Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Skotleyfi bankanna

Marinó G. Njálsson er ritar marga góða pistla á bloggsíðu sinni. Hann fjallar í þeim síðasta um bankastarfsemina eftir hrun og líst miður vel á. Við fyrsta yfirlestur á pistlinum hristir maður höfuðið og heldur að Marionó fari með tóm bull. En það er ekki svo. Hann hefur vit á því sem hann ræðir um og hefur þar að auki upplýsingar frá fjölda fólks sem lent hefur í vandræðum hjá bönkunum.

Um daginn steig fyrrum eigandi BM. Vallár, Víglundur Þorsteinsson, fram á sviðið og sagði farir sínar ekki sléttar í viðskiptum sínum við Arion banka. Hann hefður því blákalt fram að gefið hafi verið út skotleyfi á sig og fyrirtæki sitt til þess eins að bankinn gæti hagnast. Þess vegna missti hann forráðin yfir Vallá jafnvel þó allir aðrir lánadrottnar hefðu samþykkt nauðasamninga.

Eitthvað verður umfjöllun Marinós kunnugleg þegar reynsla Víglundar, þess ágæta manns, er borin saman við hana. Fyrir hrun tíðkaðist hjá bönkunum að lána fé til ákveðinna aðila, sem keyptu síðan fyrirtæki, hirtu úr því slátrið og settu í staðinn viðskiptavild í eignahlið efnahagsreikningsins. Seldu síðan fyrirtækið aftur með miklum hagnaði. Engu skipti þótt það væri eiginlega ekki rekstrarhæft eftir þessa meðhöndlun. Það var einfaldlega annarra vandamál.

Marinó heldur því fram að eftirfarandi sé sú aðferðafræði sem núlifandi bankar vinni eftir:

  1. Drögum úr hófi fram að finna niðurstöðu.  Svörum ekki póstum, tilboðum og símtölum nema a.m.k. einhverjar vikur, helst mánuðir fái að líða.
  2. Höfnum öllum tillögum viðskiptavinarins, því hann getur örugglega borgað meira en hann leggur til.
  3. Ásökum viðskiptavininn um allt og ekkert, við hljótum að hitta í mark þó ekki nema einu sinni af hverjum 10.000 skiptum.
  4. Leggjum sjálfir fram tillögur að lausn
  5. Ef viðskiptavinurinn samþykkir, þá hljótum við að hafa boðið of vel og látum lánanefndina hafna.
  6. Ef viðskiptavinurinn hafnar, þá lýsum við frati í hann og sendum málið til dómstóla.
  7. Ef eign viðskiptavinarins er álitleg, þá semjum við ekki, þar sem við græðum meira á því að taka eignina af viðskiptavininum og selja hana sjálfir, en að semja.  Skítt með það þó fólk verði gjaldþrota, við fáum feitan bónus. 
Lesið umfjöllun Marinós og veltið fyrir ykkur hvert stefnir í bankamálum þjóðarinnar. Viljum við ganga þennan veg?

 


Skynsamlegur leikur Eyjamanna

Elliði Vignisson, bærjarstjóri í Vestmannaeyjum er röggsamur forystumaður fyrir bæjarfélagið sitt. Hann virðist ætíð á verði og er vel að sér í flestum málum. Fjölmiðlar hafa hingað til ekki komið að tómum kofanum hjá honum eða meirihluta Sjálfstæðismanna í Eyjum

Svona eiga sýslumenn að vera. Snöggir að taka ákvörðun, fylgja henni eftir eins og kostur er. Eðlilega líst Eyjamönnum ekki á að missa aflaheimildir Bergs-Hugins og þar af leiðandi vill sveitarfélagið nýta sér forkaupsrétt ákvæði laga um forkaupsrétt sveitarfélaga á kvóta.

Elliði og félagar hans vita sem er að hver maður skiptir málu og það versta sem fyrir getur komið er að einstaklingur verði atvinnulaus. Þetta ætlar hann og meirihlutinn að koma í veg fyrir ef þess er nokkur kostur. Hér er fyrirmyndar framkvæmdastjórn á sveitarfélagi.

 


mbl.is Útgerðir í Eyjum vilja kaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setti hann heimsmet?

Andrew Leaper, skoskur skipstjóri, setti nýlega heimsmet er hann fann flöskuskeyti sem hafði verið í sjónum í 98 ár. Hann bætti með því fyrra metið um meira en fimm ár.
 
Svona met setur enginn nema eftir þrotlausar æfingar í fjölda ára undir strangri þjálfun ...

mbl.is Elsta flöskuskeyti í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur tættur sundur og saman

Yfirlýsingar til heimabrúks öðlast nú nýja merkingu þegar Ungir vinstri grænir heimta að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, biðjist nú afsökunar vegna brota á jafnréttilögum. Venjan er hins vegar sú að þegar um er að ræða stjórnmálamenn í öðrum flokkum þá er krafist afsagnar.

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, er yfirleitt glöggur í samfélagsumræðunni. Í leiðara blaðsins í dag rifjar hann upp ummæli Ögmundar frá því 15. apríl 2004 er þáverandi dómsmálaráðherra hafði að mati kærunefndar brotið jafnréttislög. Þá sagði núverandi innanríkisráðherra:

Það blasir við að ráðherrar í ríkisstjórn verði settir á skólabekk til að læra jafnréttislögin. Ég ætla að gera það að tillögu minni að hæstvirtur félagsmálaráðherra sjái um að þeir tornæmustu í jafnréttisfræðunum fái sérkennslu.

Og Ólafur bætir við kannvíslega frá eigin brjósti: „Fín tillaga og enn í fullu gildi.“

Auðvitað er þetta hrikalega neyðarleg staða sem Ögmundur er búinn að koma sér í. Þar er hann á sama sviði og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sem líka braut jafnréttislög.

Þannig fer nú oft fyrir kjaftagleiðum stjórnmálamönnum sem halda að þeir séu að safna atkvæðum en í raun eru þeir óafvitandi að grafa sína eigin gröf. Fer nú ekki betur á því að hafa taumhald á sjálfum sér?

Ólafur Stephensen segir ennfremur um Ögmund í leiðaranum:

Ekki hefur orðið vart við að Ögmundur hafi reynt að velta neinum valdastólum eftir að hann komst sjálfur í einn slíkan. Og hann hafnar því alveg fjallbrattur að hann hafi áttframkvæma það kvótakerfi sem felst í jafnréttislögunum. Er hann þá ekki enn íhaldssamari en fólkið sem berst fyrir jafnari kynjahlutföllum í stjórnunarstöðum hjá ríkinu?

Þetta er nú allt svo bráðfyndið að jafnvel Spaugstofan myndi ekki kunna að sviðsetja svona farsa. Og hinir ungu og haukfránu ungu í Vinstri grænum telja nægilegt að slá á handarbak Ögmundar og segja: Ljótt, skamm. Svo er málið búið.

Og til að gera stöðu Ögmundar enn neyðarlegri, og kannski í senn grátbroslega, þarf Ólafur Stephensen endileg að rifja upp eftirfarandi orð innanríkisráðherrans sem hann glopraði út úr sér þegar hann leyfði sér að berja á þáverandi dómsmálaráðherra fyrir bot á jafnréttislögum:

Staðreyndin er sú að alltof oft fara ekki saman orð og athafnir og það á svo sannarlega við í þessum efnum. 

Það er nebbnilega það ... 
mbl.is Vilja að Ögmundur biðjist afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hornafjörður klúðrar kynningu á deiliskipulagi

Hornafjör#1074AF

Alltof oft klúðra sveitarfélög kynningu á deiliskipulagi á vef sínum. Þar er þó heppilegasti vettvangurinn til kynningar enda auðveldast að nálgast vefinn og afla sér frekari upplýsinga.

Um daginn gagnrýndi ég Reykjavíkurborg fyrir að auglýsa deiliskipulag fyrir Heiðmörk og vísa til vefs borgarinnar. Mér til mikillar furðu var þar ekkert að finna um deiliskipulagið.

Núna virðist Sveitarfélagið Hornafjörður vera að klúðra kynningu á deiliskipulagi við Breiðamerkurlón á vef sínum. Í auglýsingu í Morgunblaðinu í morgun er vísað til vefs sveitarfélagsins en þar er hins vegar ekkert að finna um það á tilvitnaðri síðu. Annars staðar er þó að finna nær árs gamla kynningu.

Þetta gengur auðvitað ekki hjá sveitarfélögum. Ég hef starfað hjá sveitarfélagi og þar var rík áhersla á að kynning á deiliskipulagi væri tilbúin á vef, skrifstofu og annars staðar áður auglýsing var birt. Skil ekki hvernig Sveitarfélagið Hornafjörður og Reykjavíkurborg geta klúðrað svona einföldum hlutum.

Gæti trúað því að svona rugl geti haft einhverjar afleiðingar við ferli skipulagsins detti einhverjum í hug að kæra marklausa auglýsingu. 

PS. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur nú sett upplýsingar um deiliskipulagið á heimasíðu sína. Rétt að það komið fram.


Hrolleifsborg fyrir 17 árum

DSC_0673Einna fegurst jöklasýn sem gefst á Íslandi er úr Reykjarfirði. Í botni dalsins fyrir innan fjörðinn er Drangajökull, hvelfdur og fagur, og augnayndi er af Hrolleifsborg, Reiðarbungu og Jökulbungu.

Fyrstu myndina tók ég fyrir tveimur árum í kvöldsól. Þarna er Hrolleifsborg (851 m) til vinstri og hægra megin, lágreist, er Reiðarbunga (825 m).

Í þessari ferð gengum við nokkur á Drangajökul og höfðum viðdvöl á öllum „skerjunum“, enduðum loks á hinni afburðafögru Hrolleifsborg. Tilsýndar er hún fögur og ekki svíkur hún þegar að er komið.

930730-221

Nokkuð oft hef ég komið í Reykjarfjörð. Leið mín lá þangað talsvert oft er ég var fararstjóri fyrir Útivist og einnig kom ég þangað á eigin vegum. Ekki spilti heldur fyrir að kynnast því ágæta fólki Ragnari Jakobssyni og konu hans henni Lillu.

Einu sinni bjargaði hún lífi mínu og eldri sonar míns sem var alltaf í ferðum með mér. Þannig var að yfirleitt var hann frekar neyslugrannur og hélst það þannig þar til hann var tíu ára og tók þá upp á þeim óskunda að éta meira en ég hafði ráð fyrir gert í nesti. Stóðst á endum í gönguferð sem hófst í Jökulfjörðum og endaði í Reykjarfirði að ég var orðinn gjörsamlega matarlaus er á áfangastað var komið. Er Lilla frétti af þessu var hún ekkert annað en hjálpsemin og við lifðum næstu tvo daga svona mest megnis á heimabökuðu brauðmeti frá henni. Hef ég aldrei, hvorki fyrr eða síðar, bragðað eins góðan mat.

Þegar ég var að skoða myndir af ferðum mínum í Reykjarfjörð rakst ég á þessa mynd af Hrolleifsborg sem er hérna fyrir ofan. Hana tók ég úr flugvél í byrjun ágúst 1993, það er fyrir nítján árum. 

Mér lék nokkur hugur á því að skoða hvort jökullinn hefði eitthvað rýrnað á þessum árum og leitaði því að nýlegri mynd. Eftir smá leit fann ég þokkalega mynd frá 2010 sem ég klippti til en hún sannar í raun og veru ekkert um jökulbúskapinn.

Hún virðist bara sýna mjög svipuð snjóalög við Hrolleifsborg.

DSC_0820_b

Þessi þriðja mynd er tekin á sjálfum jöklinum og því er sjónarhornið aðeins annað. Með því að rýna í myndirnar er þó hægt að bera þær saman. Við sjáum skarðið eða bilið sem er framan í fjallinu. Neðst á efri myndinni, hægra megin við gilið, er stakt sker í hlíðinni. Ofan við það er samfelldur skafl sem fylgir einhverri syllu sem er í sömu láréttu stefnunni og berglögin þarna eru.

Þetta er án efa sama línan og við sjáum á neðri myndinni en snjórinn er þarna slitróttur.

Niðurstaðan af athugun á þessum tveimur myndum er því sú að lítill munur er á snjóalögum en samanburðurinn er engu að síður ekki nægur til að draga fullnægjandi ályktanir. 

Svo má alltaf stækka þá þriðju og þá kemur í ljós að frá slitrótta kaflanum og niður að snjólínu eru örugglega meira en fimmtíu metrar.

Nú er svo komið að langur tími er liðinn síðan maður fór að taka myndir og allflestar geymi ég og er þegar byrjaður að skanna inn filmur. Þar af leiðandi gefst tækifæri til að bera saman aðstæður fyrir fimm, tíu, fimmtán eða tuttugu árum, jafnvel fyrr. Þetta á ég eflaust eftir að gera meira á þessum vettvangi. 


Upptökin við Draumadalagil

DSC__Bl_fj_ll__sk__A4511Samkvæmt upplýsingum af vedur.is eru upptök skjálftans í Bláfjöllum, á sjálfum Bláfjallahryggnum, örskammt frá þar sem heitir Draumadalagil. Það er aðeins norðan við skíðasvæði Fram í Eldborgargili.

Meðfylgjandi mynd er af skíðasvæðinu en nær ekki nógu langt til vinstri til að Draumadalagilið sé þar með.

Ekki veit ég hvaðan örnefnið Draumadalagil er komið. Hins vegar hef ég farið bæði upp og niður gilið að vetrarlagi og þá á skíðum. Síst af öllu finnst mér svæðið vera neinn draumur. Þarna er mikil hætta á snjóflóðum að vetrarlagi. Raunar minnir mig að þar hafi orðið banaslys fyrir allmörgum árum er skíðamaður lenti þar í snjóflóði.


mbl.is Jarðskjálfti upp á 4,6 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn illskeytti óvinur lýðræðisins

Allir eru sammála því að „þeir“ eru verstir, hinir einu og sönnu óvinir, á móti öllu því sem til þjóðþrifa getur talist. Lesendur hljóta að vita hverjir „þeir“ eru. Er það ekki ....? En „við“ höfum alltaf rétt fyrir okkur. E'þaki?

Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, er maður einföldunar. Hann aðhyllist stefnu George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem sagði vegna innrásarinnar í Írak: „Þeir sem ekki eru með okkur eru á móti okkur.

Til skilingins er gott að geta einfaldað hlutina. Í stjórnmálum er einföldun beinlínis stórhættuleg. Hún var til dæmis framleidd í áróðursdeildur andstyggilegustu stjórnmálastefna tuttugustu aldar.

Þorvaldur Gylfason segir (feitletranir eru mínar):

Lýðræðið á illskeytta óvini. Það sannast á tilburðum andstæðinga frumvarps Stjórnlagaráðs, sem sæta færis að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarpið 20. október n.k. og sýna lýðræðinu með því móti makalausa lítilsvirðingu.

Þetta er fyrirlitlegur málflutningur, hlýtur að bera vott um greindarskort. Það er bara ekki svo að lífið sé ein einfalt og Þorvaldur vill vera láta. Hvernig má það vera að ég sé óvinur lýðræðisins þó ég hafi fjölmargar athugasemdir við frumvarp stjórnlagaráðs?

Engin sátt er um tillögur stjórnlagaráðs. Er það ólýðræðislegt að þjóðin hafi mismunandi skoðanir á þeim?Atkvæðagreiðslan um tillögurnar er meingölluð. Hún leyfir aðeins að þjóðin greiði atkvæði með eða á móti tillögum sem eru upp á 114 greinar, 26 blaðsíður. Er slíkt lýðræðislegt? Í raun nægir að ég sé á móti einni grein eða hluta úr grein til að ég segi NEI í atkvæðagreiðslunni. Er það ólýðræðislegt hjá mér, er ég þá óvinur lýðræðisins.

Lítum síðan á þversögnina í málflutningi Þorvaldar Gylfasonar. Hann gerir kröfu til þess að andstæðingar frumvarps stjórnlagaráðs láti af andstöðu sinni og hætti „að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni“. Er það ekki ólýðræðislegt að krefjast slíks. Er hann ekki sjálfur óvinur lýðræðisins að setja fram kröfur um að allir eigi að vera sammála honum?

Nú hlýtur að vera orðið ljóst að samkvæmt Þorvaldi hverjir þessir „þeir“ eru. Það eru einfaldlega allir sem eru ekki á sömu skoðun og hann. Sérstaklega Sjálfstæðismenn. Þeir eru óvinir lýðræðisins. Þorvaldur fellur þarna í þá gryfju að sleppa rökum og formælir þeim sem ekki vilja hlýta forystu hans. Slíkur maður ætti ekki að koma nálægt stjórnmálum. Hann er einfaldlega hinn illskeytti óvinur lýðræðsins.


Ráðherrar dæmdir sekir

Fellur nú enn á snjáðan geislabaug velferðarstjórarinnar. Enn og aftur lenda ráðherrar hennar í vandræðum vegna embættisfærslna og ekki í fyrsta sinn sem ráðningar embættismanna eru dregnar í efa af kærunefnd jafnréttismála. Nóg var hamast á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma og nú, þegar Samfylking og Vinstri grænir, standa beinlínis sekir bera þeir fyrir sig eitthvað sem heitir „sanngirni og rök“. Þessi hugtök eru án efa bara fyrir vinstri menn þegar sekt þeirra er sönnuð og þeir eru innikróaðir með afstöðu sína.

 


mbl.is Ósammála úrskurði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju Fontana en ekki íslenskt nafn?

Jarðhiti beint úr iðrum jarðar, engir takkar, allur frágangur með náttúrulegum hætti ... þarna er fögur sýn til Heklu og Eyjafjallajökuls og ögrandi nánd við íslenska náttúru. Og þarna er hin forna Vígðalaug. Anna framkvæmdastjóri er „leyndardómsfull á svip“.

Hvað er eiginlega að þessu fólki sem byggði nýja laug á Laugarvatni og kallar hana Fontana? Allt er þetta íslenskt, vatnið, jörðin, skýin, rigningin, sólin, vindurinn og fólkið, nema útlendingarnir.

Auðvitað hefði laugin einfaldlega átt að heita Laugin. En íslenska er ekki nógu fín fyrir „Fonatanistana“ og aðra sem halda að útlendingar hrífist einungis að því sem ber annað nafn en íslenskt.

Tungan fer hallloka vegna þess að fjölmargir rekstaraðilar þora ekki að nota hana. Og leyndarsvipur Önnu framkvæmdastjóra verður beinlínis hallærislegur undir merkinu „Fontana“. Ætlu hún byggi ekki upp swimming pool, hot tubs, shops og breyti loks nafni Laugarvatns í Fontana Lake. Kann fólk ekki að skammast sín.


mbl.is Bein tenging við náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband