Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013
Og hvar er nú guð þegar hans er þörf?
28.2.2013 | 21:25
Gamall maður, gerist þreyttur, gefst upp, fer á eftirlaun. Hann áttaði sig á því sem milljarður manna virðist ekki getað skilið. Elli kerling rekur endahnútinn á lífið. Jafnvel þó fólk sé sagt ganga með guði þá er ekkert víst að guð gangi með því. Í það minnsta nýtur páfinn þess ekki. Úthald hans, líkamlegur styrkur eða sá andlegi kemur ekki með sérsendingu að ofan heim í Vatíkanið.
Þetta, góðir lesendur, er sú leið sem maðurinn fetar smám saman. Hið besta fólk getur átt í líkamlegum og andlegum erfiðleikum sem engin megnar að leysa nema hugsanlega það sjálft. Guð hjálpar ekki neinum. Af hverju skyldi hann koma Benedikt páfa til aðstoðar en ekki manninum sem þjáist af hvítblæði og sér vart annað framundan en það sem páfinn stendur andspænis? Hvers vegna lætur guð alla þessa sorg líðast?
Grandvar og góður maður er sagður guði þóknanlegur. Í þessu felst siðferðilegur boðskapur er vissulega réttmætur. Þóknanleikans nýtur þó enginn eða hvers vegna á fjöldi manna í erfiðleikum með að fæða sig og klæða? Stærsti hluti mannkynsins er gott fólk. Lítill minnihluti er vont fólk en það kemst upp með ógnarverk sín, ofbeldi og jafnvel morð og sumir lifa í vellystingum fram á elliár? Guð er líklega önnum kafinn í öðrum stjörnukerfum.
Þannig vangaveltur hafa kvalið hvern hugsandi mann, allt frá upphafi tíma og fram til þessa dags. Svarið er einfalt. Sé guð til þá skiptir hann sér ekkert af, hann daufheyrist við öllum bænum og beiðnum eða þá að hann kemst hreinlega ekki yfir allt sem ætlast er til af honum. Fyrir þessu eru ótal dæmi. Þetta er ómótmælanlegt. Það er ekkert réttlæti eða óréttlæti til fyrir guði.
Og hvers vegna ætti Benedikt páfi ekki að vera allt eins þreyttur eftir langa æfi eins og forfeður hans og og mæður voru vissulega? Páfinn, forsetinn, konungurinn, ríki maðurinn, sá fátæki, millistéttin - allir í heiminum eiga í sömu erfiðleikum alla æfi, að komast af.
Þeir sem komast fram yfir miðjan aldur og eitthvað lengra að lokum eina glímu eftir og hún er fyrirfram töpuð. Skiptir engu hvað maður hefur haft fyrir stafni á langri lífsleið. Guð er ekkert að pæla í þessu liði á plánetunni Jörð.
Afsögn páfa hefur tekið gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frekar að flytja fljótið til vesturs
28.2.2013 | 11:57
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og jarðeðlisfræðingur, er skynsamur maður og sér oft það sem aðrir átta sig ekki á. Hann segir í nýjum pistli á bloggsíðu sinni (feitletranir eru mínar):
Það er ljóst að sandrifið sem myndast vegna aurburðar frá Markarfljóti til hafs er fyrst of fremst fyrir vestan Landeyjahöfn, eins og fyrsta myndin sýnir. Sandrifið er gult á myndinni. Ríkjandi straumar og tilfærsla efnis eru hér frá austri til vesturs, alla jafna, og þessi hreyfing efnis heldur sandrifinu við fyrir sunnan og vestan Landeyjahöfn. Árlegur framburður Markarfljóts er um 100 þúsund rúmmetrar af sandi og aur á ári.
Þetta er og verður alltaf vandræðamál, enda var höfnin upprunalega staðsett með aðeins einu markmiði: að fá stystu siglingaleið til Vestmannaeyja. Flutningur mynnis Markarfljóts til austurs mun aðeins kaupa tíma og seinka fyllingu hafnarinnar, en það verður dýrkeypt. Viturlegri ráðstöfun, ef yfirleitt á að halda þessari höfn við, væri að flytja Markarfljót til vesturs.
Sé þetta rétt röksemdafærsla hjá Haraldi liggur auðvitað beinast við að færa fljótið vestur fyrir höfnina, hvernig svo sem það verður gert.
Markarfljótið fært til? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Til dæmis af Vinstri grænni grasrót ...
28.2.2013 | 10:45
Upplýst hefur verið að Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, og Katrín Jakobsdóttir eru sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins þess efnis að hætta skuli aðlögunarviðræðum að ESB og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið.
Þetta hafa eflaust verið hræðilegar fréttir fyrir Vinstri græna grasrótina. Hún gerði því prúðlega sófabyltingu á síðasta landsfundi þegar landsbyggðarfulltrúarnir voru farnir heim.
Rótin lagði nebbnilega fram aðra og róttækari tillögu þess efnis að halda skuli áfram aðlögunarviðræðunum en vill skiljanlega að þær verði ekki endalausar.
Sem sagt grasrótin tók í taumana og stýrði flokknum aftur inn á beinu brautina sem Samfylkingin markaði fyrir fjórum árum. Og haldi VG áfram í ríkisstjórn eftir næstu kosningar vill grasrótin að aðlögunarviðræðurnar endi til dæmis eftir ár.
Ofangreindir forystumenn urðu því undir í atkvæðagreiðslu og una því eflaust bölvanlega - eða þannig.
Einföld og áhrifarík ræða forsetans
27.2.2013 | 21:34
Heimóttaskapur íslenskra stjórnvalda afhjúpast þegar litið er til forsetans. Í raun og veru er aðdáunarvert hvernig hann hefur haldið fram málstað þjóðarinnar síðustu ári. Ræða hans á OECD fundinum var einföld og án efa áhrifarík fyrir þá sem á hlýddu.
Sérstaklega finnst mér niðurlag ræðunnar gott. Þar segir forsetinn (feitletranir eru mínar):
The financial doomsayers, whether experts or leaders, who advised strongly against the democratic will of the people turned out to be entirely wrong in their analysis and predictions; a result which certainly should serve as a challenge to many of the policies which are still being advocated and followed in many countries.When the EFTA Court last month ruled that there was no legal basis for the case of Britain, the Netherlands and the EU against Iceland, it became clear that in addition to the democratic will of the people, justice and the rule of law was also on our side.
Tjáði sig um Icesave-dóminn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Líkið sem komst heim í saltfisk með rófum
27.2.2013 | 15:30
Húnvetningar eru í dálitlu uppáhaldi hjá mér enda margir þeirra með afbrigðum skemmtilegir. Einn þeirra er Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM, fréttaritari Morgunblaðsins, ljósmyndari, bloggari og lífsnautnamaður á Blönduósi. Hann ritar reglulega bloggá vefsíðu sína jonsig.123.is.
Jón er mikill spaugari. Hann sér lífið allt í björtu ljósi, hann skrifar um fólk af lifandi léttúð og umhyggju svo eftir er tekið. Engu að síður er í tilverunni einn maður sem er síst af öllu merkilegri en aðrir og það er hann sjálfur.
Í síðustu viku skrifar Jón af undarlegri léttúð um hrollvekjandi atburð (feitletranir og greinaskil eru mínar):
Meginstefið í þessum miðvikudagspistli verður stríðsfréttaritarinn" á Vesturbakkanum (á Blönduósi) sjálfur, sem er svolítið á skjön við hið hefðbundna því venjulegast hefur hlutverk mitt verið eins og sumra að standa á hliðarlínunni og fylgjast með. En að þessu sinni var fréttaritarinn hæfður í hjartastað og eftir smá umhugsun var tekin ákvörðun að segja frá þessum atburði.
Þegar lagt er upp í ferð að morgni veit maður aldrei hvernig hún endar en eitt er víst að hún endar einhvern veginn en kannski ekki alveg á þeim stað sem að var stefnt. Í fyrradag, afmælisdaginn minn þá lagði ég af stað til vinnu minnar líkt og ég geri nánast hvern einasta virkan morgun. Veðrið var yndislegt og mikil ró hvíldi yfir Húnaflóanum, já bænum öllum og þokan læddist allt um kring og setti á morguninn ævintýralegan blæ.
Um klukkan hálf ellefu var stefnan sett á heilbrigðistofnunina (HSB) og ætlunin að reyna pínulítið á hjartað hjá henni Maríu Jóhönnu sjúkraþjálfara . Ég var settur upp á hjól og látinn hjóla smástund í rólegheitum og síðan látin taka hressilega á því inn á milli.
Þetta gekk ágætlega til að byrja með en í þriðja hraðspretti fölnaði ég allur upp , meðvitundin fjaraði út og Maríu leist bara ekkert á blikuna því sá sem á hjólinu sat var líkari líki en nokkurt lík svo hún kallaði í "kollega" sinn hana Tínu (Christine) sem kom í þann mund sem líkið" á hjólinu fékk mikið rafstuð beint í hjartað frá tækinu sem það ber undir vinstri brjóstvöðva. Við þetta högg lyftist hin hvíta vera á hjólinu og meðvitundin jókst til mikilla muna.
112 voru fyrstu viðbrögð Maríu og svo er eins og undirveðvitundin segi mér að Tína hafi haldið þegar hún kom inn í þessar aðstæður að Maríu Jóhönnu hefði tekist að fá lík til að hjóla sem má hiklaust flokka undir kraftaverk. Þessi athugasemd er algjörlega sjálfsprottinn úr hugarheimi manns sem stóð frammi fyrir ógnvekjandi aðstæðum og er þungamiðja atburðarrásarinnar og er ekki seld dýrari en hún var keypt.
Það skal strax tekið fram að bæði María og Tína voru frábærar og raungóðar á raunarstund þó ég sé ekki í vafa að þeim var verulega brugðið. Til að gera 7 klukkustunda langa sögu stutta þá stóð heilbrigðisstarfsfólk á Blönduósi sig mjög vel og ég komst heim í saltfisk með rófum um kvöldið og gat tekið á móti góðum vinum eftir kvöldmat.
Sem sagt, Jón vinur minn Sigurðsson, var nærri dauður, en komst sem betur fer heim í saltfisk með rófum. Honum þykir þessi atburður í fyndnara lagi og hefur ekki fyrir því að segja lesendum sínum nánar frá því sem gerðist. Hið skoplega finnst honum að hann hafi fölnað og litið út sem dauður væri. Er maðurinn ekki æðruleysið uppmálað?
Svo orti hann spauglega limru um atvikið.
Ég stöðvaðist snarlega á rólinu
er spólaði á kyrrstæða tólinu.
Eftir átök og puð
kom forritað stuð
svo líkið lyftist á hjólinu.
Hanney Húney Þeysdóttir
27.2.2013 | 13:01
Enn skemmtir mannanafnanefnd landsmönnum eða er það á hinn veginn, einhverjir landsmenn stunda það að gera at í mannanafnanefnd. Hið síðarnefnda er líklega raunin. Einhverjir spaugarar senda nefndinni möguleg og ómöguleg nöfn til þess eins að fá úrskurð og yfir honum er hægt að hafa óskaplegt gaman.
Jæja, börnin góð. Réttið upp hönd ef þið eruð mætt en sleppið því að öðrum kosti: Bobba Budda Bjálfadóttir, Hanney Húney Þeysdóttir, Járngrímur Ölur Alvindsson, Kraki Efstábaugi Lauksson, Minerva Litlabuna Landnorðursdóttir og Ófelía Olía Engifersdóttir. Já og svo er hér einhver Jón Guðmundsson og Sveinn Halldórsson ... þvílík nöfn.
Er ekki alveg nóg komið af fundarhöldum mannanafnanefndar. Minnir á peningastefnunefnd Seðlabankans eða álíka nefndir sem ríkisvaldið hefur sett á laggirnar til að finna upp aðferðir til að tempra lífsgleði landsmanna.
Bobba og Járngrímur samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Amx gleymir að uppfæra Fuglahvíslið
27.2.2013 | 12:47
Mér finnst AMX vefurinn beittur og og oftast skemmtilegur. Sérstaklega virðist dálkurinn sem nefnist Fuglahvísl fara í taugarnar á vinstri mönnum og vissulega ekki af ástæðulausu. Þar er fá þeir á baukinn sem það verðskulda.
Um daginn stóð þetta á amx.is:
Árið 1984 var Stefán Ólafsson prófessor í þætti ríkisútvarpsins ásamt Milton Friedman nóbelsverðlaunahafa í hagfræði sem þá talaði á fundi í Reykjavík. Inn á fundinn kostaði þá 1.200 krónur og taldi Stefán það mikla hneisu að rukkað væri inn á fundinn og sagðist ekki eiga fyrir gjaldinu.
Friedman svaraði Stefáni vitaskuld með hinum augljósu rökum að eðlilegast væri að þeir sem mættu greiddu fyrir fyrirlesturinn í stað þeirra sem heima sætu og engan áhuga hefðu á fyrirlestrinum.
Hvað gerist svo nú árið 2013? Þá er auglýstur fundur þar sem Stefán Ólafsson er frummælandi og aðgangseyrir sagður 3.500 krónur fyrir félagsmenn en 5.500 krónur fyrir aðra.
Beit þar fátæki fræðimaðurinn í eigið skott.
Við þetta er aðeins hægt að bæta orðum skáldsins: Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann.
Helsti gallinn við dálkinn fuglahvísl er hins vegar sá að það er uppfært alltof sjaldan. Þó verður að horfa til þess að margt fleira er að finna á amx eins og dálkinn Þeirra eigin orð. Þar má til dæmis finna þetta:
Vitaskuld förum við í þjóðaratkvæðagreiðslu að ráði forsetans. Verði Icesave-lögin samþykkt í henni, er forsetanum varla sætt lengur. Verði Icesave-lögunum hafnað, er ríkisstjórninni varla sætt lengur.
- Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar á heimasíðu sinni 6. janúar 2010 í tilefni af því að forsetinn neitaði að staðfesta Icesave-lögin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fallega landið sem hvarf
27.2.2013 | 11:10
Friðþjófur Helgason er sextugur. Af því tilefni birtist þessi mynd af honum í Morgunblaðinu í morgun með grein þar sem ættir hans eru raktar.
Ég þekki ekki Friðþjóf, er bara rétt málkunnugur honum, en ég er aðdáandi hans. Hann er afbragðsgóður ljósmyndari og einstaklega vandaður kvikmyndatökumaður.
Annars vakti myndin athygli mína. Þarna í fjarska er syðsti tindur Kárahnúka en vestan í honum er Kárahnúkastífla og austan við hann er Desjarárdalsstífla.
Það sem er eiginlega merkilegast við myndina er rauða línan sem ég hef bætt inn á hana og hún sýnir sirka yfirborð Hálslóns. Þar sem þremenningarnir standa er nú djúpt vatn, manngert lón sem er áberandi kennileiti á landakorti. Þetta fallega land er horfið.
Er ófrelsi fíkils helsi annars?
27.2.2013 | 10:37
Einn af betri blaðamönnum Morgunblaðsins skensar í blaðinu í morgun sjálfstæðismenn fyrir að samþykkja ályktun um að fólk eldra en 18 ára geti keypt áfengi og það verði til sölu í matvöruverslunum.
Árni Matthíasson segir í pistli sínum:
Semsé: Það er eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í dag að auka áfengisneyslu, sem rímar vel við stefnumál flokksins fyrir aldarfjórðungi.
Það er eðli ungmenna að átta sig ekki á hvaða hættur lífið ber með sér. Þau eru upp full með trú á mannsandann, að öll dýrin í skóginum séu vinir innst inni, fólk leiti sjálfkrafa í hið góða og hafni illu og allir séu alltaf færir um að taka þær ákvarðanir sem séu þeim til góðs. Þessi barnslega, en þó í senn fallega, trú á manninn birtist gjarnan í ályktunum ungra hægrimanna og í ályktunum ungra vinstrimanna; helst að skilji á milli að ungir hægrimenn hafa trú á einstaklingnum en ungir vinstrimenn á samfélaginu.
Ofangreind tillaga ungra sjálfstæðismanna er gott dæmi um grunnhyggnina sem svo oft einkennir ungt hægrisinnað hugsjónafólk og suma langt fram eftir aldri. Málið er nefnilega það að þó það sé heillavænlegast í höfuðdráttum að hver einstaklingur hafi frelsi til að fara svo með sjálfan sig sem honum sýnist, strandar sú frelsishugmynd á fíkninni, því fíkillinn er aldrei frjáls.
Þó vel sé ritað og rökstutt er ég ekki sammála Árna. Hættur lífsins eru margar og sumar vissulega alvarlegar. Ef til vill væri best að halda sig öllum stundum innandyra til að varast ógnirnar. Þannig hagar sér enginn. Við bönnum ekki bíla þó einstaklingar geti með þeim valdið tjóni á sjálfum sér, öðrum eða eignum. Við bönnum ekki beitta hnífa þó þeir geti verið hættulegir. Enn er hægt að kaupa byssur hér á landi þó almenna reglan sé sú að handbyssur eru bannaðar.
Sá sem er orðinn átján ára er treyst fyrir því að velja sér maka, hafa forræði fyrir eigin fé og hvort tveggja er skiptir alla einstaklinga miklu máli. Hvers vegna að undanskilja áfengi? Það hef ég aldrei skilið. Vín getur verið voði. Við Árni erum nógu gamlir til að vita það og eflaust höfum við báðir horft á ýmsa samferðamenn okkar misnota það og klúðra tilveru sinni. Áfengið er þó ekki höfuðvandinn, það er einstaklingurinn að það hóf sem hann temur sér. Sá mælikvarði er misjafn.
Og hvað er það sem kallað er grunnhyggni? Jú, sú einfalda lífsskoðun að einstaklingnum á að treyst fyrir eigin lífið, taka ákvörðun um það sem honum er fyrir bestu. Undantekningar frá þessu og varða fullorðið fólk er afskiptasemi sem á ekki að líðast.
Sá sem ánetjast áfengi á vissulega í miklum vanda. Sama er með þann sem veikist, slasast eða lendir í öðrum hremmingum. Það breytir hins vegar ekki því að aðrir njóta þess sem lífið býður upp á þó svo að samúðin sé til staðar. Ófrelsi fíkilsins á ekki að þurfa að hafa þær afleiðingar að einhver hannar upplifi helsi.
Sannleikurinn í auglýsingu Íslandsbanka
26.2.2013 | 11:46
Mikið er ég óánægður með þessa fallegu auglýsingu sem Íslandsbanki hefur verið að birta að undanförnu í fjölmiðlum.
Myndin er líklega tekin frá Landakotsspítala og sýnir sólarupprási yfir Bláfjöllum, skemmt vestan við Vífilsfell.
Látið er líta út fyrir að stúlkan á myndinni sé heima hjá sér með þessu guðdómlega útsýni.
Staðreyndin er hins vegar sú að myndin er tekin með talsverðum aðdrætti sem skekkir allan raunveruleikann.
Því miður hef ég aldrei komið upp á efri hæðir í Landkotsspítala en það gerði faðir minn heitinn. Hann tók myndina hægra megin líklega árið 1966. Þá var Hallgrímskirkja í byggingu, Miðbæjarskólinn enn fullur af krökkum og flest með öðru yfirbragði en nú, en fjöllin eru eins. Þau hafa ekkert breyst.
Faðir minn tók myndina sína með 50 mm linsu sem sýnir nokkurn vegin það sem augað sér.
Ef ég stilli stúlkunni upp á svipaðan stað og í auglýsingunni miðað við Bláfjöll þá kemur í ljós að talsverður munur er á þessum tveimur myndum. Auglýsingamyndin er þrengri, af því að hún er tekin með aðdráttarlinsu. Auglýsingin er því ósönn að þessu leyti.
Í dag er getur enginn verið viss um neitt á ljósmyndum. Raunveruleikinn er teygður og togaður og öllu logið til sem hægt er til hann hæfi boðskapnum. Ég er ekki einu sinni viss um að sólarupprásin sé rétt, hún getur þess vegna hafa verið fótósjoppuð rétt eins og stúlkunni er skellt inn á myndina með því forriti.
Auglýsingin er hins vegar fagmannlega unnin, ekki vantar það, og yfirbragð hennar er afskaplega hlýlegt. Gallinn er bara skortur á raunveruleika, ef svo má segja.
Þegar öllu er nú á botninn hvolft fá bankarnir líklega mesta gagnrýni fyrir að þeir séu ekki í nægum tengslum við þann raunveruleika sem ásækir okkur almenning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)