Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
Ónógt hlutafé, áætlunum ekki fylgt og salan bregst eða hvað?
30.4.2014 | 17:41
Þegar fyrirtæki er stofnað þykir tilhlýðilegt að gera áætlun um rekstur og að auki tryggja fjármögnun þess. Vanir menn gera sumsé rekstrar- og efnahagsáætlun. Því ítarlegri sem hún er því betur gengur fyrirtækið.
Vissulega kunna áætlanir að bregðast. Oftast er má um að kenna mannlegum mistökum í áætlun, stundum er ekki farið eftir fyrirframgerðri áætlun, freistingar koma upp, fleiri tæki eru keypt, meiru er eytt í fínerí en minna lagt upp úr því sem öll fyrirtæki lifa á ... sölustarfinu.
Bjartsýnir menn stofna fyrirtæki með flottu nafni. Konunglega kvikmyndafélagið er dálítið gassaleg nafngift en ekki er víst að reksturinn hafi verið slæmur.
Tvennt vekur þá athygli í frétt mbl.is um hið Konunglega. Hið fyrra er að reksturinn skuli vera kominn í óefni eftir aðeins tveggja mánaða starfsemi. Hið seinna er að fyrirhuguð hafi verið hlutafjáraukning síðar á árinu og það til viðbótar þeirri sem fór fram á rétt rúmu ári áður en fyrirtækið tók til starfa.
Þetta bendir til eftirfarandi:
- Fyrri hlutafjársöfnun hafi verið ónóg og rekstur tveggja mánaða hafi hreinlega étið hana upp.
- Tekjur fyrirtækisins hafi reynst miklu minni en ráð var fyrir gert, það er auglýsingasalan hafi mistekist og þess vegna gekk á eigið fé, t.d. launagreiðslur.
- Útgjöld fyrirtækisins hafi farið úr böndunum, t.d. að rekstrarfé hafi verið notað til tækjakaupa sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum eða of margt starfsfólk ráðið o.s.frv.
Oft reddast þetta allt saman en ekki er mikið á það treystandi, betra er að undirbúa rekstur vel, fjármagna hann eðlilega, sinna umfram öllu sölunni og ... fylgja vel gerðum rekstraráætlunum.
Viljum ekki skuldsetja félagið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landeigendafélag Geysis fer ekki með rétt mál
25.4.2014 | 14:52
Innheimta ríkisins á aðgangseyri fyrir Silfru og í Vatnshelli er allt annars eðlis en heftur aðgangur að Geysissvæðinu. Landeigendafélagið fer offari í réttlætingu sinni á aðgerðum sínum til að leggja gjöld á sjón fólks.
Engum er bannaður aðgangur að Þingvallavatni. Hins vegar er útbúin aðstaða á einum tilteknum stað þar sem áhugasömum er boðin aðstaða til léttrar köfunar. Staðurinn er svo eftirsóttur að mörg fyrirtæki bjóða upp á ferðir þangað. Þar af leiðandi virðist rökréttast að stýra umferðinni á þann hátt að láta fyrirtækin greiða fyrir og koma líka í veg fyrir að þau séu þar öll á sama tíma. Engin takmörkun er til köfunar á öðrum stöðum í vatninu.
Í Vatnshelli undir Jökli hefur verið byggð upp aðstaða til að auðvelda ferðamönnum að komast inn í hellinn en það var fæstum mögulegt áður en það var gert. Stór stigi hefur verið settur upp og lýsing að hluta. Þetta er til mikillar fyrirmyndar og var allt klárað áður en innheimta hófst.
Landeigendafélagið við Geysi á ekki allt landið. Það ryðst hins vegar áfram með látum og þykist ætla að rukka fyrst, framkvæma svo. Það ætlar sér að hafa góðar tekjur af landi sínu. Hingað til hefur ekkert verið gert nema fyrir skattfé við Geysi.
Rukkun aðgangseyris fyrir að horfa á Geysi, Strokk og aðra hveri er ekkert annað en gjaldheimta á sjón, glápgjald, sem á engan rétt á sér. Næst verður okkur landlausum bannað að horfa að Esjuna og önnur fjöll nema gegn greiðslu.
Benda á tvískinnungshátt ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ó-skapnaður hinna talandi stétta og annarra
22.4.2014 | 09:24
Mælikvarði á mikilvægi atvinnugreina er arðsemi. Arðsemi í skapandi greinum er hinsvegar ámóta fágæti og skatttekjur hins opinbera af ferðaþjónustu. Hinar talandi stéttir þessa lands ættu að hafa hugfast að skapandi greinar leggja þannig afskaplega lítið til hagvaxtar en það er hagvöxtur sem greiðir reikningana fyrir hinar skapandi greinar.
Samkvæmt sönnunarfærslu hinna talandi og skapandi stétta margfaldast hver króna fimmfalt sem tekin er frá ó-skapandi greinum og sett í þær skapandi.
Löngu fyrir daga latte-kaffisins voru lögmál hinna talandi stétta prófuð þegar framsýnir sveitarstjórnarmenn Raufarhafnar seldu bæjarútgerðina Jökul sem var líklega ámóta óskapandi þá eins og sjávarútvegurinn er í dag. Um var að ræða samtals 6.000 þorskígildistonn og 528 milljónir kr., upphæð sem í dag myndi gera hvert mannsbarn í bænum um 6 milljónum kr. ríkara á núvirði. Raufarhafnarbúar bíða hinsvegar enn eftir hinu skapandi ríkidæmi. Hagnaðinum af sölunni var þó ráðstafað í eina vitið eins og bæjarstjórinn orðaði fjárfestinguna í de-CODE, Netverki o.fl.
Einn ötulasti talsmaður ríkisafskipta af atvinnulífi landsmanna er Ragnheiður Elín Árnadóttir sem nýverið fékk frumvarp samþykkt í ríkisstjórn um svokallaðar ívilnanir til þeirra sem vilja stofna fyrirtæki og þá sér í lagi úti á landi. Ástæður þess að færri stofna fyrirtæki úti á landi en annars staðar eru margvíslegar en allar hagrænar. Ástæður eins og fjarlægð frá markaði, skortur á fjölbreyttu en hæfu, jafnvel menntuðu starfsfólki, fjarlægð frá alþjóðaflugvelli, höfn o.s.frv. vega þungt. Til að vinna upp slíkt óhagræði ætlar núverandi ríkisstjórn að feta í fótspor þeirrar síðustu og ívilna sem er fínt orð yfir niðurgreiðslur á óhagræði. Og hverjir eiga svo að velja og hafna styrkþegum og klippa á borða við opnun nýrra fyrirtækja? Jú, það er áðurnefnd Ragnheiður Elín og embættismenn hennar.
Óvanir útlendingar sem villast í hrikalegar aðstæður
21.4.2014 | 12:26
Göngu- og skíðaferðir um hálendi og jökla landsins geta verið ákaflega skemmtilegar og ánægjulegar og skilja eftir sig góðar minningar. Stundum er gott veður en erfitt er að treysta á slíkt.
Leiðangur fatlaðs íþróttamanns frá Bretlandi varð tilefni til dálítilla vangaveltna sem ég færi hingað í þeirri von að fleiri leggi gott til mála. Tilgangurinn eru þó engan veginn bein gagnrýni eða lítilsvirðing við ferðamanninn sem um er rætt í fréttinni, til hans og félaga veit ég of lítið.
Af reynslu minni og góðra félaga minna í fjallamennsku hér á landi þurfa að minnsta kosti nokkur atriði að vera í góðu lagi. Þessi eru þau helstu:
- Göngufólk þarf að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi
- Að baki þarf að vera mikil reynsla
- Útbúnaður verður að vera góður og leiðangursfólk kunni að nota hann
- Nesti þarf að vera rétt og gert sé ráð fyrir aukadögum í tafir
- Talstöðvar- eða símasamband þarf að vera við umheiminn
Hr. Vatnajökull, við klárum þetta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1700 umferðalagabrot á móti 19 áfengislagabrotum
20.4.2014 | 12:36
Miðað við fréttaflutning mætti halda að til dæmi fíkniefnabrot, áfengislagabrot, kynferðisbrot og skjalafals væru stórkostlega algeng hér á landi. Það er hins vegar alrangt.
Sé miðað við brot á hverja tíu þúsund íbúa er fjöldi ofangreindra brota sem hér segir:
- Fíkniefni ... 41,5 brot
- Áfengislög ... 18.9 brot
- Kynferðisglæpir ... 9.9 brot
- Skjalafals ... 8,4 brot
Þessar upplýsinga má fá hjá Gagnatorgi Capacent. Þar er alveg einstakur gagnabanki sem er afar áhugaverður fyrir þá sem áhuga hafa á tölfræði.
Hvað varðar ofangreind brot þá er alveg ótrúlegt hversu sjaldgæf þau brot eru en það skilur auðvitað enginn nema við samanburð. Skoðum hann:
- Umferðalög ... 1.730,6 brot
- Hegningarlög ... 499,3 brot
- Auðgunarglæpir ... 299 brot
- Sérrefslög ... 108,3 brot
Hér verður að ítreka að þetta eru brot miðað við hverja 10.000 íbúa. Það breytir því hins vegar ekki að til að skilja eðli hverra brotategundar þarf að greina þessi brot enn frekar. Ég væri ekki hissa á því að þá kæmi í ljós hversu fáir misyndismenn standa raunverulega fyrir ofangreind. Raunar er það svo að lögreglan þekkir 90% þeirra sem hverju sinni fremja glæp. Það auðveldar ábyggilega rannsókn mála en betur má gera.
Mér sýnist nefnilega þetta allt einfaldur leikur, ef svo má taka til orða. Einstaklingur fremur glæp og næst fyrr eða síðar, meðgengur eða lagabrot sannast á hann og fangelsisdómur er felldur. A fullnustu lokinni fer þessi einstaklingur oftar en ekki út á götuna aftur og hringrásin hefst að nýju. Hversu mikið mætti nú ekki spara með því að draga út fangelsisdómum og setja þess í stað tæki á viðkomandi sem sendir merki til lögreglu um ferðir hans?
Þetta eru nú hugleiðingar sem tengjast ekki beint því sem ætlunin var að leggja áherslu á hérna.
Grundvallaratriðið er að fækka glæpum og það hefur tekist samkvæmt upplýsingum sem finna má á Gagnatorgi.
Moggafólk tekur við ábyrgðarstöðum hjá RÚV
17.4.2014 | 10:52
- Fréttastjórinn, Rakel Þorbergsdóttir var eitt sinn blaðamaður á Morgunblaðinu
- Þröstur Helgason, dagskrárstjóri rásar 1 var áður ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins
- Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps, var eitt sinn blaðamaður á Morgunblaðinu
Nýfrjálshyggja og frjálshyggja
16.4.2014 | 18:00
Hannes Hólmsteinn Gissurarson var sem oftar í útlandiu og hélt fyrirlestur um efnahagshrunið á Íslandi. Hann hélt því fram að það hefði ekkert að gera með nýfrjálshyggju eða álíka pólitískar skoðanir. Auðvitað er þetta rétt hjá honum.
Svo gerist það að Egill Helgason, dagkrárgerðarmaður og bloggari, tekur undir með Hannesi. Þetta eru slík stórkostleg undur og stórmerki að pólitískur andstæðingur taki undir sjónarmið Hannesar að ég get ekki annað en vitnað hér í pistil Egils:
Það er mikið til í því hjá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að íslenska hrunið hafi ekki stafað af nýfrjálshyggju.
Aðrar skýringar eru nærtækari.
Eins og að bankar voru einkavæddir í hendurnar á klíkubræðrum sem höfðu hvorki vit né siðvit til að reka banka með samfélagslega ábyrgum hætti, heldur notuðu þá sem miðstöðvar fyrir brask.
Eins og að ekki er hægt að byggja alþjóðlega fjármálamiðstöð á örgjaldmiðli eins og krónunni.
Og því að fölsk kjör, viðskipti og væntingar byggðust upp á alltof hátt skráðu krónugengi sem var óhugsandi að entist.
Þannig að skýringarnar eru frekar græðgi, fyrirhyggjuleysi, siðspilling, vinahygli og klíkuskapur og kannski bara hrein heimska.
Ég ekki alltaf sammála Agli en í þetta sinn er það hins vegar staðreynd. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ég hef ekki hugmynd um hvað nýfrjálshyggja en halla mér sem fyrr að frjálshyggju, ef til vill er það gamaldags frjálshyggja.
Hótanir Creditinfo og hin týnda samfélagsábyrgð
16.4.2014 | 17:42
Ekki er svo ýkja langt síðan íslenskir bankar höfðu í hótunum við stjórnvöld. Sögðust ætla úr landi vegna þess að aðstæður hér væru svo fjandsamlegar, skattar svo háir og leiðinlegt að starfa hér á landi. Áður en bankarnir hleyptu heimdraganum fóru þeir á hausinn með hrikalegum afleiðingum fyrir þjóðina.
Enn eru uppi samtök meðal hin sjálfhverfa hluta atvinnulífsins um að þvinga stjórnvöld til að ganga í ESB og því er hótað að fyrirtækin fari úr landi nema látið sé undan kröfum þeirra.
Auðvitað gengur þetta ekki. Þó stjórnvöld eigi að hlusta á atvinnulífið eru takmörk fyrir öllu. Stjórnvöld eiga hins vegar ekki að láta undan þvingunum. Geri þau það vaknar spurning um lýðræðið, hvort kjósendur hafi minni möguleika til að hafa áhrif með atkvæði sínu en fyrirtæki með hótunum. Þá vaknar eðlilega sú spurning hvort hótanir séu að verða algengasti tjáningarmáti almennngs og fyirtækja. Það er hins vegar önnur saga.
Svo er það hitt, að fyrirtæki sem hafa orðið til hér á landi, þróað sig, þroskast og orðið að stórum vinnuveitendum hljóta að bera samfélagsábyrgð. Ebítan skiptir ekki höfuðmáli heldur starfsfólkið og umhverfið, heildin sem gerir það að verkum að fyrirtækið þrífst hér á landi.
Ætli Creditinfo að yfirgefa landið bendir það eindregið til þess að ekkert af ofangreindu skiptir máli heldur ebítan eins og sér. Fyrirtækið er því orðið gerilsneytt allri samfélagsvitund og er þar með ekki á vetur setjandi. Og sé Creditinfo orðið svo útlenskt að það geti ekki starfað í því umhverfi sem allflest önnur fyrirtæki sætta sig við þá er best að það fari til Prag þar sem launin eru umtalsvert lægri en hér á landi, verkalýðsfélögin ekki eins herská og stjórnvöld í örláta vasa atvinnulífsins og engin þörf á þvingunum. Er það annars tilviljun að fyrirtækið ætli til Prag, ekki Óslóar, Stokkhólms, Helsinki, Kaupmannahafnar eða Þórshafnar?
Síðan væri það þjóðþrifaráð að vernda íslenska starfsemi með því að skattleggja duglega fyrirtæki flýja land en vilja engu að síður halda íslenska markaðnum. Creditinfo verður þannig að átta sig á því að það verður ekki bæði haldið og sleppt
Ástandið á Íslandi ýtir Creditinfo út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.4.2014 kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Umræðan snýst um undanþágur á undanþágur ofan
13.4.2014 | 13:10
Núverandi grundvöllur Evrópusambandsins kemur fram í Lissabonsáttmálanum og honum tengjast fleiri tilskipanir en tölu verði á komið. Það ætti því að vera af nógu að taka fyrir þá sem kjósa að boða almenningi þetta fagnaðarerindi. En á það er varla minnst, heldur snýst umræðan mest um hugsanlegar undanþágur frá lögum og reglum ESB Íslandi til handa.
Svona er umræðan um ESB í hnotskurn, að kíkja í undanþágupakkann. Hjörleifur Guttormsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, ritar góða grein í Morgunblað helgarinnar undir fyrirsögninni Hafa talsmenn aðildar ekki trú á grundvelli ESB?
Ekki er það mikil reisn í fylgismönnum aðildar að ESB að leggja alla áherslu á að Ísland gangi ekki inn í sambandið á eðlilegum forsendum eins og önnur ríki heldur á undanþágum og það er ekki einu sinni nóg heldur eru undanþágu á undanþágur ofan.
Hjörleifur nefnir tíu atriði sem fólk ætti að hafa í huga varðandi hugsanlega inngöngu í ESB:
- Að Ísland gefur sig á vald miðstýrðu og ólýðræðislegu stjórnkerfi ESB.
- Að æðsta dómsvald flyst úr landi í hendur yfirþjóðlegum dómstóli ESB.
- Að úrslitavald yfir sjávarauðlindum færist frá Íslandi til Evrópusambandsins.
- Að Evrópusambandið fær yfirráð yfir hafsvæðum utan 12 mílna að 200 mílum.
- Að samningar við þriðju aðila um fiskveiðimálefni færast til ESB.
- Að landbúnaði er stefnt í hættu með tollfrjálsum innflutningi og dýrasjúkdómum.
- Að fríverslunarsamningar Íslands við aðrar þjóðir falla úr gildi.
- Að sjálfstæð rödd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hljóðnar að mestu.
- Að stjórn gengis og peningamála flyst í hendur Seðlabanka Evrópu.
- Að vinnuréttur verður hluti af ESB-rétti og staða launafólks verður óviss.
Umsóknin um aðild að ESB fyrir nær fimm árum var mikið feigðarflan. Fyrir henni var enginn pólitískur meirihluti og þeir sem að henni stóðu gerðu sér ekki grein fyrir um hvað aðildarferlið snerist. Fyrrverandi ríkisstjórn var strand með þetta ferli þegar á árinu 2012 og því kemur það úr hörðustu átt að sömu flokkar gera nú kröfu um að haldið sé í því lífinu með einhverjum ráðum. Krafan um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum eða draga umsókn Íslands til baka á sér hvorki fordæmi né fótfestu í okkar stjórnskipan. Stjórnmálaöfl hérlendis sem áfram eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið verða að afla þeirri skoðun meirihlutafylgis í alþingiskosningum og láta þannig reyna á styrk sinn fyrir endurnýjaðri umsókn. Best fer á því að það sé gert án þess að haldið sé á lofti grillum um sérlausnir Íslandi til handa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Auðugir bissnismenn stofna til skoðanakannanaflokks
12.4.2014 | 10:10
Nýr flokkur sem er nákvæm eftirlíking annars að því undanskyldu að þeir sem að stofnun hans standa vilja ganga í Evrópusambandið. Er þetta ekki della?
Nýr flokkur sem er nákvæm eftirlíking annars fær ómælda athygli í fjölmiðlum af því að þeir tveir sem að stofnuninni standa kaupa hverja skoðanakönnunina á fætur annarri. Er þetta ekki della?
Margir halda að nú sé runnin sé upp tími hjáleigna? Benda á Samfylkinguna og Besta flokkinn. Er þetta ekki della?
Aldrei í stjórnmálasögu Íslands hefur eins málefnis klofningsframboð þrifist nema um tiltölulega skamman tíma. Flokkar sem eiga ekkert bakland fá ekki þrifist. Þannig var auðvitað um klíkuna sem myndaði Besta flokkinn. Alltof mikil vinna örfárra fer í að halda flokknum lifandi. Þess vegna sameinaðist hann Bjartri framtíð. Sá flokkur á einnig í stökustu vandræðum vegna fámennisins. Vandi hans er líka sá að forystumennirnir eru latir, þeir fylgjast ekki nægilega vel með og hafa ekki bakland til að styðja við sig. Hins vegar er talandinn í lagi og þannig má um tíma villa fólki sýn. Að öðru leyti er ekkert nýtt við Bjarta framtíð, hann er gamaldags krataflokkur sem vill sofa út á morgnana.
Svipað var um Frjálslynda flokkinn. Hann var aldrei nema örfáir áhugamenn um stjórnmál sem flestir fylgdu Sjálfstæðisflokknum að málum og nú eru þeir allir komnir heim með örfáum undantekningum. Frjálslyndi flokkurinn var einsmáls flokkur og náði aldrei flugi af því að baklandið var svo fátæklegt.
Sjálfstæðisflokkurinn er gríðarlega stór. Í honum er mikið og fjölskrúðugt bakland fólks sem vinnur að stefnu flokksins allan ársins hring. Þar er í gangi félagsstarf sem hefur mikil áhrif og á það geta forystumenn í sveitastjórnum og þingi treyst.
Það kostar meira en nokkrar skoðanakannanir að búa til flokk, jafnvel þó að honum standi auðugir bissnismenn úr Reykjavík. Þeir halda kannski að þeir geti keypt atkvæði en eiga eftir að átta sig á því að svo er ekki. Það er hins vegar afar snjallt að kaupa skoðanakannanir til að hafa áhrif á almenning. Þetta er eins og einhvers konar hringavitleysa.
Gerð er skoðanakönnun og fjölmiðlar sperra eyrun og birta niðurstöðurnar, nokkrir kjósendur láta glepjast vegna ísmeygilegra spurninga. Gerð er önnur könnun og enn fallerast fjölmiðlar og svo koll af kolli. Þetta er eins og hundur sem eltist við skottið á sér og snýst í óteljandi hringi. Út af fyrir sig má segja að slíkt athæfi sé undirbúningur stofnunar stjórnmálaflokks.
Hvernig eru þeir fallnir til að stofna lýðræðislega stjórnmálaflokk sem una ekki lýðræðislegri niðurstöðu í þeim flokki sem þeir áður tilheyrðu?
Nýr flokkur nyti 20% stuðnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |