Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Kinnhestur, snoppungur og fallturn sem opnar eitthvað

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

165, af þeim 180 sem skráðir voru, luku keppni en […] seg­ir Guðmund­ur. 102 kon­ur voru skráðar í sundið að þessu sinni og 74 karl­ar.“ Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Ég fullyrði að sá blaðamaður sem byrjar setningu á tölustöfum hefur ekki vald á starfi sínu. Enginn á Mogganum bendir blaðamanninum á mistök sín og hann heldur ábyggilega að hann sé ofboðslega klár. Enginn segir blaðamanninum að afar óheppilegt er að byrja setningu á tölum, frekar að umorða, sjá tillöguna hér fyrir neðan.

Grundvallaratriðið í útgáfustarfi, hvaða nafni sem það nefnist, er að lesa yfir tvisvar eða oftar. Í fréttamennsku er brýnt að blaðamenn hafi eftirlit hver með öðrum.

Hvaða fjölmiðill vill dreifa skemmdum fréttum? Ég er nokkuð viss um að það er ekki hlut af stefnu Morgunblaðsins. Í raun og veru ættum við áskrifendur að fá afslátt af áskrift hvers mánaðar í hlutfalli við skemmdar fréttir.

Fann þetta á ruv.is:

102 konur og 74 karlar syntu í 15 gráðu heitu vatninu við Egilsstaði í dag

Þetta er sem sagt fréttatilkynning. Því miður er það þannig að margir blaðamenn moka fréttatilkynningum inn í fréttamiðla án nokkurrar hugsunar eða, sem verra er, hafa ekki skilning á réttu máli.

Sjá nánar hér um tölustafi í upphafi setninga. Auðvelt er að „gúgla“ svona fyrirbrigði. Hvergi um hinn vestræna heim byrja setningar á tölustöfum, aðeins hjá byrjendum eða illa skrifandi fólki.

 Tillaga: Af þeim 180 sem skráðir voru, luku 165 keppni en […] seg­ir Guðmund­ur. Að þessu sinni voru 102 kon­ur skráðar í sundið og 74 karl­ar.

2.

Áfram er verið að drepa Langreyðar núna í kringum Ísland. Við biðjum ykkur um að vera með okkur og krefjast fullrar verndar á þessum mögnuðu dýrum sem færa hundruði þúsunda manna gleði og hrifningu á hverju ári. Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Sá blaðamaður er vanhæfur sem birtir orðrétt hræðilega illa samda fréttatilkynningu og lætur fylgja villur. Lágmarkið er að lagfæra. Betra er að segja frá efni fréttatilkynningarinnar í óbeinni ræðu, lakara að vitna orðrétt í svona rugl.

Ofangreind tilvitnun úr frétt Visis og kemur frá „Samtökum grænmetisæta á Íslandi“. Engu líkar er að hún hafi upprunalega verið á öðru tungumáli og Google-Translate hafi verið notað til að þýða hana, og gert það illa.

Tillaga: Enn eru Langreyðar drepnar við Ísland. Stöndum saman og krefjumst fullrar friðunar á þessum mögnuðu dýrum sem árlega gleðja hundruð þúsunda manna.

3.

Palestínska unglingsstúlkan Ahed Tamimi var leyst úr haldi í morgun, eftir afplánun átta mánaða fangelsisdóms sem hún fékk fyrir að löðrunga tvo ísrelska hermenn á Vesturbakkanum um miðjan desember á síðasta ári. 

Frétt á ruv.is.

Athugasemd: Nú langar mig til að hrósa. Ég gladdist þegar ég heyrði þessa frétt lesna í tíu fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgni. Ekki vegna efnis fréttarinnar heldur hvernig fréttamaðurinn skrifar hana. Hún er vel samin og ekkert verður honum að fótakefli nema að herinn er ísraelskur.

Það sem gerðist er að ungri stúlku tókst að slá tvo ísraelskra hermenn utan undir. Látum vera andvaraleysi hermannanna að láta berja sig. Minnir á Eyrbyggju og Gísla sögu Súrssonar. Það sem stúlkan gerði er í fréttinni kallað löðrungur, síðan kinnhestur og loks snoppungur. Þetta er algjörlega til fyrirmyndar. Fréttamaðurinn er vel skrifandi og hefur orðaforða sem dugar honum frábærlega.

 Tillaga: Engin gerð.

4.

Mik­ill snjór á göngu­leið Lauga­veg­ar hef­ur ekki haft telj­andi áhrif á sum­arið, að sögn staðar­hald­ara í Land­manna­laug­um. Frétt á mbl.is

Athugasemd: Seint telst þessi málsgrein til gullkorna í blaðamennsku og þaðan af síður fréttin. Efnislegar er fréttin hún tóm vitleysa. Snjór í fjöllum hefur engin áhrif á árstíðir, ekki heldur á veður. Þó ég sé ekki veðurfræðingur tel ég þetta nær fullvíst.

Hitt má vera að snjósþyngsli á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur, þeirri sem daglega er nefnd Laugavegurinn, hafi ekki dregið úr aðsókn göngufólks að henni. Í flestum tilvikum veit enginn um snjóinn fyrr en að honum er komið, fæstir spyrjast fyrir.

Í fréttinni segir:

Daniel Demaime er einn skála­varða í skál­an­um í Hrafntinnu­skeri, sem er vin­sæll viðkomu­staður þeirra sem ganga Lauga­veg­inn. Seg­ir hann í Morg­un­blaðinu í dag, að snjór­inn hafi ekki horfið fyrr en ný­lega

„Hér hef­ur rignt mikið und­an­farn­ar vik­ur og því er snjó­tíma­bil­inu að ljúka núna. Í ár var óvana­lega mikið magn af snjó. Það má líkleg­ast skrifa á vet­ur­inn sem var óvenju harður og lágt hita­stig í sum­ar.“

Hér hefur næstum öll fréttin verið birt. Þvílík steypa er hún. Ég hef undirstrikað það sem er aðfinnsluvert. Taka ber hér fram að Á öllum Laugaveginum er hvergi snjór nema ofarlega á hálendinu sunnan við Landmannalaugar, það er alla jafna kennt við Hrafntinnusker, með réttu eða röngu. 

Gönguleiðin liggur framhjá Skerinu, þar skáli FÍ, vinsældir hans byggjast á þessari staðreynd. Hann er heitinn eftir Höskuldi Jónssyni sem var lengi formaður félagsins. 

Blaðamaðurinn hefur líklega ekki heyrt um að snjó taki upp og þess í stað skrifar hann langloku. 

Hvað er „snjótímabil“? Hvers konar bull er þetta? Hafntinnusker er hæst í um 1143 m hæð. Þar og víðast umhverfis liggur snjór allan ársins hring, eðlilega. Á hálendinu er meiri snjór að vetrarlagi en á sumrum vegna þess að snjóa leysir. Orðið „snjótímabil“ er ekki til í íslensku. 

Ekki er hægt að tala um magn af snjó nema vigta hann eða mæla dýpt eða eitthvað álíka. Oftast er talað um mikil eða lítil snjóalög. Fábjánalegt er að taka svona til orða.

Nær undantekningalaust snjóar meira eða minna að vetrarlagi, þetta vita allir. Sé sumarið kalt þá er ekki óalgengt að í Hrafntinnuskeri snjói rétt eins og annars staðar á fjöllum. Harður vetur segir ekkert til um snjó, aðeins að veðurlagi hafi verið erfitt. Hvernig er vitað að veturinn hafi verið harður við Hrafntinnusker? 

Tillaga: Engin gerð enda er fréttin tómt bull, eiginlega það vitlausasta sem sést hefur lengi.

5.

Hann segir að margt af því sem komið hafi upp í Bandaríkjunum sé nokkuð sem komi upp í ríkjum sem Bandaríkjamenn líti á sem vandamálaríki. Úr leiðara Morgunblaðsins mánudaginn 30.07.2018.

Athugasemd: Fyrir utan að ofangreind málgrein er sýkt af nástöðu þeirra orða sem eru feitletruð þá er hún illskiljanleg. Óákveðna fornafnið nokkuð er þarna líka eins og skrattinn í sauðaleggnum, á hugsanlega að gegna einhverju hlutverki en illt að átta sig á því hvað það er.

Hér fyrir neðan er gerð tilraun til að búa til annan kost (ekki „valkost“, það orð er ekki til) en það er jafnan erfitt þegar hugsunin er jafn óskýr og í málsgreininni. Erfitt er að koma í veg fyrir tvö tilvísunarfornöfn í sömu málsgreininni, slíkt er frekar ljótt og stíllaust.

Og að lokum, hvað eru vandamálaríki? Ekki er hægt að ráða neitt af samhenginu.

Tillaga: Hann segir að margt af því sem komið hafi upp í Bandaríkjunum sé kunnuglegt í ríkjum sem Bandaríkjamenn líti á sem vandamálaríki.

6.

Nýi fallt­urn­inn í Fjöl­skyldug­arðinum opn­ar brátt. Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Bráðsniðugt að byggja fallturn í Fjölskyldugarðinum, en hvað á hann að opna? Getur hann annars opnað eitthvað? Jú, í fyrirsögninni segir að hann muni opna brátt. Blaðamaðurinn hefur ábyggilega gleymt að nefna það í fyrirsögninni sem fallturninn á að opna og ekkert segir heldur um það í fréttinni. 

Blaðamenn ættu að vita að hús og mannvirki opna ekki neitt. Steinsteypa, timbur, gler og járn hefur engan vilja. Fólk opnar hús og önnur mannvirki eða tekur þau í notkun.

 Tillaga: Nýi fallt­urn­inn í Fjöl­skyldug­arðinum verður brátt opnaður

 


Hrakspár bankastjórans og gæfa Breta

Mikið ansi gleðst ég yfir því þegar ég les góða bók eða grein jafnvel bara nokkrar línur sem geisla af skýrri hugsun. Tilvitnunin hér að neðan finnst mér mjög áhugaverð og vel saman sett.

Til þess að spilla ekki fyrir þeim örfáu sem kunn að lesa þennan pistil læt ég þess ógetið hver samdi og hvar línurnar birtust. Bið ég lesandann að virða það til betri vegar. Við erum nefnilega mörg þannig full af fordómum og leiðindum og getum aldrei séð sólargeisla í rigningartíð jafnvel þó hann skíni í augun á okkur. 

Hér er tilvitnunin (greinskil eru mín):

Ógleymanlegt er hvernig hinn kanadíski seðlabankastjóri Breta minnti í aðdraganda Brexit mest á skrítnu kallana með spjöldin að boða endalok mannkynsins.

Hann má þó eiga það að hafa komist mun nær því en hinir íslensku „fagmenn“ að viðurkenna að hrakspár og jafnvel hótanir hafi ekki verið heppilegar.

Hann á þó sennilega einkum við að það hafi verið óheppilegt fyrir hann hversu illa spádómarnir stóðust. Það var hins gæfa bresku þjóðarinnar, en gáfumönnum þykir það aukaatriði í svo stóru máli.

 


Barði, barði og flúði eventið

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Barði konu sína á Vestfjörðum, dró hana á hárinu og barði í andlitið – Lagði á flótta með barn sitt.“ Fyrirsögn á dv.is.      

Athugasemd: Illa samin fyrirsögn, alltof löng og án markmiðs. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að maður var dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir að beina konu sína ofbeldi. Mér finnst óþarfi að taka það fram í fyrirsögn hvar atburðurinn átti sér stað. Það kemur fram í fréttinni.

Takið svo eftir bullinu sem býr til nástöðu. Barði konu sína og barði í andlitið. Blaðamaðurinn kann ekki að semja fyrirsögn, það er ljóst. 

Hver lagði á flótta með barnið. Af fyrirsögninni má ráða að sá sem barði konuna hafi flúið með barnið. Svo er þó ekki.

Þetta er ekki nóg. Hvað þýðir þetta sem segir í fréttinni:

Mat dómari það svo að maðurinn hefði játaði brot sitt og hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot.

Þetta er illskiljanlegt. Var það dómarinn eða „maðurinn“ sem hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot? Málsgreinin er kjánalega samansett.

Og hér er enn einn sveppurinn. Skilur einhver þetta?

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að áður en brot mannsins átti sér stað hafði hann sýnt af sér óeðlilega hegðun í garð konunnar um lengri tíma.

Eða þetta?

… en sakaferill mannsins hafði ekki áhrif við ákvörðun refsingarinnar.

Enginn les yfir hjá dv.is og allir fá að leika sér sem blaðamenn án nokkurrar tilsagnar. Svona frétt er ekki boðleg, hún er stórskemmd.

Tillaga: Dæmdur fyrir að beita konu sína alvarlegu ofbeldi.

2.

„Börn og ung­ling­ar und­ir 18 ára voru að vinna á gáma­svæðinu og hafði 15 ára starfsmaður verið að vinna við pressugám og lent í hon­um og orðið fyr­ir vinnu­slysi.“  Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Þetta er ekki góð málsgrein. Hún er of löng og þar að auki er  hún illa orðuð. Auðvelt að stytta hana. Reglan er sú að nota punkt sem oftast, ekki hlaða inn setningum. Um að gera að hafa textann eins stuttorðan og skýran og hægt er. Slíkt næst ekki nema með því að lesa hann vandlega yfir eða fá einhvern annan til þess. Fersk augu sjá oftast það sem er þarf að laga.

Á íslensku verður enginn fyrir vinnuslysi í vinnunni. Hins vegar slasast sumir í vinnunni. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Í ofangreindri tilvitnun er hamrað á nafnorði en í tillögunni hér fyrir neðan fær sagnorðið að njóta sín, þannig nýtur íslenskan sín.

Hin tilvitnaða málsgrein er tekin orðrétt úr vef Vinnueftirlitsins og gerir blaðamaður Moggans enga tilraun til að lagfæra augljósar misfærslur. Nákvæmlega eins gerir blaðamaður dv.is en á þeim vef er sagt frá því sama. Er kannski sami rassinn undir öllum íslenskum fjölmiðlum?

Vinnueftirlitið ber af í stofnanamállýsku, kansellístíl (þetta á ekki að vera hrós).

Eftirskrift: Ítarlegri og mjög vel skrifuð frétt um sama mál birtist á blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu. Hún er algjörlega til fyrirmyndar og án efa skrifuð af eldklárum blaðamanni ekki þeim sem á fréttina á mbl.is. 

 Tillaga: Börn og ung­ling­ar und­ir 18 ára unnu á gáma­svæðinu. Starfsmaður sem var aðeins 15 ára féll í pressugám sem hann vann við og slasaðist.

3.

„Hundrað kílóa hnullungur hafnaði næstum á konu við Grátmúrinn.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Hver skyldi nú vera munurinn á sögninni að hafna og sögninni að lenda. Mig grunar að grjótið hafi næstum því lent á konunni. 

Einhvern veginn finnst mér að það sem hafnar einhvers staðar hafi verið sent með vilja. Til dæmis ef bolti hafnar í markinu, lið hafnar í fyrsta, öðru eða þriðja sæti eða álíka.

Grjót sem hrynur úr fjallshlíð lendir á húsinu, það hafnar ekki á húsinu. Hvort tveggja getur þó verið rétt.

Þetta getur þó verið smekksatriði. Að minnsta kosti myndi ég skrifa þannig og draga úr notkun á sögninni að hafna. Finnst hún dálítið tilgerðarlega svo oft sem hún sést í fjölmiðlum.

Tillaga: Hundrað kílóa hnullungur lenti næstum því á konu við Grátmúrinn.

4.

„Þetta er alvöru event.“ Fréttamaður í kvöldfréttum Bylgjunnar 24.07.2018.

Athugasemd: Event er enska og getur þýtt atburður, uppákoma og álíka. Þarna var fréttamaðurinn að segja frá tónleikum Guns N´ Roses á Laugardalsvelli en gat ekki gubbað út úr sér setningunni á hreinni íslensku, hann þurfti að sletta, má vera svona til að sýnast.

Að hugsa sér ef fréttamaðurinn hefði sagt að þetta væri stórkostlegur atburður, alvöru tónleikar eða bara magnaður viðburður. Svoleiðis hefðum við, almenningur, varla skilið. Þetta var event, ííívent, magnað að svona fjölfróður og klár einstaklingur skuli starfa á Bylgjunni/Stöð2. Ég myndi mæla með því að Bylgjan borgaði honum laun, en má vera að börn fái ekki laun þar á bæ.

Tillaga: Engin gerð.

5.

„28 bandarískir þingmenn eru eftirlýstir af lögreglunni ef marka má niðurstöður úr nýju forriti frá tæknirisanum Amazon.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Fyrir alla muni, ekki byrja setningu á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert á byggðu bóli. 

Hér er ágæt skýring á fyrirbrigðinu:

A number is an abstract concept while a numeral is a symbol used to express that number. “Three,” “3” and “III” are all symbols used to express the same number (or the concept of “threeness”). One could say that the difference between a number and its numerals is like the difference between a person and her name.

Ég hef áður nefnt þetta en núna ákvað ég að koma með erlendar tilvísanir til að sýna að þetta á ekki aðeins við íslensku. Hér er önnur tilvísun valin af handahófi í orðasafni Google frænda.

You should avoid beginning a sentence with a number that is not written out. If a sentence begins with a year, write 'The year' before writing out the year in numbers.

Aðalatriðið er að vera vakandi yfir skrifum sínum, ekki láta vaða án þess að lesa yfir. Í stað þess að skrifa tölur má líka endurorða setninguna.

Tillaga: Tuttugu og átta bandarískir þingmenn eru eftirlýstir af lögreglunni ef marka má niðurstöður úr nýju forriti frá tæknirisanum Amazon.


Lögverndun starfsheitis leiðsögumanna tryggir ekki gæði

Alltof algengt er að leiðsögumenn og fararstjóra hér landi skorti undirbúning og þjálfun til þess að fara fyrir skipulögðum ferðum, segir Indriði H. Þorláksson, formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna. Hann segir að ítrekað komi upp atvik sem skrifa megi á þekkingarleysi leiðsögumanna en að lítið sé hægt að gera þar sem starfsheitið sé ekki lögverndað. Stjórnvöld sýni þessum málum lítinn áhuga.

Svo segir í frétt á visir.is. Vandi ferðaþjónustunnar lagast ekki þó starfsheiti leiðsögumanna sé lögverndað. Hann mun þvert á móti aukast vegna þess að hún ekki geta nýtt sér reynda fjallamenn sem í langan tíma hafa ferðast um fjöll og jökla á eigin vegum og ferðafélaga en ekki haft áhuga á að fara á námskeið til að læra það sem þeir hafa þegar lært. Í þessum hópi er fjöldi fólks sem ég þekki og er ég sjálfur ekki undanskilinn.

Staðreyndin er sú að til dæmis hjá ferðafélögunum Útivist og Ferðafélagi Íslands verður til mikil þekking í fjallaferðum sem og reynsla í leiðsögn sem að vísu er þar kölluð fararstjórn. Við, þessir „ómenntuðu“ leiðsögumenn höfum farið um mest allt landið, gengið á skíðum um hálendið að vetrarlagi, skíða yfir jökla, gengið á hæstu tinda, kunnum að fara með ísexi og brodda og margir eru góðir í ísklifri. Vissulega til reynslumikið fólk sem hefur réttindi til að titla sig leiðsögumenn. Hins vegar hef ég fylgst með leiðsögumönnum draga fólk upp á Hvannadalshnúk, fólk sem kann ekkert að fara með ísöxi eða ísbrodda. Ég sá efstu menn falla í hlíðum hnúksins niður á næstu menn sem auðvitað misstu jafnvægið og féllu, og svo koll af kolli uns öll hrúgan var komin í fangið á þeim neðsta, líklega leiðsögumanni. Þetta er auðvitað stórhættulegt, ísaxir og broddar hjá fólki sem er nærri því í frjálsu falli og getur stórskaðað næsta mann.

Ég held að það sé gott að geta leitað til reynslumikill manna og kvenna sem ekki hafa farið í leiðsögumannaskóla heldur en að nota algjöra viðvaninga í fjallaferðum, þó þeir titli sig sem leiðsögumenn með „menntun“. Finna má tugi slíkra fjallamanna í og utan ferðafélaganna. Þar að auki eru tugir ef ekki hundruð manna sem hafa margvíslega þekkingu og reynslu af annars konar ferðalögum um landið og geta með léttu tekið að sér stóra og litla hópa og verið ekki síðri en „menntaðir“ leiðsögumenn.

Tilgangurinn með svokallaðri lögverndun á starfsheiti leiðsögumanns er ekkert annað en einbeittur vilji til að einoka leiðsögn í ferðaþjónustunni, útiloka fólk sem hefur þekkingu og reynslu í þessari atvinnugrein. Ég get ekki ímyndað mér að fyrirtæki í ferðaþjónustu vilji takmarka á þennan hátt möguleika sína.

Vinnuveitendur geta í raun og veru ráðið því hvaða menn þeir ráða til starfa. Þannig að því miður er það alltof algengt að það séu einhverjir ráðnir til starfsins sem hafa ekki til þess undirbúning, reynslu og þekkingu sem þarf til að sinna því vel.

Þetta segir Indriði í fréttinni. Í þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem ég þekki best til vita stjórnendur þeirra nákvæmlega hvernig ferðir þeir eru að bjóða upp á og hvernig fólk þarf í leiðsögn. Margir kunna að vera innan Leiðsögumannafélagsins en fjölmargir eru utan þess. Indriði er trúr sínum uppruna og vill einoka réttindi sem má aldrei verða því slíkt er stórhættulegt öryggi ferðamanna.

Hvers vegna er Indriði eiginlega að agnúast út í Íslendinga sem ekki hafa farið á námskeið fyrir leiðsögumenn og þjónusta samt ferðamenn? Misjafn sauður er vissulega í mörgu fé, það á við „menntaða“ og „ómenntaða“ leiðsögumenn. Má vera að menntunin hafi vissa kosti en sé hægt að benda á frábæran leiðsögumann með menntun er minnsta málið að benda á annan jafngóðan sem aldrei hefur stigið fæti inn í leiðsögumannaskóla.

Ég er sammála ferðamálaráðherra sem segir að löggildin leiðsöguréttinda sé ekki leiðin til að tryggja öryggi ferðamanna. Vandamálið er miklu frekar að sumir ferðamenn eiga ekki að fara í krefjandi fjalla- eða jöklaferðir, jafnvel þó þá langi til þess. Þeir hafa ekki þann bakgrunn sem þarf.

Nefna má hér fjarlægt dæmi og það er sá ótrúlegi fjöldi fólks sem vill ganga á Everest, hæsta fjall í heimi. Stór hluti þeirra hefur ekki neina þekkingu á fjallamennsku, vill aðeins geta hakað við eitthvað stórkostlegt. Sambærilegt við þetta eru ferðamenn á Íslandi sem vilja sjá jökul og geta snert ísinn. Ekki eiga allir erindi inn á hann, jafnvel þó þeir vilji.

Mér er enn minnisstæð hollenska konan sem var í ferð með mér á vegum Útivistar fyrir mörgum árum. Hún sagði mér síðar að hún væri algjörlega óreynd í gönguferðum enda snéri hún á sér ökklann um klukkutíma eftir að hún steig út úr rútunni í Skaftafelli. Auðvitað hefði þetta aldrei gerst hjá „menntuðum“ leiðsögumanni. Eða hvað, Indriði?

 


Vök Baths, bleikjan að gefa sig og Cliff clifftur út

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Mikil fækkun Íslendinga í danska fótboltanum.“ Fyrirsögn á bls. 1 í íþróttablaði Morgunblaðsins 17.07.2018.      

Athugasemd: Íslenska byggist á sagnorðum, ekki nafnorðum.

Í upphafi fréttarinnar stendur svo þetta:

Aðeins þrír Íslendingar leika með liðunum fjórtán í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu …

Þetta er einfaldlega rangt því leikmennirnir geta ekki leikið með fjórtán liðum, hámarkið er þrjú lið.

 Tillaga: Íslendingum fækkar í danska fótboltanum.

2.

„En Steingrímur óð með bróður sínum yfir Meyjará sem var í miklum vöxtum vegna úrhellis rigningar til að sækja aðstoð.“ Fréttá visir.is.       

Athugasemd: Ár eru stundum í vexti, peningar geta legið í banka á vöxtum, flest börn vaxa, vöxtur þeirra er oftast góður, svo eru þeir til sem eru vel vaxnir og maður getur líka verið mikið mikill vöxtum.

Um eina, tvær eða fleiri ár sem vaxa vegna þess að í þeim er meira vatn en endranær er sagt að þær séu í vexti. Þetta er venjan, held þó að ekki sé rangt að segja ár í miklu vöxtum. Þó heyrist aldrei að ár séu í litlum vöxtum.

Höldum okkur bara við að segja að ár séu í vexti

Tillaga: En Steingrímur óð með bróður sínum yfir Meyjará sem var í miklum vexti vegna úrhellis rigningar til að sækja aðstoð.

3.

„Vök Baths.“ Nafn á fyrirtæki í Fellabæ.       

Athugasemd: Ég bið lesendur forláts en ég held því fram að fólkið sem nefnir fyrirtækið sitt „Vök Baths“ séu haldin alvarlegum skorti á heilbrigðri skynsemi.

Á vefnum austurland.is segir: 

Heitið er sótt í vakir sem mynduðust á Urriðavatni sem urðu tilefni í þjóðsögur og síðar þess að látið var á það reyna að bora þar eftir heitu vatni á svæði sem áður var talið kalt með góðum árangri.

Ekki er nóg að tilgangurinn sé góður, íslensk mál er misnotað og sóðað út eins af algjörri óvirðingu. Furðulegt er að blanda svona saman íslensku og ensku. Útkoman verður þar af leiðandi hvorki fugl né fiskur, „bastarður“. Miklu nær er að mynda heiti fyrirtækis á íslensku og hafa ensk heiti neðanmáls. Svo má velta því fyrir sér hvort Vök Baths sé nafnið á eigandanum, þorir einhver í'ana. Hver veit hvort Bath ættin sé til á Austurlandi og hafi tórt þar frá landnámi?

Má vera að eigendurnir séu að hugsa um markaðsmál en um leið missa þeir sjónar á þeirri virðingu sem eigendur fyrirtækja eiga að sýna íslensku máli, þjóðinni og ekki síður útlendingum sem heimsækja landið. Enginn útlendingur ætlast til að heiti fyrirtæki, örnefni, vara, vegvísar eða annað sé á ensku. Sá sem heimsækir annað land gerir einfaldlega ráð fyrir því að þar sé tungumál innfæddra ráðandi. Þetta er að minnsta kosti það sem ég hugsa þegar ég ferðast um Grikkland, Spán, Ítalíu, Þýskaland og Frakkland svo dæmi séu tekin.

Síðast en ekki síst varðar þetta sóma þeirra sem reka fyrirtæki hér á landi. Við getum einfaldlega ekki fylgt í kjölfar þess sóðalega fyrirtækis sem nú heitir Air Iceland Connect en hét áður Flugfélag Íslands, eða Fontana, og álíka fyrirtækja með skrípaheiti í íslensku samfélagi.

Síst af öllu er þetta spurning um markaðsmál. Bláa lónið lifir góðu lífi, einnig Eimskip, Samskip og fjöldi annarra fyrirtækja sem sýna tungu þjóðarinnar tilhlýðilega virðingu.

Tillaga: Tuskuvakir

4.

„Græn­lands­bleikj­an gef­ur sig.“ Fyrirsögn á mbl.is        

Athugasemd: Slæmar fréttir, hrun í grænlenska bleikjustofninum … Eða hvað? Í orðabók segir um merkinguna að gefa sig: 

Láta undan, bresta, bila. Gamla brúin gaf sig undan vörubílnum. Vatnsrör gaf sig í frostinu. Þessir skór eru farnir að gefa sig.

Sem sagt, grænlandsbleikja er ekki að hruni komin, hún lætur veiða sig. Hvoru tveggja má fagna, held ég.

Sumir halda að málið þróist á þann hátt að orð sem hingað til hafi haft ákveðna merkingu fái nýja og gjörólíka. Slíkt er ekki þróun heldur afleiðing vanþekkingar á íslensku máli. Þannig klúður er nær daglegur viðburður í íslenskum fjölmiðlum. Sorglegt.

 Tillaga: Græn­lands­bleikj­an veiðist vel.

5.

Framherji Watford að taka við Gylfa sem dýrasti leikmaður í sögu Everton? Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Þetta gengur ekki upp. Blaðamaðurinn skilur ekki einfald orðasamband og niðurstaðan verður bull.

Framherji tekur við Gylfa. Það þýðir að hann tekur á móti Gylfa, einhver afhendir Gylfa og hinn tekur á móti.

Má vera að blaðamaðurinn hafi ætlað að skrifa að enginn taki við af Gylfa. Sé svo bendir það til að enginn lesi yfir, enginn bendir fréttabarninu á mistök. Fyrir vikið er fréttin skemmd.

Blaðamaðurinn þykist samt hafa gert vel, er aldeilis karl í krapinu, hefur skrifað frétt. Hann veit bara ekkert um vitleysuna sem hann gerði.

Tillaga: Nýi framherjinn hjá Watford dýrari en Gylfi.

6.

Clifft­ir út. Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Svo bregðast krosstré … Einn af betri blaðamönnum Moggans skrifar skýra og góða frétt um mál söngvarans Cliff Richards gegn BBC. Alls ekkert út á hana að setja nema fyrirsögnina. Ég hreinlega skil hana ekki. Hér er greinilega um einhvern orðaleik að ræða, einhverjir eru í málaferlinum „klipptir úr“.

Sú staðreynd er skýr að aldrei fer vel á því að blanda saman tveimur tungumálum í frétt, hvorki í fyrirsögn né meginmáli nema að setja hið erlenda í gæsalappir. Allt annað truflar lesendur sem í ofanálag eru margir hverjir ekki með næga tungumálaþekkingu til að skilja. Í ofanálag eru ekki allir lesendur með jafngóðan húmor hvað þá að við séum allir jafnfljótir að kveikja á skopinu.

Tillaga: Cliff Richard vinnur dómsmál gegn BBC

6.

Ef áfram heldur að kreppa að er víst að Ortega mun missa stuðning efnahagslífsins. Úr leiðara Morgunblaðsins 21.07.2018.         

Athugasemd: Yfirleitt eru leiðarar Moggans ágætlega skrifaði og afar sjaldgæft að sjá stafsetninga- eða málvillur. Hvorugt er í ofangreindri tilviljun en hún er samt illskiljanleg.

Efnahagslífið er svona eins og veðrið, frekar svona sjálfráða þó hvort tveggja sé mælanlegt á ýmsan máta.

Útilokað er að halda því fram að efnahagslíf hafa sjálfstæða hugsun eða styðji einhvern ákveðinn stjórnmálamann. Ekki frekar er hægt að fullyrða að veðráttan hér á landi haldi með ljósmæðrum eins og einn gáfumaðurinn fullyrti á fundi um daginn.

Líklegast er að leiðarhöfundur hafi ætlað að skrifa um stuðning atvinnulífsins en orðið fótaskortur á lyklaborðinu.

TillagaEf áfram heldur að kreppa að er víst að Ortega mun missa stuðning atvinnulífsins.

7.

Í mars var Reykjavík Konsúlat Hótel opnað í Hafnarstræti 17- 19, en í sama húsnæði var áður rekið Thomsens magasín allt frá árinu 1837. Umfjöllun á bls. 21 í Morgunblaðinu 21.07.2018.         

Athugasemd: Orðalagið er til fyrirmyndar. Hótelið var opnað. Skussar orða það þannig að hótelið hafi opnað. Hús eða fyrirtæki geta ekki opnað neitt, aðeins fólk.

Hins vegar verður að hnýta í ofangreinda tilvitnun  Húsið sem um ræðir, oft kallað straujárnið vegna lögunar þess, er nýbygging og því útilokað að Ditlev Thomsen hafi gengið þar um gólf. Þó gæti verið að nýbyggingin sé tengd við eldra húsið við hliðina og þar hafi Thomsen konsúll spígsporað.

Tillaga: Engin gerð.

8.

Claude Puel, stjóri Leicester … Cluel Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Í fótboltaleik er heimilt að skipta um þrjá leikmenn á meðan á leik stendur. Ekkert er við því að segja. Í blaðamennsku er það hins vegar óskráð en mikilvæg regla að skipta ekki um menn í miðri frétt.

Í Vísi er þýdd frétt um framkvæmdastjóra fótboltaliðsins Leicester. Í upphafi fréttar heitir hann Puel en um miðbik fréttarinnar er einhver Cluel kominn inn á. Enskir myndu ekkert skilja í svona fréttaflutningi (e. do not have a clue (cluel)).

Má vera að hér sé um samlögun að ræða, Claude Puel verður Cluel. Þetta er bara enn eitt dæmið  hroðvirkni og sannar það sem margir segja, á Vísi er enginn prófarakalestur. Magn er meira metið en gæði.

Tillaga: Engin gerð.

9.

„Hinn handtekni heitir Getayawkal Ayele sem hefur stefnt að því að verða spámaður.“ Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Nei, fjöldi frétta er endilega ávísun á góðar fréttir. Vísir hrúgar inn ómerkilegum „fréttum“ og framreiðir þær með hangandi hendi, hroðvirknislega. Þannig verður til léleg frétt og oftar en ekki illa skrifuð.

Þetta á tvímælalaust við fréttina sem ofangreind tilvitnun er úr. Ég lét glepjast vegna fyrirsagnarinnar sem hefði þó mátt vera styttri.

Málsgreinin er ruglandi og þá sérstaklega samtengingin sem en henni er ábyggilega ofaukið.

Annars er stórmerkilegt að maðurinn ætli að verða spámaður. Ekkert er sagt frá námi mannsins, en hann hefur líklega fallið á prófinu í að reisa upp frá dauðum. Vonandi fær hann að taka það aftur eftir að hafa náð sér eftir barsmíðarnar.

Tillaga: Hinn handtekni, Getayawkal Ayele, hefur stefnt að því að verða spámaður.

10.

„Sigraði anor­ex­í­una.“ Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Gott er til þess að vita að ung kona hafi unnið bug á sjúkdómi sem hefur hrjáð hana. Hins vegar er varla hægt að segja að konan hafi sigrað sjúkdóminn. Við sigrum í keppni, vinnum andstæðinga, berum sigur úr býtum, leggjum keppinautanna og svo framvegis. 

Í Málfarsbankanum segir:

Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki „sigra leik“. Hins vegar er talað um að vinna leik.

Rétt er með farið að segja fara með sigur af hólmi og bera sigur úr býtum en ekki „bera sigur af hólmi“.

Sjúkdómur er ekki eins og keppninautur, hann hefur enga sjálfstæða hugsun, er einungis þannig gerður að hann ræðst þar á sem líkaminn er veikastur. Engu að síður má orða fyrirsögnina þannig að konan hafi sigrast á átröskuninni.

 Tillaga: Sigraðist á átröskuninni.


Þau eru svo lík, fasistinn og góðmennið

ÁróðurKlippari, ekki hárgreiðslukona eða rakari, fékk einu sinni svokallaða fálkaorðu úr hendi forseta Íslands. Hún ætlar nú að skila henni af því að meintur fasisti og rasisti, kona af dönsku bergi brotin, hefur fengið sömu orðu. Forsetanum sárnaði þetta og sendi frá sér yfirlýsingu og sagðist ekki hafa orðað dönsku dömuna enda sjá fleiri um orðuhneppingar en hann.

Um daginn tók utanríkisráðherra Íslands í hönd Dónalds Trömps, Bandaríkjaforseta. Fjarskyld frænka mín sem býr í nágrenni við Guðlaug ráðherra, gaf samstundis út þá yfirlýsingu á Feisbúkksíðu ættarinnar að hún muni aldrei aftur taka í höndina á Gulla og rauna ekki koma nær honum en sem nemur sjö föðmum breiðfirskum. Ráðherrann veit ekki af þessu og er líklega alveg sama.

Nándin getur vissulega ógnað heilsunni. Hér er eitt dæmi. Svenni er einn af hornsteinum samfélags sem kennt er við „virka í athugasemdum“. Í sakleysi sínu var hann á gangi í miðbænum, annars hugar eins og svo oft áður. Á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis gekk hann næstum því í flasið á Davíð Oddssyni, skildu aðeins nokkrar tommur á milli. Þar skall hurð nærri hælum, eins og fótboltamenn segja á íþróttasíðunum þegar einhver „forðar marki“. Svo bylt varð Svenna við þetta að lengi á eftir var hann algjörlega miður sín enda lært að hatast við Davíð allt frá „svokölluðu hruni“. Svo „óáttaður“ var hann eftir þennan tveggja sekúndna „fund“ að hann rataði ekki heim til sín, týndi bílskrjóðnum, og fannst löngu síðar ráfandi um miðbæinn eins og hver annar túrhestur. Með leiðsögn lækna og lyfja er hann nú kominn til þokkalegrar heilsu. Davíð veit ekki af þessu og er líklega alveg sama.

Í úvarpsþættinum „Í vikulokin“ á ríkisútvarpi lýðveldisins upplýsti pírati um alheimssamsæri fasista, nasista og fleiri ista. Þeir væru að kanna hversu langt mætti ganga í mannvonsku áður en almenningur fengi nóg. Alveg satt sagði hún ...

Þegar þingfagnaður á Þingvöllum stóð sem hæst stóð þingkona nokkur upp á nákvæmlega sömu sekúndunni og forseti danska þingsins stóð upp. Eitt augnablik horfðust þær í augu og það var einmitt þá er skriðan féll í Hítardal. Sú fyrrnefnda gekk í lyngbrekku og lagð sig en hin flutti tveggja mínútna ræðu en að henni lokinni stóð þingkonan ekki upp enda hafði hún sofnað. Sami atburður endurtók sig um kvöldið í matarfagnaði og dansæfingu í endurnýjuðum Súlnasal Hótel Sögu. Forseti danska þingsins stóð upp til að halda ræðu og áðurnefnd þingkona stóð þá samstundis upp. Aftur horfust þær í augu og á samri stundu varð jarðskjálfti í Bárðarbungu upp á fjóra á Richter. Sú fyrrnefnda flutti tveggja mínútna ræðu og settist svo aftur. Hin arkaði frá hálfétinni kjúklingabringu, frönskum og kokteilsósu og hvarf inn á klósett. Í gamla daga þótti víst eðlilegt að standa upp í almennilegum matarboðum og hrista sig dulítið. Þá seig maturinn í maganum soldið niður, loftið kom upp, menn ropuðu hressilega, sem þótti virðulegt, og svo var aftur sest og étið enn meira. Líklega hefði þingkonan getað sagt eins og Þorsteinn matgoggur í Manni og konu: „Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.“ Svo gerist það um leið og forseti danska þingsins lauk ræðu sinni að þingkonanan kom aftur inn í Súlnasalinn. Þær horfðust enn á ný í augu og það var einmitt þá sem sumarbústaðurinn Skriða í eigu Richters fjölskyldunnar varð eldi að bráð. Þingkonurnar settust báðar, enda vel upp aldar og kunna mannasiði í fjölmenni. Sú íslenska  át kjullann sinn með góðri lyst enda magarýmið orðið miklu meira, forseti danska þingsins sötraði rödvinet og spjallaði við Steingrím sem sat henni á vinstri hönd. Í báðum var dálítið loft sem þær losuðu sig hljóðlaust við.

Samt dáðist ég enn meir að hinu, hve hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu,“ sagði hann Tómas. Þegar nánar er að gáð eru fasistinn og góðmennið ekki svo ósvipaðir. Ég sko meinaða ...

 

 


Ronaldo afhjúpaður, múgur sem telur og langur armur laga

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Alls greiddu 178 át­kvæði, 5 þeirra sátu hjá. 172 greiddu Íslandi at­kvæði eða 99,4% og hlaut Frakk­land eitt at­kvæði.“ Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Eitt það ljótasta sem sjá má í rituðu máli er þegar setning byrjar á tölustöfum. Þetta þekkist hvergi um hinn vestræna heim nema hjá óreyndu fólki eða fljótfærnu. Alls staðar er mælt gegn þessu.

Svo virðist sem að þessi ósiður fari vaxandi en líklega er hann árstíðabundinn. Fjölmargir góðir og vandaðir blaðamenn eru í sumarfríi og óreynt fólk hefur tekið við. Enginn les yfir, enginn leiðbeinir og allt endar í rugli. Prentvilla í fyrstu setningu.

 Tillaga: Alls greiddu 178 at­kvæði, 5 þeirra sátu hjá. Ísland hlaut 172 at­kvæði eða 99,4% og Frakk­land eitt at­kvæði.

2.

„Cristiano Ronaldo gengur brátt formlega í raðir Juventus á Ítalíu en allt er klappað og klárt í Tórínó fyrir afjúpun á besta fótboltamanni heims í dag.“ Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Þetta er óskiljanleg málsgrein. Hvað er eiginleg að gerast? Verður Ronaldo afhjúpaður, verður stytta af honum afhjúpuð eða er verið að kynna hann formlega sem leikmann Juventus? Þar að auki er orðið afhjúpun rangt skrifað í fréttinni.

Íþróttafréttamenn eiga margir hverjir afar erfitt með að skrifa skammlausa frétt. Vera má að blaðamanninn gruni að hvað orðið afhjúpun þýðir, og ágiskunin er þá notuð. 

Samkvæmt orðabók þýðir afhjúpun „að taka klæði eða dulu (af e-u)“. Væntanlega verður fótboltamaðurinn ekki hulinn teppi sem síðan verður svipt af honum eins og hann sé myndastytta. Sögnin að hjúpa merkir hins vegar að fela eða hylja.

Blaðamaður verður að hafa góðan orðaforða og vita hvernig á að nota hann. Samstarfsmenn eða yfirmenn eiga að benda á villur eða misskilning í skrifum. Gerist hvorugt endar fjölmiðillinn eins og visir.is sem býður daglega upp á skemmdar fréttir og enginn segir neitt.

Tillaga: Cristiano Ronaldo gengur brátt formlega í raðir Juventus á Ítalíu en allt er klappað og klárt í Tórínó fyrir kynningu á besta fótboltamanni heims í dag.

3.

„Flúði hinn langa arm laganna til Íslands.“ Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Fyrirsögnin segir ekkert um fréttina og er því gagnslaus. Blaðamaðurinn hefði allt eins getað skrifað sem fyrirsögn: „Enginn verður óbarinn biskup í Bandaríkjunum“ og haldið fréttinni óbreyttri. Orðtakið hinn langi armur laganna er venjulega notað yfir þá sem ekki tekst að fara huldu höfði, þeir nást oftast. Í fréttinni er ekkert um það.

Þarna er rætt um mann sem hafði ekki geði eða þolinmæði að bíða dómsúrskurðar í Bandaríkjunum heldur flúði til Íslands. Fréttin er afar þunn og ómerkileg, raunar illskiljanleg nema þetta með flóttann.

Ekkert réttlætir orðalagið langur armur laganna. Lesandinn kynni að láta sér detta í hug að ekki þýddi fyrir manngreyið að flýja hingað til lands, hinn langi armur laganna myndi ná til hans hér. Því er þó ekki að heilsa ef marka má fréttina

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta illa framborin frétt enda virðist ritstjórn Vísis meta magnið meira en gæðin. Þar af leiðandi er lesendum ítrekað boðið upp á skemmdar fréttir.

 Tillaga: Sakfelldur í Bandaríkjunum og flúði til Íslands.

4.

„Ind­versk lög­reglu­yf­ir­völd hafa hand­tekið að minnsta kosti 25 manns eft­ir að múgur, sem taldi allt að tvö þúsund manns, tók mann af lífi án dóms og laga seint á föstu­dag.“ Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Hvað taldi múgurinn? Hér fer betur á að segja að hann hafi verið allt að tvö þúsund manns.

Hvergi í fréttinni kemur fram hver hafi verið myrtur þó leiða megi líkur að því að það hafi verið sá sem nefndur er á nafn.

Annars er fréttin í Mogganum hraðsoðin og illa skrifuð. Hún tekur ekkert á því sem segir í Express Tribune, sem þó virðist vera heimildin, án þess að hennar sé getið. Í því blaði segir:

Police said Azam and his companions were returning to neighbouring Hyderabad city after visiting their friend in Bidar when they stopped midway and offered chocolates to local children

Blaðamaðurinn þýðir þetta þannig: 

Lög­regl­an seg­ir Azam og vini hans hafa verið að snúa aft­ur til borg­ar­inn­ar Hydera­bad eft­ir að hafa heim­sótt kunn­ingja þeirra í ná­grenn­inu.

Rétt þýðing er að fólkið var á leiðinni til baka, ekki að það hafi verið að snúa aftur.

Hægt er að gera fleiri athugsamdir við orðalag fréttarinnar. Þar að auki er algjörlega sneitt framhjá öðru sem fram kemur í erlenda blaðinu en það eru aftökur án dóms og laga á Indlandi, 21 morð frá því í maí.

TillagaInd­versk lög­reglu­yf­ir­völd hafa hand­tekið að minnsta kosti 25 manns eft­ir að múgur tvö þúsund manna tók mann af lífi án dóms og laga seint á föstu­dag.

Viðbót: Fréttinni var gjörbreytt kl. 21:20 þann 15. júlí. Hún er orðin allt önnur og miklu betri. Í fljótu bragði er ekkert við hana að athuga enda er hún orðin til fyrirmyndar, sjá hér. Fyrri fréttin er þó enn inni á mbl.is. Ágætt að bera þær saman.

5.

„Funda um leif­ar frá Kór­eu­stríðinu.“ Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Í fréttinni er ekki verið að tala um afganga, dót eða rusl frá tímum Kóreustríðsins heldur jarðneskar leifar fólks. Svona fyrirsögn er gjörsamlega óboðleg.

Hefur blaðamaðurinn engan skilning á því að kvenkynsnafnorðið leif (fleirtalan leifar) hefur fleiri en eina merkingu?

Síðar segir í þessari örstuttu frétt:

Af­hend­ing leif­anna, sem rekja má aft­ur til Kór­eu­stríðsins á ár­un­um 1950 til 1953, …

Þetta er bara bull. Lík eða jarðnesku leifarnar eru hermanna sem féllu í stríðinu. Það er hafið yfir allan vafa, þarf ekki að rekja eitt eða neitt. Blaðamaðurinn er úti að aka.

Les enginn yfir það sem viðvaningar á Mogganum skrifa? Fá þeir enga tilsögn? Skiptir magn frétta meiru en gæðin?

Fréttin er hörmulega illa skrifuð. Ótrúlegt.

Á fréttaveitunni Reuters segir um sama mál í fyrirsögn:

U.S., North Korea in rare talks over remains of Korean War soldiers: Yonhap

Líklega er betra að lesa fréttina á vef Reuters til að fá skilning á frétt Moggans.

Tillaga: Fundað um jarðneskar leifar hermanna úr Kóreustríðinu.


Hvernig er hægt að elta drauma eða fórna fæðingu?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Hvað fær dagfarsprúða 101-fjölskyldu til að venda kvæði sínu í kross og elta drauma sína austur á land?“ Úr viðtali/frétt í aukablaði um mat í Morgunblaðinu 28.06.2018.         

Athugasemd: Hvers vegna flúðu draumarnir austur á land? Þetta var það eina sem mér datt í hug þegar ég las þessi orð.

Raunar segir á ensku „follow your dreams“. Kassalaga skrifarar og fáfrótt fólk heldur að þar með eigi maður að „elta“ drauma sína. Ekki er það nú svo á íslensku. Draumar flýja ekki og enginn eltir drauma.

Talsverður munur er á ensku og íslensku þó málin séu skyld. Hið versta sem þýðandi gerir er að þýða orðrétt. Það getur „Google-Translate“ gert og oft mun betur. Þýðingarforrit hefur þó hvorki hugsun eða tilfinningu en þýðandi af holdi og blóði hlýtur að hafa hvort tveggja.

Niðurstaðan er því sú að við viljum láta drauma okkar rætast. Okkur dreymir og við eigum drauma, langanir og þráum eitthvað. Við eltumst ekki við langanir okkar, óskir eða þrár. 

Tillaga: Hvað fær dagfarsprúða fjölskyldu úr miðborg Reykjavíkur til að venda kvæði sínu í kross og láta drauma sína rætast austur á land?

2.

„Ell­efu manns úr sömu fjöl­skyldu fund­ust látn­ir í húsi í Nýju-Delí á Indlandi, tíu þeirra héngu úr loftinu, að sögn lög­regl­unn­ar.“ Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Eitthvað er nú flausturslegt við þessa málsgrein um hræðilegt mál. Í frétt BBC um málið, sem raunar er heimild blaðamans Moggans segir:

Eleven members of an extended family have been found dead in a house in  India´s capital, Delhi - 10 of them hanging from the ceiling, police say.

Þarna er þýtt beint og án hugsunar. Slæmt að þurfa að gera athugasemd við þetta en fólkið hafði verið hengt eða hengdi sig. Óþarfi að segja að það hafi verið „hangandi úr loftinu“, þannig er ekki tekið til orða á íslensku. Hæla má þó blaðamanninum fyrir að nota ekki töluorðið 10, heldur skrifar hann tíu.

TillagaEllefu manns úr stórfjölskyldu fundust hengd í húsi í Nýju-Delí á Indlandi að sögn lögreglunnar.

3.

„Hóp­ur af ís­lensku landsliðsmönn­un­um hef­ur sleikt sól­ina í Miami síðustu daga.“ Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Dálítið þetta stirt orðalag. Mun eðlilegra er að segja að hluti af íslensku landsliðsmönnum hafi sleikt sólina eða nokkrir landsliðsmannanna hafi gert það.

Tillaga: Nokkrir íslensku landsliðsmannanna hafa sleikt sólina í Miami síðustu daga.

4.

„Fórn­ar fæðingu barns­ins síns.“ Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Þetta er hörmuleg fyrirsögn. Hvernig er hægt að fórna fæðingu? Skilur blaðamaðurinn ekki sagnorðið? Með góðum vilja má ráða þannig í merkinguna að karlinn, ekki konan hans, ætli ekki að vera viðstaddur fæðingu barnsins síns því hann ætlar að taka þátt í fótboltaleik enda í landsliði Svía á HM.

Má vera að þetta sé „fórn“ í óeiginlegri merkingu en sem fyrirsögn skilst hún ekki vegna þess að val karlsins er ekki fórn. 

Svona búa margir til fyrirsagnir, láta að einhverju liggja sem skýrist í fréttinni sjálfri, í stað þess að búa til góða fyrirsögn sem segir sögu og dregur að. Hægt er að þjálfa sig upp í gerð fyrirsagna en íþróttablaðamann nenna einna því síst allra blaðamanna. 

Tillaga: Faðirinn velur fótboltann ekki fæðinguna.

5.

„Fótboltahátíð í höfuðstað Norðurlands.“ Fyrirsögn á bls. 2 í Morgunblaðinu 05.07.2018.         

Athugasemd: Akureyri er ekki höfuðstaður Norðurlands og hefur aldrei verið. Á Morgunblaðinu er það einn ákveðinn blaðamaður sem viðheldur þessum hvimleiða áróðri enda búsettur á Akureyri. Hvar annars staðar? Hann ætti kannski að flytjast til Húsavíkur.

Fyrir þá sem ekki vita nær Norðurland frá Hrútafirði í vestri til Langaness í austri. Landshlutinn er gríðarlega ólíkur innbyrðis og ekki furða þótt honum sé að öllu jöfnu skipt í Norðurland vestra og eystra. Raunar ætti þriðja skiptingin að fylgja með sem er Eyjafjörður. Veðurfarslega eru þessu hlutar Norðurlands afar ólíkir. Menningarlega eru bera þeir hver sín ólíku einkenni sem auðvitað er mjög jákvætt.

Tillagan hér að neðan er gerð í einhverri kerskni enda ómögulegt annað.

Tillaga: Fótboltahátíð í þorpi syðst í Eyjafirði.

 


Íslensk tunga verður útdauð eftir tuttugu ár

Það þarf að fara fram einhvers konar vitundarvakning sem felur í sér að fólk átti sig á því að íslenskan á alltaf við, alls staðar. Ef við höldum því ekki til streitu þá erum við komin á hættulega braut. Jafnframt þurfum við að leggja áherslu á það að auðvitað er enskan mikilvæg og það er sjálfsögð kurteisi og þjónusta við fólk sem heimsækir okkur að nota hana. Enskan má bara ekki útrýma íslenskunni.

Þegar virtur fræðimaður eins og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, tekur svona til máls (í viðtali á bls. 10 í Morgunblaði dagsins), veltir maður því fyrir sér hverjir hérlendir eigi að taka að sér vörn fyrir íslenskuna fyrst fræðimennirnir sitji hjá. Í orðum hans er felst ekkert annað en uppgjöf, enginn eldmóður engar hugmyndir eða tillögur.

Raunar eru uppgjöfin enn víðar. Ferðaþjónustan hefur engan áhuga á viðgangi íslenskunnar. Fyrirtæki eru kölluð enskum nöfnum, meira að segja skráð þannig athugasemdalaust í fyrirtækjaskrá. 

Banki heitir Arion, flugfélag Iceland Air Connect, rútufyrirtæki Iceland Excursions, rekstraraðili flugvalla Isavia, hvalaskoðunarfyrirtæki Gentle Giant, rukkunarfyrirtæki Motus, fataframleiðandi Cintamani, veitingahús Lemmon, gleraunasala Eyesland, bókhaldsfyrirtæki Accountant, tískuverslun Black Pepper Fasion og svo framvegis í langan tíma. 

Almenningur er algjörlega sofandi, ekki heyrist múkk vegna yfirgangs enskunnar. Fólki virðist almennt sama.

Fjölmiðlarnir gera lítið í að vekja athygli á þessu. Blaðamenn, fréttamenn og dagskrárgerðarfólk í útvarpi og sjónvarpi af yngri kynslóðinni eru margir hverjir illa skrifandi á íslensku, hafa lítinn orðaforða og geta ekki skammlaust þýtt greinar af ensku án þess að brúka enska orðaröð. Verst er að útgefndum, ritstjórum og öðrum er algjörlega sama.

Hvað segir þetta um menntakerfið, kennaranna? Ábyrgð þeirra er mikil rétt eins og okkar foreldra. Við erum að ala upp enskumælandi kynslóðir.

Stjórmálamenn er flestir steinsofandi, þeir vilja að vísu vel, en gera þó ekkert. Og hvað ættu þeir svo sem að gera þegar fræðasamfélagið virðist hafa gefist upp rétt eins og Eiríkur Rögnvaldsson.

Eldmóður fyrir íslenskunni fyrirfinnst ekki. Örfáir tuðarar eins og sá sem hér skrifar eru hingað og þangað en það er allt of sumt.

Í ár fagnar þjóðin 100 ára afmælis fullveldisins. Hvers virði er heil öld ef við erum að glata tungunni.

Jarðfræðingar hafa bent á að fari sem horfir munu allir íslenskir jöklar verða horfnir eftir um 150 ára. Ég spái því að eftir tuttugu ár verði íslenskt mál horfið og þjóðin tali ensku.

Allar líkur benda til þess. Viðspyrnan er engin. Skýr merki um uppgjöf er allt í kringum okkur.


mbl.is Enskan orðin sjálfsögð á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhliða fréttir af kjarabaráttu ljósmæðra vekja grunsemdir

Höfum eitt á hreinu. Ljósmæður eru eins og margar aðrar stéttir, afar mikilvægar í atvinnulífi landsmanna. Því til viðbótar eru ljósmæður afar viðkunnanleg stétt eða eins og sagt er á ensku máli „sympathetic“, svo maður leyfi sér að sletta aðeins.

En góðir lesendur. Sleppum allri viðkvæmni og lítum á kjarabaráttu ljósmæðra algjörlega hlutlausum augum. Tökum ekki afstöðu. Þá má sjá hvernig stéttin notfærir sér almannatengla til að koma upplýsingum á framfæri og fjölmiðlar gleypa við öllu.

Síðasta föstudag tóks fréttastofa Ríkisútvarpsin gagnrýnislaust við áróðrinum og bauð upp á langt viðtal við tvær ljósmæður sem voru að segja upp störfum og í lokin vantaði ekkert upp á að fréttamaðurinn tæki afstöðu með viðmælendum sínum. Hann braut þar með á einföldu reglu í blaðamennsku misnota ekki stöðu sína einhverjum til framdráttar. Fréttin var bullandi hlutdræg. Ó, hvað ég var nú samt hlyntur öllu því sem ljósmæðurnar sögðu. Svo spyr ég mig: Gleypi ég gagnrýnislaust við áróðrinum?

Aldrei er leitað til viðsemjenda ljósmæðra, ríkisins. Hvernig skyldi standa á því að þær fái ekki „réttláta launahækkun“ svo gripið sé til orðalags stéttarinnar?

Í sömu fréttum er mikið gert úr því hversu yfirvinnubann er hræðilegt fyrir konur sem komnar eru að fæðingu. Enginn blaðamaður spyr þá hvers vegna ljósmæður eru að boða yfirvinnubann. Um leið láta þær í orðinu liggja að afleiðingar bannsins séu á ábyrgð ríkisins. Auðvitað gengur þetta ekki upp en samt eru fréttir í hljóðvarpi, sjónvarpi, neti og prentmiðlum uppfullar af áróðri ljósmæðra og meintri ábyrgð ríkisins.

Enginn veit hverjar kröfur ljósmæðra eru. Þær segjast vilja fá sömu kjör og hjúkrunarfræðingar. En er það svo? Hefur einhver blaðamaður kannað hver kjör ljósmæðra eru, hvaða laun þau fá frá Landspítalanum? Nei enginn! Fjölmiðlar spyrja einskis, gleypa við því að fullyrðingar ljósmæðra um laun sín séu rétt.

Takið svo eftir þætti Landspítalans. Hann heldur sér algjörlega til hlés, lætur sem þetta mál allt sé á ábyrgð ríkisins. Aldrei benda yfirmenn spítalans á eitt eða neitt sem gæti lagað kjör ljósmæðra. Nei, á þeim bænum er þagað og aðeins bent á að efnahags- og fjármálaráðuneytið ráði för. Auðvitað er það ekki þannig að risastór ríkisstofnun hafi ekkert um kjaramál að segja. Þögnin er bara hluti af pólitískri baráttu stjórnar spítalans um meira fé sem bendir aðeins til að reksturinn gæti verið betri. Leynt og ljóst er spítalinn í stríði við ríkissjóð.

Hér er ágætt að endurtaka það sem áður var sagt, ekki er nein afstaða tekin með eða á móti kjarabaráttu ljósmæðra. Eingöngu verið að benda á hversu fáar fréttir berast. Fréttirnar eru algjörlega sagðar frá sjónarhóli annars aðilans og þar að auki eru núverandi laun ljósmæðra leyndarmál, ekki launataflan heldur útborguð laun.

Til viðbótar eru ljósmæður svo „ofboðslega þreyttar“, rétt eins og hjúkrunarfræðingar. Og fréttamenn í sjón- og hljóðvarpi segja frá þessum tilfinningum samviskusamlega.

Veistu hvað? ágæti lesandi. Ég held að það sé meira í þessari kjarabaráttu en fjölmiðlar sláta í veðri vaka. Það getur hreinlega ekki verið að ríkisvaldið hafi allan þennan tíma aðeins verið að berja á ljósmæðrum og „sanngjörnum kröfum“ þeirra. 

Auðvitað kunna einhverjir að segja að ríkið sé vont og leiðinlegt við þessar yndislegu ljósmæður. „Bjarni, ætlar þú að taka á móti barninu mínu,“ stendur á mótmælaspjöldum fyrir utan Karphúsið. Hvers konar bull er nú þetta? Jú, áróður sem allir gleypa við. Um leið kemst enginn inn nema ganga í gegnum leggöng. Fjölmiðlar bergmála þetta svo samviskusamlega að ég var lengi á þeirri skoðun að ríkið væri af einskærum skepnuskap á móti ljósmæðrum.

Er ekki gott að fjölmiðlar fari að taka sér tak og birti eitthvað annað en tilbúnar fréttatilkynningar frá almannatenglum Ljósmæðrafélagsins? Er ekki líka kominn tími til að fjölmiðlar hætti bara að láta mata sig í þessu máli? Látum önnur liggja á milli hluta. Er ekki kominn tími til að við, neytendur frétta, sjáum í gegnum áróður Ríkisútvarpsins?


mbl.is „Tökum ekki hverju sem er“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband