Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Hin yndæla framtíðarsýn um sól og sumar allt árið

Hin takmarkalausa þörf og löngun okkar Íslendinga eftir sól og yl er afar skiljanleg. Hver vill ekki búa þar sem er sól og blíða alla daga og hæfilegur hiti? Já, rétti sá upp hönd sem ekki er þannig gerður! Ekki er þó allt sem sýnist og vart flýr maður erfðir og uppeldi. Þeir sem hafa búið í „heitum löndum“ hafa ábyggilega flestir óskað sér að fá kaldur íslenskan gust sem kælir mann rétt sem snöggvast og auðveldi öndunina. Og auðvitað sakna allir hinnar reykvísku slagveðursrigningar líði of langur tími frá síðasta skammti. Flestir lifa þó sól, þurrk og hita af og enda um síðir uppi á skerinu kalda þar sem þjóðin óskar sínkt og heilagt eftir sól og hita þegar rigningin hefur ofboðið henni.

Kunningja mínum einum er gefið að sjá fram í tímann. Hann sagðist einn morguninn hafa fallið í einskonar trans og hann sá nokkur ár fram í tímann. Að því tilefni gerði hann sér heimsókn til mín og sagði mér eftirfarandi sögu, auðvitað í algjörum trúnaði.

Fundist hafði ævaforn flaska á Skeiðarársandsfjöru. Hún var opnuð í beinni útsendingu í sjónvarpi að viðastaddri ríkisstjórn og öðru mektarfólki. Og viti menn, upp úr flöskunni liðaðist gufukenndur reykur sem tók á sig mannsmynd sem mælti og gerði grein fyrir sér. Hér gefst ekki tími til að segja frá ættum og uppruna andans enda allt önnur saga. Hitt mun þó gerast að andinn bauð viðstöddum þrjár óskir fyrir að frelsa sig úr mörg hundruð ára prísund.

Þess ber að geta að þarna í framtíðinni er ekkert gert sem varðar þjóðarhag nema eftir allsherjaratkvæðagreiðslu. Og svo var í þetta sinn sem endranær. Ríkisstjórnin lagði fyrir þingið atriði sem hún vildi að þjóðin tæki afstöðu til vegna fyrstu óskar andans í flöskunni. Tillaga ríkisstjórnarinnar var þessi: 1. Næg atvinna fyrir alla. 2. Olía finnist á landinu, og 3. Verðmætir málmar finnist á landinu. 

Þingi felldi fyrsta atriði og setti í staðinn Sól og 15 til 30 stiga stiga hiti verði allt sumarið. Og þessu til viðbótar bætti hún við tveimur öðrum atriðum. 4. Flugvöllurinn í Vatnsmýri Reykjavíkur verði fluttur í heilu lagi á þar til gerðar undirstöður fyrir utan Gróttu.  5. Komið verði á heimsfriði.

Jæja, nú gerist það að þjóðin samþykkir með yfirgnæfandi meirihluta að sól og 15 til 30 stiga hiti verði að jafnaði alla daga sumarsins. Einhverjir voru óánægðir með að þjóðin skuli hafa hafnað heimsfriði eða möguleikum á verðmætum málum. Enginn vildi þó flytja flugvöllinn og þótti fáum skrýtið því þegar þarna var komið í framtíðinni taka flugför sig upp lóðrétt og lenda þannig líka.

Með viðhöfn var andanum sem bústað hafði átt í flöskunni tilkynnt um þjóðarákvörðunina. Hann lét á engu bera og samstundis hætti að rigna suðvestanlands, norðaustanáttina fyrir norðan lægði, Austfjarðaþokan færði sig út fyrir 200 mílna lögsögunnar og hafísinn fjarlægðist Vestfirði jafn mikið. Sólin spratt fram og gerði sig heimakomna á skerinu sem áður fyrr þótti svo kalsamt.

Gleði landsmanna varð nær takmarkalaust. Fólk flykktist út í fjalla- og standgöngur, sala á sólaráburði stórjókst og hagvöxtur batnaði að sama skapi. Margir urðu brúnir, sumir fyrst rauðir, flestir glaðlyndari og allir syntu í sjónum og sundlaugarnar urðu vinsælustu samkomustaðir landsins.

Já, og svo var hamingja fólks mikil að strax þetta næsta haust komu fram kröfur um að ekki myndi snjóa eða rigna á veturna, sama veðurfar yrði allt árið og helst þannig að skammdeginu myndi létta. Af landfræðilegum ástæðum þótti ekki hægt að krefjast slíks en eftir langar umræður á Alþingi var samþykkt að bera ætti upp aðra ósk upp við andann um gott vetrarveður. Stjórnmálamenn sem ekki voru í tengslum við alþýðuna voru eitthvað að tuða um heimsfriði, ESB, mengun og álíka en fengu ekki áheyrn.
 
Þjóðin fékk að því velja um tvö atriði: Veðrið og skárri efnahag. Hið fyrrnefnda fékk 90% atkvæða og kjörsókn var 90%.
 
Þóttist nú þjóðin vera í góðum málum og naut hún veðursins næstu misseri. Þá dró smám saman ský fyrir sólu, það er í óeiginlegri merkingu. Margvísleg vandamál höfðu gert vart við sig. Nefna má að tíð slys voru vegna húðbruna og í kjölfarið fjölgaði fólki með húðkrabba. Verra var, ef svo gáleysislega má orða það í samanburðinum við krabbann, að vatnsleysi gerði vart við sig. Sauðfé fækkaði vegna uppblásturs og gróðureyðingar, skordýrum fjölgaði og margvísleg skriðdýr námu land. Sjúkdómum fjölgaði í búfénaði og féll hann í stórum stíl.
 
Verra var þó að fiskveiði landamanna minnkaði, þorskurinn flutti sig norðar í kaldari sjó en í staðinn komu aðrar tegundir sem voru ekki eins verðmætar. Í kjölfarið á vatnsskortinum minnkaði rafmagnsframleiðan svo færri gátu notað loftkælingartækin sem höfðu verið flutt inn í stórum förmum. Afleiðingin varð einfaldlega skömmtun á rafmagni. Um svipað leiti fór ferðamönnum að fækka. Þeir kvörtuðu víst undan verðlagi, ryki, skemmdum á náttúru landsins og hversu erfitt var að hlaða raftæki.
 
Fór nú að renna tvær grímur á þjóðina enda aðstæður fjarri því að vera góðar, atvinnuleysið mikið, verðbólgan lifnaði við, þjóðarframleiðsla minnkaði og gjaldeyrisvaraforðinn rýrnaði eins og vatnið. Hinn almenni Jón þjáist í atvinnuleysi sínu af húðkrabba, hin elskulega Gunna fékk ekki nóg vatn til drykkjar og baða. Mæðulega lítur Gunna út um gluggann, sér samt lítið út því rúðurnar eru máðar af sandblæstri, hún stígur snöggt á kakkalakka sem nálgaðist hana, og svo hún heldur áfram að lesa á Facebook um kröfur fólks um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin vill nýta sér þriðju óskina. Hún hrópaði á hjálp.
 
Jafnvel ríkisstjórn landsins sér að ekki má við svo búið standa, hún svarar kalli þjóðarinnar því vandamálin voru orðin svo yfirþyrmandi. Hún lagði til við þingið gengið verði til þjóðaratkvæðis um þriðju og síðustu ósk flöskubúans fyrrverandi. Tillaga ríkisstjórnarinnar til Alþingi var að á atkvæðaseðlinum í næstu þjóðaratkvæðagreiðslu standi þetta:
  1. Veðurfar verði eins og var áður en flöskubúinn breytti því
  2. Meira vatn, meira vatn
  3. Færri skordýr og engar eiturslöngur
  4. Lækningu á húðkrabba
  5. Heimsfriður

Alþingi ræddi síðan tillögu og samþykkti tillögu ríkisstjórnarinnar án umræðu.

Viku síðar, var haldin þjóðaatkvæðagreiðsla,“ sagði kunningi minn, en í því er hann sleppti orðinu hringdi síminn hans og hann varð hreint nauðsynlega að skreppa frá.

Raunar hef ég ekki séð hann síðan en brenn eyðilega í skinninu eftir því að fá að vita um niðurlag framtíðarsýnarinnar. Ég lofa því að segja frá endinum ef ég hitti kunningja minn aftur að máli. Mundu þó, kæri lesandi, að ég brást trúnaði kunningja míns með því að segja þér þessa sögu og haltu henni því leyndu. Að öðrum kosti fáum við aldrei að vita neitt um framhaldið.

 

 

 


... og hér er möguleiki!

Lýsing á knattspyrnuleik á ónefndri íslenskri sjónvarpsstöð.

- Hann gefur boltann á næsta mann og hann sendir boltann yfir völlinn á samlanda sinn.

- Hérna er möguleiki ...

- Hér reynir á markmanninn ... en boltinn fór framhjá.

- Hann hleypur ... nú hleypur hann ekki. 

- Hornspyrna og þarna er MÖKULEIKI ... nei, engin hætta þarna. 

- Þetta er aukaspyrna á annað liði. Það skyldi þó aldrei vera að gera þurfi breytingar á liðinu vegna meiðsla.

-  Þarna er möguleiki ... en boltinn kemst ekki í gegnum varnarmúrinn ...

- Hitt liðið er aðeins nokkrar mínútur frá sigri ... 

- Þetta er hugrökk skipting, sóknarmaður fyrir varnarmann. 

- Hérna er möguleiki ... nei, annars. 

- Er þetta aukaspyrna og gult spjald. Já, varnarmaðurinn varð að brjóta á sóknarmanninum eða hvað?

- Þetta er alveg pottþétt víti ... nei annars, varnarmaðurinn snerti ekki sóknarmanninn.

- Dómarinn dæmir ekki neitt og nú er annar möguleiki fyrir hitt liðið ... en það verður ekkert úr þessu.

- Hann er inni í teignum en nær ekki að taka boltann niður.

- Hann er að leita að markinu sem getur komið þeim í úrslit. 

- Þeir eru að gera sig líklega ...

- Það má alltaf búast við einhverjum af þessum leikmanni. 

- Já, þetta er að takast hjá þeim ... en þetta er nú heldur lengra hjá þeim en virtist í fyrstu.

- Við eigum eftir að sjá pressuna þyngjast.

- Og hér er möguleiki. 

- Og hann sendir á næsta mann og sá fer bara í skotið og boltinn í SLÁNNA !!! Búmm, það heyrist ennþá í þverslánni.

- Og eins og staðan er núna er hitt liðið áfram ... 

- Já, þolinmæði er að skila sér núna. 

- Og svo er ekkert annað en að stýra boltanum framhjá markmanninum. 

Þeir eru vissulega mismunandi blessaðir þulirnir, betra að nefna ekki nein nöfn ... en það er alltaf möguleiki. Eins gott að Eiður skuli ekki hafa áhuga á fótbolta.

 

 


Blómstrandi lúpína í yndisfögru landi

IMG_0634 7 b - Version 2Fagrar lúpínubreiður eru eitt hið yndislegasta sem augað lítur og ekki spillir angan í lofti. Miðsumarið er stórkostlegt á suðvesturhorni landsins og því góð hugmynd að hjóla um borgarlandið.

Ég fór austur um Fossvogsdal og upp Elliðaárdal og upp fyrir stíflu. Mikið mannlíf, fjöldi fólks gangandi, skokkandi og hjólandi. 

Þegar upp úr Elliðaárdal er komið vandast málið, engin greið leið yfir útfallið úr Elliðavatni og þaðan upp í Heiðmörk en einhvern veginn álpast maður á réttar slóðir þar sem falleg hús og gróðursælt land gleður augað.

Fólki fækkar þegar komið er upp fyrir brú á mótum Elliðavatns og Helluvatns. Nokkrir að veiða en fáir á göngu. Ég hjóla lengra og allt upp á Borgarstjóraplan. Þar eru enn færri bílar og sárafátt fólk. Ég hjóla sem leið liggur gamla veg, svokallaða Landnemaslóð, sjá nánar í þessu korti

IMG_0654 27 bc - Version 2

Þarna er ég komin á kunnuglegar slóðir. Hef hlaupið þarna undanfarin sumur, oftast nær daglega svo ég þekki mig vel. Aldrei hef ég þó hjólað hlaupaleiðina mína og geri nú það að hluta til. Stefni til vestur á þröngum en fallegum stígum sem hlykkjast um skógi vaxið hraunið. Mætti aðeins tveimur, hlaupara og hjólreiðamanni. Finnst fólk furðu áhugalaust um stórkostlegt útivistarsvæði, það besta á suðvesturhluta landsins, göngu- og hlaupaleiðir við allra hæfi. 

IMG_0656 29 b - Version 2

Lúpínan er mjög þykk, því skógarbotninn en virðist fá næga birtu til að þrífast. Hins vegar njóta trén góðs af henni því niturríkur jarðvegurinn gerir skilyrði til skógræktar hin ákjósanlegustu.

Ég hjóla undurfagra leið vestur að Elliðavatni. Þar beygi ég til vinstri og held inn í land Kópavogs. Lendi inn á reiðleið sem er frekar óþægilegar fyrir hjólandi fólk og hlaupandi. Laust í götunni og hjólið skrikar til rétt eins og hlauparinn sem ég fer fram úr. Ég man eftir því þegar ég gekk í fyrsta sinn í kringum Elliðavatn. Þá var engin byggð við vatnið nema stöku bústaðir og maður þurfti að klöngrast yfir girðingar og blautar mýrar. Nú er byggðin í Kópavogi fram á vatnsbakkann.

Góðar göngu- og hjólaleiðir eru Kópavogsmegin og fyrr en varir er ég aftur kominn að ósum Elliðaárvatns og þaðan hallar þægilega niður Elliðaárdal og í Fossvogsdal. Um fjörtíu kílómetra hjólaferð lokið. Fínn rúntur um geysileg falleg land. 

Myndirnar tók ég á iPhone síma.

 

  1. Sú efsta er tekin í hæðunum suðvestan við Myllulækjartjörn.
  2. Miðmyndin er tekin aðeins vestar og þar sér yfir vatnið til norðurs, Esjan í fjarska, Elliðavatn til vinstri, Myllulækjartjörn til hægri. 
  3. Nesta myndin er tekin skammt fyrir ofan gömlu brúna og sér þarna yfir í Selásinn og hverfið þar fyrir neðan. 

 


Þegar Geir Hallgrímsson útvegaði okkur vinnu í öskunni

Ég sótti svo um í MH og komst ekki inn og ætlaði þá að vera í öskunni til áramóta og byrja svo í MH – en fékk ekki vinnu. Ég heyrði síðar að maður hefði þurft að vera í Sjálfstæðisflokknum til að fá að vera í öskunni.  
 
Þetta segir nýi borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson í viðtali í Fréttablaðinu. Eflaust er það hluti af gangverki hans að endursegja órökstuddar kjaftasögur sem honum finnst nægilega trúverðugar til að vera sannar. Slíkt er auðvitað heimskulegt enda á stjórnmálamaður að vera málefnalegur eins og Dagur hefur ábyggilega verið öll sín tólf ár í stjórnmálum. Hann er hins vegar yfirleitt svo langorður að fæstir hafa úthald til að sannreyna það.
 
Ég kann hins vegar aðra sögu af öskunni í Reykjavík sem stangast á við kjaftasögu Dags. Að vísu er ég nokkuð eldri en borgarstjórinn en finnst ástæða til að segja þessa sögu hér, þó ekki sé nema til gamans.
 
Þannig var er við tveir blankir félagar voru á sautjánda ári, nýbyrjaðir í menntaskóla, vantaði vinnu um jólin. Við vorum frakkir og hugmyndaríkir og gengum því inn í stjórnarráðið við Lækjartorg þar sem Ólafur Jóhannesson starfaði sem forsætisráðherra. Ætluðum að ná fundi hans í þeirri von að hann gæti útvegað okkur vinnu. Dyravörðurinn vísa okkur á dyr, annað hvort var húsbóndinn ekki heima eða dyravörðurinn neitaði að útvega okkur fund með Ólafi. Man ekki hvort var.
 
Þá voru góð ráð dýr. Datt okkur þá í hug að heimsækja borgarstjórann. Við örkuðum frá stjórnarráðinu og að skrifstofum borgarstjóra sem þá voru á horni Austurstrætis og Póshússtrætis í einu af virðulegustu húsum miðborgarinnar. Okkur var vísað inn í biðstofu og stuttu síðar kom Geir Hallgrímsson, borgarstjóri og Sjálfstæðismaður ... fram og bauð okkur inn til sín.
 
Ungi og frakkir menn hafa oft miklar hugmyndir um verkefni en þegar á hólinn er komið er oft meiri vandinn að stynja upp trúverðugu erindi. Aldrei áður höfðum við hitt Geir en fylgdumst með fréttum og vissum flest allt sem vita þurfti um stjórnmálin í höfuðborginni en það er nú aukaatriði. Okkur vantaði vinnu og Geir skildi það mætavel. Hann greip símann og talaði við einhvern, skrifaði nafn á blað og rétti okkur. Sagði að vel yrði tekið á móti okkur og við fengjum áreiðanlega vinnu við sorphreinsun yfir jólin.
 
Daginn eftir vorum við komnir í öskuna. Ég var settur í hóp sem sá um að hirða sorp í mið- og vesturbæ. Félagi minn var einhver staðar annars staðar en báðir vorum við himinlifandi. 
 
Svo gerist það að við losuðum öskutunnur hjá sovéska sendiráðinu við Garðastræti. Þetta var örfáum dögum fyrir jól og þar sem þeir sovésku voru trúir uppruna sínum gáfu þeir öllum verkamönnum vodkaflösku við mikinn fögnuð. Þetta var víst hefð hjá þeim. Sama var uppi er við tæmdum hjá þeim kínversku. Allir fengu brennivínsflösku. Já ... tvær flöskur af brennivíni, en ég 16 ára stráklingurinn fékk enga. Talinn of ungur og auk þess með of lítinn starfsaldur til að eiga kröfu á hinn görótta drykk.
 
Það breytti því ekki að við félagar áttum talsverðan aur þegar við byrjuðum aftur í skólanum, þökk sé Geir Hallgrímssyni.
 
Nú kann einhver, sem þekkir til mín, að spyrja hvort ég sé ekki Sjálfstæðismaður?
 
- Jú ... myndi ég svara, dálítið hikandi.
 
Og hvenær gekkstu í Sjálfstæðisflokkinn, spyr hinn ímyndaði lesandi?
 
- Tja ... þegar ég hafði aldur til.
 
Og hvenær var það?
 
- Ég var sextán ára, muldra ég ofan í bringuna.
 
Og þú varst sem sagt sextán ára þegar þú, Sjálfstæðismaðurinn, fékkst vinnu í öskunni í gegnum Geir Hallgrímsson, borgarstjóra?
 
- Já ...
 
Nú sannar þetta ekki orð Dags B. Eggertsson um að aungvir aðrir en Sjálfstæðismenn fengu starf í öskunni?
 
-  Nei, eiginlega ekki. Sko, félagi minn var ekki Sjálfstæðismaður og hvernig í ósköpunum átti Geir Hallgrímsson svo sem að vita hvort ég var í flokknum eða ekki. Hann spurði einskis. Fékk bara erindi frá tveimur síðhærðum og hressilegum strákum sem komu óforvarendis inn til hans af götunni og báðu um starf. Og Geir leysti úr vanda okkar meðan við biðum. Við gengum inn sem atvinnulausir námsmenn og út sem öskukallar. 
 
Þú lýgur þessu öllu saman, hrópar þá hinn ímyndaði lesandi, um leið og hann hverfur úr sögunni. 
 
Jæja, síðan þetta gerðist hef ég ekki starfað sem öskukall en mikið óskaplega var það merkileg og skemmtileg lífsreynsla að vera í öskunni.
 
Síðar kynntist ég dálítið Geir Hallgrímssyni, borgarstjóra, ráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hann var mikill sómamaður, í alla staði heiðarlegur og um það geta fleiri borið vitni en ég að hann var afar greiðvikinn og gerði ekki pólitískt greinarmun á fólki sem til hans leitaði. 
 
 

Tíu grundvallarmistök fóboltamanna og dómara á HM

Dómarinn

Alltaf er maður jafn hissa á reyndum atvinnumönnum á heimsmeistaramótinu í fótbolta sem klikka á grundvallaratriðum. Til dæmis þessum:

  1. Spyrna markmanns frá marki, hvort heldur er í útsparki eða á annan hátt er ónákvæm aðgerð. að minnsta kosti 50% líkur að andstæðingurinn nái boltanum. Gáfulegra er að nota stutt spil, reynist oftar árangursríkara
  2. Varla nokkur fótboltamaður getur stjórnað sparki sínu sem tekið er viðstöðulaust. Það verður alltaf ónákvæmt og telst heppni ef boltinn ratar á markið. Því lengra sem leikmaður er frá markinu því minni líkur er að hitta á það. Engu að síður reyna menn þetta í þeirri von að verða hetjur. Hugsanlega tekst svona í 10% tilvika. Já, já ... þegar það tekst er það flott.
  3. Peysutog virðist borga sig. Dómarar fara ekki eftir reglum. Peysur ættu að vera einnota og rifna við tog.
  4. SlagsmálEngin dæmi eru um að dómari breyti um skoðun þrátt fyrir mótmæli leikmanna. Samt tuða menn og suða rétt eins og að meirihlutinn fái einhverju um dóminn ráðið. Misskilningurinn er í því fólginn að dómari er einráður, fer ekki eftir lýðræðislegum meirihluta, hvorki leikmanna né áhorfenda. Þessu mætti hugsanlega breyta og taka upp kosningar á leikvelli. Ekki er þó víst að það leysi neitt því gera má ráð fyrir að 11 séu sammála og jafn margir á móti.
  5. Flestir markmenn eru slappir skotmenn. Sé bolta gefið til markmanns og andstæðingur eltir verður sá fyrrnefndi afar hræddu og taugaveiklaður og sparkar venjulega boltanum út af vellinum eða þráðbeint upp en sjaldan ná þeir að gefa á samherja. Þeir eru hins vegar þokkalegir ef boltinn fær að liggja hreyfingarlaus og nægur tími gefinn í sparkið.
  6. TogaÆ algengar er að fótboltamenn taki tíma í leiklist. Þeir æfa sig í því að meiða sig hræðilega mikið í tæklingum, jafnvel þó andstæðingurinn snerti þá ekki. Þeir læra að veltast yfirleitt um í sárum kvölum. Fái þeir ekkert út á hið meinta meiddi stendur „fórnarlambið“ venjulega hljóðlega upp og hleypur um völlinn eins fyrir himneskt kraftaverk. Sama heilun gerist líka skömmu fyrir að aukaspyrnan, sem stundum er dæmd, er tekin. Í hita leiksins kemur fyrir að leikmaður heldur um rangan fót eftir tæklingu, en það eru nú bara mannleg mistök. Dómari á að gefa plús í kladdann fyrir góð leiklistarleg tilþrif. Það myndi bæta leikinn fyrir áhorfendur og „víkka“ leikinn.
  7. Dómarar eru víst mannlegir, skyldi engan undra sem áttar sig á ættfærslu þeirra (sko, þeir eru mennskir þrátt fyrir látalæti). Þeir geta ekki á broti úr augabragði áttað sig á þaulæfðum brotum leikmanna. Þeir geta hæglega misst tök á leik vegna mótmæla enda eru þau til þess gerð að brjóta dómara niður og gera þá hliðholla sér en andstæða hinum.
  8. Toga2Flestir leikmenn gefast upp þegar þeir missa boltann. Væri gefið gult spjald fyrir mistök í leik myndu leikmenn batna (og þeim jafnframt fækka á leikvellinum).
  9. Frægir leikmenn og launaháir eru yfirleitt ekki bestu leikmennirnir en ábygglega með afbrigðum sjálfhverfir og andlausir. Lausnin er að borga engum neitt.
  10. Aldrei hefur það komið fyrir að einn einstakur leikmaður vinni leik fyrir hönd liðs síns. Það er undantekningarlaust liðsheildin sem sigrar eða á sök á tapi. Þessu gleyma margir fyrir framan mark andstæðinganna.
Mér finnst að FIFA ætti að taka það til skoðunar að ef leikmaður tæklar þannig að „fórnarlambið“ rúllar fjórar veltur eða fleiri og haldi allan tímann í annan fótinn (skiptir engu hvort það er sá meiddi eða hinn) skuli sá „brotlegi“ fá að minnsta kosti gult spjald. Sá „meiddi“ á auðvitað að fá mynd af sér á frægðarvegg FIFA.
 
Til viðbótar vil ég að „fórnarlömb“ tæklinga skuli samstundis skila inn skriflegu læknisvottorði fái sá „brotlegi“ gult eða rautt spjald svo einhver sönnun sé á að þeim líði illa. Undantekning frá þessu er ef blóð eða húðflygsur eru á skóm hins brotlega og áverkar á andstæðingnum þá þarf enga sönnun.
 
Fleira gæti ég nefnt en læt þetta duga að sinni. Myndirnar gúgglaði ég og birti án leyfis en ég held að þess sé ekki krafist fyrir þá tíu sem lesa þetta. Biðst hins vegar fyrirfram afsökunar á að birta þær. 

 

 

 


Hræringar í ESB fyrr og síðar

Fyrir þá sem fyljgast með stjórnmálum eru Reyjavíkurbréf Morgunblaðsins ansi fróðlegur lestur og ekki minnkaði það eftir að kunnur stjórnmálamaður varð ritstjóri við blaðið. Í dag fjallar hann af leiftrandi ritsnilld og yfirsýn um deiluna um hver eig að fá að vera „stóri strumpur“ í Evrópusambandinu. Eftirfarandi er úr Reykjavíkurbréfinu:

Bréfritari minnist þess, að hann var um þessar mundir sessunautur við borð eins af þjóðhöfðingjum álfunnar, sem hann hafði hitt alloft áður. Bréfritari fór, í takti við fyrrnefndar umræður, að undra sig á framgöngu Majors.

Þjóðhöfðinginn sagði að augljóst væri af þessum hugleiðingum að bréfritari væri illa að sér um hræringar á æðstu stöðum innan sambandsríkjanna. Það hefði verið víðtæk óánægja með hugmynd Kohls kanslara og aðferð hans við kynningu hennar. Kohl léti eins og málið væri afgeitt eftir að afstaða hans væri ljós.

En þrátt fyrir reiði og móðgun hefði ekkert ríki á meginlandinu vogað sér að andæfa opinberlega. En mörg þeirra hefðu sammælst um að fara bónarveg að Bretum um að þeir tækju að sér að hengja bjölluna á hinn risavaxna kött. Hann hefði loks ljáð máls á því. Og brátt myndum við sjá að margar þjóðir tækju að „leita sáttatillögu.“

Allt gekk það eftir sem hinn vitri jöfur sagði. En hvað fær John Major út úr þessu, var þjóðhöfðinginn spurður? Það sem hann þarf. Hann er með marga efasemdarmenn um ESB í sínum röðum, sem gamli leiðtoginn Thatcher hottar á.

Þegar þessi mótmæli koma fram og niðurstaðan verður sú að Dehaene verður ekki ESB-stjóri, geta stuðningsmenn Majors bent hróðugir á hversu mikil áhrif breski forsætisráðherrann hafi í þessu meginlandssambandi. Og það er aukaatriði að stuðningsmenn hans vita, eins og við, að þar hefur hann sáralítil áhrif. 

Það lítur sem sagt út fyrir að lýðræðisbandalagið ESB sé ekkert fáu öðru líkt en sandkassaleik þar sem stóru krakkarnir ráða yfir þeim litlu.

 


Með níu ára dreng áleiðis á Hvanndalshnúk

920500-20

Hvannadalshnúkur er um margt merkilegur eins og gjörvallur Öræfajökull. Ég hef nokkrum sinnum komið þangað upp, síðast árið 2006. Þá reyndi ég tvisvar fyrir mér. Ég gekk fyrir hópi tólf manna sem fæstir höfðu komið á Hnúkinn. Við þurftum að snúa við eftir að við komumst upp á sléttu en þar var leiðinda veður, hvasst, skafrenningur og ofankoma.

Viku síðar fór ég einn austur og lagði af stað um fimm leytið um morguninn og í stórkostlegu veðri komst ég upp og niður á gönguskíðum. Hef hvorki fyrr né síðar lennt í annarri eins umferð á einu fjalli. Giska á að þarna hafi um þrjú hundruð manns gengið komist upp á einum og sama deginum.

Fleiri ferðir hef ég átt á Hvannadalshnúk en sú eftirminnilegasta var án ef sú sem ég fór með eldri syni mínum, Grétari Sigfinni í maí árið 1992. Hann var þá níu ára, varð tíu ára í október það ár. Við komumst upp í um 1300 metra hæð á Sandfellsleið, rétt ofan við jökulbrún. Þar hittum við fyrir hóp göngufólks sem velti fyrir sér hvort það ætti að halda áfram eða snúa við. Auðvitað var ekkert vit í að halda áfram og því hættu allir við.

920500-21

Við vorum vel útbúnir. Gengum á gönguskíðum en ég hafði svigskíði meðferðist fyrir Grétar til notkunar á bakaleiðinni. Það var ekki mikill burður en hann var á þessum árum orðinn ansi lunkinn á skíðum. Við vorum því skotfljótir niður að snjólínu.

Ég hafði heyrt af því að tólf ára gamall drengur hefði komist upp á Hnúkinn nokkrum árum áður, en engin deili vissi ég af honum.

Tilgangurinn með ferð okkar feðga var síst af öllu að slá einhver aldursmet. Frá því hann var sex ára hafði ég farið með hann á fjöll. Við gengum víða um landið og hann var duglegur og ósérhlífinn í gönguferðum og ekki síst skemmtilegur ferðafélagi.

Það átti þó ekki fyrir okkur að komast saman á Hvannadalshnúk í þetta skipti og aldrei síðan höfum við reynt aftur saman við tindinn. Það skiptir hins vegar litlu máli. Minningin er góð.

Á efri myndinni stöndum við feðgar einhvers staðar á leiðinni, í á að giska 800 m. Þarna er veðrið enn þokkalegt, talsvert frost en stillt.

Á neðri myndinni má glögglega sjá að hvasst er orðið og talsverður skafrenningur. Þarna minnir mig að hópurinn hafi tekið þá ákvörðun að hætta við uppgöngu og það sama gerðum við. 


mbl.is Hjólaði 320 km á Hnjúkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Fool on The Hill

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, og fallisti í prófkjör sama flokks, kann ekki pólitískar rökræður og beitir fyrir sig ókurteisi og dónaskap. Það er líkast til ástæðan fyrir því að flokksbundnir Vinstri grænir töldu sig ekki geta veitt slíkum manni brautargengi.

Stjórnmálamenn eiga að takast á um grundvallaratriði og stefnumörkun. Krafan er hins vegar sú að það sé gert málaefnalega og menn kunni sér hóf. 

Hitt er svo annað mál að oft getur hóflega flutt mál rifið í og jafnvel svo að sá sem fyrir verður fái vart undir því risið. Það er list.

Ólafur Thors sagðist einhvern tímann í þingræðu heyra andstæðing sinn hrista höfuðið.

Þegar Nixon forseti Bandaríkjanna var í framboð birtu andstæðingar hans auglýsingu og í henni var spurt: Myndir þú kaupa notaðan bíl af þessum manni, „Would you buy a used car from this man".

Björn Valur Gíslason er ekki orðsins maður. Hann er gæinn sem stendur uppi á hól með hafnaboltakylfu í hönd og sveiflar henni út í vindinn með hvissi og flissi, engum til ánægju.

Bítlarnir sungu fyrir löngu angurvært lag um fíflið á hæðinni, „The Fool on The Hill“. Í því er að finna þennan texta:

But the fool on the hill
Sees the sun going down
And the eyes in his head
See the world spinning around

Well on the way, head in a cloud
The man of a thousand voices talking perfectly loud
But nobody ever hears him
Or the sound he appears to make
And he never seems to notice

 


mbl.is Karpa um Geir Haarde
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleið hans sem var borgarstjóri að nafninu til

Sem stjórnmálamaður var hann einnig óvenjulegur að því leyti að hann þóttist ekki skilja allt og kunna allt. Þess vegna setti hann sig aldrei á háan hest og sumum fannst það skrýtið því þeir töldu að borgarstjóri ætti að vera virðulegur. Jón Gnarr var aldrei virðulegur borgarstjóri en samt var fjarska auðvelt að bera virðingu fyrir honum.
 
Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu ritar ofangreint í Pistli dagsins. Oft er ég sammála henni en ekki núna. Ástæðan er einföld. Þegar verk stjórnmálamanna eru skoðuð hlýtur að þurfa að taka með fleira i reikninginn en framkomu og klæðaburð. Hvernig sinnti til dæmis Jón Gnarr starfi sínu og hvað skilur hann eftir?
 
Því er auðvelt að svara. Jafnvel samstarfsmenn hans og Besta flokknum sáu að hann gæti ekki staðið undir öðrum starfsskyldum borgarstjóra en að vera nokkurs konar kynningarstjóri. Honum var settur aðstoðarmaður sem lærði hratt og skildi hvað þyrfti að gera og hvernig. Flóknu vandamálin voru sett undir skrifstofustjóra embættis borgarstjóra sem í rúm tvö ár var hinn raunverulegi borgarstjóri.
 
Til að almenningur kæmist ekki að getuleysi borgarstjórans var settur saman hópur fólks sem starfaði í kringum Jón Gnarr, passaði upp á kynningarmálin og gætti þess að blaðamenn næðu ekki í hann óforvarendis. Raunar var fjölmiðlafólki skipað að koma fyrirfram með þær spurningar sem spyrja ætti því þá gæfist aðstoðarfólkinu tækifæri til að svara þeim og láta manninn læra svörin. Þetta tóks svo vel að jafnvel Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, heldur að Jón Gnarr hafi staðið sig vel í embætti.
 
Þannig liðu nú fjögur ár hjá manninum sem óritskoðaður glopraði því út úr sér í útvarpsþætti að eitt af því merkilegasta sem hann hefði lært væri að einn milljarður væri eitt þúsund milljónir. Hann kom hann óritskoðaður í viðtal í sjónvarpi, þekkti ekki til mála og þurfti að hvísla að aðstoðarmanni sínum sem stóð baka til hvernig hann ætti að orða svar sitt. Þá var varnarmúrinn í kringum Jón Gnarr settur upp.
 
Allir aðrir stjórnmálamenn hafa hingað til þurft að sæta því að þekking þeirra sé á einum tíma eða öðrum dregin í efa. Ráðherrum er stundum legið á hálsi þekkingarskortur eða kunnáttuleysi í stjórnun ráðuneytis, jafnvel leti.
 
Jón Gnarr fékk frítt spil í fjögur ár. Enginn annar „stjórnmálamaður“ gæti komist upp með að gera lítið úr almenningi og svíkja kosningaloforð. Jón Gnarr gerði það og sumum fjölmiðlamönnum þótti það fyndið.
 
Ófyndinn maður sem ekkert kann og ekkert veit fengi aldrei sama brautargengi í stjórnmálum jafnvel þó hann sé góður maður, sagður mannvinur, setti sig ekki á háan hest og reyndi að gleðja okkur fávitanna. Jafnvel fyndinn maður í Sjálfstæðisflokknum, Framsókn eða Samfylkingunni myndi aldrei ná sama árangri nema hann hefði eitthvað annað til brunns að bera.
 
Hitt kann þó að vera rétt að Jón Gnarr kann að hafa eyðilagt þá ímynd að karlmaður í stjórnmálum þurfi að vera í gráum jakkafötum og í rykfrakka til að falla inn í mynstrið. Ef til vill er það eina arfleið mannsins sem aldrei var borgarstjóri nema að nafninu til. Því ber að sjálfsögðu að fagna.
 
Jón Gnarr er ábyggilega hinn vænsti maður, góður við menn og málleysingja. Ofangreindu má ekki blanda saman við persónuna og manninn sem gengdi embætti borgarstjóra. Hér er sá síðarnefndi til umræðu.
 
Það er hins vegar ástæða til að taka undir með Kolbrúnu Bergþórsdóttur að Jóni Gnarr gleymist ekki, ekki frekar en ævintýri Hans G. Andersen. 

Stórtap Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, samt 41% fylgi í heildina

Úrslit borgarstjórnarkosninganna eru áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn en svo er ekki með úrslitin víðast hvar annars staðar. Í því er vandinn fólginn að skilja hvað gerðist í Reykjavík en ekki í nágrannasveitarfélögunum.

Staðan í Reykjavík er þessi:

  • Framsóknarflokkur 10,7 % 2 borgarfulltrúar
  • Sjálfstæðisflokkur 25,7% 4 borgarfulltrúar 
  • Sambirtingur 46,4% 6 borgarfulltrúar
  • Vinstri grænir 8,35% 1 borgarfulltrúi
  • Píratar 5,90% 1 borgarfulltrúi

Samfylkingin og Björt framtíð eru sami flokkurinn. Á þeim er enginn málefnalegur, enginn ágreiningur hvorki málefnalegur né persónulegur. Björt framtíð var stofnaður með það í huga að búa til flóttamannabúðir frá óvinsælli Samfylkingu í ríkisstjórnarsamstarfinu við Vinstri græn. Þetta var snjöll hugmynd, afar djörf en hún heppnaðist fullkomlega. Spurningin er aðeins hvenær þessir tveir flokkar sameinast.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur greinilega tapað forystu sinni í borginni yfir til Sambirtings og sá síðarnefndi hefur gjörsamlega hirt kjörfylgi þess fyrrnefnda.

Að þessu slepptu er sigur Sjálfstæðisflokksins mikill víðast hvar um landið. Fylgi hans stendur víðast styrkum fótum þrátt fyrir að hann sé ekki alls staðar með meirihluta eða í merihlutasamstarfi um stjórn sveitarfélags.

Sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta:

  • Seltjarnarnes, með 4 bæjarfulltrúa af 7
  • Garðabær, með 7 bæjarfulltrúa af 11
  • Mosfellsbær, með 5 bæjarfulltrúa af 9
  • Akranes, með 5 bæjarfulltrúa af 9
  • Árborg, með 5 bæjarfulltrúa af 9
  • Vestmannaeyjar, með 5 bæjarfulltrúa af 7
  • Hveragerði, með 4 bæjarfulltrúa af 7

Sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn verður líklega í meirihlutasamstarfi: 

  • Kópavogur, með fimm bæjarfulltrúa af 11

Sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn verður líklega ekki í meirihlutasamstarfi:

  • Reykjavík, með 4 borgarfulltrúa af 15
  • Hafnarfjörður, með 5 bæjarfulltrúa af 11
  • Akureyri, með 3 bæjarfulltrúa af 11
  • Reykjanesbær, með 4 bæjarfulltrúa af 11
  • Ísafjörður, með 3 bæjarfulltrúa af 9
Sveitarfélög þar sem enn er óljóst með meirihlutasamstarf:
  • Fjarðabyggð, með 3 bæjarfulltrúa af 9
  • Skagafjörður, með 2 bæjarfulltrúa af 9
  • Borgarbyggð, með 3 bæjarfulltrúa af 9
  • Fljótsdalshérað, með 2 bæjarfulltrúa af 9
  • Grindavík, með 3 bæjarfulltrúa af 7
  • Norðurþing, með 3 bæjarfulltrúa af 9
  • Hornafjörður, með 2 bæjarfulltrúa af 7
  • Fjallabyggð, með 2 bæjarfulltrúa af 7

Sé litið á öll ofangreind sveitarfélög kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er með 40,9% bæjarfulltrúa í þeim og það er mun meira en heildarfylgi flokksins í síðustu þingkosningum. Þetta er eins og kjörfylgið var í þingkosningunum 1999 er flokkurinn fékk 40,7% atkvæða á landsvísu.

Þetta breytir þó litlu. Staðan í stærsta kjördæminu er afar slæm. Þar þarf að skoða hvað fór úrskeiðis, hvers vegna listinn höfðaði illa til kjósenda og hvernig kosningabaráttunn var stjórnað. Frambjóðendur flokksins þurfa að líta í eigin barm því þeir voru ekki nægilega sýnilegir síðustu vikurnar. Þar að auki þarf Sjálfstæðisflokkurinn framar öllu öðru að líta til stefnumála sinna, hugsjónanna. Hugsanlega hafa aðrar áherslur verið ofar en grunngildin í Reykjavík.


mbl.is Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband