Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Úrræðalaus ríkisstjórn

Ríkisstjórnin gerir sér alveg örugglega grein fyrir hinni alvarlegu stöðu atvinnulífs og efnhagsmála. Verkstjórn og verklagið er hins vegar fyrir neðan allar hellur. 

Og þegar ríkisstjórnin er gagnrýnd þá er það venja að ráðherrar telji upp allt það sem gert hefur verið. En sorrý, áhrifin eru sáralítil.

Staðan í dag er þessi:

 

  • Meira en 18.000 manns eru atvinnulausir
  • Bankarnir eru atvinnulífinu gagnslausir
  • Fyrirtæki hætta unnvörpum rekstri og önnur verða gjaldþrota
  • Eignastaða þúsunda heimila er neikvæð
  • Stýrivextir hafa aðeins lækkað um 5% á fjórum mánuðum
  • Verðbólgan er óeðlilega há miðað við stöðu mála

 

Og eflaust má fleira upp telja. Svo segja stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að aðgerðir hennar komi fram á löngum tíma, það sé eðli efnahagsráðstafanna.

Bull og vitleysa. Ríkisstjórnin gerir einfaldlega sáralítið annað en að gera áætlanir á áætlanir ofan og á meðan greiðir almenningur kostnaðinn.

Við áttum ekki skilið þá meðferð sem bankahrunið hafði í för með sér en við eigum alls ekki skilið úrræðalausa ríkisstjórn. 


mbl.is 85 fyrirtæki í þrot í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert hefur breyst, allt í frosti

Greinilegt er að vaxandi óþreyju gætir meðal þingmanna ríkisstjórnarinnar vegna aðgerðarleysis hennar. Ástæðan er einföld. Stýrivextir eru ennþá 13,5% og ekki útlit fyrir frekari lækkun. Meira en 18.000 manns eru atvinnulausir og nýju bankarnir eru gjörsamlega máttlausir og duga engan vegin atvinnulífinu.

Þjóðin er búin að gefa þessari ríkisstjórn fjóra mánuði. Ríkisstjórnin hreykir sér af hinu og þessu en þegar á hólminn er kominn stendur allt fast.

Atvinnulífinu vantar súrefni. Ríkisstjórnin sættir sig bara við þjóðnýtingu fyrirtækja sem komin eru fram yfir brún hyldýpisins. Skuldir fyrirtækjanna eru hins vegar ekki þjóðnýttar.

Fólk sem á í fjárhagslegum vandræðum er sagt eiga margra kosta völ. Staðreynin er hins vegar sú að krafist er opinberrar aðfarar með hvern og einn, niðurlægjandi meðferð sem líkist gjaldþroti.

Ekki er hægt að kaupa íbúðir með því að taka yfir lán nema því aðeins að greiða þau niður og skiptir þá engu traust fjárhagsstaða kaupanda.

Tollstjórinn innheimtir kröfur með sama gamla laginu, engin miskun sýnd, allt skal vera neglt og njörvað niður, skiptir engu traust fjárhagsstaða skuldara. Embættismenn dekka fyrst og fremst rassinn á sjálfum sér og leyfa engin frávik þrátt fyrir loforð stjórnvalda. 


mbl.is Ætti að afþakka ráðgjöf AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Golf og kvöldsólarstemming

Skyndilega er komið vor og Háagerðisvöllur er 

ex000042b.jpg

orðinn grænn og grínin snöggslegin rétt eins og kollurinn á mér. Tvisvar á síðustu þremur dögum hef ég farið níu holur. Árangurinn er svo sem ekkert til að hrósa sér af. Orðið allt of langt síðan ég spilaði golf síðast en þetta kemur aftur með æfingunni.

Er að hugsa um að fá tilsögn hjá golfkennara. Man eftir að Skúli heitinn bróðir minn sagði oft að sá sem vildi ná árangri í golfi þarf reglulega á tilsögn að halda. Veit núna að það var rétt hjá honum og er óendanlega þakklátur fyrir að hafa munað eftir þessum orðum hans.

ex0000104b.jpg

Síðasta þriðjudagskvöld spilaði ég einn hring með Ingibergi Guðmundssyni vini mínum. Sólin var hátt á lofti, það var nær logn og mófuglarnir léku við hvern sinn fingur og krían tók undir eins og hún gat.

Hvað er eiginlega betra en golf við slíkar aðstæður? Jú, kannski góð fjallganga, hlaup, sund, gott koníak, góður vinahópur ... Það spillti jafnvel ekki þótt ein vinur minn botnaði upptalninga með þessum orðum: „ .... já og góðar hægðir“.

Já, er ekki lífið gott. 


Hækkum ekki laun, eyðum atvinnuleysi

Auðvitað þurfum við launþegar á að halda 25.000 króna launahækkun yfir alla línuna, helst meira, miklu meira. Kristján Gunnarsson skilur þarfir okkar svo sannarlega.

En bíðum við. Staðan er nú þannig að meira en 18.000 manns eru án atvinnu á landinu. Það hlýtur að há atvinnulífinu að eiga ekki kost á þessu fólki, þekkingu þeirra og reynslu. Og auðvitað hlýtur Kristján að hafa áhyggjur af öllu þessu atvinnuleysi.

Væri nú ekki skynsamlegra að Kristján og aðrir verkalýðsforkólfar myndur fara þá leið að „krefjast“ þess að Samtök atvinnulífsins sæju til þess að 6000 manns fengju atvinnu á næstu sex mánuðum. Á móti myndum við hin afsala okkur öllum kröfum um launahækun á sama tíma og jafnvel lengur. 

Um þetta hlýtur að geta náðst þjóðarsátt. Staðreyndin er bara sú að ekkert gerir ríkisstjórnin annað en að leggja til að gerð verði áætlun um áætlun að skipulagi um tillögur vegna skorts á áætlunum að skipulagi ...


mbl.is Þiggja ekki 7 þúsund sí-svona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er maraþon lengra en 42 km?

Ég þurfti að finna ræðu Olla Rehn til þess að trúa frétt Morgunblaðsins. Í henni segir: „Og ef við líkjum aðildarviðræðum við maraþonhlaup þá hefur Ísland þegar lokið fyrstu 40 kílómetrunum.“

Og maður spyr sig, fyrst maðurinn talar um fyrstu 40 kílómetrana hvort von sé á að næsti skammtur sé jafnlangur. Doldið erfitt að átta sig á þessu því eins og allir vita er Maraþon er 42 kílómetrar. 


mbl.is Hver veit nema ESB-umsókn frá Íslandi örvi Norðmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá leiðrétting frá ráðherranum

Fréttatilkynning frá fjármálaráðuneytinu.

Framvegis ber ekki að taka mark á hagvaxtaspá fjármálaráðuneytisins nema fjármálaráðherra skrifi undir hana.

Þau leiðu mistök voru í síðustu spá að bygging álvers í Helguvík og stækkun álversins í Straumsvík voru nefnd sem skilyrði fyrir hagvexti á næsta ári. Þarna átti auðvitað að standa bygging fjallagrasahreinsunarver á Egilsstöðum og kaffihúsamenningarkennslustofnun í á Skagaströnd.

Að öðru leyti stenst alveg örugglega spá ráðuneytisins um 5% hagvöxt á árinu 2011. 

Steingrímur og ráðuneytisstjórinn. 


mbl.is Spá hagvexti á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaust og heimskulegt sjónarspil

Ó, hvað við landsbyggðalýðurinn erum hrifnir af ríkisstjórn hinna vinnandi stétta. Hún ætlar að halda fund á Akureyri. Og við gleðjumst.

Hvað heldur ríkisstjórnin að við séu, við þessi landsbyggðalýður, fólkið sem býr annars staðar en á suðvesturhorni landsins? Heldur hún að við sjáum ekki í gegnum svona sjónhverfingar? Heldur hún að við séum fífl?  

Þetta er tóm sýndarmennska. Ríkisstjórnin fær engin prik fyrir að flytja sig og funda einu sinni út á landi, ekki heldur þótt fundirnir verði vikulega á Akureyri eða til skiptis í öllum þéttbýlisstöðum landsins.

Við, rétt eins og aðrir landsmenn, bíðum eftir aðgerðum. Aðgerðum vegna meira en 18.000 manna sem eru án atvinnu, aðgerðum vegna skuldastöðu heimilanna, aðgerðum vegna gengisþróunar, aðgerðum vegna stýrivaxta, aðgerðum vegna verðbólgu.

Þetta er heimskuleg aðgerð og tilgangslaus og gefur til kynna að sjónarspilið skiptir meira máli en raunverulegar aðgerðir. Okkur sem búum annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu er það algjörlega að meinalausu þó ríkisstjórnin og Alþingi fundi í Reykjavík.

 


mbl.is Ríkisstjórnarfundur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæri Guð ...

Hæ, kæri Guð,

Bestu þakkir fyrir síðast. 

Ég í Jerúsalem. Gaman að koma hingað og skoða göturnar og húsin frá tíma Jésús. Verð að segja að þetta er allt frekar illa farið, viðhaldið vanrækt, skiluru. 

Nota þetta tækifæri til að prufa „tækni“ sem Gyðingarnir þykjast hafa notað árum saman til að hafa samband við þig. Er bara alls ekki viss um að þetta berist til þín svo ég leyfi mér að vera doldið kammó.

Mér finnst raunar afar hallærislegt ef hægt sé að meila til þín frá einhverjum ljótum vegg sem hefur ekkert af því sem þú hefur vanist heima í Vatíkaninu. Hann er svo gasalega ósmekklegur. Ekkert gull, enginn útskorinn viður eða ómetanleg listaverk í nánd. Það er nú eitthvað annað heima í Péturskirkjunni enda fer ábyggilega betur um þig þar auk þess sem messurnar eru langar og latínuskotnar.

En af því að það er svo erfitt að átta sig á því hvort þessi ljóti Grátmúr geri eitthvurt gagn væri gott að fá eitthvað tákn frá þér um að þessi skilaboð hafi náð til þín. Nefni bara sem dæmi hvort þú gætir komið því til leiðar Gyðingar og Palestínuarabar semja um frið ... Það væri sko einnar messu virði hið minnsta ef við hér á jörð myndum losna við þessi andsk... læti fyrir botni Miðjarðarhafs (afsakaðu orðalagið). Það er eiginlega ekkert annað í fréttum en skot, sprengingar, stríð og annar ófriðum milli þessara nágranna og þannig hefur það verið í langan tíma.

Ef þetta er til of mikils mælst þyrfti eitthvert tákn um að þú hlustaðir í grjótið. Komdu mér bara á óvaart, öll tilbreyting er skemmtileg. Hins vegar vara ég þig við að gera eitthvað af eftirtöldu:

 

  • Brenna einhvern runna, skógareldar eru vandamál í heiminum í dag
  • Senda neina vitringa, slíkir munu án efa missa marks 
  • Búa til myrkur um miðjan daga nema það sé úr takti við gang himinntungla, vísindin láta ekki plata sig.
  • Meiða neinn eða drepa, það missir marks, fólk er vant slíku úr sjónvarpi og bíói og margir hafa mikla reynslu á þessu svið
  • Ekki láta fólk elska hvert annað, það endar bara með óheftu kynlífi og við erum í nógum vandræðum með hvatir presta, munka og nunna, trúðu mér
  • Ekki afnema stríð og glæpi, það myndi setja atvinnulíf fjölda fólks í vanda og hann er nógurJæja 
Fleiru kem ég nú ekki fyrir á þetta supersize postcard og þurfti samt að skrifa þetta á tölvu og prenta út á kortið (raunar hef ég aðstoðarmann til að gera þetta, kann ekkert á tölvur frekar en Grátmúr).

 

Bið bara að heilda öllum sem ég þekki í ríki þínu.

Þinn Benni páfi, umboðsmaður og sérlegur talsmaður. 


mbl.is Páfi við Grátmúrinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengishrapið hjálpaði sjávarútvegnum

Gengið hrundi á síðasta ári. Er það ekki ástæðan fyrir auknu verðmæti útfluttra sjávarafurða? 

Fréttin segir okkur leikmönnum ekki mikið. Í þann mund sem ég ætlaði að stökkva upp úr stólnum og fagna læddist að mér sá ónotalegi grunur að kannski ekki allt sem sýndist.

Í fréttinni segir að verðmæti útfluttra sjávarafurða hafi aukist um 34% en magnið um 12,5%.

Þá vaknar sú spurning hvort meiri eftirspurn hafi verið á síðasta ári eftir fiski frá Íslandi eða hvort ástæðan fyrir hækkuninni sé einfaldlega gengisþróunin.

Í upphafi árs var gengisvísitalan um 120 stig en í lok ársins um 216 stig. Gengið hafði þar af leiðandi fallið gríðarlega og þar af leiðandi meiri tekjur í íslenskum krónum fyrir útflytjendur.

Ef rétt er þá er þjóðin ekki að flytja út neitt tiltakanlega meiri fisk á betra verði en áður. Hrunið hjálpaði sjávarútveginum.

Og það sem gefur ofurskuldsettri útgerðinni framhaldslíf hefur aukið skuldir okkar hinna svo mikið að ætla má að nær helmingur þjóðarinnar geti sig hvergi hrært.


mbl.is Verðmæti jókst um 42,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engir hveitbrauðsdagar - verkefnin bíða

Rétt er og heiðarlegt að óska nýrri ríkisstjórn velfaranaðar í störfum sínum. Henni veitir ekki af. Verkefnin sem bíða hennar eru meiri og alvarlegri en nokkur önnur ríkisstjórn hefur þurft að glíma við frá upphafi lýðveldis hér á landi.

Hins vegar bíða hennar öngvir hveitibrauðsdagar. Þeir eru liðnir. Hún þarf strax að taka á málum og árangurinn verður að sjást á þessu ári. Þrátt fyrir meira er þriggja mánaða minnihlutastjórn hefur árangurinn látið á sér standa.

Ríkisstjórnin verður dæmd af því hvernig hún leysir verkefnin. Geri hún það ekki hratt og sannfærandi verða lífdagar hennar ekki langir. Eftirfarandi eru aðeins hluti af brýnustu vandamálunum:

  • Án atvinnu eru í dag meira 18.000 Íslendingar. Dulið atvinnuleysi er miklu meira. Þolinmæði þjóðarinnar er lítil, hún krefst tafarlausra aðgerða í atvinnumálum. 
  • Stýrivextir eru 13% og þeir þurfa að lækka um 10% til að efnahagur fyrirtækjanna geti tekist á við vandann framundan.
  • Gengi íslensku krónunnar er gríðarlegt vandmál fyrir heimilin og fyrirtækin. Gengisvísitalan er í dag 216 stig en þyrfti að komast niður 120 stig en það var hún 1. janúar 2008, annars er borin von um að hægt sé að snúa ofan af gegnistryggðum skuldum heimila og fyrirtækja.
  • Ríkisbankarnir þurfa að geta sinnt lánaþörf fyrirtækja. Ganga þarf frá efnahagsreikningi bankanna og koma eignarhaldi þeirra í hendur annarra en ríkisins
  • Verðbólgan er 11% og fer hækkandi
Þjóðin bíður eftir að sjá árangur, ef hann lætur standa á sér þá skiptum við um ríkisstjórn. Svo einfalt er'ða.

 


mbl.is Óbreytt stjórnskipan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband