Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Hvaðan er þessi mynd?

950808-24

Veit einhver hvar þessi mynd er tekin? Get með engu móti fundið út hvar ég var staddur. Hið eina sem ég veit með vissu að ég var fararstjóri í trússferð á Laugaveginum þar til 7. ágúst og þann 8. gekk ég á Heklu í fínu veðri.

Myndin er er ein af nokkrum á filmu þar sem Heklugangan mín hefst. Þar af leiðandi finnst mér líklegt að myndin sé tekin á Suðvestur eða Vesturlandi en landslagið finnst mér ekki passa þar. Þess má geta að myndin er tekin úr fjöru.

Alveg hreint ferlegt að játa sig sigraðan í þessu. Líklegast er þetta sólsetur, miðað við árstíma er það í norðvestri.

950808-26

Og hefst nú leikurinn ... Fyrir alla muni nefnið eitthvað af þessum fjöllum til staðfestingar á vissu.

1. október: Bætti hér inn annarri mynd, sem tekin er aðeins „víðari“. Kannski hún geti hresst upp á minni okkar. Á henni sést að myndatökustaðurinn er fjaran. 

Ég hef sett fimm hringi inn á neðri myndina. Held að lykilatriðið sé að finna út hvaða fjöll eru innan þeirra. 

2. október kl. 00:17:

Jæja, nú ætla ég að reyna að gera tilraun til að staðsetja myndina. Hún hlýtur að vera tekin á Reykjanesskaga, giska á Garðskaga. Getur þó verið allt frá honum austur og inn eftir flóa, jafnvel að Straumsvík.

Kort2

Á myndina hef ég sett inn örnefni eftir því sem athugasemdir herma að þær hljóti að vera. Kannski gengur þetta upp svona því þarna fyrir utan er siglingaleið og er skipið líklega á leið frá Straumsvík, ef til eftir að hafa komið með súrál. 

Línurnar á kortinu benda á fjöllin á ljósmyndinni. 

Þá er það bara ein spurning: Gengur þetta upp miðað við sólarlag í byrjun ágúst? 


Stórkosleg spenna í frábæru golfmóti

Þvílík spenna var á síðasta degi í Ryder-bikarnum sem var í beinni útsendingu hjá Skjánum. Stórkostleg skemmtun á frábærum golfvelli.

Á gærkvöldi hélt ég að öllu væri nú lokið fyrir Evrópu-liðið. Bandaríkjamenn voru miklu betri. Þó gaman hafi verið að horfa var eiginlega öll spenna dottin út úr keppninni - fannst mér. Og svo gerist það í dag að Evrópu-liðið tekur sig svo rosalega á að eiginlega áttu Bandaríkjamenn fá svör, spiluðu að vísu frábærlega en það var hreinlega ekki nóg.

Þetta endaði eiginlega allt með leik Kaymers og Stricker. Aumingja Stricker fannst mér aldrei ná sér almennilega á strik ... eða þannig. Hann var oft frekar langt frá holu, tók sér gríðarlegan tíma til að skoða og lesa í flatirnar en engu að síður fór púttið oftast í vaskinn. Hræðilegt fyrir svona góðan golfara.

Tiger var aðeins góður, ekki frábær, eins og maður bjóst við. Hrikalegt að sjá hann brenna af síðasta púttinu sínu. Hann var aðeins rúman metra frá henni. Oft hefur maður séð betra frá manninum og af lengra færi. Hann átti síðan ekki annars úrkosta en að gefa leikinn. Annars hefði orðið jafnt, en það hefði engu að síður dugað Evrópu-liðinu.

Ég var spurður að því með hvoru liðinu ég héldi. Svaraði því til að ég héldi með hvorugu. Naut þess hins vegar að horfa á gríðarlega gott golf, stórkostlega golfara og spennu sem var næstum áþreyfanlega og barst með skilum heim í stofu. Verð endilega að bæta því við að íslensku þulirnir stóðug sig með ágætum.


mbl.is Evrópa varði Ryder-bikarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harður málflutningur Bjarna Ben

Ef þeir eru ósveigjanlegir, taka ekki þátt í útboðum og eru með óraunhæf skilyrði fyrir endurfjármögnun þarf að vera þverpólitísk sátt um það á Íslandi að beita úrræðum sem duga. Það merkir að eftir tiltekinn tíma sé samningatilraunum lokið og þeir sitji eftir með harkalegan útgönguskatt vilji þeir fá kröfur sínar greiddar út í gjaldeyri.
 
Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Morgunblaðið í morgun. Hér er hann að tala um eigendur aflandskróna sem fastar eru í hagkerfinu. Þetta er harðari tónn hjá Bjarna en við eigum að venjast. Ég kann vel við hann. Honum mælist vel og ástæða er til að leggja styðja þennan málflutning vegna þess að þessi svokölluð snjóhengja er þjóðarvá.
 
Tökum síðan eftir hjalinu í fráfarandi fjármálaráðherra en hún segir tómlega í viðtali við Morgunblaðið í morgun:
 
Auðvitað eru þetta fyrstu skrefin í áætlun um að afnema gjaldeyrishöftin. Síðar þegar við verðum búin að ná meiri árangri kemur til greina útgönguskattur og svo framvegis. Menn vilja losna við höftin sem fyrst og eðlilegt að margir séu óþolinmóðir. 
 
Mætti halda að hér talaði málsvari Alþjóðgjaldeyrissjóðsins fyrir utan „Og svo framvegis“ stefnuna.

mbl.is AGS styður útgáfu skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófrægingarherferðin gegn Ríkisendurskoðun

Nú er hafin ófrægingarherferð á hendur Ríkisendurskoðun enda ljóst að stofnunin hefur gert í brók sína vegna endurskoðunar á kaupum á bókhaldskerfi. Viðbrögð fjárlaganefndar eru þó í engu samræmi við ávirðingarnar. Í raun verður henni á svo mikið glappaskot að líkja má því við að veiðimaðurinn skjóti sig í fótinn í upphafi veiðiferðar. Það veit ekki á gott. 

Hafi rofnað traust á milli Ríkisendurskoðunar og fjárlaganefndar er það undarlegt vegna þess að það þarf meira en eitt glappaskot til að löggjafarþingið lýsi frati í eigin stofnun. Öllum verður á, mismikið að vísu.

Glappaskot ríkisstjórnarinnar svo dæmi sé tekið eru orðin svo mörg að það ætti að hafa orðið til þess að milli löggjafarvalds og framkvæmdavald ríkti ekkert traust.

Og sé út í það farið ætti ekkert traust að ríkja á milli löggjafarvaldsins og þingmannsins Björns Vals Gíslasonar, svo mikil hafa glappaskot þess síðarnefnda verið. Hann var líka settur af sem þingflokksformaður Vinstri grænna til og endurunninn til að ráðast á Ríkisendurskoðun sem formaður fjárlaganefndar.

En bíðið við. Saga samsæri ríkisstjórnarinnar gegn Ríkisendurskoðun er ekki öll. Á næstu dögum eða vikum verður tekin fyrir tillaga til þingsályktunar um að stofnuð verði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á einkavæðingu bankanna. Í þeim umræðum munu koma fram mótrök þess efnis að Ríkisendurskoðun hafi fyrir mörgum árum framkvæmt slíka rannsókn og ekkert sérstakar ávirðingar fundið. Hvers vegna að rannsaka það mál aftur, mun stjórnarandstaðan spyrja?

Og hverju heldur þú, lesandi góður, að þeir sem standa að tillöguflutningnum muni svara?

Jú, þeir munu segja eftirfarandi: Það er ekkert að marka það sem Ríkisendurskoðun gerir. Sjáið bara hvernig stofnunin sinnti rannsókninni á bókhaldskerfinu. Dettur einhverjum í hug að rannsókn stofnunarinnar á einkavæðingu bankanna hafi verið eitthvað skárri?

Og þar með er leiðin greið fyrir meirihluta Alþingis. Ekki bara til að berja á þeim stjórnmálamönnum sem nú eru hættir heldur einnig til að breyta umræðugrundvellinum. Á kosningavetri mun ríkisstjórnin beita öllum þeim ráðum sem hugsast getur til að koma í veg fyrir að umræðan fjalli um ríkisstjórnina og mistök hennar.


mbl.is Treystir ekki Ríkisendurskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir þegja um örlög Gálgahrauns

120928 blogg

Morgunblaðið á hrós skilið fyrir að fjalla dag eftir dag um Gálgahraun sem komið er á eyðingarlista Vegagerðarinnar og Garðabæjar. Mogginn á þakkir skyldar fyrir framtakið.

Flestir hinna sjálfskipuðu náttúruverndarsinna þegja nú þunnu hljóði um vegagerð yfir hraunið sem mun fara nálægt því að eyðileggja það. Hún er líklega of nálægt til að vekja athygli og eflaust halda náttúruminjar á höfuðborgarsvæðinu séu frekar ómerkilegar.

Auðvitað mun Vegagerðin og Garðabær fá sínu framgengt. Á hvorugum staðnum er nokkur skilningur fyrir gildi náttúruverndar. Á móti er gripið til fjárhagslegra raka. Alltof dýrt er að leggja veg í stokk. 

Svona rök hefur maður heyrt víða. Rarik og Orkuveitunni finnst alltof dýrt er að leggja rafstrengi í jörðu. Orkuveitunni fannst ekki svara kostnaði að ganga vel um Kolviðarhól og Hellisheiði og þess vegna er ástandið þar eins og á æfingasvæði Alkaída. 

Mér finnst eiginlega nóg komið. Ég er nú bara ósköp einfaldur Sjálfstæðismaður, einn af þessum í grasrótinni. Mér gremst svona framkoma en ég veit að fjölmargir aðrir eru sömu skoðunar og ég. Við þurfum hins vegar að hafa hugrekki til að standa upp og hvetja stjórnvöld til að breyta um stefnu. annars er ekki ólíklegt grasrótin rísi þá upp og taki völdin.


Samfylkingin burðarflokkur í stjórnmálum?

Þessar tilfallandi athugasemdir urðu til þess að ég glotti mér sjálfum mér en þær las ég á bloggsíðu Páls Vilhjálmssonar. Hann hittir oft naglan á höfuðið (feitletranir eru mínar og gerðar til skemmtunar):

Jóhanna Sigurðardóttir stendur ekki fyrir nein málefni aðeins valdabrask og deilur. Í afsagnarbréfi hennar segir ekkert um þau mál sem fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldisins stendur fyrir. Aðeins að ,,átakamikil og þung" ár séu að baki.

Jóhanna viðurkennir að hún hafi verið á útleið í stjórnmálum þegar atvikin höguðu því svo til að hún fékk formennsku í Samfylkingu og forsætisráðherradóm í kjölfarið.

En vegna þess að Jóhanna veturinn 2008 til 2009 löngu búin að gleyma því hvers vegna hún var í pólitík þá varð forsætisráðherraferillinn markaður karpi og leiðindum. 

Að viðskilnaði sýnir Jóhanna þó tilburði til að vera fyndin, sem má vel virða við gömlu konuna. Hún segir í kveðjunótunni:

Samfylkingin stendur vel og hefur alla burði til að vera áfram burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum.

Hahahahahahahahahah... 


Blóðug pólitísk barátta framundan

Ekki er einfalt fyrir formann stjórnmálaflokks að hætta nema auðvitað að óskoraður leiðtogi standi við hlið hans, tilbúinn að stökkva til. Svo er hins vegar ekki í tilviki Jóhönnu Sigurðardóttur, alþingismanns, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar.

Samfylkingarfólki er eiginlega vorkunn. Jóhanna hefur haldið flokknum saman og komið í veg fyrir klofning. Þar er hver höndin uppi á móti annarri og ekkert annað blasir við en blóðug barátta um stólinn. Vandinn er eiginlega sá að allir þeir sem hafa verið kynntir til sögunnar sem formannsefni eru frekar reynslulitlir sem þarf þó ekki að vera neinn skaði.

Þessir hafa verið einna helst í umræðunni, annað hvort hafa aðrir bent á þá eða þá langar í djobbið. 

  • Árni Páll Árnason
  • Guðbjartur Hannesson
  • Katrín Júlíusdóttir
  • Róbert Marshall
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 

Sem andstæðingur Samfylkingarinnar væri ég alveg hreint tilbúinn til að samþykkja ofangreinda.

Sá vandi sem Samfylkingin stendur hins vegar frammi fyrir núna er hápólitískur. Það gengur illa að flokkurinn sé hálflamaður, foringjalaus til vors. Samfylkingarmenn verða að kjósa nýja formann og sá verður að setjast í forsæti ríkisstjórnarinnar. Að öðrum kosti munu kjósendur einfaldlega líta framhjá flokknum telja hann ekki með í baráttunni.

Síðan er það vafamál hvort Vinstri grænir munu sætta sig við að einhver nýr muni fá að skyggja á Steingrím J. Sigfússon. Líklegast fer nú í hönd erfiðasti tími ríkisstjórnarinnar. Bitist verður fyrst og fremst um formannsembættið, síðan um forsætisembættið og í ofanálag koma kosningar. Öll önnur mál munu falla í skuggann af þessum hamagangi enda fjallar pólitík Vg og Samfylkingarinnar fyrst og fremst um stóla og stöður. 


Starfsmaður rannsóknarnefndar skipaður formaður

Björn Bjarnason, fyrrum alþingismaður og ráðherra, vekur athygli á því á heimasíðu sinni að starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis vegna falls sparisjóðann hefur verið skipaður formaður hennar.

Ágreiningur var í nefndinni og formaður hennar sagði af sér og starfsmaðurinn skipaður í staðinn.

Hvergi hefur komið fram hvers vegna ágreiningur var í nefndinni og hví hann var svo heiftarlegur að formaðurinn þurfti að segja af sér. Það er svo undrunarefni að starfsmaðurinn hafi verið skipaður formaður.

Hvað er eiginlega að gerast í þessari nefnd? 


Íhuga uppsögn eða íhuga að segja af sér ...

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fer fram á að framkvæmdastjóri flokksins íhugi alvarlega uppsögn sína. 

Hafi framkvæmdastjórinn sagt upp störfum gæti hann íhugað uppsögn sína. Þar sem hann hefur ekki sagt upp getur hann ekki íhugað uppsögnina. Hann gæti hins vegar velt því vandlega fyrir sér hvort hann eigi að segja upp störfum. 

Ofangreind tilvitnun er í heild sinni frétt á mbl.is í dag. Hún er illa orðuð og stenst hvorki rök né forsendur tungumálsins.


mbl.is Framkvæmdastjóri íhugi uppsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ríkisendurskoðun fórnarinnar virði?

Hlustaðu, segir vinur minn stundum, þegar honum finnst ég ekki hyggja nóg að rökum hans. Auðvitað er mönnum best að hlusta fyrst og tala svo. En er það alltaf svo? Getur ekki verið að það sem maður er nauðbeygður að hlusta á sé einfaldlega ekki sagan öll, eitthvað hafi skolast til eða jafnvel, svo gripið sé til fullyrðingarinnar, rangt. Líklegast er best að hlusta með gagnrýni.

Ég hef fylgst með umræðunni um kaup á bókhaldskerfi fyrir ríkið og ávirðingum á hendur ríkisendurskoðunar fyrir að draga að ljúka við skýrslu um málið. 

Einhvern veginn finnst mér bæði málin vera dálítið undarleg. Ég get ekki tekið undir það sem margir segja að Kastljós Ríkisútvarpsins hafi sýnt af sér neina tiltakanlega góð spretti í rannsóknarblaðamennsku. Umfjöllun þess og fréttastofunnar hafa falist í upplestri á skýrsludrögum og birtingu texta á skjá. Þó hefur verið kallað á ýmsa aðila til að sitja fyrir svörum og er það vel. Hins vegar hafa þeir sem átt hafa að svarað verið frekar slakir og sýnilega ekkert erindi átt í Kastljósið eða viðtöl fréttastofu. Þetta á við bæði forsvarsmenn Fjársýslunnar og Ríkisendurskoðunar.

Verst hefur mér þótt að lítið er hlustað á gagnrök bæði fyrir drættinum á skilum Ríkisendurskoðunar og kostnaðarþættinum Fjársýslunnar. Þó þau virðist frekar rýr er þar ýmsilegt að finna sem þeir sem vit eiga að hafa á ættu að taka til umfjöllunar. Nefna má til dæmis að kaupverð bókhaldskerfis og rekstur þess er sitt hvað og gjörsamlega út í hött að blanda saman.

Svo er það hitt, hvernig svona mál komast í hámæli. Auðvitað gengur ekki fyrir Ríkisendurskoðun að hangsa með mál í átta ár og líklega ekki nema eðlilegt að það spyrjist út á endanum. Þá spyr maður sig hvers vegna sé ráðist með slíku offorsi á Ríkisendurskoðun. Og hvers vegna var það fyrsta sem sumir ræddu hvernig mætti verja þann sem upplýsingunum lak?

Á borði þingmanna liggur þingsályktunartillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þó er ljóst að Ríkisendurskoðun rannsakaði einkavæðinguna alla meðal annars vegna kröfu stjórnarandstöðuþingmannsins Steingríms J. Sigfússonar. Ekkert aðfinnsluvert fannst við þá rannsókn og þótti mörgum andstæðingum þáverandi ríkisstjórnar það verulega miður.

Ég velti því nú fyrir mér hvort nú sé verið að draga upp ávirðingar á Ríkisendurskoðun til þess framar öllu að kasta rýrð á hana og verkefni hennar. Þá munu óvandaðir þingmenn og stjórnmálaskýrendur geta fullyrt að rannsókn Ríkisendurskoðunar á enkavæðingu bankanna hafi nú verið með ýmsum göllum enda sé þessi stofnun ekki þekkt fyrir góð vinnubrögð ... Þeir sem ekki hlusta og fylgja rökum, svokallaðir fyrirsagnahausar, stökkva þá upp og grípa þráðinn og spinna enn frekar um þörfina á rannsóknarnefnd.

Þetta er raunar byrjað. Einn forystumanna Vinstri grænna hefur haldið því fram að taka eigi rannsókn Ríkisendurskoðunar um bókhaldskerfi af stofnuninni og stofna sérstaka rannsóknarnefnd um málið. Þingmaður sama flokks, sá er hnuplaði skýrsludrögunum eða fékk þau lánuð, kinkaði svo mikið kolli undir þessari tillögu að heyrðist langar leiðir.

Fylgjumst nú vel með hvernig málið þróast í vikunni. Spunann verður einnig að skoða í því ljósi að nú er að skella á kosningavetur. Ríkisstjórnin má ekki hugsa til þess að athafnir hennar og athafnaleysi verði aðalumræðuefnið til vors. Þess vegna er Ríkisendurskoðun fórnarinnar virði, Fjársýslan skiptir engu í þessu sambandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband