Tímapunktur, handlagning voru og einöngruð börn

Orðlof og annað

Lesendabréf

JESÚS KR. JÓSEPSSON

Krossfitt

Ókei. Sá næsti sem segir eitthvað hnyttið um krossfitt við mig í dag þarf að hafa ansi mikið fyrir himnaríkisvistinni.

Baggalútur.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Fyr­ir þrjá­tíu árum síðan vaknaði kín­versk alþýða …

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Fyrir þrjátíu árum eða fyrir þrjátíu árum síðan. Hver er munurinn á þessu tvennu?

Á malid.is segir:

Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.

Á dönsku er iðulega sagt:

Det er lang tid siden!

Þetta þýðir ekki að við getum notað atviksorðið síðan í svipaðri stöðu og Danir gera með „siden“. Engu að síður gegnir atviksorðið síðan mikilvægu hlutverki í íslensku máli. 

  • Langt er síðan ég hitti hann.
  • Ekki er lengra síðan en í gær.
  • Enn lengra en síðan síðast.

Síðar í fréttinni er þetta haft eftir utanríkisráðherra Bandaríkjanna:

„Við hyll­um hetj­ur kín­versks al­menn­ings sem stóðu upp af hug­rekki á Tian­an­men-torgi fyr­ir 30 árum og …“

Stóðu upp af hugrekki“. Slæmt. Athygli vekur að þarna er ekkert „síðan“. Skrýtið hversu samhengið í frásögninni er tilviljanakennt.

Tómas Guðmundsson orti:

Svo var það fyrir átta árum
að ég kvaddi þig með tárum.
Daginn sem þú sigldir héðan.
Harmahljóð úr hafsins bárum 
hjarta mínu fylgdi á meðan. 

Ekki hefði flögrað að Tómasi að skrifa að atburðurinn hefði gerst fyrir átta árum „síðan“. 

Tillaga: Fyr­ir þrjá­tíu árum vaknaði kín­versk alþýða …

2.

Hann seg­ir að hjá AIK sé hon­um sýnd þol­in­mæði sem sé mik­il­vægt á þess­um tíma­punkti.

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Tímapunktur er oftast ónauðsynlegt orð í íslensku. Við höfum orð eins og atviksorðin eða núna. 

Eiginlega er þessi málsgrein bölvað hnoð sem og fréttin öll. Það kom í ljós þegar ég reyndi að böggla saman tillögu. Væri ég ritstjóri hefði ég beðið blaðamanninn um að endurskrifa fréttina, leggja meiri alúð í hana. En fyrir alla muni sleppa orðinu „tímapunktur“. Vitagagnslaus fjandi.

Tillaga: Núna fær hann þá loksins þá þolinmæði sem hann þarf.

3.

Núverandi stjórnvöld hafa skorið upp herör gegn glæpum og er handlagning þess varnings sem boðinn verður þarna upp ein birtingarmynd þess.

Frétt á blaðsíðu 4 í bílalbaði Fréttablaðsins 4.6.2019.          

Athugasemd: Þarna hló ég upphátt, ekki af meinfýsni, heldur fannst mér orðanotkunin einfaldlega hlægilega kjánaleg.

Blaðamaðurinn hefur greinilega ruglast. Hann þekkir úr löggumálinu nafnorðið haldlagning, veit að löggan haldleggur til dæmis þýfi, það er leggur hald á það, tekur það. 

Svo veit hann að presturinn leggur hendur yfir fermingarbarnið og blessar það. 

Þar að auki veit hann að handleggur nefnist sá hluti líkamans sem er áfastur öxlunum. 

Loks gæti hann hafi horft á atriði í bíómynd þar sem vondi kallinn leggur hendur á þann góða, ólíkt prestinum lemur sá vondi hinn. 

Er þá nema furða að blessað barnið ruglist í ríminu og viti ekki hvernig á að orða það þegar yfirvöld hirða hluti af bófum.

Annars þessi frétt ekki vel skrifuð.

Tillaga: Þjálfari félagsins er þolinmóður sem núna er mikilvægt.

4.

Ríkharður III. með VIII.

Frétt á blaðsíðu 63 í Morgunblaðinu 6. júní 2019.          

Athugasemd: Þetta er góð fyrirsögn, afburða góð. Stundum fylgja rómverskar tölur nöfnum kónga, drottninga og jafnvel páfa. Núorðið eru arabískar tölur látnar nægja.

Enski kóngurinn Ríkharður sem kenndur var við Klaustur (Gloucester) drap bræður sína og bræðrasyni og tókst að verða Englandskonungur og var sá þriðji í röðinni sem bar nafnið.

Í fréttinni segir blaðamaðurinn frá Grímuverðlaununum og að leikverkið Ríkharður III. Hafi fengið átta tilnefningar, skrifar VIII skrifað upp á rómverska mátann. Stórskemmtileg hugmynd.

En … svo er það hitt. Eftir fyrstu greinaskilin stendur:

60 verk voru skráð af leikhúsum og sviðslistahópum í Grímuna í ár …

Hvergi á byggðu bóli tíðkast að byrja setningu á tölustöfum, hvorki rómverskum né arabískum. Þetta eiga allir blaðamenn að vita og forðast. Svona sést varla hjá vönduðum erlendum fjölmiðlum en hér á landi les enginn yfir og handvömm, þekkingarleysi eða kæruleysi blaðamanna fá að menga fréttir, lesendum til armæðu. Einfalt og auðvelt er að hafa þetta rétt, sjá tillöguna.

Tillaga: Sextíu verk voru skráð af leikhúsum og sviðslistahópum í Grímuna í ár …

5.

Fimm börnum haldið einöngruðum frá umheiminum árum saman.

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Lýsingarorðið einangraður fellbeygist svona í fleirtölu, frumstigi, sterk beyging: 

einangraðir, einangraða, einangruðum, einangraðra

Hvergi verður til ´ö´ í beygingum orðsins.

Tillaga: Fimm börnum haldið árum saman einangruðum frá umheiminum.


Greiðum loftlagsgjald en lækkum útvarpsgjaldið um sömu fjárhæð

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna leggur til nýjan skatt, eitt þúsund króna loftslagsgjald. Gott hjá honum.

Þetta er vissulega jákvæður skattur. Hins vegar er mikilvægt að draga úr skattheimtu ríkisins, ekki auka hana.

Ég er hins vegar tilbúinn til að greiða 5.000 krónur í loftslagsgjald, jafnvel meira, svo fremi sem útvarpsgjaldið verði lækkað um sömu fjárhæð.

Þetta myndi ekki auka skattheimtuna því 17.500 króna skatti verði deilt í tvennt, annan hlutann fær Ríkisútvarpið en hinn fer í loftlagsmál. Mér er eiginlega alveg sama hver skiptingin verður.

Held að allir hljóti að vera þessu sammála enda hollt að vinna í lausnum. Vinnum með Ara Trausta.


mbl.is Leggur til flatt loftslagsgjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kuldi í opnun Norðurár, alþjóðavísa og að eiga góða frammistöðu

Orðlof og annað

Kván, kvæn, kvendi og kvinna

Orðið kona er talið eiga rætur að rekja allt aftur til indóevrópska frummálsins. Fornyrðin kvon og kván eru af sama meiði og einnig sambærilegar orðmyndir t.d. í fornensku og gotnesku.

Í endurgerðri mynd orðsins kona er atkvæðið we í stofni, sem í frumnorrænu varð að o á eftir samhljóða en w féll niður.

Í eignarfalli fleirtölu í nútímabeygingunni sjáum við leifar af w-inu: kvenna. Einnig í orðunum kvinna og kvendi og í fyrri liðnum kven-, í orðum eins og kvenleg.

Orðið yfir drottningu í nútímaensku er af sama forna orðstofni.

Málfarsmínútan í þættinum Samfélagið á Rás 1 í Ríkisútvarpinu.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Lést eftir að hafa keyrt á 230 kílómetra hraða.

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Þetta er síður en svo rangt en er ekki betra að segja að maðurinn hafi látist vegna þess að hann ók á 230 km hraða? Dekk sprakk, hann réði ekki við bílinn á þessum hraða og því fór sem fór.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Spáð skítakulda í opnun Norðurár.

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Rétt er að tala um veðrið við opnun Norðurár. Fljótfærnisleg villa. Vonandi er blaðamaðurinn betri en þetta gefur til kynna.

Nafnorðið opnun á auðvitað við fyrsta dag laxveiðitímabilsins og er ekkert við það að athuga.

Sumum þykir eflaust orðið „skítakuldi“ óviðeigandi í fjölmiðli. Þetta er aðallega talmál og þess vegna mætti sleppa óþrifunum og segja að spáð sé kulda.

Tillaga: Skítakulda spáð við opnun Norðurár.

3.

Aðgerðir hers­ins hafa verið for­dæmd­ar á alþjóðavísu …

Fyrirsögn á mbl.is.           

Athugasemd: Betur fer á því að segja að aðgerðirnar hafi verið fordæmdar alþjóðlega, það er af fjölda þjóða, ríkja. Orðalagið á alþjóðavísu ber með sér venju eða verklag sem þjóðir heims nota. Það á ekki við hér. Fjöldi ríkja hefur fordæmt aðgerðirnar, morð á mótmælendum.

Má vera að erfitt sé að lagfæra ofangreinda fyrirsögn og þá er ekki um annað að gera en að umorða hana eins og gert er í tillögunni í lokin. Verra er að hnoðast með setningu sem ábyggilega verður steingeld á eftir.

Í framhaldi segir í sömu málsgrein:

… fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna kall­ar eft­ir sjálf­stæðri rann­sókn á at­b­urðum dags­ins.

Mér dettur í hug að framkvæmdastjórinn hafi opnað gluggann og hrópað skoðun sína út í svala norðanáttina. Nei, varla.

Hér hefur áður verið agnúast út í þýðingu misvitra á ensku sögninni „to call for“. Hún merkir ekki að „kalla eftir“ þó svo að orðin megi þýða svo. Þarna er framkvæmdastjórinn að krefjast rannsóknar. Hann gæti undir öðrum kringumstæðum óskað eftir eða beðið um aðgerðir.

Í fjölmiðlum er stöðugt sagt frá fólki sem kallar eftir einhverju en hækkar samt aldrei róminn. Það eitt ætti að fá fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en þetta er skrifað. 

Fjölmargt í ensku má ekki þýða beint, þá glatast merkingin. Í amrískum bíómyndum heyrast ruddar stundum kalla annað fólk „dickhead“. Kjánalegt væri að þýða þetta orð beint. Átt er við að sá sem um er rætt sé vitleysingur eða bjáni.

Allar fréttir þurfa yfirlegu við, annað er ekki boðlegt. Svo virðist sem margir blaðamenn stjórnist af fljótfærni.

Tillaga: Þjóðir heims hafa fordæmt aðgerðir hersins.

4.

Við einbeitum okkur að fyrri leiknum og ætlum að eiga góða frammistöðu í fyrsta leiknum undir stjórn nýs þjálfara sagði Veseli.

Frétt á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 4. júní 2019.          

Athugasemd: Nafnorðafíkn blaðamannsins er hér komin út í ógöngur. Svona talar enginn á íslensku þó eflaust megi segja að þetta hafi verið vel orðað á ensku (e. „will have a good performance).Eins og áður hefur verið bent á má ekki þýða hugsunarlaust af ensku yfir á íslensku.

Þarna er „performance“ þýtt sem frammistaða sem út af fyrir sig getur það verið rétt en á íslensku notum við sagnorð til að fylla frásögnina. 

Maðurinn segir að fótboltaliðið ætli að standa sig vel og gangi það eftir telst frammistaðan góð. Vonandi skilja lesendur muninn.

Tvær nástöður eru í málsgreininni. Einhver á ritstjórninni hlýtur að kunna skil á nástöðu og getur sagt kollegum sínum til.

Tillaga: Við einbeitum okkur að fyrri leiknum og ætlum að standa okkur vel undir stjórn nýs þjálfara sagði Veseli.


Vandaður embættismaður látinn víkja

Þórólfur Árnason hefur staðið sig vel sem forstjóri Samgöngustofu. Aldrei hefur verið neitt upp á hann að klaga. Hafi eitthvað verið athugunarvert við stjórnsýslu stofnunarinnar undir forystu hans hefði átt að taka á því fyrir löngu.

Samgönguráðherra tekur ákvörðun um að ráða annan í stað Þórólfs. Þetta er óskiljanleg ráðstöfun og styðst ekki við nein fordæmi önnur en pólitísk.

Ég þekki ekki Þórólf, erum rétt málkunnugir, en hann hefur komið mér fyrir sjónir sem vandaður embættismaður.

Fróðlegt verður að sjá rökstuðning hæfisnefndarinnar og samgönguráðherra.


mbl.is „Ég bara skil þetta ekki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afkastamikil helgi, stofna til utanvegaaksurs og horfa á Klopp sem mikilvægan

Orðlof og annað

Málvillur

„Já, ég hef komið at­huga­semd­um vegna ís­lensks máls í frétt­um Rík­is­út­varps­ins á fram­færi við Rík­is­út­varpið, svo sem við Brodda Brodda­son vara­f­rétta­stjóra og Boga Ágústs­son, þann frétta­mann sem lengst­an starfs­ald­ur hef­ur.

Og það verður að segj­ast eins og er að at­huga­semd­um mín­um hef­ur ekki verið tekið vel og af litl­um skiln­ingi,“ seg­ir Tryggvi [Gíslason, magister og fyrrum skólameistari MA].

Viðtal, Morgunblaðið.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Listasafn Samúels verið opnað fyrir sumarið eftir afkastamikla vinnuhelgi.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 3.6.2019.         

Athugasemd: Helgar geta ekki verið afkastamiklar, það segir sig sjálft. Hins vegar höfðu menn unnið svo mikið um eina helgi að hægt var að opna safnið. Það er allt annað mál.

Líklega er það meiri frétt að Listasafn Samúels hafi verið opnað en að einhverjir hafi verið duglegir að undirbúa opnunina.

Erfitt er að skilja að safnið hafi „verið opnað fyrir sumarið“ því sumarið er þegar komið samkvæmt dagatalinu. Þessu hefði mátt sleppa.

Tillaga: Listasafn Samúels hefur verið opnað eftir mikla vinnuhelgi.

2.

Lögreglumenn frá Húsavík höfðu í dag afskipti af ökumanni bifreiðar sem ekið hafði verið utan vegar í Bjarnarflagi við Mývatn.

Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Hvað merkir orðið „afskipti“ í másgreininni? Lesandinn áttar sig ekki á því enda má skilja orðið á marga vegu. Var maðurinn á flótta, náðist hann á hlaupum, var spjallað við hann, fór hann í yfirheyrslu, náðist hann á náðhúsinu, í kaffi eða á skokki …?

Lögreglan skrifar þetta um sama mál á samfélagsmiðli og er textinn birtur í fréttinni:

Lögreglumenn frá Húsavík höfðu í dag hendur í hári ökumanns, sem tók upp á þeim ósóma að stofna til utanvegaaksturs í Bjarnarflagi við Mývatn, skammt frá Jarðböðunum.

Þetta er alls ekki góð málsgrein og í raun jafn illskiljanleg og skrif blaðamannsins. Hvers vegna skrifar löggan að „hafa hendur í hári“ í stað þess að segja að ökumaðurinn hafi náðst? 

Hvernig dettur löggunni í hug að orða það svo að ökumaður hafi „stofnað til utanvegaaksturs“. Afsakið orðbragðið en þetta er tóm vitleysa því ekkert styður orðalagið. Maðurinn ók utan vega, stofnaði ekki til neins, einfaldara getur það ekki verið. Þvílík plága sem nafnorðafíknin er orðin.

Stofna til einhvers merkir að byrja eitthvað, til dæmis rekstur eða jafnvel mótmæli. Enginn stofnar til utanvegaakstur, þannig er ekki talað.

Af hverju er ekki hægt að orða hlutina á einfaldan hátt? Klisjurnar eru skelfilega leiðinlegar og oftast ónothæfar; „afskipti af ökumanni“ eða hafa „hendur í hári ökumanns“. Allir skilja hins vegar þegar löggan nær ökumanni sem brotið hefur lög. 

Tillaga: Lögreglumenn frá Húsavík náðu í dag ökumanni sem ók utan vegar í Bjarnarflagi við Mývatn.

3.

Borgin sigrar sólarlottóið.

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Tapaði „sólarlottóið“. Nei, auðvitað ekki. Enginn sigrar keppni, ekki heldur happdrætti og þar með talið lottó. Hins vegar er hægt að sigra í keppni, fá vinning í happdrætti. Þá er stundum sagt að einhver hafi unnið í happdrættinu eða í lottóinu. Aldrei að þau hafi verið sigruð.

Í fyrirsögninni er ofmælt að Reykjavík hafi sigrað í þessu „sólarlottói“. Ástæðan er einfaldlega sú að vinningshafarnir voru fleiri, til dæmis önnur sveitarfélög á suðvesturhorni landsins. 

Það væri án efa veðurfræðilegt undur ef sól hafi skinið í Reykjavík en ekki í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ eða Mosfellsbæ. Jú, auðvitað getur verið skýjað á sumum stöðum eða þoka. Skýjafar fer samt aldrei eftir landamerkjum sveitarfélaga. Lesandanum er óhætt að trúa því.

Tillaga: Sólríkt á Suður- og Vesturlandi.

4.

Carragher sagði í […] að hann horfi á Klopp sem eina mikilvægastu persónuna í Liverpool.

Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Sumir eru svo „ógeðslega“ góðir í ensku og vita „allt“ um fótbolta en kunna ekki að tjá sig á íslensku. Þannig verða til á skemmdar fréttir.

Sá ágæti maður Liam Carrager finnst Klopp ekki aðeins vera mikilvægur þegar hann horfir á hann heldur líka þegar hann er hvergi sjáanlegur.

Staðreyndin er hins vegar sú að hann álítur eða telur Klopp mikilvægan. Eða finnst hann mikilvægur.

Í fréttinni segir líka þetta:

Ég held að hann sé sérstakur stjóri.

Hvað á blaðamaðurinn við? Lýsingarorðið sérstakur merkir ekki að stjórinn sé frábær, stórkostlegur, afburðamaður, fallegur, virðulegur, góður, indæll svo dæmi sé tekið um gildishlaðin orð sem lýsa einkennum einstaklings. 

Sérstakur er bara eins og orðið er myndað, hentar til takmarkaðra nota.

Hægt er að segja að fótboltamaður sé sérstakur í liði sínu af því að hann er sá eini sem er örfættur.

Bíll sem alltaf er að bila telst sérstakur, aðrir myndu segja hann lélegan.

Í gamla daga var þótti sá sérstakur sem gekk á fjöll, nú hafa fleiri þetta tómstundagaman.

Loks má geta þess að í fyrirsögninni hér að ofan er ein stafsetningavilla.

Tillaga: Carragher álítur í […] Klopp einn af þeim mikilvægustu í Liverpool.

 


Ákvarðanatökuvettvangur og uppsagnir sem hafa verið framkvæmdar

Orðlof og annað

Mjalli

Skynsemd; gott ástand, heilbrigt sálarlíf; hreinleiki, hvítleiki.

Vera ekki með öllum mjalla: Vera ekki andlega heilbrigður, vera ekki með fullu viti.

Orðatiltækið er kunnugt frá síðari hluta 18. aldar. Úr fornum rímum eru kunn orðasamböndin ekki er þessi mjalli á og engi þótti mjalli á. Úr síðari alda máli er kunnugt svipað orðafar: Á honum er samur mjallinn og þá er á enginn mjallinn þar sem mjalli virðist merkja hreinleiki, hvítleiki.

Elsta dæmi um nútímamálsmerkinguna er frá síðari hluta 18. aldar: Hann er ekki með öllum mjalla, sbr. einnig hafa nokkurn mjalla, hafa nokkurt vit. Líking og uppruni er óljós.

Úr bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Oddur hlakkar til næsta tímabils.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 27. maí 2019.         

Athugasemd: Sögnin að hlakka telst persónuleg, það er breytist eftir orðinu sem hún stendur með. Hún stjórnar nefnifalli.

Höfundur fréttarinnar veit þetta enda reyndur og vel skrifandi og skrifar rétt. 

Sumir hefði skrifað „Oddi hlakkar …“. Það er rangt og var kallað þágufallssýki hér áður fyrr. Nú er umburðarlyndið er slíkt að ekki má lengur nota það orð. Rangt fall er enn sem fyrr talin villa.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Drjúgur hluti ákvarðana þingsins nær einnig til okkar þó óbeint sé svo þetta er einhver mikilvægasti ákvarðanatökuvettvangur utan landsteinanna fyrir daglegt líf uppi á Ísland.“

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 39. maí 2019.         

Athugasemd: Stjórnmálafræðingur nokkur er iðinn við að semja og útbreiða rassbögur, sjá hér.

Einhver verður að taka að sér að leiða honum fyrir sjónir að „ákvarðanataka“ er alvarlega nafnorðafíkn og „ákvarðanatökuvettvangur“ er sama fíkn á lokastigi (eða þannig). Engin lyf eru til við þessu, aðeins heilbrigð skynsemi.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Hvernig skyldi standa á því að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vill ekki gera grein fyrir …“

Pistill á bloggsíðu.         

Athugasemd: Ótrúlegt að maður sem er alvanur skrifum skuli láta svona frá sér fara. Þarna flaskar höfundur á grundvallaratriði, sögnin að vilja á að standa í viðtengingarhætti, vilji.

Manninum til afsökunar er að sjálfsögðu að hann er ekki fjölmiðill, getur ekki látið sérhæfði starfsmenn lesa yfir það sem hann skrifar. 

Úbbs … Hvernig læt ég. Fjölmiðlar gera þetta ekki heldur vegna þess að þeir einblína á magn texta ekki gæði. Þess vegna er okkur neytendum boðið upp á skemmdar fréttir.

Alvanur skrifari á þó að kunna skil á eðli sagnorða.

Tillaga: Hvernig skyldi standa á því að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vilji ekki gera grein fyrir …

4.

„Í Landsbankanum hafa engar stórar uppsagnir verið framkvæmdar síðastliðinn mánuð …“

Frétt í Morgunblaðinu blaðsíðu 6, laugardaginn 1. júní 2019.        

Athugasemd: Þetta er hræðileg málsgrein, blaðamanni og ætt hans til vansa (nei, auðvitað ekki, er bara að spauga). Uppsagnir á fólki eru ekki framkvæmdar, því er sagt upp

Nafnorðafíknin gerir út af við fréttina. Síðar í henni segir:

Í Kviku banka hafa engar stórar uppsagnir verið á síðustu misserum …

Hvað eru stórar uppsagnir? Jú líklega þegar starfsmanni yfir 100 kg er sagt upp störfum. Nei, frekar þegar manni yfir 190 cm er sagt upp. Nei, nei, líklegast þegar yfirmanni er sagt upp. Nei, nei nei …

Blaðamenn eru margir svo vel að sér í málum að þeir gleyma stundum að skýra smáatriðin út fyrir lesendum. Ekkert stórt hefur gerst í Landsbankanum eða Kviku … Lesendur eiga síðan að giska á hvað stórt er. Ekki spyrja hvað merkir að gera stórt.

Er annars til of mikils mælst að blaðamenn skrifi fréttir þannig að þær upplýsi lesandann?

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Nóg verður um að vera í höfuðstað Norðurlands þessa sjómannadagshelgi sem aðrar.“

Frétt í Morgunblaðinu blaðsíðu 32, laugardaginn 1. júní 2019.        

Athugasemd: Sú þjóðsaga gengur ljósum logum meðal blaðamanna af akureyskum kynþætti að Akureyri sé „höfuðstaður Norðurlands“. Þetta er rangt. Enginn höfuðstaður er í landsfjórðungum. 

Af öllum bæjum ætti þó Skagaströnd að vera höfuðstaður Norðurlands, Djúpivogur höfuðstaður Austurlands, Vík á Suðurlandi, Búðardalur á Vesturlandi, Hólmavík á Vestfjörðum.

Af hverju?

Því er auðsvarað og það með sömu rökum og akureyskir vilja að Akureyri sé höfuðstaður Norðurlands. Af því bara.

Þess ber hins vegar að geta til að forða skrifara frá holskeflu mótmæla frá þeim sem hlynntir eru höfuðstaðarkenningunni að ást hans og aðdáun á Akureyri er mikil og síst af öllu vill hann draga úr veg og virðingu staðarins. En þá er það þetta með Akureyringa ... Það er nú allt annað mál (hér ætti auðvitað að vera tilfinningatákn [e. emoji) en flestir skilja kaldhæðni (nema Akureyringar)).

Grundvallaratriði er þó þetta: Yfirleitt að að skrifa fréttir án útúrdúra.

Tillaga: Nóg verður um að vera á Akureyri þessa sjómannadagshelgi sem aðrar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband