Bloggfærslur mánaðarins, júní 2023

Orkuveitan hyggst reisa fjölda vindmylla örskammt frá Reykjavík

Orkuveitan

 

 

 

 

Orkuveita Reykjavíkur hefur áhuga á að reisa vindmyllur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Áformin vekja furðu. „Vindgarðar“ er svo óskaplega vinalegt orð og sagðar muni verða „í nágrenni Hellisheiðar“. Allt svo sætt.

Hvers vegna fer Orkuveitan með rangt mál og notar villandi orðalag um vindmyllurnar?

Hér er mynd sem Orkuveitan lét gera og hefur verið birt í fjölmiðlum og á vefsíðu fyrirtækisins. Ég hef leyft mér að merkja Hellisheiði með rauðu inn á myndina, svona í stórum dráttum. Þess má geta að Hellisheiðarvirkjun er ekki á Hellisheiði, hún er vestan undir henni. 

Á kortið hefur Orkuveitan merkt þrjá staði sem áhugi er fyrir að reisa vindmyllur og þeir eru allir fjarri Hellisheiði. Fullyrðingar um annað eru ósannindi.

Lyklafell

Orkuveitan hefur hugmyndir um að reisa vindmyllur við Lyklafell sem er skammt frá Suðurlandsvegi, til móts við Sandskeið. Fellið er um tíu km frá Hellisheiði og um ellefu km frá austustu byggð í Reykjavík. Sem sagt; miðja vegu milli byggðar í Reykjavík og Hellisheiðar.

Hvers vegna er Lyklafell sagt í nágrenni Hellisheiðar? Hið fyrsta sem manni dettur í hug er að verið sé að reyna að villa um fyrir almenningi, afvegaleiða hugsanlega umræðu.

Hvað er að því að segja að Orkuveitan vilji að reisa vindmyllur í nágrenni Reykjavíkur? Ástæðan er einföld. Fólk myndi leggjast hatrammlega gegn áformunum. Þeir hjá Orkuveitunni vita að ekki er sama hvernig málið er kynnt. Vandamálið er greinilega ekki léleg landfræðiþekking starfsmanna hennar heldur allt annað. Áróður?

Dyravegur

Fyrir bílaöld lá þjóðleið frá Elliðakoti (Helliskoti) að Lyklafelli. Þaðan voru tvær leiðir,  yfir Hellisheiði og yfir Dyrafjöll. Síðarnefnda leiðin er nefnd Dyravegur og er friðaður eins og allar fornar leiðir. Hann er merktur á Herforingjaráðskort Dana og einnig á Atlaskort Landmælinga.

Nálægt Hengli, einhvers staðar milli Nesjavallavegar og Dyravegar hefur Orkuveitan áhuga á að reisa vindmyllur. Staðurinn er fjarri Hellisheiði. Þar munar um átta til tíu km eftir því hvar borið er niður. Hann er á Mosfellsheiði en starfsmenn Orkuveitunnar reyna að fela þá staðreynd og masa um Hellisheiði.

0J2B8756_0J2B8757 NeoSandfell við Þrengsli

Sandfell er lítið fell sunnan við Þrengsli, rétt við þjóðveginn. Það hefur verið notað sem malarnámur og vont fólk hyggst nú moka því í burtu og selja til Þýskalands. Á rústunum er líklega ætlunin að reisa vindmyllur.

Sandfell er ekki í nágrenni við Hellisheiði. Tæpir átta km eru þangað í beinni loftlínu. Segja má fyrirhugaðar vindmyllur séu í nágrenni Þorlákshafnar því þangað eru tólf km. 

Vindmyllur

Líklega má segja að vindmyllur geti verið þarfaþing. Þær eru hins vegar ekki alltaf nauðsynleg viðbót við orkukerfi landsins því framleiðsla þeirra er ekki endilega í beinum tengslum við eftirspurn, hún getur verið minni eða meiri, allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Bókstaflega. 

Þær eru hins vegar hrikalega áberandi hvar sem er. Aðskotahlutir sem raska landslagi og eyðileggja tilfinningu fyrir víðernum.

Screenshot 2023-06-29 at 16.06.25Á svokölluðu Hafi fyrir ofan Búrfell standa tvær vindmyllur. Þegar armarnir eru í efstu stöðu eru þær hærri en Hallgrímskirkjuturn.

Hér fyrir ofan er ljósmynd af Þrengslum og Sandfelli (lengst til hægri). Vindmyllurnar yrðu á svipaðri hæð og fellið en þær yrðu varla tvær, líklega tíu hið minnsta.

Þeir hjá Orkuveitunni passa sig á því að nefna ekki fjölda vindmylla, það gæti skemmt fyrir þeim. Lúmskir.

 


Sagan af Lúkasi sem seldi bílinn sinn

Lúkas skildi bílinn sinn eftir á bílasölunni. Svo gekk hann heim, kyssti konu sína og börn og bjó til kvöldmatinn. Viku síðar eftir bankaði löggan upp á og vildi spjalla við hann. 

Skildir þú bílinn þinn eftir síðasta þriðjudag klukkan 17:30 á bílasölunni Stórbílasölunni? spurði löggumaðurinn.

Já, svaraði Lúkas.

Veistu að bíllinn hefur verið seldur?

Já. Ég skrifaði rafrænt undir afsalið í gær og fékk greitt fyrir hann að frádreginni þóknun bílasalans.

Sástu þegar bílasalinn sem var bæði drukkinn og dópaður í gær lamdi kaupandann?

Nei, ég fór ekki aftur á bílasöluna, skrifaði undir rafrænt. 

Þú varst sjálfur edrú og tókst sem sagt ekki þátt í barsmíðunum?

Já og nei, svaraði Lúkas.

Hvað áttu við, já og nei, spurði löggan og hvessti sig.

Þú spurðir mig tveggja spurninga og ég svaraði báðum.

Hmm, heyrðist frá lögmanninum, og hann horfði lengi á Lúkas sem leit loks undan.

Ertu alveg viss?

Viss um hvað? spurði Lúkas.

Að þú segir satt og rétt frá.

Hvað áttu eiginlega við?

Já, þetta hélt ég, sagði löggumaðurinn, sigri hrósandi. Þú þarft að mæta í skýrslutöku vegna rannsóknarinnar eftir helgi. Við hringjum í þig.

Lúkasi leið nú ekki sem best eftir þetta. Imba konan hans sagði að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, sannleikurinn kemur í ljós um síðir. Hún hafði rétt fyrir sér. Hálfu ári síðar fékk Lúkas bréf með skýrslu löggunnar um sölu bílsins og ofbeldi bílasalans sem var ákærður en ekki var minnst á Lúkas.

Kæran barst í fjölmiðla sem fundu út að Lúkas hefði átt bílinn. Á samfélagsmiðlum var fullyrt að þáttur hans í ofbeldinu hefði ekki verið rannsakaður og ábyrgð hans hljóti að vera rík.

Fjölmiðlar sátu um heimili Lúkasar í Álftamýri. Næsta morgun gekk Lalli út í nýja bílinn sinn og ætlaði í vinnuna. Fjölmiðlungar og bloggarar umkringdu hann og ráku hljóðnema sína að honum og hrópuð og kölluðu spurningar sínar. Lúkasi tókst að komast í bílinn sinn og fór í vinnuna sína. Þar las hann um sjálfan sig í fjölmiðlum.

„Það blas­ir við að þátt­ur seljanda bílsins sem und­ir­rit­ar samn­inginn og annarra ábyrgðaraðila hef­ur ekki verið rann­sakaður til hlít­ar“, sagði Hanna.

„Þótt ábyrgðin liggi hjá Stórbílasölunni, vegna brota og annmarka á söluferli bílsins, þarf engu að síður að skoða siðferðilega ábyrgð Lúkasar sem blygðunarlaust seldi bílinn sinn“, sagði Helga.

„Okkur vantar heildarmyndina. Okkur vantar gögn sem aðeins rannsóknarnefnd getur veitt, ábyrgðaraðilinn á sölunni hefur hvergi verið rannsakaður og þetta snýst ekki um persónur og leikendur. Þetta snýst um traust, gagnsæi og yfirsýn“, sagði Kristrún.

„Lúkas ber lagalega ábyrgð á framkvæmdinni og hann beri auðvitað líka siðferðilega ábyrgð á því að vel fari. Ég meina, ég myndi segja að hann falli á báðum prófum og tilraun til að halda öðru fram sé bara Íslandsmet í meðvirkni,“ sagði Þorbjörg.

Blaðamaður hringdi í Lúkas og spurði: Ætlar þú að axla ábyrgð á barsmíðum bílasalans? Hver var þáttur þinn í ofbeldinu? Heimildir herma að þú hafir séð barasmíðarnar. Lúkasi varð orða vant.

Bloggari sem ekki vill láta nafns síns getið hringdi í kaupanda bílsins og sá sagði:

Bílasalinn er ruglaður, hélt því fram að ég skuldaði honum pening, svo braut hann á mér nefið og sparkaði í afturendann á mér.

Hvað gerði Lúkas?

Hvaða Lúkas?

Seljandi bílsins.

Já hann. Hef aldrei hitt manninn.

 


mbl.is Orð Bjarna að engu orðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðing sálar

Skiln­ing­ur eða túlk­un Frans páfa er mun mannúðlegri og nú­tíma­legri. Hann tel­ur hins veg­ar að þeir sem sýna enga iðrun muni hverfa eða eyðast, þannig að eng­inn er stadd­ur í hel­víti. Sá sem er trú­laus og neit­ar að iðrast hlýt­ur að telja eyðingu betri kost en að brenna í hel­víti að ei­lífu.

Þetta segir Sigurgísli Skúlason, sálfræðingur, í afar fróðlegri og vel skrifaðri grein í Moggann 31.5.23. Í henni rekur hann viðtal Eugenio Scalfari við Frans páfa. Sá fyrrnefndi var áhrifamikill ítalskur blaðamaður og útgefandi. Þann síðarnefnda þarf ekki að kynna. Áhugavert er að velta ofangreindum orðum fyrir sér og jafnvel halda lengra í vangaveltunum.

Pælingin sem ofangreind tilvitnun vekur í huga mínum er flókin en í sjálfu sér hrífandi hugsun um líf eftir dauðann og tengingu við sannfæringu einstaklingsins í lifanda lífi sem jafnvel nær út yfir gröf og dauða eins og sagt er.

Iðrun og fyrirgefning er ein af stoðum kristinnar trúar. Samkvæmt henni þarf iðrun svo hægt sé að fyrirgefa. Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé af grundvallarástæðu að neita því að iðrast. Hvers góð eða traust sem ástæðan kann að vera er ekki hægt að veita fyrirgefningu.

Leið þess sem stendur hnarreistur fyrir æðri máttarvöldum, iðrast ekki og biðst ekki vægðar heldur segir; þetta gerði ég af því að það var rétt.

Dómarinn æðsti réttir úr sér og segir nærri ef til vill; „computer says no“. Viðhorf sem  þetta er ekki iðrun heldur þrákelni. Sál þess hnarreista er því annað hvort send beinusta leið til helvítis þar sem hún brennur að eilífu, eða henni sé einfaldlega eytt. Andinn hverfur, sporin hverfa, allt er ónýtt. Er þetta sanngjarnt?

Helvítiskenning kirkjunnar byggðist á tvennu, synd eða ekki synd. Vandinn er bara sá að lífið er ekki svart og hvítt. Ekki er hægt að meta lífsferil manns samkvæmt meðaltali, að sá sé hólpinn sem nái lágmarkseinkunn.

Ég velti þessu fyrir mér eftir að hafa lesið grein Sigurgísla.

Upp á síðkastið hef ég verið að hlusta á fróðlega og góða bók, Bærinn brennur eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Arnar Jónsson les hana á svo áhrifaríkan hátt að athygli hlustandans er sem límd við söguna, umhverfi nútímans breytist og samtíminn í upphafi 19. aldar verður til.

Bókin fjallar um morðin á Illugastöðum 1828. Aðdragandi þeirra er rakin á sagnfræðilegan hátt, einkum samkvæmt málsskjölum en getið er um sögusagnir og þær hraktar. Sagt frá þremenningunum sem voru sek fundin, fjölskyldum þeirra og fleirum. Upp úr stendur hversu lífsbaráttan var erfið á þessum árum, kjörin bág og lítið mátti út af bregða svo líf einstaklings yrði ekki að hræðilegri vesöld.

Óharðnaður unglingur, Friðrik Sigurðsson (18 ára), myrti Natan Ketilsson (36 ára) bónda með hamri. Hjá stóð Agnes Magnúsdóttir (33 ára) og Sigríður Guðmundsdóttir (16 ára). Þau sköpuðu sér hræðileg örlög sem ekki síst umhverfi þeirra bjó þeim og miskunnarlaus stjórnvöld. Takið eftir aldri þeirra. Öll voru þau dæmdi á höggstokkinn en litla stúlkan hún Sigríður var náðuð, hélt höfðinu en var send í ævilanga erfiðisvinnu í Danmörku og lauk lífi sínu sex árum síðar. Þannig var nú réttlæti þessa tíma.

Samkvæmt málsskjölum höfðu þau þrjú ætlað að stela peningum Natans sem þó var ekki eins ríkur og flestir ætluðu. Aðrar ástæður eru líka tilgreindar. Agnes á að hafa verið full heiftar út í Natan og líkur benda til að ástæðan sé kynferðisleg misnotkun.

Þá fór ég að velta fyrir mér því sem segir í upphafi þessa pistils, um orð Frans páfa sem heldur því fram að enginn sé í helvíti, þess í stað er hverfa sálir þeirra sem ekki iðrast. Þeim er líklega eytt í sorpu eftirlífsins. 

Þetta eru forngrýtis kenningar, hótun. Geri maður ekki það sem sagt er, liggja við limlestingar eða dauði. 

Sama gerðist við aftökur Friðriks og Agnesar á Þrístöpum árið 1830. Fólki í Húnvatnssýslu var þröngvað til að horfa á þær að viðlögðum refsingum. Eflaust hefur enginn náð sér eftir lífsreynsluna.

Víkjum nú í eftirlífið þar sem Agnes Magnúsdóttir stendur frammi fyrir æðsta dómi og er þar spurð hvort hún iðrist ekki gjörða sinna. Gefum okkar að hún neiti staðfastlega og bæti síðan gráu ofan á svart með því að segja að Natan hafi átt þetta skilið. Svo segir hún frá misnotkuninni og sárindunum sem hún olli og síðar reiði og heift.

Heyrðu nú góða mín, segir dómarinn, yfirlætislega. Annað hvort iðrastu eða ekki. Hér er enginn millivegur, kona góð. Þú varst óbeint völd að dauða Natans. Iðrunarlaus fær enginn fyrirgefningu. Hér áður fyrr hefðum við sent svona skálk eins og þig til eilífs bruna í helvíti. En þar er nú enginn lengur, eldarnir kulnaðir, svo við eru nauðbeygðir til að eyða sálu þinni.

Harðneskjulegur dómur kirkjunnar og ekkert ólíkur dómi veraldlegra yfirvalda sem dæmdi hana til að hálshöggvast. Á hvorugum staðnum er fyrirgefning í boði, aðeins refsingin ein.

Gæti verið að Friðrik hafi haft vit á því að iðrast í eftirlífinu og fengið fyrirgefningu stórsyndar sinnar og nú flögri sál hans í sæluvistinni í eilífri hamingju?

Þetta voru nú bara hugleiðingar yfir morgunverðarborðinu í gær með Moggann fyrir augunum.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband