Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Mestar líkur á gosi í austanverðri Kötluöskjunni

Skjálftar dagsinsSkjálftahrinan í Kötlu mælist víða, ekki aðeins í hressilegum skjálftum heldur einnig á óróamælum, raunar mælist óróinn í Mýrdalsjökli vestur til Heklu (50 km loftlína), austur á Skeiðarársand (80 km) og norður á Sprengisand (100 km).

Ástæða er til að segja örlítið frá nokkrum staðreyndum um Kötlu. Ástæðan er einföld, fjölmiðlar birta ekkert ítarefni, gera vart annað en að birta fréttatilkynningar frá Almannavörnum.

Fyrsta myndin er af Mýrdalsjökli og sýnir hvar jarðskjálftarnir hafa orðið frá því að hrinan byrjaði í gær. Þeir eru í einum hnapp, örlítið sunnan og austan við miðja öskjuna. Myndin er frá Veðurstofu Íslands.

MýrdalsjökullNæstu tvær myndir eru ágætar til samanburðar. Báðar eru úr skýrslu eftir Magnús Tuma Guðmundsson og Þórdísi Högnadóttur frá því 2006. 

Á myndinni sést hvar síðast gaus í Kötlu. Kötlugosið 1918 var alveg syðst í öskjunni og á sama stað gaus 1823. Lítið gos varð austast í henni árið 1955 og annað vestarlega árið 1755. 

Auk þess sjást á kortinu helstu vatnaskil í jöklinum. Austan við Kötlujökul er skástrikað svæði sem er áhrifasvæði Kötluhlaupa sem falla til austurs. Gríðarlega mikið land.

Miklu máli skiptir hvar gýs og það þarf ekki endilega að gerast innan öskjunnar. Jökulhlaup geta fallið niður Sólheimajökul, í Emstruá ytri, Emstruá nyrðri eða í norður og út á Mælifellssand.

Endurkomutími eldgosaNæsta kort er afar merkilegt. Það er úr skýrslunni og í henni segir (texta í svigum er sleppt): 

Meðalgoshlé í Kötlu undanfarin 1200 ár er um 50 ár. Eldgos eru langtíðust í austurhluta Kötluöskunnar en á síðustu 1200 árum hafa þau orðið þar á tæplega 60 ára fresti. 

Á vatnasviðum Sólheimajökuls og Entujökuls er endurkomutíminn 500-800 ár. 

Annars staðar eru goshlé að jafnaði lengri og er talið að 1.000-10.000 ár líði á milli gosa í hlíðum jökulsins og á svæðinu norðan öskjunnar.

Verði eldgos í kjölfara yfirstandandi skjálftavirkni má af ofangreindu ráða að mestar líkur eru á að það gerist líklega í austurhluta öskjunnar. Það er þó ekki víst enda er oft sagt að uppruni jarðskjálfta þurfi ekki endilega að segja til um hvar eldgos verði. Kvikan getur skotist afar langt, leitar eftir auðveldustu leiðinni upp á yfirborðið.

órói GoðabungaJarðskjálftar í Bárðarbungu fyrir tveimur árum urðu ekki til þess að þar gysi heldur varð til berggangur sem náði um tuttugu km í burtu og þar gaus.

Síðasta myndin er frá Veðurstofunni sem sýnir óróamælingar í Goðabungu sem er vestan megin í Mýrdalsjökli, rétt utan við Öskjuna í um 1480 m hæð. Tíðnin er á lóðrétta ásnum en tíminn á þeim lárétta. Greinilega sést hvenær hrinan hófst.

Þarna heyrist vel í umbrotunum undir jöklinum. Bláa tíðnin vekur athygli og er svipuð og þegar gaus í Eyjafjallajökli í apríl 2012.

Jarðfræðingar hafa sagt að skjálftarnir í Kötlu bendi ekki til þess að eldgos sé í aðsigi. Nauðsynlegt er að taka mark á því. Hins vegar geta aðstæður breyst, skjálftar aukist og merki borist um kvikuhreyfingar. Haldi stórir jarðskjálftar áfram í dag og á morgun, það er þrjú til fjögur stig, geta leikmenn dregið þá ályktun að gos sé í yfirvofandi.

Enn og aftur skal það tekið fram að sá sem hér skrifar er ekki jarðfræðingur, aðeins áhugasamur leikmaður.

 


mbl.is Öflug skjálftahrina í Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppnám innan ESB og enn vilja flokkar þangað inn

Það eru haldlaus svikabrigsl að veitast að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fyrir að vinna ekki að framhaldi ESB-aðildarviðræðna að loknum kosningum vorið 2013. Flokkarnir gengu þá til kosninga með þá meginstefnu að hætta ESB-viðræðunum. ESB-flokkarnir töpuðu illilega í kosningunum. Að gera kröfu um að sigurvegarar með umboð gegn ESB-aðild spyrji þjóðina hvort hún vilji halda áfram misheppnuðum aðildarviðræðum ber vott um skert veruleikaskyn.

Þetta segir Björn Bjarnason fyrrum alþingismaður og ráðherra í grein í Morgunblaði dagsins. Hann hefur rétt fyrir sér. 

Nú er stundum rætt um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi svikið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Hvernig getur það verið að stjórnmálaflokkur vilji beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem enginn hefur áhuga á? Stór meirihluti þjóðarinnar vill ekki í ESB samkvæmt skoðanakönnunum, Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki inn, ekki Framsóknarflokkurinn og margir þingmenn úr VG.

Samfylkingin og VG vildu að Ísland gengi í ESB. Þeir reyndu að hundsa þjóðina, lofuðu samningi, hægt væri að „kíkja í pakkann“ og skrökvuðu um leið um eðli viðræðna við ESB. Þær voru  aðlögunarviðræður, ekki samningaviðræður.

Niðurstaðan hefði aldrei orðið hefðbundinn samningur heldur aðgangur að ESB vegna þess að aðlögunarviðræðurnar voru aðlögun íslenskra laga og reglna að Lissabonsáttmálanum, stjórnarskrá ESB. Ekki samningur um kaup og kjör.

Eða með orðum Björns:

Uppnámið er algjört innan ESB. Það hefur snarversnað síðan vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. kvaddi ESB-aðildarferlið í janúar 2013. Þá hafði aðeins 11 af 33 samningsköflum verið lokað frá 2009. Ferlinu lauk með ágreiningi um kaflana um sjávarútveg og landbúnað þegar rann upp fyrir íslensku stjórnarherrunum að ESB krafðist aðlögunar í ferlinu og í bókum Brusselmanna væri ekkert til sem heitir könnunarviðæður.

Að kynna sem kosningaloforð í september 2016 að borið skuli undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hvort halda eigi þessu misheppnaða ferli áfram staðfestir enn blekkingariðju og óraunsæi aðildarsinna.

Nú hefur verið stofnaður stjórnmálaflokkur sem hefur það eitt að markmiði að koma Íslandi inn í ESB. Allir helstu forvígismenn flokksins eru þessarar skoðunar og skiptir litlu þá stefnan sé falin í orðaflaumi og fagurgala. Viðreisn er ESB flokkur.

Lokaorð Björns í greininni eru þessi og undir þau er hér tekið:

Í raun er forkastanlegt að láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en Íslendingar fái áheyrn í Brussel til að taka upp viðræðuþráð sem ríkisstjórn Íslands sleit. Nú skuli áfram kannað hvort Íslendingar fái sérkjör. Það er þetta sem ESB-aðildarsinnar gera að kosningamáli fyrir þingkosningarnar 29. október 2016. Þetta vilja þeir að þjóðin ákveði í atkvæðagreiðslu en ekki hvort sótt skuli um að nýju.

Málatilbúnaður ESB-aðildarsinna hefur verið ótrúverðugur frá ársbyrjun 2009. Þeir ýttu staðreyndum og eigin loforðum til hliðar við upphaf ESB-leiðangursins, sundruðu flokkum til hægri og vinstri og standa nú á rústum Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Að leiða ESB-aðildina inn á vettvang íslenskra stjórnmála var upphaf svartasta kafla í sögu utanríkismála lýðveldisins. Vörumst það svarthol.

 


Til hvers er haldið prófkjör ef fikta má í niðurstöðunum?

Hversu óánægður sem einhver er með úrslit kosninga verður þeim ekki breytt. Skiptir engu þó þær heiti prófkjör. Einfaldara getur það ekki verið.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi ákvað að breyta ákvörðun kjósenda í prófkjörinu, „laga“ það aðeins, fikta í niðurstöðunum. Þannig gera menn ekki, síst af öllu í stjórnmálaflokki sem er lýðræðislegur. Nú má draga þá fullyrðingu í efa.

Ávirðingin beinist ekki eingöngu að kjördæmisráðinu heldur þeim frambjóðendum sem samþykktu að frambjóðandinn sem lenti í fimmta sæti yrði færður upp í annað sæti, vegna kynferðis hans. Hreinlega óskiljanlegt er að hégómleiki þessa frambjóðanda sé slíkur að hann samþykki breytinguna. Hann verður þá þingmaður á fölskum forsendum, hefur ekki kjósendur í prófkjöri sem bakland, heldur aðeins kjördæmisráð sem skilur ekki eðli lýðræðisins.

Þetta er arfaslæm ákvörðun. Andstæðingar flokksins geta notað hana og spurt einfaldrar spurningar:

Er hægt að treysta stjórnmálaflokki sem hefur ekki skilning á lýðræðinu.

Niðurstöður prófkjör ber undantekningalaust að virða. Allt fikt í niðurstöðunum er ólýðræðislegt og í eðli sínu rangt. Skiptir engu þótt óánægja sé með þær. Til hvers er verið að halda prófkjör ef niðurstöðurnar gilda ekki?

Nú er komið skýrt fordæmi, hægt er að breyta prófkjörum, gera niðurstöðuna fjölmiðlavænni, skítt með hugsjónir.

Gjör rétt, þol ei órétt. Gleymum því bara,


mbl.is Bryndís færð upp í annað sæti í SV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kötlugos komist í gegnum 600 m þykkan jökul á einni klst.

Í gær byrjaði skjálftahrina í Kötlu, það er aðeins suðaustanmegin við miðju öskjunnar í Mýrdalsjökli. Skjálftar í Mýrdalsjökli koma í hrinum, rétt eins og annars staðar á landinu. Nú er hins vegar dálítið skammt á milli hrina.

Þegar þetta er ritað hafa orðið 162 skjálftar og upptök þeirra eru að langmestu leyti mjög grunnt undir jökulbotninum. Margir á undir 400 m dýpi.

Athygli vekur að skjálftar sem eru yfir tvö stig eru 11 talsins og allir hafa þeir orðið á jökulbotninum eða um 100 metrum dýpra, ekki meir. Meira að segja sá eini sem varð um hálf fimm í dag og var þrjú stig var á þessu sama dýpi.

Mér skilst að mestar líkur eru á því að skjálftarnir hafi orðið vegna mikils jarðhita þarna undir og staðfesta þá kenningu efnainnihald í Múlakvísl sem fellur undan skriðjöklinum Kötlujökli.

Kötlugosið 1918 var mjög sunnarlega í öskjunni og þar er jökullinn mjög þykkur, getur verið upp undir 700 metrar. Nú er komið fram á haust og jökulþykktin kannski um 100 m þynnri. Þegar fargið léttist á jöklinum getur hugsanlega losnað um jarðhitasvæðiðog vatn eigi auðveldar með að komast undan honum. Lóðréttar hreyfingar á jöklinum gætu valdið jarðskjálftum rétt eins og kvikuhreyfingar undir honum.

Forboðar goss eru mjög tíðir jarðskjálftar, margir frekar stórir og um leið munu mælast óróar á óróamælingum á og við Mýrdalsjökul. Þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi í þetta sinn.

 

Ágætt að hafa það í huga að stórt eldgos getur auðveldlega brætt sig í gegnum á að giska 500 m þykkan jökul á um einni klukkustund. Gjálpargosið í Grímsvötnum þótti frekar lítið og um 30 klst liðu þar til það bræddi sig upp úr 600 m djúpum jökli.

Jökulhlaup vegna Kötlugoss gæti hafist um það bil klukkustund eftir að gos hefst.

Ágætt er að hafa það í huga eftir lestur ofangreindra lína að undirritaður er ekki jarðfræðingur og hefur ekkert vit á jarðfræði.

Hið gáfulegasta sem hér kemur fram er úr gagnmerkri skýrslu eftir Magnús Tuma Guðmundsson og Þórdísar Högnadóttur og nefnist hún „Ísbráðnun og upptakarennsli jökulhlaupa vegna eldgosa í Kötluöskju og austanverðum Mýrdalsjökli“ útgefin 2006.

 


Konur í baráttusætum Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmum

Þingmenn, kynVerði niðurstöður kosninganna á þá leið sem fram kemur í skoðanakönnun Fréttablaðsins verða konur líklega tíu af tuttugu og fjórum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Á meðfylgjandi töflu hefur verið reynt að reikna út hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins skiptast á kjördæmin miðað við eldri skoðanakannanir sem gera ráð fyrir að flokkurinn fái 17 þingmenn kosna. Rauður rammi er um þingmenn í hverju kjördæmi.

Konur eru í baráttusætum allra kjördæmi nema norðvesturkjördæmis. Eftir því sem þingmönnum flokksins fjölgar eru miklu meiri líkur á því að konur komist inn en karlar. Þetta geta allir séð á töflunni.

Níu konur eru núna í 19 manna þingflokki Sjálfstæðisflokksins, 47,4%. Fái Sjálfstæðisflokkurinn 24 þingmenn og þar af verði 10 konur er hlutfallið aðeins lægra 41,7%.

Greinilegt er að eftir miklu er að slægjast fyrir Sjálfstæðismenn, karla og konur. Til að þetta geti gerst þurfa bæði konur og karlar að kjósa flokkinn. Að minnsta kosti læt ég ekki mitt eftir liggja.

 


mbl.is „Heilmikil hreyfing á fylginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elliðaárdalur árið 1935 og í dag, skógrækt sem breytir veðurfari

Elliðaárhólmi 2Gömul mynd úr fórum móður minnar heitinnar vakti athygli mína um daginn. Myndin er tekin um 1935 í Elliðaárdal, raunar hólmanum sem er á milli tveggja kvísla árinnar.

Á myndinni er móðir mín, þá 18 ára, ásamt verðandi mágkonu sinni og manni hennar. Líklega hefur veðrið verið eintaklega gott þennan dag, sól og lygnt. Frænka mín hellir kaffi í bolla og fólkið nýtur stundarinnar.

Hversu mikið hefur ekki Elliðaárdalur breyst síðan þessi mynd var tekin?  

Lautin sem fólkið valdi sér er löngu horfin í gróður sem þekur nú allan dalinn öllum til yndisauka.

Elliðaárdalur 3Um daginn tók ég aðra mynd, ekkert langt frá lautinni. Komst nægilega hátt upp til að sjá til virkjunarinnar sem er fyrir neðan húsin á gömlu myndinni. Þau sjást hins vegar ekki lengur fyrir trjágróðri. 

Á gömlu myndinni sést hús efst á hæðunum hægra megin. Hugsanlega er það Árbær en hæðirnar þekkjast í dag sem Ártúnsholt. Raunar er það svo að hverfið þarna er hulið trjágróðri.

Hér áður fyrr töldu margir að útilokað væri að rækta skóg á Íslandi. Þjóðin var orðin svo vön trjáleysinu eftir aldalanga gróðureyðingu og uppblástur, og talið var að skógur gæti ekki þrifist á Íslandi nema í undantekningatilvikum. Því er nú öðru nær. Fræðimenn fullyrða að stór hluti landsins hafi verið skógi vaxinn við landnám og landið að mestu gróðursælt og fagurt.

ElliðaárdalurTrausti Jónsson, veðurfræðingur, segir á bloggi sínu Hungurdiskar þann 25. september 2016:

Allmargir staðir á landinu eru ef til vill veðursælli en Reykjavík, en þegar á allt er litið er höfuðborgin til þess að gera veðursælt pláss. Með aukinni byggð og stórvaxnari gróðri hefur meira að segja heldur dregið úr vindi víða um bæinn - þar á meðal á Veðurstofutúni þar sem varla hreyfir nú vind miðað við það sem áður gerðist.

Þetta segir hann i tilefni þess að nú eru 25 ár síðan fárviðri mældist síðast í Reykjavík. Staðreyndin er einfaldlega sú að trjágróður hefur breytt veðurfari í Reykjavík, vindstyrkur hefur minnkað að mun.

DSC_0006Hugsið ykkur ef til dæmis Mosfellsheiði væri skógi vaxin. Hversu gríðarleg veðurfarsleg breyting yrði ekki á höfuðborgarsvæðinu? Skógrækt á Kjalarnesi undir Esju yrði til þess að austanáttin myndi aldrei ná sama styrk og oft gerist nú á dögum.

Hvað þarf til að leggja í tiltölulega lítinn kostnað til að breyta lífsgæðum fyrir Íslendinga? Vantar fólk, eldmóð, hugsjónir, framtíðarsýn?

Um Elliðaárdal, Heiðmörk og víðar eru nú fólk á göngu, hlaupum og hjólum, ekki aðeins á heitasta degi sumarsins, eins og hér áður fyrr, heldur allan ársins hring.

Næstneðstu myndina tók ég 1. júlí 1985 af hitaveitustokkunum yfir Elliðaárnar. Dálítið dapurt umhverfi allt upp í Bústaðahverfi. Þetta útsýni er ekki til í dag. Neðri myndin var tekin  í september 2012 og sýnir að húsin í borginni eru að hverfa í trjágróður og enn hefur bæst við. Stórkostlegar breytingar. Báðar myndirnar, og fleiri, birti ég á þessum vettvangi 2012 og má finna hér.

Við þurfum hins vegar að gera betur, leggjast í skógrækt á Mosfellsheiði og bæta þannig lífsskilyrði á höfuðborgarsvæðinu.

 

 


Palldómar um ræðumenn á eldhúsdegi

Ég hlustaði á eldhúsdagsumræður á Alþingi sem útvarpað og sjónvarpað var í kvöld, 26. september. Hér eru nokkrir þankar um ræðumenn:

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar: Einhver hefur talið henni trú um að hún gæti breytt um stíl og framsögn á einu kvöldi. Því miður er það ekki hægt. Hún kunni ekki ræðuna sína, rak í vörðurnar, málvillur voru áberandi og í lokin klykkti hún út með því að segja að heilbrigðismálin ættu að vera gjaldþroska. Gat ekki heyrt betur. Félagar hennar hljóta nú að sakna Árna Páls Árnasonar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins: Trúverðugur að vanda en hefði mátt hafa lesið ræðuna yfir og lagfært nokkur atriði sem virkuðu ekki sannfærandi. Hafi einhver annar samið ræðuna þarf að finna nýjan ræðuritara.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs: Virtist vera út á þekju, talaði alltof lengi um loftslagsmál sem vissulega kann að vera lofsvert. Greinilegt að ræðumenn VG hafa haft mikil samráð á milli sín um meintar lygar og svik ríkisstjórnarinnar. Lygilegar ásakanir virka ekki sannfærandi, sérstaklega ekki þegar horft er til ávirðinga á síðustu ríkisstjórn sem voru hræðilegar. Katrín hefur fallegt bros en skelfing er maður hræddur um að ekki sé allt sem sýnist.

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra: Einhvern veginn finnst mér að meira spunnið í hana en birtist í viðtölum og ræðum hennar. Hún er hins vegar góður og sannfærandi ræðumaður, talar yfirleitt skýrt og sannfærandi en í kvöld var ekkert nýtt eða áhugavert við ræðuna.

Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar: Óttar afar slakur leikari. Leikþátturinn í ræðunni var lélegur og illa leikinn. Einhver annar hefði hugsanlega getað gert þessari ræðu betri skil. Líklega hefur Óttar ekki lært neitt annað á þeim þremur árum sem hann hefur setið á þingi en að líkja eftir talsmáta vinstri manna í stjórnarandstöðunni. Hann er samt ekkert sannfærandi þegar hann reynir að tvinna saman formælingar um ríkisstjórnina.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður stjórnmálaflokksins Píratar: Hún hafði margt fram að færa en vegna þess að hún er svo skrýtinn ræðumaður komst fátt af efni ræðunnar til skila. Hún gagnrýnir skotgrafir stjórnmála en finnst ekkert að því að brúka sína eigin skotgröf og hún er djúp. Eins og Óttar Proppé hefur Birgitta ekkert lært af veru sinni á Alþingi nema það sem vinstri sinnar á þinginu hafa kennt henni, tala illa um andstæðinganna. Líklega er það rétt sem Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins segir, að stefna hennar og Pírata er afar óljós og býður aðeins uppp á óvissuferð á næsta kjörtímabili. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar: Hún hefur ábyggilega farið til sama almannatengslaráðgjafa og formaður flokksins en ekkert lært. Hún er slakur ræðumaður, skræk röddin er þreytandi og fyrir vikið týnist efni ræðunnar. Sigríður birtist eins og auglýsing sem troðið er inn í nokkuð athyglisverðan sjónvarpsþátt og þegar það gerist stendur maður ósjálfrátt upp og fer inn á salerni og pissar.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra: Ólöf er ekki eins klár og hún heldur. Ræðan var nokkuð góð, hefði getað verið betur skrifuð, en framsögnin var einhæf og frekar leiðinleg, rétt eins og hún trúir ekki því sem hún segir. Hún þarf að leita sér leiðsagnar í framsögn rétt eins og svo margir aðrir þingmenn. Hugsanlega gæti Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hjálpað eitthvað til. Hann er með betri ræðumönnum á þingi.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna: Ég hlakka alltaf til að heyra í Svandísi, ekki vegna þess að ég sé sammála henni heldur miklu frekar dáist ég að því því hversu óforskömmuð hún er og virðingarleysi hennar fyrir sannleikanum er áberandi. Enginn annar þingmaður kemst með hælanna þar sem hún hefur ... kjaftinn (afsakið orðbragðið). Ávirðingar hennar á núverandi ríkisstjórn eru hrikalegar, svo miklar að maður gleymir eiginlega öllu því sem þjóðin þurfti að þola af hennar völdum og VG á síðasta kjörtímabili. Hún og félagar hennar voru flengdir í síðustu kosningum en samt lætur hún eins og ekkert hafi í skorist, sýnir enga iðrun eða eftirsjá. Stórbrotinn ræðumaður eins og faðir hennar.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra: Hún er frekar óskemmtilegur ræðumaður, frekar einhæf og svo er eitthvað við hana sem er ekki trúverðugt. Hins vegar var ræða hennar að mörgu leyti góð og athyglisverð. 

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar: Glæsileg kona og virkar röggsöm en frekar lélegur ræðumaður. Allt er svo ómögulegt hjá ríkisstjórninni, sama tuggan og hjá mörgum þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Sumt í ræðu hennar var ágætt eins og kaflinn um mannúð og aðstoð við flóttamenn. Að öðru leyti var eins og ég væri að hlusta á Svandísi.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður stjórnmálaflokksins Píratar: Vel skóluð í stjórnarandstöðunni, góð í formælingum og sterk í óvissuferðalýsingum stjórnmálaflokks Pírata á næsta kjörtímabili. Annað hvort er hún slakur ræðumaður eða hún var svo óskaplega taugaóstyrk að oft greindi maður ekki orðaskil. 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar: Stundum finnst manni margt í Árna Pál spunnið og af og til mælir hann af skynsemi. Svo byrjar masið og hringferðin í kringum heita grautinn. Hins vegar er hann góður ræðumaður, margfalt betri en Oddný. Röddin er skýr en svo hofir maður á munnsvipinn og þá er eins og tungan í manninum sveiflist í hring og við þá sjón gleymist ræðan.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins: Ég hreinlega gleymdi mér þegar Haraldur talaði. Varð nefnilega hugsað til gróðureyðingar á hálendinu. Svo lagði ég við hlustir og þá var ræðan bara búin. „Sorrí“.

Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG: Velti því fyrir mér hvernig VG framleiðir þingmenn sína. Sé fyrir mér að þeir þurfi að læra útúrsnúninga, formælingar og hálfsannleika. Síðan eru þeir hnoðaðir og bakaðir við háan hita og eftir smá tíma verða til sósíalistar eins og Bjarkey sem kalla sig vinstri menn, græna eða eitthvað sem skyggir á raunverulegar skoðanir. Veit ekki hvort hún og Svandís séu á svipuðum aldri en þær gætu allt eins verið tvíburar, að minnsta kosti hvað varðar talsmátann.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins: Mér hefur alltaf þótt Karl vera málefnalegur. Hann flutti góða ræðu en talar eins og hann sé að lesa fréttir. Hann þarf að bæta framsögnina.

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar: Held að Páll sé einlægur og góður maður  (rétt eins og aðrir þingmenn), það skín af honum. Legg trúnað á það sem hann segir og væri ég þingmaður myndi ég hafa bundist bandalagi við hann þegar kemur að ákveðnum málum. Hann er ekki afburða ræðumaður, kallar og hrópar, en málefnin eru yfirleitt góð.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður stjórnmálaflokksins Píratar: Skrýtinn og óhefðbundinn þingmaður. Segir margt gott en er ekki hrópandi slakur ræðumaður. Talar samt slitrótt og er um of hraðmælgur. Fyrir hann væri þjóðráð að liggja dálítið meira yfir ræðunum, endurskrifa oft. Gæti skrifað upp á sumt sem hann hefur sagt. Vandinn er sá að hann setið of lengi á stjórnmálanámskeiði stjórnarandstöðunnar og er því orðinn vinstri maður eins og þingmenn Vinstri grænna.


Lilja Rafney sigraði Bjarna Jónson Bjarnasonar erkióvin VG

Hún kom í heimsókn til mín flugan sem hafði setið á vegg í reykfylltu bakherbergi á aðalskrifstofu Vinstri grænna um helgina.

PrófkjörNokkur tíðindi hafði hún að segja og eru þau helst að Lilja Rafney Magnúsdóttir fékk að sigra í prófkjöri VG í norðvesturkjördæmi. Helsti óvinur flokksins er Jón Bjarnason sem hlýddi ekki forystunni í síðustu ríkisstjórn og hann á son sem bauð sig nú fram, flokknum til mikillar skelfingar. Sem betur fer náði flokkurinn að berja hann niður í annað sæti prófkjörsins.

Í fyrri pistlum hefur verið fjallað um prófkjör Vinstri grænna í kjördæminu. Minnstu munaði að Bjarni Jónsson Bjarnasonar hefði sigur en ráðstjórninni í reykfyllta bakherberginu tókst með naumindum að hætta við prófkjörið á öðrum degi og bar fyrir sig að gallar hefðu verið í framkvæmd þess. Má það til sanns vegar færa því helstu vaktmenn ráðstjórnarinnar sváfu á verðinum og gættu þess ekki að sonur erkióvinarins, Jóns Bjarnasonar, væri í framboði. Við lá að þessi andskoti hefði fengið fyrsta sætið án samkeppni

Njósnir vaktmannanna bentu til þess að Skagfirðingar hefðu fylkt sér á bak við Bjarna og notað taktík Eyverja fyrir sunnan, berjast ákaft fyrir sínum manni. Var því ekki um annað að ræða en að fresta prófkjörinu svo forystan næði að safna nógu miklu liði til að berja á Bjarna.

Þetta þýddi allsherjar herútboð um allt kjördæmið og raunar víðar. Flykktust nú sannir og góðir sósíalist og kommúnistar til prófkjörstaða. Gamlir stalínistar, lenínistar og maóistar voru látnir ... kjósa, skipti engu hvort þeir væru með meðvitund eða ekki. Leitað var sérstaklega til femínista svo og þeirra karla og kvenna sem kenndir eru við móður sína en ekki föður. Yngra fólk þurfti að fresta verslunarferðum sínum til London og New York til að geta kosið. 

smoke-filled-roomNákvæmlega var fylgst með því hverjir kusu og nöfn þeirra send suður í greiningardeildina sem er innaf reykfyllta bakherberginu. Þar sátu ættfræðingar, mannfræðingar og stærðfræðingar og greindu kjósendur og giskuðu á hvað þeim myndu kjósa með 97,8% líkum.

Talið var þrisvar. Í fyrsta skiptið virtist Bjarni hafa sigrað með átta atkvæðum. „Teljið betur,“ skipaði goðinn að austan, og talningamenn snéru aftur inn í talningaherbergið sem er innan af greiningaherberginu sem er innan af reykfyllta bakherbergi forystunnar.

Og aftur var talið og þá kom í ljós að Lilja Rafney hafði sigrað með fjórum atkvæðum. „Ekki nóg,“ sagði goðinn að austan, og talningmennirnir töldu enn betur.

Þegar tuttugu og einu atkvæði munaði Lilju Rafney í hag fengu talningamennirnir að fara í gegnum reykfyllta bakherbergið og kynna niðurstöðurnar opinberlega.

En hvað eigum við að segja þegar fjölmiðlar spyrjast fyrir um fjöldann sem greiðir atkvæði í prófkjörinu, 859 manns á móti 139 árið 2013. Þetta gæti sumum þótt tortryggilegt.

„Ekkert vandamál,“ sagði goðinn að austan. „Við þegjum um þetta og bendum fjölmiðafólkinu okkar á að halda áfram að pönkast í Framsóknarmönnum, ekki gefa þeim nokkurn grið.“


Samfylkingin eyðileggur lýðræðislegar kosningar

Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, hlaut kosningu í 3. sæti listans. Hún var hins vegar færð niður þar sem enginn þeirra sem hlutu efstu sætin voru 35 ára eða yngri en Margrét er 44 ára. Vegna kynjasjónarmiða var Margrét færð enn neðar og endaði í 5. sæti listans.

Þetta er í forvitnilegri frétt á visir.is um prófkjör Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Í henni kemur berlega fram að lýðræði er ekki nothæft.

Í lýðræðinu felst aðeins ein regla, að meirihluti atkvæða ræður. Allar breytingar eða undantekningar frá reglunni eru ólýðræðislegar.

Þeir sem hvorki hafa trú á lýðræðinu né kjósendum setja reglur þess efnis að atkvæði ráði ekki niðurstöðunni. Þá er lýðræðið ónýtt.

Hjá Samfylkingunni er reglan sú að konur og karlar verða að vera jafnmargir á lista. Komi í ljós að vilji kjósenda fellur ekki að þessu eru niðurstöðurnar einfaldlega leiðréttar. Lýðræðið er ónýtt.

Ekki nóg með það heldur er önnur regla til sem lýtur að aldri frambjóðenda. Og viti menn ... Í ljós kemur að enginn undir 35 ára er í efstu sætunum. Þá er gripið inn í. Þar með er lýðræðið ónýtt.

Einn ungur frambjóðandi sem ekki hafði haft erindi sem erfiði í prófkjörinu er með handafli færður ofar og honum troðið í eitt af efstu sætunum. Konan sem hafði verið kjörin í það sæti er sett tveimur sætum neðar. Hún er 44 ára, eldgömul, níu árum eldri en sá „ungi“.

Í Sjálfstæðisflokkum gildir einföld regla í prófkjörum. Fjöldi atkvæða ræður röðun á framboðslista. Punktur. 


Sagan af fulla kallinum og borgarstjóranum

Einhvern tímann birtist í fjölmiðli brandari um manninn sem týndi lyklunum sínum á leið heim til sín eftir mikla drykkju:

Lögreglumaður tók eftir manninum í myrkri nætur við Hringbraut þar sem hann skreið eftir gangstéttinni.

„Hvað ertu að gera hér?“ spurði löggan. Maðurinn sagðist vera að leita að húslyklunum sínum.

„Týndirðu þeim hér?“ spurði löggan, einkar fávíslega.

„Nei,“ sagði sá fulli. „Ég týndi þeim niðri í miðbæ en hér er bara miklu betri lýsing.“

Með rökum má fullyrða að best sé að leita að húslyklunum þar sem lýsingin er góð en lakari aðstæður í myrkri. Lesandinn veit hins vegar að þar með er ekki öll sagan sögð.

Ekkert fyndið er við söguna af Degi Eggertssyni, borgarstjóra, og samferðafólki hans sem ætla að heimsækja stórborgir til að kynna sér lestarsamgöngur.

Í stórborgum er ábyggilega margt til lærdóms um lestarferðir og þar er betra að vera heldur en í smábæjum. Hér má vísa til samanburðar í söguna af fulla kallinum.

Kjartan Magnússon er einn af þessum leiðinlegu borgarfulltrúum sem sífellt spillir starfsgleðinni hjá meirihlutanum í borgarstjórn, Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og stjórnmálaflokknum Píratar (vona að ég hafi ekki gleymt neinum) með einhverjum ómerkilegum athugasemdum.

Með rökum má fullyrða að best sé fyrir borgarstjórann að leita upplýsinga um lestarsamgöngur í borgum þar sem íbúar eru margfalt fleiri en í Reykjavík. Lesandinn veit hins vegar að þar með er ekki öll sagan sögð. Fjarri því.


mbl.is Affarasælla að heimsækja sambærilegar borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband