Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

Óséðar myndir, jólakvizz og labba framhjá kistu Maradona

Orðlof

Jæja

Jæja er til margra hluta nytsamlegt ef svo má að orði komast. Í rauninni er erfitt að festa hendur á merkingu orðsins því hún felst ekki síst í því hvernig það er sagt – í áherslum og tónfalli. Þetta gildir gjarnan um upphrópanir þótt fáar þeirra séu líklega jafn fjölhæfar og jæja. Það getur lýst óþolinmæði, undrun, hvatningu til athafna, efasemdum og fleiru. 

Gaman er að leika sér að því að setja „jæja“ í mismunandi merkingarsamhengi og heyra hvernig hljómblærinn breytist.

Það er t.d. mikill munur á jæja eftir því hvort sagt er

„Jæja, við skulum drífa okkur“ (hvatning)

eða

„Jæja, er það virkilega“ (efi). 

Málsgreinar, Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Áður óséðar ferðamynd­ir af Díönu á Ítal­íu.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Hvað er „óséð“ ljósmynd? Líklega á blaðamaðurinn við ljósmynd sem ekki hefur áður verið birt.

Heimildin er hugsanlega vefur Daily Mail og þar segir:

Giancarlo Giammetti shared two never-before-seen photographs of Diana on Instagram

Að gamni leyfði ég fyrirbærinu Google-Translate að þýða þessa setningu. Niðurstaðan var þessi:

Giancarlo Giammetti deildi tveimur ljósmyndum af Díönu sem aldrei hefur áður sést á Instagram

Og viti menn, þýðingin er margfalt betri en fyrirsögnin sem vitnað er til (sögnin að hafa ætti þó að vera þarna í fleirtölu).

„Unseen photographs“ er þýtt sem ljósmyndir sem aldrei hafa áður sést. Tölvuforritið sem margir hæðast að fyrir snautlegar þýðingar á íslensku, stendur sig betur en blaðamaðurinn, þýðir næstum því óaðfinnanlega.

Tillaga: Áður óbirtar ferðamyndir af Díönu á Ítalíu.

2.

Jólakvizz.“

Fyrirsögn á tölvupósti frá Olís/Ób.                                  

Athugasemd: Finnst fólki í lagi að skrifa „jólakvizz“ í stað þess að nota íslensku? Nóg er til af íslenskum orðum um spurningaleiki og því óskiljanlegt hvers vegna verið er að troða „kvizzi“ upp á landsmenn. 

Pósturinn er Olís/ób ekki til sóma. 

Tillaga: Engin tillaga.

3.

11 greindust innanlands í gær …“

Frétt á visir.is.                                  

Athugasemd: Jafnvel þeir sem eiga að teljast reyndir blaðamenn byrja setningar á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert og alls staðar mælt gegn þessu. Sá sem skrifaði ofangreint er enginn byrjandi og á sér varla afsökun. 

Í upphafi fréttarinnar segir:

Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær. 18 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 2 hjá Sýkla- og veirufræðideild Háskóla Íslands. 

Þetta er illa skrifað. Punktur er settur í miðja málsgrein sem slítur fyrri hlutann úr samhengi við þann seinni. Þarna hefði átt að vera komma. Tölurnar hefðu átt að vera ritaðar með bókstöfum.

Í fréttinni segir:

15. ágúst síðastliðinn slapp stofn, sem hefur fengið ljósbláan litakóða í raðgreiningarferlinum …

Hér hefur margoft (ekki ítrekað) verið vakin athygli á tölustafaáráttu blaðamanna.

Enginn góður skrifari byrjar setningu á tölustöfum vegna þess að eðli bókstafa og tölustafa er ólíkt. 

Eftir punkt eða í byrjun skrifa á að nota stóran bókstaf, kallaður upphafsstafur. Hvernig er annars upphafsstafur tölustafs? Hann er ekki til. Því er talan annað hvort skrifuð í bókstöfum eða skrifarinn umorðar setninguna.

Þessu til viðbótar má nefna að venjulega eru lægri tölur ritaðar með bókstöfum. Það er að segja vilji skrifarinn gæta að stíl. Hrikalega kjánalegt væri að segja (skrifa) að 1 hafi greinst með veiruna eða byrja setningu á tölustafnum einum

Tillaga: Ellefu greindust innanlands í gær …

4.

20 greindust með kórónuveiruna í gær.“

Frétt á ruv.is.                                    

Athugasemd: Jafnvel Ríkisútvarpið sem þó er með málfarsráðgjafa, klikkar illilega. Þar byrjar fréttamaðurinn fréttina á tölustaf í stað þess að byrja á bókastöfum. Er ekkert mark tekið á málfarsráðgjafanum?

Verstu andskotinn er samt sá að fréttamaðurinn skrifar ágætlega læsilega frétt og því varla hægt að saka hann um byrjendamistök eða viðvaningsskap. Þó má ýmislegt finna að textanum sem er ekki tíundað hér.

Tillaga: Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær.

5.

„Þúsundir fá að labba framhjá kistu Maradona og kveðja hann í dag.“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Aumlega er þetta orðað, að heiðra þann sem er látinn með því að labba framhjá kistu hans.

Í fréttinni segir:

… og er löng biðröð til að kveðja Maradona.

Í myndatexta segir:

Fólk streymir inn og kastar síðustu kveðjunni á Maradona.

Engin reisn yfir þessum skrifum, enginn stíll. Halda mætti að Maradona væri á flugvellinum á leið úr landi. 

Allir þekkja orðalagði að ganga til prestsins. Vissulega er hægt að labba til hans en það er annað mál og óskylt fermingarfræðslunni. Í fornum sögum segir að menn gangi fyrir konung. Á DV myndu blaðamenn orðað það að menn „labbi fyrir“ konung. Ekki mikil reisn yfir því.

Í Egilssögu segir:

Ölvir talaði langt og snjallt, því að hann var orðfær maður. Margir aðrir vinir Ölvis gengu fyrir konung og fluttu þetta mál.

Konungur litaðist um; hann sá, að maður stóð að baki Ölvi og var höfði hærri en aðrir menn og sköllóttur.

"Er þetta hann Skalla-Grímur," sagði konungur, "hinn mikli maður?"

Andstæður þessara tveggja manna eru greinilegar. Annar var sköllóttur og konungurinn hét Haraldur og hafði viðurnefnið hinn hárfagri.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Einkum hefur það orðið áberandi í aðdraganda kosninganna og hækkandi radda sem bentu á aldur hans.“

Frá degi til dag á blaðsíðu 22 í Fréttablaðinu 27.11.20.                                   

Athugasemd: Þetta skilst illa. Sá sem hækkar röddina talar hærra en áður. Hvernig er hægt að skilja tilvitnunina á annan veg en þann að þeir sem benda á aldur mannsins hafi aukið raddstyrk sinn?

Þarna er verið að ræða um aldur verðandi forseta Bandaríkjanna. Vera kann að höfundurinn eigi við að þeim hafi fjölgað sem benda á aldur forsetans verðandi. Sé svo skilst orðalagið. Ef ekki er það óskiljanlegt. Illt er að þurfa að giska á það sem blaðamaðurinn skrifar.

Tillaga: Engin tillaga.


Brjóta jólahefð, Covid test og Víðir afkvíaði sig

Orðlof

Bratti

eiga á brattann að sækja þýðir að mæta mótstöðu; eiga erfitt uppdráttar; lenda í þrengingum. 

Þarna er trúlega, segja fróðir menn, nafnorðið bratti, og líkingin dregin af fjallgöngu, ekki lýsingarorðið brattur, og því eru n-in tvö. Þetta áréttast hér, því enn sækja sumir á „brattan“. 

Málið, blaðsíða 19 í Morgunblaðinu 25.11.20.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Breytt nafn hugs­an­legt.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Mikill munur er á því að breyta nafni og breyta um nafn. Fréttin er um hið síðarnefnda og því er fyrirsögnin röng.

Umræðuefnið er tungubrjóturinn „Iceland air connect“, flugfélag sem hét lengi því laglega nafni Flugfélag Íslands. Svo ákváðu gáfumenn að breyta um nafn og síðan þá hefur leiðin legið fjárhagslega niður á við því aðeins örfáir af alþýðukyni gátu borið það fram og enn færri munað það. Færa má rök fyrir því að nafnbreytingin hafi verið gerð til að þóknast fólki sem ekki talar íslensku sem segir allt um viðhorfið til heimamanna.

Eigandi flugfélagsins er flugfélagið sem einu sinni hét því ágæta nafni Flugleiðir. Síðar ákváðu afar klárir gáfumenn að breyta nafninu í „Icelandair“. Þar sem enginn hörgull er á gáfumönnum á Íslandi tóku þeir sig til og bættu við einhverju um „group“ á ensku og þótti flott að tengja við ensk fyrirtækjanöfn. Og nú á Icelandair group flugfélagið Icelandair sem á Iceland air connect.

Samkvæmt fréttinni er ætlunin að setja innanlandsflugfélagið beint undir utanlandsflugfélagið. Ekki er að efa að hinir alþjóðlega þenkjandi stjórnendur „Íslandsflugs“ hljóti að geta komið með enskt nafn fyrir innanlandsflugið, nafn sem verulegt bragð er af fyrir útlendinga og við alþýða manna getum hvorki borið fram eða fest okkur í minni. „Iceland air domestic most lovely connection“, „Iceland air clean“  eða eitthvað svoleiðis. Kætast þá gáfumenn út um alla móa.

Tillaga: Breyta hugsanlega um nafn.

2.

„Ríf­lega tutt­ugu ára jóla­hefð brot­in“

Fyrirsögn á mbl.is.                                    

Athugasemd: Líklegra er að hefði hafi verið rofin sem er auðvitað allt annað en að hún hafi verið brotin.

Stundum finnst mér að blaðmenn mættu hafa meiri orðaforða. Í fréttum segir stundum að eitthvað sé verra en áður. Auðvitað veltur það á umfjöllunarefninu en oft fer betur á því að segja að eitthvað sé lakara. Námsárangur barna getur verið verri en áður, en ef til vill er hann lakari. Nema hann sé betri og þó kann að vera að hann sé skárri.

Blæbrigð íslenskunnar geta verið stórkostleg sé orðaforðinn fyrir hendi og skrifarar kunni að beita honum.

Tillaga: Ríflega tuttugu ára jólahefð rofin.

3.

„Þeir þurfa síðan að panta tíma fyr­ir þig í Covid test.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                    

Athugasemd: Aragrúi frétta fjalla um heimsfaraldurinn en afar sjaldgæft er að þríeykið eða aðrir sletti. Ávallt er tala um sóttkví, smit, sýnatöku, smitrakningar og svo framvegis og er það afskaplega gott og til eftirbreytni. Engin hörgull er á góðum íslenskum orðum sem túlka það sem skýra þarf.

Við þurfum þess vegna ekki „Covid test“, getum farið í sýnatöku á næstu heilsugæslu.

Tillaga: Þeir þurfa síðan að panta tíma fyr­ir þig í Covid sýnatöku.

4.

„Annir kalla á aukna innviði.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 25.11.20.                                   

Athugasemd: Innviðir eru samkvæmt orðabókinni máttarviðir í húsi eða skipi. Í yfirfærðri merkingu er í hagfræðinni sagt að þeir séu undirstöður efnahagslífs, nefna má fjarskipta- og samgöngumannvirki, skóla, sjúkrahús og álíka. Enskir tala hér um „infrastructure“.

Allur andskotinn er nú orðinn að „innviðum“ og sífellt er tönglast á orðinu rétt eins og til að gefa skrifum gáfulegra yfirbragð. Samlíkingin er orðin að leiðigjarnri klisju. Þar að auki gengur hún ekki alltaf upp. Svo marga innviði má setja í eitt hús að ekki verði lengur komist inn í það.

Fréttin fjallar um málefni íslenska fyrirtækisins með furðunafnið Isavia og Keflavíkurflugvallar og þar er talað um „innviðauppbyggingu“. Lesandinn veltir óhjákvæmilega fyrir sér hvað séu „innviðir“ Keflavíkurflugvallar. Líklega flugbraut, flugstöðin, flughlað og annað sem nauðsynlegt má teljast. Í lok fréttarinnar segir:

Öll okkar verkefni snúa að því að geta bætt við afkastagetu og hafa hana sem hagkvæmasta. 

Er þetta ekki kjarni málsins? Í stað hinnar óljósu klisju „innviðuppbygging“ gæti komið hagkvæmni eða afkastageta. Eða bara telja upp það sem teljast burðarásar í starfseminni. Allt annað eru afleidd verkefni og því hvorki burðarásar né innviðir.

Tillaga: Annir kalla á meiri uppbyggingu.

5.

„Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig.“

Frétt á ruv.is.                                   

Athugasemd: Beinast liggur við að skilja þetta svo að maðurinn hafi hætt í kvínni, sóttkvínni. Má vera að sagnorðið „afkvía“ sé tilbúningur blaðamannsins, það finnst að minnsta kosti ekki í orðabókinni sem ég fletti upp í. 

Af er þarna forskeyti og getur merkt breytingu sem dregur úr einhverju. Nefna má afboða, þegar hætt er við eitthvað sem boðið hefur verið í. Svipað er með orð eins og aflýsa, aftengja, afhýða, aflífa og fleiri. Allir vita hvað þau merkja og hvernig upp byggð. Í ljósi þessa hlýtur sá sem er afkvíaður að vera farinn úr kvínni, sóttkvínni. En varla getur sá afkvíað sig sem ekki hefur þegar farið í kví. Dauð kind verður ekki aflífuð og varla verður sama eplið aftur afhýtt.

Málsgreinin er illskiljanleg og ekki vel skrifuð.

Svona getur farið þegar blaðamenn láta ekki einhvern lesa yfir fyrir sig.

Tillaga: Í teyminu þurfti enginn nema Víðir að fara í sóttkví og var hann fljótur að því.

 

 

 


Bygging stækkuð með framkvæmdum og úteygð lagarök

Orðlof

Gamaldags

Ef íslenska verður ekki nothæf eða notuð á öllum sviðum samfélagsins gæti hún fengið á sig þann stimpil að vera gamal­dags og hallærisleg. Það gæti dregið úr áhuga fólks á að tileinka sér hana vel og leitt til þess að fólk leggi meiri áherslu á ensku vegna þess að það telji hana gefa meiri möguleika. […]

Það þarf samt að gæta þess að barátta fyrir íslenskunni snúist ekki upp í baráttu gegn enskunni. Enska er ekki óvinurinn – enska er alþjóðlegt samskiptamál sem mikilvægt er að hafa gott vald á. Óvinurinn er andvaraleysi málnotenda og metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar. Gegn því þarf að vinna.

Eiríkur Rögnvaldsson, vefsíða. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Krónan opnað í Austurveri.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                                    

Athugasemd: Fyrirsögnin er kæruleysisleg og hún er kolvitlaus. Sumir myndu segja að þarna vantaði einn staf. Þá myndi standa þarna „Krónan opnaði …“. Engu að síður opnaði Krónan ekki neitt. Hún var hins vegar opnuð.

Síðar í fréttinni segir:

Matvöruverslun Krónunnar opnaði í Austurveri í dag …

Ekki er við öðru að búast. Enginn leiðbeinir blaðamanninum. Hann er hvattur til að setja fréttir inn á vefinn, enginn les yfir. Vera má að orðalagið hafi ná fótfestu í málinu en það er ekkert skárra fyrir því vegna þess að auðveldlega má gera betur.

Tillaga: Krónan opnuð í Austurveri.

2.

„… en flug­stöðvar­bygg­ing­in var stækkuð veru­lega með fram­kvæmd­um síðustu ár.“

Frétt á mbl.is.                                    

Athugasemd: Líklega hefði það heyrt til tíðinda hefði flugstöðin verið stækkuð án framkvæmda.

Blaðamenn og raunar fleiri skrifarar nota stundum of mörg orð þegar færri duga. 

Tillaga: … en flug­stöðvar­bygg­ing­in hefur verið stækkuð veru­lega síðustu árin.

3.

„Þess í stað hefðu lögfræðingar framboðsins sett fram „útteygð lagarök sem ekki stæðust skoðun og ásakanir byggðar á ágiskunum“.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 23.11.20.                                   

Athugasemd: Þegar ég las þetta varð ég fyrst hissa en svo hló ég (vandræðalega úteygur). Í gamla daga var ég í lagadeild en hætti eftir tvö ár, sem ég átti ekki að gera. Hins vegar veit ég fyrir víst að „úteygð rök“ eru ekki til í lögfræðinni. Veit svosem hvað orðið úteygur merkir en fletti því upp svona til vonar og vara:

Úteygur er sá sem er með útstæð augu.

Og … hvað með það?

Líklega er þetta þýðing á einhverju amerísku orðasambandi sem ég þekki ekki enda fór ég ekki í ensku í Háskólanum. Hins vegar væri reglulega fróðlegt að vita á ensku hvað dómarinn sagði.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Þá er Biden sagður ætla að skipa Lindu Thomas-Greenfield í embætti sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum.“

Frétt á visir.is.                                   

Athugasemd: Enginn er sendiherra „gagnvart“ öðru ríki eða alþjóðlegum samtökum. Réttara er að segja að maður sé sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum. Ísland er með sendiherra í Bretlandi og hjá Sameinuðu þjóðunum.

Eftir að hafa skrifað þetta gúgglaði ég „sendiherra gagnvart“. Stjórnarráðið notar þetta orðalag, Morgunblaðið, forsetaembættið, Íslandsstofa og fleiri merkar stofnanir. Engu að síður gengur það gegn máltilfinningu minni. Veit ekki með aðra.

Óþarfi er að byrja málsgreinina á atviksorðinu „þá“. Það hjálpar ekkert en er samt oft gert í fjölmiðlum.

Ofnotaðir frasar eru leiðigjarnir. Í fréttinni segir:

Hann er þar að auki vinur Bidens til margra ára

Af hverju er sjaldan sagt?

Hann hefur verið vinur Bidens í mörg ár

Þetta orðalag getur varla verið mjög gamalt. Sé að það var gagnrýnt í Morgunblaðinu hér:

Þetta orðalag er mjög í tízku um þessar mundir og hefur heyrzt og einnig sézt á prenti, ekki veit ég þó hversu lengi. Einhver hefur fundið upp á þessu og aðrir svo tekið það upp og þótt eitthvað  við það. 

Sagt er sem svo: Maðurinn hefur gegnt embættinu til margra ára. 

Heldur finnst mér þetta tilgerðarlegt og sízt til bóta frá því að tala einungis um, að maðurinn hafi gegnt embættinu í mörg ár, eins og margir segja líka. 

Þar sem mér finnst þetta tízkuorðalag fara í vöxt, vil ég vekja athygli á, að engin þörf er fyrir það í íslenzku máli.

Þetta skrifar JAJ sem er líklega Jón Aðalsteinn Jónsson (1920-2006) íslenskufræðingur og skrifaði hann fjölda málfarspistla í Morgunblaðið og var með þætti um íslenskt mál í Ríkisútvarpinu.

Tuttugu ár eru nú síðan Jón Aðalsteinn gagnrýndi orðalagið „til margra ára“ og í dag er það ekki lengur frumlegt en er enn jafn tilgerðarlegt og það var.

Tillaga: Biden er sagður ætla að skipa Lindu Thomas-Greenfield í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Screenshot 2020-11-19 at 12.15.555.

„Æ nei, ekki enn einn alheimsfaraldurinn“

Skopmynd í Morgunblaðinu.

Skop er háalvarlegt mál og óbætanlegur skaði af því að viðvaningar sjái um það í fjölmiðlum.

Faraldur er á ensku „pandemic“ og það skýrir brandarann á ensku en á íslensku er hann sem galtóm skyrtunna.

Hver er annars munurinn á alheimsfaraldri og heimsfaraldri?


Forseti Perús, minningar sem eiga sér stað og sitjandi dómarar

Orðlof

Tímapunktur

Ef „hringt hafði verið á einhverjum tímapunkti um kvöldið“ er líklegast að hringt hafi verið einhvern tíma um kvöldið. Hringingin hefur vissulega hafist á ákveðnu andartaki og hægt er að sjá þann tímapunkt nákvæmlega í símkerfinu. Að öðru leyti er hann óþarfur og jafnvel hálf-asnalegur.

Málið, blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu 17.11.20. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… að hún hafi fengið hita, hausverk og verki á líkamanum eftir fyrsta skammtinn af bóluefninu.“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Eftir að hafa nefnt hita, hausverk og verki er ofaukið að heimfæra þetta upp á líkamann. Verkir eru ekki verkir nema þeir séu líkamlegir, það vita allir (látum hér vera sálræna verki).

Raunar talar enginn um „verki á líkamanum“. 

Tillaga: … að hún hafi fengið hita, hausverk og aðra verki eftir fyrsta skammtinn af bóluefninu.

2.

„For­seti Perús, Manu­el Mer­ino, sagði af sér í dag …“

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Sum landaheiti eru eins í öllum föllum. Hjákátlegt er að hafa Perú með essi í eignarfalli. Enginn fer til „Kuala Lumpurs“ eða „Síles“.

Tillaga:  For­seti Perú Manu­el Mer­ino sagði af sér í dag …

3.

„Prins­inn hef­ur áður lýst því yfir að hans best­u minn­ing­ar af stang­veið­i hafi átt sér stað í Hofs­á.“

Frétt á frettabladid.is.                                   

Athugasemd: Allt virðist „eiga sér stað“. Ofnotkun á þessu orðalagi er mikil. Þetta kom út úr „hraðgúggli“:

    1. Samtal sem verður að eiga sér stað innan íþróttafélaganna.
    2. Góð þróun að eiga sér stað í samsetningu nýskráðra bíla …
    3. Undarlegir atburðir að eiga sér stað í Tónlistarskóla Sandgerðis.
    4. Heimsk hönnunarmistök sem áttu ekki að eiga sér stað
    5. Loftslagsbreytingar eiga sér stað
    6. Ótrúleg endurbót er að eiga sér stað.
    7. … fjöldauppsagnir munu ekki eiga sér stað aftur.
    8. Telja samsæri eiga sér stað í Þýskalandi.
    9. Kulnun þarf ekki að eiga sér stað.
    10. Viðskipti sem eiga sér stað augliti til auglitis.

Og svona heldur þetta áfram í tuga-, hundraða- ef ekki þúsundavís. Í öllum þessum tilvikum er hægt að nota sagnorð eins og að gerast, verða, vera og svo framvegis.

Að sjálfsögðu kann að vera þörf á því að nota orðalagið að eiga sér stað en öllu má nú ofgera.

Í talmáli segjum við bestu minningar hans, en blaðamenn skrifa margir hverjir „hans bestu minningar“. Þetta er ekki er rangt, né heldur að segja mínar bestu minningar eru af fjöllum, kemur á sama stað niður og segja að bestu minningar mínar eru af fjöllum. Þó er á þessu nokkur munur. Furðu vekur að sumir kjósi að breyta einföldu talmáli í stirt ritmál.

Tillaga: Prins­inn hef­ur áður sagt að hann eigi bestu minningar sínar frá stangveiði við Hofsá.

4.

„Verkefnið, sem ber heitið ODEUROPA, felst í að kanna, lýsa og endurskapa hvern þann keim sem Evrópubúar fyrri alda kunna hafa þefað uppi.“

Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 19.11.20.                                   

Athugasemd: Orðalagið að þefa uppi merkir að finna einhvern eða eitthvað með því að ganga á lyktina. Merkingin er ekki sú sem frá segir í tilvitnuninni, heldur að fólk á fyrri öldum hafi með ákveðna lykt í umhverfi sínu sem ætlunin er að greina.

Á vef Odeurpa segir frá þessu verkefni. Í fljótu bragði er ekki hægt að sjá að það gangi út á að endurskapa lykt. Á vefnum segir:

Amongst the questions the Odeuropa project will focus on are: what are the key scents, fragrant spaces, and olfactory practices that have shaped our cultures? How can we extract sensory data from large-scale digital text and image collections? How can we represent smell in all its facets in a database? How should we safeguard our olfactory heritage? And — why should we?

Þetta útleggst á þá leið að ætlunin er að segja frá þeim ilmi eða lykt sem var algeng, hvernig lykt var í hýbýlum fólks, lykt af því sem var skemmt og hvernig þetta hefur mótað menninguna. Ætlunin er að setja þessar upplýsingar í gagnabanka og þá er það vandamálið hvernig merkja eigi einstaka lykt. Og talað er um „lyktararf“. Þetta er allt mjög háfleygt en ábyggilega mjög gagnlegt. 

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Aukin tíðni heilabilunar hjá knattspyrnufólki er rakin til þess að boltinn er skallaður og þá eru höfuðhögg í leiknum sögð spila stórt hlutverk.“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Ekki bara fólk spilar hlutverk heldur líka dauðir hlutir. Blaðamaðurinn hefði hæglega getað orðað þetta á annan veg, til dæmi að höfuðhögg valdi skaða, þau geti haft slæmar afleiðingar og svo framvegis.

Með gúggli má finna ótrúlega margar máttlausar setningar með þessu orðalagi. Engu líkar en að blaðamenn og aðrir skrifarar kunni ekki annað:

  1. Gjaldeyrishöftin spila stórt hlutverk
  2. Ísland getur spilað stórt hlutverk
  3. Fallegir fylgihlutir spila stórt hlutverk
  4. Kína spilar stórt hlutverk
  5. Gen spila stórt hlutverk í ófrjósemi …
  6. Frystikista spilar stórt hlutverk
  7. Ríkið spilar stórt hlutverk sem lánveitandi …
  8. Sinfónísk tónlist spilar stórt hlutverk í teiknimynd
  9. Vegglistaverk spilar stór hlutverk í garði …
  10. Galdrar spila stórt hlutverk í lífi fólks …

Held að hér sé nóg komið, ekki bara hér heldur er þessi frasi orðinn heldur merkingarlaus og um leið ærið máttlaus. Og loks má spyrja í ljós þess sem segir í lið númer tvö: Jólin eiga sér stað í lok desember og spila stórt hlutverk í lífi fólks. Þvílík della.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

Sitjandi dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu.“

Leiðari Fréttablaðsins á blaðsíðu 14, 18.11.20.                                  

Athugasemd: Hvað merkir „sitjandi dómari“ í Hæstarétti? Getur verið að leiðarahöfundur telji að ekki dugi að vera dómari heldur þurfi að bæta því við að hann sé „sitjandi“?

Nei, þetta er mikill misskilningur. Annað hvort er maðurinn dómari eða ekki, skiptir engu hvort hann sitji, standi, gangi eða hlaupi. Eftir atvikum má orða það þannig að hann sé starfandi dómari þegar hann er ekki í fríi eða veikur.

Orðið sitjandi bætir engu við, er bara enskt bull sem á ekki heima í íslensku.

Vera má að sitjandi ritstjóri Fréttablaðsins haldi að sitjandi leiðaraskrifari sé eitthvað skárri en sitjandi blaðamaður útgáfunnar. Það er hins vegar mikill misskilningur rétt eins og að kalla maka einhvers sitjandi maka vegna þess að skilnaður er yfirvofandi. 

Tillaga: Dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu.


Eiga samtal, silfurskeið í heimanmund og kviss

Orðlof

Appelsínugulur

Nú vita líklega allir hvaða lit er átt við þegar sagt er að eitthvað sé appelsínugult. 

Þetta orð er þó ekki gamalt í málinu, og virðist ekki fara að breiðast út fyrr en eftir 1960 þegar appelsínur fóru að verða algengari sjón hér á landi. 

Liturinn var þó vitaskuld þekktur áður, en var þá kallaður rauðgulur.

Málfar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Herra for­seti, ég hlakka til að eiga sam­tal við þig.“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Stundum er málinu skrýtilega beitt. Þarna hefði til dæmis farið betur á því að nota sögnin að ræða frekar en nafnorðið samtal. 

Í fréttinni er sagt frá verðandi forseta Bandaríkjanna sem vill ræða við núverandi forseta en sá síðarnefndi gefur ekki færi á því.

Orðalagið að eiga samtal ber er dálítið enskt, eiga fund, eiga samræður, eiga tal. Svo fletti ég upp í enskum fjölmiðlum. Á Sky er haft eftir Biden:

Mr President, I look forward to speaking with you.

Blaðamaðurinn þarf að vera smitaður af nafnorðasýki til að þýða þetta á annan veg en segir í tillögunni.

Í íslensku máli er megináhersla lögð að notkun sagnorða. Enskan er nafnorðamál. Fyrir alla muni ekki vera svo mikið á kafi í ensku að gæta ekki að einkennum íslenskunnar í þýðingum.

Tillaga: Herra forseti, ég hlakka til að ræða við þig.

2.

„Vincent Tan er fæddur árið 1952 og hlaut ekki silfurskeið í munni í heimanmund.“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 13.11.20.                                 

Athugasemd: Heimanmundur er samkvæmt orðabókinni:

meðgjöf sem brúður fær með sér að heiman þegar hún gengur í hjónaband

Óljóst er hvað átt er við með orðalaginu. Einna helst má ráða að fjölskylda hans hafi verið fátæk. Sé svo hefði verið gráupplagt að orða það þannig.

Svo er það þetta með silfurskeiðina. Yfirleitt er talað um að fæðast með silfurskeið í munni, ekki að henni sé troðið upp í börn síðar á lífsleiðinni. 

Í bókinni Mergur málsins segir um orðalagið.

Hljóta gott atlæti (allt) frá fæðingu; eiga vel stæða foreldra. […] Líkingin dregin af því er börnum (vel stæðra foreldra) er gefin silfurskeið í fæðingargjöf.

Hér hefur greinilega eitthvað misskilist hjá blaðamanninum.

Tillaga: Vincent Tan er fæddur árið 1952, fjölskyld hans  var fátæk.

3.

„Hann kljáðist einnig við fjölda annarra heilsu­bresta.“

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Sögnin að kljást við merkir að berjast við. Þó orðið komi svolítið ankannalega fyrir sjónir í þessu samhengi er ekkert að því. Einfaldara er samt að segja að maðurinn hefði barist við, átt við að etja og svo framvegis.

Allt annað er með nafnorðið heilsubrestur sem er eintökuorð og því ekki til í fleirtölu. Hins vegar er nafnorðið brestur til bæði í eintölu og fleirtölu.

Tillaga: Hann átti einnig við margvíslegan annan heilsubrest að etja.

4.

„Að auki ber Björn ábyrgð á tveim­ur gríðar­vin­sæl­um spil­um sem lands­menn hafa sleg­ist um en þetta eru að sjálf­sögðu Pöbbk­viss og Krakka­k­viss

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Ólíkt hafast menn að. Þeir eru til sem halda að allt sem á rót sína að rekja í enskt mál sé best í öllum heimi. Virðingin fyrir íslenskunni er engin og um að gera að eiga þátt í því að geta út af við hana. 

Hugmyndaflugið takmarkast við „kviss“ en ekki gátur, getraunir, spurningaleiki, ágiskun, þrautir og svo framvegis. Nei, „kviss“ skal það vera. Aðþíbara.

Fyrir þá sem ekki vita getur forvitinn á ensku verið „inquisitive“. Af því er leitt orðið „quiz“ sem meðal annars þýðir spurningakeppni og er mikið notað í enskumælandi löndum. Eftir að orðinu hefur verið nauðgað inn í íslensku er það skrifað „kviss“ sem er álíka íslenskt eins og „sjitt“.

Svo eru það hinir sem nota tungumálið af list og næmleika sem er raunar einkenni þeirra sem víða hafa ratað en kjósa að tala íslensku við viðskiptavini sína. 

Um þetta fólk segir í frettabladid.is:

Það hefur verið mikil umræða um slaka stöðu íslenskunnar og minnkandi lestrarfærni. Orðagull er einmitt ætlað til að efla bæði málþroska og læsi.

Já, ólík er nálgunin. 

Tillaga: Engin tillaga.


Standa á herðum þeirra, alvarleiki áverka og sigra væntingar

Orðlof

„Ástaraldin“

Núorðið má sjá í verslunum ýmsa torkennilega ávexti sem heita margvíslegum nöfnum. Einn þessara ávaxta ber heitið ’passion fruit’ á ensku og rómantískir verslunareigendur gáfu honum hið fallega nafn ástaraldin. 

Þessi þýðing mun þó ekki vera kórrétt, því ’passion’ í enska heitinu vísar í píslarsöguna, um dauða og upprisu Jesú Krists (sbr. Passíusálmana). 

Ástaraldinið ætti því með réttu að heita ‘píslarpera’ eða eitthvað í þá áttina.

Málfar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Ég stend á herðum þeirra,“ sagði hún.“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Þetta er ómöguleg þýðing á orðum Kamila Harris sem er nýkjörinn varaforseti Bandaríkjanna. Hún er ekki að tala um fimleika heldur þá arfleifð sem hún byggir á í hinni nýju stöðu.

Á ensku er sagt: „stand on their shoulders“. Þetta þýðir enska orðabókin sem svo: 

benefit from the previous experience of (a predecessor in your field).

Þetta útleggst þannig að njóta reynslu og þekkingar forvera sinna, þeirra sem rutt hafa brautina eða genginna kynslóða.

Blaðamenn verða að varast beinar þýðingar. Það er hreinlega ótrúlegt þegar þeir þýða eins og Google Translate. Beinni þýðingu fylgir svo hræðileg uppgjöf fyrir utan þann skaða þegar sum orð eða orðalag festast í málinu. Ótal dæmi eru um slíkt; „kalla eftir“ er eitt þeirra.

Tillaga: Ég nýt reynslu þeirra sem ruddu brautina.

2.

Alvarleiki áverka fólksins liggur ekki fyrir að svo stöddu …“

Frétt á visir.is.                                   

Athugasemd: Þarna hefði verið betra að orða þetta eins og segir í tillögunni. Engin ástæða er að klæða frétt í einhvern kansellístíl. Einfalt orðalag er best. 

Tillaga: Ekki er vitað hversu mikið fólkið er slasað

3.

„50 milljónir smita á heimsvísu.

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Er skýrara og betra að tala um „heimsvísu“ eða heiminn? Blaðamenn ofnota orð og orðatiltæki. Einfaldleikinn er bestur. Berum saman fyrirsögnin og tillöguna hér fyrir neðan. Hvort er eðlilegra?

Tillaga: 50 milljónir smita í heiminum.

4.

„Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði sigrað væntingar …“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Blaðamenn tala oft um að einhver sigri keppi, sigri mót, sigri kosningar og það nýjasta er að sigra væntingar. Þetta er varla tilviljun. Hver getur ástæðan verið? Er fólk ekki betur að sér? Vonlaust er að sigra keppni. Hægt er að sigra í keppni, móti og kosningum.

Í fréttinni segir:

Það breytir þó engu um úrslitin, enda Biden að gjörsigra bæði ríkin.

Í hverju sigraði frambjóðandinn þessi ríki. Ekki í kosningum því þau voru ekki í framboði. Blaðamaðurinn gleymdi forsetningunni ’í’ eða taldi hann sig ekki þurfa á henni að halda, lesendur áttu bara að giska á hvað hann átti við. Maðurinn sigraði í kosningunum í báðum ríkjunum.

Í fréttinni segir:

Þá eru úrslit óljós í Georgíu, þó þar stefni vissulega í Biden sigur.

Hann á væntanlega við sigur Bidens sem er eðlilegra orðalag.

Ennfremur segir í fréttinni:

Líklegast þykir að Biden taki Georgíu og Arizona af þeim ríkjum hvers úrslit eru enn óljós.

Er ekki betra að segja en í þeim eru úrslitin ekki að full kunn? 

Nástaðan er hryggileg í fréttinni:

Það er stærri sigur en Trump sigraði með árið 2016 og stærri en báðir sigrar George W. Bush. Reyndar má benda á að engin forseti sem sigraði með milli 300 og 309 kjörmönnum sat tvö full kjörtímabil.

Þarna er orðið „sigur“ óþarflega oft endurtekinn. Annar staðar er sögnin að vinna álíka oft notuð að þarflausu. Ritstjórar lesa aldrei fréttir yfir fyrir birtingu en hefðu átt að gera það og biðja blaðamanninn um að endurskrifa hana, vanda sig betur.

Og loks segir blaðamaðurinn og heita má að hann höggvi enn í sama knérunn:

Kosið verður á ný um tvö sæti Georgíu í öldungadeildinni í janúar. Sigri Demókratar hana

Sigri kosninguna? Svona skrif eru alls ekki góð.

Tillaga: Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði staðið sig betur en búist var við …


Maður með annmörkum, hún stígur til hliðar og sigra kapphlaup

Orðlof

Eftir einhverja daga

Óákveðna fornafnið einhver stendur oft með nafnorði og merkir þá ’ótiltekinn’, t.d. þegar sagt er „Það kom einhver maður og sótti böggulinn“. 

Nú eru sumir farnir að nota þetta orð á nýstárlegan hátt og segja t.d.

„Ég kem eftir einhverja fimm daga“

eða

„Launin hækkuðu um einhver þrjú prósent“.

Í dæmum af þessu tagi merkir einhver því ’um það bil, hér um bil’. 

Enn virðist þessi notkun einskorðast við talmál og fornafnið kemur undarlega fyrir sjónir í þessu samhengi. Mætti láta sér detta í hug að þarna gætti áhrifa frá ensku því þar getur fornafnið some ’einhver’ staðið í svipuðu umhverfi. 

[Þess ber hér að geta að orðið er fyrir löngu komið inn í ritmál, sérstaklega í fjölmiðlum. SS.]

Málfar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

burður k. ’það að bera; byrði; fæðing; fóstur, afkvæmi; ætterni,…’; sbr. fær. burður, nno. bur(d), . börd, d. byrd, fe. gebyrd, fhþ. giburt, ne. birth, nhþ. geburt, gotn. gabaurþs ’fæðing, ætterni’. Sbr. fi. *bhrÌ¥tí- ’það að bera’, fír. breth, brith ’burður, fæðing’. Sk. byrði (1) og so. bera; burður ’fæðing, afkvæmi, ætterni’ af bera ’fæða, ala afkvæmi’ < *ga-beran.

Íslensk orðsifjabók.                                 

Athugasemd: Þetta er nú meiri grauturinn og varla fyrir aðra en innvígða að skilja. Við hin hrökklumst á brott. Má vera að þeir sem eru þráir og með einhvern bakgrunn gætu lagt í að lesa og jafnvel skilja.

Málfræðilegar skýringar hafa lengst af verið skrifaðar með fjölda skammstafana. Á tölvuöld eru þær jafnslæmar ef ekki verri en slettur sem margir bregða fyrir sig í ræðu og riti á íslensku sér til upphafningar. 

Fyrir tölvuöld voru skammstafanir mikið notaðar í prentuðu máli; þær spöruðu pláss, auðveldara var að jafna línur til hægri. Nú á tímum þurfum við ekki að spara pláss, nóg er af því.

Vissulega eru skammstafanir ekki alltaf slæmar. Nefna má fjölmargar sem komin er hefð á. Til dæmis hf. (hlutafélag), ehf (einkahlutafélag), kl. (klukkan), kr. (króna) og álíka.

En öllu má nú ofgera. Eftirfarandi gátu geta lesendur reynt að leysa sér til gamans í faraldrinum.

Umr. í stj. vkf. Framsóknar var þssá.p. í ritstj. tímarits rslm. njósnaði um vmf. í Rvk. og á Vl. Þetta voru nk. persónuofsóknir, möo. ólýðræðislegar aðgerðir sem hrl. staðfesti og sagðist kavs. eftir að keypt hljv. fh. annars. Var þetta fskj. sönnun. Vkf. samþ. að efoar. að kæra hrl. fyrir aths. í nmgr. á fksj. fyrn. hrl. sem hrópaði líkt og Hos. gsl. að þetta var ekki kgsúrsk. með ls. heldur 

Hægt er að ráða í bullið með því að nýta sér skammstöfunarlykla hér. Athygli vekur þó að þetta er lítt læsilegra en textinn sem vitnað er í.

Samkvæmt orðabókinni merkir íðorð orð sem tilheyrir ákveðnu sérsviði, fræðiorð, fagorð. Mikið og vel hefur verið unnið að íðorðum og söfn þeirra eru orðin mikil að vöxtum. Skyldi vera kominn tími til að málfræðingar tækju sig til að byggðu sitt eigið íðorðasafn svo við hin getum skilið þá?

Ég bið lesendur afsökunar á því að hafa enga tillögu fram að færa sem sé skárri en tilvitnunin. Vissulega reyndi ég mig við þýðinguna en gafst upp.

TillagaEngin tillaga.

2.

Þar er Corbyn sakaður um „alvarlega annmarka“ í leiðtogastóli og …

Fréttaskýring á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 30.10.20.                                 

Athugasemd: Hvað er annmarki? Í orðabókinni er sagt að orðið merki fyrirstaða, galli. Í lögfræði er annmarki sagður galli á málatilbúnaði og getur hann verið þess eðlis að dómari vísi því frá eða að minnsta kosti þeim hluta rökfærslunnar. 

Næst er sjálfsagt að spyrja hvort maður getur verið haldinn annmörkum. Dæmi eru um að  fötlun sé sögð annmarki, einnig andleg veikindi og annað sem tengist heilsufari. Draga má þó stórlega í efa að það sé rétt notkun á orðinu.

Í Mogganum er talað um annmarka Corbyns. Ekki er ljóst hvaða orð höfundurinn er að reyna að segja, hugsanlega er hann að þýða ensku orðin „flaw“ eða „fault“.

Betra hefði verið að tala um dómgreindarbrest eða annað sem bendir til að maðurinn hafi ekki staðið sig sem skyldi.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Elísa­bet Eng­lands­drottn­ing mun stíga til hliðar inn­an sex mánaða og

Frétt á mbl.is.                                 

Athugasemd: Blaðamaðurinn áttar sig ekki alveg á því hvað Englandsdrottning muni gera. Hann segir réttilega í megintexta að hún muni afsala sér krúnunni. Það fer ekki saman við það að  „stíga til hliðar“. Hvað hún á að gera þarna til hliðar er ekki ljóst.

Á vef Express segir í fyrirsögn:

Queen abdication: Monarch ’to STEP DOWN’ next year …

Enska orðið „abdiction“ er þarna konungleg afsögn. Express segir að konan muni „step down“ sem þýðir að hætta. Blaðamaður Moggans þýðir „step down“ með „stíga til hliðar“. Þetta er eins og dans. 

Börn í barnaskóla læra og syngja þessa vísu:

Tvö skref til hægri
og tvö skref til vinstri.
Beygja arma, rétta arma,
klappi, klappi, klapp.

Þarna stíga börnin tvö skref til beggja hliða og enda á sama stað. Vera má að konan í hásætinu stígi niður og svo aftur upp og klappi síðan höndum. Hver veit? Ekki ég. Og varla blaðamaðurinn.

Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að sá sem stígi niður, til dæmis úr tröppu, stígi jafnframt til hliðar, það er við tröppuna.

En þetta skiptir engu máli. Blaðmaðurinn hefði bara getað sagt að drottningin muni hætta. Allir skila hvað þá átt er við.

Tillaga: Elísa­bet Eng­lands­drottn­ing mun hætta inn­an sex mánaða og

4.

„Að sama skapi á Biden 90 prósent séns á að verða forseti.“

Frétt á ruv.is.                                  

Athugasemd: Gaman er að sletta ensku. Hef þá trú að allir haldi þá að ég sé afar vitur og klár, vel að mér í ensku. Guð hjálpi mér ef allir vissu hið sanna um gáfur mínar. 

„Séns“ er afskaplega góð og falleg sletta. Á ensku er orðið skrifa „chance“. Miklu betra en íslensku orðskrípin líkur, möguleiki, kostur, horfur og álíka. 

Slettustefna Ríkisútvarpsins er ábyggilega með vitund og vilja málfarsráðgjafa þess. Aðrir fjölmiðlar njóta ekki samskonar ráðgjafar sem þó veitti ekki af enda er þar slett og sullað gjörsamlega stefnulaust. Slíkt er ógæfusamlegt og lítt til farsældar fallið.

Tillaga: Að sama skapi eru níutíu prósent horfur á að Biden verði forseti.

5.

„Enn er óljóst hver sigrar kapphlaupið að Hvíta húsinu …“

Frétt á visir.is.                                 

Athugasemd: Enginn sigrar kapphlaup. Aftur á móti geta allir reynt að sigra í kapphlaupi. Á þessu er grundvallarmunur. 

Hlauparinn Hlynur Andrésson hljóp í mars síðastliðnum tíu km á 29:49 mínútum og er það Íslandsmet. Margir vilja sigra Hlyn og jafnvel bæta Íslandsmetið. Engum er þó mögulegt að sigra 10 km hlaupið vegna þess að hlaupið tekur ekki þátt.

Mér finnast klisjur í fréttum ansi leiðinlegar og sjaldnast gera þær fréttirnar auðskiljanlegri. Blaðamaðurinn fer ekki einu sinni rétt með klisjuna. Ætti að vera kapphlaupið um Hvíta húsið vegna þess að þetta er sagt í óeiginlegri merkingu. Betra hefði verið að tala einfalt mál og segja:

Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eru enn óljós 

Allir skilja einfalt mál.

Tillaga: Enn er óljóst hver sigrar í kapphlaupinu um Hvíta húsinu …


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband