Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Launþegafélög styðja stækkun áversins

Hef tekið eftir því að bæði Verkalýðsfélagið Hlíf og Rafiðnaðarsambandi hafa bæði mælt með stækkun álversins í Straumsvík.  Yfirleitt gera Vinstri grænir og Samfylkingin mikið úr öll því sem frá samtökum launafólks kemur en nú er þögnin ærandi.

Í öll þau skipti er rætt hefur verið um breytingar á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins hafa vinstri sinnar lagt mikla áherslu á örlög starfsfólksins, það ætti að vera með í ráðum, tryggja skyldi starfsskilyrði þess og svo framvegis. Sama hefur alltaf verið gert þegar opinber fyrirtæki hafa verið seld, Síminn, bankarnir, áburðarverksmiðjan og fleiri.

Alla tíð hefur Samfylkingin og Vinstri grænir þóst hafa mestar áhyggjur af velferð launafólks. Hvers vegna hefur meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar ekki áhyggjur af afdrifum starfsmanna álversins í Straumsvík? Hvers vegna álykta Vinstri grænir ekki um velferð þeirra?

Geta ekki allir tekið undir skoðun Rafiðnaðarsambandsins?:

„Íslendingar hafa í vaxandi mæli á undanförnum misserum upplifað að fjölmörg störf í iðnaði hafa verið flutt úr landi. Við stækkun álversins í Straumsvík verða til um 1200 ný og varanleg störf, þarf af um 350 bein störf hjá fyrirtækinu og ríflega tvöfalt fleiri afleidd störf vegna aukinna umsvifa. Heildarstarfsmannafjöldi hjá álverinu verður þá um 850.“

 Eru ekki allir sammála þessari skoðun Verkalýðsfélagsins Hlífar?:

„Fundurinn skorar á Hafnfirðinga að greiða stækkuninni atkvæði sitt í væntanlegri kosningu og renna með því styrkari stoðum undir atvinnulífið í bænum.“ 

 


Við hvað er Gunnar Svavarsson hræddur?

Við hvað er meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hræddur? Ég spyr vegna þess að flokkurinn og bæjarfulltrúar hans þora ekki að gefa upp afstöðu sína vegna íbúakosningar um deiliskipulag Álversins í Straumsvík.

Í morgun var viðtal í Ríkisútvarpinu við Gunnar Svavarsson, forseta bæjarstjórnar sem skýlir sér á bak við það að málið sé nú komið í hendur íbúanna sem eigi að taka afstöðu án truflunar frá Samfylkingunni.

Flestir sjá í gegnum svona sjónarspil. Önnur ástæða er fyrir fælni þeirra Samfylkingarmanna. Opinberlega hafa þeir sagt að fresta eigi öllum álversframkvæmdum næstu fimm árin. Þess vegna þora þeir ekki að taka afstöðu með Álverinu í Straumsvík þó þeir fegnir vildu. Þeir vilja ekki heldur taka afstöðu á móti vegna þess að EF Álverið verður samþykkt þá hafa þeir tapað.

Þetta er nákvæmlega það sem plagar Samfylkinguna. Hana skortir sýn og eldmóð. Svo hræddir eru þeir við kjósendur að stefnan er ein í dag og önnur á morgun. Kjósendur bera meiri virðingu fyrir þeim sem standa við skoðun sína jafnvel þó sú skoðun njóti stuðnings minnihluta kjósenda í skoðanakönnunum. Út á það gengur pólitík, að berjast fyrir skoðunum og afla þeim fylgis.

Pólitík á hins vegar ekki reka samkvæmt niðurstöðu í skoðanakönnunum. Þeir sem gera slíkt eru sannnefndir vindhanar.

Enginn er hlutlaus þegar til kastanna kemur. Hinn almenni kjósandi getur leyft sér að gefa ekki upp afstöðu sína. Stjórnmálamaður sem tekur ekki opinberlega afstöðu er heigull.


ÓMARGRÉT!

Mér fannst hann ekki sannfærandi sem stjórnmálamaður, því miður. Ómar kom fram í fjölmiðlum og í Kastljósi Sjónvarpsins. Það er leitt að segja, en hann stóð sig ekki vel, var ekki sannfærandi - ekki einu sinni þegar hann talaði um virkjanir og álver. Svo vatnaðist þetta allt út þegar hann var spurður um önnur mál.

Frá barnæsku hef ég varið stórum hluta af hverju ári í ferðir um landið okkar. Kannski er ég grænn og þá hægri-grænn. Ég hef í áranna rás horft upp á syndir okkar gegn landinu, nýjar og gamlar. Þó margt hafi breyst í umhverfismálum má betur gera.

Ég get tekið undir margt af því sem „Framtíðarlandið“ svokallaða leggur til, ég get stutt margt sem Samfylkingin segir í stefnu sinni „Fagra Ísland“ og ég get stutt margt af því sem Ómar Ragnarsson hefur sagt.

Umhverfis- og náttúruverndarmál verða hluti af þeim málum sem kosið verður um þann 12. maí, en við þurfum að horfa til fleiri og jafnvel mikilvægari mála. Efnahagsmálin skipta þjóðina mestu, uppbygging atvinnulífsins og þróun þess er gríðarlega mikilvæg því ef þjóðin aflar ekki tekna getur hún ekki staðið undir rekstri sínum og þar með sinnt t.d. menntamálum og heilbrigðismálum. Getur einhver fullyrt að þessir málaflokkar skipti minna máli.

Menn hrista ekki stjórnmálahreyfingu fram úr erminni sjö vikum fyrir kosningar og reyna að halda því fram að málefnavinnan byggist á eldmóði og sannfæringu. Það er ekki hægt að tala eins og konan sem kom fram fyrir hina pólitísku hreyfingu aldraðra og sagði þegar henni var frekari orða vant: „Við munum styðja öll góð mál.“ Þeir sem tala svona eiga ekki erindi á Alþingi.

Þó svo að Ómar og Margrét telji sig hafa eitthvað fram að færa í umhverfismálum þá eru þau ekki sannfærandi þegar komið er að öðrum málum. Við byggjum ekki verðmætaframleiðslu landsins á eldfjallagarði, fjallagrasatínslu, afnámi kvótakerfis eða kyrrstöðu í efnahagsmálum. Við höfum ekki tíma til að bíða eftir því að vísindamenn nái tökum á djúpborunum, við getum ekki setið með hendur í skauti.

Það er rangt að hægt sé að stöðva þau öfl sem sameiginlega knýja hjól efnahagslífsins, sé það reynt mun það kosta þjóðina þau góðu lífsskilyrði sem náðst hafa á undanförnum árum.

Flokkur sem hefur það eitt að markmiði að koma í veg fyrir að álver verði reist byggir ekki á merkilegum grunni. Ekki er sá flokkurinn merkilegri sem byggir á því einu að leggja niður kvótakerfið. Þriðji flokkurinn er á þingi sem hefur þá skoðun að jafna eigi lífskjör þjóðarinnar með því að koma þeim úr landi sem hæst hafa launin.


Björn Ingi í Sjálfstæðisflokkinn?

Einn af duglegustu bloggurum landsins sem jafnframt er öflugur stjórnmálamaður er Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs. Hann er hógvær og hnitmiðaður í skrifum sínum og ekki leggur beinlínis af honum framsóknarþefinn ef svo má að orði komast. Þvert á móti er hann greinilega frjálslyndur og glaðlegur í skrifum sínum enda á hann uppeldi sitt Mogganum að þakka. Þeir verða margir afar ritfærir sem þar hafa starfað.

Sem formaður Faxaflóahafnar átti Björn núna frumkvæði að því að bjóða ríkisvaldinu til samstarfs um byggingu Sundabrautar sem er brýnasta framkvæmdin í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu. Með samvinnu ríkisvaldsins, Faxaflóahafna og Spalar og til dæmis Járnblendiverskmiðjunni og álverinu á Grundartanga má fá þann slagkraft sem kann að duga til að koma verkinu í framkvæmd á örskömmum tíma. Munum að Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra er með átta milljarða í vasanum fyrir þetta eina verkefni.

Ég hef gaman og gagn af því að lesa bloggið hans Björns Inga. Ekki spillir fyrir skoðanir hans og stefna eru meir í ætt við Sjálfstæðisflokknum en Framsókn má spyrja hvort ekki sé tími til kominn að Björn Ingi hafi opinberlega vistaskipti. Við Sjálfstæðismenn munum fagna svo góðum liðsauka.


Ný og róttæk byggðastefna

Hefðbundin byggðastefna á að vera opinbert tæki til að hafa áhrif á byggðaþróun. Núverandi ríkisstjórn hefur tvívegis látið vinna stefnu í byggðamálum. Út af fyrir sig ber að fagna því en þegar til kastana kemur virðast fæst úrræði hafa nokkuð að segja um búsetuþróun. Ástæðan er einfaldlega sú að hún ræður svo litlu um vilja fólks, hvar það vill búa eða hvert það vill flytjast. Þess vegna mega menn blaðra sem mest um einhverja byggðastefnu, styrki, lán og annað. Slíkt hefur engin áhrif nema því aðeins að fram komi tillögur sem leggja áherslu á atvinnulíf og verðmætasköpun.

Ég hef unnið lengi að byggðmálum, starfað sem atvinnuráðgjafi og stundað margvíslegar rannsóknir og athuganir á aldursgreiningu og búsetuþróun og má finna sumt af því hér á heimasíðu minni. Þessi grein og framhald hennar byggist á þeim gögnum sem ég hef viðað að mér og er það von mín að einhverjir geti haft gagn af þeirri nálgun sem ég vil beita í byggðamálum.


Fimm meginþættir
Að mínu mati markast vandi landsbyggðarinnar af eftirfarandi meginþáttum:

  • Fólksfækkun (1 tillaga um málið frá stjórnvöldum)
  • Óhagstæð þróun í atvinnumálum (2 tillögur)
  • Fámenn sveitarfélög (1 tillaga)
  • Ófullnægjandi samgöngumál (1 tillaga)
  • Menntunarskortur (3 tillögur)

Árangur byggðastefnu byggist fyrst og fremst á því að taka á ofangreindum vanda. forsenda lífvænlegrar byggðar er arðbært atvinnulíf sem getur að sjálfsögðu ekki þrifist ef starfsskilyrðin eru því í óhag. Atvinnulífið getur heldur ekki þróast án þróttmikilla þéttbýliskjarna og þar skiptir stærð sveitarfélga miklu ásamt góðum samgöngum. Arbært atvinnulíf þarfnast menntaðs starfsfólks sem býðst einungis ef búsetuskilyrðin eru sambærileg við það sem best býðst.

Opinbera byggðastefnu á að miða við ofangreinda upptalningu. Tillögur skal fella í þessa fimm flokka og þá kemur í ljós hversu áhrifarík byggðastefnan getur verið. Sé þetta gert kemur í ljós að aðeins ein tillaga ríkisstjórnarinnar getur hugsanlega haft áhrif á fólksfækkun, tvær á óhagstæða þróun í atvinnumál, ein á fámennið í sveitarfélögunum o.s.frv. Hins vegar þarf að bæta við sjötta flokknum sem heitir "Annað" og undir hann falla fimmtán tillögur ríkisstjórnarinnar. Niðurstaðan er því sú að þrátt fyrir  að byggðastefna sé þokkaleg er hún síður en svo markviss.

Sé haldið áfram að skoða tillögur stjórnvalda um aðgerðir 2006 til 2009 er ekki úr vegi að meta þær út frá því hversu lengi áhrifin kunna að koma fram. Í ljós kemur að tillögurnar hafa fyrst og fremst langtímagildi. Það gengur að sjálfsögðu ekki vegna þess að vandinn er knýjandi.

Framhald þessarar greinar er að finna á heimasíðu minni, http://web.mac.com/sigurdursig . Þar er einnig að finna fleiri greinar um byggðamál og aldursþróun á landinu.


Agnes hirtir Ingibjörgu

Hún lætur Ingibjörgu Sólrúnu ekkert eiga inni hjá sér. Agnes Bragadóttir, blaðamaður Morgunblaðsins hreinlega hirtir formann Samfylkingarinnar í Mogganum í dag vegna athugasemdar sem sú fyrrnefnda gerði við fréttaskýringu á forsíðu blaðsins á laugardaginn.

Almenningur er farinn að sjá að samkomulagið innan Samfylkingarinnar er ekki upp á marga fiska og ber þar mest á óvild milli formannsins og formanns þingflokksins. Ingibjörgun þykir nú eins og svo mörgum öðrum að tilraunir Össurar til að kljúfa stjórnarflokkana með stjórnarskrárákvæðinu hafi gjörsamlega mistekist og þess vegna vill hún ekkert við þær kannast.

Eftir að hafa næstum fordæmt eigin þingflokk og nú formann hans á Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fátt eftir í stöðunni. Allir eru ómögulegir í eigin flokki, ríkisstjórnin hræðileg, Mogginn algjörlega vonlaus og svo má lengi telja. Hér sannast það sem margir hafa sagt að formaður Samfylkingarinnar er reið kona, „fúll á móti“ sér sjaldnast ljós í því myrkri sem henni finnst grúfa yfir íslensku þjóðlífi.

Svo eru margir hissa á því að fylgi Samfylkingarinnar dvíni dag frá degi.


Ómerkilegur málflutningur

Hún ætti að skammast sín hún Margrét S. Björnsdóttir fyrir grein sína í Morgunblaðinu í dag, 12. mars. Greinin er ómálefnalegur pólitískur áróður fyrir Samfylkinguna. Í upphafi hennar vitnar hún í upphafi í hræðilega reynslu móður í Hafnarfirði sem varð fyrir þeirri ógæfu að yfirvöld tók af tilefnislausu eitt barna hennar af henni og sendu í Breiðuvík. 

Á lævísan hátt reynir Margrét að tengja þennan hörmulega atburð við Sjálfstæðisflokkinn svo lesandinn fái það nú rækilega á tilfinninguna að allt vont stafi frá honum og vitnar til helsta andskota núverandi ríkisstjórnar, samflokksmanns síns, hins alræmda Stefáns Ólafssonar sem ekki frekar en Margrét er sáttur við þá ákvörðun kjósenda að setja Samfylkinguna í salt í hverjum kosningunum á fætur öðrum.

Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að svo illgjarn gæti áhugamaður um stjórnmál verið eins og Margrét virðist vera. Henn er tíðrætt um þörf á stjórnarskiptum, en drottinn minn dýri. Hvað gerist ef svo illa innrætt fólk á borð við Margréti kemst til valda?

Sómatilfinning Margrétar er greinilega engin og hún telur sig hafa leyfi til að brúka öll meðöl til að koma höggi á Sjálfstæðisflokksins og seilist langt í þeim efnum eins og grein hennar sannar. Það eina sem er til mótvægis er sú staðreynd að fæstir nenna að lesa svona langhunda eins og grein hennar að sönnu er.

Harmsaga Ásu Hjálmarsdóttur og fjölskyldu hennar á ekki erindi í flokkspólitískan áróður því allir hljóta að vera sammála því að saga hennar á að vera okkur öllum til lærdóms. 


Ekki nóg að vera sennilegur

Ef stjórnmálamenn gera ekki kröfur til sjálf sín þá eiga kjósendur að fara fram á að þeir skýri mál sitt. Katrín Jakobsdóttir , varaformaður VG, skrifar um efnahagsmál í Moggann í dag, 5. mars á þann veg að lesandinn skilur fátt nema hann gleypi við hrárri matreiðslu greinarhöfundar.

Það er ekki nóg að vera sennilegur og skrifa „Sérstaklega brýnt ...“, „Miklu skiptir ...“ og komast síðan aldrei á kjarna málsins. Það er ekki nóg að hafa mörg orð um mikilvæg mál en segja í raun ekki neitt.

Hvernig ætla Vinstri grænir að bregðast við „geigvænlegum viðskiptahalla og hinni hröðu skuldaaukningu þjóðarbúsins sem af honum leiðir.“? Katrín talar og talar sennilegt mál en bendir ekkert á lausnir. Stór hluti af viðskiptahallanum er neysla almennings, innfluttar vörur sem við kjósendurnir kaupum af þörf okkar eða þarfleysi. Við kaupum bíla, fyrirtæki kaupa flugvélar og skip svo við getum ferðast og aukið neyslu okkar á innfluttum vörum.

Ætlar Katrín að takmarka neyslu almennings? Ætlar hún að koma í veg fyrir að við getum tekið lán til að halda áfram að geta keypt það sem okkur lystir? Með hvaða ráðum ætlar hún að koma í veg fyrir að almenningur, þ.e. kjósendur, haldi áfram neyslu sinni? Með öðrum orðum: Hvernig ætlar hún að grípa inn í markaðinn?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband