Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Samfylkingin fer í felur

Hik Samfylkingarinnar í málefnum álversins í Straumsvík er furðuleg. Formaður flokksins tekur ekki afstöðu, bæjarfulltrúum er bannað að taka afstöðu, bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Samfylkingarmaðurinn, fer undan í flæmingi og þingflokkurinn er virðist klofinn í málinu.

Furðulegast af öllu eru þó fjölmiðlar. Í grænni gúrkutíð reyna þeir ekki ekki að ganga að flokknum og krefja hann svara.

Hvernig má það vera að stjórnmálaflokkur taki ekki aftstöðu? Er Samfylkingin enn sami vindbelgurinn sem snýst eftir því hvernig almenningsálitið blæs á hverjum tíma? Eða er skammtímaminnið svo lélegt að fólk muni ekki eftir afstöðu flokksins til Kárhnúkavirkjunar og álversins fyrir austan. Fyrst var flokkurinn á móti, svo var hann með, nú er hann á móti.

Í einfeldni minni hélt ég að stjórnmálaflokkar tæku afstöðu samkvæmt stefnu sinni og málefnum og þeir vildu standa við skoðanir sínar, berjast fyrir þeim og afla þeim brautargengis meðal kjósenda.

Hvers vegna fara stjórnmálamenn í felur með skoðanir sínar á stækkun álversins í Straumsvík? Svo kemur fram fyrrverandi bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og slær úr og í, segist vera með breytingum á deiliskipulaginu vegna stækkurnar álversins en hann er samt á móti stækkuninni!

Hver skilur svona málflutning. Deiliskipulagið var gert vegna stækkunarinnar, ekki vegna þess að álverið þurfti stærri matjurtargarða.


Landskemmdir vegna umferðar

ÓnýttÞað eyðist sem af er tekið, um það verður varla deilt. Vegir á hálendi landsins munu halda áfram að slitna og til að koma í veg fyrir að þeir verði óökufærir verður að gera við þá. Hver er þá munurinn á því að halda úti umsvifamiklum viðgerðum á t.d. Kjalvegi og Sprengisandi eða að gera slitlagið varanlegt?

Í sannleika sagt veit ég það ekki. Hitt veit ég að malbikaðir vegir á hálendi landisins munu draga verulega úr upplifum þeirra sem þangað leggja leið sína. Á móti ber þess að geta að það er ekki merkilegur ferðamáti að aka í striklotu yfir Kjöl eða Sprengisand, innilokaður í járnbúri og ætlast til þess að fá yfir sig anda frelsis og óbyggða. Þannig gerast ævintýrin ekki.

Fæstir þekkja gönguferðir á hálendi Íslands af eigin raun og ef til vill er það bara allt í lagi. Ástæða er bara til að gleðjast þegar fólk vill ferðast um landið. Við þurfum þó að taka það með í reikninginn að  bæði akandi og gangandi umferð slítur. Víða eru hálendisvegir landsins í mjög slæmu ástandi. Nefna má veginn upp á Fimmvörðuháls sem telja má ónýtan.

Víða eru gríðaleg sár á landi vegna umferðar gangandi fólks. Stórkostlegar skemmdir hafa orðið fyrir neðan hamrana í Þverfellshorni á Esju. Sama má segja með gönguleiðir á Fimmvörðuhálsi, á Goðalandi, í Hengli, Vífilsfelli og ekki síst „Laugaveginn“ svokallaða sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. 

Ljóst er að umferð mun aukast á næstu árum. Hvað er til ráða þegar landskemmdir verða vegna umferðar?

 


Fagurgali stjórnmálamanns

Ef til vill er ekki nauðsynlegt að hafa neina hugsjón í stjórnmálum, bara nóg að tala almennt og fallega um allt og alla. Margrét Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi óháðra í Reykjavík skrifar svoleiðis í grein í Morgunblaðinu um daginn og flest af því sem hún segir ættu flestir landsmenn að geta skrifað. Hún vex ekkert af þessari grein því við vitum ekki að hvaða leiti hún sker sig frá öðrum, hver eru stefnumál hennar, hvar er eldmóðurinn? Í stuttu máli: Hvers vegna í ósköpunum ætlar hún sér að vera atvinnustjórnmálamaður?

  • „Við eigum að meta og virða íslenska náttúru ...“
  • „Við skulum tryggja jafnan rétt kynjanna.“
  • „Á Íslandi skulu allir eiga jafna möguleika til náms.“
  • „Við skulum tryggja jafnan aðgang allra að heimbrigðiskerfi, óháð efnahag.“
  • „Á Íslandi skulu allir þegna landsins njóta fullra mannréttinda ...“

Allir íslenskir stjórnmálaflokkar og öruggleg flestir landsmenn eru þessu sammála, en málin eru miklu flóknari en þar sem þau snerta svokölluð „grunngildi“ Margrétar í pólitík.

Hvað þýðir þetta eiginlega orðalag „... að meta og virða íslenska náttúru“? Sá sem er hlyntur Kárahnúkavirkjun þarf getur áreiðanlega skrifað undir þetta rétt eins og sá sem er á móti byggingu hennar. Er Margrét hlynt einkareknum skólum, heilsugæslustöðvum eða sjúkrahúsum? Margir telja að einkaframtak í menntamálum og heilbrigðismálum stuðli að ójöfnum möguleikum til náms.

Stjórnmálamaður getur ekki leyft sér að vera með eintóma fagurgala. Hann verður að taka afstöðu til málefna, ekki aðeins grunngilda en hlaupa ekki eftir niðurstöðum skoðanakannana?

Satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvort Margréti sé yfirleitt treystandi þó svo að hún segist hafa verið í stjórnmálum í tíu ár. Svo er það annað mál en tengt. Getum við treyst þeim sem skipta sífellt um stjórnmálaflokka. Þeir eru orðnir þrír hjá Margréti, Sjálfstæðisflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og nú þessi Óháðir.

 


Frjálslyndir til vinstri eða Kristinn til hægri

Vegferð Kristins H. Gunnarssonar í stjórnmálaflokkum getur bent til þess að hugsjón hans sé mikið til á reiki, hafi hann þá nokkra. Einu sinni var hann í Alþýðubandalaginu, svo gekk hann í Framsóknarflokkinn og nú í Frjálslynda flokkinn. Talsverður munur er á pólitík þessara flokka og þess vegna óhætt að fullyrða að hafi Kristinn einhverja pólitík þá sé hún að þroskast til hægri.

Við kjósendur virðum einna helst þá stjórnmálamenn sem búa yfir eldmóði og eru staðfastir í skoðunum sínum. Mér hefur virst Kristinn vera vinstri maður og hafi aldrei hafi átt heima í Framsókn. Það eru þá tíðindi að vinstri maður telji sig eiga erindi í hægri flokk og líklega enn meiri tíðindi að hægri flokkur taki fagnandi á móti vinstri manni.

Kristinn fékk ekki brautargengi í prófkjöri innan Framsóknarflokksins og ekki var árangur  Samfylkingarmannsins Valdimars Leós Friðrikssonar meiri. Báðir yfirgáfu flokka sína og Frjálslyndi flokkurinn tók við þeim. Gæti það bent til þess að hægri mennskan hafi bara verið yfirvarp í Frjálslynda flokknum og hann sé hreinlega uppsóp, tilviljunarkennt samansafn manna sem aldrei ætluðu sér á þing en hrukku þangað inn fyrir einskæra heppni? 

Annað hvort eru Kristinn og Valdimar orðnir hægri menn eða að Frjálslyndi flokkurinn er orðinn vinstri flokkur. 

Svo er það svo annað mál hvort þessar pælingar skipti nokkru máli, Frjálslyndi flokkurinn virðist vera að deyja drottni sínum samkvæmt skoðanakönnunum. 


191 milljóna fjárfesting fyrir hverja mínútu

Þeir vilja eignast Kjöl og byggja þar upp hálendisveg til að stytta leiðina til Akureyrar um tuttugu og tvær mínútur. Er eitthvað að þeim sem standa að Norðurvegi?

Svo virðist sem sumir þeirra telji sér heimilt að leggja hreinlega undir sig stóra hluta af landinu fyrir tæpan hálftíma. Gangi allt eftir tekur það fjóra tíma og  þrjátíu og átta mínútur að aka milli Akureyrar og Reykjavíkur, ekki fimm tíma. Kostnaðurinn er áætlaður 4,2 milljaðrar króna sem þýðir að hver mínúta í þessari stórkostlegu framkvæmd kostar 191 milljón króna. Höfum við ekkert betra við peningana að gera?

Sé það ákafur vilji að stytta ökutímann milli Akureyrar og Reykjavíkur er einfaldast og ódýrast að meðalhraðinn verði einfaldlega hækkaður úr 90 km á klukkustund í 100 km á klukkustund.

Þá hagnast menn um þrjátíu mínútur sem er að öllu öðru slepptu ódýrara en að leggja í gríðarlegt rask á hálendinu, spjöll á dýrmætum náttúruperlum landsins svo ekki sé talað um allan þann kostnað sem þessu er samfara.

Sæmast væri þeim sem að Norðurvegi standa að leggja krafta sína og fjármagn í að endurbæta vegakerfið, til dæmis milli Reykjavíkur og Akureyrar.


Eiga dómarar að taka mið af almenningsáliti?

Vissulega var forsíðan á Mogganum í dag sláandi og líklegast hneykslast flestir á því hversu vægan dóm kynferðisafbrotamaður fær fyrir svo alvarlega glæpi.

Víkjum frá þessum umræddum dómi, hann vekur viðkvæmar tilfinningar í hjörtum okkar og tökum dæmi um önnur lögbrot sem eru líka alvarleg. Hugsanlega verður allur almenningur reiður yfir vægum dómi fjársvikamanna, svo reiður að hvatt er til mótmæla við húsnæði dómstólsins, undirskriftasöfnun er hafin þar sem hvatt er til þess að dómararnir verði reknir og reiðir borgarar senda tölvupósta þar sem dómnum er mótmælt.

Að sjálfsögðu hlýtur það að vera umhugsunarvert ef almenningi blöskrar dómar sem upp eru kveðnir. Þá er ástæða til þess að dómsvaldið fari í einfalda nafnaskoðun ef svo má að orði komast. Ástæða er líka til að velta vöngum yfir aðgerðum almennings. Til hvers eru þær?

Er það réttlætanlegt að efna til opinbers ágreinings við dómara á þann hátt að birta myndir af þeim eins og þeir væru sakamenn bara af því að tiltekinn hópur þjóðfélagsþegna er á móti ákveðnum dómi? 

Sé svarið jákvætt vaknar önnur spurning. Hverjar verða afleiðingarnar ef dómarar freistast til að taka mið af almenningsáliti frekar en lagabókstaf? „Almenningsálit“ er mjög vafasamur mælikvarði hvar sem bori er niður, einnig við lagasetningu sem og dómstörf. Meirihlutinn þarf ekki endilega að hafa rétt fyrir sér. Hann getur einfaldlega haft ákveðna skoðun í dag og aðra á morgun. Fæstir taka djúphugsaða afstöðu til mála, flestum er sama, eiga nóg með stritið frá degi til dag.

Almenningur er bara fjöldi einstaklinga, stundum hópar sem allir skarast að einu eða öðru leyti, en almenningur er aldrei ein heild né heldur er háværasti hópurinn stærstur og hann er afar sjaldan meirihlutinn.

Ég vil frekar að dómar séu kveðnir upp samkvæmt skráðum lögum heldur en einhverju „almenningsáliti“. Það kann að vera dómarar kveðið eintaka sinnum upp of milda eða of stranga dóma. Það er ásættanleg áhætta á móti aftökum almenningsálitsins.

Best er að skynsamir karlar og konur sinni löggjafastörfum á Alþingi, hafi samráð við þá sem best til þekkja áður en lög eru sett. Á sama hátt er farsælast að fólk sem hefur sérþekkingu á lögum annist dómstörf og kveði upp vel ígrundaða dóma. Dómarar eiga að vera hlutlausir, þeir eiga ekki að hafa nokkurra hagsmuna að gæta, hvorki fjárhagslega né að öðru leyti. Þetta ætti að vera nokkuð tryggt eins og staðan er í dag og það er gott.

Dómstóll götunnar er beinlínis hættulegur vegna þess að hann er ekki rökréttur. 

Svo er það allt annað mál hvort Hæstiréttur hafi kveðið upp vel ígrundaðan dóm í máli kynferðisafbrotamannsins. 


Furðuleg umferðarmenning

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er furðuleg. Tökum nokkur dæmi.

Hver er munurinn á ökumönnum og fótgangandi fólki? Jú, þeir sem eru fótgangandi fara margir hverjir ekki eftir umferðarreglum. Þeir ana margir hverjir út í umferðina á móti rauðu ljósi á gangbraut þegar þeir greina þokkalegt bil á milli ökutækja. Gangandi fólk nennir sjaldnast að bíða eftir grænu ljósi nema umferðin sé þeim mun þyngri. Þetta veldur oft miklu vanda sérstaklega í skammdeginu þegar dökkklæddar verur líða út á götuna og maður má hafa sig allan við til að koma í veg fyrir stórslys.

Tvöfaldar akreinar eru algengar hér á höfuðborgarsvæðinu en þeir eru svo óskaplega margir sem kunna ekki að nota þær. Í gamla daga var mér kennt að maður ætti að öllu jöfnu að halda sig á hægri akrein, en sú vinstri var yfirleitt fyrir framúrakstur. Þannig er nú ekki raunin. Vinstri akreinin er í dag fyrir ökumenn sem eru að tala í símann, skoða útsýnið, kalla með hatt, kellingar sem blaðra við farþegann, sendibíla og tröllabíla með tengivagna og strætó. Við hinir eigum síðan að stunda stórsvig til að komast nokkuð greiðlega um borgina. Það tekst nú sjaldnast.

Umferðarljós eru ansi þægileg til að miðla umferð. Mér var kennt að fara ekki yfir á rauðu ljósi og helst ekki á gulu. Breytingar á þessu hafa greinilega farið framhjá mér og ég er ekki sáttur við þær því mér virðist þeir sem aka yfir á grænu ljósi vera í stórkostlegri hættu.

Bílum hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tíu árum. Líklegast er best að fara leiðar sinnar á hjóli eða gangandi. Í Reykjavík eru víða göngu- og hjólastígar. Þeim er skipt í tvo hluta, annars vegar fyrir gangandi og hins vegar fyrir þá sem eru á hjóli. Þetta er ekki góð skipting. Betra er að nota almennar umferðarreglur, menn eiga að fara framúr vinstra megin, hvort sem fólk er gangandi, hlaupandi eða hjólandi. Núverandi skipting er hreinlega óþægileg auk þess sem hún veldur oft misskilningi sérstaklega fyrir hjólandi fólk.


"Wannabe" flokkur í andarslitrunum

Sagt er að þau berjist fyrir pólitísku lífi sínu, Frjálslyndir og framkvæmdastjórinn fyrrverandi og stuðningsmenn hennar. Það er rangt. Pólitík skiptir hér engu máli.

Í fyrsta lagi var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður vegna kvótamálsins (látum persónulega óvild stofnandans gagnvart Sjálfstæðisflokknum liggja á milli hluti). Kvótamálið er löngu liðið deilumál ef frá eru taldir örfáir spekingar sem kjósa að klifa á því eins og Cató gamli um Karþagó. Almenningur hefur lítinn áhuga á því og ólíklegt að það verðu nokkurn tímann að kosningamál.

Stjórnmálaflokkar verða að láta fleiri en eitt mál til sín taka, að öðrum kosti verða þeir vart lífvænlegir. Frjálslyndir skildu þetta um síðir og fylltu upp í tómarúmið með margvíslegum fallegum stefnumálum, en alltaf tuðuðu þingmennirnir þrír reglulega um kvótamálið en án nokkurrar athygli almennings. Að öðru leyti líktist stefnuskráin stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Víkjum að hinum stjórnmálaflokknum. Þeir kölluðu sig Nýtt afl strákarnir sem yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að þeir voru svo mikið á móti sjávarútvegsstefnu flokksins, kvótamálinu. Þeir reyndu líka að fylla upp í tómarúmið með fallegum stefnumálum en stefnuskráin varð ótrúlega lík stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Nýtt afl fékk engan hljómgrunn í alþingiskosningunum 2003, fékk raunar mjög háðuglega útreið, aðeins 1.791 atkvæði á öllu landinu, 0,98%. Til samanburðar voru auðir seðlar og ógildir 1.873, 1,01%, aumara gat það nú ekki orðið. Meira að segja Kristján Pálsson sem klauf sig frá Sjálfstæðisflokknum fékk 844 atkvæði fyrir T-listann sinn en bauð þó aðeins fram í Suðurkjördæmi.

Þannig liggur nú í málunum að strákaklúbburinn sem náði engri athygli í kosningunum sá sitt óvænna og gekk í Frjálslynda flokkinn. Nú verður að taka það fram að á bak við strákanna er ekki 1791 fylgismaður. Miklu frekar eru þeir svona tíu til tuttugu, en flestir hörkupiltar, vel greindir, fengu sitt pólitíska uppeldi í Sjálfstæðisflokknum, eru af aldri sínum og reynslu sjóaðir í stjórnmálum, og afburða vel að sér í pólitískum fræðum.

Nýtt afl gat ekki sameinast formlega Frjálslynda flokknum, það bara var ekki hægt. Sá síðarnefndi er miklu stærri, hugsanlega svona sjötíu til eitthundrað og fimmtíu manns í þeim kjarna sem öllu máli skiptir. Þeir litu því stórt á sig enda satt sem sagt er, stærðin skiptir máli ...!

Niðurstaðan varð því sú að félagarnir í Nýju afli breyttu litla stjórnmálaflokknum sínum í stjórnmálafélag og gengu svo í Frjálslynda flokkinn, hver fyrir sinn hatt.

Þannig stóðu mál þangað til Jón Magnússon asnaðist til að blaðra um innflytjendur sem hann hefði aldrei átt að gera en hann gerði sér ekki grein fyrir því hversu viðkvæmt málið er. Svo blaðrar þingmaður Frjálslyndra um hið sama. Í gúrkutíðinni eru þeir fóstbræður étnir af fjölmiðlum og skyndilega úthrópaðir sem rasistar og líklega eitthvað enn verra.

Þar með urðu fjölmiðlar, álitsgjafar, bloggarar og stjórnmálamenn í öðrum flokkum ein eyru. Margrét Sverrisdóttir má svo eiga það að hún brást hart gegn neikvæðri umræðu flokksfélaga sinna um útlendinga og talaði hressilega yfir hausamótunum á þeim. Kannski var ræðan eina pólitíkin í öllum farsanum.

Í eftirleiknum mátti einna helst skilja það á máli Margrétar að Nýtt afl hefði ráðist á Frjálslynda flokkinn með þúsundum nýrra fylgismanna og hreinlega tekið hann yfir. Það var bara ekki svoleiðis hvort sem hún gerði sér grein fyrir því eða ekki. Jafnvel fjölmiðlarnir föttuðu ekki hvað var að gerast.

Margrét þurfti ekki að óttast tíu eða tuttugu stráka úr Nýju afli. Það er nú meiri aumingjans flokkurinn sem þolir ekki hávaðasaman minnihlutahóp jafnvel þó hann sé kjöftugur og ekki alltaf á sama máli og hinir. Annað eins gerist nú í stjórnmálaflokki.

Vandamálið er bara það að kallar og kellingar kjöftuðu sig út í sitt hvort hornið og vígbjuggun sig þar með kjarnorkuvopnum, hitasæknum eldflaugum og klasasprengjum. "Then the shit hit the fan."

Þetta er allt doldið fyndið en um leið pínu sorglegt þetta með Frjálslynda flokkinn. Vígaferlin er líklega afstaðin og líklega er þessi "wannabe" flokkur í andarslitrunum. Nú eru þau öll í sárum og hægt læðist að þeim sá ógnvænlegi grunur að ef til vill þurfi pólitískan eldmóð og stefnumótun í grunn stjórnmálaflokks.

Hvaða lærdóm getur þessi saga svo kennt okkur? Jú, það þarf ekki fjöldahreyfingu til að stofna stjórnmálaflokk. Og ... pólitíkin skiptir engu máli, menn geta bara búið hana til síðar meir. Lítið bara á Margréti Sverrisdóttur, sem segir að ýmsir flokkar hafi boðið henni um borð. Meira að segja formaður Samfylkingarinnar lét í það skína að hægt væri að bjóða Margréti sæti í Reykjavík norður eða suður!

Það sem verra er, Margrét er að íhuga bónorð hinna flokkanna.




Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband