Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Árni Páll er lítið sennilegur, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu

Árni Páll Árnason var gagnslaus sem félagsmálaráðherra. Hann hátti ekki neinn þátt í því að rétta við hag heimilanna eftir bankahrunið og þrengingarárin sem fylgdu. Ríkisstjórnin sem hann sat í og var stjórnað að þáverandi formanni Samfylkingarinnar gerði sitt besta til að styrkja stöðu bankanna á kostnað heimilanna.

Sem formaður Samfylkingarinnar er Árni Páll Árnason því miður gjörsamlega blankur þegar komið er að heimilunum og skuldum þeirra.

Það eina sem Árni Páll kann er að vera í stjórnarandstöðu og gagnrýna. Ekki einu sinni þá er hann sannfærandi og ekki frekar en endranær er hann sennilegur í röksemdafærslu sinni.

Ástæða er til að fagna framtaki ríkisstjórnarinnar jafnvel þó sumum þyki það ekki eins stórtækt og vonir stóðu til. Þetta er allt í áttina og á eftir að koma þúsundum landsmanna til góða. Látum ekki niðurrifsraddir gera lítið úr því besta sem hingað til hefur séð dagsins ljós fyrir skuldug heimili.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafði hvorki getu né vilja til að aðstoða heimilin í landinu. 


mbl.is „Skuldaleiksýningin var tilkomumikil“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppljóstarinn sem ljóstraði upp um hina uppljóstrarana

Sannast sagna er maðurinn ekkert annað en þversögn, jafnt í hugsun sem aðgerðum. Fjöldi fólks fagnar aðgerðum Edward Snodens, starfsmanni verktakafyrirtækis sem vann fyrir bandarísku öryggisstofnunina, NSA. Gögn sem maðurinn hafði á brott með sér úr gagnagrunni NSA hafa valdið gríðarlegum vandamálum fyrir Bandaríkjamenn og raunar fyrir njósnastofnanir víða um heim og verið öllum álitshnekkir. Fögnuður almennings víða um lönd er mikill.

Nú gerist það að einhver þokkapilturinn náði í fjölmargar upplýsingar úr íslenska símafyrirtækinu Vodafone, trúnaðar upplýsingar jafnt merkilegar sem ómerkilega, allt eftir sjónarhóli áhugasamra. Og allt verður vitlaust á Íslandi. Hótanir í garð Vodafone fljúga um á Twitter og Facebook og eflaust má hugsa sér að fólk hrökklist þúsundum saman úr viðskiptum við fyrirtækið.

Varla tekur betra við því án efa er nú sami þokkapilturinn að reyna að kafa ofan í trúnaðarmál viðskiptavina Símans og Nova og ætlar sér að bjóða umheiminum upp á það sama frá þessum fyrirtækjum og frá Vodafone.

Útlit er því fyrir að hvergi sé friður fyrir uppljóstrurum. Tja, nema því aðeins að uppljóstrarar hætti iðju sinni í þágu almannaheilla ... Það væri nú hins vegar saga til næsta bæjar - það er að segja ef segja mætti frá!

Flestir kætast er flett er ofan af honum séra Jóni en þegar kemur að honum einfalda Jóni þá verður hann fúll. Það er nebbbbnilega ekki sama gleðin yfir öllum uppljóstrunum.

Þegar ljóstrað er upp um þá sem styðja uppljóstrarann Snowden þá vandast málið. Svo ekki sé talað um uppljóstrarann sem ljóstraði upp um uppljóstrarann sem fletti ofan af uppljóstraranum sem hló og kættist þegar uppljóstrarinn Edward Snowden hélt í heimsreisu og endaði í Rússlandi, þvísa lýðræðisríki og friðelskandi og ónjósnavædda stórveldi.


mbl.is Lykilorðum og notendanöfnum lekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

114 reknir frá RUV en starfsmönnum fækkar um 12

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í morgun hafa þrisvar verið miklar uppsagnir á Ríkisútvarpinu frá því 2008, þetta eru kallaðar hópuppsagnir. Þær eru þessar

  • 2008 var 64 starfsmönnum sagt upp
  • 2010 var 50 starfsmönnum sagt upp
  • 2013 er 60 starfsmönnum sagt upp (þar af 39 tekið gildi)

Þetta eru hvorki meira né minna en 174 starfsmenn. Hefðu engir starfsmenn verið ráðnir eftir þessar uppsagnir ættu aðeins 126 að starfa á Ríkisútvarpinu.

Árið 2005 störfuðu 317 manns á Ríkisútvarpinu og núna í byrjun nóvember voru þeir 305. Sem sagt, á átta árum fækkaði starfsmönnum í raun um tólf.

Það sem er undarlegast að á þessum árum voru tvær hópuppsagnir og í þeim fengu 114 manns að fjúka frá Ríkisútvarpinu. Það breytti hins vegar litlu. Árið eftir höfðu svo margir verið ráðnir að við lá að hópuppsagnirnar skiptu engu.

Hvers vegna er þá verið að segja upp fólki á Ríkisútvarpinu ef starfsmannafjöldinn breytist ekki?

Að minnsta kosti er athyglisvert að á átta árum hafi 114 manns verið sagt upp störfum en í raun hafi starfsmönnum á þessum tíma aðeins fækkað um tólf. Þessu til viðbótar eru um 44 starfsmenn sem annað hvort hafa sagt upp störfum eða verið reknir utan hópuppsagna.


mbl.is Fetar í fótspor fyrri ríkisstjórna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er borgarstjórnarmeirihlutinn með meðvitund?

Hvað hefur stærsta sveitarfélagið gert síðustu árin í atvinnumálum? Því er fljótsvarað, eiginlega ekki neitt.

Meirihlutinn hefur leikið sér í skipulagsmálum, sem án efa er gott, gefið út yfirlýsingar í friðarmálum, sem er líka gott, lagt áherslu á baráttu gegn einelti, sem er síst af öllu slæmt. Og hann hefur endurskipulagt starf borgarstjóra frá því að vera framkvæmdastjóri borgarinnar í það að vera allt annað, sem er frábært.

Þegar öllu er hins vegar á botninn hvolft er engum hollt að vera atvinnulaus, jafnvel í vel skipulagðri, friðsamri borg þar sem enginn áreitir náungann og borgarstjórinn er aðgerðarlaus á fullum launum.

Það er auk þess alrangt hjá samfylkingarmanninum Degi B. Eggertssyni að atvinnuleysi í Reykjavík hafi minnkað hraðast af öllum sveitarfélögum. Staðreyndin er einfaldlega sú að mælingin er gagnslaus því hvergi hefur fleira fólk flúið til útlanda en frá Reykjavík og hvergi eru fleiri sem ekki fá atvinnuleysisbætur, en í Reykjavík, þetta er fólk sem starfaði við eigin fyrirtæki fyrir hrun, var í byggingariðnaði af ýmsu tagi.

Hefur meirihlutinn haldið uppi „framkvæmdastigi í gegnum kreppuna“ eins og Dagur B. Eggertsson orðar það? Að minnsta kosti er njólastefnan ekki hluti af því framkvæmdastigi. Lítum bara á nærumhverfið, umhirðu grænna svæði, göturnar, gangstéttir, snjómokstur og álíka. Fátt bendir til þess að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi verið vakandi í þessum málum á kjörtímabilinu.


mbl.is Öryggistilfinningin að bresta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær fyrirlestur Ed Viesturs í Háskólabíói

920416-80

Myndin Everst IMAX er falleg en hún er gömul, var tekin árið 1996 og síðan þá hafa orðið gríðarlegar framfarir í kvikmyndagerð. Myndavélin sem þeir félagar báru á tindinn var níðþung og sama var með þrífótinn, sem var stór, voldugur og þungur.

Ég sá myndina í sjónvarpi í gær en eflaust hefur hún notið sín mun betur í IMAX bíóum enda sló hún öll sýningar- og tekjumet. 

Í dag eru svona myndir teknar á miklu léttari vélar og auðvitað allt digital í gríðarlegri upplausn.

DSCN1318

Það breytir því ekki að myndin er heimild um einstætt afrek þegar Ed Viesturs og félagar hans klifu Everest nokkrum dögum eftir að átta manns fórust þarna uppi, þeirra á meðal tveir vinir hans.

Ed Viesturs sagði vel frá í fyrirlestrinum í Háskólabíói í gærkvöldi. Húsið var fullt og þótt myndefnið hafi ekki verið mikið var frásögn Eds áhrifamikil og í senn stórkostleg og átakanleg. Hann sagði frá ferðum sínum um Himalayjafjöllin og því markmiði sínu að klífa fjórtán tinda sem eru yfir 8.000 metrar. Það tókst honum með útsjónarsemi og umfram allt skynsemi.

Mér þótti vænt um að heyra að hann var varkár í ferðum sínum. Talaði um að engin skömm væri af því að hætta við, snúa til baka þegar veður og aðstæður gera ferðirnar nær ómögulegar. Hann snér tvisvar við um eitthundrað metrum frá tindi Everest og frá öðrum fjöllum líka. 

Skan342

Við erum nokkrir félagar sem höfum haldið hópinn í ferðum hér innanlands og þó ekki sé saman að jafna ferðum hér og í hinum háu Himalayjafjöllum þá er ein regla sem við höfum ávallt haldið í heiðri. Hún er sú að snúa við áður en það er orðið og seint. Hins vegar er álitamál hvenær eigi að snúa við. Ed Viesturs sagði í fyrirlestrinum að ferð væri ekki lokið þó komið sé á toppinn, henni er ekki lokið fyrr en leiðangursmenn eru komnir til baka, niður á jafnsléttu.

Átæða er til að þakka þeim sem stóðu að fyrirlestri Ed Viesturs og kynningum á undan honum kærlega fyrir framtakið. Kostnaðurinn hefur ábyggilega verið mikill en margir lagst á árarnar og þannig geta boðið upp á ókeypis fróðleik í tvo og hálfan tíma.

Meðfylgjandi myndir eru úr slarkferðum á árum áður.  


mbl.is Góð áminning að ganga fram á lík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðbjartur leggur ekki til að laun útvarpsstjóra verði hækkuð

Ég verð að segja að ég fékk mikið sjokk þegar við fréttum af því hvernig ætti að fara með fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Við vorum í rauninni búin að sjá það en sáum það svo birtast í uppsögnum í gær. Þetta er dapurlegt [...]

Alltaf er fengur í því þegar Guðbjartur Hannesson, alþingismaður og fyrrverandi velferðarráðherra, tjáir sig um launamál. Skilningur hans á vanda ríkisstofnunar náði án efa hámarki er hann hækkaði laun forstjóra Landsspítalans til þess að sá gæti gert hvort tveggja, sinnt rekstri spítalans og stundað að auki læknisstörf.

Því miður höfðu aungvir aðrir skilning á þessu þrautaráð Guðbjarts nema forstjórinn og ráðherrann. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn töldu sér þá óhætt að fara fram á launahækkanir þó svo að þeir væru eingöngu í einu starfi, miklu verr launuð en hlutastörf forstjórans.

Líklega hrökkva margir í kút þegar þeir frétta af viðbrögðum Guðbjarts, sumir fá eflaust sjokk en aðrir gleðjast yfir því að hann skuli ekki leggja það til lausnar vandans að hækka laun útvarpsstjóra.


mbl.is Gagnrýndi viðbrögð við uppsögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögvarðir hagsmunir gegn umhverfis- og náttúruvernd

Niðurstaða Hæstaréttar í máli Hraunavina er einfaldlega sú þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna lagningar vegar um Álftanesveg.

Í þessu er einfaldlega vandi fólginn. Sá sem vill verja umhverfið fyrir náttúruspjöllum þarf að beinlínis að eiga þannig hagsmuni að skipulagsvaldið ætli hreinlega að valda skaða á eignum hans eða jafnvel líkamlegum áverkum. Ekki er tekið mark á öðru.

Þetta er slæmt og setur almenning út í horn í umhverfismálum. Enginn varði Rauðhóla gegn stórvirkum vinnuvélum og það var ekki fyrr en mörgum áratugum síðar að almenningur áttaði sig á því hvílík verðmæti felast í ósnortnu landi. Líklega þarf að bíða í áratugi eftir því að yfirvöld skipulagsmála hjá sveitarfélögum átti sig á þessu.

Á meðan gæti ýmislegt alvarlegt gerst. Ég á ekki lögvarða hagsmuni í því að engin hús verði byggð í Elliðaárdal, í kringum Bakkatjörn á Seltjarnarnesi, á Fossvogsbökkum. Né heldur á ég lögvarða hagsmuni víða um land, á stöðum sem mér er annt um. Sem sagt, ég má mótmæla, en þar lýkur rétti mínum.

Sjá nú hversu mikilvægt er að velja gott og víðsýnt fólk í sveitarstjórnir. Ella gæti það gerst, einn góðan veðurdag, að eitthvað af því sem þér er hjartfólgið hverfi eins og litla fellið austan við Vífilsfell eða hluti af gígunum sem Nesjahraun kom úr. Eða jafnvel að vegur verði lagður yfir Gálgahraun. Af því að þú áttir ekki lögvarða hagsmuni.

Nei, ágæti lesandi. Málið er einfaldlega þetta: Við eigum hagsmuni en af því að þeir eru ekki lögvarðir þá skipta þeir engu máli. Er þá ekki um að gera að hagsmunir okkar verði varðir með lögum? 


mbl.is Hafnaði beiðni Hraunavina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk gleymir því aldrei hvernig þú lést því líða

Ég hef komist að því að fólk gleymir því sem þú sagðir, fólk gleymir því sem þú gerðir en fólk gleymir því aldrei hvernig þú lést því líða.

Í ofangreindum orðum felst mikil og djúp speki sem fáir aðrir öðlast en þeir sem hafa þurft að berjast fyrir tilveru sinni. Hinir hafa oftast allt á hreinu og kom fram við samborgara sína af ónærgætni og láta þeim líða illa. 

Kannastu við þessa lýsingu, lesandi góður?

Fyrir mörgum árum er ég lærði stjórnun og markaðsmál í norskum háskóla var meðal annars nefndur sá stjórnunarstíll sem kenndur er við að blanda geði við starfsfólk, Management by Walking Aorund eins og það var nefnt að enskri tungu, MBWA. Á þann hátt kemst stjórnandinn í nánari tengsl við rekstur fyrirtækisins, sérstaklega ef það er í stærra lagi, hann áttar sig á starfsfólki og framleiðni. Ég held að góður stjórnandi tileinki sér svona aðferð, jafnvel ósjálfrátt.

Oft er sagt að enginn sé nauðsynlegur og auðveldlega er hægt að reka og ráða fólk til að ná hámarks afköstum. Ég þekki fyrirtækjastjórnendur sem hæla sér af því að hversu marga þeir hafi rekið og hversu auðvelt það er. Þetta er aumingjaleg framkoma og heimskulegt.

Mestu skiptir að starfsfólk njóti sín í starfi, hafi ánægju af því sem það er að gera enda hagnast fyrirtækið um síðir meira af slíku fólki en af því fyrrnefnda.

Þetta segi ég vegna þess að ég held að forstjóri ríkisútvarpsins hafi gert gríðarleg mistök með því að reka þrjátíu og níu starfsmenn í einu og vera með tuttugu og einn til viðbótar á „aftökulistanum“. Þetta gerir enginn nema örvæntingafullur forstjóri eða sá sem er í einhverri skák við eigendur fyrirtækisins.

Hvaða kosti átti forstjóri Ríkisútvarpsins í stöðunni? Jú hann hefði getað gert þetta:

  1. Dregið úr kostnaði
  2. Aukið tekjur, t.d. með því að selja gamalt efni frá því á einokunarárum Ríkisútvarpsins
  3. Lækkað hlutfallslega laun allra starfsmanna, t.d. um 10%
  4. Boðið þeim starfslokasamning fyrir þá sem eru að komast á eftirlaun
  5. Boðið þeim starfslokasamning sem eru með tímabundna samninga
  6. Boðið þeim starfslokasamning sem vilja hætta
  7. Ákveðið kostun á einstökum þáttum til að verja störf dagskrárgerðar- og tæknimanna

Hvað átti útvarpsstjóri ekki að gera í þessari stöðu? Jú, hann hefði getað sleppt þessu:

  1. Rekið 39 manns á einu bretti
  2. Hótað að reka 21 til viðbótar 

Gera má ráð fyrir að erfitt sé fyrir þá sem fengið hafa uppsagnabréf að fá störf við hæfi. Margir fara því beinustu leið á atvinnuleysisskrá.

Forstjóri og stjórn Ríkisútvarpsins fer fram með slíku offorsi að fjöldi fólks á um sárt að binda. Það mun aldrei gleyma því og eflaust kenna forstjóranum og menntamálaráðherranum um.

Sá fyrrnefndi þekkir án efa það fyrirtæki sem hann stjórnar en hann hefur lítinn skilning á starfsmannastjórnun.

Sá síðarnefndi gerðist sekur um hrikalegt dómgreindarleysi þegar hann skerðir útvarpsgjaldið og tekur hluta af því til annarra og óskyldra verkefna. Vandinn er því að stórum hluta heimatilbúinn.

Ég hef ákveðnar skoðanir á Ríkisútvarpi en þær koma þessu máli ekki við. Við þurfum ekki á fjölmiðli að halda sem er í eigu ríkisins. Einkaaðilar geta sinnt þessum rekstri jafnvel ef ekki betur. Þessi staðreynd breytir þó því ekki að koma skal fram við starfsmenn Ríkisútvarpsins eins og allt annað fólk af kurteisi og alúð. Við hendum ekki fólki rétt fyrir jól út á kaldan klaka og ætlumst til að það komi undir sig fótunum í einum grænum. Af tvennu illu vildi ég að Ríkisútvarpið væri rekið með halla en að fyrrverandi starfsfólk þess ætti um sárt að binda.

Maya Angelou er skáld, rithöfundur og baráttukona fyrir mannréttindum í Bandaríkjunum. Tilvitnunin í upphafi er frá henni komin. 


mbl.is Ekki komist hjá uppsögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver nennir að lesa leiðinlega dagblaðsgrein?

Sara Lind

Mörgum er mikið niðri fyrir og skrifa blaðagrein og fá birta. Oft á tíðum eru þær eins og þessi hér hægra megin sem tekin er út Morgunblaðinu í dag.

Efnislega hef ég ekkert út á greinina að setja, hún er þokkalega skrifuð, að vísu óskaplega þurr og ópersónulega, raunar leiðinleg ... en hvað með það. Fólk er mismunandi. Víst að að fáir nenna að lesa leiðinlega grein og myndin af greininni ber það með sér að hún er síst af öllu áhugaverð.

Til hvers ritar fólk grein í dagblað? Jú, væntanlega til að hafa áhrif, koma af stað eða taka þátt í umræðu. Þá skipa sex atriði meginmáli:

  1. Skrifa stutta grein frekar en langa
  2. Vanda val á fyrirsögn
  3. Nota millifyrirsagnir
  4. Ekki spara greinaskil
  5. Vera umfram allt málefnalegur
  6. Upphaf greinar er mikilvægt

Höfundur greinarinnar sem er hérna hægra megin brýtur fjögur af þessum meginatriðum.

Alltof löng grein

Greinin er alltof löng 667 orð (4.454 áslættir), aðeins ein millifyrirsögn og það frekar innihaldslítil, greinaskil eru aðeins fjögur og upphafið lofar ekki góðu fyrir framhaldið. Tvennt er þó jákvætt við greinina, eftir því sem ég sé. Fyrirsögnin er góð og greinin virðist vera málefnaleg.

Að þessu sögðu má reyna að greina tilganginn með birtingunni. Er greinahöfundur starfsmaður Vinnumálastofnunar eða borgari sem vill fá umræðu um bótasvik?

Hver skrifar?

Auðvitað skiptir máli hver staða höfundarins er. Sé hann starfsmaður Vinnumálastofnunar breytist um leið viðhorf lesandans til greinarinnar. Ýmist ljær það greininni meira vægi eða dregur úr því. Veltur á því hvernig greinin er rituð, hvort hún sé hluti af kynningu stofnunarinnar eða til að vekja athyli á mikilvægu máli.

Ástæðan fyrir því að ég hef orð á þessu er fyrst og fremst sú að svona greinar eru alltof algengar í prentuðum fjölmiðlum, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Fréttatímanum. Fyrst og fremst er um að ræða innsendar greinar en þó kemur fyrir að blaðamönnum verði hált á svellinu að þessu leyti.

Sjálfsgagnrýni eða aðfengin

Eitt skiptir miklu og það er að lesa grein vel yfir, aftur og aftur og vera óhræddur að leiðrétta og laga. Og eitt að lokum, gott er að geyma grein í nokkrar klukkustundir og lesa síðan aftur yfir. Ef það er ekki hægt þá skiptir miklu að fá einhvern til að lesa hana yfir og gagnrýna.

Reglur Jónasar 

Í lokin má benda á vefinn jonas.is en þar eru pistlar sem Jónas Kristjánsson fjölmiðlamaður hefur ritað um blaðamennsku og margt af þeim eiga þeir sem vilja skrifa góðar greinar að tileinka sér. Hann segir meðal annars:

  1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
  2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
  3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
  4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
  5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
  6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
  7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
  8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. 

 


Tveir skýrir kostir ...

Óli björn Kárason

Þegar valið stendur á milli þess að eiga ríkisbanka eða auka möguleika ríkisins til að standa undir öflugu velferðar- og menntakerfi, er auðvelt að komast að niðurstöðu. Mikill meirihluti landsmanna mun styðja slíkt. Með sama hætti og landsmenn munu styðja sölu á Isavia og helmingshlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna sem dæmi séu nefnd.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingamaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann ræðir þá kosti sem þjóðin stendur frammi fyrir og kemst að þeirri niðurstöð að valið stendur á milli tveggja kosta (framsetningin er mín):

  1. Við getum ákveðið að hefja umfangsmikla sölu eigna ríkisins og greitt niður skuldir, lækkað þar með vaxtagreiðslur og nýtt fjármunina sem sparast til að byggja upp heilbrigðis- og menntakerfið og lækkað skatta.
  2. Eða: Við getum tekið ákvörðun um að eiga áfram fyrirtæki, fasteignir, jarðir og fleira, reynt að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs, sætt okkur við gríðarlegar vaxtagreiðslur en vonast til að hægt verði að lækka skuldir hægt og bítandi. Þar með erum við sammála um að skattar verði hærri en ella, ekki verði hægt að reisa heilbrigðiskerfið við með þeim hætti sem við teljum nauðsynlegt og að möguleikar til sóknar í menntamálum verði takmarkaðir. 

Kostirnir eru ekki góðir og varla möguleiki á að þriðji kosturinn leynist einhvers staðar. Því er hægt að spara sér pólitískar yfirlýsingar og einhenda sér í þau mál sem skipta öllu fyrir framtíð þjóðarinnar, leysa úr skuldamálunum og lækka vaxtagreiðslur.

Hvers vegna verður að gera þetta? Jú, Óli Björn bendir á hrikalega stöðu ríkissjóðs: 

  1. Heildarskuldir ríkissjóðs eru 1.932 þúsund milljarðar króna, jafngildi 24 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu. 
  2. Vaxtagjöld ríkissjóð voru 86 milljarðar króna á síðasta ári, jafngildi ein milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
  3. Frá árinu 2008 hafa verið greiddar 494 milljarðar krónur í vexti, þ.e. sex milljónir króna á hverja fjölskyldu.

 Þetta eru sláandi tölur og eins og Óli Björn bendir á. Hann leggur til að ríkisstjórnin taki saman hvítbók:

Á komandi mánuðum er mikilvægt að fram fari hreinskiptin umræða um stöðu ríkissjóðs og hvernig hægt er að lækka skuldir og draga þar með úr lamandi vaxtagreiðslum.Ein forsenda þess er að ríkisstjórnin láti taka saman sérstaka hvítbók um lækkun skulda ríkisins. Þar er nauðsynlegt að bera saman þá kosti sem Íslendingar standa frammi fyrir og bent var á hér að ofan. En einnig þarf að fylgja með ítarleg úttekt á þeim fyrirtækjum og öðrum eignum sem til greina kemur að selja. 

Þessu er ég sammála enda gjörsamlega vonlaust að takast á við skuldir og vaxtagreiðslur ríkissjóðs á annan hátt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband