Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Það má ekki pissa bakvið hurð ...

Það má ekki pissa bakvið hurð 
og ekki henda grjóti oní skurð 
ekki fara í bæinn 
og kaupa popp og tyggjó 
og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó

DSC_7729Uppeldi okkar er svo ráðandi þáttur í skapgerð flestra að sumir geta hreinlega ekki hætti því að ala mann upp. Þar með verður svo margt til sem er bannað, rétt fram kemur í snjöllu ljóði eftir Sveinbjörn Baldvinsson „Lagið um það sem er bannað“. Flestir þekkja fyrsta erindið.

Svona löngun til að ala mann upp brýst einna helst fram í því að maður má helst ekki hafa aðra skoðun en þá sem „uppeldisfræðingarnir“ telja viðtekna.

Ef til vill er það í tilefni áramótanna að mér flugu í hug það sem ekki má nefna. Viðurlögin við slíku eru oft harkaleg.

Sigmundur

Ekki er gott að sitja í potti og skjóta því inn í þrjátíu og fimm gráðu heitar umræðurnar að svo virtist sem að Sigmundur Davíð hafi lent í fyrirsát í Kastljósinu síðasta vetur. Augnabliksbroti kólnar niður fyrir frostmark í pottinum, tíu andlit snúast á hálsliðu, augu sem áður voru hálflukt verða galopin, hakan fellur með skvettu niður á bringu og kólnandi soðið af fólkinu tekur að sullast inn. Mér fannst þetta svona eins og í Zombie-mynd þegar óværurnar finna lykt af fersku blóði.

Hér skipta rök engu máli, það má ekki taka afstöðu sem túlka má sem stuðning við Sigmundi Davíð. Hér gildir ein og sönn ríkisskoðun, svo vitnað sé til Marteins Ladda Mosfells, og það er sú sem Ríkissjónvarpið hefur opinberað. Ég hrökklaðist virðulega upp úr pottinum og fór í annan fámennari.

Jamm og já ...

DSC_7492 B - Version 2Skoteldar

Ekki misskilja mig, ég hef mikið álit á björgunarsveitum landsins en ... hver segir að þær megi að einoka skoteldamarkaðinn. Ég er bara á móti einokun, hvaða nafni sem hún nefnist og hver svo sem tilgangurinn er. Í þokkabót finnst mér að þeir sem stuðla að mengun í landinu eiga að hugsa sinn gang. Svo er það álitamál hvort að skothríð um áramót sé ekki bara úreltur siður. Miklu gáfulegra væri að fólk fari bara út á svalir eða út í garð og tæki lagið, með eða án undirleiks.

Þetta lét ég út úr mér í strætó um daginn, var á leiðinni niður á Lækjartorg. Heldur lá mér hár rómur og heyrðu aðrir farþegar orð mín og bílstjórinn líka. Þetta var allt í lagi, ég komst gangandi niður á Torg á sjö mínútum.

Nema hvað ...?

DSC_7810 BBrjóst

Fyrir mörgum árum spurði einhver fjölmiðillinn þáverandi fjármálaráðherra að því hvers konar konum hann líkaði best við. Frekar undarlegt að leggja svona spurningu fyrir ráðherrann en hann svaraði því á þá leið að hann legði nú aldrei dóm á fólk fyrr en hann hefði náð að spjalla við það. Þetta þótti mér gáfulegt svar og hljóma sennilega.

Góður vinur minn sem ég þekki hvorki haus né sporð á hneykslaðist á svarinu og óumbeðinn sagðist honum líka best við konur með stór brjóst. Því miður heyrði konan hans þessi orð og var hún ekki eðlilega ekki sátt. Maðurinn fékk fulla sjón á vinstra auga eftir sex vikur og nokkru síðar skildu þau í kjölfarið.

Það er nú það ...

DSC_7832 B - Version 2Davíð

Eitt sinn var ég í ónefndu bæjarfélagi við austanverðan Miðfjörð og var á leið með öðrum manni niður stigagang. Á miðri leið mættum við konu nokkurri sem heilsar hressilega þeim sem með mér gekk. Hún spyr hann hvers konar djö... fífl þessi Davíð Oddsson væri en sá ágæti maður hafði verið skömmu áður í útvarpsfréttum. Hann svaraði nú frekar fáu, þekkti greinilega konuna, og vildi ekki gera henni það til geðs að ræða mikið um forsætisráðherrann. Þar með snéri hún sér að mér og spurði sömu spurningar. Oftast er ég frekar bóngóður, stundum ræðinn en ávallt heiðarlegur í tali. Þess vegna svara ég á þá leið að mér finnist Davíð Oddsson vera drengur góður, ég hafi lesið mikið eftir hann og hlustað á fundum og kann fátt illt um manninn að segja.

Þarna var ég næst því staddur að lenda í álíka stöðu sem Eyjólfur Þórðarson var í er Auður Vésteinsdóttir barði hann á nasirnar með fésjóðnum eins og segir í Gísla sögu Súrssonar. Það er að segja að ég hélt að konan ætlaði að berja mig fyrir að láta ekki eitthvurt ill orð hrjóta um Davíð Oddsson. Félagi minn varð mér til bjargar og dró mig niður tröppurnar en konan argaði óyrði um mig og Davíð og heyrðist í henni löngu eftir að ég ók burtu úr bænum. 

Þarna hef ég líklega lent í mestri lífshættu á ævin minni. Hef þó hrapað í jökulsprungu, villst á Vatnajökli, lent í óviðri á Emstrum, vaðið Hvanná í leysingum og farið á fund hjá Steingrími J. Sigfússyni, svo einhverjar hrakningar séu nefndar.

Sigurður minn, sagði sá sem barg mér: Þú þarft ekki alltaf að svara með ræðu. Síðan hef ég passað mig.

DSC_7905 BJæja ...

Þetta var nú bara hamrað á lyklaborðið til að drepa tímann. Er að fara í matarboð til sonar míns og tengdadóttur þar sem fleira gott fólk bíður. Þar verður líklega horft á leik í enska boltanum sem hefst eftir nokkrar mínútur. Vonast til að Manchester City mali Liverpool, það árans montlið.

Enn og aftur óska ég lesanda mínum gleðilegst árs og að næsta ár verði miklu, miklu betra.

Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið
það er alltaf að skamma mann
þó maður geri ekki neitt
það er alltaf að skamma mann.

Það er nebbnilega það ...

 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr spariskúffunni. Teknar á Vífilsfelli og nágrenni.

 


Áramótaávarp eins og þau gerast leiðinlegust

FlugeldarÁgætu landsmenn (borið fram með djúpri, tilgerðarlegri röddu),

Á þessum tímamótum er gott að gera upp fortíðina og líta til framtíðar. Má vera að ég hafi valdið einhverju efnahagshruni. Hugsanlega er ég ábyrgur fyrir tapi Landsbankans á sölu hlutabréfa í Borgun og svo getur vel verið að ég hafi ekið of hratt í á fagurri sólarnóttu frá Hólmavík til Reykjavíkur. Ég gæti nefnt fleira og alvarlegra.

Um þetta má endalaust deila, jafnvel karpa og hugsanlega rífast. Skynsamlegast er þó að láta þetta liggja í þagnargildi enda ég sé strax eftir þessari upplýsingu.

Lítum frekar til framtíðar enda eru litlar líkur á því að ég geti hjálparlaust valdið efnahagshruni enda stendur hugur minn til annarra ódæða. Ekki mun ég ábyrgjast sölu hlutabréfa fyrir einn eða neinn í náinni framtíð, hef öðrum afglapahnöppum að hneppa. Og síst af öllu er ég líklegur til brjóta hraðareglur umferðalaga frekar en fyrri daginn.

Um leið og ég varpa ofangreindu út í myrkvað algleymið er ekki úr vegi að minna á þjóðarleirskáldið sem kvað:

Hvað? spurði karlinn og kvað
kvæði og ég veit ekki hvað.
Það skrifaði hann með hrað,
hróðugur og svo er nú það.

Þetta er hrein snilld, svo ég segi sjálfur frá. Að lokum er ekki úr vegi að minnast á þá sem senda frá sér ómerkileg og leiðinleg áramótaávörp, draga jafnvel blessuð þjóðskáldin nauðug inn í hjal sitt og misnota hin fegurstu ljóð sem við það verða eins og hringmiginn fjallaskáli að vetrarlagi. Öllum til andstyggðar.

Þá er snöggtum skárra að hafa sem fæst orðin, óska einfaldlega gleðilegs árs og eftir þörfum að það komandi verði gæfuríkt. Eða bara sleppa því ef helv... ódámurinn á ekkert gott skilið.

Verst er þó af öllu að vera allsgáður og hripa svo niður þennan dómadags leiðinlegan texta.

Ég óska þeim sem álpast til að hafa lesið þetta óráðshjal fram að síðasta punkti, gleðilegs árs og vona að það næsta verði þeim miklu, miklu betra.

Ætíð er innistæða til bjartsýni. 

Þökk þeim sem hlýddu (þýðir að hlusta, ekki að fara að fyrirmælum (veit ekki hvort lesandinn aðhyllist íslensku eða ísl-ensku)).

Skál.


Píratinn McCarthy sem talar tungum tveim

SmáriNýkjörinn þingmaður Pírata, Smári McCarthy, gerði fyrir hönd Pírata tilraun til að mynda ríkisstjórn á Íslandi. Flokkurinn ætlar sér að breyta íslenskum stjórnmálum til betri vegar.

Ástæða er til að draga einlægni mannsins í efa og þar af leiðandi flokksins.

Götustrákar vaxa úr grasi og flestir breytast. Þeir læra nýja siði, þroskast og læra samskipti. Aðrir eru þó til sem ekkert nýtt læra og halda sig við það sem þeir best kunna og tileinkuðu sér á götunni. Þar gildir hávaðinn, lætin, eineltið, ofbeldið ...

Síst af öllu rökræður, yfirvegun kurteisi og gott viðmót.

Sá sem lætur hafa eftir sér formælingar á borð við þær sem birtast á meðfylgjandi mynd af Twitter getur varla verið vel innrættur.

Látum vera þó verðandi forseti Bandaríkjanna sé illa þokkaður og jafnvel vondur. Sá sem kann ekki að stilla orðum sínum í hóf á ekki að sitja á Alþingi Íslendinga. Og þar að auki bendir orðalag þingmannsins til þess eins að hann sé ekki vel að sér í enskri tungu, þrátt fyrir eftirnafnið. Mjög auðveldlega er hægt að tjá skoðanir sínar á ensku án þess að nota þetta heimskulega „f“ orð. Notkun þess sýnir bara innrætið.

Á vefritinu stundin.is skrifar Smári McCarthy, núverandi alþingismaður:

Hvers vegna þjóðarsálin er svo heiftug? Hvers vegna er svona erfitt fyrir fullorðið fólk að eiga samtal án þess að úr verði gífuryrtur leðjuslagur?

Síðar í sömu grein segir maðurinn:

En ég óttast að ef samfélagsumræðan bæði á Alþingi og í fjölmiðlum fer ekki að batna mun lítið duga til langs tíma að óska eftir skynsömum umræðum.

Það mun koma sá tími þar sem enginn hreinlega man hvernig á að færa rök fyrir máli sínu, vera kurteis og gagnrýninn, og jafnvel stafsetja einföldustu orð.

Já, þetta er sami maðurinn og skrifaði textann sem birtist á myndinni hér fyrir ofan. Hann er skrifaður 28. desember 2015, aðeins rúmum hálfum mánuði eftir að hann formælti Donald Trump.

Er hægt að treysta svona manni? Er hægt að treysta Pírötum?

Einn daginn formælir hann frambjóðenda í forsetakjöri í útlöndum og annan daginn hvetur hann til hófstilltrar umræðu hér innanlands. 

Á hreinni íslensku er svona maður kallaður tvöfaldur, tali tungum tveim, sé óútreiknanlegur.

Slíkum er ekki treystandi, síst af öllu á löggjafarþinginu.

Myndina af Twitter er fengin af grein á vefritinu pressan.is þar sem fjallað er um þingmanninn.


Víkverji og járnhylkin

Karíus og BaktusVíkverji er nafnið á skemmtilegum dálki í Morgunblaðinu. Í honum túlka blaðamenn hugsun sína, stundum á fjölbreyttan og skemmtilegan máta eins og í dag. Höfundurinn leggur út af Karíus og Baktusi þeim bráðfyndnu karakterum í sögu hins norska Thorbjörn Egner. 

Þeir kumpánar eru fulltrúar þeirra eyðingarafla sem skemma tennur mannfólks og vilja ekkert meir en sykurmeti, sem allir vita að er afar óhollt gott. 

Dálkur Víkverja er stuttur og því er hér tekið það Bessaleyfi að birta hann í heild:

Dagur og HjálmarKaríus og Baktus leynast víða. Það fyrsta sem Víkverja dettur í hug í því sambandi er frásagnirnar endalausu af ráðsmönnunum, sem helst ber á góma í tengslum við eyðileggingu og holur og berja göt í allt sem heilt er að hætti norsku bræðranna.

Karíus og Baktus leynast víða. Það fyrsta sem Víkverja dettur í hug í því sambandi er frásagnirnar endalausu af ráðsmönnunum, sem helst ber á góma í tengslum við eyðileggingu og holur og berja göt í allt sem heilt er að hætti norsku bræðranna.

Annar ráðsmannanna sá til þess í aðdraganda jóla að fjölmiðlar birtu af honum myndir með öxina á lofti við eyðingu skóga og hinn hélt sig við eyðingu gatna. Hugsunarháttur þeirra kemur vel í ljós í þýðingu Huldu Valtýsdóttur:

Kóngalífi lifum við,
látum aldrei Jens fá frið,
höggvum, höggvum nótt og dag ...

Í sögunni um Karíus og Baktus var bræðrunum norsku refsað eins og vera ber en í raunveruleikanum leika hinir íslensku enn lausum hala. Þó ekki á hjóli, því enginn hefur sést á hjóli undanfarna daga í borginni, ekki einu sinni á Kemstvallagötu, Ervallagötu eða Finnstvallagötu.

Á jólum átu margir og drukku sem mest þeir gátu en eftir sátu sölumennirnir með sárt ennið í huga ráðsmanna. Til hvers að bjóða upp á þessar vörur, þegar þær seljast eins og heitar lummur? heyrðist spurt hjá þeim í ráðhúsinu, að sögn.

Tvímenningarnir, sem öllu ráða í borginni, hafa haft þetta hugfast allt kjörtímabilið. Til hvers að bjóða upp á mat í leikskólum þegar börnin klára alltaf af disknum? Til hvers að hreinsa götur og stíga ef þau fyllast aftur af drullu og skít?

Til hvers að tæma ruslatunnur ef þær fyllast alltaf aftur? Til hvers að vera með flugbraut ef hún er aðeins notuð til þess að bjarga mannslífum? Til hvers að bæta við nýjum akreinum þegar ökumenn bíla nota þær bara til þess að greiða fyrir umferð og komast leiðar sinnar?

Samgöngukerfi er ekki til þess að koma þessum járnhylkjum á milli staða, sagði ráðsmaðurinn og þar við situr, þegar árið 2017 er handan við hornið. Thorbjörn Egner hafði annað í huga.

Minni í leiðinni á þennan pistil.


ESB, rakettur og múlasnar ...

BrennaSkömmu fyrir áramót tilkynntu fréttamenn að ESB hefði ákveðið að Íslendingum skyldi hér eftir vera óheimilt að skjóta á loft tilteknum gerðum flugelda á gamlaárskvöldi.

Svo segir í leiðara Morgunblaðs dagsins. Í honum er fjallað um skrifræði Evrópusambandsins, já þess hins sama og Samfylkingin Vinstri grænir og fleiri flokkar vildu að Ísland sameinaðist.

Í ESB ráða kommissarar sem bera enga lýðræðislega ábyrgð. Þeir stjórna og gefa út lög og reglur sem ríkjum sambandsins ber að samþykkja og skrifa undir. Ekkert ríki hefur rétt til að breyta þeim eða laga þau að aðstæðum í landi sínu. Þess vegna gilda hér lög um múlasna.

Hversu asnalegt sem það nú er mega Íslendingar ekki skjóta upp tilteknum tegundum flugelda á gamlaárskvöldi, eins og segir í leiðara Morgunblaðsins. Þar segir ennfremur:

Engin flugbjörgunarsveit hefur selt flugelda sem ná til meginlands Evrópu. Þetta mál kemur búrókörlum í Brussel og kerlingum þeirra ekkert við. Hvers vegna í ósköpunum kysstu menn auðmjúkir þennan ómerkilega vönd eins og hina. Vissulega hafa verri mál verið kjössuð.

En eru flugeldar á íslensku gamlaárskvöldi þúsund kílómetra „frá Evrópu“ svo notaður sé frasi búrókrata, ekki úr seilingarfjarlægð þeirra? Íslendingum er heimilt að gera ekkert með þvælu af þessu tagi. ESB má þá grípa til „gagnráðstafana.“

Endilega að láta sambandið gera það, svo að skrípaleikurinn blasi við öllum.

Þetta litla mál er táknrænt. Það sýnir að embættiskerfið er stjórnlaust og að ístöðulausir stjórnmálamenn eru gagnslausir á vaktinni.

Engum dettur í hug að mótmæla heimskulegum skipunum frá ESB, hvað þá að hafa þær að vettugi.

Er nú ástandið á Íslandi orðið slíkt að við tökum möglunarlaust við skipunum að frá meginlandi Evrópu, breytum siðum og venjum til að þóknast þeim sem eru svo langt frá okkur og hafa um margt þarfara að hugsa en flugeldaskot okkar á gamlaárskvöld?

Næst má búast við því að bannað verði að borða kæsta skötu, svokallaður þorramatur verði aflagður, bannað verði að ganga á fjöll eftir sólsetur í Brussel, brennur verði bannaðar, rekstur björgunarsveita verði bannaðar nema í þeim séu starfsmenn á fullum launum og svo má lengi telja upp það sem við höfum á annan hátt en þeir í Evrópu.

Má vera að við höfum ekki þrek til að berjast á móti tilskipunum frá Brussel vegna þess að EES samningurinn með kostum og göllum geri okkur værukær og við höfum gleymt að Ísland er sjálfstætt ríki og við séum ein þjóð. Þá erum við líka bölvaðir múlasnar og eigum ekkert betra skilið heldur en ístöðulausa stjórnmálamenn sem þykjast standa vaktina.

 

 

 

 

 


Maður nokkur verður fyrir því að Þorvaldur Gylfason hælir honum

ÞorvaldurÞau tíðindi gerðust í dag að Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, talaði hvorki illa um nokkurn mann né rægði í grein í Fréttablaðinu, sjá hér á visir.is.

Þvert á móti var greinin ein lofsaga um listamann nokkurn sem óumdeilanlega hefur skapað sér góðs orðs í listum en er þó umdeilanlegur í stjórnmálum. Hann situr nebbnilega í níunda sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík suður.

Sagt er að skrif Þorvaldar viti á gott. Aðrir taka þessum tíðindum mátulega og benda á fyrri greinar mannsins. Hann sé heiftúðugur, rætinn og hagræði iðulega sannleikanum lítilsháttar. Hið síðarnefnda er raunar talin hættulegust allra ósanninda, miklu verri en hálfsannleikurinn.

Hér er varla hægt annað en að hrósa Þorvaldi fyrir að hrósa listamanninum fyrir sýningu hans í Hirshhorn-safninu í Washington-borg. Það er eitthvað svo fjarska falleg þegar Þorvaldur sýnir gleði í skrifum sínum. Eitthvað svo fjarska, fjarska ... „Trúlegt“, botnaði maður sem átti leið framhjá og hló að mér um leið ...

Segi menn svo að Þorvaldur sé ekki uppspretta sannrar gleði.


Vegagerðin misnotar Reynisfjall illilega

ReynisfjallÍ sannleika sagt er lítið að því að búa til ný örnefni og finna þeim stað þar sem engin eru fyrir. Viðleitnin er góð því Ísland er í sannleika sagt ótrúlega fátækt af örnefnum. Þetta vita þeir sem ferðast um landið og safna þekkingu af landakortum af ýmsu tagi.

Skorturinn er þó ekki minna vandamál en þegar örnefni eru misnotuð, ekki notuð eins og venja er til. Um það ofbeldi fjallar pistillinn.

Starfsmönnum Vegagerðarinnar er stundum mislagðar hendur í starfa sínum. Það þættu til dæmis ekki góð vinnubrögð að moka snjó á vegi eða setja vegvísi á rangan stað. Ekki þykir heldur góð lenska að fara rangt með örnefni. Samt kemur hendir þetta Vegagerðina.

Mikill snjór var á jóladag og annan í jólum á Suðurlandi og lentu menn í vandræðum víða meðal annars á heiðinni norðan Reynisfjalls. Flestir ættu að þekkja fjallið. Undir því austanverðu stendur þéttbýlið Vík sem kennt er við Mýrdal.

Þegar Vegagerðin segir á ferðaupplýsingum segir hún heiðina heita Reynisfjall sem auðvitað er alrangt.

Fjallið fjall, ekki heiði, sérstaklega vegna þess að greinileg skil eru á fjallinu og umhverfi þess. Þar að auki er verið að „stela“ örnefninu Reynisfjall og færa það yfir stærra svæði en fjallinu nemur. Það telst einfaldlega vítavert. 

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Landmælinga Íslands. Á henni miðri er Reynisfjall og vegir sjást greinilega. 

Efst, nyrst, á myndinni sést þjóðvegurinn sveigja fyrir fjallið. Af þessu má ljóst vera að Reynisfjall á ekki við þetta svæði.

En hvað heitir svæðið þá? Ég leitaði til Þóris Níelsar Kjartanssonar, sem búsettur er í Vík, alinn upp í Mýrdalshreppi og þekki vel til. Hann útskýrði staðhætti í svari sínu og segir að þarna uppi vanti hreinlega örnefni en er ekki sáttur við Vegagerðina:

Já okkur Víkurum og öðrum Mýrdælingum finnst þetta ótrúlega asnalegt og er auðvitað alrangt.

Hvað ætti að koma í staðinn er svo kannski ekki alveg augljóst.

Þannig er að örnefni eru ekki alveg ljós á þessu svæði. Það er því ekki furða þó þeir hjá Vegagerðinni hafi lent í vanda með að finna nafn. Hins vegar er þrautalending Vegagerðarinnar alveg út í hött og ekkert annað en skemmdarverk að lengja Reynisfjall í norður.

Mér dettur ekkert annað í hug en að kenna heiðina fyrir norðan Reynisfjall við þennan sama Reyni og legg því til Reynisheiði. Má vera að það sé of djarft, heimamenn hafi ákveðna skoðun á landsvæðinu og leggist á mót því. En eins og Þórir Níels segir þá er Reynisfjall asnalegt nafn á svæðinu en hvað á að koma í staðinn?


Gleðileg jól ...

DSC_1992

Ekki veit ég hvers vegna tíminn æðir áfram hraðar og hraðar með hverju árinu sem líður.
Ég man ekki betur en að í síðustu viku hafi verið jól og áramót.
Og núna, aðeins nokkrum dögum síðar eru skyndilega aftur komin jól. Meiri vitleysan sem þetta er. Sko í mínu ungdæmi voru jólin aðeins verið einu sinni á ári, aldrei oftar.
Hvur breytt'essu, ha?

Ég var alinn upp við að fagna vetrarsólstöðum sem líklega er ævaforn siður hér á landi og ábyggilega víðar á norðurhveli jarðar. Forfeður okkar, sem lifðu á því sem landið gaf, fundu út að hér eftir hækkaði sól á lofti og þá var efnt til fagnaðar.
Aldeilis ástæða til að éta, drekka og syngja.

Nú koma vetrarsólstöður aungvum við lengur enda lifum við á því sem fæst í bónusum og nettóum. Þess í stað höldum við jól sem eru nú framleidd og framborin af þeim sem hafa það yndi mest að þukla á monningunum.
Já, meðan ég man, gleðilega verslun og hamingjuríkt kreditkort!

Enn kemur sólin fyrirhafnarlaust upp á hverjum morgni.
Án íhlutunar manna töltir jörðin sinn hring í kringum hana og hallar sitt á hvað undir flatt. Mannskepnan kann ekki að trufla þennan gang en hefur samt bein og óbein áhrif á margt annað í gangverki náttúrunnar. Nú hefur til dæmis verið votviðrasamt haust í þrjá mánuði, en á nýliðnum æskuárum mínum var hins vegar snjór á jörðu frá október og fram til vors.

Á vetrarsólstöðum og jólum er ástæða til að leiða hugann að göfugum málum sem varða umhverfi okkar og náttúru, land og haf ...
Nei … ég er bara að grínast. Fyrir alla muni látum ekki eitthvað svoleiðis trufla matarundirbúning, jólagjafakaup, skrautingar og annað sem tilheyrandi.
Nú eru jól, hæ og hó ...

Og þá man ég það.
Hvers vegna höldum við jól?
Einhver sagði þau vera heiðinn sið, annar nefndi jólasveinanna, jólagjafirnar, verslanirnar, börnin, blessuð kreditkortin, stýrivexti og fleira merkilegt var tilekið …
Sjálfur er ég ekki alveg viss, held að það sé eitthvað annað.
Man bara ekki hvað það er.
Manst þú það?
Láttu mig vita við tækifæri.

Til vara fylgir hér ósk um gleðileg jól og von um að nýja árið verði betri en líðandi.


Enn er ekkert nýtt undir sólinni ...

Fréttir eru ekki bara fréttir heldur eru þær fréttir. Svona „steypu“ má auðvitað túlka á margan máta. Þó er það pottþétta að sá sem einu sinni hefur verið blaðamaður verður það alla tíð. Þetta á ábyggilega við um mig.

Ekki veit ég hvort ég hafi verið góður blaðamaður en ég starfaði í nokkur ár sem slíkur og forframaðist svo mikið að loks varð ég ritstjóri (auðvitað á eigin blaði. Hvað annað?)

Fyrir nokkru var nokkuð rætt um grafíska hönnuði, þá sem einu sinni voru bara kallaði teiknarar. Einum slíkum varð það á að teikna bókarkápu sem líktist einhverju plakati úti í hinum stóra heimi. Mörgum mislíkaði.

Þá fór ég að hugsa (gerist ekki oft) og minntist þess að áður en tölvur og internetið kom til skrifaði ég grein í síðdegisblað sem ég vann á og hét það Vísir. Fyrirsögnin greinarinnar „Ekkert er nýtt undir sólinni“. Held að hún eigi enn erindi þó nú séu 38 ár síðan hún var skrifuð.

Hér er greinin og kjarni hennar er að við eigum að fara varlega með ásakanir:

Það er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni, sagan endurtaki sig alltaf. Fyrir nokkru var haldin sýning í Norræna húsinu og meðal sýnenda þar var Ernst Bachman teiknari. Hann sýndi gamlar tillögur sinar að merki fyrir Flugleiðir. Sú furðulega tilviljun blasir þá við að merki Ernst og það merki, sem Flugleiðir hafa ákveðið að gera að sínu eru svo til alveg eins. Hvernig má slíkt vera? Getur það verið að ameríska fyrirtækið sem hannaði Flugleiðamerkið hafi haft vitneskju um merki Ernst og apað eftir því? Án þess hafa neitt fyrir sér í þessu máli skál það þó dregið í efa.

Það er ekkert nýtt undir sólinni. Vísir birti fyrr á þessu ári mynd af merki fóðurvörufyrirtækis eins og Suður-Afríku, sem er svo til alveg eins og Flugleiðamerkið núverandi og mjög svipað merki Ernst Bachmans.

Það er mjög erfitt að hanna merki. Teiknarinn verður að hafa það í huga að merkið líkist ekki neinu öðru merki. Það verður að falla að starfsemi þeirri sem það á að standa fyrir og síðast en ekki síst verður það að vera grípandi, vekja athygli fólks.

Til þess að komast að því hvort merki líkist einhverju öðru getur teiknarinn flett upp í uppsláttarbók um merki. Þar getur hann fundið merki fyrir flestar atvinnugreinar og vörutegundir sem teiknuð hafa verið.

Teiknarinn getur líka með því að fletta upp í uppsláttarbók sparað sér mikla vinnu og vangaveltur. Hann velur bara eitt merkið og breytir því smávegis og hirðir síðan launin, en að teikna merki kostar fleiri hundruð þúsunda króna.

Nei, það getur varla verið að teiknarar beiti slíkum aðferðum. Það myndi fljótlega draga úr aðsókninni, spyrjist þetta út.

Blaðamaður fletti upp í nokkrum uppsláttarbókum og fann mörg merki sem líktust íslenskum merkjum.Það er þó langt frá því að verið sé að hala því fram að hugmyndirnar séu stolnar. Það er ekkert nýtt undir sólinni og sagan hefur fyrir löngu kennt okkur að hugsanir manna beinast inn á mjög svipaðar brautir hjá hverjum og einstökum.

Í þeirri von að íslenskir teiknarar misvirði það ekki, þá birtum við hér nokkur merki og tvíbura þeirra erlendis og á það að sýna, að þrátt fyrir að milljónir kílómetra skilji teiknara að og ekkert samband sé á milli, þá getaniðurstöður þeirra orðið svipaðar.

Þetta var heilsíðu umfjöllun og hér er mynd af síðunni. Hægt er að stækka hana með músarsmelli.

Merki

 


Yfir þrjú þúsund jólakveðjur út í tómið

JólakveðjurÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglegt.

Hitt er nú dagsatt að Ríkisútvarpið græðir í kringum tíu milljónir króna á tiltækinu. Í anda samkeppnis og þjóðþrifnaðar hyggst ég nú um áramótin bjóða landsmönnum að hrópa nýárskveðjur af svölunum heima. Takist vel til mun ég hrópa jólakveðjur af svölunum á næsta ári. Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,5% lægra.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna, í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks, þá staðreynd að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í tómið.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obboðslega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal tekið fram að höfundur fer jafnan út á svalir þennan dag)

(Myndin er af sérútbúnu ökutæki við dreifingu á jólakveðjum Ríkisútvarpsins. Hugsanlega  blandast einhver snjór með kveðjunun, en það er nú bara svoooo jólalegt)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband