Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022

Breytti Fréttablaðið niðurstöðum skoðanakönnunarinnar?

Screenshot 2022-05-16 at 21.21.08Skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því 10. maí 2022 um fylgi flokka í Reykjavík stenst ekki. Annað hvort var hún ófaglega gerð eða spellvirki voru unnin á henni fyrir birtingu.

Breytingar á fylgi Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata eru of langt frá úrslitum kosninganna til að könnunin geti staðist.

Skoðanakönnun sýnir ekki úrslit kosninga en hún gefur engu að síður vísbendingar.

Niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins eru svo furðulegar að almennir lesendur fyllast óhjákvæmilega grunsendum um að einhver maðkur sé í mysunni. Því er spurt:

A. Getur verið að Fréttablaðið hafi vanreiknað fylgi Sjálfstæðisflokksins svo munar 8,3% á skoðanakönnuninni og kosningunum?

B. Ofreiknaði Fréttablaðið fylgi Samfylkingarinnar um 6,4%?

C. Vanreiknaði Fréttablaðið fylgi Framsóknarflokksins um 6,3%?

D. Ofreiknaði Fréttablaðið fylgi Pírata um 6,3%?

Tilgangslaust er að bera því við, að frá því að skoðanakönnunin var gerð og þar til kosið var, hafi fylgi ofangreindra flokka kollvarpast, kjósendur hafi „bara“ breytt um skoðun. Ekkert gerðist í stjórnmálunum á þessum dögum sem styður þetta. 

Athygli vekur að fylgi annarra flokka í könnuninni er ekkert langt frá úrslitum kosninganna.

Daginn fyrir kosningar birti Gallup skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík. Hún hefur allt annað yfirbragð og er í þokkalegu samræmi við úrslit kosninganna.

Kolbrún Bergþórsdóttur, menningarritstjóri Fréttablaðsins og reyndur blaðamaður sagði í leiðara blaðsins um könnunina nokkrum dögum eftir birtinu bennar:

... könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk.

  • Af hverju var könnunin lítið marktæk?
  • Var könnunin ekki marktæk af því að hún var svo fjarri öllu lagi fyrir kosningar?
  • Eða var könnunin svo illa gerð að allir á Fréttablaðinu vissu það?
  • Eða töldu innanbúðarmenn í Fréttablaðinu að fiktað hafi verið í niðurstöðum könnunarinnar?

Fólk með sérþekkingu á skoðanakönnunum og stærðfræði eru ekki sammála. Sumir telja að fiktað hafi verið í könnuninni aðrir segja að Fréttablaðið kunni hreinlega ekki til verka.

Svo eru þeir til sem tala um svindl. Sagt er að skoðanakannanir hafi mótandi áhrif á kjósendur en ekki eru allir á einu máli um það.

Furðuleg niðurstaða í skoðanakönnun sem á sér enga samsvörun við úrslit kosninga vekur eins og áður sagði upp grundsemdir. Ekki dvína grunsemdirnar sé rýnt í súluritið hér fyrir ofan. Þvert á móti. Sjö aðrir flokkar mælast með svipað fylgi og hjá Gallup og nokkuð nálægt úrslitum kosninganna. Fylgi fjögurra annarra er út í hött. Skrýtið. 

Þeir eru til sem halda því fram fullum fetum að fiktað hafi verið í niðurstöðum könnunarinnar. Annars vegar til að hygla Samfylkingunni og Pírötum og hins vegar gera lítið úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í þeirri von að hægt sé að hafa áhrif á kjósendur.

Eftir kosningarnar eru hrópandi grunsemdir um skoðanakönnunina. Fréttablaðið verður að svara fyrir hana á sannfærandi hátt. Ella missi blaðið allan trúverðugleika.


Faglegur eða ófaglegur bæjarstjóri

Þá segir Sandra Sigurðardóttir, oddviti OH, það vera forgangsmál að nýr bæjarstjóri verði ráðinn til starfa á faglegum grunni ...

Svo segir stjórnmálamaður í Hveragerði sem fagnar sigri í kosningunum í viðtali við Morgunblað dagsins á blaðsíðu tíu.

Hvað er eiginlega átt við með orðalaginu „faglegur“ bæjarstjóri. Má vera að með því sé átti við að bæjarstjórinn sé ekki stjórnmálamaður, kemur ekki af listum þeirra sem ætla að mynda meirihluta.

Ef til vill er þetta sé mælt af einlægni og sé stefnt gegn því að ráða pólitískan stjórnanda sem hljóti að vera voðalega slæmt. Svona tal gengur hins vegar ekki upp því stjórnmálamaður getur verið ágætur stjórnandi rétt eins og sá faglegi geti verið alveg ómögulegur - og öfugt. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 14. maí 2022 er ljóst að fult af „ófaglegum“ og „faglegum“ bæjar- og sveitastjórum verði ráðnir til starfa. Hér eru örfá dæmi:

Í Ísafjarðarbæ verður kona „ófaglegur“ bæjarstjóri, það er stjórnmálamaður sem var í framboði. 

Á Akranesi verður bæjarstjórinn „faglegur“, hann var ekki í framboði og hefur verið bæjarstjóri í rúmt eitt kjörtímabil.

Á Akureyri mun bæjarstjórinn líklega gegna embættinu áfram. Hann er „faglegur“ þó flokksbundinn sé, en hann var ekki í framboði.

Í Vestmannaeyjum verður líklega sami bæjarstjóri áfram. Hann er „ófaglegur“, var í framboði.

Endalaust má velta þessu fyrir sér en líklega komast margir í klípu vegna orðalagsins „faglegur“ bæjarstjóri af þeirri einföldu ástæðu að sami flokkur eða aðrir í stjórnmálum sjá ekkert athugavert við „ófaglegan“ bæjarstjóra. Varla er merking orðalagsins „faglegur“ bæjarstjóri valkvætt.

Jú, „faglegur“ er ábyggilega fínt orð þegar nýr meirihluti getur ekki komið sér saman hver í honum eigi að fá embættið.

 

 

 


Skálduð skoðanakönnun Fréttablaðsins

Þegar sveitastjórnarkosningarnar 14. maí 2022 eru gerðar upp vekur fernt mesta athygli:

  1. Styrkur Sjálfstæðisflokksins gegn gengdarlausum áróðri
  2. Öflugur sigur Framsóknarflokksins víða um land
  3. Tap smáflokka og örflokka
  4. Léleg kosningaþátttaka í Reykjavík, 61,1%

Á öllu landinu fékk Sjálfstæðisflokkurinn 110 fulltrúa í sveitarstjórnum. Framsóknarflokkurinn fékk 67 en aðrir flokka mun minna. Samfylkingin fékk aðeins 26 og Píratar fengu fjóra, sama og Miðflokkurinn.

FréttablaðiðAf þessu má draga þá ályktun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið varnarsigur í baráttunni gegn áróðursvél Samfylkingarinnar og fjölmiðla sem drógu taum hennar, beint og óbeint

Margir ráku upp stór augu er þeir sáu skoðanakönnun á forsíðu Fréttablaðsins 10. maí 2022, fjórum dögum fyrir kosningar. Spáin var þessi í Reykjavík:

  1. Samfylkingin 26,7%, í kosningunum fékk hún 20,3%.
  2. Píratar, 17,9%, fengu 11,6%.
  3. Sjálfstæðisflokkurinn 16,2%, fékk 24,5%.
  4. Framsóknarflokkurinn 12,4%, fékk 18,7%.
  5. Sósíalistaflokkurinn 7,7%, fékk 7,7%
  6. Viðreisn 7%, fékk 5,2.
  7. Vinstri græn 5,4, fékk 4%.
  8. Flokkur fólksins 4,2%, fékk 4,5

Skoðanakönnunin er greinilega óralangt frá raunveruleikanum enda lítur út fyrir að hún hafi aldrei átt að endurspegla hann. Sú viðbára að könnunin lýsi pólitískri stöðu á þeim degi er hún var gerð stenst ekki. Könnunin var blákaldur áróður.

Fullyrða má að niðurstöðum könnunarinnar hafi verið breytt hvað varðar efstu fjóra flokkana. Í henni er Samfylkunni og Pírötum hampað á kostnað Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hægt er að bera hana saman við aðrar skoðanakannanir fyrir kosningarnar.

Fréttablaðið virðist beinlínis að hafa reynt að hafa áhrif á úrslit kosninganna með skoðanakönnun sem er í besta falli hroðvirknislega gerð og í versta falli fölsk, heimatilbúinn.

Menningarritstjóri Fréttablaðsins, Kolbrún Bergþórsdóttir, fullyrti í leiðara að skoðanakönnunin væri ekki marktæk. Hún sagði:

Það var því nokkuð skondið að sjá hvernig fjölmiðlar slengdu því fram sem stórfrétt og leituðu til álitsgjafa þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 prósent í einni könnun – könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk.

Þetta þótti fín frétt í tíðindaleysi, en það var líka margt ofstækisfullt fólk sem sá þarna draum sinn um fall Sjálfstæðisflokksins rætast.

Ekkert heyrðist um skoðanakönnuna frá samfylkingarmanninum Sigmundi Erni Rúnarssyni, ritstjóra blaðsins, nóg kemur frá honum um ómerkilegri mál. Það skyldi þó ekki vera að andinn hafi komið yfir skáldið og hann samið könnunina.

Ekki vantaði hamfararspána hjá Píratanum Aðalheiði Ámundadóttur, blaðamanni, í leiðara blaðsins. Hún sagði þann 11. maí:

Framsóknarflokkurinn þarf heldur engin málefni til að ná árangri að þessu sinni. Stefna Framsóknarflokksins í Reykjavík er Einar Þorsteinsson.

Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins nýtur hann jafnmikils stuðnings sem næsti borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Aðalheiður hafði hrikalega rangt fyrir sér í óskhyggju sinni sem hún þó flutti eins og blákaldar staðreyndir. Áróðurinn bar skynsemina ofurliði, Framsóknarflokkurinn er óumdeildur sigurvegari í Reykjavík. Skelfingar ósköp klikkaði þessi kona í áróðrinum.

Píratar örflokkur á landinu, fengu fjóra fulltrúa í sveitarstjórnum. Snautlegur árangur það. Til samanburðar fékk Miðflokkurinn líka fimm fulltrúa en telur sig ekki sigurvegara eins og Píratar. Árangur Pírata á öllu landinu er þessi:

  1. Reykjavík, 3 fulltrúar
  2. Kópavogur, 1 fulltrúi
  3. Hafnarfjörður, 0
  4. Reykjanesbær, 0
  5. Akureyri, 0
  6. Ísfjörður. 0

Það má þó segja Pírötum til hróss að þeir höfðu vit á því að bjóða ekki fram annars staðar en á þessum sex stöðum.

Í leiðara Fréttablaðsins þann 11. maí segir Kolbrún Bergþórsdóttir um Sjálfstæðisflokkinn:

Hann er nauðsynlegt afl í íslenskri pólitík. Þar er staðið vörð um einstaklingsfrelsið og barist gegn hinum þrúgandi pólitíska rétttrúnaði sem sligar samfélagið. Þetta eiga menn að virða, hvort sem þeir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða ekki.

Þetta er skynsamlega mælt.

Á vef ríkisútvarpsins segir í fyrirsögn sunnudaginn 15. maí 2022, daginn eftir kosningarnar:

Stærsti sigur Framsóknar - versta tap Sjálfstæðismanna.

Og ég sem hélt að stærsta fréttin væri sú að meirihluti vinstri manna í Reykjavík hafi fallið. Sú staðreynd er falin langt inni í fréttinni.

Nei, nú skal halda áfram að pönkast á Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin og hjáleigur hennar eru stikkfrí.

 

 


Borgarstjórinn sem forðar sér út um bakdyrnar

Dagur, gleðimyndirÉg ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á morgun. Annað kemur ekki til greina að mínu mati. Skora á alla að gera slíkt hið sama, hvar sem þeir búa.

Hafa kjósendur gleymt öllu ruglinu og bullinu í vinstri meirihlutanum í Reykjavíkurborg síðustu árin eða áratugina? Rifjum upp.

Hafa allir gleymt bragganum í Nauthólsvík sem Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og VG eyddu 425 milljónum króna í að gera upp sem veitingastað? Og hvað kostaði danska grasið sem sáð var fyrir utan braggann? Enginn man eftir því.

Bragginn var „endurnýjaður“ án þess að farið var eftir reglum borgarinnar. Ekki var farið í útboð. Þess í stað fengu vinir pólitíkusa á meirihlutanum vel launaða vinnu sem ráðgjafar Reikningar voru samþykktir af vini í borgarkerfinu. Farið var framhjá öllum reglum. Skjöl vegna verkefnisins voru annað hvort ekki gerð eða þeim stungið undan. 

Umferðastefna vinstri flokkanna byggist á því að takmarka ferðir fólks á einkabílum og knýja almenning í strætó. Það hefur ekki tekist hingað til. Strætó er á hausnum, sárafáir notfæra sé hann. Nú á að leggja í rúmlega eitt hundrað milljarða króna í svokallaða borgarlínu. Því fylgir að gera á sér akreinar fyrir örfáa strætisvagna en öðrum bílum er ýtt til hliðar.

Hverjir aka bílum? Jú, yfirleitt venjulegt fólk eins og þú og ég. Fólk sem kýs að ferðast á þann hátt sem því hentar. Nú á að hafa vit fyrir okkur. Forkólfur Viðreisnar Pavel Bartoszek segist vilja gera bílastæði að skemmtigörðum. Falleg hugmynd en það þýðir skort á bílastæðum. Vilja kjósendur það?

Meirihlutinn borgarbúa er hlynntur borgarlínu. Í skoðanakönnunum gleymdist hins vegar að spyrja hvort kjósendur séu hlynntir borgarlínu sem eyðileggur möguleika almennings að komast leiðar sinnar á bílum. Jú, sko, borgarlínan er fyrir hina, ekki mig, segir fólk.

Margir eru hlynnir „þéttingu byggðar“. Vita menn hvers vegna þétta á byggð? Jú, það er svo dýrt að gera land byggingarhæft. Þess í stað á að byggja á umferðareyjum og nýta það sem fyrir er. Búa til fuglabjörg fyrir fólk, blokkir með engu útsýni, engri sól. Íbúðir fyrir ofan umferðagötur. Að baki er engin hugsjón heldur viðbrögð borgarstjórnarmeirihluta sem hefur safnað skuldum. Á ekki fyrir rekstri.

Í sjónvarpsauglýsingum sést frambjóðandi Vinstri grænna á hraðferð í sólinni, brettir upp ermar og ætlar að gera svo ótalmargt. Hver er þessi Líf Magneudóttir? Jú, hún er víst borgarfulltrúinn sem hefur verið í felum í einhverjum kjallaranum heilt kjörtímabil eða lengur. Já, það er ekki seinna vænna að bretta upp ermar - og lofa öllu fögru.

Enn hlægja borgarbúar af borgarstjóranum sem er svo hégómlegur að hann leggur áherslu á að mynda sig í alls kyns skemmtilegum verkefnum, helst við að undirrita samninga og í hópi fræga fólksins. Þegar klóakið stíflast í Fossvogi sést Dagur B. Eggertsson hvergi né hinir í meirihlutanum. Allir eru týndir og þeir finnast ekki þrátt fyrir mikla leit. Embættismenn eru sendir til að svar spurningum fjölmiðla. Þeir þurfa að svara spurningunum um vond málin.

Mottó vinstri meirihlutans í borgarstjórn er þetta: Allt sem er gott er okkur að þakka, allt sem miður fer er Sjálfstæðiflokknum að kenna.

Vegna raðtilviljana ratar borgarstjórinn alltaf inn á fréttasíður fjölmiðla og í mynd sjónvarpsstöðva þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast. Og hann brosir.

  • Þegar dælustöð bilar og milljónir lítra af úrgangi dreifast um Fossvog forðar borgarstjóri sér út um bakdyrnar.
  • Þegar framkvæmdir við Miklubraut valda því að gatan er hálflokuð eru embættismenn settir í að útskýra málið.
  • Þegar loka á Geirsgötu og umferðin úr og í Vesturbæ er send um hálflokaða Miklubraut er borgarstjóri og aðrir í meirihlutanum hvergi sjáanlegir. 
  • Þegar Seltirningar kvarta undan vegum út á nes er borgarstjórinn með ljósmyndurum fjölmiðla í sundi.
  • Þegar upp kemur að gúmmíkurl á fótboltavöllum getur verið skaðlegt íþróttafólki er borgarstjóri í fríi.
  • Þegar Reykvíkingar kvarta hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt bíla eru embættismenn sendir til að bera í bætiflákann, borgarstjóri er ekki til viðtals.
  • Þegar braggamálið þarfnast útskýringa er borgarstjóri í kynnisferð í Japan.

Og svo er það hitt. Á skrifstofu borgarstjóra starfa tólf manns við það eitt að láta Dag B. Eggertsson líta vel út í fjölmiðlum. Mata hann með upplýsingum og afvegaleiða fjölmiðla. Nei, nei, nei. Þetta er ekki nein spilling. Aðeins þjónusta við fjölmiðla.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband