Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Vanhæfur stjórnarmeirihluti klúðrar málum - enn einu sinni

Þetta mun ekkert stoppa okkur í því að hafa samráð við fólkið í landinu um gerð stjórnarskrár.

Þetta segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis, þegar ljóst var að stjórnarmeirihlutinn hafði klúðrað atkvæðagreiðslunni um drug stjórnlagaráðs um stjórnarskrá.

... samráð við fólkið í landinu ... Þetta kemur frá forystumanni í norrænu velferðarstjórninni sem hefur sjálfstætt og óhikað lækkað meðallaunin í landinu, hækkað skatta, reynt að veðsetja landið margsinnis vegna Icesave, ekkert gert til að lækka atvinnuleysið, hrakið atvinnulausa út úr landi, neitað að styðja við bakið á skuldsettum heimilum vegna ólögmætra gengislána, neitað að koma til móts við almenning vegna verðtryggingar húsnæðislána og listinn er miklu lengri.

Varðandi stjórnarskránna. Hefur enginn leyfi til að tjá sig á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar nema stjórnlagaráð? Að minnsta kosti hefur þingmönnum ríkisstjórnarinnar verið bannað að gera það.

Það sjá allir í gegnum svona orðavaðal eins og hjá Valgerði Bjarnadóttur. Málið var illa undirbúið, spurningar leiðandi og fyrirsjáanlegt að ekkert var hægt að gera við niðurstöður úr skoðanakönnuninni samhliða forsetakosningunum. Málatilbúnaðurinn var allur í þá átt að beina athygli landsmanna frá vanhæfri ríkisstjórn. 

Hins vegar eru margir þess fullvissir að ekkert mun stoppa ríkisstjórnarmeirihlutann í vegferð hans gegn lífskjörum almennings. 


mbl.is Ekki kosið samhliða forsetakjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nóg að vera snoppufríður frambjóðandi?

friða og dýrið

Útsvar, Kastljós og fréttakynningar í sjónvarpi opna leiðina í forsetaembætti fyrir snoppufríðar stelpur. Hinar sitja eftir, þær sem ekki teljast hafa útlitið með sér og þær sem ekki hafa fengið svona fína sjónvarpsþætti til að spóka sig í. Og hvað hefur Þóra Arnórsdóttir sér til ágætis? Ugglaust er það fjölmargt rétt eins og allir aðrir sem þó hafa ekki haft sjónvarpið til hjálpar.

Hins vegar er ekki svo að hún hafi kynnt sig með öðru en spurningalista sem aðrir hafa samið, fréttapistlum sem hún eða aðrir eiga höfundaréttinn að og lestur frétta annarra. Niðurstaðan er einfaldlega sú að sjónvarpið opnar dyr jafnt fyrir þá sem ekkert hafa til brunns að bera sem og þá sem hafa það. Og hvað veit fólk um konuna. Þegar öllu er á botninn hvolft vita fæstir neitt um Þóru, hún er bara þekkt „nóboddí“ eins og sumir fjölmiðlamenn segja stundum um óþekkta einstaklinga.

Vissulega vakti Kristján Eldjárn athygli á sér fyrir þættina Muni og minja í sjónvarpinu. Munurinn á honum og öðrum er að að hann var höfundurinn, samdi þættina og kynnti. Hann var þekktur í sínu starfi, höfundur bóka og rita í faginu. Ekki var hann beinlínis snoppufríður enda aldrei spurt um það á þeim tíma.

Hver ertu og hvað hefurðu gert? hljóta kjósendur að spyrja - en margir gera það ekki. Sumir lesa bara fyrirsagnirnar, hlusta ekki á fréttir, þekkja bara fræga fólkið í gegnum Séð og heyrt og lesa Allt for damene.

Því miður hefur enginn hefur farið þess á leit við Sigmar Guðmundsson að hann gefi kost á sér til forseta. Hann er líklega ekki nógu snoppufríður til að eiga hættu að að skorað verði á hann. Veltum því fyrir okkur eitt stundarkorn hvernig leikar myndu nú fara ef þau tvö Útsvars- og fréttamennirnir Þóra og Sigmar myndu gefa kost á sér. Ég myndi veðja á Fríðu en ekki dýrið en persónulega myndi ég kjósa hvorugt, frekar einhvern sem ég þekkti einhver deili á. Gef sem sagt ekkert fyrir útlitið, snoppufrítt eða hitt.

 


mbl.is Kurteisi að íhuga framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvulinkir sem auðvelda manni lífið

Ég á mér mörg áhugamál og nota tölvuna óspart til að halda tölu á öllum áhugaverðum tenglum sem ég hef komið mér upp. Ætla má að ég sé með hátt í eitt þúsund tengla á Safari vafranum mínum. Þá hef ég flokkað eftir efni. 

Daglega fer ég inn á fjölmarga vefi, en reyni helst að nýta mér RSS þjónustuna. Flestir bloggarar hafa sett RSS linka á síðuna sína og því kemur sjálfkrafa tilkynningu um nýja pistil. Þetta er til mikils hagræðis og þæginda. Reyndar veldur það mér ferlegum leiðindum að nokkrir góðir pistlahöfunda gera þetta ekki og þar af leiðandi gleymir maður þeim oft.

Hér til hliðar hef ég sett nokkra af mínum eftirlætisbloggum. Ég hef flokkað þau í

  • Áhugavert
  • Fjármál
  • Fyrirtæki
  • Jarðfræði
  • Stjórnmál
  • Sveitarfélög
  • Veðurfræði 

Eflaust get ég bætt við enn fleiri flokkum. Ég nota Makka tölvu og er með tugi tengla um þessar tölvur og nota suma reglulega. Fjölda tenglar eru í flokkum um ferðaþjónustu, fjöll og landsvæði, hlaup, ljósmyndir, náttúruvernd, óbyggðir og örnefni, útiveru og ferðalög, byggðamál og fleira og fleira. Það er langt í frá að ég fari reglulega inn á fjölmarga tengla en mér þykir gott að geta náð í efni og upplýsingar með skömmum fyrirvara ef á þarf að halda.


Eru Húnavellir í eða á Svínavatni?

HúnavellirVarla munu Húnvetningar samþykkja upphaf þessarar frétta enda skjöplast Mogganum mínum enn einu sinni í landafræðinni og það ekki í fyrsta sinn. 

Húnavellir eru að minnsta kosti rúman einn kílómetra frá strönd Svínavants eins og glögglega má sjá á meðfylgjandi korti frá Samsýn á ja.is. Gula línan er mælilína sem ég setti inn á kortið og er nákvæmlega 1,15 km.

Fyrir utan þessa meinlegu villu er ekki hægt að segja að „vélsleðamaður hafi farið niður um ís á Svínavatni á Húnavöllum“ nema því aðeins að Húnavellir séu á ísnum eða fljótandi á vatninu sem er vissulega ekki reyndin.

Svo efast ég um að lesendur viti hvað F1-Rauður er, því sagt er að björgunarsveitir„voru kallaðar út á F1-Rauðum þar sem óttast var að maðurinn myndi kólna hratt niður í vatninu.“ Kannski er sá rauði bíll, fjórhjól eða jafnvel snjóbíll. Hver veit?

Hitt er nokkuð auðskiljanlegt að sá sem fellur í vök á ísilögðu vatni mun án efa kólna mjög hratt (hvorki upp né niður). 


mbl.is Annríki hjá björgunarsveitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ég biðja um Sigurð Árna í embætti biskups?

Sig Árni

Sr. Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, er mikill kennimaður, sómamaður og ljúfur í eðli sínu. Hann er margfróður enda víðlesinn.

Ekki aðeins er hann góður prestur heldur þekkir vel til um allt land, hefur ferðast og gengið á fjöll og ann náttúru landsins rétt eins og títt er um þá sem þekkja hana af eigin raun. 

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að kynnast sr. Sigurði Árna og Elínu konu hans. Eftir þau kynni tel ég hann nafna minn verða góðan biskup þó svo að ég hafi það nú ekki beinlínis á takteinum hvernig góður biskup á að vera. Veit þó það að hvur setur mark sitt á það starf sem hann gegnir og viss er ég um að eðlislægir kostir Sigurðar eru slíkir að hann mun verða embættinu til mikils sóma.

Þó Sigurður sé drengur góður á hann sér betri hlið og það er hún Elín Jónsdóttir, kona hans. Hún er mikill skörungur, skarpgreind og eins og maður hennar, víðlesin og margfróð. 

Þau Sigurður og Elín kynntust fyrir algjör tilviljun í fjallaferð með Ferðafélagi Íslands. Þá var eins og æðri máttarvöld hefðu tekið sig til og fært þau saman. Þó hér hafi verið stiklað á heldur háfleygan hátt um þau skötuhjú verður þá að fylgja með að þeim fylgir engin mærð eða vella. Þau eru hláturmild, hafa gaman af græskulausu gamni og ekki síst taka þau sig mátulega hátíðlega.

Mikið væri nú gaman að breyta svolítið til og fá nýja kynslóð í embætti biskups, helst náunga eins og Sigurð Árna, mann sem hlustar og skilur og getur fært kirkjuna nær þjóðinni. Þá yrði breyting sem skiptir máli. Persónulega held ég að biskupskjör sé ekki spurning um kynferði heldur mannkosti. 

 

 


mbl.is Vilji til að sjá konu sem biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

PR snillingurinn sem fór að pissa

Hér áður fyrr fyrir tíma fésbókarinnar hefðum við Össur Skarphéðinsson gert okkur erindi og gengið út til að ,,pissa«, en í leiðinni hringt erindið til fréttamanna og engum þótt merkilegt að svo stór frétt færi strax í loftið.

Þetta segir Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra og alþingismaður. Hann lagði grunn að tilveru sinni sem stjórnmálamanni með því að leka fréttum í fjölmiðla. Hvers vegna þjáðist hann af þessum króníska lekanda? Einfaldlega vegna þess að hann vildi upphefja sjálfan sig. Mörgum þingmönnum nægði ekki að komast í fréttir af verðleikum sínum, þeir trönuðu sér fram í fjölmiðlum eins og þeir mögulega gátu.

Þingmaður einn í liði Sjálfstæðisflokksins átti það til að fara af þingflokksfundum á salernið og gall þá oft í samflokksmönnum hans: Jæja, nú kemur þetta í DV!

Eða þingmaður Alþýðubandalagsins sem aldrei gat setið á sér og lak öllu sem tengst gat nafni hans á jákvæðan hátt í fjölmiðla. Sá gegnir nú háu embætti.

Í þennan hóp er Guðni Ágústsson. Snillingurinn í PR málum sem fór af fundum til að pissa en lak í fjölmiðla. Skammgóður vermir ... eða var hann varanlegur.


mbl.is Guðni Ágústsson: „Nú þykir mér týra á tíkarskarinu,“ á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valgerður á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins rasskellir Valgerði Bjarnadóttir, þingmann Samfylkingarinnar fyrir skrum hennar. Hann segir á vef sínum T24:
 
Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, var ósátt við að þingmenn vildu ekki samþykkja ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur um breytingar á stjórnarskrá, á hundavaði.

Á Alþingi í gær [miðvikudag] sagði Valgerður:

„Við erum hér að leita álits þjóðarinnar og ætlum að gera það 30. júní ef að þingið samþykkir. Og ég skora á þingmenn að vera ekki hræddir við fólkið í landinu og skoðanir þess.“

Hér skal látið liggja á milli hluta að hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hefði í raun orðið marklaus, miðað við þær spurningar sem Valgerður Bjarnadóttir vildi að lagðar yrðu fram. En það er hreint magnað að þingmaður sem lagðist gegn því að Icesave III yrði borin undir þjóðina skuli væna þingmenn, sem hafna því að fara á hundavaði yfir stjórnarskránna, um að hræðast „fólkið í landinu og skoðanir þess“.

Allir þingmenn Samfylkingarinnar, þar með talin Valgerður Bjarnadóttir, ásamt flestum þingmönnum VG, felldu tillögu Péturs H. Blöndals, 16. febrúar 2011 um að Icesave-samningurinn (nr III) myndi ekki öðlast gildi nema með samþykkti meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hræddist Valgerður og ríkisstjórnin öll „fólkið í landinu og skoðanir þess“. Og það ekki að ástæðulausu.

Stundum er talað um að kasta steinum úr glerhúsi.

Hér er tekið undir hvert orð Óla Björns. 


Norðurljósin draga að eins og hvalirnir

Hvalaskoðun2

Norðurljósin eru svo sjálfsögð í augum og skilningi okkar Íslendinga að við áttum okkur ekki alveg á þörf eða löngun fólks sem býr sunnar á hnettinum í að skoða þetta furðufyrirbæri. Og það er rétt að norðurljósin eru furðufyrirbæri rétt eins og regnboginn eða skýjafarið. Og hverju skyldi nú hafa dottið í hug að gera þessa þörf að „féþúfu“.

Fyrir tæpum tuttugu árum datt einhverjum í hug að bjóða ferðamönnum upp á siglingu í til að skoða hvali. Þetta gerðu til dæmis þeir Tryggvi Árnason á Höfn í Hornafirði og Ásbjörn Björgvinsson á Húsavík. Á síðarnefnda staðnum hefur hvalaskoðun orðið að stóreflis rekstri sem veltir gríðarlegum fjárhæðum. Frá Höfn reyndist hvalaskoðunin erfiðari og lagðist fljótt af. 

Á meðfylgjandi súluriti má sjá hversu gríðarlegur vöxtur hefur verið í aðsókn að hvalaskoðun á landinu frá því 1995. Á síðasta ári voru farþegar í þessum ferðum meira en 120.000.

Hver veit nema aðsókn í að skoða norðurljósin vaxi með álíka hraða? Árið 1997 voru til dæmis farþegar í hvalaskounarferðum aðeins 20.000 manns, svipað eins og komu í fyrra í norðurljósaskoðun. 


mbl.is 22.000 farþegar skoðuðu norðurljósin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona má ljúga með hálfsannleika

Björn valur
Hér er lýsandi dæmi um hvernig hægt er að ljúga með hálfsannleika. Taktu saman nokkrar staðreyndir, bættu við pólitískum áróðri og semdu síðan hagstætt niðurlag.
 
Þannig gerir flokkseigendafélagið í Vinstri grænum það. Gott dæmi: Atvinnuleysið er 10%, verðbólgan er 8%, vextir eru 12%, bensín hefur hækkar um 5% og um 40% heimila eiga í vandræðum með íbúðaláninu. Allt er í rjúkandi rúst? Hvernig stendur á því að allt verður ríkisstjórninni að vanda? Jú, svarið er auðvelt. Hlutfallsreikningur á ekki rétt á sér, bönnum helv... prósentuna.
 
Eða kennum bara Sjálfstæðisflokknum um allt.

 

Varð næstum fyrir bíl ...

Næstum #71B34

Mikið óskaplega er fréttamat DV gott og drjúgir eru blaðamenn þess í rannsóknarblaðamennsku sinni. Blaðið á skilið að fá öll þau verðlaun sem í boði eru fyrir þessa frétt:

Söngkonan Anna Mjöll Ólafsdóttir lenti næstum því fyrir bíl í síðustu viku í stórborginni Los Angeles þar sem hún býr. Söngkonan gekk í makindum sínum yfir götu og tók ekki eftir hraðskreiðum bíl sem nálgaðist á ógnarhraða. Blessunarlega náði bifreiðin að snarhemla rétt við fætur Önnu Mjallar.
„Þetta hefði verið algjörlega mér að kenna,“ skrifar söngkonan á Facebook-síðu sína á dögunum. Hún segir að atburðurinn hafi verið vakning.

Eins og greint hefur verið frá skildi Anna Mjöll nýrverið við hinn 91 árs gamla milljarðamæring Cal Worthington eftir nokkurra mánaða hjónaband.

Í heita pottinum í gær sá ég að maður nokkur fór á kaf. Illa hefði getað farið ef hann hefði ekki komið tímanlega upp. Þarf endilega að hafa upp á nafni hans og senda á DV.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband