Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Líkt og blæði úr fjallshlíðinni

Skalafell 2Smáatriðin í landslaginu eru svo merkileg og skemmtileg þegar vel er að gáð. Af fjallstindum horfir maður með hrifningu yfir landið en gleymir að líta á það sem kalla má hinar raunverulegu perlur.

Meðfylgjandi mynd tók ég síðasta sumar fyrir einhverja rælni en hafði þó fyrir því að brúka talsverðan aðdrátt.

Þarna sést fjallshlíð, talsvert brött. Engu er líkar en að úr henni blæði.

Eflaust er skýringin einföld. Ég læt mér detta í hug að þarna hafi sprottið fram vatn undan jarðlögum og borið fram rauða gosmöl sem rann svo stuttan spotta niður hlíðina.

Eins getur verið að vatnið hafi einfaldlega verið rauðmengað eftir að hafa runnið um rauðleit jarðlög.

Hvar skyldi þessi sérkennilega hlíð vera? Jú, hún er í vesturhlíð Skálfells við Mosfellsheiði. Sést betur á litlu myndinni. Ég tók þessar myndir í hlíðum Móskarðshnúka og í fjarska er Búrfell í Grímsnesi. Búrfell er algengt örnefni, bæði eitt og sér og tengt við önnur, líklega á annað hundrað.

Ágætt er að tvísmella á myndirnar, jafnvel oftar, til að stækka þær og njót betur. 

skalafell 1

Ótrúleg frétt Eyjunnar og bókstaflega langsótt

Eyjan

Jótlands-Pósturinn segir að ítölsku dagblöðin La Stampa og Corriere Della Sera fullyrði að á síðasta leiðtogafundi G20 í Sankti Pétursborg hafi Rússar til dæmis gefið öllum fundargestum gjafapoka sem voru fullir af allskonar rafeindabúnaði. Meðal annars hafi verið hleðslutæki fyrir farsíma og minnislyklar í pokanum. Allt var þetta fagurlega skreytt og merkt með merki G20. En það sem fundargestir og móttakendur gjafapokanna vissu ekki var að í öllum rafeindabúnaðinum voru forrit, svokallaðir Trójuhestar, sem voru sérhönnuð til að safna gögnum og senda til Rússlands.

Þetta er dálítið athyglisverð klausa úr vefritinu Eyjan frá því í dag. Tek hins vegar eftir því að það er Eyjan sem hefur það eftir Jótlands-póstinum, sem hefur það eftir La Stampa og Dorriere Della Sera ...

DEN_MJP 2

Svona álíka eins og sagan sem ég heyrði frá Jóni, sem frétti hana frá Pétri og það voru Stína og Gunna sem sögðu honum hana.

Ansi langdregið.

ITA_LS 2

Og meðan ég man. Einhver fullyrti að forsætisráðherra ætti von á barni með einhverri annarri konu en eiginkonu sinni. Þetta hafði einhver frá einhverjum sem hafði það frá allt öðrum. Svona verða skáldsögur að heilögum sannleika.

Allt er þetta spurning um trúverðugleika. Því miður er heimildavinna oft frekar slök. Menn fletta í gengum vefútgáfur erlendra blaða og grípa það sem virkar skemmtilegast og áhugaverðast fyrir hugsanlega lesendur og henda þessu síðan í blaðið eða ritið. Án þess að draga fréttina hér að ofan í efa eða tilgang blaðamannsins þá skiptir heimildavinnan miklu meira máli en svo að það dugi að vitna í frétt á þennan hátt hvað þá að trúa sögunni um forsætisráðherrann af því að þrír hafa sagt hana.

Þegar fréttin er skoðuð með gagnrýnu hugarfari finnst manni hún frekar ótrúleg. Hvernig má það vera að einu ríki detti það í hug að gefa leiðtogum annarra ríkja svona gjafir. Er hægt að ímynda sér að fréttin standist? Nei, ekki einu sinni í James Bond mynd.


Fénýting ferðamannastaða og vanræksla ríkisins

DSCN0480

Er til einhver skörun milli eignaréttar annars vegar og hins vegar „réttar“ til að fara óhindrað um land?

Þetta er dálítið snúið mál, fer nálægt því að vera vandamál. Í raun og veru er eignarétturinn varinn í lögum. Þar er tiltekin frjáls umferð manna um land sem ekki er nýtt og þá er ábyggilega átt við landbúnað af einhverju tagi. Auðvitað hefur landnýting breyst á síðustu áratugum. Nú eru lönd nýtt til ferðaþjónustu og margir rukka fyrir aðgang og banna hitt og þetta.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og núverandi þingmaður, gefur sér ýmislegt í bloggpistli sínum. Hann dregur eðlilegar ályktanir af ýmsu og aðrar eru órökstuddar.

DSC_0632

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að ég er andsnúinn allri skattheimtu ríkisins og takmörkunum á frelsi til ferðalaga um landið eins og það hefur verið túlkað hingað til. Hitt getur verið lagalegt vandamál ef fyrir mér er girðing sem hindrar för, jafnvel um slóðir sem í árþúsund hefur verið frjáls. Þannig girðingu rakst ég til dæmis á uppi á Hellisheiði þar sem búið var að girða þvert á hinn forna veg sem þaSkatta greiði ég hins vegar með ánægju og vil gjarnan að þeir renni í ríflegum mæli til náttúruverndar.r liggur um. Að mínu mati er slíkt lögbrot enda kærði ég það en sýslumaðurinn á Selfossi hundsaði kæruna.

Skráðir  „eigendur" náttúruperla vilja ekki almenna skattlagningu á ferðamenn. Þá fá þeir ekki  með beinum hætti  hlutdeild í skattheimtunni. 

Þetta er undarleg fullyrðing hjá Ögmundi. Náttúruperlur eru ekki allar skráðar og fæstar þeirra eru ferðamannastaðir og enn síður eru einhverjir sem vilja fénýta sér slíka staði. Í augnablikinu man ég bara eftir fjórum stöðum þar sem einhver stendur fyrir fénýtingu ferðamannastaða eða ætlar sér það. Þetta er Kálfaströnd við Mývatn, Kerið, Landeigendafélag Reykjahlíðar og hluti eigenda Geysissvæðisins.

Ég þekki fjölda staða semóumdeilanlega eru náttúruperlur. Ýmist eru þeir innan eða utan girðinga en yfirleitt þekkjast þeir lítið og teljast því fæstir ferðamannastaðir.

Í ljósi þessa finnst mér Ögmundur gera lítið úr eignaréttinum og það sem verra er, hann setur alla landeigendur undir sama hatt. Það má hins vegar ekki gera enda er slíkt alhæfing sem stenst ekki nema undangenginn könnun á viðhorfi allra landeigenda sanni slíkt. 

Veiti landeigandi þjónustu er honum að mínu mati algjörlega heimilt að rukka fyrir hana. Það gera til dæmis eigendur í Reykjarfirði við Geirólfsgnúp. Þar greiðir maður fyrir tjaldsvæði en fær að ganga óhindrað í gegn. Í boði er rennandi vatn og salernisaðstaða sem mér er í sjálfsvald sett hvort ég nýti mér. Eigendurnir loka hins vegar ekki landi sínu fyrir ferðamönnum og rukka gjald fyrir að fá að fara í gegnum það.

Eigendur Kersins í Grímsnesi bjóða ekki upp á neitt annað en rukka svokallað glápgjald. Það er samheiti yfir það gjald sem landeigandi krefst fyrir að leyfa almenningi að skoða landslag innan girðingar án þess að veita þjónustu.

Skatta greiði ég hins vegar með ánægju og vil gjarnan að þeir renni í ríflegum mæli til náttúruverndar.

Í þessum orðum Ögmundar felst kjarni málsins. Við greiðlum öll skatta, beint eða óbeint, sem og fyrirtækin í ferðaþjónustu og innlendir og erlendir ferðamenn greiða óbeina skatta í ríkum mæli og allt fer þetta í sömu hítina sem skammtar síðan örlítið til baka.

Ríkisvaldið sinnir einfaldlega ekki skyldu sinni en hefur engu að síður forræðið fyrir langflestum náttúruperlum landsins. Það lætur sér sæma að hirða gríðarlegan gróðann en stendur ekki undir skyldum sínum.

Og nú er ætlunin að skattleggja landsmenn í nafni illra staddar náttúru landsins. Þetta er svona svipað og útvarpsgjaldið, skattur og rukkað sem slíkt hvort sem einstaklingurinn hefur áhuga á dagskrá ríkisfjölmiðilsins eða ekki.

Svokallaðan „náttúrupassa“ á nú að leiða í lög, eflaust rukka eins og útvarpsgjald þannig að enginn komist hjá því að greiða, hvorki einstaklingar né fyrirtæki. Þeir sem þessu munu neita verða hundeltir af fógetavaldinu og gerðir gjaldþrota ef þeir þráast við. Allir eiga að borga hvort sem þeir ferðast eða ekki og sagt er að menn eigi að gera það með glöðu geði enda þurfi náttúran aðstoðar við. Auðvitað er þetta bull.

Ráðherra Sjálfstæðisflokksins stendur fyrir þessum ósköpum og til upprifjunar var það líka ráðherra sama flokks sem fattaði upp á útvarpsgjaldinu og stóð fyrir því að setja það í lög. 

Svo eru menn hissa á því að Sjálfstæðisflokkurinn eigi erfitt uppdráttar. 

 


mbl.is „Enda á ég Kerið og borga ekki krónu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimmtíu ár á milli tveggja loftmynda af Reykjavík

NordurstrondMats Wibe Lund er frábær ljósmyndari og hann svo lengi tekið myndir hér á landi að hann man ekki aðeins tímanna tvenna heldur getur fært sönnur á að umhverfið hefur tekið miklum breytingum til dæmis á fimmtíu árum.

Hérna eru tvær myndir sem Mats tók og ég sá á Fésbókinni. Vonandi fyrirgefur hann mér að ég tek þær hér og geri að umfjöllunarefni án leyfis. 

Á myndunum horfum við til austurs og sjáum við Borgartúnið og Laugaveginn. Á efri myndinni, neðst vinstra megin er Rúgbrauðsgerðin sem nú ber það heiti. Á móti er bogadregið hús sem lengi var í eigu borgarinnar, notað undir skrifstofur. Þá sjáum við hús Vegagerðarinnar og þar austast í því var Bifreiðaeftirlitið, skoðunarstöð ríkisins og þar fékk maður ökuskírteini.

Höfði er lengst til vinstri og móar í kringum hann. Við nánari rýningu sjáum við Klúbbinn og Sundlagarnar í Laugardal eru ekki enn byggðar.

Vinstra megin við Laugaveginn eru þrjú háhýsi sem standa við Hátún. Þarna er Mjólkursamsöluhúsið, Víðishúsið og svo Hekla. Móarnir eru út um allar trissur og mitt í einum reitnum er verið að byggja Laugardalshöllina. Hins vegar er Úlfarsfell, Grimmansfell og Hengill þarna rétt eins og í dag.

Nordurstrond2

Mats Wibe lund er snjall og birti mynd tekna í svipaðri hæð, á álíka stað og enn er horft í austur, trjágróðurinn er áberandi. Myndin var tekin 2013.

Þrennt vekur athygli mína. Móarnir eru horfnir, borgin er miklu grænni en áður var og handan við Grafarvog er komin mikil byggð, alveg uppundir Úlfarsfell.

Svo hefur ströndin færst fram, er norðar. Húsum hefur fjölgað. 

Takið líka eftir því að braggarnir sem voru við Borgartún eru auðvitað allir farnir.

Óskaplega væri nú gaman að geta farið aftur í tímann og skoðað borgina 1963, þegar hún var bara bær.

Sjaldan man ég neitt úr kennslustundum í gamla daga. Þó man ég eitt sem handavinukennarinn í Langholtsskóla sagði einu sinni. Það var ekki minni maður en hann Sigfús Halldórsson: Af hverju er ekki íbúðabyggð skipulögð með sjónum í stað þess að setja þar fyrirtæki? Og svo velti hann þessu fyrir sér í kennslustundinni meðan við krakkarnir teiknuðum. 

 


Svínin eru komin með völdin og þau njósna

Animal farm

Stjórnkerfið í Hvítahúsinu og í Washington byggist á því að verja forseta Bandaríkjanna fyrir öllum hættum, hvort heldur þær er beinast að lífi hans eða málefnalegri stöðu. Þar af leiðandi mun kerfið „kasta sér fyrir kúlurnar“, koma í veg fyrir að orðstír hans verði fyrir skaða vegna njósna um þjóðarleiðtoga í Evrópu og víðar. 

Mikilvægt er að vörnin sé sennileg og því þarf að fleygja einhverjum fyrir ljónin, láta einhvern eða einhverja taka sökina. Þar af leiðandi mun draga til tíðinda einhverja næstu daga er varaforstjóri CIA og taðgengill vara, varaformanns NSA eða einhverjir álíka munu þurfa að taka pokann sinn. Þá verður þetta eins og í Sovét forðum daga er menn játuðu á sig upplognar sakir til að halda trúverðugleikanum.

Animal farm2

Vandinn er auðvitað sá að velja þá menn til að taka sökina sem stofnanirnar geta verið án. Þeir mega samt ekki vera of valdalitlir og alls ekki of neðarlega í goggunarröðinni.

Til að vega upp á ljótum fréttum um njósnir Amríkumanna munu brátt koma ítarlegar hannaðar fréttir af njósnum evrópskra stofnana hingað og þangað um Evrópu og Ameríku.

Loksins verður haldinn hálfleynilegur fundur. Þar verður ábyggilega samþykkt að færa stöðu mála til þess dags þar sem allir njósnuðu um alla, allir vissu það og höguðu orðum sínum og gerðum í því samræmi. Tilgangurinn með öllu þessu brölti er að almenningur hætti að hafa áhyggjur af njósnunum en þar stendur hnífurinn í kúnni.

Staðreyndin er einfaldlega sú að svínin eru komin með völdin, svo tekið sé mið af Dýrabæ Georg Orwells. vondu kallarnir í Sovét eru farnir alla vegi veraldar, Kína er kapítalískt, Norður-Kórea kemst hvurgi en ofurtrúaðir hryðjuverkamenn eru sagðir út um allt rétt eins og púkarnir á miðöldum eða kommónistarnir í kalda stríðinu. Þess vegna þarf að njósna um þig og mig.

Mafíurnar, vélhjólasamtökin og annar glæpalýður fær hins vegar að vaða víðast hvar uppi og þeim halda engin landamæri enda flest niðurlögð í Evrópu og Amríku, svo fremi sem þetta pakk reyni ekki að skjóta á forseta Bandaríkjanna. Þá fyrst myndi nú reyna á njósnir og gagnnjósnir.


mbl.is Útilokað að Obama hafi ekkert vitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókin Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls

Kápa Fimmvhals

Fimmvörðuháls er ein vinsælast gönguleið landsins og sú langvinsælasta af þeim sem teljast til dagleiðar, það er meira en þriggja til fimm tíma ganga.

Gera má ráð fyrir að á hverju ári gangi hátt í tuttugu þúsund manns á Fimmvörðuháls og fyrir þessum vinsældum eru gríðarlega margar ástæður.

Bókin um Fimmvörðuháls 

Fyrir tveimur árum skrifaði ég bók um Fimmvörðuháls. Hún er afar mikið breytt endurgerð bókar sem ég skrifað og kom út árið 2002. Síðan hafa auðvitað orðið gríðarlegar breytingar á Hálsinum. Ekki aðeins að þar hefur orðið eldgos og tvö eldfell myndasta í kringum gígana heldur hefur öskufall frá Eyjafjallajökli breytt ásýnd landslags á sunnanverðum Hálsinum talsvert. Hvoru tveggja eru gerð góð skil í bókinni.

Laus kort fylgja 

Góð kort bókinni. Kortin eru laus og því handhæg fyrir göngufólk. Inn á þau hafa gönguleiðirnar verið merktar sem og helstu örnefni. Þar með eru taldir fossarnir sem eru helsta prýði leiðarinnar á sunnanverðum Fimmvörðuhálsi, Skógaheiði. Myndir eru birtar af flestum þeirra sem finnast á fyrri hluta leiðarinnar og þeir bera margir nöfn. Þess má geta að lausu kortin eru einnig birt í bókinni sjálfri. 

Nýja gönguleiðin 

bls 38-39

Á nýju gönguleiðinni, frá svokölluðu Vaði (yfir Skógaá) og upp á Fimmvörðuhrygg, eru fjölmargir fossar og flúðir sem fæstir hafa augum litið. Allir eru þeir merktir inn á kortin og telst mér til um að þeir séu í allt þrjátíu og sjö. Áhöld geta þó verið um það hvað sé foss og hvað flúð. Engu að síður er Fossaleiðin, sem ég kýs að kalla hana, afar áhugaverð og óskaplega gaman að hafa gengið upp á Hálsinn og barið þá alla augum. 

Norðan megin liggur hefðbundin gönguleið norður yfir Morinsheiði og um Kattahryggi og í Bása. Einnig er hægt að fara Hvannárgilið í Bása en það er fáfarin er heillandi gönguleið.

Svona má nú lengi masa um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Hún er frábær og viðlíka gönguleið er ekki að finna annars staðar á landinu. Eða hvar annars staðar getur göngumaðurinn t.d. grillað mat efst á eldfjalli með því að nýta þann gríðarlega hita sem látlaust streymir upp úr því?

bls. 28-29

Ódýr og fróðleg bók 

Bókina er hvergi hægt að fá lengur en hjá útgefanda og þar eru enn nokkur eintök óseld.

Þeir sem áhuga hafa geta pantað bókina á 5vh@simnet.is og hún verður send um hæl. Bókin kostar aðeins 1.990 krónur með vsk.



mbl.is Mörg þúsund á ári ganga Fimmvörðuháls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður eldgos austan við Hamarinn í Vatnajökli?

VatnajokullPalsfjall

Tók eftir því að í morgun byrjaði „jarðskjálftahrina“ austan við Hamarinn,  sem er fjall vestast í Vatnajökli.

Ekki telst til tíðinda að þar skjálfi. Upptök skjálftanna núna eru raunar mitt á milli Hamarsins og Bárðarbungu og þaðan örskammt í Grímsvötn. Þeir vita sem til þekkja vita að þarna getur allt gerst.

Þetta voru fjórir jarðskjálftar í morgun sem ég var nú ekkert að velt mikið fyrir mér. Sá fyrsti var um hálf sjö í morgun, mánudag, tveir næstu komu á nær nákvæmlega sama tíma, um hádegið og svo hrökk sá síðasti liðinn rétt rúmlega klukkan fimm. sem sagt fjórir skjálftar upp á 1,0, 2,6, 1,4 og 2,0. Geta fjórir skjálftar verið hrina?

Grimsfjall

Þá var mér litið á óróamælingarnar á Pálsfjalli. Þær voru athyglsiverðar enda mikill hávaði eins og sést hér að ofan. Blá lína er forvitnileg enda neðri hluti grafsins nær alveg blár.

Óróamælingarnar á Grímsfjalli eru einnig miklar og þær sýna lítið minna.

Það sem einna helst vakti undrun mína að mælarnir utan jökuls, í Jökulheimum, Skrokköldu og Vonarskarði segja sáralítið, lítill hávaði á þessum þremur mælum. Hins vegar er miklu mun meiri læti í mælinum við Dyngjujökul. Er þá hringnum lokað í kringum Hamarinn.

Þeir sem vit hafa á ofangreindu átta sig án efa fljótt á þeirri einföldu staðreynd að ég veit ekkert hvað hérna er að gerast. Ég held samt þrjóskur áfram.

100412 Godabunga órói

Á síðustu myndinni sést hvernig óróamælingarnar voru við upphaf gossins í Eyjafjallajökli. Þá mældist 2-4 Hz tíðnin mikil (blá lína) en um leið og gosið efldist jukust efldust jafnframt lægri tíðnirnar (rauðar og grænar línur).

Og það er einmitt „bláa“ tíðnin sem mælist hvað best núna á Grímsfjalli og Pálsfjalli. Getur einhver fyrirboði falist í þessu?


Alltaf gengur Ögmundur heldur skammt

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og núverandi stjórnarandstöðuþingmaður, gengur aldrei nógu langt. Eðlilega krefur hann íslensk stjórnvöld um útskrift á hlerunum amríkumanna á símum íslenskra stjórnmálamanna, þá einkum vinstri helmingi þeirra ... Hér er ekki um „meint“ símtöl að ræða heldur algjörlega pottþétt að njósnað var um hann.

Hann vill vita svo margt, hann Ögmundur. Eðlilegast hefði verið fyrir hann að krefjast útskriftar af öllum hleruðum símtölum og þau verði gerð opinber, birt í sérstakri skýrslu, frá orði til orðs. Þá verður þetta eins og þegar þjóðin gat lesið í Morgunblaðinu um kreditkortanotkun fyrrverandi forstjóra Baugs, sjoppuferðir hans, bíóferðir, innkaup af ýmsu tagi. Pottþétt að sumum fannst þetta einstaklega safaríkt.

Ég hef alveg ótrúleg sambönd við amríkana og njósnastofnanir þeirra. Þess vegna var mér í lófa lagið að fá skýrslu um hlerun á símtali Ögmundar við Steingrím J. Sigfússon frá því 23. janúar 2013 kl. 14.34. Það er svona:

Sæll, Steingrímur.

Sæll, Ögmundur.

Eitthvað að frétta?

Nei, sosum ekkert.

En hjá þér?

Nei, varla neitt. 

[Þögn, 30 sekúndur]

Frekar slæmar niðurstöðurnar úr skoðanakönnunum ...

Já, Ömmi, ekki nógu gott ... það reddast samt fyrir kosningar.

Held ekki. Þú ert ömurlegur formaður.

[Þögn, 34 sekúndur]

Þú ert nú ekkert skemmtilegur heldur.

[Þögn, 15 sekúndur]

Við þurfum ekkert að tala saman daglega, Ömmi minn.

[Þögn, 21 sekúnda]

Nei, þá bara hættum við að talast við.

Ókey þá, bless.

Bless.

Leggðu fyrst á.

Nei, þú ...

Nei, þú ...

Hætt'essu ..

Hætt'essu ... 

....

Í niðurlagi skýrslunnar um hlerun á síma Ögmundar stendur eftirfarandi í þýðingu minni.

Legg til að við hættum að hlera síma Íslendinga. Þetta er hundleiðinleg þjóð sem hefur ekkert að segja. Berja á samlöndum sínum eins og börn í sandkassa. Gerir mann geðveikan að hlusta á þessa vitleysu. Veit ekki hvað ég geri ef ég þarf að halda þessu áfram.

Virðingarfyllst, Edward Snowden, hlustari nr. 64666 

 

 

 


mbl.is Voru íslenskir stjórnmálamenn hleraðir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðutaka gegn krónunni, gróði og tap

Og að sama skapi hlýtur bifreiðaeigandi að vera að taka stöðu gegn bílnum sínum og samferðamönnum með kaupum á bifreiðatryggingu og foreldrar að taka stöðu gegn eigin lífi með kaupum á líftryggingum.

Þannig ritar Erlendur Magnússon, framkvæmdastjóri, í grein í Morgunblaði dagsins. Hann varar við því að fjölmiðlar og almenningur álykti sem svo að þeir sem „tóku stöðu gegn krónunni“ eins og það hét og var nokkuð vinsælt meðal bankamanna fyrri hluta árs 2008, hafi gerst sekir um einhverja óhæfu.

Erlendur segir í grein sinni: 

Frá því að bankahrunið varð fyrir rúmum fimm árum hefur hvað eftir annað komið upp sú umræða að fyrirtæki og einstaklingar sem voru að tryggja sig fyrir gengisáhættu með afleiðusamningum, þ.e. vildu verja sig að hluta eða öllu gegn misvægi í gjaldeyrissamsetningu eigna/tekna annars vegar og skulda/útgjalda hins vegar, hafi tekið stöðu gegn krónunni og gengishrun krónunnar sem varð á árinu 2008. 

Þetta er rétt hjá Erlendi, svo langt sem það nær. Hitt mun vera rétt að á meðan margir bankamenn tryggðu sig gagnvart krónunni töpuðu lífeyrissjóðir sjötíu milljörðum króna á gjaldeyrisviðskiptum sem raktar eru beinlínis til aðgerða gömlu bankanna. Niðurstaðan er því einföld. Á meðan sumir börðust gegn krónunni og höfðu aðstæður til að stuðla að gengislækkun hennar, töldu þeir öðrum trú um að krónan myndi halda velli eða jafnvel hækka. Því hefðu fylgt talsverðar tekjur fyrir viðkomandi.

Hitt er óumdeilt að skynsamlegt er að tryggja sig gegn vá. 


Viðskipti við Netflix brjóta ekki á höfundarétti

Netflix, Hulu og hluti af iTunes eru efnisveitur á internetinu sem Íslendingum stendur ekki til boða. Hver skyldi nú ástæðan vera?

Til að gera langa sögu stutta er hún einfaldlega sú að stjórnendur þessara efnisveitna hafa ekki enn stofnað fyrirtæki hér á landi eða hafa ekki áhuga á því. Engu að síður getum við tengt okkur við þær og keypt tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsþætti ef við óskum þess. Hið eina sem þarf er Ip-tala á tölvunni okkar sem upplýsir ekki að við séum á því svæði sem þessar efnisveitur selja ekki enn á.

Látum vera hvort það sé rangt eða jafnvel lögbrot af mér að fela mig þannig fyrir efnisveitunum. Hitt er engu að síður staðreynda að ég kaupi af þeim þætti, ég fæ að horfa á þá og þeir fá peningana mína. Í sjálfu sér er enginn munur á viðskiptunum en er í Bandaríkjunum, Kanada eða þeim Evrópuþjóðum sem þessi þjónusta er í boði. Að öllum líkindum er allir sáttir með þetta nema samkeppnisaðilarnir hér á landi.

Hvað skyldi svo Netflix, Hulu og iTunes gera við íslensku áskriftarpeningana? Jú, fyrirtæki greiða afnotagjald fyrir sýningu á sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tónlist, borga fyrir rekstur sinn og eitthvað er svo hreinn hagnaður eftir skatta.

Ekki misskilja. Áskriftarpeningarnir frá Íslandi eru ekki svartir. Efnisveiturnar stinga þeim ekki í eigin vasa og neita að greiða höfundarréttinn. Nei, þetta er allt sama púllían, þeir hafa samið um að greiða ákveðið gjald fyrir leigu á efni og hvað varðar tónlist og annað þá gilda einfaldar reglur um greiðslur.

Ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Þ. Stephensen, fer einfaldlega með rangt mál í helgarblaðinu þegar hann segir eftirfarandi í leiðara:

Ástæðan fyrir því að þær eru lokaðar er ekki tæknileg mistök eða mannvonzka. Þær eru lokaðar vegna þess að það brýtur í bága við lög um höfundarrétt að þær bjóði efni sitt fram á Íslandi. Með því að bjóða upp á þjónustu sem kemur íslenzkum neytendum í viðskiptasamband við þessar erlendu efnisveitur hvetur fjarskiptafyrirtækið þess vegna til lögbrota, þótt það vilji auðvitað ekki viðurkenna það. 

Þetta er bara kolrangt. Hið eina sem gæti hugsanlega verið til athugunar er að einhverjir telji sig eiga einkaréttinn til sýninga á einhverju efni hér á landi. Í þeim löndum þar sem þessar efnisveitur eru starfandi er hins vegar ekki um að ræða einokun á sýningu á ákveðnum bíómyndum eða sjónvarpsþáttum og hér. Réttur framleiðanda efnis til að selja víðar er virtur. Þetta kemur þar af leiðandi höfundarétti ekki við.

Vissulega er ekki greiddur virðisaukaskattur af þjónustu ofangreindra efnisveitna. Það er ekki heldur gert þegar ég kaupi forrit í tölvuna mína af ýmsum erlendum framleiðendum. Staðreyndin er einfaldlega sú að heimurinn er orðinn opið viðskiptasvæði og þar ganga kaupum og sölum óáþreifanlegir hlutir sem hægt er að senda þvers og kruss án þess að neinn verði þess var. Flest af þessum forritum get ég til dæmis ekki keypt hér á landi.

Hvernig skyldi internetið líta út ef skattayfirvöld og lögregla væru með nefið ofan í hverjum netþræði til að afla ríkissjóði virðisaukaskattstekna? Líklega eins og í Norður-Kóreu eða í besta falli eins og í Kína.

Er það sú staða sem við viljum fá hér á landi?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband