Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Össur og tengdadóttirin

Mikla athygli vakti niðurlag Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins á sunnudaginn síðasta þar sem segir að samfylkingarmenn hafi reynt að beita blaðið þrýstingi um að „taka út frétt um þær fátæklegu opnu umræður sem þó fóru fram á landsfundi Samfylgingarinnar".

Þó svo að í Staksteinum Morgunblaðsins hafi þetta verið leiðrétt og átt hafi verið við að reynt hafi verið að breyta fréttinni, þá skiptir það ekki sköpum. „Glæpurinn" er sá að einhverjum innan Samfylkingarinnar hugnaðist ekki fréttaskrif Morgunblaðisins og reyndi að hafa þar áhrif á.

Um helgina var nokkuð rætt um vörn Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra og tendadóttur hennar sem fékk íslenskan ríkisborgararétt í gegnum allsherjarnefnd Alþingis. Þeir nefndarmenn sem að þessari veitingu stóðu hafa svarið fyrir að hafa vitað um tengsl ráðherrans við umsækjandann. Það þótti Össuri Skarphéðinssyni þingmanni og formanni þingflokks Samfylkingarinnar ekki nóg og staðhæfði í sjónvarpsviðtali að hann hefði grun um að Jónína hefði beitt sér í málinu.

Á sama hátt má gera að því skóna að Össur Skarphéðinsson hafi reynt að hafa áhrif á fréttaflutning Moggans um landsfund Samfylkingarinnar. Skiptir engu þótt Össur neiti því, einhver andstæðingur hans gæti haldið því fram að grunur sinn væri nægur og Össur væri með óhreint mjög í pokahorninu.

Þetta er leiðindapólitík. Hvað er eftir þegar fólk er hætt að vegast á með rökum og grunurinn einn saman á að duga til að berja á andstæðingnum.

Umfjöllun Kastljós um tendadótturina var léleg. Þar sem ekki virtust fyrir hendi neinar viðbótarupplýsingar sem gátu skýrt meint afskipti umhverfisráðherra að málinu átti fréttamaðurinn að þegja. Sama gildir um Össur Skarphéðinsson sem allt bendi til að hafi ekki nægja stjórn á liðugum talanda sínum.

Um leið á Morgunblaðið upplýsa hver eða hverjir reyndu að beita blaðið þrýsting. Þá fyrst væri gaman að hlusta á Össur.


... þegar stjórnarandstaðan opnar munninn

„Skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar kemur best í ljós þegar börnin opnaSamfylkingin munninn“. Samfylkingin

Alveg er það makalaust hvernig sumir stjórnmálaflokkar geta komið fram við okkur kjósendur eins og börn. Trúir því nokkkur maður að það sé ríkisstjórninni að kenna ef tannskemmdir finnast í börnum. Og eru öll börn með tannskemmdir? 

Framtönn brotnaði í syni mínum og það hlýtur að vera ríkisstjórninni að kenna. 

Rigningin er í dag er án efa ríkisstjórninni að kenna.

Ég þekki hjón sem eru rúmlega sjötug og þau dvelja í þrjá mánuði á Kanaríeyjum á hverju ári. Þvílíkt misrétti er ríkisstjórninni að kenna. Kunningi minn sem telst til eldri borgara hefur ekki efni á að fara til Kanaríeyja. Það er án efa ríkisstjórninni að kenna.

Drengur sem ég þekki féll í samræmdu prófunum í 10 bekk og það er ríkisstjórninni að kenna. Vinur hann náði prófunum. Allt ríkisstjórninni að kenna.

Gunna Jóns fékk botnlangabólgu og það er ríkisstjórinni að kenna.

Sjálfur er ég búinn að vera hálfslappur í nokkra daga, með kvef og hita. Hefði átt að klæða mig betur þegar ég fór út í rokið á þriðjudaginn. Verst að geta ekki kennt ríkisstjórninni um.

Styrkur ríkisstjórnarinnar kemur best í ljós þegar stjórnarandstaðan opnar munninn! 


Leiðinleg kosningabarátta - klúður Sjónvarpsins

Ögmundur2Líkur benda til að þann 12. maí verði  meira gaman að horfa á söngvakeppnina en kosningasjónvarpið sem segir nú meira um leiðindin í kosningabaráttunni.

Hvers vegna er kosningabaráttan svona leiðinleg?

Þvingunarsjónvarp ríkisins hefur gjörsamlega klúðrað  kosningabaráttunni  með því að múlbinda frambjóðendur sem vart mega láta gamminn geysa nema sem svar við geldri spurningu. Í raun er sárgrætilegt að sjá spræka menn steinhalda kjafti með krosslagðar hendur og fætur. Í fæstum tilfellum fá þeir að segja nokkuð annað en: „Við styðjum öll góð mál" og þá er orðið tekið af þeim.

Hlutverk þáttastjórnenda er orðið gríðarlega áberandi og jafnframt leiðinlegt. Þeir líkjast mest fúlum kennurum sem sífellt eru með prikið á lofti og krefjast þess að nemendur haldi sér nú saman nema þegar þeir eru ávarpaðir. Hversu leiðinlegra getur kosningasjónvarp orðið?

Ekki er allt þvingunarsjónvarpinu eða útvarpinu að kenna. Flokkunum eru hræðilega mislagðar hendur í kynningarmálum sínum. Fyrir minn hatt get ég næstum því skrifað upp á allt sem lofað hefur verið í þessari kosningabaráttu. Hins vegar treysti ég aðeins einum flokki til að framkvæma góða hluti en það er nú annað mál.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að Framsóknarflokkurinn notar illa „hannað" slagorð: „Árangur áfram - ekkert stopp". Hver talar svona? Og hvers vegna lítur formaðurinn út fyrir að vera lasinn í öllum auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Grár, gugginn og samanrekinn. Jón er ekki þannig, hann er hress og kátur maður en það kemst ekki til skila.

Og Vinstri grænir birta hræðilega illa gerðar auglýsingar m.a. er mynd af formanninum á nærbol í frakka og Ögmundur Jónasson er svo skuggalegur að upp í hugann kemur gamla slagorðið sem notað var gegn Nixon Bandaríkjaforseta: „Would you buy a used car from this man".

Og slagorðið þeirra er ómögulegt: „Allt annað líf" segja þeir í auglýsingum og ósjálfrátt hugsar lesandinn með sér að það geti nú varla verið betra líf.

Samfylkingin birtir nú sjónvarpsauglýsingar sem eiga að vera svo einfaldar og markvissar að þær fara fyrir ofan garð og neðan hjá flestum enda hreyfist fylgi flokksins lítt. Lógó flokksins er einhvers konar tyggjóklessa og hverjir kjósa þær? Svo eru frambjóðendurnir ýmist með eða á móti stefnu flokksins sem er nú ekki beint traustvekjandi.

Frjálslyndir eiga lítið upp á pallborðið hjá almenningi enda hugsanlegt að þeir falli út af þingi. Mér finnst heilsíðu auglýsingarnar þeirra ekki vel gerðar en fólk tekur eftir þeim. Er þá ekki tilgangnum náð? Nei, vont umtal fyrir kosningar er ekki gott umtal. Málefnalega standa Frjálslyndir höllum fæti.

Hræðilegast er að horfa upp á Íslandssamtökin og þá sérstaklega Ómars vegna. Meiri hugsjónamann er varla hægt að finna í stjórnmálum en hann virðist ekki frekar en aðrir fjölmiðlamenn kunna að vera viðmælandi.  

Á meðan aðrir stjórnmálaflokkar fremja sitt harakiri þegir Sjálfstæðisflokkurinn og það er gott því fylgi hans vex. Helst hafa stöku andstæðingar flokksins það út á hann að setja að varaformaðurinn er ljóshærð kona, formaðurinn sitji eins og „hrúga“ í sjónvarpssal og annað eftir því.

Er nokkur furða þótt þessi kosningabarátta sé leiðinleg?


Hvernig á að bæta skemmdir vegna ferðamanna?

Göngustígur í Esju 19. apríl 2007

Ferðaþjónusta er ekkert göfugri atvinnugrein heldur en allar aðrar. Hún hefur að vísu marga góða kosti en gallarnir eru fjölmargir. Verst er að átroðningur getur valdið miklum og jafnvel illa afturkræfum skemmdum. Ég hef oft nefnt Esjuna í þessu sambandi en þangað legg ég iðulega leið mína og þá sérstaklega á Þverfellshorn þangað sem þúsundir annarra finnst gaman að fara.

Móskarðshnúkar eru líka mjög skemmtilegir fyrir göngufólk en þangað leggja fáir þó fáir leið sína - kannski sem betur fer. Ég spái því þó að vinsældir Móskarðshnúka muni fara vaxandi og nokkuð gróðursæl hlíðin upp að Gráhnúki verði útsparkað forað svo ekki sé talað um mosavaxna sléttuna þar fyrir ofan.

Hvernig á að koma í veg fyrir umhverfisskemmdir á vegum göngufólks? Þetta er einföld spurning sem stjórnmálamenn annað hvort kunna ekki að svara eða forðast það. 


Hvernig á að bæta skemmdir vegna ferðamanna?

Göngustígur í Esju 19. apríl 2007

Ferðaþjónusta er ekkert göfugri atvinnugrein heldur en allar aðrar. Hún hefur að vísu marga góða kosti en gallarnir eru fjölmargir. Verst er að átroðningur getur valdið miklum og jafnvel illa afturkræfum skemmdum. Ég hef oft nefnt Esjuna í þessu sambandi en þangað legg ég iðulega leið mína og þá sérstaklega á Þverfellshorn þangað sem þúsundir annarra finnst gaman að fara.

Móskarðshnúkar eru líka mjög skemmtilegir fyrir göngufólk en þangað leggja fáir þó fáir leið sína - kannski sem betur fer. Ég spái því þó að vinsældir Móskarðshnúka muni fara vaxandi og nokkuð gróðursæl hlíðin upp að Gráhnúki verði útsparkað forað svo ekki sé talað um mosavaxna sléttuna þar fyrir ofan.

Hvernig á að koma í veg fyrir umhverfisskemmdir á vegum göngufólks? Þetta er einföld spurning sem stjórnmálamenn annað hvort kunna ekki að svara eða forðast það. 


Fámennið eða fjöldinn á landsfundi Samfylkingarinnar

Hversu margir tóku þátt í landsfundi Samfylkingarinnar?

Þessi spurning gengur á milli fólks og svörin eru mjög mismundandi. Fullyrt er að á annað þúsund manns hafi sótt fundinn en einhverjir spekingar hafa fundið út að þátttaka í afgreiðslu einstakra ályktana og kosninga var svona á bilinu 130 til 650 manns. Hvað varð um mismuninn?

Samfylkingin hefur ekkert látið uppi um þessi mál, virðist forðast það.

Flokkur sem krefst þess t.d. að fjármál flokka séu gerð opinber og gagnrýnir ótæpilega meinta spillingu ríkisstjórnarflokkana getur bara ekki hunsað kröfur um að þátttaka í landsfundinum verði gerð opinber sem og afgreiðsla einstakra ályktana og kosning í nefndir og embætti. Hjá Sjálfstæðisflokknum liggja allar þessar upplýsingar ljósar fyrir.

Hunsi Samfylkingin þetta mætti halda að hún hafi eitthvað að fela ...


HR á ekki heima undir Öskjuhlíð

HR1R-listinn sálugi gerði þau reginmistök að úthluta Háskólanum í Reykjavík lóð á fallegasta svæðinu á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. suðvestan undir Öskjuhlíðinni. Þar á nú að reisa háskólabyggingar sem mun gjörsamlega skyggja á gróðursæla hlíðina og útiloka jafnframt hugmyndir um þróun á fyrirtaks útivistarsvæði.

Þarna hefðu verið hægt að byggja upp stórkostlega útivistarparadís en þess í stað mun hluti af Öskjuhlíðinni verða skuggsæll bakgarður. Vandséð er hvers vegna skólanum var valinn þessi staður. Til að mynda þarf að gjörbreyta öllu götum og vegum svo þetta horn komist í almennilega tengingu við umferðaræðar borgarinnar og þar með er friðurinn endanlega úti fyrir Öskjuhlíðina.

Margir aðrir staðir hefðu hentað betur fyrir HR, til dæmis ofan við kirkjugarðanna í jaðri Öskjuhlíðarinnar. Háskóli á heima í alfaraleið þar sem aðkoma er góð. Svæði til útivistar eru best þar sem ekki er stöðugur niður umferðar, helst svolítið útúr. Þannig er Öskjuhlíðin í dag en nú er ætlunin að umkringja hana svo rækilega að hún verði miklu lakari til útiveru.

Líklegast er orðið um seinan að bjarga Öskjuhlíðinni og fór þar góður biti í hundskjaft eins og sagt er með fullri virðingu fyrir Háskólanum í Reykjavík. 


Fúkki skiptir um eigendur

Framhlið FúkkaUm Fimmvörðuháls liggur ein vinsælasta gönguleið landsins. Mörg þúsund ferðamenn ganga um þessa tíu tíma löngu leið á hverju ári. 

Fyrir sautján árum endurbyggðu Útivistarmenn skála sem Fjallamenn höfðu reist um 1940. Félagið átti við ramman reip að draga og reyndu nokkrir óvildarmenn félagsins í hinum gamla Austur-Eyjafjallahreppi að bregða fæti fyrir Útivist með lögsóknum og fengu til þess fjárhagslegan stuðning dómsmálaráðuneytisins. Öllum málsóknum var hrundið en kostnaður félagsins nam engu að síður jafn hárri upphæð og kostaði að byggja skálann.

Með Fimmvörðuskála urðu þáttaskil í ferðum yfir Hálsinn. Göngumönnum hefur sífellt fjölgað. Á hverju ár býður Útivist til Jónsmessunæturgöngu og er þá gengið frá Skógum og yfir í Bása meðan nóttin er björtust. Oft taka á fimmta hundrað göngumanna þátt í þessari einstöku göngu og trúlega er auglýsingagildi þessarar einu ferðar gríðarlegt og hefur án efa orðið til þess að vekja mikla athygli á gönguleiðinni.

Ferðafélag Íslands hefur nú keypt Fúkka, en almennt er það heiti notað yfir þá skítahrúgu sem formlega nefnist „Baldvinsskáli“. Ber hann með réttu viðurnefnið. Skálinn er gjörsamlega ónýtur, byggður af mikilli vanþekkingu og bíður nú einskis annars en að verða rifinn.

Trúlega hefði Útivist aldrei staðið til boða að kaupa Fúkka, hinir fornu andskotar félagsins muna trúlega of vel hrakfarir sínar fyrir dómstólunum. Það mætti líka segja mér að í kaupsamningi væri klásúla um að ekki megi selja Útivist Fúkka. Það væri þó hin besta hugmynd og engin ástæða fyrir Ferðafélag Íslands að stefna í samkeppni við Útivist á Fimmvörðuhálsi, ekki frekar en að Útivist færi að byggja skála á „Laugaveginum“ í keppni við FÍ.

Langbest færi á því að Útivist og Ferðafélagið sameinuðustu um að byggja upp góðan og nútímalegan fjallaskála tileinkaðan fjallamennsku og útiveru.

Nánari um Fimmvörðuskála er að finna í litlum greinaflokki sem nefnist „Grobbsögur úr vetrarferðum á Fimmvörðuhálsi“ og er að finna á heimasíðu minni: http://web.mac.com/sigurdursig.


mbl.is Ferðafélag Íslands kaupir Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Esjan ónýt?

Eru ferðamenn umhverfisvæn lausn? spyr Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri á bloggsíðu sinni. Hann spyr um mál sem lítt hefur verið haldið á lofti en er engu að síður afar mikilvægt. Fæstir stjórnmálamenn hafa velt þessu máli fyrir sér og síst þeir sem hæst gapa og stara löngunarfullir á mögulegt þingsæti í kosningunum í vor.

Staðreyndin er sú að öll umferð slítur og þá er ekki úr vegi að spyrja með hverju má bæta það sem slitnar. Til landsins kemur núna nærri hálf milljón ferðamanna. Stór hluti þeirra vill njóta hinnar "óspilltu" náttúru. Þeir eru í kjölfari þúsunda Íslendinga sem hafa uppgötvað landið og þörfina fyrir að njóta útiveru, gönguferða um óbyggðir og fjöll.

Þetta er allt gott og blessað en trúa menn því að þær þúsundir sem ganga til dæmis á Esjuna á hverju ári skilji ekki eftir sig spor? Nú er svo komið að gönguleiðin á Þverfellshorn er eiginlega "úr sér gengin". Undir hamrabeltinu eru ótal slóðir þvers og kruss um hlíðina, sumar hafa gengist niður og þar hafa opnast ljót sár, annars staðar hefur verið rutt niður grjóti, gróðri útrýmt og svo framvegis. Allt gerist þetta í glaðlegri umferð ferðafólks en afleiðingin er eflaust alvarlegri en útblástur þrjú hundruð hestafla slyddujeppa eða flugvéla sem flytja fólk til og frá landinu.

Ég held að við ættum að íhuga aðeins hugleiðingu Ómars Valdimarssonar þar sem hann segir  að hann muni frekar velja þrjú, fjögur eða fimm álver í skiptum fyrir 1.200.000 ferðamenn valsandi um landið? 

Með hverju eigum við annars að bæta þann átroðning sem þegar er orðinn á vinsælum ferðamannastöum eins og Esjunni, Hengli, Vífilsfelli, Fimmvörðuhálsi, Þórsmörk, Súlum, "Laugaveginum" svo einhver dæmi séu nefnd?

Þegar öllu er á botninn hvolft eru upphlaup stjórnmálamanna og patentlausnir þeirra einskis virði. Það er einfaldlega ekki svo að við getum flokkað atvinnugreinar í landinu og sagt að þessi sé betri en hin. Ferðaþjónustan getur verið landinu stjórhættuleg rétt eins og eiturspúandi verksmiðja.

Stjórnmálamönnum færi betur að tala varlega, gæta að meðalhófinu og við kjósendur ættum að beina sjónum okkar frekar að þeim hófsömu sem lofa ekki algjörrum viðsnúningi. Góðir hlutir gerast jafnan hægt sagði einhver spakur maður. Kollsteypur eiga ekki við í rekstri þjóðarskútunnar frekar en annarrar útgerðar.

Ef til vill er Esjan ekki ónýt, en við þurfum að auðvelda fólki að ganga á Þverfellshorn án þess að frekari skemmdir verða á landslagi og gróðurfari. Slíkt er auðvelt en kostar fé. Spyrjum þessa stjórnmálmenninga sem hæst gapa og líka hina hvernig þeir sjái fyrir sér að hægt sé draga úr átroðningi á vinsælum ferðamannastöðum.

Ég skal segja ykkur hverju þeir munu svara. Þeir vita ekki hvernig á að gera það, flestir vissu ekki einu sinni að þetta væri vandamál. Þeir sem einhvern grun hafa um vandann munu nefna að takmarka megi aðgang, rukka fyrir hann, loka svæðum og svo framvegis. Vörum okkur á slíkum lausnum.

Hvers vegna?

Tja ... Gettu sjálfur?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband