Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Grýta bílinn og berja ökumanninn?

Ég þekki göngufólk sem hefði ekki hikað við að kasta steini í þennan bíl og er það þó ekki með öllu syndlaust fyrir. Ég er hér að fjalla um jeppann sem einhver vitleysingur ók langleiðina upp að Esjuhömrum en festist í mýri.

Svo áhrifagjarn er maður nú að líklega hefði ég líka kastað einhverju í þennan bíl en þegar litið er til þess að hann er í votlendi og talsverður spölur í nothæft grjót hefði maður láti nægja að henda mold í hann.

Þetta er nú frekar í gríni sagt, en öllu gamni fylgir þó einhver alvara. Sá sem þarna ók þekki ekki vel til staðhátta. Ökumaðurinn ætlaði greinilega að fara yfir að göngustígnum og jafnvel þar niður sem auðvitað hefði verið glapræði bæði fyrir göngustíginn, bílinn og ökumann og farþega.

Í sál flestra blundar sú þörf að fara um landið, ganga, hreyfa sig og njóta þess sem svo margir segja frá með sigurhljómi í röddu, að sigrast á sjálfum sér og ganga um óhefðbundnar slóðir. Sumir láta verða af þessu, aðrir hafa ekki tækifæri til þess og svo er það minnihlutinn sem endilega þarf að grípa til bílsins eða mótorhjólsins og skemma landið í þeim tilgangi að líkjast hinum, fólkinu sem gengur.

Góður vinur minn sagði einhvern tímann í algjöru gríni, líklega til að skensa mig, að ef ekki væri akfært á einhvern stað þætti honum tilgangslaust að fara þangað. Svo hló hann enda  svo vel búinn þekkingu og tækni að honum hefði ekki verið skotaskuld úr því að aka upp á Esju. Það gerði hann þó aldrei enda var hann mikill sómamaður en lést því miður langt fyrir aldur fram.

Með einhverjum ráðum þarf að kenna ungu fólki að umgangast landið. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum áratugum. Nú telst það til frétta ef einhver ekur utan vega. Hins vegar koma alltaf nýjar kynslóðir fram á sjónarsviðið og þar af leiðandi má áróðurinn aldrei falla niður, hann á að vera endalaus.

Þegar maður hugsar nánar um jeppann er ljóst að það er ekki ástæða til að grýta hann eða berja ökumann og farþega fyrir að hafa gert þennan óskunda að aka út í mýrina í miðri Esju. Miklu frekar er ástæða til að Skógræktin loki þessum vegarslóða, bílnum verði komið niður á láglendi og gott fólk fengið til að ræða kurteislega við bílstjórann og kenna honum á grundvallaratriði í útivist. Jafnvel bjóða honum í helgarferð með Útivist eða Ferðafélagi Íslands. Já, það væri leiðin til árangurs. Til viðbótar ætti að bjóða honum í afvötnun á Vogi.


mbl.is Ekið langleiðina upp á topp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt orkar tvímælis ...

Fáir vitna núorðið í Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor. Oft er ástæða til þess, því andstætt við það sem margir halda, hefur hann oft rétt fyrir sér. Hins vegar hefur áróðurinn gegn Hannesi tekist nokkuð vel. Fæstir þeirra sem atyrða hann hafa lesið nokkurn skapaðan hlut eftir manninn, þekkja ekki skoðanir hans nema að sumt af því sem hann skrifar flokkast undir frjálshyggju. Í raun og veru er það heigulsháttur að taka ekki undir það sem vel er sagt af heilum hug.

„Ekkert kemur í veg fyrir, að aðgerð hafi tvennar afleiðingar, þar sem aðeins önnur var ætlunarverk og hin ekki.“ Þetta er í kaþólskri heimspeki kallað lögmálið um tvennar afleiðingar. Til dæmis kann tilraun til að bjarga lífi þungaðrar konu fyrirsjáanlega að valda fósturláti, en sú afleiðing var ekki ætlunarverk og aðgerðin þess vegna ekki nauðsynlega fordæmanleg af þeirri ástæðu.

Þetta skrifar Hannes í vikulegan dálk sinn í Morgunblaði dagsins og birtir líka í bloggi á vefritinu pressan.is. Íslenski málshátturinn „Allt orkar tvímælis þá gjört er,“ styður þessa kenningu og bendir á að hún er síður en svo óþekkt.

Mér finnst tilvitnunin nokkuð athyglisverð og beinir hugsuninni meðal annars að einstrengingslegum áróðri. Flest allt hefur tvennar ef ekki fleiri afleiðingar. Það sem sagt er á einn hátt er oft túlkað á annan sem svo sem getur gengið en var þó ekki skilningur þess sem segir eða skrifar.

Á Vísi í dag segir forsvarsmaður þungarokkshátíðarinnar Neistaflugs að hún verði ekki haldin aftur ef brotið verði kynferðislega á einhverjum meðan á henni stendur.

Hann hafði vart sleppt orðinu er hann fær á sig þá gagnrýni að þessi orð muni hugsanlega fæla þolendur frá því að kæra kynferðisbrot, þeir vilji ekki eiga það á samviskunni að hátíðin leggist af.

Án þess að taka afstöðu má fullyrða að þetta er ágætt dæmi um tvennar afleiðingar. Ég trúi því að forsvarsmaðurinn hafi sagt þetta af góðum hug og hafi varla leitt hugann að öðru eða talið ósennilegt að sá sem verður fyrir ofbeldi vilji ekki kæra það af ótta við aðrar afleiðingar en þær sem beinlínis snúa að honum sjálfum. 

Þegar einhver tekur afstöðu í því sem er pólitískt vandamál þá er sagt að tilgangur hans sé allt annar. Fjöldi dæma eru til um þetta. Stjórnmálamenn taka afstöðu, leggja til dæmis fé á fjárlögum til að endurbæta einhvern veg, til dæmis veginn fyrir Skaga. Árlega í tíu eða tuttugu ár er fé lagt til vegarins. Gagnrýnendur geta þá fullyrt að með því að leggja einu sinn til tífalt árlegt framlag væri hægt að leggja varanlegt slitlag á veginn og eftir það kosti viðhald hans aðeins örlítið fé á hverju ári.

 


Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Hér eru gerðar nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. 

1.

Vafamál: „Arsenal og Liverpool með sigra“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Íþróttablaðamenn skrifa og tala oft á allt annan hátt en venjulegt fólk. Margir þeirra eru ekki góðir í skrifum þó hafi yfirburðaþekkingu á einstökum íþróttagreinum. Fótboltaliðin í fyrirsögninni unnu leiki sína og betra að segja það skýrt í stað þess að safna nafnorðum. Betur fer á því að segja að þau hafi sigrað eða unnið en þau séu með sigra. 

Tillaga: Arsenal og Liverpool unnu (eða unnu leiki sína).

2.

Vafamál: „Rannsókn lokið - varðhalds krafist áfram“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: ‚Áfram‘ er atviksorð og það getur stundum verið aftast í setningu. Máltilfinningin segir þó að hér sé þetta ekki eins og það eigi að vera.

Tillaga: Rannsókn lokið og og krafist er framhald á varðhaldi eða að maðurinn verði áfram í varðhaldi.

3.

Vafamál: „Sveinn seg­ir að lög­regl­an hafi í kvöld tekið skýrsl­ur af vitn­um og öðrum sem geti þekkt til bíls­ins og að unnið sé í „botngír“. Úr frétt á mbl.is.

Athugasemd: Eitthvað er ekki rétt hérna. Hægt er að aka í botni og er það venjulegast átt við að bensíngjöfin sé staðin í gólf bílsins, botninum. Óljóst er hins vegar hvaða gír sé „botngír“, það fer án ef eftir hraðanum. Illt er ef ökumaður ruglar saman bensíngjöf og gírstöng, verra er ef blaðamaður kann á hvorugu skil.

Tillaga: … og að unnið sé að málinu af krafti.

4.

Vafamál: „„Blómstrandi óskapnaður­inn“ er Íslands­vin­ur.“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Blaðamaður vefsins skrifar hér um regnkápu Margrétar Danadrottningar. Hún er talinn vera „Íslandsvinur“. Án þess að fullyrða það er varla hægt að telja dauða hluti til vina nema auðvitað að þeir hafi hugsun, vit og skilning eins og til dæmis hundur.

Tillaga: „Blómstrandi óskapnaður­inn“ þekkist úr Íslandsferð. Eða Drottningin hafði verið í „óskapnaðinum“ í Íslandsferð.

5.

Vafamál: „Versl­un­in Zara í Smáralind lok­ar tíma­bundið um mánaðamót­in vegna end­ur­nýj­un­ar á versl­un­ar­rým­inu.“ Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Algeng villa hjá blaða- og fréttamönnum og hefur dreifst víða sem bendir til að fjölmiðlar hafi meiri áhrif en margir trúa. Verslun getur ekki aðhafst eitt eða neitt. Einhver opnar eða lokar henni jafnvel þó dyrnar sé sjálfvirkar. Verslunin Zara lokar engu og opnar heldur ekki neitt. Hún Sara frænka mín gæti hæglega opnað eða lokað verslunum, jafnvel fyrir fullt og allt.

Tillaga: Versluninni Zöru/Zara í Smálind verður lokað tímabundið …

6.

Vafamál: „Transfólki verður ekki leyft að sinna nokkrum störfum innan Bandaríkjahers.“ Frétt á Bylgjunni 26. júlí 2017, kl.16.

Athugasemd: Æ algengar er að óákveðna fornafnið 'nokkrir' sé notað í stað ‚enginn’ sem líka er óákveðið fornafn. Ekki er vit í því að einhver breyti tungumálinu einhliða, því þá verður til margvíslegur vandi fyrir okkur hin. Setningunni hér að ofan má skilja svo að transfólk fái ekki að gegna flestum störfum innan hersins, aðeins fáeinum, nokkrum. Þeir sem til þekkja vita þó að verið er að banna transfólki alfarið að starfa innan hersins, engar undantekningar. Ofangreind tilvitnun er síður en svo skýr en þyrfti að vera það.

Tillaga: Transfólki verður ekki leyft að sinna neinum störfum innan Bandaríkjahers. Betra væri þó: Transfólk fær ekki að starfa innan Bandaríkjahers.

7.

Vafamál: „Þetta kostar einhverjar milljónir.“ Heyrist oft í talmáli og sést æ oftar í ritmáli.

Athugasemd: ‚Einhverer óákveðið fornafn. Betur fer á því að nota nokkur eða fáeinir. Þegar sagt er að ,einhverjir borgi’ er það rétt mál enda ekki vitað hverjir borga. Sama á við það sem er magn eða fjöldi. ‚Einhverjir steinar eru í skriðunni‘ getur varla talist markviss lýsing, betra er að segja að margir steinar séu í henni eða hún sé stórgrýtt. Eitthvað af fólki kom í búðina, segja sumir, og eiga ábyggileg við að frekar fáir hafi komið í búðina. Þetta er einfaldlega ekki skýrt orðalag. Hvað er á móti því að segja að fáir eða tiltölulega fáir hafi komið í búðina eða eitthvað álíka? 

Tillaga: Þetta kostar nokkrar milljónir, fáeinar milljónir eða margar milljónir.

8.

Vafamál: „Bæjarstjórn Sandgerðis hefur samþykkt tillögur um að kaupa inn fjögur bráðabirgðahúsnæði fyrir fólk sem þarf á aðstoð félagsþjónustunnar að halda og er á biðlistum eftir íbúð.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Keypti bæjarstjórnin húsnæði til að nota til bráðabirgða eða keypti hún bráðabirgðahúsnæði? Hið fyrra skýrir sig sjálft. Hið síðara má skilja þannig að eftir einhvern tiltekinn tíma hætti íbúðin allt í einu að vera bráðabirgðahúsnæði og verði til dæmis að verslunarhúsnæði eða geymslum. Eða á fólk að vera í íbúðunum í skamman tíma þangað til það getur fengið íbúð til framtíðar? Svo er ekki rétt að íbúðir séu „keyptar inn“, eins og verið sé að kaupa inn mat eða eitthvað á lager eða í búrið. Íbúðir eru bara keyptar. Og af hverju er húsnæði ekki einfaldlega kallað íbúð? Er fínna að segja húsnæði rétt eins og sumir segja manneskjur og eiga við fólk, menn, karla eða konur.

Tillaga: Bæjarstjórn Sandgerðis hefur samþykkt tillögur um að kaupa fjórar íbúðir sem notaðar verði til fyrir fólk sem er á götunni (eða eitthvað álíka) …

9.

Vafamál: „Anthony Scaramucci, nýr samskiptastjóri Hvíta hússins, hélt klúran reiðilestur yfir blaðamanni New Yorker um aðalráðgjafa Donalds Trump forseta og sagði starfsmannastjóra Hvíta hússins brátt verða rekinn í mögnuðu símtali sem greint var frá í gær.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Frekar illskiljanleg málsgrein og alltof löng. Ef lesandinn þarf að marglesa málsgreinina til að skilja er hún illa samin. Verður maðurinn rekinn í „mögnuðu símtali“? Hvað er annars „magnað símtal“? Af hverju er 'Hvíta húsið' nefnt tvisvar? Dálítið ofrausn en kallast tuð, jórtur eða nástaða. Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri DV, býður upp á stórmerkileg námskeið um textaskrif á vef sínum jonas.is. Þar segir hann meðal annars. „Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.“ „Settu punkt sem oftast, styttu setningar og málsgreinar.“ Sá sem skrifaði ofangreinda maraþonmálsgrein ætti að fara í nám hjá Jónasi.

Tillaga: Myndi ráðleggja „blaðamanni“ að lesa „fréttina“ vandlega yfir og endurskrifa hana að öllu leyti eftir að hafa farið á namskeið hjá Jónasi. 

10.

Vafamál: „Aukin hætta er á jökulhlaupi í Múlakvísl og á Mýrdalssandi eftir snarpan jarðskjálfta í Kötlu í fyrrakvöld. Almannavarnir hafa þegar lokað áningarstað við Múlakvísl og takmarkað umferð á leiðinni um gamla Mýrdalssand.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Hvar skyldi gamli Mýrdalssandur vera eða sá nýi. Líklega hefur blaðamaðurinn verið að flýta séá við gamla þjóðveginn yfir Mýrdalssand. Fljótfærnisvillur verða iðulega til og þess vegna verður einhver að sinna yfirlestri. Þess í stað fá byrjendur og lengra komnir að valsa um og setja hvað eina á fréttavefi. Auðvitað er svona bull ókurteisi við lesendur. Landafræðiþekkingu fjölmargra þeirra sem kalla sig blaðamenn er líka verulega áfátt.

Tillaga: … takmarka umferð um gamla þjóðveginn yfir Mýrdalssand.


Skjálftar, spenna og spennulosun í Fagradalsfjalli

Skjálftar, v Grindavík cJarðskjálftarnir í og við Fagradalsfjall austan við Grindavík eru varla fyrirboðar eldgoss. Staðreyndin er einfaldlega sú að á hverju ári verða líklega nærri þrjátíu þúsund skjálftar, flestir frekar litlir. Í fyrra varð ekkert eldgos þó svo að þeir væru þetta margir. Og tíðindalítið hefur verið á þessu ári þó jörðin hafi skolfið ótæpilega víða um land.

Á meðfylgjandi mynd frá Loftmyndum ehf. eru nokkur hundruð jarðskjálftar merktir. Af forvitni skoðaði ég stóru skjálftana sem urðu í gær og í dag, það er þeir sem eru stærri en 3 stig.

Sem leikmanni finnst mér dálítið forvitnilegt að sjá hvernig skjálftar haga sér, hvort mynstur sé sjáanlegt. Í raun er það ekki svo, að minnsta kosti ekki í augum leikmannsins. Hins vegar greina jarðfræðingar mynstur, ekki beinlínis hvar þeir verða, heldur hvernig þeir færast frá einu svæðinu til annars.

Skjálftar, v GrindavíkByrjum á myndinni. Inn á hana hef ég merkt með hvítu letri hvenær jarðskjálftinn varð og gula línan bendir á næsta skjálfta.

Þetta byrjaði allt klukkan tæplega hálf átta í gærmorgun að skjálfti upp á 3 stig varð og tæpum hálftíma síðar varð annar jafnstór norðvestan við þann fyrri. Sem sagt, þarna skalf jörðin fram yfir hádegi. 

Um tvö leytið varð einn stór skjálfti suðvestan við það svæði sem flestir urðu. Sá skjálfti og þeir litlu þýddu einfaldlega að skjálftahrinan var að færst til vesturs, upp á vestanvert Fagradalsfjall. Þar staðnæmdist hrinan, hugsanlega í bili.

Á Reykjanesi eru sex eldstöðvakerfi, eitt þeirra er kennt við Fagradalsfjall. Um miðjan skagann er mjótt belti og þar eru langar sprungur sem hafa norður-suður stefnu. Skjálftar á verða á þessum sprungum og það sem meira er þeir smitast yfir í næstu sprungur og færast þannig til þegar spenna myndast vegna þeirra. Þetta er svona eins og þegar barið er á gler sem liggur flatt á borði. Þar sem hamarinn kemur niður verður brestur og hann losar um þrýsting annars staðar og þar með koma brestir víðar í glerinu.

ReykjanesMunurinn á dæminu er hins vegar sá að barmar sprungna á Reykjanesi færast til við skjálfta, annar barmurinn færist til norðurs en hinn til suðurs.

Þegar miklir skjálftar verða á hryggnum getur virkjast svokölluð „bókahillutektónik“ eins og Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, kallaði fyrirbrigðið. Hann líkir þessu við bæru í bókahillu. Þegar ein bókin hallast rekst hún að aðra og svo koll af kolli þangað til allar bækurnar hafa skekkst.

Sem sagt, á Reykjanesi verður til spenna vegna jarðskjálfta og það þýðir að aftur skelfur jörð annars staðar, spennan losnar en nokkrum kílómetrum austar verður til spenna í jörðu.

Páll hefur látið hafa eftir sér að ólíklegt sé að hugsanlegur stóriskjálfti á Reykjanes sé fyrirboði eldgoss. Líkur benda þó til að gos á þessu svæði verði frekar lítil og standi stutt yfir og séu frekar meinlaus, veltur þó á staðsetningu þeirra.

Á árunum 900 til 1240 urðu mörg lítil hraungos á Reykjanesi. Síðan hefur Reykjanesskagi verið í eldgosafríi.

Stóriskjálfti gæti hins vegar orðið svipaður á stærð og skjálftinn 1968. Margir muna hann sem skell með undirliggjandi drunum. Upptök hans voru í svokölluðu Hvalhnúksmisgengi en Hvalhnúkur er skammt sunnan við Grindaskörð. Þar gæti nýr skjálfti orðið til og jafnvel í misgenginu sem er nokkuð norðar og kennt er við Hrossahrygg.

Það liggur frá því sem næst Geitafelli í suðaustri og norðvestur yfir Bláfjallahrygg. Þar gæti orðið ógnarstór skjálfti sem myndi finnast greinilega á höfuðborgarsvæðinu. Jarðfræðinga hafa raunar þennan stað sérstaklega grunaðan um græsku.

Myndir:

  • Efsta myndin sýnir hreyfingu stóru skjálftanna.
  • Miðmyndin er frá Veðurstofunni og sýnir hvar skjálftarnir eru og hvernig þeir hafa hreyfst til vesturs.
  • Neðsta myndin er frá íslenskum orkurannsóknum og sýnir eldstöðvakerfin á Reykjanesi

Flóðbylgjan, flóðbylgjan, flóðbylgjan, flóðbylgjan, flóð...

170727 pressan, staglEinhver lét hafa það eftir sér fyrir alllöngu að fæstir geti skrifað læsilegan texta nema því aðeins að kunna að lesa. Þetta er dálítið furðulega staðhæfing. Allir vita að þær listgreinarnar lestur og skrift haldast í hendur og eru órjúfanlegar og vart getur neinn skrifað án þess að kunna að lesa. Maður skyldi nú halda það.

Nei, sá sem vitnað er til sagði það bráðnauðsynlegt fyrir þann sem skrifar að lesa, lesa mikið, lesa daglega frá barnæsku. Á æskuárum mótast þekking og færni og sá sem hefur vanrækt lestur á þessu mikilvægasta tímabili ævi sinnar mun ábyggilega eiga erfiðar með að semja ritgerð, sögur eða einfalda frétt fyrir fjölmiðil. 

Þetta datt mér í hug þegar ég las „frétt“ á vefritinu Pressan í dag. Hún fjallar um flóðbylgju á Grænlandi en er af sjáanlegum ástæðum hreinlega óboðleg.

Fjölmiðill er í grunninn ekkert annað en þjónustufyrirtæki, hann býður upp á fréttir rétt eins og önnur bjóða mér tilbúinn mat eða eitthvað annað. Bera má „frétt“ Pressunar saman við veitingastað sem gætir ekki hreinlætis við framreiðslu sína eða verslun sem selur gallaða vöru.

Í „fréttinni“ finnst „blaðamanninum“ sextán sinnum ástæða til að endurtaka sama orðið. Hann virðist ekki kunna að skrifa sig framhjá því, nýta sér stílbrögð til að forðast endurtekningar eða þá að honum er alveg sama. Verst er þó að á ritstjórninni les enginn yfir. Maðurinn fær að setja „fréttina“ á vefinn athugasemdalaust.

- Heyrðu þjónn, í súpunni minni eru sextán flugur, glasið er óhreint og undir disknum eru matarleifar.

TegundastaglLíklega mun heilbrigðiseftirlitið taka á þeim veitingastað sem stendur sig svona illa. Og neytendur myndu forðast hann rétt eins og verslunina sem selur gallaða vöru. Enginn tekur á slæmu málfari fjölmiðla nema „kverúlantar“ úti í bæ.

Pressan gefur út gallað vöru, sóðaskapurinn er mikill. Í þokkabót má gagnrýna annað „jórtur“ eða stagl í þessari stuttu frétt. Sögnin að veita kemur fyrir fjórum sinnum, nafnorðið berghlaup fimm sinnum, lýsingarorðið einstakur þrisvar, vísindamenn fjórum sinnum ... og þá gafst ég upp enda orðið lítið pláss fyrir annað í tuttugu og fimm lína frásögn.

Þegar sama orðið kemur tvisvar eða þrisvar fyrir í stuttum texta er oft talað um „nástöðu“ sem þykir afar slæmt. Átt er við að orðin standi svo nálægt hverju öðru að texti og stíll skaðist.

Aðrir tala um stagl og svo eru þeir til sem kalla þetta jórtur. Aðalatriðið er að þetta er ekki boðlegt, neytendur eiga annað og betra skilið en svona bull.

Myndina má stækka með því að smella á hana.

Eftirskrift

Athugull lesandi benti á aðra „frétt“ á vefritinu Pressan útbíaða í stagli. Hún er eftir sama höfund og samdi þessa um flóðbygljuna. Þarna veltir hann sér upp úr orðinu „tegund“. Öllu má nú ofgera, sagði sá athugli. Undir það er tekið og vart einleikið hvernig höfundinum tekst að leika sér með einstök orð.


Ofbeldi á golfvellinum á Akranesi

Hann hitti aldrei neitt, kúlan lent yfirleitt utan brautar, upphafshöggin voru slæm, brautarhöggin enn verri og púttin ömurleg. Á átján brautum náði hann að setja tvö persónuleg met, að „exa“ fimm brautir og slá kúlu í mig. Hið fyrra þýðir að hann var kominn með meira en tíu högg á braut og því tilgangslaust að halda áfram. Hið síðara er efni þessa pistils.

Ég ætla ekki að nefna opinberlega nafn mannsins sem klúðraði rækilega golfleiknum á Leynisvellinum á Akranesi í gær og beitti mig ofbeldi, veit þó að hann mun lesa þennan pistil ... og lesa mér pistilinn á eftir (vonandi skilja aðrir lesendur hvað orðtakið „að lesa einhverjum pistilinn“ þýðir). Í þokkabót er maðurinn náskyldur mér.

Sagan gerist á sautjándu braut að frændi er sem áður í bölvuðu klúðri, týnir bolta, finnur bolta og veit ekki hvað snýr upp eða niður á þeim. Ég, aftur á móti, er í þokkalegum málum, næ á fjórða höggi inn á flöt og enda á sex höggum (hefði átt að fara á pari). Og þar sem ég stend um eitthundrað metrum frá frænda, örskammt frá gríninu, og er að velta fyrir mér uppruna heimsins, tilgangi lífsins og framhaldi þess heyri ég frænda æpa af lífs og sálar kröftum. 

Varð mér sem snöggvast hugsað til Þorgeirs Hávarssonar sem heyrði til fóstbróður síns æpa uppi á Hornbjargi við leit að sér. Bað hann Þormóð vinsamlegast að hætta að styggja fogla en sjálf hetjan hékk þá í hvönn og átti líf sitt undir því að hún drægist ekki upp. Væntanlega þekkja allir framhaldið í Gerplu.

Nú, nú. Þarna æpir frændi minn eitthvað sem hverfur út í rokið (rok þýðir talsverður vindur). Ósjálfrátt stíg ég eitt skref aftur á bak og bregð vinstri hönd fyrir augu til ég sjái til hans sem styggir fugla, golfara og saklausa borgara á Akranesi með ópum sínum. Þá veit ég ekki fyrr til en að ég fæ eitt ofsalegt bylmingshögg ofarlega í kvið mér vinstra megin og golfkúla endurkastast af belg mínum, rúllar mjúklega nokkra metra eftir gríninu og hverfur ofan í holuna.

IMG_9796Auðvitað fannst mér mikið til höggsins koma og réði því tvennt. Annars vegar að kúlan skyldi hafa endað í holunni og hins vegar sársaukinn enda hringsnérist veröldin og varð að dimmum göngum og við enda þeirra var hvítt ljós og þar stóðu áar mínir og annað skyldfólk sem horfið hefur yfir móðuna miklu og fagnaði nú komu minni. Sannarleg bjóst líka við því að ég væri að fara yfir um. Þetta var næstum náðarhögg eftir sársaukanum að dæma.

Svo náði ég að rétta út kútnum (bókstaflega) og með ofurmannlegu átaki lét ég á engu bera. Atvikið olli samt miklu uppnámi. Nærstaddir vildu blása lofti í mig, gefa mér rafmagn með einhverju stuðtæki eða fá mig til að leggjast og hnoðast á brjóstkassanum. Íðilfögur kona baust jafnvel til að kyssa á báttið sem mér fannst alls ekki fjarri því að vera skynsamlegt til lækningar.

Þar sem kúlan var ekki sjáanleg héldu menn að hún væri komin inn í magann og spunnust þá miklar umræðum um hvað skyldi gera. Sumir héldu því fram að frændi ætti að taka víti en aðrir sögðu að kúlan væri á braut og vildu að hann slægi hana þar sem hún væri (það er inni í mér).

Þegar fólk áttaði sig á því að ég var lifandi missti það fljótlega áhugann á mér og hvarf hver til sinnar brautar og gleymdi atvikinu. Frændi kom hins vegar náfölur og baðst afsökunar. Vissi ég þó ekki yfir hvoru hann var leiðari, að hafa slegið kúlu í mig eða ég væri enn uppistandandi. Hann gladdist þó yfir því að kúlan hefði endað í holunni og reyndist þetta skásta skorið hans á vellinum, níu högg á par fjórum, ekkert pútt.

Hér færi vel á því að enda pistilinn. Hins vegar gæti verið að lesendur vilji vita eitthvað um líðan mína, af einskærri forvitni eða af meðaumkun. Því er til að svara að aðbúnaður hér á sjúkrahúsinu á Akranesi er einstaklega góður, maturinn fínn, rúmið gott og skurðlæknarnir góðir og lífslíkurnar eru bara talsverðar ...

Nei þetta var nú bara spaug. Ég er nokkurn veginn heill heilsu en ber samt áverka eftir ofbeldi frænda míns. Það má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd af vöðvastæltum maga mínum.

Þetta ósjálfráða skref aftur á bak bjargaði miklu annars hefði golfkúlan líklega skollið á höfði mér, frænda til mikillar ógleði, og kúlan aldrei endað í holunni. 


Svikamylla í nafni Símans

TövuborðKæri alla Símann: Heima vefpóstnotendur
Netfangið þitt hefur verið lokað fyrir tímabundið með kerfisbréfi
Stjórnandi vegna einhvers óvenjulegra aðgerða í tölvupóstreikningnum þínum sem sumum Upplýsingar hafa ekki verið staðfestar, til að virkja reikninginn þinn smellt á
Neðan tengilinn
Ýttu hér
Þú getur fundið þessi skilaboð í ruslpóstmöppunni þinni vegna þess að það er óvenjulegt Starfsemi, vinsamlegast farðu í pósthólfið þitt og smelltu á tengilinn hér að ofan. Bilun Til að gera þetta mun leiða til alls læsa niður á netfangið þitt og þitt
Tölvupóstur verður eytt úr póstþjóninum, ekki hunsa þetta
Tilkynning. Meðhöndla mjög brýn
Persónuverndarstefna | © Síminn: Forsíða
Vefpóstarsteymi 2017
 
Oftast er gott að vera Íslendingur og tala þetta forna mál okkar sem fáir virðast geta lært. Að minnsta kosti er hún hindrun fyrir glæpamenn sem senda bréf eins og það sem ég fékk í morgun og er frá einhverju skítapakki úti í útlandinu. Þeir hafa þýtt textann sinn með aðstoð Google-Translate og útkoman er hroði sem er tóm vitleysa.
 
Flestir ættu að vera eldsnöggir að átta sig á því að þetta er tilraun til að hafa af manni fé, læsa tölvunni eða eitthvað álíka. Málið á bréfinu er einfaldlega ekki rétt, ekki frekar en hjá nígerísku ekkjunni sem fyrir helgi bað mig um kristilega aðstoð við að koma 500 milljónum dollara í lóg. Eða frænku hennar sem sendi mér svipað erindi og þar áður frænda hennar sem var líka í vandræðum með auðæfi sín.
 
Hins vegar baslar maður hér uppi á því kalda skeri sem ber enn kaldara nafn og reynir að hafa í sig og á og eitthvað aukreitis fyrir tyllidaga. Tilboð sem virðist vera of gott er venjulegast of gott. Vissulega væri hægt að nýta þessa peninga til gáfulegra hluta, viðurkenni það alveg.
 
Útsendingin á svona bréfum byggist fyrst og fremst á því að kjánarnir klikki á bláa letrið (linkurinn er óvirkur) og láti þar með glæpamennina vita að einhver hefur fallið í gildruna. Tölulegar staðreyndir segja að það þurfi ekki nema innan við 1% af einni milljón að svara og af þeim eru 1% sem eru féflettir og glæponarnir standa uppi með fúlgur fjár. Svikamyllan gengur upp.
 
Ég ætla hins vegar að gera eitthvað annað við tíma minn en að hafa áhyggjur af nígerísku fjölskyldunni með milljónir dollara. Nóg er að hafa skrifað þennan pistil.
 
En mikið dj... myndi manni nú bregða ef Síminn birti í dag fréttatilkynningu og bæðist afsökunar á orðalagi í netpóstinum og hann væri dagsannur, en nýi starfsmaðurinn í samskiptadeildinni hefði skrifað hann ... og enginn lesið yfir (það er póstinn).

Lestur frétta í útvarpi og sjónvarpi

Því er haldið fram að fréttatímar á Bylgjunni séu hundleiðinlegir. Ástæðan er einfaldlega sú að mörgum finnst raddir lesara (fréttamanna) einstaklega óáheyrilegir og þeir lesi auk þess illa.

Undir þetta má vissulega taka og um leið spyrja, hvort þeim sé lesa sé ekki leiðbeint og jafnvel hvort ekki sé til nein samræmd stefna um lestur frétta. Svo virðist því miður ekki vera.

Sami vandi virðist ekki til hjá Ríkisútvarpinu. Lesarar i fréttatímum á ábyrgð ríkisins eru flestir (ekki allir) vanda sínum vaxnir. Þeir lesa röggsamlega og tiltölulega rétt. Gríðarlegur munur er á fréttatímum þessara útvarpsstöðva, ríkisútvarpinu í hag svo miklu munar.

Ekki er nóg að skýrmæltur heldur er afar mikilvægt að lesarinn tali við hlustandann. Hann má ekki bara þylja upp staðreyndir af blaði heldur reyna að miðla þeim til hlustenda eins og hann sé ljóslifandi við hlið þeirra.

Afi minn heitinn var frekar heyrnardaufur og sagði alltaf þegar vinsæll, dimmraddaður fréttaþulur Ríkisútvarpsins kynnti sig og hóf lestur: „Kemur þú, helvískur ...“. Ástæðan var sú að röddin mannsins rann saman í einhæfa belg og biðu, varð dimm suða, og afi náði ekki alltaf að greina á milli orða. Þess vegna bölvaði hann og taldi sig svikinn um fréttir þegar sá dimmraddaði flutti þær.

Staðreyndin er sá að lestur í heyrenda hljóði krefst æfingar. Mér er minnisstætt ráð sem tæknimaður hjá Ríkisútvarinu gaf mér fyrir ævalöngu er ég var með vikulega útvarpsþætti í nokkur misseri. Þeir voru sjaldnast í beinni útsendingu heldur teknir upp fyrirfram. Ég átti það til að reka í vörðurnar, stundum var ég að flýta mér og gaf mér ekki nægan tíma til lestursins.

Ráð þessa ágæta tæknimanns var stutt og stutt: Lestu upphátt í um fimm mínútur á hverjum degi.

Ég var ungur og tók ekki alltaf ráðum en í þetta sinn gerði ég það. Viti menn innan mánaðar var lesturinn orðinn svo léttur og leikandi hjá mér að þessi sami tæknimaður hafði það á orði að framfarirnar væru miklar. Ég sagði eins og var og þakkaði honum en hann sagði að ég væri ekki sá fyrsti til að nota þetta ráð og nefndi marga þekkta úrvarpsmenn og ræðumenn sem gerðu þetta.

Staðreyndin er einföld. Æfingin skapar meistarann. Enginn getur orðið góður lesari nema því aðeins að hann æfi sig reglulega. 

Þetta er hins vegar ekki allt. Lesarinn þarf að læra á rödd sína, nota mismunandi tónhæð og sveiflur. Hann þarf að hlusta á rödd sína í upplestrinum, taka hana upp og hlusta á hana á eftir, gleyma því að hann eigi röddina og gagnrýna lesturinn og laga.

Í lokin er ekki úr vegi að nefna einn alvarlegan galla sem margir fréttalesarar eiga við að etja en gera sér ekki allir grein fyrir honum. Hann er sá að gera örstutt hlé eftir hvert orð eða setningu í stað þess að lesa í óslitnu samhengi. Dæmi:

Nú ... er runn­inn upp ... loka­dag­ur ... Íslands­móts­ins ... í golfi. Eins og fram kom í gær ... er mik­il spenna ... í báðum flokk­um, ... en þrír kylf­ing­ar ... eru jafn­ir í kvenna­flokki. Axel Bóas­son ... hef­ur þriggja ... högga ... for­ystu á næstu menn, ... en einnig er ... mjótt á mun­um ... hjá körl­un­um.

Margir góðir og áheyrilegir fréttamenn og jafnvel dagskrárgerðarmenn hafa tileinkað sér þennan leiðinlega lestrarstíl.

Og síðast en ekki síst er bráðfyndið að minnst þeirra sem í gegnum tíðina hafa lesið veðurfréttir í Ríkisútvarpinu. Margir þeirra voru stórkostlegir upplesarar sem maður minnist með brosi vegna þess að þeir lásu með „sínu nefi“ eins og sagt er, en ekki í samkvæmt samræmdri „ríkisupplestrarstefnu“. '

Sumir byrjuðu afar hátt og runnu síðan í gegnum málgreinina og enduðu nær loftlausir „...skyggne fjégur steg, hiteee sjööö gráðöööööör.“. 

 


Hvernig hefur þeim vegnað sem fengið hafa uppreist æru?

Líklega er stórhættulegt að blanda sér inn í umræðum um „uppreist æru“, og síst af öllu þá að nefna kenningar um fyrirgefningu, jafnt synda sem yfirsjóna. Vert af öllu er þó að ræða þá sem framið hafa ónefnanlega ljóta glæpi og þá sem hlotið hafa dóm fyrir.

Hins vegar hefur komið fram í mjög svo tilfinningaþrunginni umræðu undanfarinna vikna að þetta sem nefnt hefur verið „uppreist æru“ hefur verið tíðkað í áratugi.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að kanna hvernig til hefur tekist bæði fyrir þá sem hlotið æruna til baka sem og samfélagið.

Í stað þess að reyna að reyna að snapa pólitískt sólaljós í umræðunni er farsælla að hallast að málefnalegri hliðinni.

Yfirleitt er „uppreist æru“ veitt í kyrrþey, almenningur er ekki spurður og síst af öllu dómstólar götunnar eða „virkir í athugasemdum“. Í flestum tilfellum er það bara gott. Varla getur það verið neinum hollt að lenda í síku, ekki frekar en þegar fólki er hleypt aftur út í samfélagið eftir afplánun fangelsisdóms.

Hvernig skyldi nú fólki hafa vegnað eftir að hafa fengið „uppreist æru“ undanfarna áratugi?

  • Hefur það snúið af villu síns vegar eða haldið áfram, betrunin náð árangri?
  • Hvernig hefur samfélagið tekið við þessu fólki?
  • Hefur það verið látið í friði eða er það stöðugt minnt á yfirsjónir sínar eða glæpi?
  • Hefur það tekið upp störf í fyrri atvinnugrein eða farið í nýjar?

Mér finnst þetta dálítið forvitnilegt, mun áhugaverðara sjónarhorn heldur en viðhorf hins tilfinninganæma manns sem af meintri heift sinni helst vill drepa eða berja þann sem hefur orðið sekur um hinn ónefnanlega glæp.

Ábyggilega mun gagnlegra er að íhuga ofangreint sjónarhorn en að þykjast vera pólitíkus og reyna að vekja athygli á sjálfum sér í samfélaginu fyrir meinta umhyggju sem virðist þó ekkert annað en skinhelgin ein.


mbl.is Ferlið sagt vera allt of vélrænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðaustanáttin varhugaverð á Fimvörðuhálsi

910219-15Ferðalangar sem ætla á Fimmvörðuháls ættu að hafa eina þumalputtareglu í huga. Ekki fara á Hálsinn er spáð er hvassri suðaustanátt. Þá verða yfirleitt hrikaleg veður þarna uppi, þetta er byggt reynsla okkar, nokkurra félaga sem höfum um þrjátíu ára reynslu á ferðalögum þarna, á öllum árstíðum.

Hvöss suðaustanátt magnast einhverra hluta vegna þarna uppi. Það er eins og að vindurinn ná sér á strik þegar upp á Skógaheiði er komið og þar magnist hann margfalt. Oftast fylgir rigning svo úr verður meinlegt slagveður, nærri því lárétt vindstefna, eða eins og oft er sagt, vindurinn stefnir upp í móti og á því greiða leið upp buxnaskálmarnar. Þetta síðasta er auðvitað spaug en öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Alvarlegast í þessu er hvassviðrið, úrkoman og þokan. Reyndustu ferðamenn geta villst í svona veðri. Best af öllu er að halda kyrru fyrir og bíða. Þeir þolinmóðu eru sigurvegararnir.

Allar þessar upplýsingar er að finna í bókinni um Fimmvörðuháls sem undirritaður skrifaði og hægt er að panta hana hér; 5vh@simnet.is.


mbl.is Fá sér kaldan á krana inni í hlýjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband