Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018

Hann undrar sig, aðrir vænast og konur ganga göngur

Eftirspurn

Fróðlegt:

Spurn þýðir tvennt: frétt, orðrómur og spurning. (En aldrei eftirspurn. Því á að segja eftirspurn eftir húsnæði t.d., ekki „spurn eftir“ húsnæði.) 

Talað er um að hafa eða fá spurn (eða spurnir) af e-u ellegar að manni hafi borist spurn(ir) af e-u. Það eru þá fréttir eða orðrómur. 

Úr dálkinum Málið á bls. 44 í Morgunblaðinu, laugardaginn 26. maí 2018.

 

1.

„Ætlaði að gera út um Foster með lygum.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Má vera að hér hafi slegið saman tveimur orðatiltækjum:

    • Að gera út af við einhvern, til dæmis skjóta hann.
    • Að gera út um eitthvað, til dæmis málin.

Fréttin fjallar um konu sem ber ljúgvitni gegn körfuboltamanni í því skyni að „eyðileggja feril leikmannsins“.

Hvort ofangreindra á nú við í þessu tilviki? Hugsanlega er blaðamaðurinn að þýða eftirfarandi en tekst það frekar óhönduglega þó hann eigi hrós skilið fyrir að reyna sig ekki við „f-orðið“ í enskunni: 

… she wanted to “f*** up his career …"

Af þessu má ráða að ljúgvitnið hafi ætlað að gera út um Foster með lygum sínum en ekki drepa hann

Tillaga: LeBron fékk klapp fyrir einstaklega gott minni.

2.

„Frammistöður hans verða að batna og í sannleika sagt þá geta þær ekki orðið verri en þetta,“ sagði Scholes við BT Sport eftir úrslitaleikinn.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Frammistaða er nafnorð í kvenkyni og er aðeins til í eintölu. Orðið lýsir því hvernig einhver stendur sig. Getur líka þýtt þjónusta, að ganga um beina. 

Blaðamaðurinn áttar sig ekki á þessu þegar hann þýðir frétt úr enskum fréttamiðli. Þar er fjallað um frammistöðu fótboltamanns og hefur sá ekki staðið sig vel í mörgum tilvikum. Enska orðið er líklega „performances“ sem blaðamaðurinn þýðir blint og þýðir ekki frammistöður. 

Síðar í fréttinni segir:

Paul Pogba vinnur ekki leiki upp á sitt einsdæmi og ekki Sanchez heldur.

Einsdæmi merki eitthvað sjaldgæft enda er orðið þannig samsett, „eitt dæmi“ um einhvern atburð. Það merki ekki að gera eitthvað einn og óstuddur. Þá er notað orðið eindæmi, gera eitthvað upp á sitt eindæmi, einmitt að gera eitthvað einn og óstuddur. 

Blaðamaðurinn ruglar þessum orðum saman sem er í raun afar algengt. Hann ætti þó að gera betur sem og stjórnendur fjölmiðilsins sem hann vinnur hjá. Þeir eiga að sjá sóma sinn í því að blaðamenn skrifi rétt. Metnaðurinn er því miður lítill, og fyrir vikið þurfa neytendur að sætta sig við skemmdar fréttir.

Tillaga: Frammistaða hans verður að batna og í sannleika sagt þá getur hún ekki orðið verri en þetta,“ sagði Scholes við BT Sport eftir úrslitaleikinn.

3.

„Gisti­húsið Foss­hóll, sem stend­ur á gil­barmi Skjálfandafljóts um 500 metr­um frá Goðafossi, hef­ur verið sett á sölu.“ Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Líklega stendur gistihúsið sem hér er nefnt á bakka Skjálfandafljóts, ekki á gilbarmi. Má vera að einhverjir séu því ekki sammála. Þó bratt sé ofan í fljótið, þrír til fimm metrar, er vart hægt að tala um gil á þessum slóðum, slík er breiddin.

Þegar nánar er að gáð segir í auglýsingu Höfða fasteignasölu: 

Gistiheimilið Fosshóll stendur við þjóðveg 1 við bakka Goðafoss í Skjálfandafljóti. 

Líklega hefur blaðamaðurinn breytt orðalaginu en ekki til hins betra.

Þetta leiðir athyglina að fasteignaauglýsingum sem oft á tíðum þyrftu að vera betur orðaðar. Fasteignasali sagði mér að betri sölur notuðu að fá fagmenn til að taka ljósmyndir og víst er að þær hafa batnað á undanförnum árum. Aftur á móti þyrfti einhver að lesa yfir texta sem fasteignasölurnar birta. 

Í auglýsingu Höfða um Fosshól segir meðal annars:

Staðsetning : Er við þjóðveg 1 á krossgötu við Sprengisandsveg.

Hvað skyldi nú krossgata vera? Þetta orð ætti að skiljast, jafnvel á íslensku. Cross roads, Kryds veje, Wegkreuz, korsvägar, encrucijada, svo maður slái nú um sig (með aðstoð Google Translate). 

Krossgötur nefnist sá staður er tvær eða fleiri götur skerast. Eintöluorðið krossgata er ekki til nema hugsanlega Krossgata og þá hugsanlega í Jerúsalem en þar þekkist „Via dolorosa“, vegur sorgar eða þjáningar.

Og eitt í lokin. Nú hafa fjölmiðlamenn hætt að segja og skrifa að hús eða eitthvað annað sé til sölu. Allt er nú sett á sölu. Þetta er miður, en ekki rangt. Lifi samt fjölbreytni í stíl og frásögn.

Tillaga: Gisti­húsið Foss­hóll, sem stend­ur við bakka Skjálfandafljóts um 500 metr­um frá Goðafossi, hef­ur verið sett á sölu.

4.

„Gylfi segist undra sig á þessu enda sé heimild til viðræðna og samninga við stjórnvöld alfarið í höndum miðstjórnar samtakanna en ekki forseta þeirra.“ Úr frétt á bls. 4 í laugardagsblaði Morgunblaðsins 26. maí 2018.      

Athugasemd: Maðurinn „undrar sig“ á einhverju. Þetta er ekki íslenskt orðalag, frekar úr norðurlandamálum. Á dönsku myndi fréttin eflaust byrja á þennan hátt: Gylfi undrer seg over det …

Á íslensku „undrar“ Gylfi sig ekki en hann gæti verið hissa og jafnvel hann undrist eitthvað …

Sögnin að undra er ópersónuleg (afturbeygða fornafnið sig fylgir aldrei). Nafnorðið undur er samstofna við wonder á ensku, wunder á þýsku og afleiddar sagnir af þeim.

Tillaga: Gylfi segist undrast þetta enda sé heimild til viðræðna og samninga við stjórnvöld alfarið í höndum miðstjórnar samtakanna en ekki forseta þeirra.

5.180528 vænast

„Sjálf­boðaliðar væn­ast svim­andi reikn­ings.“ Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Hér er verið að búa til orð sem er tóm vitleysa, en þó einhvern veginn barnslega einlægt. Einhver á Mogganum hefur rekið augun í rassböguna og breytt henni því þegar smellt er á fyrirsögnin breytist hún í þetta: 

End­ur­vinnsl­an krefst einka­rétt­ar til sorp­hirðu.

Líkleg vilja margir hafa þetta einkarétt á sorphirðu. Má vera að hvort tveggja sé rétt.

Líklega hefur blaðamaður Moggans, lengi búsettur í Noregi, gæti hafað skrifað fyrirsögnina. Einhver annar breytt henni en ekki klárað leiðréttinguna að fullu því upphaflegu fyrirsögnina er að finna á nokkrum öðrum stöðum.

Hvað er annars svimandi reikningur. Lýsingarorðið svimandi gengur ekki eitt og sér í þessu tilfelli, ekki frekar en hrópandi reikningur. Í fyrra tilfellinu mætti bæta við lýsingarorðinu hár og í því seinna óréttlátur. Þá fæst botn í hvort tveggja.

Sorglegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu sem er þó að mörgu leyti skást íslenskra dagblaða. Málfræðin bögglast fyrir alltof mörgum blaðamönnum og fyrir vikið er skemmdum fréttum þröngvað upp á okkur lesendur, neytendur. Ef fréttir væru matur þyrfti að fjölga læknum á bráðavakt til að halda okkur á lífi.

Tillaga: Sjálfboðaliður búast við svimandi háum reikningi.

6.

„Gekk 125 km eyðimerk­ur­göngu í minn­ingu ar­ab­ískra kvenna.“ Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Hverjum dettur í hug að skrifa svona, að ganga göngu? Er til of mikils mælst að blaðmenn lesi yfir það sem þeir skrifa með gagnrýnum huga eða fái aðra til þess?

Mig grunar að þeir sem fá titilinn blaðamenn öðlist ekki sjálfkrafa himneskan skilning á réttu og röngu, jafnvel þó þeir haldi það sjálfir. Ofangreind fyrirsögn sannar það. Eiginlega þakkar maður fyrir að konan hafi ekki labbað eyðimerkurgönguna, eða labbað labbið.

Tillaga: Gekk 125 km um eyðimörk í minningu arabískra kvenna.


Tíu framboð sem alls ekki borgar sig að kjósa

Sautján framboðslistar hafa verið lagðir fram í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna. Helmingurinn á ekki nokkurn möguleika á að koma manni að. Þar af leiðandi er tómt rugl að kjósa þessa flokka. Þar að auki hafa fæstir á listunum látið borgarmál til sín taka.

Ég hvet fólk til að kjósa en ekki þessa flokka, með fylgja hlutfallstölur úr skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í gær:

  1. Ekki Íslensku þjóðfylkinguna, 0%
  2. Ekki Karlalistann, 0%
  3. Ekki Pírata, 10,3%
  4. Ekki Höfuðborgarlistann, 0,3%
  5. Ekki Sósíalistaflokkinn, 2,3%
  6. Ekki Borgin okkar Reykjavík, 0%
  7. Ekki Frelsisflokkinn, 0,3%
  8. Ekki Kvennahreyfingin, 1,9%
  9. Ekki Viðreisn, 6,2%
  10. Ekki Alþýðufylkinguna, 0%

Við vitum hvar við höfum þá sem bjóða sig fram á eftirfarandi listum:

  1. Sjálfstæðisflokkurinn, 26,3%
  2. Vinstri græn, 7,5%
  3. Samfylkingin, 32,1%
  4. Miðflokkurinn, 5,3%
  5. Flokkur fólksins, 3,1%
  6. Framsóknarflokkurinn, 3,6%

Enginn úr fyrri hópnum mun ná manni inn nema hugsanlega Viðreisn sem er með konu í fyrsta sæti sem aldrei hefur komið nálægt stjórnmálum og gataði eftirminnilega í viðtali í fréttum Stöðar2 í mars. Píratar fá slatta af atkvæðum en út á hvað veit enginn. Þetta eru bara krakkar sem aldrei hafa látið sig borgina nokkru skipta.

Seinni hópurinn hefur sýnt sig eftirminnilega og hefur sterkt bakland og þekkir til borgarmála og hafa unnið að borgarmálum meira eða minn.

Reynum að fá skýra og glögga niðurstöðu í borgarstjórnarkosningunum. Það gerist aðeins með því að kjósa stóru flokkana, ekki flokka sem hafa ekkert fram að færa.

 

 


Enginn efstu manna vinstri flokkanna býr í úthverfum

KortMér brá þegar ég sá meðfylgjandi kort. Það sýnir einfaldlega hvar efstu menn á listum Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata eiga heima. 

Þetta eru allt meira eða minna, og afsakið orðbragðið, miðbæjarrottur. 

Grafarvogsbúar, Breiðhyltingar, Árbæingar og fólk í Úlfarsárdal, ætlið þið að kjósa yfir ykkur fólk sem hefur enga hagsmuni á að sinna þessum hlutum borgarinnar?

Þrátt fyrir að nú séu fjórir flokkar í meirihlutasamstarfi í borgarstjórn virðist sami rassinn undir þeim öllum. Borgarstjórinn stjórnar þvert á flokka, hann er andlit meirihlutans.

Ekki er ekki furða þó þetta fólk geti hjólað allan ársins hring í vinnuna sína. Við sem búum í úthverfunum eigum þess ekki kost nema í undantekningartilvikum. Þeim er líka í nöp við okkur, við fyllum göturnar á morgnanna og seinni part dags og ábyggilega allt þar á milli.

sömu andlitinFormaður skipulagsnefndar vill ekki heyra á það minnst að byggðar séu mislæg gatnamót, enda er ólíklegt að hann hafi séð slík. Hann heldur því fram að það sé flökkusaga að þau geti dregið úr slysum. Hann nefnir það ekki að þau geti auðveldað umferð.

Vinstri meirihlutinn slátraði Sundaleið, akvegi yfir í Grafarvog. Fyrir að hætta við þá framkvæmd var samið við ríkisvaldið að peningarnir færu í Strætó. Ekkert breyttist við það, enn nota aðeins 4% íbúa þann samgöngumáta. Langflestir aka. Og til þess að koma okkur út úr bílunum er allt gert til að tefja fyrir akandi umferð. Ekkert má gera til að greiða fyrir akstri bíla. Svona nefnist einfaldlega svindl.

Kortið gerði Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson, lögfræðingur.

Neðri myndin er af efstu mönnum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna, raðað eftir stafrófi.


Fátt segir í fjölmiðlum um Píratann sem gerðist sósíalisti

kicked-in-buttUndarleg er þögnin sem ríkir um Birgittu Jónsdóttur, stofnanda og fyrrum þingmann Pírata og fleiri flokka. Hún er komin yfir í Sósíalistaflokkinn. Ekki Samfylkinguna eða Vinstri græna, nei, í gamaldags flokk sem kennir sig við úrelta hugmyndafræði.

Ríkisútvarpið þegir. Fréttablaðið þegir. Visir.is þegir. Stundin þegir. Dv.is þegir ... nei, afsakið, lítil klausa birtist á vefsíðunni í dag, sjá hér.

Eru þetta ekki samt stórmerkilegar fréttir. Forystumaður Pírata, fyrrum formaður flokksins og andlit hans í mörg ár er hættur. Auðvitað vita þeir sem fylgst hafa með að Birgittu var ýtt út úr forystu flokksins. Hún var talin og herská, andstyggileg og leiðinleg. Hún skyggði á aðra sem vildu baða sig í kastljósi fjölmiðla þegar stunduð eru asnaspörk.

angry_ass_2547955Henni var sparkað fyrir síðustu Alþingiskosningar og hún tók því ekki þegjandi þó lítið væri um það fjallað í fjölmiðlum. Það hentaði ekki pólitískri stefnumörkum fjölmargra fjölmiðlamanna að segja frá sprungum í Pírataflokknum.

Annað var uppi þegar fréttist að stjórnmálaflokkur sem síðar fékk nafnið Viðreisn var í undirbúningi og að honum stæðu flokksbundnir Sjálfstæðismenn, nokkuð þekkt nöfn, ætlaði allt um koll að keyra í fjölmiðlum. Samfylkingarliðið og Vinstri grænir sem starfa sem blaða- eða fréttamenn þóttust nú aldeilis komast í feitt.

Ekki minkaði Þórðargleðin þegar ljóst varð að fyrrverandi formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gengu í Viðreisn. Þá gladdist fréttastofa Ríkisútvarpsins og fleiri fjölmiðlar hafa síðan átt margar gleðistundir.

Auðvitað er ekki saman að jafna Pírötum og Sjálfstæðisflokknum. Það er hins vegar stórmerkilegt að forystumaður Pírata, konan sem sagði flokkinn vera ópólitískan, hún fer í Sósíalistaflokkinn.

Þar með „faller brikkene på plass, eins og Norðmaðurinn sagði, og Íslendingurinn bætti við að þarna væri pússlið sem vantaði. Nú sést greinilega að Píratar eru ekkert annað en lið sem aðhyllist gamaldags hugmyndafræði sem vinsæl var í upphafi og fram undir miðja síðustu öld.


Þórður, of lítið og of seint

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með handarbaksvinnubrögðum sem einkennt hafa launamál einstakra starfsmanna í Hörpu. Enn ótrúlegra er að hinn mikli sómamaður, Þórður Sverrisson, skuli ekki hafa haft betri stjórn á málum, er hann þó stjórnarformaður. Hann hefði átt að vita betur en hleypa máli í þær ógöngur sem þær eru komnar í.

Við, almenningur, vitum fátt annað er að laun framkvæmdastjórans hafi verið hækkuð og svo lækkuð aftur. Stjórn Hörpu hefur haldið því fram að um hafi verið að ræða falsfrétt, launin hafi aldrei verið hækkuð.

Svo voru á þriðja tug starfsmanna látnir taka á sig launalækkun. Þórður, þú lætur ekki almenna starfsmenn taka á sig launalækkun. Þú umbunar þeim og færð meira út úr starfi fólksins.

Verst hefur þó verið að fylgjast með framkomu framkvæmdastjórans sem hefur líklega skort auðmýkt og vinalegra framkomu. Það kann ekki góðri lukku að stýra í þessu glæsilega húsi sem  á allt sitt undir meðlagi frá ríki og borg.

Og nú berast þær fréttir að stjórn Hörpu ætli að lækka laun stjórnarmanna. Svona látalæti eru gagnslaus. Þórður, þetta er of seint og skiptir ekki nokkru máli. Skaðinn er mikill og verður ekki afmáður með lækkun stjórnarlauna.

Hver sá eiginlega um almannatengslin fyrir Hörpu?


mbl.is Fallið verði frá hækkun stjórnarlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðamóttökuþjónusta, þágufallssýki og hryðjuverk gegn íslenskunni

1.

„LeBron og ljósmyndaminni hans uppskáru klapp eftir ótrúlegt svar.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: LeBron er bandarískur körfuboltamaður. Hann virðist vera minnugur mjög sem er öfundsverður hæfileiki. Maður og minni hans er þó eitt og hið sama og verður ekki í sundur skilið. Ekki frekar en hendur hans eða aðrir útlimir, nefið eða eyrun.

Einhverjir myndu nú reka upp stór augu ef sagt væri um að þeir hafi átt stórleik, körfuboltamaðurinn og fætur hans. Ekki yrði undrun lesenda minni ef því yrði bætt við að hendur hans hafi átt síðri leik.

Vonandi skilst hér að LeBron uppskar klapp eftir ótrúlegt svar sem byggðist á góðu minni hans, það lék aungvan einleik þar sem maðurinn sjálfur var fjarri.

Hvað er nú eiginlega ljósmyndaminni? Samkvæmt orðanna hljóðan er minninu líkt við ljósmynd. Sá sem í hlut á getur lýst aðstæðum eins og hann væri að horfa á ljósmynd. 

Í því tilviki sem um er rætt er greinilegt að maðurinn gat lýst atburðarás, ekki einstöku atviki. Þar með væri réttara að tala um kvikmyndaminni eða hreyfimyndaminni. Þessi orð eru þó varla til. Réttast er því að blanda ekki ljósmynd saman við minni í þessu tilviki.

Gera mætti athugasemdir við annað orðalag í fréttinni.

Tillaga: LeBron fékk klapp fyrir að muna atburðarás afar skýrt.

2.

„Elvis yfirgefur bygginguna: Það tekur hann 2-3 skipti að velta fyrir sér læsingunum áður en hann kemst út.“ 

Fyrirsögn á dv.is.    

Athugasemd: Fyrirsögn er til þess gerð að vekja athygli lesenda. Í því felst að hún þarf að vera skiljanleg, ekki er nóg að hún grípi athygli fyrir kjánaskap.

Ofangreind tilvitnun í DV er óskiljanleg og bara kjánaleg. Enski frasinn „Elvis has left the building“ er þjóðfrægur í Bandaríkjunum og víðar. Uppruni hans er á þann vega að þegar Elvis Presley lauk tónleikum var mikið klappað og reynt að fá hann til að syngja eitt eða fleiri aukalög. Var þá iðulega gripið til þessa orðalags í þeirri von að áheyrendur hættu að klappa hann upp.

Þess má líka geta að í lok vinsælla bandarískra sjónvarpsþátta var í lok hvers þáttar sagt: „Fraser has left the building.“ Þótti það sköruglega mælt enda stóð frægð þáttanna og ágæt skemmtun undir gorgeirnum.

Köttur gengur út um glugga og fákunnandi blaðamaður þýðir þessi einföldu orð á íslensku sem við það missa reisn og verður eins og sprungin blaðra á gangstétt. Fyrirsögnin hjálpar ekkert upp á fréttina enda ekki neitt í henni sem réttlætir svona hana.

Skömminni skárra hefði verið að nota það sem hér er gerð tillaga um. Það var ekki gert enda les enginn yfir það sem fréttabörnin skrifa.

Tillaga: Kötturinn Elvis lærir af sjálfsdáðum að opna glugga.

3.

„Þeim vantaði markmann …“ 

Fyrirsögn á visi.is.     

Athugasemd: Margir hafa hætt að amast við „þágufallssýkinni“ en hún er engu að síður frekar hvimleið, að minnsta kosti þeim fjölmörgu sem var kennt að skilja hana og forðast. 

Þó sumir séu farnir að þola þetta þá er það engu að síður þannig að sagnir stjórna föllum. Sögnin að vanta krefst þess að fá þolfall, um það er ekki deilt.

Tillaga: Þá vantaði markmann …

4.

„Í morg­un voru 29 sjúk­ling­ar sem höfðu lokið bráðamóttökuþjón­ustu og voru að bíða eft­ir inn­lögn­um á legu­deild­ir.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Þetta er haft eftir lækni á bráðamóttöku Landsspítalans í Fossvogi. Hvað skyldi hið langa, margsamsetta og ljóta orð bráðamóttökuþjónusta þýða? Lykilorðið er hér þjónusta. 

Hingað til hefur sá sem veitir þjónustu verið veitandinn, bókstaflega. Þjónn á veitingahúsi þjónar til borðs. Afgreiðslumaður í verslun veitir neytandanum ákveðna þjónustu. Sama á við strætóbílstjóra og jafnvel lögreglumann sem hér áður fyrr var iðulega nefndur lögregluþjónn en það starfsheiti virðist vera að tapast úr málinu. Jafnvel lækir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliðar þjóna. Þegar þessir hætta í vinnunni má segja að þeir hafi lokið þjónustu.

Í nútímamáli er sá neytandi sem tekur við þjónustunni. Hann getur verið gestur á veitingahúsi, kaupandi í verslun, farþegi í strætó og almennur borgari sem lögreglumaður leiðbeinir. Á stofnanamáli má kalla þetta fólk þjónustuþega, en það er ákaflega ljótt og ógeðfellt orð og varla upp á það bjóðandi.

Sá sem þetta ritar finnst alveg ómögulegt og illskiljanlegt að að sjúklingar hafi „lokið bráðamóttökuþjónustu“. Þetta fólk þjónaði ekki neinum, það var til meðferðar. Af vinsemd má skilja orðið sem svo að sjúklingar hafi fengið bráðamóttökuþjónustu. Drögum þar línuna en ekki að þetta fólk hafi lokið þessari þjónustu. Það gengur engan veginn upp. 

Niðurstaðan er því sú að lykillinn til skilnings er sagnorðið sem við notum með stofnanaorðinu „bráðamóttökuþjónusta“, sögnin að fá í stað þess að ljúka. 

Tillaga hér að neðan er miklu skárri en tungutakið sem Landspítalafólkið hefur tileinkað sér og blaðamenn apa eftir með óttablandinni virðingu fyrir þeim fyrrnefndu. Læknir lýkur þjónustu en sjúklingur hefur fengið hana.

Mikið er ofnotkun nafnháttar leiðinleg. Voru að bíða í stað þess að segja og skrifa biðu.

Innlögn er meðal annars hafgola. Ég held að þegar heimamenn í Húnaþingi tala um innlögn þá eigi þeir við þokuna sem berst inn með norðan eða norðaustan golu.

Tillaga: Í morgun höfðu tuttugu og níu sjúklingar fengið bráðaþjónustu og biðu eftir að komast að á legudeildum.

5.

„Texasranch á KFC einn sá krispasti sem sögur fara af.“ 

Úr auglýsing frá Texasborgurum á Skjánum.

Athugasemd: Þegar Bjarni Thorarensen, skáld, frétti af dauða Baldvins Einarssonar orti hann þessa harmstöku sem er víðkunn og stórkostlega myndræn:

Ísalands 
óhamingju
verður allt að vopni;
eldur úr iðrum þess,
ár úr fjöllum
breiðum byggðum eyða.

Bjarni mátti ekki mæla fyrir harmi. Víst er að óhamingja Íslands verður ekki minni þegar óprúttnir auglýsingasölumenn fara með tungumálið eins og tilvitnunin bendir til. Þeir og þykjast klárir í „ungmæl´ensku“. Þeir sem þetta gera eru hryðjuveramenn, leitast við að skemma íslenskuna og þeim er sama um glæsileika hennar, fjölbreytileika og fegurð.

Og ekki aðeins við hönnuði auglýsingarinnar að sakast heldur bera stjórnendur KFC á Íslandi mesta ábyrgð á að svona bulli sé dreift yfir breiðar byggðir landsins. Skömm sé þessu liði.

Tillaga: Texsasranch á KFC, einn sá stökkasti sem sögur fara af.


Lifi góða fólkið

Af gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég mun ekki syngja, dansa eða leika á hljóðfæri í Eurovision í Ísrael. Ekki heldur mun ég leggja til tónverk í forkeppnina á Íslandi. Þar að auki mun ég staðfastlega neita að vera áhorfandi að kepninni sjálfri í Jérúsalem eða í sjónvarpi.

Mér leiðist Eurovision, finnst hún einkar tilgerðarleg.

Og fyrst ég er byrjaður þá er eins gott að taka það fram að ég mun ekki leika með landsliðinu í HM í Rússlandi og ætla ekki að fara á leiki íslenska landsliðsins né annarra liða. Viðurkenni þó að ég mun hugsanlega horfa á einhverja leiki með öðru auganu - alls ekki meir.

Mér leiðist ekki fótbolti en Pútín er mér ekki að skapi.

Að lokum vil koma því á framfæri að þó ég muni fara til Bandaríkjanna á þessu ári má síst af öllu túlka það sem stuðning við stefnu Trump, hvorki í innanríkismálum né utan.

Mér leiðist Trump.

Og fyrst ég er byrjaður á þessu þá ber þess að geta að ég fer til Berlínar í næsta mánuði en þrátt fyrir það hef ég ekki breytt um skoðun á ESB, er á móti því að Ísland gangi inn í sambandið.

Mér leiðist ESB en hef ég ekkert á móti Evrópubúum.

Vinstri maður sem ég þekki doldið segir tvennt fara gríðarlega mikið í taugarnir á sér. Annars vegar eru það kynþáttafordómar og hins vegar svart fólk.

Lifi fjölbreytileikinn og góða fólkið.

 


mbl.is Daði ekki til í að keppa í Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásir framdar, kýrskýr þágufallssýki og valkostur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Kýrskýr merkir heimskur

Með nokkurri örvæntingu horfir maður upp á það að þeim fjölgar sem halda að „kýrskýrt“ sé samheiti við augljóst, dagljóst, auðsætt og fleira slíkt: 

„Þetta ætti nú að vera hverjum manni kýrskýrt.“ Segði nokkur maður „kýrljóst“? Lýsingarorðið kýrskýr hefur fram að þessu þýtt heimskur og verið háðsyrði. 

„Málið“ á bls. 28 í Morgunblaðinu 8.maí 2018.

 

1.

„Okkur hjónin langar að þakka einkar ánægjulega stund í Grensáskirkju á dögunum.“ 

Úr grein í Morgunblaðinu 7. maí 2018 eftir Helga Seljan.      

Athugasemd: Nokkrir hafa spurt mig um þessa tilvitnun, vilja vita hvort rétt sé orðað. Á að segja okkur hjónin langar eða okkur hjónum langar. Ég var hreinlega ekki viss. Leitaði álits Gúgúls en hann hefur sjaldan rétt fyrir sér, fer eftir vilja meirihlutans.

Þá greið ég til þess ráðs, sem ég geri stundum, að senda fyrirspurn til íslenskrar málnefndar. Fékk samdægurs skilmerkilegt svar frá Jóhannesi B. Sigtryggssyni, rannsóknarlektor. Hann segir:

Það er mælt með því að nota þolfall en ekki þágufall með sögninni langa og það er einnig í samræmi við hefð. Ég myndi því mæla með því að segja Okkur hjónin langar til að þakka.

Auðvitað er þetta rétt, liggur í augum uppi. „Þágufallssýkin“ læðist að manni en greinilegt er að heiðursmaðurinn Helgi Seljan er ekki smitaður af henni. Mér þykir hins vegar rétt að geta þessa hérna sérstaklega vegna svarsins frá Jóhannesi. Engin tillaga er því gerð, orðalagið er hafið yfir allan vafa.

Tillaga: Okkur hjónin langar að þakka einkar ánægjulega stund í Grensáskirkju á dögunum.

2.

„Víkverji var á ferð í höfuðstað Norðurlands fyrir skemmstu og snæddi pítsu á tveimur vinsælum veitingastöðum þar.“ 

„Víkverji“ á bls. 29 í Morgunblaðinu 8.maí 2018.      

Athugasemd: „Víkverji“ er dálkur í Mogganum og skiptast blaðamenn á því að skrifa hann. Oft er hann fróðlegur og skemmtilegur og ekki síður þann dag sem nefndur er hér að ofan. Hins vegar vakti það furðu að Víkverji skuli hafa verið í „höfuðstað“ Norðurlands en svo kemur í ljós að hann var ekki á Skagaströnd. Ekki heldur á Hvammstanga. Víkverji var langt frá Húsavík og enn lengra frá Kópaskeri. Hann var aldeilis hvergi annars staðar en á Akureyri.

Bíðið nú við, hér veltir maður því fyrir sér hvenær Akureyri hafi orðið að höfuðstað Norðurlands og hvaða réttindi og skyldur fylgi nafnbótinni.

Sannast sagna er þetta bara bull enda enginn fótur fyrir þessu frekar en að segja að Akureyri sé fallegasti bær á Íslandi. Raunar er leitun að fallegra bæjarfélagi á landinu. Maður nokkur lét eitt sinn hafa eftir sér þessi andstyggilegu orð: 

Ekkert jafnast á við að koma til Akureyrar nema ef til vill að fara þaðan.

Veiti ekki hvort er ósmekklegra, að tala eins og þessi ónefndi maður eða hafa þetta eftir honum (hér væri viðeigandi að setja brosmerki til að forðast misskilning).

Tillaga: Víkverji var á ferð í langfallegasta, stórkostlegasta, yndislegasta og besta höfuðstað Norðurlands fyrir skemmstu og snæddi pítsu á tveimur vinsælum veitingastöðum þar.

3.

„… einn þeirra sem þróuðu Microsoft Translator, segir forritið hafa sýnt sig vera öflugt tæki til að varðveita tungumál og mun það aðstoða við að varðveita íslenska tungu í tækniheiminum.“ 

Frétt á bls. 6 í Morgunblaðinu 9. maí 2018.     

Athugasemd: Hefði blaðamaðurinn gefið sér tíma til að endurskoða þennan texta hefði það verið til bóta. Hér er átt við stíl, ekki málfræði.

Ekki gengur að tala um forritið eins og reynslumikinn mann. „Sýnt sig vera“ er orðasamband sem gengur illa. Í stað þess kann að vera að forritið hafi reynst vera öflugt tæki.

Forritið mun ekki „aðstoða“ einn eða neinn. Í því felst að það sé með eigin hugsun sem er ekki. Hins vegar er hægt að nota það til góðra verka eða hafa stoð af því.

Forritið á ekki að varðveita íslenska tungu, geyma hana, heldur er hægt að nýta það á ákveðinn hátt. Vonandi gagnast forritið til að styrkja íslensku.

Tillaga: … einn þeirra sem þróuðu Microsoft Translator, segir forritið hafi reynst öflugt tæki til málnotkunar og mun það hjálpa til að íslensk tunga sé notuð í tækniheiminum.

4.

„RÚV valdi milli slæmra valkosta.“ 

Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 12. maí 2018.     

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er ekki bjóðandi. „Valkostur“ er orðskrípi, samsetningur tveggja orða sem þýða nokkurn veginn hið saman þó blæbrigðamunur sé á þeim. Á norsku er til nafnorðið „beslutningstaking“, má vera að skrípið sé ættað þaðan. Ekki er allt best sem kemur frá útlöndum. Á ensku er til orðið „option“. Hins vegar ekki til orðið „optiontaking“.

Blaðamaður Moggans átti því val um nokkra kosti sem liggja í augum uppi í stað þess að velja skrípið. Kostur er prýðilegt orð, getur merkt möguleiki eða eitthvað til að velja um. Val er meðal annars notað þegar hægt er að velja, að eiga val, til dæmis að kjósa einhvern af sextán framboðum til borgarstjórnar. 

Sem sagt Ríkisútvarpið átti tveggja kosta völ eða gat valið milli tveggja eða fleiri kosta. Algjör ofrausn er að bjóða því að velja á milli „valkosta“. 

Hægt er að búa til önnur orðskrípi til að sýna þetta í réttu ljósi. Til dæmis kanna að vera hægt að stökkva á tveimur stöðum yfir læk, enginn myndi þó tala um hoppustökk. Hopp og stökk eru svipuð orð en á þeim er blæbrigðamunur. Á sama hátt myndi enginn taka upp skrípið „ræðutal“, „aksturskeyrsla“, „vatnsvökvi“ eða „ökubíll“ svo nokkur frumsamin bullorð séu kreist upp.

Í Noregi nefnast kosningar „valg“ sem þýðir einfaldlega „val“. Þar, rétt eins og hér, er valið á milli stjórnmálaflokka í kosningum. Auðvitað gætum við tekið upp orðið sveitastjórnarval, Alþingisval eða valstaður (kjörstaður). Orðin hljóma nú samt dálítið skringilega.

Tillaga: RÚV hafði um slæma kosti að velja.

5.

„Fjórar líkamsárásir voru framdar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Hvort er nú verra, skrif lögreglunnar um atburði næturinnar eða endursögn fjölmiðils um sama efni? Blaðamaðurinn étur líklega hér upp eftir löggunni en hefur ekki vit eða getu að færa til betra horfs. Það er svo efni í langan pistil að ræða máttleysi Lögreglunnar í skriflegum tilkynningum.

Aldrei er tekið svo til orða í fjölmiðlum eftir áramót: Fjórum börnum var fætt á nýársdag. Né heldur er sagt: Fjórir ölvunarakstrar framdir á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Blaðamaðurinn þarf að hugsa, velta því fyrir sér hvað hann er að skrifa og hvernig hann geti komið því frá sér á skiljanlegan og málfræðilega réttan hátt. Það gerir hann ekki. Annars hefði hann látið þess getið að ráðist hafi verið á fjóra menn. Þeir voru blessunarlega ekki framdir líkamsárásum.

Síðar í fréttinni segir:

Ökumaðurinn reyndist vera allsgáður en að sögn lögreglu verður hann kærður fyrir nokkur brot og þar á meðal að setja líf manneskju í óljósan háska. Farþegi í bílnum þurfti meðal annars á sálrænni aðstoð að halda frá lögreglu vegna háttalags bílstjórans.

Hér er getið um eina manneskju og einn farþega, það er tvo menn (karl eða konu) sem kallaðir eru ólíkum nöfnum. ýmislegt bendir til að um farþeginn hafi verið einn og til skemmtunar eða tilbreytingar líka nefndur manneskja. Þó getur verið að manneskjan hafi verið gangandi vegfarandi sem þó er ekki sagt nánar frá.

Hvað er nú „óljós háski“ sem frá er sagt í tilvitnuninni. Hafi ökumaðurinn eki gáleysislega er háskinn öllum ljós. Hafi hann hins vegar haft tímasprengju falda í bílnum mætti segja að háskinn hafi verið óljós því enginn vissi hvenær sprengjan átti að springa né hvort hún hafi verið viðkvæm fyrir hristingi.

Líklega hefur blaðamaðurinn ekki lesið textann sinn yfir á gagnrýnan hátt eða að sjálfumgleðin sé slík að hann sér ekkert athugunarvert í skrifum sínum. Verst væri þó ef hann kann ekki betur til verka.

Tillaga: Ráðist var á fjóra menn í nótt á höfuðborgarsvæðinu.


Reynt að breyta merkingu orða og hrikaleg nástaða

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Diego Si­meo­ne, knatt­spyrn­u­stjóri Atlético Madrid, verður í stúk­unni þegar læri­svein­ar hans mæta Marseille í úr­slita­leik Evr­ópu­deild­ar­inn­ar.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Þeir gefast ekki upp á Mogganum. Þeir reyna að breyta merkingu orða. Fótboltamenn í spænsku liði sem fá fúlgur fjár fyrir að sparka bolta eru kallaðir lærisveinar þjálfarans, stjórans.

Þetta er svo vitlaust sem mest má vera og ber annað hvort vott um vanþekkingu blaðamanns eða hann er synir viljandi lesendum ókurteisi, nema hvort tveggja sé.

Lærisveinn eru sá nefndur sem er nemandi, er í læri. Varla eru blaðamenn lærisveinar ritstjóra Moggans, né heldur eru þingmenn lærisveinar forseta Alþingis, hvað þá að sá sem er afgreiðir í verslun sé lærisveinn verslunarstjórans. 

Útilokað er að gera athugasemdir við málfar hjá íþróttablaðamönnum Moggans. Ég reyndi það þó fyrir um ári og fékk þessi skilaboð frá einu fréttabarninu:

Ég get ekki lofað þér að notkun þessa orðs [lærisveinn] verður hætt á íþróttadeildinni, þar sem þetta er mjög algengt orðatiltæki, hjá okkur rétt eins og öðrum miðlum. Þó að  bein þýðing á orðinu lærisveinn sé nemandi eða lærlingur, þá fá orð oft nýja þýðingu í hinum ýmsu greinum. Segja má að noktun orðsins lærisveinn á þennan máta sé svokallað íþróttamál.

Sem sagt, blaðamenn taka sér bessaleyfi og búa til „íþróttamál“. Sá sem ritaði svarið getur í þokkabót ekki svarað fyrirspurn villulaust. 

Tillaga: Diego Si­meo­ne, knatt­spyrn­u­stjóri Atlético Madrid, verður í stúk­unni þegar leikmenn hans mæta Marseille í úr­slita­leik Evr­ópu­deild­ar­inn­ar.

2.

„Manchester United tapaði 1:0-gegn nýliðum Bright­on í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu í gær og náði þar með býsna óæski­legu af­reki.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Hvað er eiginlega „óæskilegt afrek“? Afrek getur seint verið óæskilegt, það liggur í augum uppi. Fótboltalið sem tapar vinnur ekki afrek, það … tapar, einfaldara er það ekki. ekkert afrek felst í tapi.

Íþróttablaðamenn Moggans reyna hvað þeir geta að skreyta skrif sín en þeim ferst það mörgum afar óhönduglega. Sá er í vanda sem ekki ber skynbragð á stíl, hefur ekki nægan orðaforða til að tjá sig svo vel sé og kann ekki skil á algengnum orðasamböndum. Skrifi slíkur fréttir verða meiri líkur en ella á skemmdum fréttum.

Verst er þó að enginn les yfir fréttirnar og því fer sem fer. Því miður er þetta ekki bundið við Morgunblaðið, aðrir fjölmiðlar eru jafn slæmir, sumir enn margfalt verri.

Tillaga: Manchester United tapaði 0:1 gegn nýliðum Bright­on í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu í gær og setti um leið óæskilegt met í sögu félagsins.

3.

„Auk Hall­gríms sam­an­stóð hóp­ur­inn af Birgi Valdi­mars­syni, Guðjóni …“ 

Úr frétt á mbl.is.      æla

Athugasemd: Hér er illa skrifað. Blaðamaðurinn hefði einfaldlega getað slepp þessu sagnorðaómynd samanstendur og notað einfaldlega sögnina að vera. Einfaldara og snyrtilegra. 

Annars líður fróðleg grein fyrir ótrúlegar nástöður: Fjallið … fjallið … fjall. Kastaði upp … kastaði upp … ældi … ældi … ældi. Topp … toppinn, toppnum … toppnum … toppnum … toppinn.

Vanir blaðamenn láta ekki grípa sig á stagli.

Leiðangursmenn gengu upp á fjallaskíðum en ekkert er hins vegar sagt frá aðstæðum, skíðaleiðum eða skíðafæri, hvorki upp né heldur niður. Sem sagt, gölluð grein og ekki eins fróðleg og fyrr var sagt.

Tillaga: Auk Hall­gríms voru í hópnum Birgir Valdi­mars­son, Guðjón …

4.

„Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að eldurinn hafi komið upp á afmörkuðu svæði og starfsmenn fangelsins hafi þegar slökkt eldinn. Hlutverk slökkviliðsmanna sé að reykræsta og tryggja að eldurinn kvikni ekki aftur.“ 

Úr frétt á visir.is.      Eldur

Athugasemd: Svo virðist sem blaðamaðurinn sem skrifaði ofangreint hafi annað hvort ekki lesið textann sinn yfir eða beri ekkert skynbragð á staglið. Hvort tveggja er vont.

Eldurinn … eldinn … eldurinn. Oft er það kallað nástaða þegar sömu orð eða svipuð standa of þétt saman. Segja má að nálykt sé af slíku stílleysi. Í frétt um eld í húsi þarf ekki að tönglast á því að eldurinn hafi verið eldur. Hægt er að nota einfalt mál, það skilst jafnan best.

Eldurinn kom upp á afmörkuðu svæði.“ Annars staðar kemur fram að hann hafi komið upp í herbergi sem vissulega kann að vera afmarkað svæði. Af hverju var þarf að kalla herbergi afmarkað svæði, það er ekkert skýrara.

Gott er til þess að vita að slökkvilið gæti þess að eftir að eldur hafi verið slökktur að hann kvikni ekki aftur. Ef til vill er þetta kaldhæðni. Svo er nauðsynlegt að blaðamaður viti hvernig nafnorðið fangelsi fallbeygist.

Tillaga: Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að eldurinn hafi komið upp í einu herbergi og starfsmenn fangelsisins hafi þegar slökkt hann. Hlutverk slökkviliðsmanna sé að reykræsta og tryggja að ekki kvikni í af sjálfu sér.

5.

„Bónd­inn Col­in Tremain seg­ir starfs­menn sína hafa tekið eft­ir hol­unni snemma morg­uns í síðustu viku. Hann seg­ir hol­ur víða að finna á land­ar­eign sinni en þessi sé sú stærsta. Hann seg­ist ætla að girða um­hverf­is hol­una. Of mikið mál sé að fylla hana af sandi.“ 

Úr frétt á mbl.is. Hola     

Athugasemd: Svo virðist sem blaðamaðurinn Moggans sem skrifaði ofangreint hafi annað hvort ekki lesið textann sinn yfir eða beri ekkert skynbragð á staglið sitt. Hann fellur í sömu gryfju og blaðamaður Vísis í kafla 4 hér að ofan.

Í fréttinni er ekki aðeins tönglast á sama orðinu heldur er skiptir blaðamaðurinn um skoðun nokkrum sinnum. Fyrst er fyrirbrigðið hola, svo breytist hún í gil, næst verður hún að gjá og í lokin breytist hún aftur í holu. Hmmm, það er nú ekki góð blaðamennska að gleyma að kalla holuna gat eða gryfju.

Nástaðan er engu að síður algjör og af henni leggur náfnyk. Í gamla daga var manni kennt að skárra væri að halda sig við eina vitleysuna, ekki gera lítið úr sér og gera margar.

Tillaga: Col­in Tremain, bóndi, seg­ir starfs­menn sína hafa tekið eft­ir hol­unni snemma morguns í síðustu viku. Hann seg­ir margar víða á land­ar­eign sinni en þessi sé sú stærsta. Hann seg­ir hagkvæmara að girða hana af en fylla af sandi.

 

Stækka má myndirnar með því að smella á þær.

 


Uppaldir leikmenn og gat sem ekki er gat

Skemmdar fréttir í fjölmiðlum.

1.

„Eins og klámmyndastjarna segir áður en hún sefur hjá Trump: við skulum klára þetta af.“ 

Úr frétt á visir.is.     

Athugasemd: Hér ruglar blaðamaður. Veit líklega ekki betur sem auðvitað er engin afsökun. Til er orðasambandið að ljúka einhverju. Klára hefur svipaða merkingu en þó ekki alveg hina sömu og sögnin að ljúka. Samkvæmt orðabók merkir sögnin að klára að ljúka við, hreinsa og hefur svipaða merkingu og danska sögnin „klare“ og er hugsanlega komin þaðan.

Tilvitnunin er komin úr ensku og þar segir: 

Like the pornstar said when she was aobut to have sex with Trump, lets get it over with.

Lets get it over with“ og blaðamaðurinn segir í þýðingu sinni: „Við skulum klára þetta af.“ Ekki góð þýðing á annars smellnum inngangi blaðakonu í kvöldverði fréttamanna í Hvíta húsinu. Svona er nú auðvelt að eyðileggja góðan brandara.

Tillaga: Eins og klámmyndastjarnan sagði áður en hún hafði mök við Trump, drífum þetta af.

2.

„Þetta var bara ann­ar leik­ur fyr­ir mig en ég er þakk­lát­ur fyr­ir þenn­an vott af virðingu og vináttu frá Manchester United, ég naut þess.“ 

Úr frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Þetta skilst ekki: „Þetta var bara annar leikur fyrir mig …“ sagði Arené Wengir í endursögn blaðamanns Moggans. Ég gat því miður ekki fundið þessum orðum stað á Sky fréttastöðinni, þó hún sé tilgreind sem heimild í fréttinni.

Vottur af virðingu merkir eiginlega ekki mikil virðing. Ólíklegt að Það fræga félag Manchester United hafi dregið eitthvað úr virðingu fyrir þjálfara erkióvinarins. Þó er til nafnorðið virðingarvottur. Skyldi það vera merki um virðingarvott þegar forsetinn nælir fálkaorðuna í einhvern? Er það virðingarvottur þegar einhver vinkar til frægs leikara? Svona má spyrja en svörin velta án efa á máltilfinningu hvers og eins.

Dálítið annar og betri bragur var af sömu frétt á vísir.is en hún birtist löngu eftir að gerð var tillagan hér fyrir neðan:

„Þetta var æðislegt. Þetta er bara eins og hver annar leikur fyrir mig en ég er mjög þakklátur fyrir þessa gestrisni. Þetta var mjög flott og vel gert af þeim,” sagði Wenger mjög þakklátur.

Betra og innihaldsríkara hjá Vísismönnum (og hér).

Tillaga: Þetta var bara eins og hver ann­ar leik­ur fyr­ir mig en ég er þakk­lát­ur fyr­ir þenn­an vott af virðingu og vináttu frá Manchester United, ég naut þess.

3.

„Haukar unnu 74:70-sigur á Val í oddaleik - Margir ungir og uppaldir leikmenn.“ 

Undirfyrirsögn á bls. 2 í Íþróttablaði Moggans 1. maí 2018. 

Athugasemd: Seinnihlutinn í tilvitnuninni hér að ofan er frekar brosleg, „uppaldir leikmenn“. Hver er ekki upalinn? Líklega á blaðamaðurinn við að í liðinu hafi verið margir leikmenn sem hafa verið þar frá barnæsku. Þegar talað er um marga hlýtur að vera átt við fleiri en tvo. Fréttin segir þó aðeins frá tveimur leikmönnum sem hafa verið alla sína tíð í Haukum.

Íþróttablaðamenn Moggans eru þekktir fyrir að reyna að breyta hefðbundinni merkingu orða. Þeir hika til dæmis ekki við að kalla leikmenn lærisveina þjálfara í fótbolta- og knattspyrnuliðum sem auðvitað er alrangt. Þjálfari er ekki kennari heldur stjórnandi, leikmenn eru ekki nemendur heldur lúta stjórn og aga þjálfara.

Orðalagið „uppaldir leikmenn“ er merkingarlaust vegna þess að allir hafa verið aldir upp. Sé ástæða til að nefna það að leikmennn liðisins hafi notið uppeldis í körfubolta hjá Haukum ber að segja það með skýrari hætt. 

Betra er að sleppa rugli heldur en að reyna að troða einhverju inn í alltof þröngt pláss.

Síðar í fréttinni segir: 

Hún [stúlka] er einmitt púsluspilið sem vantaði til að klára Íslandsmeistaramyndina.

Þessi málsgrein er tómt rugl. Án ef ætlaði blaðamaðurinn að búa til myndræna lýsingu er klúðrar henni algjörlega. Fleira er aðfinnsluvert í fréttinni. Reglan er þessi: Ekki búa til myndlýsingar sem ganga ekki upp og alls ekki bulla með þær.

Annars staðar í þessu Íþróttablaði Moggans segir:

Fylkir og Fjölnir tefldu fram flestum uppöldum leikmönnum í fyrstu umferð Pepsi-deildar …

Fréttina skrifar einn af reyndustu íþróttablaðamönnum Moggans og sem er hreinlega furðulegt. Raunar er „uppalinn leikmaður“ einnig kallaður heimamaður í fréttinni og það er miklu skárra.

Hér á vel við gefa eitt gott ráð: Ef ekki er hægt, svo vel sé, að skrifa hugsun í stuttu máli þarf einfaldlega að fjölga orðum. Dæmi: Uppalinn leikmaður. Betri kostur: Leikmaður sem alinn hefur verið upp í félaginu eða leikmaður sem aldrei hefur verið í öðrum félögum.

Tillaga: Haukar unnu 74:70-sigur á Val í oddaleik - Margir leikmenn verið alla tíð í félaginu.

 

4.

„Í Frakklandi er að finna mesta fjölda gyðinga í Evrópu en þeir eru rúmlega hálf milljón manna.“ 

Úr frétt á bls. 38 í Morgunblaðinu 3. maí 2018. 

Athugasemd: Frekar klúðursleg málsgrein og stingur þar af leiðandi í augu. Jafnvel þaulreyndir blaðamenn þurfa að vera gagnrýnir á eigin texta. 

Í flýtinum er auðvelt rugla með því að segja „er að finna“ í stað þess að nota einfaldlega sögnina vera.

Það liggur í augum uppi að betur fer á því að segja flestir í stað „mestur fjöldi“. Gyðingar eru flestir,  óþarft er að klykkja út með að þeir sem „hálf milljón manna“. Þeir eru menn og talan ein nægir.

Mjög auðvelt er að koma hugsuninni fyrir í styttra máli eins og dæmi eru um hér fyrir neðan.

Tillaga: Hálf milljón gyðinga búa í Frakklandi, hvergi í Evrópu eru þeir fleiri.

5.

„Gerði risa gat á torf­vegg og ók burt.“ 

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Hver er munurinn á gati og skarði? Í ofangreindri fyrirsögn er talað um torfvegg sem í raun er garður, byggður með grjóti og torfi. Garðurinn er við bílastæðið við Glaumbæ í Skagafirði. Veggur er ekki rangt orð í þessu sambandi. Hægt er að nota hvort tveggja, veltur á smekk.

Aðalatriðið er að ungi blaðamaðurinn áttar sig ekki á því að skarð kom í garðinn eftir að ekið var á hann. Gat er annars eðlis, varla þörf að að rökstyðja það nánar.

Einnig segir í fréttinni:

Þar kem­ur fram að hóp­ferðabíl­stjór­ar séu líka klauf­ar en bíl­stjóri keyrði á vegg­inn, skildi eft­ir risa gat og ók burt.

Legg það fyrir lesendur að meta hvort ekki hefði verið hægt að orða þetta  betur. Mér finnst þetta klúðurslegt eins og annað í fréttinni.

Tillaga: Braut skarð í torfvegg og ók á brott.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband