Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Spölur þarf að taka sig á í almannatengslum

Spölur á í vanda. Í marga daga hafa fréttatímar og fjölmiðlar verið uppfullir af neikvæðum fréttum um fyrirtækið og starfsemi þess. Forsvarsmenn þess bregðast seint og illa við. Viðbrögð þeirra eru týnd í verslunarmannahelginni og eftir stendur slæmt orðspor.

Núna birtist löng og ítarleg sjálfsvörn fyrirtæksins, greinilega samin af forstjóra, gjaldkera og hliðverði, þ.e. fólkinu sem virðist ekki kunna til verka. Í mörgum orðum er fyrirtækið varið og enginn hefur bent þessum forráðamönnum á að fréttatilkynningin á að vera stutt. 

Nú þegar hefur Spölur beðið lægri hluti í áróðursstríði. Fréttatilkynningin breytir engu þar um. Afleiðingin verður þó ekki sú að fólk hætti að aka göngin. Miklu frekar að hræðsla vakni og umræðan í þjóðfélaginu um Spöl verði framvegis neikvæð.

Margt er við fréttatilkynningu Spalar að athuga:

 

  1. Hún er of löng - allt of löng
  2. Ráðist er á verkefnisstjóra EuroTap og gert lítið úr honum, slæmt að skjóta „sendiboðann“
  3. Fullyrðingar eru settar fram um ágæti viðbragðsáætlunar sem þá eru þvert á skoðun EuroTap
  4. Mörg önnur göng eru svipuð eða verri. Þetta þykir slök fullyrðing, jafnvel þó rétt sé
  5. Spölur felur sig á bak við reglugerðir og verkáætlanir. Það dugar ekki í svona slysi
  6. Í ellefu liðum ber Spölur fyrir sig margvíslegar réttlætanir, enga sök
  7. Spölur felur sig á bak við orðræðu eins og „ábyrgðalaust tal“ en ber ekki fyrir sig rök

 

Allir sem farið hafa um Hvalfjarðagöng vita að þar er pottur brotinn. Lýsingin er afar slæm, loftræstingin er léleg, göngin eru mjög þröng og svo má lengi telja. Og núna hugsar margir si svona: Guð minn góður, hvað gerist verði alvarlegt slys á háannatíma.

Vilji Spölur ná til almennings verður fyrirtækið, rétt eins og önnur fyrirtæki, að bregðast hratt við gagnrýni, forðast málalengingar, sýna ákveðna auðmýkt og ekki síst ákveða að vera fljótari með úrbætur en verkáætlun segir til um. Fyrirtækið má ekki lenda í vandræðum vegna slæmra almannatengsla.

Ég fer mjög oft um göngin. Undrast það oftsinnis hversu alúðlegir og þægilegir starfsmennirnir eru.

Eitt sinn bilaði bíll minn í miðjum göngunum. Þá vissi ég nákvæmlega ekkert hvað ég ætti að gera og væri þar eflaust enn ef lögreglumaður á bíl sínum hefði ekki bjargað mér. 


mbl.is Athugasemdir við jarðgangaúttekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlamenn auglýsa þjóðhátíð

Eyjamenn eru vænir og góðir. Næstum því eins og Íslendingar en snöggtum skárri en Færeyingar og Jótar. Þess vegna halda þeir þjóðhátið sem nýtur vinsælda á Íslandi.

Nú eru allir í sumarfríi nema sumarafleysingarmenn á fjölmiðlunum. Þeir sjá um að auglýsa þjóðhátíð í Eyjum enda langar þá ekki til Akureyrar, Borgarfjarðar eystri, Neskaupsstaðar, Ísafjarðar, Stykkishólms, Borgarness ... Þar eru bara litlar hátíðir sem ekki tekur því að minnast á þó svo að þær séu á Íslandi. Þjóðhatíð í Eyjum er staðurinn nema einhver leysi vind á Akureyri.

Herjólfur siglir milli lands og Eyja. Hann strandaði í nótt vegna sjávarfalla. Þannig er hafið utan við Vestmannaeyjar. Fylgja meiraðsegja ekki viðteknum venjum og tímasetningum um flóð og fjöru. Svoleiðis gerist ekki í Breiðafirði. Þar er bara hann Baldur sem siglir milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Tveggja fallegustu staða á Íslandi. Heimaey er samt fallegasti staður í Evrópu.

Í Stykkishólmi eru ekki fulltrúar síðdegisútvarps RÚV glaðvakandi að taka viðtöl við bjórdrykkjufólk, ekki heldur á Brjánslæk, né á Akureyris, Borgarnesisi, Neskaupsstöðumi eða í mýrardrullunni á Ísaskutulsfirði.

Ástæðan er einfaldlega sú að það er skemmtilegra í útlöndum en á Íslandi. 

 


mbl.is Búist við 16.000 á þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG+ev leggur niður Moody's

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á flokksráðsfundi Vinstri grænna og einstakra vænna sem haldinn var kortér fyrir fimm í dag um borð í Herjólfi:

Flokksráðsfundur VGEV samþykkir að leggja þetta alþjóðlega „matsfyrirtæki“Moody's niður. Það veldur hvort eð er engu nema tjóni, er ófríður boðberi slæmra frétta. 

Og fyrst að allir eru sammála þessu þá breytum Celcius kvarðanum, hagvaxtarmælingunni, vísitölumælingum, styttum vegalengdamælingar, lengjum í hæðum fjalla.

Fyrir vikið verður hægt að synda frá Reykjavík til Akureyrar, verðbólgan hverfur, engin verðtrygging, Hvannalshnúkur verður hæsta fjall í heimi og á Íslandi búa 30.000.000 manna.

PS. Meðalþyngd Íslendinga verði líka lækkuð með 20% afslætti af hverju kílói.

PSS. Elli sendir Dodda bestu kveðjur.


mbl.is Moody's breytir horfum hjá Landsvirkjun og Íbúðalánasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt bendir í eina átt

Allt bendir til þess að Ólöf Nordal, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi rétt fyrir sér þegar hún segir í Mogganum í morgun að „það virðist vera einbeitt vilji fyrir því að túlka allt þetta Icesave-mál með þeim hætti að við eigum að standa undir þessum greiðslum“.

Þetta nær lengra en það því nú er ESB að reyna að finna góða stöðu þegar komandi samningur um inngöngu landsins í sambandið verður felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklegast er að kontórarnir í Brussel munu horfa til skoðanakannana og verði þær á einn veg gegn ESB munu þeir setja þessi ákveðnu skilyrði inn í samninginn. Hér er átt við Icesave, hvalveiðar, sjávarútveg, innleiðingu á reglum um notkun múlasna á þjóðvegum osfrv.

Þetta er ósköp skiljanlegt því ESB getur ekki hugsað sér að 300 þúsund mann þjóð hafni inngöngu, þvílík niðurlæging fyrir „stórveldið“ sem það væri. 


mbl.is Innleidd án athugasemda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverju baðst hann afsökunar?

Skyldi maðurinn hafa befðið ráðherrann sinn afsökunar á afskiptum sínum á málinu, hinni einstöku orðanotkun sinni (t... orðinu) eða að hafa unnið í fæðingarorlofi?

 


mbl.is Hefur beðið ráðherra afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of þröng göng

Stærsta vandamálið við Hvalfjarðargöngin er hversu þröng þau eru. Þar af leiðandi þora sumir bílstjórar ekki að aka á hámarkshraða. Við það myndast leiðinlegar bílalestir í göngunum, meðalhraðinn lækkar og taugatitringur margra vex og þeir reyna framúrakstur.

Þetta hlýtur þó að lagast þegar byggð verða ný göng og þar með verða akstursstefnur aðgreindar. Er ekki annaars á dagskránni að gera ný göng?


mbl.is Hvalfjarðargöng fá falleinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB býr til stöðu gegn andstöðu

ESB ætlar sér ekki að hleypa Íslandi inn í sambandið. Ástæðan er hatrömm andstaða hér innanlands. Nú leitar það að öllum mögulegum röksemdum til að láta viðræðurnar stranda á. Ríkisábyrgðin á innistæðutryggingakerfinu er aðeins ein af mörgum. Hvalveiðarnar eru önnur ástæða, sjávarútvegsmálin verða áreiðanlega þar til viðbótar og líklega skortur á innleiðingu laga og reglna um notkun múlasna.

Og af hverju skyldu stjórnarherrarnir í Brussel haga sér svona? Jú þeir ætla sér ekki að láta hafna sér. Þeir vilja vera fyrri til og því reyna þeir allt hvað þeir gera til að skapa sér stöðu. Skyldi íslenskri þjóð vera sama, nema auðvitað utanríkisráðherranum.


mbl.is Ekki voru gerðar athugasemdir við innleiðingu kerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallarumræða um þjóðfélagsgerð

Uppruni þessa fólk sem nú stendur að ríkisstjórninni leynir sér ekki. Hann á rætur sínar í öfgafullri vinstri stefnu sem hefur að markmiði að útiloka einkarekstur og halda uppi fornum merkjum sameignar. Þetta er fólkið sem ber á tyllidögum fyrir sig lýðræðið en nú treystir það hvorki samborgurum sínum fyrir rekstri orkufyrirtækja né eignaraðild að þeim. 

Þetta kemur svosum ekkert á óvart. Það er ekki eins og Vinstri grænir og stór hluti Samfylkingarinnar hafi beinlínis villt á sér heimildir þó nöfnin séu önnur en forðum daga.

Ansi mun nú vera fróðlegt að sjá hvort eignarhald á litlum raforkuvirkjunum verði afnumið og þær ríkisvæddar. Skyldu verða lög sett gegn nýtingu á orku til einkanota, t.d. jarðhita, vatnsafli, sólarorku o.s.frv. Ég var í Reykjarfirði á ströndum um síðustu helgi. Þar er mikill jarðhiti sem nýttur er mjög skynsamlega af þeim aðilum sem þar eiga land.

Hér er komið að grundvallarumræðum um þjóðfélagsgerðina sem leiðir að þessum mikilvægu spurningum:

 

  • Er ríkið betri rekstraraðili en einkaaðilar?
  • Er sá hvati sem felst í hagnaði slæmur?
  • Og ætla menn enn að halda því fram að þeir glæpir sem framdir voru í aðdraganda bankahrunsins séu vegna einkareksturs?

 


mbl.is Ríkið ráði yfir orkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðuvatn í Eyjafjallajökli?

Skyldi blaðamaðurinn sem skirfaði fréttina í Morgunblaðinu vera viss um að „stöðuvatn“ sé að myndast í gígnum á Eyjafjallajökli?

Líklega er Hvalvatn stöðuvatn. Þar varð einhvern tímann í fyrndinni eldgos og til varð Hvalfell sem lokaði innsta hluta dalsins.

Einhvern veginn held ég að ofmælt sé að kalla það stöðuvatn þegar aðstæður eru slíkar að vatn lokast inni um stundarsakir, hvort sem það er í gígnum eða skriðufalla.

Er ekki stöðuvatn varanlegra fyrirbrigði en einfaldlega vatn. Í orðabókinni segir: „Allstórt vatnsflæmi landi girt á alla vegu, vatn sem stendur allan ársins hring (yfirborð þess jafnhátt yfirborði jarðvatnsins).“


mbl.is Gufustrók leggur frá Eyjafjallajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna gerir Útivist ekkert?

Ekkert skil ég í stjórn Útivistar að sitja á rassinum meðan Krossá fær að flangsa um í óleyfi. Hér áður fyrr hikuðu duglegir Útivistarmenn ekki við að sækja gröfu eða jarðýtu og laga það sem Krossá hafði skemmt.

Krossá er skaðræði enda tekur hún arfinn að langmestu leyti frá Hrunaá sem hingað til hefur ekki kunnað að hafa sér nema í þröngu gili.

Fyrir nokkrum árum var gerður lítill og látlaus varnarveggur fyrir framan Bása. Hann virðist hafa staðið undir væntingum. Sama þarf að gera niður með veginum og allt að Álfakirkju. Þetta kostar eflaust eina eða tvær milljónir. Sendum bara Vegagerðinni reikninginn.

Eitt er víst, aðgerðaleysi er ávísun á enn frekari skemmdir og á því hefur Útivist ekki efni. Vonandi eru boðleiðir innan þessa ágæta félags ekki orðnar svo langar að enn frekari skaði verði áður en gripið er til einfaldra varnaraðgerða.


mbl.is Krossá er að taka landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband