Ofnotaðir frasar í fjölmiðlum

Hér segir frá ofnotuðum frösum í fjölmiðlum, tískuorðasamböndum sem blaðamenn geta varla slitið sig frá. 

Ég er ekki að setja út á þessa frasa, síður en svo. Hins vegar má alveg hvíla sum, nota önnur í staðinn. Stundum viðist sem blaðamenn séu að búa til einhvers konar blaðamannamál sem enginn annar notar. Það er einhver konar flækjumál: Löggan talar löggumál og stjórnsýslan stofnanamál. Allir virðast tala og skrifa það sem aðrir búast við að þeir geri. Fæstir nota hausinn.

Ég hef áður tekið saman álíka lista, sjá hér

  1. Gera það gott. Notað til dæmis um þá sem standa sig vel. Allir eru að gera það gott, færri standa sig, eru duglegir og svo framvegis. 
  2. Sannfærandi sigur: Einkum notað í boltaíþróttum þegar sigurliðið þarf lítið að hafa fyrir sigrinum. Samt er aldrei talað um ósannfærandi sigur.
  3. Skella sér í eitthvað. Að sögn skellir fólk sér í allt mögulegt, sólbað, verslunarferð, partí, bílferð, rúmið … Óljóst er hvort skellur fylgir. Oft er nóg að segja að einhver hafi varið í búðir, partí, bílferð eða bara í rúmið.
  4. Gera sér lítið fyrir. Þegar einhver hefur gert eitthvað auðveldlega eða fengið einhverju áorkað, jafnvel á skemmri tíma en aðrir, er tíðum sagt að sá „hafi gert sér lítið fyrir“, ekki einfaldlega gert það sem hann gerði. 
  5. Kalla þetta gott. Oftast notað í stað þess að segja að einhver sé hættur, ætti að hætta eða vilji hætta. Orðasambandið er oftar en ekki notað á hallærislegan máta.
  6. Kíkja á eitthvað. Þegar einhver frægur dvelst á Íslandi skoðar hann sjaldnast ferðamannastaði, heimsækir ekki staði eða bregður sér hingað eða þangað. Hann eða hún kíkir á Gullfoss, Þingvelli eða Mývatn. Við hin kíkjum á veitingastað og erum þar stundum í drykklanga stund, jafnvel margar klukkustundir.
  7. Til margra ára. Í stað þess að segja í mörg ár kemur þetta orðalag. Þau voru gift í mörg ár er stundum sagt en tískufólkið segir að hún/hann hafi verið maki til margra ár. Þjálfari í mörg ár, þjálfari til margra ára. Frekar leiðigjarnt.
  8. Horfa til þess. Víða ofnotað. Oftast ágætt að nota einfalt sagnorð. Horfa til þess að fjármagna þurfi reksturinn. Betra er að segja að fjármagna þurfi reksturinn eða leita leiða til þess.
  9. Eiga sér stað. Oftast gagnslaust og bætir engu við en sumum finnst þetta svo sannfærandi viðbót. Dæmi: Þegar kaupin á bílnum áttu sér stað, en betra er að segja; þegar bíllinn var keyptur. Einfalt.
  10. Um ræðir. Þetta má alveg hverfa, að minnsta kosti í nokkur ár. Það sem um ræðir hjá aðilum vinnumarkaðarins er stytting vinnuvikunnar. Betra er að segja að þeir ræði leiðir til að stytta vinnuvikuna.
  11. Viðbragðsaðilar. Sumir blaðamenn þrá orðalagi „response team“ og nota því viðbragðsaðilar.  Lögregla, sjúkralið, björgunarsveitir, slökkvilið bregðast ekki við nema þeim sé tilkynnt um óhapp eða slys. Þeir sem eru vitni eða koma snemma á slysstað bregðast flestir við. Þeir eru allt eins „viðbragðsaðilar“. Hvaða gagn er af orðinu ef allir eru nú orðnir viðbragðsaðilar.

Bloggfærslur 20. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband