Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Þjóðin á Ólafi Ragnari Grímssyni mikið að þakka

Ólafur_Ragnar_Grímsson,_September_2011_(cropped)Þjóðin stendur á tímamótum. Lýðræðislega kjörinn forseti hættir eftir tuttugu ár í embætti og annar tekur við.

Full ástæða er til að þakka fráfarandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir þjónustu hans við þjóðina. Hann reyndist afar vel, var þarfur maður og var fastur fyrir þegar sótt var að þjóðinni en kunni engu að síður að halda sér til hlés þegar það átti við.

Ég man þegar það spurðist út í þröngum hópi að hann ætlaði að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands. Fyrir einskæra tilviljun frétti ég af því mjög snemma og ég hló. Ólafur Ragnar sem forseti ... Kanntu annan? Hann verður aldrei kjörinn ... Alþýðubandalagsmaður ... puff.

Ég reyndist ekki sannspár, raunar starfaði ég fyrir annan frambjóðanda en hafði ekki erindi sem erfiði.

Á fyrsta kjörtímabili Ólafs Ragnars voru samherjar mínir í stjórnmálum á tánum og fussuðu og sveiuðu þegar hann bara á góma. Að sama skapi voru gamlir samherjar hans óvenju undarlegir. Þeir jafnvel brostu og hlógu sem sjaldan gerðist nema þegar einhver meiddi sig eða mismælti. Engu að síður hittist svo á að stóran hluta embættistíðar Ólafs Raganars voru gömlu samherjar hans á Alþingi í stjórnarandstöðu en þá loksins að þeir komust á kjötkötlunum varð af því saga til næsta bæjar.

Vegakerfið í Barðastrandasýslum

Það kemst enginn hjá því sem um Barðaströnd fer að kynnast því að því miður er verulegur munur á vegakerfinu í Barðastrandarsýslu og í öðrum landshlutum. Það er greinilegt að það þarf að gera verulegt átak á næstu árum til að Barðastrandarsýsla haldi jöfnuði á við aðra landshluta. Ég vil hvetja til þess að menn líti á það sem sameiginlegt verkefni Íslendinga allra en ekki sem sérmál Barðstrendinga.

vegurMargir muna eftir fyrstu ferð Ólafs Ragnars um Vestfirði er hann kvartaði undan slæmu ástandi vega í Barðarstrandarsýslum. Ofagreind tilvitnun er úr Morgunblaðinu 24. september 1996. Maður hugsaði með sjálfum sér hvað forsetinn væri að vilja upp á dekk með svona yfirlýsingu. Hann ætti að vera þægur og góður og ekki skipta sér af stjórnmálum, engin hefð væri fyrir öðru.

Líklega hugsaði þáverandi samgönguráðherra líka eitthvað á þessa leið og raunar vandaði hann forsetanum ekki kveðjurnar fyrir afskiptasemina. Vera má að forsetinn hafi þarna skipt sér af málum sem komu embætti hans ekki við. Hins vegar vissu allir að vegir í Baraðastrandasýslum voru vart boðlegir á þessum árum.

Fjölmiðlafrumvarpið

Fyrstu árekstrar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við Alþingi urðu er svokallað fjölmiðlafrumvarp var lagt fram á Alþingi árið 2004. Í stuttu máli fjallað frumvarpið um að koma í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun í fjölmiðlun. Margir höfðu áhyggjur af því að sömu eigendur væru á fjölmiðlum; dagblöðum og útvarps- og sjónvarsstöðvum. Og þarna kom það berlega í ljós hversu „sósíalistinn“ Ólafur Ragnar Grímsson var trú sínu liði og barðist fyrir „réttlæti“ auðhringa og ríka fólksins sem vildi allt gera til að fella ríkisstjórn sem gaf þeim ekki lausan tauminn.

Alþingi samþykkti fjölmiðlafrumvarpið, forsetinn neitaði að skrifa undir og þar með hefði það átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem varð þó ekki. Lögin voru dregin til baka. Þegar þarna var komið sögu var ekkert sem benti til þess að forseti lýðveldisins yrði neitt annað en handbendi vinstri manna.

Bankahrunið

Þá gerðist hið óvænta. Bankarnir hrundi og í kjölfar þess komst ríkisstjórn vinstri manna  til valda undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Stjórnin ætlaði að vera svo góð, kenndi sjálfa sig við velferð, skjaldborgir og allt sem gott mátti nefna. Efndirnar urðu slæmar. Almenningur þjáðist, ekkert vitrænt var gert vegna hrunsins, fólk og fyrirtæki skattpínd, íbúðir teknar af fólki og flótti brast í liðið, þúsundir flúði til baka til Noregs. Í þetta sinn undan áþján Jóhönnu hárfögru og Skallagríms skattara. 

Þá rak Icesave málið á fjörur stjórnvalda, það var rekinn sem varð ríkisstjórninni að aldurtila, rétt eins og trjábolurinn sem rak í Drangey forðum daga og markaði örlög Grettis og Illuga.

Icesave-lögin felld

Manninn má oft reyna en þegar stórkostlegir atburðir gerast sést úr hverju einstaklingurinn er búinn. Þannig varð það með Ólaf Ragnar Grímsson sem átti tvo kosti þegar Alþingi Íslendinga samþykkti fyrsta Icesave-samninginn. Hann gat verið þægur og góður, gert það sem fyrir hann var lagt og skrifað undir lögin. Málið dautt.

Þjóðin reis hins vegar upp á málefnalegan hátt, ekki með pottaglamri á Austurvelli, ruddalegri aðför að einstaklingum, rógi eða grjótkasti. Nei, hún sagði hingað og ekki lengra. Þúsundir landsmanna lögðu vinnu í að sýna fram á hversu fráleit aðferðafræði ríkisstjórnar vinstri manna var, að leggja mörg hundruð milljarða króna ábyrgð á ríkissjóð Íslands til að tryggja skuldir gjaldþrota einkafyrirtækja.

Hinn kostur forseta lýðveldisins Íslands var að neita að skrifa undir þessi lög og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu sem og hann gerði þann 5. janúar 2010.

Ríkisstjórn vinstri manna ætlaði sem sagt að ábyrgjast skuldir gjaldþrota banka. Hversu fráleitt er það ekki? Aðferðin sem hún notaði var hrikaleg. Ráðherrar og fræðimenn framleiddu ósannar upplýsingar til dæmis að þjóðin mynd enda sem Kúba norðursins samþykkti hún ekki lögin.

Það þurfti ekki aðeins kjark til að neita að skrifa undir lögin, heldur einnig skynsemi og þekkingu. Allt þetta hafði Ólafur Ragnar Grímsson til að bera og þjóðin þakkaði honum traustið. Man einhver núna hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fór. Jú, 93,2% þjóðarinnar hafnaði samningnum, aðeins tæp 2% vildi samþykkja hann.

Það var nákvæmlega þarna að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms dó. Hún vissi bara ekki af því, hefði hún gert það hefði hún sagt af sér. Lýðræðiskennd vinstri flokkanna var ekki svo rík að það flögraði að þeim að gera slíkt. Heldur hjó hún aftur í sama knérunn.

Icesave-lögin felld aftur

Þann 16. febrúar 2011 voru önnur lög um Icesave samþykkt frá Alþingi Íslandinga. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði aftur að skrifa undir og því fóru þau í þjóðaratkvæðagreiðslu og 60% þjóðarinnar hafnaði þeim.

Engin ríkisstjórn í sögu íslenska lýðveldisins hafði orðið fyrir slíkri rasskellingu sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Þegar þarna var komið sögu var hún ekki bara dauð heldur steindauð en sem fyrr vissi hún ekki af því.

Eins og til að strá salti í sárin úrskurðaði EFTA dómstólinn á þessa leið þann 28. janúar 2013: 

Dómur EFTA-dómstólsins í Icesave- málinu felur í sér að Ísland er sýknað af kröfum ESA um að vera lýst brotlegt við EES-samninginn. Dómstóllinn hafnar því að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar eða mismunað innstæðueigendum.

Skipsbrot vinstri stjórnarinnar var því algjört. Í dag reyna þeir að endurskrifa söguna og segja að Icesave hafi engu máli skipti. Þvílík endaskipti á raunveruleikanum sem það nú er.

BessataðirMikilhæfur forseti

Nafn Ólafs Ragnars Grímssonar hefur verið markað í sögu íslensku þjóðarinnar. Vegur hans var mestur þegar á þurfti að halda og þjóðin þakkaði honum með því að kjósa hann í fjórða sinn.

Þegar á reyndi lét hann sig engu varða persónulega hagsmuni, gömul pólitísk sambönd, vináttu við samherja heldur tók framar öllu afstöðu með Íslandi; þjóðinni og lýðveldinu. Fyrir það verður honum seint fullþakkað.

Sá sem margir töldu í ólíklegastan til afreka reyndist hafa það bakbein til að spyrna við fótum þegar ríkisstjórn Íslands ætlaði að ganga erinda erlendra ríkja á kostnað íslensku þjóðarinnar.

Segja má að vegur Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta hafi farið vaxandi allt frá því hann gagnrýndi vegakerfið í Barðastrandasýslum forðum daga. Hér hefur verið stiklað á stóru málunum en vissulega fjölmörgum öðrum sleppt. 

Í dag þökkum við forsetanum samfylgdina í tuttugu ár. Á morgun kemur nýr dagur og þá er tekur annar við og honum er að sjálfsögðu óskað velfarnaðar.


mbl.is Eftirminnilegt Bessastaðalíf í 20 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávirðingar á lögreglustjórann í Eyjum eru ekki alvarlegar

Engu líkar en að margir gleðjist yfir áliti umboðsmanns Alþingis um að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hafi ekki farið að lögum við ráðningu löglærðs fulltrúa. Mátulegt á hana ...

Þetta byrjaði allt í fyrra með yfirlýsingu lögreglustjórans um að vegna rannsóknarhagsmuna muni lögreglan í Eyjum ekki gefa upplýsingar um nauðganir á þjóðhátíð. Margir voru verulega óánægðir með þetta og töldu að hún væri að gæta hagsmuna þjóðhátíðarinnar, sögðu berum orðum að engin neikvæð umfjöllun mætti vera um hátíðina, það dragi úr sölu.

Lögreglustjórinn hefur ekki breytt um skoðun, í ár verða ekki gefnar upplýsingar um hugsanlegar nauðganir. Í gúrkutíðinni ráðast menn með offorsi á lögreglustjórann og halda enn því fram að annarlegar ástæður séu fyrir afstöðu hennar. Við liggur að fjölmiðlaherferð sé gegn henni og ekki bætti úr skák er tónlistamenn neituðu að koma fram á þjóðhátíð nema afstaða Eyjamanna breyttist. Eftir fund með bæjarstjóra og þjóðhátíðarnefnd drógu tónlistamenn hins vegar yfirlýsingu sína til baka og með því viðurkenna þeir, þó óbeint sé, að nokkuð mikið sé til í afstöðu lögreglunnar.

Nú er aftur barið á lögreglustjóranum og margir hafa enn horn í síðu hennar og trúa öllu illu upp á hana.

Mér sýnist þó á flestu að lögreglustjórinn sé samkvæm sjálfri sér. Rök hennar eru skotheld þó deila megi um þau rétt eins og um ráðningu löglærða fulltrúans. Niðurstaðan er hins vegar sú að umboðsmaður telur annmarka á málsmeðferðinni en tekur ekki afstöðu til þess hvort hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn.

Held að eftir að allt ofangreint sé virt geti lögreglustjórinn bara borið höfuðið hátt.


mbl.is Ekki í samræmi við stjórnsýslulög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont að vera stykkisólmur ...

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, segir frá því á bloggi sínu að hann hafi á yngri árum tekið þátt í kappáti í veislu í Hveragerði. Allir sem borðuðu þar fengu matareitrun og einnig sá sem Ómar „át undir borði“ eins og hann orðar það. Ómar slapp við eitrunina vegna þess að hann hafði ekki snert á grænum baunum sem allir úðuðu í sig en þær voru skemmdar og eitraðar.

Af orðleggjandi hagleik segir Ómar:

Ef þetta hefði verið fjölskylduveisla hefði hún breyst í fjölskituveislu.

Í athugasemdum segir Már Elísson:

Mér finnst orðið "fjölskituveisla" vera bæði lýrískt og myndrænt og verður hér með tekið inn í íslenskar orðabækur. Orðið segir allt sem þarf og er þar að auki hláturvekjandi svo maður verður að passa sig. Frábært hjá þér Ómar.

Ómar klykkir út með því að segja:

Mér þykir miður ef orðið vekur slíkar hræringar með mönnum, sem eru að reyna að halda í sér, að þeir geri á sig. Ekki síst ef ástand viðkomandi manns er slíkt að hann verði stykkisólmur.

Þarna hló ég svo rosalega að ég að ég átti erfitt með að halda í mér.

 


Bláfjallakvísl er langoftast fær göngufólki

950803-74Bláfjallakvísl á hinum svokallaða Laugavegi er yfirleitt blátær. Hún er dragá og tekur til sín vatn víða að. Upptök hennar er að finna í Bláfjöllum við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Við sólbráð eykst vatn úr jöklinum og það skilar sér í ána.

Sjaldnast er hún til trafala. Vegur suður Emstrur er á traustu vaði sem sjaldnast breytist. Göngufólk kemst auðveldlega yfir, vatnið sjaldnast nema í hné á meðalmanni.

Örskammt fyrir norðan er Kaldaklofskvísl. Hún er öllu vatnsmeiri og stundum straumhörð. Hún var brúuð fyrir um tuttugu og fimm árum, raunar ítrekað vegna snjóþyngsla sem sliguðu brúna einu sinni eða tvisvar. Hér áður fyrr þótti frekar leiðinlegt að þurfa að vaða tvær kaldar ár með 400 m millibili.

Myndin sem hér fylgir var tekin fyrir mörgum árum. Göngufólk fær far með jeppa yfir Bláfjallakvísl og þakkar fyrir að þurfa ekki að vaða.

Laugavegurinn er með vinsælustu gönguleiðum landsins. Það er eðlilegt, landslag er víða fagurt og gönguleiðin fjölbreytt. Þó verður

að segjast eins og er að hann er frekar ofmetinn sé hann borinn saman við aðrar gönguleiðir. Sá sem þetta ritar hefur ótal sinnum farið Laugaveginn, gangandi, á skíðum, hlaupandi og á bíl eins og mögulegt er. Í dag heillar hann ekki eins og hann gerði. Of margir göngumenn eru þarna og það eyðileggur upplifunina að miklu leyti. Vilji fólk endilega ganga þessa leið þá er mælt með því að fara seinnipart ágúst eða í september. Gæta þá vel að veðurspá og vera vel búinn.


mbl.is Mikið vatn í Bláfjallakvísl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný-fíflin ráðast á vonda fólkið

idiot2Vefur ofstækismanns í stjórnmálum hefur vakið afar mikla athygli að undanförnum. Hann ræðast á fjölmargt fólk og kennir þá við rasisma sem hann raunar kallar ný-rasisma, líklega til að leggja enn meiri vigt á orð sín. Þetta kemur skýrt fram á vef sem nefnist sandkassinn.com. 

Þegar einhver ræðst ruddalega að öðrum er ástæðan fyrst og fremst þörfin á að upphefja sjálfan sig.

Ritstjóri vefsins telur sig hvítskúrað gæðablóð enda gætir hann þess að kenna vef sinn við fjölmenningu, jafnréttismál, listir, heilbrigðismál og ábyggilega allt fagurt mannlíf sem hann hugsanlega vill iðka.

Hann telur sig dæmi um fagurt mannlíf en þeir, hinir, sem eru á öndverðum meiði við hann í stjórnmálum er vonda fólkið, rasistar, fasistar sem ekkert gott gera, græða bara á daginn og grilla á kvöldin.

Umræða sem ætlað er að fjalla um kærleika, fjölmenningu og fólk af ýmsu þjóðerni og kynþáttum en skeytir engu um mannorð, heiður, réttlæti og hefur ekki í heiðri nauðsynlega aðgát og hógværð í umfjöllun um annað fólk er vita marklaus. Hún er merki um þroskaleysi og vitskerðingu enda leiðir oft ofstækisfull orðræða oft til líkamlegs ofbeldis eins og dæmin sanna um allan heim.

Hér á landi verður þó að kalla svona heimskupör fíflaskap. Fíflin þekkjast yfirleitt á orðum þeirra og til að skýra þetta enn betur má kalla þau ný-fífl. Slíkt lið er sem betur fer fámennt en áberandi í þjóðfélagsumræðunni, á bloggsíðum og athugasemdadálkum ýmissa fjölmiðla. Með orðræðu sinni beitir það sér af mikilli hörku gegn vitrænni umræðu af því að það kann hana ekki, kann ekkert nema ofbeldi.

Ný-fífl eru þeir sem reyna allt sem hægt er að gera lítið úr öðrum, niðurlægja aðra, snúa út úr orðum fólks. Fíflin þola ekki öðrum að hafa andstæðar pólitískar skoðanir. Þau skilja ekki lýðræðið, málefnalega rökræðu enda fara þau jafnan hallloka í henni.

Þess vegna er gripið til viðbjóðslegrar, fasískrar orðræðu sem ætlað er að vinna fylgi með því að niðurlægja aðra ... og um leið upphefja sjálfa sig. Í þessu er fólgin grundvallarskýringin á ný-fíflum.

Spurningin er yfirleitt sú hvar hver og einn kýs að standa í þjóðfélagsumræðunni. Í henni er oft gott að spyrja sig einfaldrar spurningar: Hvaða afstöðu myndi ég taka ef nákominn ættingi eða vinur ætti undir högg að sækja gegn ný-fíflunum

 


Svein Jakobsson, jarðfræðingur, viðtal úr Áföngum

SveinnSveinn Jakobsson, jarðfræðingur, lést 12. júlí 2016, 77 ára að aldri. Ég kynntist Sveini lítillega árið 1980. Átti við hann viðtal sem síðar birtist í tímaritinu Áfangar er ég gaf út.

Sveinn var afskaplega viðkunnanlegur maður og kurteis við ungan mann sem hafði mikinn áhuga á jarðfræði. Hann taldi ekki eftir sér að segja til og fræða þann stutta tíma er við áttum saman þarna í Surtsey. Síðar hittumst við á vinnustað Sveins og okkur varð bara ágætlega til vina, ræddum um jarðfræði. Eins og gengur urðu samskiptin ekki meiri en síðan hefur hann verið mér afar minnisstæður.

Viðtalið við Svein bar fyrirsögnina „Móbergið bjargar Surtsey frá tortímingu - að sinni“. Til minningar um Svein Jakobsson er hér viðtalið:

„Þetta er eins og ein risastór tilraunastofa. Hér er alveg einstakt tækiværi til þess að fylgjast með því, hvernig land myndast og hvernig líf nemur land.“ Þetta segir Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur, og á hann við Surtsey, þessa yngstu eyju við yngsta land í heimi.

Surtsey er sautján ára. Sautján ár þykir ekkert stórafmæli í mannsárum, en það er stórafmæli í sögu eyjar fyrir þá sem fylgjast með henni og þeim breytingum sem hún hefur orðið fyrir. jarðsögulega eru sautján ár svo lítill tími að hann er vart mælanlegur, en þó hafa gerst í Surtsey á þessum tíma, þeir hlutir, sem vísindamönnum þykja stórmerkir og hafa í ýmsu breytt kenningum manna í jarðfræði.

Frá upphafi hefur verið náið fylgst með Surtsey, jafnt af innlendum sem erlendum vísindamönnum. jarðfræðilega hefur landið verið ítarlega rannsakað, fylgst hefur verið með lífríki eyjunnar, hvernig landnám gróðurs er háttað,m hvernig fuglalíf hefur þróast og svo framvegis.

Blaðamaður Áfanga mælti sér mót við Svein Jakobsson úti í Surtsey um miðjan september og þar gafst ágætt tækifæri til að fræðast af honum og samstarfsmönnum um rannsóknir þeirra í eyjunni. Þær rannsóknir beindust aðallega að vatnsborðsmælingum í borholu sem þarna er í eyjunni, hitastigsmælingum á yfirborði eyjunnar og síðast,m en ekki síst kortlagningu á móbergsmunduninni í eyjunni og sýnatöku úr þeirri myndun. Hin hraða móbergsmyndun er eitt af eim atriðum sem komið hafa vísindamönnum hvað mest á óvart.

Surtsey LofmyndirMóbergsmyndunin

Við snögga kælingu hraunkviku verður gífurleg sprenging og aska og lítil berbrot myndast. Við endurteknar sprengingar eins og gerðust þegar sjór rann hindrunarlaus inn í gígana í Surtsey meðan á gosi stóð, urðu til háar öskjuhlíðar umhverfis þá. Síðan, þegar gosið hætti, stóðu þessar hæðir eftir og skýldu gígunum. Með tímanum harðnaði þessi aska og varð að móbergi. Það sem einkum stuðlar að móbergsmynduninni er hiti og raki og auðvitað tíminn.

Að sögn Sveins hefur það komið vísindamönnum mest á óvart, hve hratt móbergsmyndunin hefur gengi fyrir sig, en strax tveimur árum eftir að gosi lauk, varð vart við hana. Því meiri sem hitinn er, því hraðar gengur móbergsmyndunin fyrir sig, að því þó tilskyldu að rakinn sé nægilegur, en án hans umbreyttist askan ekki. Sveinn sagði að hafi hitinn verið um eða yfir 100 gráður á Celsíus,þá hafi móbergsmyndunin tekið eitt til tvö ár, en hafi hitinn verið lægri, þá hefur umbreytingin tekið lengri tíma.

„Hér er alveg einstakt tækifæri til þess að fylgjast með móbergsmynduninni. Við boruðum í fyrra 181 metra djúpa holu og höfum síðan verið að rannsaka þennan borkjarna, sem þá fékkst. Það er nú ljóst, m.a. af þeim rannsóknum, að allur sökkull eyjarinnar er móberg og það hefur myndast tiltölulega hratt.

Það hefur einnig komið í ljós að um sjö tíund hlutar þeirrar ösku sem enn er ofansjávar hefur ummyndast í móberg. Eyjan er smám saman að kólna, þannig að nú eru litlar líkur á því, að sú aska sem eftir er, verði að móbergi.“

Mjög mikið vindrof er í Surtsey og hefur feykilegt magn af öskunni fokið út í hafsauga og standa berar móbergsklappir nú, þar sem hæst ber. eyjan er nú sem óðast að taka á sig þá mynd sem aðrar eyjar í Vestmannaeyjaklasanum bera, enda eru þær greinilega myndaðar á sama hátt og Surtsey. En með það í huga, hve veðrun eyjarinnar er mikil, þá spyrjum við Svein að því, hvort að hugsanlegt sé að Surtsey hverfi af yfirborði sjávar:

„Nei, það held ég ekki, alla vega ekki næstu árhundruðin, held ég að megi fullyrða. Móbergskjarni eyjarinnar mun bjarga henni frá tortímingu í nánustu framtíð. Það stendur miklu betur af sér ágangs hafs og vinda heldur en hraunið. Í hrauninu er svo mikil kleyfni, t.d. stuðlabergsmyndanir. Slíkt á sjórinn mjög auðvelt með að brjóta niður, enda minnkar eyjan stöðugt. Sjálfur sé é mun á henni frá ári til árs.

SurtseyÓþéttar undirstöður

Eins og fram kom hjá Sveini hér á undan er Surtsey stöðugt að kólna. Mestur hiti sem mælst hefur í Surtsey eru 126 gráður, en í borholunni hafa mælst 14 2gráður. Víða leggur upp gufumekki og niðri í sprungum og gjótum í hrauninu, og einnig í móberginu er talsverður hiti. Í gestabók Pálsbæjar [hús í Surtsey sem er til afnota fyrir þá sem þar dvelja] má lesa, að vísindamenn höfðu nýtt sér gufuna í einni sprungunni og notað sem gufubað meðan sólin skein þangað inn. Stað þennan nefndu þeir „grillið“ og nýtur það mikilla vinsælda. 

Einna merkustu uppgötvanir í ferð vísindamannanna fimm í Surtsey að þessu sinni voru niðurstöðu vatnsborðsmælinganna í borholunni títtnefndu.

Vatnsborðsmælingarhöfðu áður verið gerðar í þeirri borholu og í ljós komið, að sjávarfalla hefur gætt í henni, en menn tóku þeim niðurstöðum með mikilli varfærni, svo ekki sé meira sagt. Þeir Snorri P. Snorrason og Sigurður G. Tómasson, jarðfræðingar, stóðu að vatnsborðsmælingunum. Hæð vatnsborðsins var mæld sjálfvirkt með sírita meðan þeir voru í eyjunni. Þá kom í ljós að vatnshæðin hefur fylgt sjávarföllum og staðfestu Snorri og Sigurður þessa sjálfvirku mælingu með því að kanna vatnsborið sjálfir með sérstökum skynjara nokkrum sinnum á samfelldu tímabili.

Þessar mælingar benda til þess að undir móbergssökkli eyjarinnar séu grófari jarðlög. Hverskona jarðlög það eru er ekki vitað. Borholan stendur í 59 metra hæð yfir sjávarmáli og nær aðeins 122 metra niður fyrir sjávarmál og vantar því nokkra metra niður á hinn gamla hafsbotn, en hætta þurfti boruninni þegar þarna var komið sögu.

Vestmannaeyjar orðnar til á nútíma

Eins og áður sagði svipar Surtsey æ meir til annarra eyja í Vestmannaeyjaklasanum. Þær rannsóknir sem hafa farið fram á eyjunni bregða nýju ljósi á sköpunarsögu Vestmannaeyja, en til þeirra heyra nú 15 eyjar og 30 drangar og sker. Þær hafa hlaðist upp á gossprungum með suðvestur og norðaustur stefnu á síðustu 10.000 til 15.000 árum. Ytri eyjarnar eru orðnar til í þeytigosum, þ.e. að í gosunum hefur komið aðallega gosmöl, og eru gerðar úr lagskiptri hjarnaðri gosmöl, móbergi. Innri eyjarnar eru hins vegar úr gosmöl og hraunlögum og orðnar til við svipuð gos og Surtsey, það er við þeyti- og hraungos.

Fjöldi gosa í sjó mun hafa orðið hér við land á sögulegum tíma og telst mönnum svo til að þau séu á annan tug talsins. Áður en Surtseyjargosið varð höfðu að minnsta kosti þrisvar hlaðist upp eyjar, en þær allar orðið brimöldunni að bráð. Nefna má Nýey, sem hlóðst upp í gosi vorið 1783 um 55 km suðvestur af Reykjanesi. Hún hefur sennilega orðið svipuð Syrtlingi að stærð. Sumarið 1784 var eyjan horfin en Eldeyjarboði mun vera leifar hennar.

 Efsta myndin er af Sveini Jakobssyni, tekin í Surtsey við störf hans. Næsta mynd er tekin traustataki af vef Lofmynda ehf og sýnir Surtsey eins og hún var árið 2014. Neðsta myndin er af Surtsey eins og hún var 1980. Myndin er einnig tekin traustataki af vef Landmælinga Íslands. Á þessum tveimur myndum má sjá að miklar breytingar hafa orðið á eyjunni síðustu áratugi og þær eiga eftir að verða meiri. Athugið að norður er ekki endilega upp á báðum myndunum.


Víkingur - KR, mikill munur á einkunnagjöf fjölmiðla

Í gær léku Víkingur og KR í Fossvoginum og ég horfði á hann í sjónvarpi. Heimamenn unnu en það var tæpt. KR-ingar áttu nær allan leikinn, stjórnuðu honum meira eða minna allan tímann en komu boltanum ekki framhjá ágætum markverði Víkinga, Róberti Erni Óskarssyni.

Ég rak því upp stór augu þegar ég las eftirfarandi í umfjöllun Moggans um leikinn:

Víkingar nálguðust þennan leik af mikilli festu og voru ákaflega þéttir og baráttuglaðir. Markvörðurinn Marko Perkovic lék sinn fyrsta leik með liðunum og skiluðu góðu dagsverki

Þetta er auðvitað fljótfærnisvilla en á ekki að sjást. Marco þessi sem nefndur er í tilvitnuninni er ekki markmaður heldur varnarmaður.

Einkunnagjöf Morgunblaðsins virðist vera tilviljunarkennd í meira lagi og stundum efast maður um að blaðamenn hafi verið á þeim fótboltaleik sem þeir þó skrifa um. 

Aðeins tveir leikmenn KR fá stig fyrir leik sinn, Chopart og Beck. Ótrúlegur nánasaskapur blaðamannsins að Óskar Örn Hauksson, Indriði Sigurðsson og Skúli Jón Griðgeirsson skuli ekki hafa hlotið náð fyrir augum hans, allir drífandi menn og höfðu mikil áhrif á leikinn.

Eins er með Víkingana. Þrír fá stig, áðurnefndur „markmaður“ Marko, Ívar Örn Jónsson og Dofri Snorrason. Undarlegt að menn eins og Halldór Smári Sigurðsson eða Gary Martin skuli ekki hafa fengið stig. Það skekkir síðan alla niðurstöðu einkunnagjafar Moggans misjafnt er hversu margir leikmenn fá einkunn. Það fer oft eftir því hverjir skrifa fréttina.

Fréttablaðið stendur sig ekki ekki skár í íþróttafréttum en Mogginn. Þó eru ítarlegri fréttir oftast birtar á vefsíðu blaðsins, visir.is, og jafnvel stuttu eftir leik.

Fréttablaðið gefur öllum leikmönnum stig fyrir frammistöðu sína sem er mun réttlátari aðferðafræði heldur en að taka einn og einn út og láta sem svo að aðrir hafi ekki staðið sig. Hins vegar má deila um hverjir fá háa einkunn og hverjir ekki og ekki síður hvernig leikmenn eru metnir.Íþróttir2

Sé einkunnagjöf Moggans og Fréttablaðsins borin saman virðist lítið samræmi í henni. Hvað varðar leik Víkings og KR virðist sem þessir fjölmiðlar hafi verið á sitt hvorum leiknum, svo miklu munar í einkunnagjöf.

Igor Taskovic fær 8 í einkunn hjá Fréttablaðinu en kemst ekki á blað hjá Morgunblaðinu. Fimm leikmenn Víkings fá 7 í einkunn hjá Fréttablaðinu en aðeins tveir þeirra fá M hjá Morgunblaðinu.

Allir sjá að þessi einkunnagjöf Morgunblaðsins gengur ekki upp en aðferð Fréttablaðsins gefur skárri mynd af frammistöðu leikmanna.

Hitt er svo annað mál hvernig blaðamenn komast að niðurstöðu í einkunnagjöf sinni. Skyldu þeir skrá frammistöðu leikmanna í sókn, í vörn, á miðju? Tapaðir boltar, unnir boltar, fyrirgjafir, stöðvun á sókn, skallar og svo framvegis? Leyfi mér að draga það í efa að þeir skrái ítarlega hjá sér hvað gerist. Ætli frammistaðan sé ekki metin með „svona á að giska“ aðferðinni, „mér finnst“ eða bara „hann er svo viðkunnanlegur“ aðferðinni.

Staðreyndin er einfaldlega sú að einkunnagjöf getur skipt miklu máli og fjölmiðlar hafa áhrif. Það væri því ljóta ruglið ef blaðamenn meta frammistöðu fótboltamanna eftir einhverju öðru en bláköldum staðreyndum.


Eignarétturinn er friðhelgur

Þeir eru til sem taka það sem þeir eiga ekki. Slíkt kallast einfaldlega þjófnaður og er ekki liðinn í nútíma þjóðfélagi. Má vera að Píratar telji að ljóð, sögur, tónlist, myndir, kvikmyndir, sjónvarpsmyndir ekki bundið neinum höfundarétti. Það er hins vegar mikill misskilningur.

Í íslensku samfélagi er eignaréttur og eignaréttindi ein mikilvægustu réttindum fólks. Þau ber að verja með öllu afli. Ef það er ekki gert verður upplausn og óregla.

Við skulum vara okkur á þeim stjórnmálaskoðunum sem fela það í sér að menn megi taka það sem þeir vilja án samninga og endurgjalds. Sögnin að deila í merkingunni að skipta með öðrum eða afhenda öðrum er falleg en sú deiling er útilokuð án þess að eignaréttindi séu hjá þeim sem slíkt gerir.


mbl.is Hvattir til að deila íslensku efni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berjast sameiginlega gegn alvarlegum glæp

Nauðgun er einn versti glæpur sem manneskjur geta framið. Nauðgun getur skilið eftir sig stór sár sem fólk ber ævilangt. Allt of stór hluti þeirra sem verða fyrir nauðgun treysta sér ekki til að kæra. Af þeim nauðgunum sem eru kærðar leiða aðeins örfáar til sakfellingar.

Svo segir í sameiginlegri yfirlýsingu tónlistarmanna og bæjarstjóra og þjóðhátíðarnefndar í Vestmannaeyjum. Ágreiningur um viðbrögð við nauðgunum á þjóðhátíðinni hefur verið leystur á þann hátt að sómi er að. Nú hefur verið tekið á alvarlegu vandamáli og ætla allir að leggja sitt af mörkum við að útrýma því, einstaklingar, listamenn, þjóðhátíðarnefnd og Vestamannaeyjarbær.

Þannig gerist þegar gott og heiðarlegt fólk kemur saman og tekur sameiginlega ákvörðun. Að sjálfsögðu hefðu allir þessir aðilar geta staðið fastir á sínu og krafist þess að hinir breyttu afstöðu sinni. Það var ekki gert. Þess í stað var málið leysti og meira lagt til eins og segir í yfirlýsingunni:

Þá má að lokum geta þess að listamenn, björgunarsveitir og aðrir gæsluaðilar á hátíðinni munu taka þátt í táknrænni athöfn vegna fyrrnefnds átaks á föstudagskvöldinu á þjóðhátíð og með því marka nýtt upphaf og vonandi eina skemmtilegustu og best heppnuðu þjóðhátíð frá upphafi.

Sómi listamanna, bæjaryfirvalda og þjóðhátíðarnefndar er mikill. Aðrir mega taka þessa aðila sér til fyrirmyndar, ekki aðeins að hafa leyst ágreining heldur að hafa lagt til atlögu við einn alvarlegasta glæp sem framinn er.

Þjóðin getur glaðst yfir svona fréttum.


mbl.is Sveitirnar spila á Þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu margir heimsendaspádómar hafa ræst?

Í gegnum tíðina hafa margir heimsendaspádómar verið settir fram en enginn þeirra hefur ræst og því ekki miklar líkur á að þessi rætist, það vonum við að minnsta kosti.

Stundum les ég vefritið pressan.is. Hlæ stundum upphátt við lesturinn. 

Ofangreint tilvitnun er úr ritinu og segir þar frá heimsendaspádómum. Feitletraði eina setningu í málsgreininni.

Þetta minnir mig á góðan vin minn sem sagðist hafa lenti í dauðaslysi.

Stundum er í fjölmiðlum sagt frá alvarlegu dauðaslysi.

Svo rámar mig í frásögn manns sem fórst með togara sem strandaði.

Stundum erum við svo óskaplega skýr þegar við ætlum að vanda okkur. Ef til vill er ekki grín að svona gerandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband