Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Þannig er nú lífið bara nokkuð indælt ...

DSC_0365 Hornvík, Hvanndalur, Hælavíkurbjarg, vetu - Version 2Þú getur ekki vaðið tvisvar í sömu ánni. Það er alltaf nýtt vatn sem leikur um fætur þér.

Svo mun vera um vatnið eins og Heraklítus sagði í Grikklandi fyrir um 2500 árum. Og eins er það með vatnið og tímann, hvort tveggja er alltaf nýtt sé rétt talið.

Ári að ljúka og nýtt að byrja. Þetta nefnast oft tímamót og æði margir upphefjast rétt eins og að áramót hafi í för með sér náttúrulegar breytingar. Svo er nú ekki. Hinn 1. janúar er litlu frábrugðinn 31. desember. Eini munurinn er talning tímans. Rétt eins og þegar sekúnda verður að annarri, mínúta mætir þeirri næstu, klukkustundir raðast í tímanna safn og svo gerist með daga, vikur, mánuði og endanlega hvert ár.

Þrátt fyrir óteljandi slík mót gerist ekkert í náttúrunni, að minnsta kosti ekkert sem við leikmenn greinum. Hún heldur ekki upp á neitt. Enn mun til dæmis leka hraun upp úr gatinu á flæðunum norðan Vatnajökuls, ekkert hlé né aukning verður í tilefni dagsins. Engin uppstytta verður í tilefni áramóta, himinninn mun ekki skjóta eldingum og þeyta þrumum. Sólin mun ekki gægjast óvænt fram úr skýjunum eða hitastig dagsins breytast. Ekkert tekur tillit til tímans þó svo að hann sé alls staðar allt um vefjandi. Náttúran er einfaldlega blind, miskunnarlaus og ópersónuleg. Allt fram streymir endalaust. Jafnvel dýrin skynja ekki nokkra breytingu nema hugsanlega fyrir tilstilli manna. Kýrnar tala ekki mannamál um áramót. Hvorki hundur né köttur tárast og óska hvorum öðrum gleðilegs árs.

Jafnvel klettarnir opnast ekki og huldufólkið syngur ekki messu í Tungustöpum landsins og óskasteinninn er týndur. 

Svona er þetta nú gjörsamlega gerilsneytt og leiðinlegt þegar litast er um með gagnaugunum. 

Samfélag manna er hins vegar með allt öðrum brag og þar er lífið miklu bjartara en kuldaleg náttúran gefur tilefni til. Við njótum tímans, teljum hann, söfnum honum og geymum til upprifjunar. Dagsmótin eru raunveruleg. Við leggjumst til svefns að kvöldi dags og vöknum að morgni annars. Fyrr en varir fögnum við vikulokum og þannig eru vikumótin nær áþreifanleg. Svo er um mánaðamótin, árstíðirnar og áramót.

Af tilefninu eru ávörpin eru lík og af tilfinningu veitt. Góðan dag, góða helgi, til hamingju með afmæðið, gleðileg jól, gleðilegt sumar ... og gleðilegt ár. Allt beinist þetta að því sama, að við og allir aðrir getum glaðst. Þannig er lífið bara  okkuð indælt hvort sem við erum búsett hér á landi eða annars staðar enda eiga flestir þá ósk æðsta að njóta lífsins með sínu fólki. Eða eins og Tómas Guðmundsson, skáld orðaði það í ljóðinu „Ljóð um unga konu frá Súdan“:

Samt dáðist ég enn meir að hinu, 
hve hjörtum mannanna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu.

Skrýtilegt er það nú samt hversu fáir virðast gera sér grein fyrir einföldum sannindum.

Í takti við annað fólk er ekki úr vegi að ég snýti mér, þurrki tárin af hvörmum og manna mig upp í að óska lesendum mínum gleðilegs og ekki síst gæfuríks komandi árs. Svo held ég til þess fólks sem ég unni mest. En fyrst þetta:

Lítill drengur spurði föður sinn hvort Neró hefði ekki verið slæmur maður.

„Gerspilltur,“ svaraði faðir hans ...

Löngu síðar spurði annar drengur föður sinn hins sama.

„Ég veit ekki hvort hægt er að segja það,“ svaraði faðirinn. „Maður má ekki dæma of hart. en því verður ekki neitað að hann fór oft miður heppilega að ráði sínu.“


Svartur mökkur af kertaljósunum í Fossvogskirkjugarði

IMG_1379Norðan stilla er á höfuðborgarsvæðinu á fögrum aðfangadegi. Sólin hnígur til viðar kl. 15:36, tæplega mínútu síðar en í gær. Þannig lengist dagurinn smátt og smá næstu sex mánuðina.

Þúsundir nota tækifærið og fara að leiðum ættingja og vina, tendra á kertaljósum eða leggja blóm á þau. Þetta er fallegur siður og samkvæmt hefðinni fer ég í Fossvogskirkjugarð innan skamms og kveiki á kerti á leiði foreldra minna.

En það sem okkur þykir nú góður siður hefur sínar afleiðingar. Kertaljósin brenna og mynda dökkan reyk sem er raunar ekkert annað en kolefni eða koltvíildi. Þetta gas, sem raunar er skaðlítið, rennur í kuldastillunni niður kirkjugarðshallann og út á Fossvog eins og glögglega má sjá á myndinni hér fyrir ofan.

Norðan andvarinn sveiflast til og leggur stundum í vestur og svartur kertareykurinn silast svo út voginn, nær þó aldrei yfir til Kópavogs. Eða er það útfallið sem dregur mökkinn með sér í vesturátt?

Efri myndin var tekin klukkan 14:45 og sú síðari 15:05. á þeirri neðri hefur mökkurinn gisnað aðeins og núna þegar þetta er skrifað er mengunin ekki eins áberandi og áður. Og eftir því sem dimmir verður fólk minna vart við hana.

IMG_1383


Þrjú þúsund jólakveðjur út í tómið

JólakveðjanÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglegt.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna, í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks, þá staðreynd að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í tómið.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obboðslega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.

 


Stefán Ólafsson snýr staðreyndum Icesave málsins á haus

Bresk stjórnvöld sendu í gær frá sér tilkynningu um að þau hafi nú endurheimt um 85% af Icesave skuld Íslendinga, sem þau lögðu út fyrir strax eftir hrun.

Stefnt er að því að skuldin verði að fullu innheimt árið 2017, segir jafnframt í tilkynningunni (sjá hér).

Þetta hljómar auðvitað undarlega á Íslandi.

Íslendingar kusu tvisvar í þjóðaratkvæði gegn Icesave og töldu sig vera að hafna því að greiða “skuldina”, enda væri þetta ekki skuld Íslands.

Síðan unnum við dómsmálið fyrir EFTA dómstólnum og þar með var staðfest að stjórnvöld bæru ekki ábyrgð á málinu.

En þrotabú gamla Landsbankans greiðir samt skuldina upp í topp, í gegnum nýja Landsbankann, sem er nærri 100% í eigu íslenska ríkisins (okkar allra).

Þannig skrifar Stefán Ólafsson, prófessor, í Pressubloggi þann 19. desember 2014. Ég les stundum pistla hans en er oftar en ekki ósammála því hann er afar pólitískur, dregur jafnan taum Samfylkingarinnar og oftar en ekki finnst mér hann hafa rangt fyrir sér. Hins vegar er hann vel máli farin og rökfastur með afbrigðum. 

Viðbrögðin við ofangreindum orðum Stefáns urðu hörð í athugasemdadálknum sem fylgir blogginu, og segja má að hann hafi fengið það óþvegið frá þeim sem miklu betur þekkja til um Icesave málið. Einna athyglisverðust voru þó eftirfarandi orð Gunnars Jóhannssonar, sem í raun endurspegla það sem flestir gera athugasemdir við:

Stefán það eru svona skrif frá þér sem fær mann til að efast um allt annað sem þú skrifar. Að þú skulir ekki vera búinn að átta þig útá hvað icesave málið gekk er með hreinum ólíkindum. Eða þá að þú skulir skrifa svona þvælu gegn betri vitund. Veit ekki hvort er verra.

Svo ótrúlegt sem það er virðist sem svo að Stefán og fleiri haldi að þeir geti skákað í því skjólinu að landsmenn séu búnir að gleyma því hvað Icesaveg málið fjallaði um. Þannig segir Stefán sjálfur í athugasemdadálknum:

Um 99% þátttakenda í Icesave kosningunum héldu að þeir væru að greiða um að borga eða borga ekki Icesave kostnaðinn, sem eigendur og stjórnendur Landsbankans færðu þjóðarbúinu, með tilraunum sínum til að bjarga eigin skinni.

Þetta er svo ótrúleg fljótfærnisleg fullyrðing að draga má einfaldlega í efa að Stefán Ólafsson viti hvað hann er að segja. Bætti þetta ekki úr skák fyrir manninn í rökræðunum. Raunar hrekst Stefán úr einu víginu í annað og þrátt fyrir allar sínar staðreyndavillur leyfir hann sér ekki að draga neitt í land heldur lemur höfðinu við steininn svo stórlega sér á upprunalegri færslu.

Sem betur fer er flestir þess umkomnir að mynda sér sjálfstæða skoðun og byggja upp málefnaleg rök. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ætlaði að láta ríkissjóð Íslands taka ábyrgð á Icesave skuldinni birtust á sviðinu fjöldi fólks sem mótmælti og kom með skotheld rök gegn áformum ríkisstjórnarinnar. Þetta voru til dæmis þau sem mynduðu InDefence hópinn sem að öðrum ólöstuðum höfðu forystu í baráttunni gegn ríkisstjórninni.

Baráttan endaði auðvitað með því að ríkissjóður tók enga ábyrgð á skuldum Landsbankans og þrotabú hans hefur síðan greitt upp forgangsskuldir hans eins og venjan er í gjaldþrotum. Skattfé almennings hefur ekki verið sett að veði né heldur eignir ríkisins.

Í athugasemdadálknum segði Ólafur Elíasson eftirfarandi:

Það er leiðinlegt að þurfa að benda á að þetta er því miður alrangt hjá Stefáni Ólafssyni.

Í Icesave samningunum áttum við að bera ábyrgð á um 700 milljörðum sem Bretar og Hollendingar greiddu sínum sparifjáreigendum.

Þessar vaxtagreiðslur Íslendinga af "láninu" hefðu aldrei verið samþykktar sem forgangskröfur í þrotabúið. Það lá fyrir alla tíð. Þetta var ekki umdeilt.

Þessir 700 milljarðar áttu að bera 5.6% vexti. Það liggur fyrir að ef samningurinn hefði verið samþykktur stæði þessi "skuld" í á þriðja hundrað milljarða í dag.

Eftirtektarvert er hvernig Stefán Ólafsson svarar. Hann er umsvifalaust kominn í vörn og í stað þess að svara Ólafi efnislega segir hann:

Ég geri alls ekki lítið úr baráttunni gegn Icesave. Hún var mikilvæg og sérstaklega framlag InDefence manna. Vaxtakostnaðurinn var vissulega mikill ef hann hefði fallið á okkur. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvað hefði unnist efnahagslega ef málið hefði leysts fyrr.

Guðmundi Má Ragnarssyni líst illa á skrif Stefáns og segir:

Þessi pistill er eitt það undarlegasta sem ég hef lesið um langa hríð, hef ég þó lesið sitthvað sérstakt frá síðuhaldara. Skyldi þjóðin þurfa að lifa við það í áratugi hér eftir að þeir sem voru svo á rangri hillu upphaflega í þessu vandræða máli skuli sífellt með fimbulfambi reyna að koma því að hjá okkur að þeir hafi samt eftir allt haft rétt fyrir sér?

Kunnir skrifarar í athugasemdadálkum létu bera á sér í umræðunni og málefnalegar athugasemdir voru ekki miklar. Gott dæmi um slíkt er eftirfarandi sem Ómar Bjarki Kristjánsson, ritar:

Það hefur nú þegar sýnt sig að framganga öfga-hægrimanna og annara rugludalla í umræddu máli var óskynsamleg og óábyrg. Það væri þó í lagi per se. Verstur er skaðakostnaðarklafinn sem hlýst af framsöllum, forseta og indefens. Sá skaðakostnaðarklafi leggst á herðar almennings sem mun þurfa að bera hann talsvert lengi. Dómurinn sögulega yfir nei-sinnum er þegar orðinn þungur og í framtíðinni verður hann strangur. Þetta verður tekið sem skólabókardæmi um lýðskrum og óábyrga pólitíska hegðun og jafnframt dæmi um hve slík pólitík er dýr.

Ofangreint rugl endurspeglar svo ótal marga sem hafa fyrir því að skrifa í athugasemdadálka en bæta engu við umræðuna, hvorki rökum né upplýsingum. Þannig er svo ótalmörgum einhver léttir að geta úðað frá sér ógreinilegri hugsanaflækju sem einna helst má flokkast með ragni og bölvi.

Mikill þrýstingur var á Stefán að vera málefnalegur en honum tókst það ekki alltaf. Hann segir til dæmis í athugasemdadálknum:

Við erum síðan sammála um að 400 milljarða undanþágan til Breta framhjá gjaldeyrishöftunum er sérstök og svo þarf Landsbankinn okkar líka að greiða "Landsbankabréfið" - hann fékk einungis lengri frest til þess með nýlegum samningum. Fyrir hvað er sú greiðsla? Icesave hefur þrátt fyrir allt valdið okkur miklu tjóni, þó þjóðin hafi unnið bæði þjóðaratkvæðagreiðsluna og dómsmálið. Það er sú mótsögn sem ég er einkum að skrifa um.

Ólafur Elíasson er alls ekki sammála Stefáni og segir í beinu framhaldi af þessu:

Þú spyrð "fyrir hvað er greiðslan" og vísar til Landsbankabréfsins.

Hún er fyrir þær eigur sem fluttar voru úr þrotabúinu yfir í nýja Landsbankann. Þannig eignaðist íslenska ríkið eignir sem áður tilheyrðu gamla banknanum (einkaaðilum)

Það var mat manna á þeim tíma sem gengið var frá þessu að ekki mætti taka þessi verðmæti úr gamla bankanum án þess að einhver önnur greiðsla, (eignarhlutur í nýja bankanum eða t.d. þetta skuldabréf) kæmi sem greiðsla á móti eignaupptökunni.

Við erum þannig með þessari 400 milljarða greiðslu, að greiða fyrir þær eigur sem við tókum yfir til okkar í nýja bankann, sem við eigum núna. (Eigur sem við áttum ekki áður en eigum núna).

Ótrúlegt ef satt er, að Stefán skuli ekki hafa vitað hvernig Landsbankabréfið var til komið. Og Stefán heldur áfram að berja höfðinu við steininn, reynir hvað hann árangurslaust að rétta hallan hlut sinn í rökræðunum um málið.

Í fyrirsögn greinar sinnar segir hann: „Við greiðum Icesave - með bros á vör“. Vel má vera að Stefán Ólafsson brosi þegar hann skrifar grein sem byggist á allt öðru en staðreyndum. Hitt er heiðskírt og öllum ljóst að íslenskir skattgreiðendur hafa ekki greitt krónu í skuldir vanskila gamla Landsbankans.

Sigurður Hrafnkelsson skrifar eftirfarandi og slær endanlega vopnin úr höndum Stefán Ólafssonar í þessari rökræðu:

Við skulum bara vitna beint í mat Seðlabankans af glæsilegri niðurstöðu Svavars [Gestssonar, formanns samninganefndar um Icesave I).
"Þegar Icesave-samningarnir eru metnir er gert ráð fyrir að í lok árs
2015 verði búið að selja allar eignir gamla Landsbankans erlendis en þá
verði skuld íslenska ríkisins vegna samninganna 340 milljarðar króna"

http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7199

 

 

 

 

 

 

 


Náttúrupassinn er vondur skattur og óréttlátur

Fyrstu viðbrögð við frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa hafa almennt verið gagnrýnin og tilfinningahlaðin. Það er skiljanlegt að frumvarpið veki sterk viðbrögð, enda er gott aðgengi að íslenskri náttúru grundvallarmál fyrir flesta sem hér búa. Að því sögðu munu náttúruperlur áfram liggja undir skemmdum ef ekki verður ráðist í breytingar á umgjörð ferðamannastaða á Íslandi. Til að réttlætanlegt sé að leggjast gegn hugmyndum um náttúrupassa þurfa því aðrar betri tillögur að liggja fyrir.

Þannig byrjar Frosti Ólafsson,framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, grein í Morgunblað dagsins. Hann fellur í sömu gryfju og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hefur lagt fram frumvarp um náttúrupassa á Alþingi. Bæði gleyma íslenska einstaklingnum og raunar þeim útlenda líka. Í árhundruð hefur órofa sátt um frjálsar ferðir fólks um landið. Nú er hins vegar ætlunin að hefta þær af fjárhagslegum ástæðum sem þó eru einungis tilbúnar.

Framkvæmdastjórinn og ráðherrann líta alfarið framhjá okkur sem ferðast um landið og tileinka sér þann boðskap að umferð megi skattleggja og halda uppi þeirri viðbáru „að þeir eigi að borga sem njóta“ eins og ráðherrann sagði á fundi hjá félagi Sjálfstæðismanna um síðustu helgi. Almenningur er ekki spurður, við fólkið sem ferðumst um landið erum ekki spurð. Náttúrupassanum er slengt í andlit okkar rétt eins og þegar síðasta ríkisstjórn ætlaðist til að almenningur í landinu greiddi skuldir Landsbankans, Icesave. Þá eins og núna vorum við ekki spurð.

Náttúrupassinn er viðbótarskattur. Íslendingar greiða beina og óbeina skatta og útlendir ferðamenn greiða óbeina. Tekjur ríkissjóðs af ferðalögum Íslendinga og útlendinga um landið eru gríðarlegir. Ráðherrann leggur upp með að ríkissjóður hafi ekki efni á að greiða af þessari aukningu tekna, þá minnki framlög til heilbrigðis- og menntamála. Framkvæmdastjórinn virðist ekki heldur átta sig á tekjuaukningu ríkissjóðs vegna fjölgunar ferðamanna.

Niðurstaða beggja er því að skattleggja ferðir fólks um landið. Leggja gjald á þá „sem njóta“, einhvers konar glápgjald. En augnablik. Ég sem ferðast um landið greiði mína skatta, kaupi vöru og þjónustu vegna ferða minna og allt sem ég kaupi ber virðisaukaskatt. Síðan er það borið á borð fyrir mig að ég þurfi að greiða meira vegna ferða minna. Ég þurfi að borga skatt vegna þess að útlent ferðafólk flykkist að Dettifossi, Ásbyrgi, Seljalandsfoss eða Geysi.

Frosti, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, gerir í grein sinni ekki mun á landsvæðum og stöðum. Vissulega er átroðningur ferðamanna á mörgum stöðum en hann er viðráðanlegur. Það réttlætir hins vegar ekki að taka gjöld af ferðamönnum sem leggja leið sína um landsvæði. Hvaða réttlæti er til dæmis í því að rukka göngumann sem leggur leið sína yfir Fimmvörðuháls um aðgang að Skógafossi? Hvaða réttlæti er í því að göngumaður sé rukkaður vilji svo til að upphafs- eða lokastaður göngunnar sé innan staðar sem er gjaldskyldur samkvæmt ákvörðun ráðherrans? Þetta er eins og að sá sem gengur niður Laugaveginn skuli greiða gjald í strætó af því að upphaf göngu hans er á Hlemmi og hún endar á Lækjartorgi.

Svo virðist, samkvæmt grein framkvæmdastjórans, að hann vilji að náttúrupassi dragi úr álagi á ákveðna ferðamannastaði, skatturinn hafi fæli fólk frá þeim, hann breyti hegðun fólks. Hann virðist vilja að hærri skattar verði lagðir á þá sem fara um Þingeyjarsýslu svo átroðningur við Dettifoss minnki. Hver skilur svona?

Það er út af fyrir sig ágætt að menn eins og framkvæmdastjórinn hafi ákveðnar skoðanir á skattheimtu en að skattar eigi að hafa einhvers konar uppeldislegt gildi er algjörlega óásættanlegt. Spyrja má manninn hvort hann sé þá ekki sáttur við sykurskattinn? Sá skattur virðist hafa þennan uppeldislega eiginleika sem breyta ætti hegðun fólk. Ugglaust er hann sáttur við enn frekari álögur á bensín og díselolíu, en slíkt mun hugsanlega fá fólk úr bílunum og á reiðhjólin eða strætó. 

Umræðan um náttúrupassann hefur einkennst um of af viðhorfum stjórnlyndis, minna fer fyrir rökum okkar sem hann beinist að. Okkar sem unnum frelsi og berjumst gegn óhóflegri skattlagningu og tilraunum löggjafans og framkvæmdavaldsins sem vilja skipta sér af lífi okkar í smáatriðum. Ég kæri mig ekkert um svona afskiptasemi.

Náttúrupassinn er afar vond leið til að bæta fyrir þann skaða sem átroðningur ferðamanna hefur valdið á einstökum stöðum. Aðrar leiðir eru færar.


Safnaðu sjálfur peningum fyrir Ríkisútvarpið, Jakob Magnússon

Vilji Jakob Magnússon styðja við Ríkisútvarpið og greiða til þess gjald með eigin peningum þá er það heiðarleg og góð afstaða. Vilji hann hins vegar þvinga mig til að leggja fé í Ríkisútvarpið þá þakka ég kurteislega fyrir. Sé stefna hans sú að afla fylgis við að skattleggja mig vegna þessa áhugamáls hans þá finnst mér nóg komið.

Mér finnst það virðingarvert að fólk vilji veg Ríkisútvarpsins sem mestan, það kemur mér bara ekkert við. Ég vil einfaldlega fá að ráðstafa þeim fáu aurum sem ég vinn mér inn á þann veg sem hentar mér best, afskipti Jakobs Magnússonar tel ég einfaldlega árás á tekjur mínar.

Vilji ríkið reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar þá skal það vera á forsendum samkeppnisrekstrar en ekki opinberrar skattheimtu. 

Til að hjálpa Jakobi í þessu vandamáli hans legg ég einfaldlega til að hann stofni með samherjum sínum sjóð. Þetta fólk greiði í hann á hverju ári 20.000 krónur og reglubundið bjóði hann til blaðamannafundar þegar greitt er úr sjóðnum til Ríkisútvarpsins. Með þessu sameinar hann tvennt. Hann leysir væntanlega úr fjárþörf stofnunarinnar með frjálsum framlögum og fær sjálfur enn einn möguleikann til að baða sig í sviðsljósinu.

En fyrir alla muni, ekki blanda ríkissjóði í málið eða okkur sem viljum ráða yfir sjálfsaflafé okkar. Gerðu allar þær kröfur sem þú vilt á Austurvelli en ekki blanda mér í málið.


mbl.is Vilja fá að borga tvö þúsund kallinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefnaleg umræða á hröðu undanhaldi

Það er svo fremur pirrandi að ætlast skuli vera til þess af okkur að við hlaupum upp til handa og fóta og svörum allri þeirri vitleysu sem stöðugt vellur upp úr fordómafullum kjánum þessa lands.

Þetta skrifar Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, í Morgunblað dagsins. Í stuttri grein svarar hann einni af mörgum spurningum sem Gústaf Níelsson lagði fyrir hann í blaðinu í gær.

Vissulega kann svo að vera að það fari í taugarnar á einstaka manni að þurfa starfs síns eða stöðu vegna að svara spurningum, jafnvel þó þær séu heimskulegar. Besta vopnið gegn vitleysu og fordómum er auðvitað kurteisi og ekki síður þolinmæði. Sá sem ekki kann að stilla sig í þessum efnum er á rangri hillu. Svo einfalt er þetta.

Vel má vera að Gústaf Níelsson sé annað hvort fordómafullur og vitlaus. Annað hvort er eiginlega nægileg ávirðing í einni skvettu. Ég dreg það þó hvort tveggja í efa. Gústaf hefur hins vegar ákveðnar skoðanir sem hann ódeigur viðrar. Svo er það allt annað mál hvort hann hafi alla tíð rétt fyrir sér. Því deila andskotar hans á hann eins og þeim sé borgað fyrir það.

Þegar öllu er á botninn hvolft dugar svar Sverris alls ekki. Þrátt fyrir stöðu sína sem formaður félags missir hann stjórn á sér og hreytir ónotum í þann sem leyfir sér að gagnrýna hann og félagið stendur fyrir. Þannig hefst jafnan langvarandi ófriður. Einum er misboðið, annar svarar og svo koll af kolli uns allt fer úr böndunum. Þetta þekkjum við af einstaklingum, sögu þjóðarinnar og annarra landa.

Eftir hrunið var kallað eftir því að umræðuhefð landans þyrfti að breytast. Það hefur alls ekki gerst, hvorki í stjórnmálum né dægurmálum. Ef eitthvað er hefur hún versnað. Fáir kunna sér hófs, allir kunna hins vegar að skvetta út hlandkoppum sínum og skiptir litlu hverjir verða fyrir. Skvettan virðist vera aðalatriðið. Málefnaleg umræða er á hröðu undanhaldi.


Jónas frá Hriflu og skilyrði til menntaskólanáms

Framfarahugur Jónasar í menntamálum var hrífandi og hugmyndir hans stórmerkar. Þær eru enn í gildi þótt aðstæður séu gerbreyttar. Honum fannst m.a. á þeim tíma alvarleg slagsíða í íslenskum fræðslumálum og að fámenn yfirstétt í Reykjavík sæti þar að öllu og beitti Menntaskólanum fyrir sig. Erfitt er að andmæla þessu með öllu og ekki var Jónas einn um þessi sjónarmið. En Jónas gekk hart fram gegn forréttindaöflum samfélagsins og hlaut að launum illmæli margra menntamanna. Hann egndi þá upp gegn sér líka.

Þetta segir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins í grein í Morgunblaði dagsins. Hann andmælir í henni viðhorfi tveggja formælenda stuðningsmannafélags Menntaskólans í Reykjavík sem ræddu í annarri Morgunblaðsgrein um skert framlög til skólans. Í henni drógu þeir Jónas Jónsson frá Hriflu inn í umræðuna en hann var á sínum tíma ritstjóri, alþingismaður og ráðherra og mjög áhrifamikill í öllum sínum störfum og ekki var allt sem frá honum kom af góðmennsku gjört.

Jón Sigurðsson kemur læriföður sínum til varnar og er það virðingarvert. Hitt er þó staðreynd að Jónas frá Hriflu var ólíkindatól hið mesta og átti ill samskipti við fjölmarga ekki síður samherja eða andstæðinga. Þetta er staðreynd og skiptir engu þótt maðurinn sé löngu látinn. Hann er engu að síður dæmi um stjórnmálamann sem um margt er lítil fyrirmynd jafnvel þó enn séu á þingi nokkrir sem virðast hafa sækja pólitík sína til hans og er þá ekki átt við framsóknarstefnuna.

Á fimmta áratugnum lagði Jónas Jónasson, þingmaður Framsóknarflokksins, fram tillögu til þingsályktunar um nám í menntaskólum. Hann vildi gera það að skilyrði fyrir aðgangi í menntaskóla á Íslandi að umsækjandinn hefði stundað almenn landbúnaðarstörf í tvö ár áður áður en hann byrjaði í skólanum.

Þetta er skýrt dæmi um eitt af því lágkúrulegasta sem frá Jónasi kom og þarf varla að taka það fram að tillagan kom aldrei til umræðu og var hann því eflaust fegnastur. Að öllum líkindum var hún lögð fram í hnútukasti við „menntalýðinn“.

Já vissulega egndi Jónas frá Hriflu fólk upp á móti sér að hætti þeirra sem teljast ósvífnir og óvandir á meðölin. Undrast því fáir þótt af og til sé hann dregin inn í deilur nútíðar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband