaðamaður telur fjóra vinstri menn vera marktækt úrtak

Visir.is stundar síst af öllu hlutlausa blaðamennsku, oftar er ekki er hún frekar vinstrisinnuð. Í dag má sjá þessa fyrirsögn:

Söguskoðun Hannesar Hólmsteins fær falleinkunn á Facebook.

Blaðamaðurinn Stefán Ó. Jónsson skrifar „fréttina“ og fjallar um grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson í Morgunblaðinu í dag. Tilefni hennar er að tuttugu og fimm ár er síðan Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins.

Blaðamennska Stefáns er ekki merkileg. Hið eina sem hann gerir er að leita uppi á Facebook fjóra vinstri menn í þjóðfélaginu og birta álit þeirra á grein Hannesar.

Þetta eru Óðinn Jónsson, dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður, Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjórar Landspítalans, Heiða B. Heiðars, bloggari, og Illugi Jökulsson, dagskrárgerðarmaður og rithöfundur. 

Auðvitað er enginn þessara vinstri manna er hrifinn af grein Hannesar enda hafa þau hingað til hvorki talist til aðdáenda hans eða Davíðs Oddssonar. Engu að síður telur Stefán, blaðamaður, að úrtakið sé nóg til að komast að þeirri niðurstöðu að grein Hannesar fái „falleinkunn á Facebook“.

Þetta þykir nú ekki merkileg blaðamennska og ég er nokkuð viss um að geta fundið fjóra á Facebook sem eru sammála mér, rétt eins og Stefán fann fjóra sem eru sammála honum um greinina hans Hannesar.

Verra er þó að menn eins og Stefán fái að vaða um á visir.is og viðra pólitískar skoðanir sínar og birta þær sem „frétt“. Auðvitað er tómt rugl að leyfa slíkt. Hins vegar er arfaslök fréttastjórn á Fréttablaðinu og visir.is enda stefnan sú að mikið magn „frétta“ er betra en gæði þeirra. Meira að segja blaðamennirnir eru þessarar skoðunar.


Yngsta fólkið ætlar að kjósa Ólaf Ragnar

Margir leggjast gegn framboði Ólafs Ragnars Grímsson og hafa kallað forsetatíð hans „þrásetu“. Þar að auki hefur verið bent á að ung fólk sem fær nú að kjósa forseta þekki ekkert annað en Ólaf Ragnar sem forseta. Og sumir ná ekki svefni vegna þessarar óhæfu.

Ólafur Ragnar nýtur mestrar hylli hjá yngstu kjósendunum, Guðni höfðar til þeirra sem eru 45 ára og eldri en enginn yngstu svarenda ætlaði að kjósa hann og Andri Snær á mestan stuðning hjá þeim sem eru milli 25 og 44 ára.

Þetta er á vef Ríkisútvarpsins þar sem sagt er frá niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Í henni fær Ólafur Ragnar yfirgnæfandi fylgi. Sá frambjóðandinn sem næst kemur fær 15%. Væri Guðni, sonur Jóhannesar heitins íþróttakennarans míns í MR, í framboði, fengi hann 25% atkvæða.

Öllum á óvart vill unga fólkið kjósa Ólaf Ragnar, setur „þrásetuna“ ekkert fyrir sig.

Er þetta ekki bara ágætt? Ekki síst að vinstri flokkarnir hafa barist hatrammlega gegn framboði forsetans og sýnt honum megnustu fyrirlitningu og óvirðing. Allt hefur þetta snúist gegn þeim.


Enn og aftur verður Gylfi Magnússon sér til skammar

Þeir sem notfæra sér svona brögð geta haft forskot á aðra og þar með heltast hinir úr lestinni í samkeppninni. Þannig að við getum endað með helsjúkt samfélag sem ég held því miður að sé ekkert fjarri lagi sem lýsing á efnahagslífinu.

Þetta segir Gylfi Magnússon, hagfræðingur og ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Hann segir ofangreint í viðtali við Ríkisútvarpið.

Þessi maður hótaði þjóðina að greiddi hún atkvæði gegn Icesave samningunum á sínum tíma hélt því fram að Ísland gæti orðið sem „Kúba norðursins“, enginn vildi eiga hér viðskipti nema þjóðin og ríkisstjóður tækju ábyrgð á skuldum gjaldþrota banka.

Þetta var misheppnaður pólitískur áróður, undirbeltishögg. Tilangurinn var einfaldlega sá að hræða fólk til að greiða atkvæði á „réttan“ hátt.

Mér finnst eiginlega nóg komið af Gylfa Magnússyni og hans nótum. Hræðsluáróðurinn er þvílíkur að engu tali tekur. Nú talar hann um „helsjúkt samfélag“ og á við það sem þú, ágæti lesandi, og við öll búum í.

Ég hef búið hér alla mína ævi að frátöldum nokkrum árum við nám og vinnu í útlöndum. Allan þennan tíma hafa verið fréttir af skattsvikum, glæpum og annars konar vandræðum í þjóðfélaginu. Á slíku taka yfirvöld, lögregla og dómstólar.

Íslenskt samfélag er langt frá því að vera helsjúkt þó svo að einhverjir séu dæmdir í fangelsi fyrir stuld, smygl, þjófnað, líkamsárásir, skattsvik eða stundi þann ljóta leik að fela eignir sínar í útlöndum svo þeir þurfi ekki að greiða skatt af þeim hér á landi.

Við almenningur „þjáumst“ ekkert vegna einhverra aflandsvæðingar örfárra, ekki frekar en skattsvik örfárra valdi okkur vandræðum í daglegu lífi. Við leggjum einfaldlega traust okkar í þessu tilviki á skattayfirvöld og dómstóla, rétt eins og við treystum lögreglunni og saksóknara um að koma böndum á aðra glæpamenn.

Alhæfing um að samfélagið sé „helsjúkt“ er ekkert annað er ruddaskapur og fyrirlitning á þeim stóra meirihluta sem stendur sig, skilar sköttum, rekur fyrirtæki, sinnir launuðum störfum af heilindum og dugnaði, hvort sem þeir eru atvinnurekendur eða launþegar.

Gylfi Magnússon er enn í pólitík og honum ferst það jafn illa og þegar hann var í ríkisstjórn. Hann er einfaldlega höfundur skröksagna og dreifir þeim að hætti óvandaðra manna. 

Ég hef þá trú að langflestir Íslendingar hafi megnustu skömm á svona málflutningi. Enn meiri skömm er að því að svona maður sé í þeirri stöðu að uppfræða ungt fólk.


Kaldrifjað að reka fólk út á guð og gaddinn

Enn og aftur sendum við að því er virðist gott og vandað fólk úr landi, fólk sem flestir myndu ætla að geti komið að miklu gagni, dugandi fólk. Og ekki nóg með það. Reglurnar eru þannig að engum kemur það við hvað verður um fólkið, hvort það lendir á götunni eða í enn verri aðstæðum heldur en hægt er að ímynda sér. 

Vitað er að fjölmargir þeirra sem koma hingað til lands og þykjast vera á flótta en er sannarlega vandræðafólk, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Sumir eru ekki til friðs, hvorki á þeim stað sem það er vistað eða annars staðar í samfélaginu.

Fjölmargir segja að lögin eigi að ráða en ekki mat einhverra á aðstæðum og einkennum þeirra einstaklinga sem um ræðir. Þetta er kaldrifjað viðhorf sem og framkvæmdin. Samt metum við fólk daglega, hæfni þess og lunderni. Af hverju skyldi ekki vera hægt að meta hjartalag þess fólks sem sækir hér um landvistarleyfi? Eða eiga gagnaugun ein að gilda?

Mér finnst útilokað að hægt sé að sætt sig við að heiðarlegu og góðu fjölskyldufólki sé vísað á dyr. Það er siðferðilega rangt að vísa fólki út á guð og gaddinn. Í þeim verknaði felst enginn kristilegur kærleikur sem svo margir vilja trúa að þjóðfélag okkar byggist á.

Þvert á móti er þetta rangt og gengur þvert á það sem manni var innrætt í æsku og allar götur síðan.

Finnst fólki þetta háttalag í lagi? Ef svo er ekki, af hverju heyrist engin rödd mótmæla?


mbl.is Seldu gullhring fyrir svefnstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu vinna milljarð og vinninginn heim ...

Hér er einstaklega gott dæmi um arðvænlegan og skemmtilegan samkvæmisleik. Að vísu er aðgangur að honum takmarkaður, ekki fyrir mig og mína líka. Þeir sem fá leyfi til að leika sér geta búist við miklu fjöri. Að vísu kunna lífsskilyrði okkar hinna að skerðast eitthvað, en það skiptir engu máli. Einhvers staðar þurfa peningarnir að vera. E'þaki?

Leikurinn er útlistaður á Fésbókarsíðu Ragnars Önundarsonar:

Viltu "vinna" milljarð ? Viltu svo "vinninginn heim" ? Þá er þetta aðferðin:

    1. Þú stofnar „eignarhaldsfélag“ og tekur milljarð að láni hjá kunningja þínum í bankanum eftir að hafa borgað "bónus" til hans með "þóknun skv. gjaldskrá".
    2. Þú stofnar „aflandsfélag" í Panama eða Tortóla með aðstoð kunningja þíns í bankanum og millifærir það sem eftir er af milljarðinum þangað.
    3. Þú sérð enga leið til að eignarhaldsfélagið geti borgað afborganir og vexti og það fer í þrot. Bankinn afskrifar lánið þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir að hafa allar upplýsingar um hvað varð um peningana og hvert þeir fóru. Þú borgaðir svo góðan „bónus" að þeir fara ekki að vera með nein leiðindi.
    4. Til öryggis stofnarðu fleiri aflandsfélög með aðstoð erlends banka og millifærir áfram nokkrum sinnum í þeirri von að það „snjói í sporin". Allt kostar þetta og þú þarft nú sjálfur að lifa eins og aðrir, svo nú "áttu" bara 900 millur.
    5. Þú bíður í nokkur ár en svo sérðu tilboð Seðlabankans um að taka þátt í gjaldeyrisútboði. Þú tekur því og færð þriðjungs ábót á „vinninginn" og átt allt í einu 1.200 milljónir. Seðlabankinn tryggir þèr nafnleynd svo ekki sé unnt að lesa saman nöfn þáttakenda við afskriftalistana.
    6. Þú kaupir þér teinótt jakkaföt og gerist „fjárfestir". Ásamt félögum þínum kaupir þú banka af ríkinu, sem gleðst yfir vel heppnaðri einkavæðingu og lýsir yfir sigri og fagnar að samkeppni virðist komin í bankaþjónustu
    7. Þú ert kosinn formaður bankaráðs og lætur bankann sinna ýmsum menningar- og velferðarmálum og flytur ávörp af því tilefni.
    8. Þú ert sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu í boði hjá Forseta Íslands.
    9. Þú gerir samkomulag við kollega þína í hinum bönkunum um að bankarnir láni ykkur í kross, svo þið þurfið ekki að skulda í eigin banka. Það er ekkert óeðlilegt við það, þú ert jú „fjárfestir".
    10. Þú tekur 10 milljarða að láni og ... sjá liði 1-8, nema nú er það Stórriddarakross auðvitað.

Hver er þessi Guðni Felds?

Til að halda spennunni er ég enn að hugsa um að bjóða mig fram til forseta. Set það ekkert fyrir mig þó enginn hafi heyrt mín getið og ég hafi alla tíð reynt að vera sennilegur.

Feldurinn fer mér vel og hugsanlegt að ég verði undir honum þar til í haust. Það gerir sosum ekkert til.

Nú er ég eiginlega að tína saman spakleg orð til að nota í kosningabaráttunni. Pant nota allt sem hljómar vel og lítur fagurlega út á prenti.

Hver eru annars þessi Sigrún og Guðni Felds? Eru þau hjón sem ætla að bjóða sig fram til forseta maka hans. Mér finnst hann svo líkur kallinum sem ber út Fréttablaðið heim til mín.


mbl.is Sigrún og Guðni enn að meta stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dónaskapur Svandísar Svavarsdóttur gagnvart þjóðinni

Útilokað er að halda því fram að Svandís Svavarsdóttir, fyrrum ráðherra Vinstri grænna og alþingismaður sé hugsjónamaður. Hún seldi skoðun sína á ESB og fékk í staðinn ráðherrasæti í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms.

Um þessar mundir er hún afar hávær í gagnrýni sinni á ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins og telur sig vita manna best um vilja þjóðarinnar.

„Maður er nátt­úru­lega hissa, svo ekki sé fast­ar að orði kveðið, að ekki sé hægt að setja ein­fald­lega niður þenn­an dag og ég skil það ekki að það sé búið að halda tvo fundi í stjórn­ar­ráðinu með stjórn­ar­and­stöðunni og afrakst­ur­inn skuli enn vera sá að það sé ennþá loðið og lævi blandið hvenær verður kosið,“ sagði Svandís. „Mér finnst þetta dóna­legt gagn­vart þjóðinni,“ bætti hún svo við.

Þetta segir Svandís í sjónvarpsþætt í morgun samkvæmt endursögn mbl.is. Hún tilheyrir drjúgum minnihluta á Alþingi en talar eins og hennar sé valdið, mátturinn og dýrðin. Þetta er konan sem seldi stefnu síns flokks fyrir sæti í ríkisstjórn. Og ekki nóg með það.

Það var hún sem sýndi þjóðinni í tvígang þann dónaskap að segja ekki af sér þegar búið var að fella Icesave samningana undan henni og ríkisstjórninni sem hún sat naglföst í.

Hún og félagar hennar einkavæddu bankanna á ríkisstjórnartíma sínum á þann hátt að kröfuhafar þeirra fengu þá gefins. Og til þess að sykra nú dálítið gjöfina fengu þeir afslátt af íbúðaskuldum heimilanna í landinu svo bankarnir gætu hagnast enn betur á gjöfinni.

Þessari konu ferst að skálda upp dónaskap á núverandi þingmeirihluta. Hið eina sem Svandís gæti í raun og veru gagnrýnt meirihlutann fyrir er að stytta yfirstandandi kjörtímabil og kjósa í haust í stað þess að kjósa eftir eitt ár. Það er eina ávirðingin sem hún hefur en notar ekki.

Svandís er ekki þjóðin en hún þykist vera það.

 


mbl.is Dónaskapur gagnvart þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin óglöggu skil á milli fréttar og skoðunar blaðamannsins

BlaðamaðurAndri Snær Magnason, rithöfundur og frambjóðandi til embættis forseta Íslands, fer nokkuð mikinn í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir lýðræðið virka vegna þess að kjarni þess sé óvissan.

Nú er sá tími í sumum fjölmiðlum að blaðamenn eru ekki lengur milliliðir, heldur beinir þátttakendur í samfélagsumræðunni, sérstaklega stjórnmálum. Ofangreint er úr frétt Fréttablaðs dagsins og þar túlkar Kolbeinn Tumi Daðason, blaðamaður orð Andra Snæs Magnasonar, forsetaframbjóðanda en hann skrifar grein í blaðið í dag. Þetta er aðeins lítið dæmi um það sem er að gerast í blaðamennsku hér á landi.

Ég hef lesið grein Andra Snæs en get ómögulega tekið undir að hann „fari mikinn ...“. Þvert á móti er þetta enn ein greinin sem miðast við að berja á móframbjóðandanum, núverandi forseta. Ekkert merkilegri en það sem aðrir frambjóðendur segja. Þessi tilvitnun er þó ekki aðalatriðið.

Beinar túlkanir blaða- og fréttamanna á samfélaginu eru orðnar frekar algengar og skilin á milli skoðana blaðamanna og frétta verða því oft ansi óglögg. Þannig er lesandinn nauðbeygður að setja sig í þá stöðu að vera á varðbergi, vera gagnrýninn og hafa til að bera næga þekkingu til að átta sig á því sem um er fjallað. Sé hann ekki þannig vopnum búinn tekur hann öllu trúanlegu eins og yfirleitt er með prentað mál. Við trúum því sem á prenti stendur eða heyrum í útvarpi eða sjónvarpi. Þann trúnað er auðvelt að misnota. Þetta er hins vegar ekki góð blaðamennska, þvert á móti.

Hér áður fyrr sátu fréttastjórar í glerbúrum sínum og tóku við greinum blaðamanna, lásu þær yfir, mátu hvernig fréttin var skrifuð og hver efnistökin væru. Síðast en ekki síst var málfarið virt. Þetta virðist ekki gerast lengur. Aginn er fokinn út í veður og vind, krafan er um magn en ekki gæði. Allir geta orðið blaðamenn svo framarlega sem þeir kunna fingrasetningu á lyklaborði og geti nokkurn veginn skammlaust notað tölvu.

Nú setja blaðamenn fréttir inn á tölvukerfi fjölmiðla sinna en enginn les yfir, enginn gætir samræmis. Ekki-frétt getur jafnvel orðið stórfrétt og aðrar mikilvægar og stórmerkilega fréttir eru faldar eða birtast ekki, rétt eins og gerist þessa dagana hjá Fréttablaðinu.

Lengi var sú skoðun uppi hér á landi að markmiðið með rekstri fjölmiðla væri eitthvað háleitara en að selja auglýsingar. Þær eru vissulega mikilvægar, en efnið, maður lifandi, efnið og efnistökin. 

Hvenær varð það eiginlega hlutverk blaða- og fréttamanna að innræta lesendum skoðanir sínar? 

Myndin er tekin traustataki.


Halla Tómadóttir skipar sér á bekk með Donald Trump ...

UnknownEn ég er óneitanlega ekki stolt af því að sitjandi forseti skuli skipa sér á bekk með einræðisherrum eins og Mugabe.

Þetta segir Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi, í viðtali við visir.is. Ekki virðist frambjóðandinn vera sérstaklega vel að sér í heimsmálunum. Hún ber forseta Íslands sem er lýðræðislega kjörinn samkvæmt lögum sem sett eru af lýðræðislega kjörnum þingmönnum á löggjafarþingi lýðveldisins saman við Robert Gabriel Mugabe forseta Zimbambwe.

Mugabe þessi er allt annað en lýðræðislega þenkjandi maður jafnvel þótt hann hafi fyrst náð kjöri í almennum kosningum árið 1980. Hann stóð fyrir þjóðernishreinsunum snemma á valdaferli sínum þar sem 20.000 manns voru myrtir. Hann hefur ríkt með spillingu, falsað úrslit kosninga og miskunnarlaust látið drepa andstæðinga sína unnvörpum.

donald-trump-flickr-ccHalla Tómasdóttir setur Robert Gabriel Mugabe á sama stall og Ólaf Ragnar Grímsson. Þessi orð sæma ekki forsetaframbjóðanda eða öðru upplýstu fólki.

Hún getur ekki með nokkru móti réttlætt orð sín með öðru en þeim fjölda ára sem þjóðin hefur lýðræðislega kjörið Ólaf Ragnar í embætti.

Röksemdafærsla hennar er svona eins og að segja að Halla Tómasdóttir skipi sér á bekk með öfgamönnum eins og Donald Trump. Og rökstuðningurinn; þau eru bæði ljóshærð.

Svona röksemdafærsla gengur ekki.


Enn skrökvar Egill Helgason ...

Davíð Oddsson var orðinn mjög heitur að fara í forsetaframboð. Honum mun ekki hafa vaxið það í augum að takast á við Andra Snæ Magnason. Davíð er náttúrlega vanur að fara í kosningabaráttu – og hafa sigur. Hann hefði sett upp sparisvipinn í kosningabaráttu, þótt hann hafi sýnt aðrar hliðar í ritstjórnarskrifum í Morgunblaðinu.

 

Vinstrimenn mega skrökva, fara með hálfsannleika eða bara giska. Allt er þeim leyfilegt og enginn maldar í móinn, allra síst „virkur í athugasemdum“. Ofangreint er úr pistli Egils Helgasonar á vefmiðlinum eyjan.is og auðvitað er það tóm vitleysa sem hrekkur upp úr Agli.

Ég hef það hins vegar frá áreiðanlegum heimildum, raunar fleiri en einni, að það hefur aldrei flögrað að Davíð Oddsyni að fara í forsetaframboð. Ástæðan er einföld: Embættið er ekki áhugavert, jafnvel þó núverandi forseti hafi reynt að móta það eftir eigin tilfinningum. Slíkt hefði Davíð Oddsyni aldrei dottið í hug að gera, hann er lögfræðingur og ber meiri virðingu fyrir stjórnarskránni en svo. Fyrir marga aðra kann vel launað innidjobb áhugaverður kostur.

Hins vegar ber Davíð ekki skoðanir sínar á torg umfram það sem kann að koma fram í skrifum hans í Morgunblaðinu. Þar af leiðandi er auðvelt fyrir vinstri menn eins og Egil Helgason að bera það á torg sem honum hentar. Raunar er það þannig að Egill hefur hatast við Davíð Oddsson allt frá öndverðu og sjaldnast haft eitthvað jákvætt um hann að segja.

Í ljósi þessa ber að skoða skrif Egils Helgasonar um Davíð Oddsson, aðra Sjálfstæðismenn og Sjálfstæðisflokkinn.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband