Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Orkuveitan reynir að kaupa sér velvild

Ganga um Hellisheiði ORHellisheiðarvirkjun verður hvorki aðlaðandi né umhverfisvænni þótt Orkuveitan reynir að taka sér tak í almannatengslamálum. Þessi virkjun er alræmd, hún er ljót, öll mannvirki liggja á jörðu líkt og tilviljun hafi ráðið og vegir hafa skorið í sundur svæði sem áður var frábært til útivistar en er nú nær því ónýtt, í það minnsta lítt áhugavert.

Orkuveitunni hafa verið mislagaðar hendur í umhverfismálum. Hún fékk frítt spil á Kolviðarhóli og klúðraði því. Við leikmenn skiljum hreinlega ekki hvers vegna þessi rör þurfa að liggja hingað og þangað í ótrúlegum krókum og skæklum. Af hverju mátti ekki grafa þau í jörðu, það hefði verið skárri kostur?

Almannatengslin Orkuveitunnar felast í kortagerð, smíði skála og fræðsluferðum um Hengilssvæðið. Óhætt er þrátt fyrir allt að mæla með göngu um Hengilssvæðið þriðjudaginn 26. júní í fylgd jarðfræðings og garðyrkjufræðings. Þrátt fyrir allt er Hengillinn enn á sínum stað og jarðfræði hans er heillandi sem og gróðurfar allt. Orkuveitan má svo sem reyna að kaupa sér velvild með því að gefa kost á svona ferðum en fyrirtækið á þó enn langt í land.

Og biðjum svo fyrir Innstadal, að Orkuveitan göslist ekki þangað inn til að bora, það væri mikið óheillaspor og alls ekki til þess fallið að laga stöðu hennar í augum almennings.


Esjan er stórskemmd

DSCN1610Aukinn áhugi Íslendinga á útivist hefur orðið til þess að átroðningur hefur vaxið mjög mikið á vinsælum gönguleiðum og víða hafa orðið stórskemmdir á landi. Þannig er það meðal annars á gönguleiðinni á Þverfellshorn í Esju.

Sérstaklega er ástandið slæmt í mýrinni á Langahrygg og undir klettabelti Þverfellshorns. Á báðum stöðum hafa troðist margir göngustígar og vatn náð að grafa þá niður og þannig stórlega aukið við skemmdirnar.

Ferðafélagið og fleiri hvetja til ferða á Þverfellshorn en láta á sama tíma vera að kynna aðrar gönguleiðir á fjallið sem eru ekki síður góðar og jafnvel betri. Nefna má Lág-Esju, Kerhólakamb, Kistufell og svo má bæta við Móskarðshnúkum.

Eflaust er ég ekki skömminni skárri, fer reglulega á Þverfellshornið en myndi þó frekar mæla með gönguleiðinni á Kerhólakamb fyrir þá sem stunda þolæfingar.

Staðan á Þverfellshorni er orðin svo slæm að borgaryfirvöld og Skógræktin þurfa nú að huga að því byggja upp tröppur upp hlíðina undir Horninu til að hlífa landinu. Ástandið getur ekki annað en versnað og í svona bratta eins og þar er gerast hlutirnir mjög hratt þegar göngumönnum fjölgar.

Sú ætlan Ferðafélags Íslands að vera með varðeld á Þverfellshorni á Jónsmessunótt er mjög varhugaverð. Auðvitað gæti þetta verið skemmtilegt en ég óttast að ekki verði hægt að þrífa nægilega vel til á eftir og vara því við þessu.


mbl.is Esja eftir vinnu og á Jónsmessunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að biðjast afsökunar?

Ég varð fyrir því í gær að tveir bílar tóku fram úr mér á götu þar sem var einungis ein akrein í hvora átt. Í bílunum voru unglingar í kringum sautján ára aldur, mikið fjör og mikið gaman. Bílunum var ekið verulega greitt, þeir voru greinilega í kappakstri því annar bíllinn reyndi að komast fram fyrir hinn með því að aka á vinstri vegarhelmingi. Svo lögðu þeir fyrir framan húsið þar sem halda átti partíið og út út bílinum gengu tíu gerðaleg ungmenni.

Á undan mér var jeppabíll og ökumaðurinn hafði enga vafninga heldur ók inn að íbúðarhúsinu og lagði bíl sínum fyrir aftan kappakstursbílana. Farþegamegin sté út kona og tók til að úthúða krökkunum fyrir glæfraaksturinn. Þar sem mér verulega brugðið blandaði ég mér í hópinn og sparði ekki skammirnar frekar en konan. Krökkunum þótti þetta nú hin mesta vitleysa og nenntu ekki að standa undir þessum látum, en fóru bara inn. Við, gamla fólkið, kölluðum þá á lögguna og vildum kæra. Konan sagðist ekki una svona aksturslagi á götu þar sem börnin hennar eiga daglega leið um.

Lögreglumennirnir tóku málunum af ákveðni og sökudólgarnir viðurkenndu of hraðan akstur, að hafa ekið á röngum vegarhelmingi og líklega margt fleira. Eftir að hafa upplýst þetta voru unglingarnir teymdir þangað sem við kærendurnir stóðum og annar lögreglumannana sagði röggsamlega: „Nú vil ég að þið biðjið þetta fólk afsökunar.“

Ég rak upp stór augu og eyru. Til hvers að biðja okkur afsökunar? Krakkafíflin brutu lög og reglur og viðurkenndu það. Þau brutu ekkert á rétti mínum en mér ofbauð hinsvegar framkoma þeirra og einföld afsökunarbeiðni breytir engu.

Eiginlega ofbauð mér frekar framkoma lögreglumannanna sem vildu frekar láta krakkana biðjast afsökunar en að lesa ærlega yfir þeim, láta foreldra þeirra vita af glannaskapnum og ekki síst láta foreldra hinna vita af því að þau hafi verið í bíl sem ekið var allt of hratt og gáleysislega.

Þegar ég var í sumarlöggunni í gamla daga þótti frekar tilgangnum náð þegar löggan reyndi að tala um fyrir unglingum. En tímarnir hafa breyst og kannski unglingarnir líka.


Hvað var hann að gera í Krossá?

Í pistli laugardagsins 9. júní segir Vikverji í Morgunblaðinu frá frétt sem birtist í vikunni um fjórtán ára dreng sem bjargað var úr Krossá. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvað drengurinn hafi verið að gera í ánni. Var hann að vaða ánna, datt hann í hana, féll hann úr bíl á leið yfir, ætlaði hann að stökkva yfir ?

Krossá getur verið mjög vatnsmikil og ógnandi en hún getur líka verið meinlaus að sjá. Svoleiðis er nú oftast hegðun jökulfljóta. Ég hef oft vaðið Krossá, einn eða sem fararstjóri með hópa sem ég hef farið með um Þórsmerkursvæðið og aldrei hefur hún verið auðveld vegna þess að hún getur verið straummikil.

Fá ráð er hægt að veita fólki sem vill vaða nema það eitt að sé straumur í ánni verður hún þeim mun verri sem hún er dýpri. Það er raunar rökrétt ályktun en hvað veit sá óreyndi.

Guðmundur Jónasson fjallabílstjóri sagðist geta heyrt dýptina! Hann kastaði vænum stein út í miðja ánna og ef hann heyrði í honum glamra við botngrjótið þá var óhætt að aka yfir. Þetta ráð dugar að sjálfsögðu ekki göngumanninum. Nú tíðkast hins vegar að ganga með stafi sem eru hin mestu þarfaþing. Best er að bera sig þannig við að styðja sig undan straumi með stafinn í annarri hendi og þreifa fyrir framan sig með stafinn í hinni. Sé straumurinn svo þungur að maður nái ekki að setja þar stafinn til botns eða hann berst til hliðar vegna straums, er áin einfaldlega stórhættuleg, óvæð fyrir flesta.

Hvað er þá til ráða? Jú, ef við erum að tala um Krossá, þá sparar göngubrúin við Langadal mikið volk og fyrirhöfn. Af hverju var hún ekki nefnd í fréttinni? Hvers vegna í ósköpunum þarf yfirleitt einhver að vaða Krossá? Fólk þarf ekki einu sinni að aka yfir ána sé ætlunin að fara í Langadal. Skynsamt fólk leggur bílnum í nánd við göngubrúna og gengur með sitt hafurtask yfir að Skagfjörðsskála. Svona einfalt og þægilegt er þetta í Þórsmörk og Víkverji þarf ekkert að ámálga neinar frekari aðgerðir til að draga úr hættu við Krossá.

Vandinn liggur hins vegar hjá þeim sem ætla inn í Húsadal og þá þarf að aka yfir. Þó hafa rekstraraðilar sérstaklega tekið á móti hópum og sjaldnast er áin mikill vandi fyrir stórar rútur.

Svo er það bara eitt að lokum. Hið eina sem getur komið í veg fyrir slys í óbyggðum er heilbrigð skynsemi, að ætla sér ekki meira en útbúnaðurinn, getan og reynslan segir til um. Það á jafnt við um þá sem ferðast fótgangandi sem á vélknúnum ökutækjum. 

Úlfarsfell og Vífilsfell í landfyllingar?

Af hverju eru menn að velta fyrir sér íbúðabyggð úti í Örfirsey og teygja hana þaðan út í sjó? Mér finnst ekkert aðlaðandi við sjávarbyggð út í fryssandi Faxaflóa. Allt mælir gegn henni.

Sjávargangur var hér á árum áður mikill. Ég man eftir briminu við Skúlagötu þegar vart var ökufært um götuna. Sama var með Örfirsey áður en landfyllingar voru gerðar vestan við Grandagarð. Og enn gengur sjórinn upp við Ánanaust og Eiðsgranda. Vill einhver búa með brimið svarrandi á norður eða vesturglugganum meginhluta ársins?

Svo er það aðalspurningin. Hvar hafa menn hugsað sér að fá efni í landfyllingar? Varla er ætlunin að sækja  sand af sjávarbotni. Jarðfræðingar mæla nú ekki með þeirri aðferð og forðum var sagt að vitur maður byggði ekki hús sitt á sandi. Þá er ekki annað eftir en að moka Úlfarsfelli eða Vífilsfelli ofan í flóann!

Reykvíkingar eiga nóg af landi. Geldinganesið er enn ónotað og enn getum við sótt upp á heiðar. Svo getur það gerst að byggðaþróunin breytist og ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu átti sig á því að ýmsir aðrir staðir á landinu henta vel til búsetu, jafnvel betur en nesin við Faxaflóa. Flottustu staðirnir að mínu mati eru til dæmis Skagaströnd, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmur og Ísafjörður. Þekki þá alla af eigin reynslu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband